Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Sömu kröfur til kröfugerðarsamtaka og þingmanna

Marinó G. Njálsson hefur sagt af sér stjórnarsetu í Hagsmunasamtökum heimilanna vegna ótta um að hans persónulegu skuldamál verði gerð opinber, en hagsmunasamtökin hafa barist fyrir flatri niðurfellingu húsnæðisskulda og hefur Marinó verið þeirra helsti talsmaður í þeim málum.

Miklar kröfur eru gerðar til þingmanna um að gefa upp öll sín hagsmunatengsl á vef Alþingis og því er ekki óeðlilegt að þeir sem harðastir eru í baráttunni fyrir ýmsum kröfum á hendur Alþigni um lagabreytingar gefi upp sína eigin hagsmuni vegna þeirra málefna, sem þeir eru að berjast fyrir.

Á vef Alþingis er hins vegar ekki að finna útlistun á skuldamálum Alþingismanna, heldur einungis hagsmunatengslum vegna starfa og tengsla við aðra vinnuveitendur, styrkveitendur og eignir, aðrar en íbúðarhúsnæði til eigin nota.  Upptalning eignanna segir hins vegar ekki neitt, ef skulda þeirra vegna er ekki getið, því eins og allir vita geta skuldir verið miklu hærri en eignunum nemur og því ekki um neinar raunverulegar eignir að ræða, ef til vill aðeins óviðráðanlega skuldasúpu.

Eðlilegt væri að þingmenn tilgreindu skuldir sínar, ekki síður en eignir, þannig að allir hagsmunir þeirra kæmu fram vegna þeirra málefna sem þeir berjast fyrir og þá ekkert síður skuldahagsmunir en eigna-, atvinnu- og styrkjahagsmunir.

"Allt uppi á borðum" er vinsælt slagorð á hátíar- og tyllidögum.  Er ekki tími til kominn að raunverulegir hagsmunir þeirra, sem gefa sig í baráttu fyrir hinum ýmsu hagsmunamálum geri hreint fyrir sínum dyrum og gefi upp sína eigin hagsmuni af baráttumálum sínum?

Sömu kröfur þarf að gera til þeirra, sem stjórna kröfugerðarsamtökum sem aðallega gera kröfur til þingmanna og gerðar eru til þingmannanna sjálfra.


mbl.is Ekki greint frá skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beiðni til frambjóðenda til Stjórnlagaþings og þeirra, sem til þekkja

Vinsamlega bendið mér á frambjóðendur til Stjórnlagaþings, sem munu leggja til, eða styðja, að algert bann verði sett í stjórnarskrána við fullveldisafsali til yfirþjóðlegra stofnana eða erlendra ríkja.

Hneyksli í mannaráðningum

Að Guðbjartur Hannesson skuli taka nokkurn umsækjanda um stöðu ráðuneytisstjóra í Félags- og tryggingamálaráðuneytinu fram yfir Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi ráðuneytssstjóra og ráðherra, er ekkert annað en skandall af stærri gerðinni.

Þann tíma sem Ragna sat í ríkisstjórn bar hún höfuð og herðar yfir hina ráðherranna í hæfni og átti þar að auki farsælan feril að baki sem ráðuneytisstjóri og var auðvitað valin ráðherra vegna þess.

Það er óþolandi að hæfasti umsækjaninn sé neyddur til að draga umsókn sína til baka til þess að koma samflokksmönnum í embættin, sem losna í ráðuneytunum.  Í tilfelli Rögnu var ekki um eitt ráðuneyti að ræða heldur tvö og þar með er um tvöfalt hneyksli að ræða.

Ekki er með þessu verið að setja út á persónur eða hæfni þeirra kvenna, sem ráðnar voru í stöðurnar, heldur verið að benda á að hæfasti umsækjandinn var látinn róa fyrir pólitískar ráðningar, sem núverandi ríkisstjórn var búin að heita að afleggja með öllu.

Hér með er skorað á Rögnu að bjóða sig fram í næstu forsetakosningum og þar munu kjósendur örugglega láta hana njóta sannmælis.


mbl.is Anna Lilja skipuð ráðuneytisstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðlögun að ESB er skilyrðið

Sama hvað Össur Skarphéðinsson reynir að blekkja þjóðina með því að einungis sé um aðildarviðræður að ESB sé að ræða, en ekki aðlögunarferli að sambandinu, þá tekst honum ekki að halda sannleikanum frá löndum sínum, því allir aðrir, innanlands sem utan, vita og staðfesta að um aðlögun að ESB verður að ræða á öllum viðræðutímanum og ekki yrði skrifað undir neinn samning, fyrr en aðlögun að regluverki stórríkissins yrði lokið að fullu.

Angela Filota, talsmannur stækkunarstjóra ESB, hefur látið hafa eftir sér að reglunum um aðild og aðlögun í aðdraganda hennar hafi verið breytt í tengslum við aðildarviðræður við lönd í austanverðri álfunni, en þá var ferlinu einmitt breytt úr viðræðum um aðild í fullkomna aðlögun.  Í fréttinni er haft eftir henni m.a:  ,,Það náðist á ný eining árið 2006 um grundvöll allra nýrra aðildarviðræðna.   Það myndi verða afar erfitt að hverfa frá þessari einingu." Auk þess hefðu íslensk stjórnvöld vitað hvaða reglur giltu þegar sótt var um aðild 2009 og geti ekki hafnað þeim núna."

Ekki getur þetta verið neitt skýrara og því algerlega ótrúlegt að aðildarsinnar hér á landi skuli ennþá reyna að halda öðru fram.

Ögmundur Jónasson talar nú fyrir því að fengin verði niðurstaða innan tveggja mánaða um hvað Íslendingum stendur til boða varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.  Er það misminni að Össur hafi sagt svipaða hluti, þegar hann var að berjast fyrir samþykkt Alþingis um viðræður við ESB, sem nú er komið í ljós að eru aðlögunarviðræður?

Sagði Össur ekki þá, að ef ekki næðist viðunandi niðurstaða í þessum málaflokkum, þá þyrfti ekkert að vera að eyða tíma og peningum í að ræða önnur atriði?


mbl.is Í anda ,,Kafka-skrifræðis"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissjóður í ránsham

Ríkisstjórnin ætlar að hækka öll gjöld, sem lögð eru á sem föst krónutala, um 4% á næsta ári, og á það við um þjónustugjöld allskonar, svo sem útvarpsgjald, eldsneytisálögur og öll slík gjöld, en á sama tíma á að halda óbreyttum í krönutölu öllum greiðslum til aldraðra, öryrkja og atvinnulausra, ásamt því að lækka barna- og vaxtabætur.

Ekki er nóg með að þjónustugjöldin verði hækkuð, heldur ætlar ríkissjóður að taka hluta þeirra til annarra nota, en þau eru ætluð til og er þar í raun og veru um hreinan þjófnað að ræða, því algerlega er óheimilt að leggja á "þjónustugjöld" og hirða þau svo í ríkissjóð.  Slíkt er í raun ekkert annað en hreinn þjófnaður og ef um einhvern annan væri að ræða en ríkissjóð, sem stundaði slíkt rán, lægi við því margra ára tugthús.

Skýr greinarmunur er gerður í lögum á milli skatta og þjónustugjalda og má sjá góða úttekt á honum  HÉRNA 

Sem dæmi um þjófnað ríkissjóða á þjónustugjöldum má nefna að útvarpsgjald mun hækka um 4% á næsta ári og af því ætlar fjármálaráðherra að ræna 140 milljónum til annara verkefna en útvarpsrekstrar. 

Einstaklingar sem draga sér hluta vörsluskatta ríkissjóðs fá harðar refsingar fyrir tiltækið.  Á fjármálaráðherra að sleppa fyrir nánast sömu sakir?


mbl.is Almannatryggingabætur hækka ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna þjóðarinnar er alveg ljós

Ögmundur Jónasson leggur út af ummælum Þorsteins Pálssonar um að ríkisstjórnin geti ekki komið fram klofin í aðlögunarferlinu að ESG og segir Ögmundur að stefnan verði að vera ljós, um hvort Alþingi hafi samþykkt umsókn að ESB, eða aðlögun að sambandinu.

Ef eitthvað er óljóst varðandi atkvæðagreiðsluna á Alþingi, er vilji þjóðarinnar algerlega ljós og verður ekki dreginn í efa, enda hafa ótal skoðanakannanir staðfest þann vilja.

Þjóðin vill ekki aðlögun eða inngöngu í ESB og því væri skynsamlegast af Alþingi að hætta við málið og spara þá milljarða, sem annars færu í súginn.


mbl.is Stefnan þarf að vera ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir indíánar

Nokkur hundruð Íslendingar bera í sér indíánagen, sem líklega eru upprunnin í Ameríku,  en þó er það ekki endanlega sannað, því einhver mismunur er á milli gena amerísku og íslensku indíánanna.  Ekki eru þeir íslensku heldur ættaðir frá Asíu, eins og jafnvel var talið, en engir ættingjar fundust þar, þegar betur var að gáð.

Af þessum rannsóknum virðist helst vera hægt að draga þá skarplegu ályktun, að hér sé um hreinræktaða íslenska indíána að ræða og því sé með sanni hægt að segja að hér hafi þrifist blómlegt fjölmenningarsamfélag frá upphafi, ekki síst eftir að norsku berserkirnir námu hér land með írsku ambáttirnar og þrælana.

Loksins er fundin skýringin á því, hvers vegna sumir vildu aldrei leika annað en indíána í bófahasar bernskuáranna.  Þeir voru með þetta allt saman í blóðinu.


mbl.is Eiga rætur að rekja til indíána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur fjöldi vill ekki vinnu

Á atvinnuleysisskrá eru nú um 12.500 manns, sem segir þó ekki alla söguna um raunverulegt atvinnuleysi, þar sem fjöldi fólks hefur farið í nám vegna vinnuleysis, mörg þúsund hafa flust erlendis í atvinnuleit, margir verið atvinnulausir í meira en þrjú ár og því misst bæturnar og öryrkjum hefur fjölgað um 4.000 á síðustu tveim árum. 

Áætlað er að fjöldi starfa sem tapast hafa frá hruni sé um 23.000, sem er betri mælikvarði á hvernig atvinnuástandið hefur koðnað niður á þessum tveim árum, enda hafa stjórnvöld beitt öllum sínum ráðum til að koma í veg fyrir nokkra atvinnu- og verðmætaaukningu, sem möguleg hefði verið á valdatíma sínum.

Nú birtist frétt um að rúmlega eitt þúsund manns hafi á síðustu tíu mánuðum fyrirgert rétti sínum til atvinnuleysisbóta með því að hafna ítrekað öllum úrræðum sem í boði hafa verið á vegum Vinnumálastofnunar, eða atvinnu sem fólkinu hefur verið boðið. 

Það vekur mikla furðu, að svo stór hópur, 8-10% þeirra sem á atvinnuleysisskrá eru, skuli ekki vilja þiggja þau úrræði og vinnu, sem í boði er og væntanlega segja sig til sveitar í staðinn, því einhvern veginn verður þetta fólk að draga fram lífið, eins og aðrir.

Þetta bendir til þess, að mikill skortur á vinnuvilja sé til staðar hjá ótrúlegum fjölda fólks.


mbl.is Þúsund manns hafa misst réttindi til bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt fyrir Jón Ásgeir að losna við rannsóknirnar

Jón Ásgeir í Bónus, Pálmi í Iceland Express og aðrir félgara Bónusgengisins fara mikinn í fjölmiðlum og lýsa þeim "ofsóknum" sem þeir veða að þola af hendi skilanefnda og saksóknara og það svo að þeir geti hvergi um frjálst höfuð strokið, eða veitt sér smá lúxus á snekkjum sínum og skíðahöllum, án þess að um það sé fjallað opinberlega. 

Ekki síður fara "veiðiferðir" opinberra aðila, svo sem saksóknara og skattayfirvalda, í taugarnar á Bónusgenginu og þar sem gengið var áður fyrr áberandi í uppkaupum á fyrirtækjum erlendis, með fjámunum sem aflað var á vafasaman hátt, vekja fréttir af rannsóknunum athygli erlendis, ekki síður en hér á landi.

Daily Thelegraph fjallar um húsleitirnar hjá Baugsgenginu í gær og í viðtali við blaðið segir Jón Ásgeir m.a:  "Ef einhver væri að reyna að leyna einhverju hefði þeim sömu væntanlega tekist það á tveimur árum. En ég held að fólk þurfi ekki að reyna að fela neitt. Sérstakur saksóknari kemur ekki fram með nein mál." 

Þar sem Jón Ásgeir telur alla rannsakendur "viðskipta" Bónusgengisins og þá líklega annarra útrásargengja einnig, svona gjörsamlega á villigötum og hann og aðrir hafi ekkert að fela, á hann afar auðvelda leið til að losna undan þessum "veiðiferðum", þar sem hann lítur á sjálfan sig sem bráðina.

Sú leið er að gefa sig fram við rannsakendur, leggja öll spil á borðið, útskýra köngulóarvef hundraða fyrirtækja, sem teygir sig um víða veröld, skýra slóð allra peningafærslna á milli bankareikninga, sem að lokum endaði á Tortola, eða í öðrum bankaleyndarlöndum og kæmi með hvern eyri sem enn er í hans umsjá og legði í endurreisn efnahagslífsins, sem hann og aðrir álíka lögðu í rúst með "viðskiptasnilld" sinni.

Þetta væri einföld, fljótleg og þægileg leið til að losna við að vera bráð "veiðimanna".

 


mbl.is Segir rannsakendur í veiðiferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir og Pálmi eru sannir englar

Jón Ásgeir í Bónus segir að Sérstakur saksóknari hafi ekkert við sig að tala, enda snúi engar rannsóknir að sér persónulega.  Saksóknarinn lét framkvæma húsleit á skrifstofu Jóns Ásgeirs og á hóteli þeirra hjóan, 101 Hótel, og fyrst þetta snerti Jón Ásgeir ekkert persónulega, þá hlýtur þetta að vera einhver ópersónulegasta sakamálarannsókn, sem sögur fara af.

Einnig var leitað hjá Pálma í Iceland Express og Lárusi Welding, en báðir hafa þeri marglýst því yfir að þeir séu saklausari en nýfædd lömb og aldrei komið nálægt nokkru misjöfnu á ævi sinni og allra síst flóknum fjársvikum, sem útlit er fyrir að rannsóknaraðilar verði mörg ár að rekja og fá botn í.

Þjóðin má þakka fyrir að eiga svona óflekkaða "viðskiptasnillinga", sem hafa haldið öllum sínum viðskiptum á ópersónulegum grunni alla tíð og hafa því ekkert um þau að segja og bera auðvitað ekki nokkra ábyrgð á.

Þessir kappar hugsa eingöngu um það sem snýr að þeim persónulega.  Ef fleiri tæku það til fyrirmyndar væri heimurinn betri en hann er.


mbl.is Ekki boðaður til yfirheyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband