Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Öll lögbrotin í bókinni

Fjöldi mála tengdum banka- og útrásargengjum er til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara og eru þær bæði viðamiklar, flóknar og tímafrekar, þannig að ekki virðist sjást fyrir endann á einni einustu þeirra sem er af stærri gráðunni a.m.k.  Bæði Eva Joly og talsmaður Kroll hafa sagt að mörg ár muni taka að rekja slóð þeirra fjármuna, sem gengin stungu undan og í eigin vasa á þeim tíma sem þau höfðu til að tæma bankana innanfrá og hreinsa allt eigið fé út úr öllum helstu fyrirtækjum landsins og margra erlendra að auki.

Fram kemur í tilkynningu Sérstaks saksóknara vegna þeirra húsleita og yfirheyrslna, sem fram hafa farið í dag:  „Til rannsóknar er grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans, brot á lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um ársreikninga og lögum um bókhald. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns og fjölmörgum tilvikum"

Málin sem nú eru rannsökuð tilheyra "viðskiptum" Bónusgengisins og bætast við önnur sem því gengi tilheyra, en nokkur gengi áttu hluta að því að koma auðæfum þjóðarinnar í sína vasa að hluta og öðrum hluta komu þau fyrir kattarnef með "snilligáfu" sinni.

Listinn yfir þau mál sem eru til skoðunar í dag, er þessi samkvæmt tilkynningunni:  "Lánveitingar til félagsins Stím hf sem tengdust viðskiptum með hlutabréf í Glitni og FL Group.  Lánveitingar til félagsins FS-38 ehf til kaupa á Aurum Holding Ltd. af Fons hf.  Lánveitingar til Stoða hf (síðar Landic Properties), Baugs hf og 101 Capital ehf í tengslum við kaup á danska fasteignafélaginu Keops A/S.  Kaup fagfjárfestasjóðs GLB FX, sem var í vörslu Glitnis, á skuldabréfi af Saga Capital en bréfið var útgefið af Stím ehf.  Kaup Glitnis á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni.

Þessi svikamylla sem rannsóknin í dag snýr að, virðist samanstanda af a.m.k. tólf fyrirtækjum sem voru í eigu Bónusgengisins og undir stjórn þeirra félaga Jóns Ásgeirs í Bónus og Pálma í Iceland Express, en fyrir í rannsókn er gífurlegur fjöldi fyrirtækja í þeirra félaga, ásamt félögum sem voru undir stjórna Bjöggagengisins, Wernergengisins og fleiri gengja, sem minnið nær ekki yfir í augnablikinu.

Samkvæmt því sem skilja má af þessum rannsóknum, þá hafa gengin ekki verið við eina fjölina felld í "viðskiptum" sínum, heldur hafa þau með mikilli staðfestu stundað brot á öllum lagabálkum, sem löggjafarvaldið hefur sett frá upphafi lagasetninga í landinu.


mbl.is Leitað á 16 stöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafn þingmannsins byrjar á stafnum Álfheiður

Þingmaður hefur lagt fram ályktunartillögu á Alþingi um að þingið setji á stofn sérstaka rannsóknarnefnd til að kanna til hlítar hvort þingmaður, eða þingmenn hafi gerst sekir um brot á lögum, með því t.d. að standa í gluggum þinghússisins í búsáhaldabyltingunni og gefa ungliðum Vinstri grænna upplýsingar um staðsetningu lögreglumanna hverju sinni og flóttaleiðir úr Alþingishúsinu, ef innrás ungliðanna myndi heppnast eins og vonast var til, af þeim sem í glugganum stóð og fleirum.  Til að setja spennu í rannsóknarstarfið má geta þess að fyrsti stafurinn í nafni gluggabendisins er Álfheiður Ingadóttir.

Alþingi er orðin einhver rannsóknarglaðasta stofnun landsins og skipar hverja rannsóknarnefndina á fætur annarri til að fara yfir og lesa skjöl úr ráðuneytum til að rifja upp hver sagði hvað við hvern og hvenær í aðdraganda allra hugsanlegra ákvarðana, sem teknar hafa verið af ráðuneytum og ráðherrum undanfarin ár, enda minnisleysi þingmanna með eindæmum og þeir muna ekki deginum lengur, um hvað var fjallað í gær og allra síst muna þeir hvaða ákvarðanir voru teknar í hverju máli fyrir sig og allra síst ef meira en tveir dagar eru liðnir frá samþykktunum.

Til þess að gefa öllum öðrum rannsóknarnefndum þingsins góðan tíma til að rannsaka sín mál af kostgæfni og skila hnausþykkum rannsóknarskýrslum um skýrslurnar sem nefndirnar náðu að harka út úr ráðuneytum og lesa, þá er skiladagur þessarar nefndar settur á 1. apríl 2011.

Skiladagurinn, 1. apríl er vel við hæfi og segir ýmislegt um afstöðu flutningsmanns til rannsóknarnefnda þingsins og tilgangsleysis skipana þeirra.   Óvitlaust væri að samræma skiladaga allra rannsóknarnefnda þingsins við þessa dagsetningu, enda tilgangur þeirra allra sá sami, þ.e. sýndarmennska og pólitískur keilusláttur.


mbl.is Vill láta rannsaka þátt þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokum öllum sjúkrahúsum til að eiga fyrir Icesave

Enn á ný mun Steingrímur J. og félagar hans í Bretavinnunni vera búnir að ganga frá "betri samningi" við kúgara íslenskra skattgreiðenda í Bretlandi og Hollandi og mun samningurinn "sem liggur á borðinu" hljóða upp á 60 milljarða króna skattaáþján Íslendinga næstu áratugi.

Til samanburðar má taka, að á næsta ári þarf að hækka skatta, til viðbótar við fyrra skattahækkanabrjálæði, um ellefu milljarða króna og skera niður ríkisútgjöld um 30 milljarða og samt mun það ekki duga nema til að greiða helming þess halla, sem annars verður á ríkissjóði á árinu 2011.

Til þess að ná þessum sparnaði í ríkisútgjöldum þarf a loka öðru hverju sjúkrahúsi á landinu, lækka vaxtabætur, barnabætur og örorkubætur, svíkja hækkun á persónuafslætti vegna skatta, sem harðast bitnar á láglaunafólki og er þá fátt eitt nefnt, sem skerða þarf til að ná þessum fyrirhuguðu fjörutíu milljörðum króna.

Á sama tíma þykjast Bretavinnumennirnir vera að skila af sér enn einum "betri samningi", sem þó verður helmingi átakameira fyrir skattgreiðendur að erfiða fyrir og það þrátt fyrir að um skuld einkafyrirtækis sé að ræða, sem kemur íslenskum skattgreiðendum ekki frekar við en fjárhagsvandræði ESB-landa yfirleitt.

Þjóðin hlýtur að taka höndum saman og hrekja Steingrím J., Breta og Hollendinga til baka með þennan þrælasamning, eins og þá fyrri.


mbl.is Vextir 3% í Icesave-samkomulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkamsræktarsvindl saklausara en samlokuþjófnaður?

Eigendur World Class hafa farið mikinn í líkamsræktarbransanum hér á landi undan farin ár og á útrásarárunum vildu þeir ekki vera minni menn en hinir "snillingarnir" og ætluðu því að leggja undir sig heiminn með því að kaupa upp æfingastöðvar erlendis, enda átti nafnið á keðjunni að höfða til heimsins alls.

Að sjálfsögðu fór um þetta útrásarfyrirtæki eins og öll hin, að allt veldið var byggt á lánsfé og loftbóluhagnaði, sem ekki var til neins nýtur nema til að reikna af honum arð, enda endaði þetta félag eins og hin með gjaldþroti og milljarða skuldum, sem lenda munu sem tap á lánadrottnunum, sem reyndar geta líka nagað sig í handarbökin vegna þátttöku sinnar í þessum sýndarveruleika.

Eins og hjá öðrum útrásargengjum virðist siðferðisvitund "eigenda" World Class ekki vera upp á fleiri fiska, en kollega þeirra sem þóttust vera að reka viðskipti í "nýja hagkerfinu", en þar virðist keppikeflið vera að komast undan öllum skuldbindingum vegna rekstrarins, en halda honum samt áfram undir nýrri kennitölu og lifa áfram í persónulegum vellystingum og ef ekki er hægt að tryggja hvorutveggja, þá er a.m.k. passað vel upp á seinni kostinn.

"Eigendur" World Class seldu sjálfum sér rekstur á 25 milljónir króna, sem skiptastjórinn metur á 500-700 milljónir, enda ætlar hann að fá þeim gerningi rift og hljóta allir að sjá réttlæti í því. 

Vandasamara er hins vega að sjá réttlætið í því, að þeir sem hreinsa á þennan hátt út úr þrotabúum skuli ganga lausir á meðan þeir sem stela sér rækjusamloku til matar eru handteknir umsvifalaust og látnir svara til saka fyrir "glæp" sinn.


mbl.is Greiddu 25 milljónir fyrir eignir World Class
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klára skuldamálin og snúa sér að atvinnunni

Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórnin hafa dregið skuldara landsins á asnaeyrunum mánuðum saman og látið eins og von sé á einhverjum aðgerðum fyrir alla, hvar sem þeir standa í sínum skuldavanda, allt frá því að vera gjaldþrota til þess að vera í góðum málum með sínar skuldir.

Undir tunnuslætti á Austurvelli í Októberbyrjun lofaði Jóhanna að farið yrði í almenna niðurfærslu allra húsnæðisskulda, þó hún hefði áður sagt að slíkt væri ekki mögulegt og nú þegar hæfilegur tími er liðinn frá tunnubarsmíðunum hefur hún snúist í heilhring í málinu og segir að ekki verði hægt að gera "allt fyrir alla".  Hefði hún haldið sig við þær staðreyndir frá upphafi væri örugglega miklu lengra komið með aðgerðir fyrir þá, sem virkilega þurfa á aðstoð að halda, enda hafa aðrir haldið sínu striki, en haldið áfram að heimta þann happadrættisvinning sem almenn skuldaniðurfærsla yrði fyrir flesta.

Nú er kominn tími til að blekkingunum verði hætt og ríkisstjórnin snúi sér að því að leysa úr þeim skuldamálum sem brýnust eru, en það eru auðvitað mál þeirra sem gjaldþrot blasir við og komi þeirra málum í það horf, að stilla greiðslur þeirra af, miðað við greiðslugetu og hætta að lofa öðrum einhverri aðstoð, því allir hljóta nú að sjá, að hvorki er vilji eða geta til að gera nokkuð fyrir aðra, enda ekki ástæða til að bjarga þeim, sem geta bjargað sér sjálfir.

Þessi mál veður ríkisstjórnin að afgreiða út af borðinu í eitt skipti fyrir öll, hætta blekkingum og snúa sér að því sem brýnast er fyrir þjóðarbúið, en það eru atvinnumálin.  Ryðja verður úr vegi öllum hindrunum fyrir hvers konar atvinnuuppbyggingu, hvort sem það er í stóriðju, nýsköpunarverkefnum, smáfyrirtækjum hverskonar og hverju því sem mögulegt er að styðja við að koma í gang, því hvert nýtt starf í verðmætasköpun mun leiða þjóðina eitt skref út úr kreppunni.

Lágmarkskrafa er að gefin verði út tilkynning í eitt skipti fyrir öll um að fólk geti hætt að reikna með almennum skuldaniðurfellingum og að "allt verði gert fyrir alla". 


mbl.is Veltu upp ýmsum kostum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignir íslenskra fjársvikara á uppboð?

Fyrirsögn viðhengdrar fréttar gaf þá von við fyrstu sýn, að halda ætti uppboð á eignum þeirra fjársvikara sem tæmdu bankana innanfrá, rændu öllu eigin fé stærstu fyrirtækja landsins og settu allt þjóðfélagið í mestu efnahagskreppu lýðveldistímans.

Við lestur fréttarinnar sjálfrar kom auðvitað í ljós, að ekki var verið að fjalla um íslenska svikara, heldur kollega þeirra bandarískan, sem vafasamt er þó að hafi slegið þeim íslensku við í svikum og prettum, ef miðað er við hina frægu höfðatölu eða stærð efnahagskerfa Íslands og Bandaríkjanna.

Vonandi líður ekki á löngu enn, að einhver niðurstaða fari að koma í þau svikamál sem til rannsóknar eru hjá Sérstökum saksóknara og þeir fái makleg málagjöld, sem það eiga skilið og til refsinga hafa unnið.Allar eignir, hverju nafni sem nefnast, voru gerðar upptækar hjá Madoff, þeim bandaríska, en hæpið er að jafn langt verði gegnið gagnvart íslenskum bófum.  

Á uppboði ílla fenginna eigna Madoffs voru t.d. samkvæmt fréttinni: "Þegar Madoff var handtekinn fyrir tveimur árum var hald lagt á allt sem hann átti, allt frá notuðum sokkum og sérmerktum ónotuðum nærbuxum upp í lúxusíbúðir og báta. Allar þessar eigur eru nú seldar og mun andvirðið renna til um 3000 viðskiptavina Madoffs, sem hann hafði milljarða dala af. Madoff sjálfur, sem er 72 ára, afplánar ævilangan fangelsisdóm í Norður-Karólínu."

Íslenskir kollegar Madoffs fengju örugglega að halda sokkum og brókum og sú spurning vaknar hvort lúxusíbúðir og bátar yrðu nokkuð tekin af þeim.  Líklegra er að þeim takist að teygja mál svo og toga, að þeir veðri allir sýknaðir, nema þá af málamyndaákærum, eins og gerðist í Baugsmálinu fyrsta. 


mbl.is Uppboð á eignum fjársvikara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarrinn þurfti að ganga eins og hálvitarnir

Það er ekki fátt sem ergir vesalings borgarstjórann í Reykjavík um þessar mundir og ekki nóg með að hann sé ergilegur yfir hlutunum, þá er heilsufarið svo bágborið, að hann beinlínis veikist af volkinu sem fylgir starfinu, eins og hann er duglegur að koma á framfæri í "dagbók" sinni á Fésbók, sem reyndar fjallar mikið um höfuðverkina, sem starfið og umgengni við annarra flokka fólk veldur honum.

Einnig kemur fram á Fésbók sjúklingsins að aðstoðarmaður hans er honum svo dyggur, að hann leggst í rúmið með honum þegar sá óhæfi verður veikur af illum aðbúnaði í druslunni, sem þeim  er gert að ferðast í á vegum borgarinnar.  

Þeir, sem ekki hafa bíl til afnota í borginni, eða frá borginni, fá kaldar kveðjur frá borgarstjóranum óhæfa, þegar hann segir þá vera fífl, eða eins og hann orðar það sjálfur: "Þessi rafmagnsbíll er ekki alveg að ganga. Miðstöðin frekar slök og við Björn búnir að vera fárveikir. Svo sprakk á honum í fyrrakvöld og við þurftum að labba í HR eins og hálfvitar til að vígja viðbyggingu."

Væntanlega eru þessar dagbókarfærslur til þess gerðar að snúa borgarbúum frá því að gera kröfur til þess að borginni sé stjórnað af alvöru fólki og í það að vorkenna stjórnendunum fyrir ræfildóminn.  

Með lítilsvirðingu sinni í garð þeirra sem ekki vilja eða hafa efni á að reka bíl, skýtur sá óhæfi reyndar yfir það mark. 


mbl.is Kvartar yfir rafbílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin lög í næstu viku eða þarnæstu?

Árni Páll hefur nánast í hverri viku í tæpt ár boðað að frumvarp til laga vegna skuldavanda heimilanna verði lagt fram "eftir helgi", þegar búið yrði að "útfæra" tillögurnar nánar. Síðan hefur hver helgin liðið af annarri án þess að frumvarpið hafi séð dagsins ljós, enda mikið mál að "útfæra" tillögurnar.

Öllum að óvörum var boðað nú fyrir helgi, að "eftir helgi" myndi Árni Páll mæla fyrir frumvarpi til laga um jafna meðferð allra gegnisbundinna lána, sem og erlendra lána, þ.e. að öll slík lán, hvernig sem lánapappírar hljóðuðu, skyldu meðhöndlast á sama hátt og þau gengistryggðu bílalán sem dómar hafa fallið um hvernig skuli endurreikna.

Loksins þegar útlit var fyrir að sjá myndi fyrir endann á strögglinu um þessa tegund lána og ágætis frumvarp komið fram, þá sprettur fram úr fylgsni sínu lögfræðingur smælingjanna, Ragnar Aðalsteinsson, og hótar hverri þeirri lánastofnun málsókn og tugmilljarða skaðabótakröfum, sem dirfist að ámálga skaðleysi gagnvart ríkissjóði vegna lagasetningarinnar.

Þar með hefur Ragnar séð til þess að þetta frumvarp verður ekki að lögum "eftir helgi", ekki "í næstu viku" og ekki í þeirri þarnæstu. Líklega verður það aldrei að lögum fyrst þessar málssóknir svífa yfir vötnunum og því munu margir mánuðir líða þar til einhver niðurstaða fæst vegna þessa.

Líklega verður eina leiðin sú, að fara þurfi fyrir dómstóla með hverja einustu gerð lásskjalanna, sem koma við þessa sögu, en vegna mismunandi orðalags þarf líklegast að stefna vegna hverrar einustu tegundar og það mun taka mánuði og ár að fá niðurstöðu í öllu því málaflóði.

Ragnar Aðalsteinsson og kollegar hans í lögfræðingastétt munu fá ærin starfa við öll þau málaferli og þurfa ekki að kvíða verkefnaskorti á næstu árum.


mbl.is Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klámið getur fært mikla gæfu

Nokkrir kanar í Detroit unnu sem svarar 14,5 milljörðum króna í lottói, en hálfskömmuðust sín fyrir að gefa sig fram og innheimta þennan risavinning, en þó gat einn loks mannað sig upp í að koma fram í dagsljósið, en aðrir í hópnum vildu ekki að nöfn sín væru birt í tengslum við þessa miklu gæfu.

Nafnleyndin stafaði þó ekki af því að þeir væru svo hræddir um að vinir og ættingjar myndu ásækja þá með peningabetli, heldur stafaði hlédrægnin af því að miðinn hafði verið keyptur í klámbúð, sennilega um leið og félagarnir keyptu sér, eða leigðu, klámspólur til að skemmta sér yfir.

Svona getur nú klámið verið til mikillar gæfu.  Þeir sem harðast berjast gegn slíku, ættu að hafa þennan fjórtán og hálfa milljarð í huga og að hefði ekki þessarar klámbúðar notið við, hefðu þessir klámáhugamenn misst af þeim lystisemdum sem aurarnir munu færa þeim í framtíðinni.

Fyrir áhugasama má geta þess að klámbúðin er í Highland Park hverfinu í Chicago.   


mbl.is Keyptu vinningsmiðann í klámbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggingin ekkert vandamál - bara vextirnir

Greiningadeild Arion banka hefur gefið út spá um að verðbólga verði ekki nema 1% á næsta ári og haldist undir 2,5% verðbólgumarkmiði a.m.k. fram á mitt ár 2012.  Það sem helst mun halda verðbólgunni fyrir ofan núllið á næsta ári verða skattahækkanir ríkisins og gjaldskrárhækkanir sveitarfélaganna, þannig að greinilega er reiknað með því í spánni að alger stöðnun og frost muni ríkja á hinum almenna markaði næstu misserin.

Þessi litla verðbólga ætti að geta leitt til þess, að fólk hætti að ergja sig á verðtryggingunni og fari að beina sjónum sínum að raunverulegum vandamálum, þ.e. nauðsyn þess að halda verðbólgunni niðri og ekki síður því vaxtaokri, sem viðgengist hefur í landinu um áratugaskeið.  Undanfarin tvö ár hefur endalaust verið klifað á því hve verðbæturnar væru að fara illa með fólk, en nánast engin umræða verið um vextina, en lánastofnanir hafa verið með allt að 10% vexti á verðtryggðum lánum, þegar eðlilegt mætti telja að vextir af slíkum lánum ættu að hámarki að vera 2,5%

Dómarnir um ólögmæti gengistryggðra lána og að þau skuli uppreiknuð sem lán í íslenskum krónum, með lægstu vöxtum seðlabankans á slíkum lánum, hefur þó orðið til þess að fólk gerir sér betur grein fyrir okrinu, sem viðgengist hefur á lánamarkaði hérlendis, en þó eru þessi nýju kjör fyrrverandi gegnislána hagstæðari en þau, sem gilt hafa um stóran hluta verðtryggðra lána á sama tímabili.

Hagsmunasamtök heimilanna og aðrir sem eytt hafa kröftum sínum undanfarin ár í að ergja sig á verðtryggingunni ættu nú að snúa sér að baráttu gegn verðbólgunni og vaxtaokrinu.


mbl.is Spá 1% verðbólgu á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband