Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Fólk fái að halda erlendu lánunum, ef það vill

Árni Páll Árnason hefur í meira en hálft ár boðað að frumvarp um erlend og gengistryggð lán verði lagt fram "eftir helgi" þegar búið yrði að "útfæra" tillögur þar um nánar.  Nú, rétt fyrir helgi, bregður svo við að Árni Páll leggur fram þetta langboðaða frumvarp og mun væntanlega mæla fyrir því á Alþingi "eftir helgi", enda er nú búið að "útfæra" allar tillögur endanlega.

Verði frumvarpið að lögum munu öll erlend og gengistryggð lán til einstaklinga, hvort sem þau voru tekin til bíla- eða húsnæðiskaupa og hvernig svo sem lánapappírarnir hljóðuðu, verða að óverðtryggðum lánum í íslenskum krónum og á þau skulu reiknast lægstu vextir seðlabankans, eins og þeir voru á hverjum tíma af slíkum lánum, en þeir vextir voru reyndar afar háir um tíma, enda verðbólga mikil.

Margir skuldarar þessara gegnistryggðu og erlendu lána eru afar óhressir með breytinguna yfir í íslensk krónulán, með íslenskum seðlabankavöxtum og því væri sanngjarnara að frumvarpið gæfi skuldurunum kost á að velja um uppgjörsaðferð á lánum sínum, þ.e. að möguleiki væri gefinn á því að lánin héldust óbreytt og með óbreyttum vaxtakjörum, yrði breytt í lán í íslenskum krónum með óverðtryggðum vöxtum seðlabankans, eða í gengistryggð lán í íslenskum krónum, með vöxtum sem gilt hafa um verðtryggð lán á hverjum tíma.

Með slíku fyrirkomulagi væri hægt að koma betur til móts við þá sem óánægðir eru með þær skuldbreytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir og veitir fólkinu rétt til að hafa áhrif á uppgjör þeirra skulda sem það sjálft stofnaði til.

 


mbl.is Gengislánafrumvarp lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Ben. og Baugsgengið

Jónína Ben. var innanbúðarmanneskja í Baugsgenginu um tíma, enda í sambúð með vörumerki gegnisins og Bónusbúðanna, en lenti síðan í stórstyrjöld við gegnismeðlimina þegar hún fór að aðstoða Jón Gerald Sullenberger í kærumáli gegn gegninu, sem upphaf átti að rekja til viðskiptasvika og lystisnekkjubrasks hans og Jóns Ásgeirs í Bandaríkjunum.

Ekki þarf að rekja hvernig það mál þróaðist út í lygar og ásakanir á hendur Davíð Oddssyni og fleiri stjórnmálamönnum, sem Baugsgengið notaði ómældar upphæðir til að greiða fólki fyrir að breiða út, ásamt því að misnota fjölmiðlaveldi sitt óspart í sama tilgangi, enda tókst genginu að sverta Davíð og persónu hans svo, að enn trúir fjöldi manna því að Davíð sé mesti skaðvaldur þjóðarinnar frá landnámi.  Enginn virðist þó gera sér grein fyrir því hvaðan þessi óhróður á upptök sín, þó enginn hafi lengur meðaumkun með Baugsgenginu né trúi lengur nokkrum áróðri sem frá því kemur.

Nú er að koma út bók um þennan tíma, þar sem Jónína Ben. segir sína hlið á þessari sögu, en Sölvi Tryggvason, frétta- og fjölmiðlamaður skrifar og reikna bæði með hefndaraðgerðum gegn sér fyrir vikið, en taka verður tillit til þess að Baugsgengið hefur ekki sömu áhrif í þjóðfélaginu núna, eins og á tíma Baugsmálsins fyrsta.

Í viðhengdri frétt kemur fram athyglisverð frásögn af því, hvernig unnið var gegn Jónínu á sínum tíma og álit Sölva á því sem hann telur að muni gerast í kjölfar útgáfunnar:  ""Það var athyglisvert að til mín leituðu innanbúðarmenn frá Baugi sem sögðu mér að trúa því að þetta tímabil hefði verið eins og í bíómynd, það hefðu ótrúlegir hlutir verið gerðir. Það hefðu verið haldnir fundir til að leggja á ráðin um hvernig væri hægt að gera Jónínu ómarktæka. Það voru gerðar skoðanakannanir reglulega þar sem fólk var spurt hverjum það trúði. Ef trúverðugleiki hennar þótti of mikill, þá voru haldnir fundir um það hvernig hægt væri að ná þessari tölu niður. Persónulega tel ég að aldrei fyrr hafi fjölmiðlar lagst jafn lágt og á þessum tíma,“ segir hann.

Aðspurð hvort hún sé ekkert hrædd um að önnur eins herferð hefjist núna eftir útkomu bókarinnar segir Sölvi að svo sé. En að hún óttist aðallega að ráðist verði að hennar nánustu. Þegar hann er spurður hvort hann sé ekki hræddur, svarar hann játandi. „Ég er líka hræddur. Ég veit að ákveðnir menn verða á launum við að lesa þessa bók og reyna að gera lítið úr henni og lítið úr mér. Við þá vil ég bara segja tvennt. Annars vegar: Þakkið fyrir að það var ég sem skrifaði þessa bók. Hins vegar að það er mjög margt sem ég veit sem er ekki í þessari bók."

Þetta minnir óneitanlega á vinnubrögð hreinræktaðra glæpaflokka og ekki reiknar Sölvi með að væntanleg viðbrögð verði mikið öðruvísi en áður.  Í lokasetningunni svarar hann gegninu með hótunum um ýmsa vitneskju, sem hægt verði að grípa til síðar, ef á þarf að halda.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort einhverjir af spádómum Sölva rætast á næstunni.


mbl.is Sölvi og Jónína eru ólíkir karakterar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsglæpur eða barnaskapur?

Mikið hefur verið fjallað um samþykkt Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á að Ísland væri sett á lista þrjátíu "viljugra" ríkja vegna innrásar Bandaríkjamann og Breta í Írak árið 2003.  Ýmsar samsæriskenningar hafa verið uppi vegna þessa samþykkis og félagarnir Davíð og Halldór verið sakaðir um landráð og stríðsglæpi, ásamt öllu öðru sem hægt er að ásaka menn fyrir yfirleitt.

Látið hefur verið eins og allur aðdragandi samþykkisins hafi verið ákveðinn að félögunum tveim, án vitneskju nokkurs annars og öllum öðrum gjörsamlega að óvörum, en nú er komið í ljós að Utanríkisráðuneytið lúrir á mörg hundruð blaðsíðna skýrslum um aðdraganda þessa samþykkis og samband ráðuneytismanna við bandaríska embættismenn um a.m.k. þriggja mánaða skeið fyrir innrásina.

Stórmerkilegur kafli úr skýrslubunkanum er birtur í fréttinni, en hann er svona:  "„Listi yfir þau 30 ríki sem styðja Bandaríkin og Bretland var lesinn upp í fréttum á CNN sjónvarpsstöðinni kl. 18:30 (ísl. tíma) í gær (18. mars). Þá höfðu, þrátt fyrir beiðni íslenskra stjórnvalda, ekki borist upplýsingar frá bandarískum stjórnvöldum um það hvernig þau hygðust nota listann eða hvenær og með hvaða hætti hann yrði gerður opinber. Enn vantar upplýsingar frá bandarískum stjórnvöldum hvað felst í því að vera á þessum 30 ríkja lista. Fátt hefur verið um svör í þeim efnum og virðist sem það sé bandarískum stjórnvöldum ekki fullljóst sjálfum. Höfðu fulltrúar ráðuneytisins m.a. spurt fulltrúa BNA sendiráðsins fyrr þann sama dag hvort Íslendingar gætu átt von á því, öllum á óvörum, að listinn yrði birtur á CNN eða öðrum fjölmiðli,“ segir í minnisblaðinu"

Tuttugu og níu þingmenn, sem ekkert nauðsynlegra hafa að gera á Alþingi, hafa lagt fram tillögu um að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda samþykktar þeirra Davíðs og Halldórs á að setja nafn Íslands á þennan undirskriftarlista og klausan hér að framan úr skýrslunni sýnir svart á hvítu, að ekki veitir af að rannsaka þetta mál með sömu nákvæmni og Rannsóknarnefnd Alþigis rannsakaði bankahrunið og aðdraganda þess.

Það hlýtur að vera verðugt rannsóknarefni að fá endanlegan botn í það hvað ráðuneytismenn og aðrir opinberir starfsmenn, íslenskir og bandarískir, hafa verið að gera í þrjá mánuði og um hvað þeir hafa verið að skrifa mörg hundruð blaðsíðna skýrslur, fyrst enginn vissi til hvers menn væru í sambandi hver við annan og enn minni hugmynd virðast þeir hafa haft um tilgang samskiptanna og listans, sem þeir voru að ákveða hvort þeir ættu að fá ráðherrana til að skrifa undir.

Það sem virðist augljóst við fyrstu skoðun á þessu er, að ráðherrar eiga ekki að skrifa undir neitt sem ráðuneytismenn leggja fyrir þá, nema setja rannsóknarnefnd í málið strax, áður en skjöl eru stimpluð og útskýrð almennilega.


mbl.is Spurðu hvort listinn yrði birtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir "viðræðurammar" um ESB?

Evrópuvaktin hefur komist á snoðir um að Utanríkisráðuneytið og ESB virðast vera að ræða um sitt hvorn hlutinn vegna aðlögunar Íslands að regluverki ESB, en fullkomin aðlögun að því er ófrávíkjanlegt skilyrði, sem lönd verða að uppfylla frá því að aðildarviðræður eru samþykktar af ESB og þangað til samningur um innlimun viðkomandi lands í sambandið er endanlega samþykktur af aðildarríkjum stórríkisins, væntanlega.

Utanríkisráðuneytið þykist geta rætt við ESB á sínum forsendum, jafnvel þó ESB fari eftir sínum eigin reglum og skilyrðum um aðlögunarferli að sambandinu, eða eins og segir í fréttinni:  "„Íslensk stjórnvöld „leggi upp sína afstöðu“ eins og ráðuneytið orðar það óháð viðræðuramma Evrópusambandsins. Afstaða Íslands byggist á þeim „ramma sem lagður var með áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis“ segir í svari utanríkisráðuneytisins til Evrópuvaktarinnar við spurningum um misræmi sem fram hefur komið í afstöðu íslenskra yfirvalda annars vegar og ESB hins vegar um efni aðlögunarviðræðnanna við Ísland."

Dettur Össuri í hug að nokkur einasti maður trúi honum, þegar hann þykist ekki þurfa að fara eftir lögum og reglum ESB í samskiptum sínum við sambandið sjálft?  Heldur hann virkilega að Íslendingar séu svo nautheimskir, að þeir sjái ekki í gegn um svona blekkingarleik?  Ekki er virðing ráðherrans fyrir löndum sínum mikil, ef hann telur sig geta haldið þessu að þjóðinni til lengdar, án þess að lygarnar uppgötvist.

Rétt er að leggja áherslu á, að þetta blogg er ritað í sínum eigin viðræðuramma.


mbl.is Hafa ekki fallist á viðræðuramma ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki eftir neinu að bíða lengur

Sérfræðingahópurinn um skuldavanda heimilanna hefur nú skilað af sér útreikningum sínum um nokkrar leiðir, sem opinberir aðilar geta notfært sér til að koma skuldsettustu heimilum landsins til aðstoðar.  Án þess að hafa skoðað þessar leiðir nákvæmlega, virðist sértæk skuldaaðlögun vera fljótlegasta leiðin til að koma þeim verst settu út úr mesta vandanum og verði sú leið valin, er ekki annað að gera en að drífa í málunum og láta fólkið ekki engjast í snörunni mikið lengur.

Til viðbótar þessari aðgerð í þágu þeirra verst settu ætti að hækka vaxtabætur verulega og ætti slík aðgerð að koma öllum til góða sem húsnæðislán skulda, jafnt þeim sem verulega eru illa staddir og hinum sem betur standa, en skulda þó háar upphæðir í húsnæði sínu.

Í öllum áföllum, sem yfir dynja, á að sjálfsögðu að vera í algerum forgangi að bjarga þeim sem í mestu tjóni lenda, en láta aðra bíða sem betur sleppa og engum dettur í hug að leggja fé og fyrirhöfn í björgunaraðgerðir vegna fólks, sem alls ekki er í neinum vanda.

Sama á að gilda þó hörmungarnar séu af efnahagslegum toga.  Þeir sem þurfa ekki hjálp, eiga ekki að fá hana, en þeir sem eru að missa heimili sín vegna slíkra hörmunga eiga að fá skyndihjálp og aðrir ættu að sameinast um björgunaraðgerðirnar, jafnvel þó viðkomandi þurfi einhverju til að fórna sjálfur.

Loksins er búið að greina vandann og þá ætti ekkert að vera að vanbúnaði til að leysa hann.


mbl.is Mikilvægir útreikningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mælum með meðmælum

Hollvinir heilbrigðisþjónustunnar hafa boðað til meðmæla á Austurvelli á morgun og ætla þar að mæla með góðri heilbrigðisþjónustu um allt land og að hún verði ekki skorin niður við trog á landsbyggðinni, eins og fjárlög gera ráð fyrir.

Meðal annars segir í tilkynningu frá hollvinunum:  "Markmiðið er að sýna styrk í samstöðu landsmanna með meðmælum með heilbrigðisþjónustunni. Víða um landið er verið að veita góða, hagkvæma og örugga þjónustu. Þannig viljum við hafa það áfram."  Ekki er með nokkru móti hægt að mótmæla þessari hógværu og göfugu bón um áframhaldandi gott heilbrigðiskerfi.

Það er alveg óhætt að mæla með þessum meðmælafundi.


mbl.is Meðmælafundur á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írar í helgreipum evrunnar

Í bankahrunini mikla í árslok 2008 forðuðu írsk yfirvöld algjöru efnahagshruni á Írlandi með því að lýsa yfir að ríkið ábyrgðist allar skuldbindingar bankakerfisins og er sú ákvörðun nú að koma í bakið á írum með gífurlegum halla á ríkissjóði og miklum skattahækkunum og öðrum auknum álögum á launafólk í landinu.

Nú hafa Írar fengið heimild EBS til þess að framlengja þessar ríkisábyrgðir þar til í júni á næsta ári, en í reynd mun írska ríkið aldrei geta hlaupið frá þessum ábyrgðum sínum og því mun taka mörg ár að vinda ofan af þeim og í raun ekki gerast nema með uppgreiðslu ríkistryggðu skuldbindinganna, a.m.k. annarra en beinna innlána sparifjáreigenda.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af Össuri Skarphéðinssyni, að engin bankakreppa hefði orðið á Íslandi, hefði gjaldmiðill landsins verið evra en ekki króna, þó allir viti að það er eingöngu lygaáróður fyrir inngöngu í ESB, en Írland er með evru og engu bjargaði hún þar í landi, frekar en í Grikklandi, Portúgal eða Spáni, svo nokkur lönd séu nefnd. 

Í fréttinni segir m.a:  "Írland er eitt nokkurra Evrópuríkja sem hefur þurft að veita bönkum ríkisábyrgð í kjölfar hrunsins.Skuldatryggingarálag á Írland er afar hátt og í dag var það 8,18% á ríkisskuldabréf til tíu ára. Er þetta það hæsta frá því Myntbandalag Evrópu varð að veruleika árið 1999."

Með svona skuldatryggingarálagi getur Írland ekki tekið nein lán á næstu árum til að létta lífróðurinn í efnahagsmálum og er þetta hærra álag en Íslendingar þurftu að búa við, þegar verst var eftir bankahrunið. 

Íslendingar mega þakka sínum sæla fyrir að hafa ekki verið aðilar að ESB og ekki síður fyrir krónuna, sem gera mun sitt til að hraða efnahagsbata hér á landi, þveröfugt við áhrif evrunnar á írskt efnahagslíf.


mbl.is Bankaábyrgðir framlengdar á Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíða-, sundlauganotendur o.fl. greiði raunkostnað

Geimveran Jón Gnarr, borgarstjóri í Múmíndal, skýrði í annars fáránlegu sjónvarpsviðtali, frá þeirri hugmynd sem undanfarið hefur verið til umræðu hjá ÍTR, að skíðasvæðinu í Bláfjöllum yrði lokað næstu tvö ár til að spara 87 milljónir króna í rekstrarkostnaði borgarsjóðs.  Forstöðumaður Bláfjallasvæðisins mótmælti strax þessari upphæð, þar sem hann sagði að sinna þyrfti viðhaldi mannvirkja eftir sem áður og enhvern mannskap þyrfti til þess, án þess að nefna nokkrar upphæðir í því sambandi.

Á þessum niðurskurðartímum er ekki óeðlilegt að fyrst sé farið yfir alla þætti í borgarrekstrinum, sem ekki fellur beint undir lögboðið hlutverk sveitarfélaga og t.d. er rekstur skíðasvæða ekki eitt af skylduverkefnum Reykjavíkurborgar eða annarra sveitarfélaga.  Margt annað fellur ekki undir þessar skyldur, eins og t.d. rekstur sundstaða, listasafna, strætó og samkvæmi borgarstjóra, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrsta verk borgarstjórnarmeirhlutans ætti að vera að hætta öllum slíkum rekstri, ef ekki er hægt að verðleggja þjónustuna þannig að hún standi undir rekstrinum, eins og gert er með annan fyrirtækjarekstur borgarinnar, t.d. orkuveituna, en þar er nýbúið að hækka verðið á söluvörunni, ekki vegna taprekstrar, heldur vegna afborgana af skuldum.  Allan rekstur, sem ekki er lögbundinn ætti borgin að koma af sínum höndum yfir til einkaaðila, ef þeir treysta sér til að reka þessi fyrirtæki án tapreksturs, en að öðrum kosti verði reksturinn aflagður.

Ekki dugar að segja að rekstur sund- og skíðastaða sé hluti af átaki til að viðhalda heilsu og hraustleika borgarbúa, því þetta er starfsemi sem er náskyld rekstri heilsuræktarstöðva og verða þær að standa algerlega undir rekstri sínum með gjaldtöku af viðskiptavinum og virðist verðið ekkert hamla aðsókn að þeim.

Það er a.m.k. ekki réttlætanlegt að niðurgreiða ólögbundna starfsemi Reykjavíkurborgar með hækkun á útsvari og öðrum sköttum. 


mbl.is Mótmæla hugmyndum um lokun skíðasvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Safn um Kanann og Keflavíkurgöngurnar

Eftir margra mánaða undirbúning hélt ríkisstjórnin suður með sjó til að kynna tillögur sínar um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, en þar hefur atvinnuleysið verið mest á landinu og með því að halda fund sinn í Víkingaheimum var reiknað með alvöru tillögum ríkisstjórnarinnar til lausnar þess vanda, sem við hefur verið að glíma á svæðinu.

Merkasta tillagan til atvinnubóta sem frá stjórninni kom var að setja upp minjasafn á Keflavíkurflugvelli um veru Kanans þar og skyldi uppsetning þess vera jafnt í umsjá kanavina og þeirra sem gegnu Keflavíkurgöngurnar forðum til að mótmæla veru Kananna á heiðinni.  Sú kvöð á uppbyggingu safnsins er vafalaust til að tryggja að myndunum af Steingrími J. úr göngunum verði komið fyrir á viðeigandi stað.  Ef einhver undrast hvernig þetta á að gagnast í baráttunni gegn atvinnuleysinu á Suðurnesjum verður að hafa í huga að a.m.k. þarf tvo safnverði til að annast það og jafnvel gæti þurft hálft starf til viðbótar vegna símavörslu og annarra tilfallandi verkefna.

Einnig sagðist ríkisstjórnin vera að hugsa um að flytja Landhelgisgæsluna suður á flugvöll án þess að útskýra nánar hvernig það myndi fjölga störfum, nema rétt á meðan verið væri að flytja búslóð gæslunnar, en nokkrir sendibílstjórar myndu auðvitað fá vinnu við það verk. 

Það sem líklega mun skapa flest störfin á Suðurnesjum samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar er opnun útibús Umboðsmanns skuldara í Keflavík, en örugglega mun þurfa fjölda starfsmanna til að vinna að fjárhagsvandræðum Reyknesinga á meðan þeir bíða eftir alvöru atvinnutækifærum, sem myndu fylgja t.d. orkufrekum iðnaði, en á slíkt var ekki minnst að öðru leyti en því, að slík mál væru "í ferli".

Að örðu leyti var tilkynnt um stofnun nokkurra nefnda, sem vinna skyldu áfram  að því að finna atvinnu fyrir vinnufúsar hendur og við það verða til nokkur vel launuð nefndarstörf og eru þau að sjálfsögðu vel þegin í því atvinnuástandi sem ríkir suður með sjó, eins og annarsstaðar.

Vonandi koma fleiri og helst bitastæðari tillögur fljótlega "eftir helgi".


mbl.is Hvað segja Suðurnesjamenn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í næstu viku, eða þarnæstu

Þann fjórða Október síðastliðinn, með tunnusláttinn í eyrunum, lofaði Jóhanna Sigurðardóttir nýjum tillögum til lausnar á skuldavanda heimilanna "eftir helgi".

Síðan eru liðnar nokkar helgar og væntanlegum tillögum alltaf frestað fram í næstu viku, þegar búið væri að "útfæra" þær endanlega. 

Með pompi og prakt var búið að boða til fundar í dag til að tilkynna "útfærslu" nokkurra leiða, sem velja þyrfti á milli til að leysa vanda allra landsins barna í eitt skipti fyrir öll.

Nú hefur fundinum verið frestað þangað til í vikulok og í versta falli koma þær "eftir helgi".

Allt er þetta eftir bókinni, enn sem komið er.


mbl.is Fundum með flokksformönnum frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband