Fólk fái að halda erlendu lánunum, ef það vill

Árni Páll Árnason hefur í meira en hálft ár boðað að frumvarp um erlend og gengistryggð lán verði lagt fram "eftir helgi" þegar búið yrði að "útfæra" tillögur þar um nánar.  Nú, rétt fyrir helgi, bregður svo við að Árni Páll leggur fram þetta langboðaða frumvarp og mun væntanlega mæla fyrir því á Alþingi "eftir helgi", enda er nú búið að "útfæra" allar tillögur endanlega.

Verði frumvarpið að lögum munu öll erlend og gengistryggð lán til einstaklinga, hvort sem þau voru tekin til bíla- eða húsnæðiskaupa og hvernig svo sem lánapappírarnir hljóðuðu, verða að óverðtryggðum lánum í íslenskum krónum og á þau skulu reiknast lægstu vextir seðlabankans, eins og þeir voru á hverjum tíma af slíkum lánum, en þeir vextir voru reyndar afar háir um tíma, enda verðbólga mikil.

Margir skuldarar þessara gegnistryggðu og erlendu lána eru afar óhressir með breytinguna yfir í íslensk krónulán, með íslenskum seðlabankavöxtum og því væri sanngjarnara að frumvarpið gæfi skuldurunum kost á að velja um uppgjörsaðferð á lánum sínum, þ.e. að möguleiki væri gefinn á því að lánin héldust óbreytt og með óbreyttum vaxtakjörum, yrði breytt í lán í íslenskum krónum með óverðtryggðum vöxtum seðlabankans, eða í gengistryggð lán í íslenskum krónum, með vöxtum sem gilt hafa um verðtryggð lán á hverjum tíma.

Með slíku fyrirkomulagi væri hægt að koma betur til móts við þá sem óánægðir eru með þær skuldbreytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir og veitir fólkinu rétt til að hafa áhrif á uppgjör þeirra skulda sem það sjálft stofnaði til.

 


mbl.is Gengislánafrumvarp lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er reyndar ákvæði um þetta í frumvarpinu. Í 3. gr. lið c segir: "Ef í lánssamningi er kveðið á um ólögmæta verðtryggingu í formi gengistryggingar skal með samningi kröfuhafa og skuldara vera heimilt að færa höfuðstól lánsins í erlendar myntir eins og um gilt erlent lán hafi verið að ræða frá stofntíma kröfunnar. Falla þá niður heimildir til leiðréttingar greiðslna og höfuðstóls samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Heimild þessi gildir í 90 daga frá gildistöku laga þessara og skal staðfest með skriflegum og sannanlegum hætti." Ég sé ekki betur en þetta ákvæði taki á málinu sem þú nefnir.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2010 kl. 14:49

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þorsteinn, þetta tekur klárlega á því að gefa fólkinu kost á að halda lánunum sem erlendum, en það er spurning hvort ekki ætti líka að leyfa val á milli þess að hafa lánin verðtryggð eða ekki.  Ég var rétt búinn að renna yfir lögin á hundavaði og rak ekki augun í þetta val.

Axel Jóhann Axelsson, 12.11.2010 kl. 15:00

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég var nú ekki kominn svo langt, en ég sé ekki heldur að sá möguleiki sé opinn. Það hlýtur að verða lagfært enda er nokkuð ljóst að ef á að fara að lögum sem mæla fyrir um að óverðtryggðir vextir gildi um ólögleg lán er tæpast um leið hægt að útiloka að þeir gildi. Er þetta ekki bara dæmi um hroðvirknisleg vinnubrögð í ráðuneytinu? Það er þá sannarlega ekki í fyrsta sinn sem frumvarp kemur meingallað inn í þingið.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2010 kl. 15:10

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held hins vegar að í langflestum tilfellum borgi sig fyrir lántakann að halda erlenda láninu þegar um langtímalán er að ræða sem eru tekin 2006 eða fyrr.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2010 kl. 15:12

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég var að lita betur yfir frumvarpið og sé hvergi getið um val skuldarans, nema varðandi að fá að halda láninu sem erlendu, sem eins og þú segir, er áreiðanlega hagstæðast þegar um lán til 25-40 ára er að ræða.

Annars sýnist manni að frumvarpið geri ráð fyrir að lánastofnanirnar endurreikni lánin á sinn hátt og tilkynni síðan skuldaranum niðurstöðuna án mikilla afskipta hans af því ferli öllu.

Axel Jóhann Axelsson, 12.11.2010 kl. 15:22

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það sem ég hef mestar áhyggjur af í þessu öllu er að fólk láti blekkjast til að taka rangar ákvarðanir. Vandinn er nefnilega að í mjög mörgum tilfellum getur höfuðstóll láns lækkað við endurútreikning þótt heildargreiðslubyrðin út lánstímann stóraukist. Fólki gæti því virst það ná ávinning af breytingunni meðan það væri í raun að stórtapa. Ég skrifaði um þetta grein í Morgunblaðið á sínum tíma og hafði raunar áður komið þessu á framfæri í fréttaviðtali í Fréttablaðinu, en mér finnst mikið vanta upp á að fólk geri sér grein fyrir þessu. Sparnaður ehf. var með reiknivél á vefnum sínum og ég benti þeim á að taka þetta atriði þar inn svo fólk gæti raunverulega áttað sig á kostunum. Þeir tóku vel í það, en mér sýnist reiknivélin því miður horfin af vefnum þeirra.

Þegar verið er að ræða tölur um kostnað bankanna í fjölmiðlum er alltaf verið að tala um höfuðstól og hverju bankarnir tapi á breyttum höfuðstól. Kostnaður lántakenda í heild er hins vegar alls ekki að lækka verði lánunum breytt, síður en svo. Mér finnst það vera skylda stjórnvalda að upplýsa fólk um þessa hluti á mannamáli. Það er gríðarlega mikilvægt því annars eru allar líkur á að skuldarar stórtapi í hrönnum á þessu máli. Og ekki virðist nú fólk almennt mega við því ofan á allt annað.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2010 kl. 15:53

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það versta er, að almennt fjármálalæsi er í algeru lágmarki hjá okkur Íslendingum og ekki síst þess vegna er þjóðin í þessari hyldjúpu skuldakreppu.  Fólk getur almennt ekki gert sér nokkra einustu grein fyrir því hvernig greiðslubyrði verður með breyttum kjörum og enginn virðist vita hvernig annúítetslán virka og enginn skilur hvernig lán hækka, þó greitt sé af þeim, því enginn virðist taka eftir því á sínum mánaðarlegu kvittunum, að sáralítið greiðist niður af höfuðstólnum.

Eins finnst mér að öllu púðri sé eytt í að skammast úr af verðtryggingunni, í stað þess að beina athyglinni að baráttu gegn verðbólgunni og vaxtaokrinu, sem viðgengist hefur hér á landi í áratugi.

Axel Jóhann Axelsson, 12.11.2010 kl. 16:18

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sammála þessu. Ég hef þó grun um að verðtryggingin eigi talsverða sök á verðbólgunni. Ástæðan er að þar sem verðtrygging er ekki við lýði hafa fjármagnseigendur gríðarlega hagsmuni af að halda verðbólgu í skefjum. Fjármagnseigendur eru öflugur þrýstihópur sem hefur áhrif mjög víða bæði í stjórnkerfi og atvinnulífi. Þeir beita stjórnvöld þrýstingi til að halda útþenslu ríkisins í skefjum, þeir halda hagsmunum sínum stíft fram í kjarasamningum og leitast einnig við að hindra að aðhaldsleysi í stjórnun banka valdi þenslu, sem aftur rýrir eignir þeirra. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér undanfarið og væri gaman að fá komment á þessar pælingar.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2010 kl. 16:32

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, gleymdi niðurlaginu. Það er sumsé að vegna verðtryggingarinnar er þessi mikilvæga hagsmunagæsla fjármagnseigenda í algeru skötulíki hérlendis. Hömlur á þenslu eru því miklu minni og verðbólgan því meiri en annars staðar.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2010 kl. 16:34

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Verðbólga hefur verið mikil hérlendis alveg frá lýðveldisstofnun og var síst minni áður en verðtryggingin kom til.  Það sem hefur alltaf vantað hér á landi og vantar enn, er almennileg hagstjórn.  Það hafa nánast alltaf verið mikil lausatök á stjórn ríkisfjármála og þjóðarsálin er ekki ennþá búin að meðtaka verðtrygginguna, eða skilja hana, þó langt sé um liðið síðan hún var tekin upp. 

Lánaæðinu linnti ekkert við verðtrygginguna, heldur er tekið lán fyrir öllu sem hægt er að taka lán fyrir og minni áhyggjur af því hvernig á að borga þau til baka.  Ég hef fengið bágt fyrir að segja að Íslendingar kaupi allt sem þeir geti mögulega fengið lánað fyrir, á meðan aðrir kaupa það sem þeir hafa efni á að kaupa.

Vonandi vex skilningur á þessum skuldamálum öllum í kjölfar þessarar skuldasúpu sem þjóðin er búin að koma sér í og á eftir að glíma næstu áratugi við að koma sér upp úr aftur.  Vandamálið er hinsvegar að fólk álítur að hægt sé að strika út áhrif kreppunnar með einhverjum einföldum aðferðum og síðan verði hægt að byrja á lánafylleríinu aftur.

Axel Jóhann Axelsson, 12.11.2010 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband