Ríkisstjórnin verði með NÚNA eða fari frá ella

Í marga mánuði hefur verið reynt að draga upplýsingar upp úr ríkisstjórninni um hvaða aðgerðum hún hyggist beita til að koma einhverri hreyfingu á fjárfestingar í landinu og nýrri sókn í atvinnumálin, en skapa þarf a.m.k. 20.000 störf á næstu misserum í stað þeirra sem tapast hafa í kreppunni.

Á morgun er síðasti dagur sem hægt er að leggja fram ný frumvörp á Alþingi, ef þau eiga að fást afgreidd fyrir vorið og af biturri fyrri reynslu er engum loforðum ríkisstjórnarinnar treystandi, nema þau séu komin í frumvarpsform og reyndar varla fyrr en þau hafa verið samþykkt á þinginu, því ríkisstjórnin hefur ekki fyrirfram tryggan þingmeirihluta fyrir einu einasta máli og því eins líklegt að þau dagi uppi í þinginu.

Ríkissjórnin hefur daginn í dag og morgundaginn til að sýna hvort hún sé yfirleitt fær um að fást við þau vandamál sem við er að eiga í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, en launþegar í landinu geta ekki tekið á sig meiri byrðar án þess að fá einhverjar raunhæfar vonir um að betri tíð sé framundan.

Eru menn eða mýs í ríkisstjórninni? Nú er að duga eða drepast. Aðeins tæpir tveir sólarhringar til stefnu, ef stjórnin ætlar ekki að eyðileggja kjarasamningana.


mbl.is Funda með stjórnvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Sé það svo að kjarasamningar til þriggja ára liggi á borðinu, þá hafa atvinnurekendur gert áætlun þrjú ár fram í tímann, hið minnsta.  Framleiðslufyrirtækin reiknað út framtíðartekjur, vegna núgildandi viðskiptasamninga og þess háttar.  Síðan hafa verið gerðir útreikningar á því hver gjöldin á sama tíma koma til með að verða, miðað við framtíðarhorfur í rekstrarumhverfi fyrirtækjana.  

Ef að ekki er hægt að gefa út skýra traustvekjandi stefnu, varðandi það hvort stefnt sé að skattalækkunum, eða skattahækkunum og fleiri atriði sem snúa að stjórnvöldum, hvort það sé kreppa eður ei, þá er tómt mál að tala um annað en skammtímasamninga.   Það lofar enginn heilvita maður, því að borga eitthvað næstu þrjú árin, ef hann sér ekki fram á geta það.

 Þó svo að það sé lokafrestur á skilum frumvarpa, þá er hægt að troða frumvörpum inn á afbrigðum fram á síðasta dag þingsins.   Það má því alveg búast við að á síðustu dögum þingsins, verði troðið inn stórum og umdeildum málum og þau afgreidd í tímahraki og fúski. Samkvæmt venju. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 30.3.2011 kl. 11:41

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég verð að viðurkenna að ég vona að ekkert meira af bulli komi í frumvörpum frá þessari ríkisstjórn.  Það er komið nóg af vitleysunni.  Hún ætti að fara frá og við ættum að fá utanþingsstjórn í allavega tvö ár, af sérfræðingum sem geta tekist á við málin faglega en ekki pólitískt. 

Það endar sennilega með að sett verður af stað undirskriftasöfnun til forsetans um að setja ríkisstjórnina af og setja saman trúverðuga utanþingsstjórn.  Það er eina málið, við siglum hraðbyri fram af brúninni, ef við erum ekki þegar kominn hálfa leið niður.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2011 kl. 11:45

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Utanþingsstjórn hefur þann hvimleiða ókost, að þurfa að koma öllum sínum málum í gegnum ónýtt þing. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 30.3.2011 kl. 11:58

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Utanþingsstjórn þarf líka að þola þann hvimleiða ókost að meirhluti Alþingis þarf að tryggja málum hennar framgang og miðað við reynslu þessa kjörtímabils er vandséð hvernig meirihluti á bak við utanþingsstjórn ætti að myndast.

Það er einkennileg árátta stjórnvalda að koma alltaf með mikilvæg frumvörp á síðustu stundu og í tímahraki, oftast rétt fyrir þinglok.  Eftir málþóf og þras þarf síðan alltaf að semja um hvaða frumvörp verði að lögum og hver verði svæfð og oft þarf síðan að gera lagfæringar á lögum eftir skamman tíma, vegna þess hve hroðvirknislega þau eru unnin.  Alltaf er lofað bót og betrun á þessum vinnubrögðum, en auðvitað endurtekur þetta sig á hverju einasta ári, bæði fyrir jólahlé þingsins og enn frekar við þinglok að vori.

Vegna þeirra tillagna sem væntanlegar eru frá ríkisstjórninni vegna kjarasamninganna núna, má rifja upp stöðugleikasamningsbrandarann frá því í júní 2009, en hann má sjá HÉRNA

Loforðalistann um aðgerðir í atvinnumálum má vel taka upp óbreyttann, nema með breyttum dagsetningum þar sem allt sem átti að gera á árinu 2009 er ógert ennþá.  Í stöðugleikasáttmálanum var lofað að hrinda öllum hindrunum úr vegi vegna framkvæmda við álverið í Helguvík o.fl., o.fl., sem öllu er hægt að lofa aftur núna.

Í stöðugleikasáttmálanum er meira að segja lofað að áætlun um afnám gjaldeyrishafta verði kynnt fyrir 1. ágúst 2009, en eins og allir vita var það gert nú fyrir nokkrum dögum og á þá að taka allt að fimm árum. 

Loforðalistinn núna verður bara "copy" og "paste". 

Axel Jóhann Axelsson, 30.3.2011 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband