Upprifjun fyrir minnislausa þjóð

Á Haustráðstefnu KPMG í dag rifjaði Már Guðmundsson upp fyrir fundarmönnum að búið var að ræða um væntanlega niðursveiflu í íslenska hagkerfinu eftir "loftbóluárin" sem hófust með innkomu bankanna á fasteignamarkaðinn seinni hluta ársins 2004 og í framhaldi af því trúnni á "nýja hagkerfið", sem átti að byggjast á því að allt væri keypt, sem falt væri, á lánum og engar áhyggjur þyrfti að hafa af endurgreiðslunum, því verðmæti eigna myndi hækka endalaust og því yrði aldrei hægt að tapa á fjárfestingum framar.

Þessu gleypti almenningur við og yfirbauð hver annan á fasteignamarkaði, með þeim afleiðingum að húsnæðisverð rauk upp úr öllu valdi og meðfylgjandi lántökur sömuleiðis, bílar voru keyptir sem aldrei fyrr, bæði fínni og dýrari en áður, gegn erlendri lántöku, húsvagnar, tjaldvagnar og aðrar dýrar neysluvörur voru rifnar út á lánum og yfirdráttar- og greiðslukortaskuldir fóru upp úr öllu valdi.  Allir vildu baða sig í fínheitunum og tóku lán fyrir öllu sem hægt var að taka lán fyrir og mikill fjöldi fjölskyldna stefndi beint í gjaldþrot, þótt engin sérstök kreppa hefði skollið á, því lántökuæðið var þvílíkt hjá mörgum, að engin leið hefði verið að endurgreiða öll lánin, miðað við eðlileg og stöðug laun í þjóðfélaginu.

Núna þykist enginn hafa tekið þátt í þessu lánarugli sjálfviljugur, því allir segjast hafa verið plataðir til að taka óhófleg lán og ekki gert sér nokkra einustu grein fyrir því hvað þeir hafi verið að gera, segjast ekki hafa skilið áhættu gengis- og verðtryggðra lána, ekki skilið hvað annuietslán væri, eða hvernig slík lán væru endurgreidd og yfirleitt ekki botnað upp eða niður í fjármálum yfirleitt og því orðið fórnarlömb "glæpamanna" í bönkunum, sem hafi logið út lánum, eins og þeir fengju borgað fyrir það, sem var auðvitað reyndin.  Nú er svo komið að enginn vill endurgreiða lánin sem hann tók, hvort sem hann getur það eða ekki, því ef greiðslugeta er fyrir hendi er bara borið við skorti á greiðsluvilja og þess krafist að vegna þessa skorts á greiðsluvilja einstaklinganna verði einhver annar látinn greiða skuldirnar fyrir þá.

Vegna alls þessa er upprifjun seðlabankastjórans gott innlegg inn í umræðuna og ekki síst eftirfarandi:  "Már sagði einnig að hafa beri í huga að margs konar áföll hafi dunið á íslenska hagkerfinu árið 2008. Gengi krónunnar hafi hrunið vorið 2008, bankahrun haustið sama ár og mikill samdráttur í erlenda hagkerfinu á fjórða ársfjórðungi 2008 og fyrsta fjórðungi 2009. Sagði Már að það væri verðugt rannsóknarefni að skoða hver þessara þátta hefði ráðið mestu um þann samdrátt sem varð hér á árunum 2009 og 2010, en það myndi hins vegar ekki koma honum á óvart ef í ljós kæmi að bankahrunið sjálft hefði ekki ráðið mestu."

Ef að líkum lætur mun ekki standa á gagnrýninni á þessa ræðu Más Guðmundssonar og bendingar á allan þann skara "glæpamanna" sem ollu lánabrjálæði heimilanna á þessum árum "nýja hagkerfisins".


mbl.is Samdráttur lá alltaf fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

VG fagnar varla þessari ræðu

Ólafur Ingi Hrólfsson, 31.10.2010 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband