Margur verður af aurum api

Með birtingu Panamaskjalanna virðast vera að koma upp á yfirborðið ýmis mál sem sanna enn og aftur gamla máltækið að af aurum verður margur api og lætur glepjast af raunverulegum, en oftar ímynduðum, möguleikum á skyndigróða erlendis.

Ekki síður virðist þetta fólk sækjast eftir tækifærunum til að fela fjármuni, reyndar oftast illa fengna, til að komast með því undan skattgreiðslum og þar með þátttöku í rekstri þess þjóðfélags sem þeir þó kjósa í flestum tilfellum að þiggja þjónustu af.

Lengi hefur verið vitað um að fólk sem átt hefur í erlendum viðskiptum, hvort sem um inn- eða útflutning hefur verið að ræða, hefur þegið persónuleg umboðslaun vegna viðskiptanna og látið leggja þau inn á erlenda bankareikninga án þess að þau kæmu fram á reikningum og væri þannig stungið undan tekjuskráningu á Íslandi og þar með skattgreiðslum.

Í dag er í fréttum fjallað um leynisjóð sem bílainnflytjandinn stórtæki, Ingvar Helgason, virðist hafa myndað með slíkum umboðslaunum og farið svo leynt með að eiginkonan og flest börn hans hafa ekki vitað hvernig aðgengi að þessum að því er virðist ólöglegu fjármunum var háttað.  Þó virðist sú undantekning hafa verið þar á að tveir synir hafi vitað um og haft prókúru til að ráðstafa þessum inneignum ásamt Ingvari sjálfum.

Ef marka má þessar fréttir hafa þeir bræður sölsað undir sjálfa sig þessum sjóðum eftir fráfall föðurins og þar með blekkt og svikið sína eigin móður og aðra fjölskyldumeðlimi um þeirra hlut í góssinu.

Það er nánast ekki hægt að trúa því að þeir erfingjanna sem yfirtóku stórfyrirtækið Ingvar Helgason hf. eftir andlát stofnandans hafi nánast komið fyrirtækinu á hausinn á þrem árum og skilið móður sína og ekkju Ingvars eftir tekjulitla en hirt sjálfir ólöglegan "eftirlaunasjóð" sem hún vissi ekki einu sinni hvar eða hvernig var geymdur.

Oftast hefur verið sagt að fjölskyldufyriræki gætu lifað fram í þriðju kynslóð, en í þessu tilfelli hefur sú númer tvö "afrekað" það að setja erfðafyrirtækið á hausinn og að sundra samheldni og samstöðu stórrar fjölskyldu með ásælni sinni í sjóði sem skattayfirvöld hljóta að hafa mikinn áhuga á að frétta nánar af.

Það er auðskiljanlegt hvernig máltækið sem vitnað var til í upphafinu hefur orðið til.

 

 


mbl.is Leita týndra sjóða foreldra sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband