"Það verður farið yfir alla verkferla"

Þann 5. janúar árið 2017 fór ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineering in Iceland með hóp ferðamanna á vélsleðum upp á Langjökul þrátt fyrir að spáð væri hættu á veðurofsa á svæðinu.

Áströlsk hjón urðu viðskila við hópinn og fararstjórana í óverðinu sem á skall eins og spáð hafði verið.  Skýring ferðaþjónustufyrirtækisins á því að lagt hefði verið upp í ferðina var sú að veðrið hefði skollið á fyrr en fyrirtækið hefði búist við.  Í framhaldinu gáfu forráðamenn fyrirtækisins út þau loforð að þeir ætluðu sér að læra af atvikinu og að "farið verði yfir alla verkferla".  

Þann 7. janúar 2020, nánast nákvæmlega þrem árum eftir fyrra atvikið, var spáð jafnvel enn meira óveðri en þegar farið var í ferðina 2015, en nú var farið með þrjátíuogníu ferðamenn í vélsleðaferð á sama jökul og enn er sagt að veðrið hafi skollið á fyrr og orðið verra en skipuleggjendur ferðarinnar reiknuðu með.

Í viðtali sagði einn forsprakka fyrirtækisins að svona ferð tæki venjulega um einn klukkutíma og kortér, en vegna ófærðar hefðu orðið tafir á ferðalaginu, en versta veðrið hefði ekki skollið á fyrr en um klukkan sextán, eða rúmum þrem tímum eftir að lagt var upp í ferðina.

Björgunarsveitir voru ekki kallaðar til fyrr en klukkan 20 um kvöldið, eða sjö tímum eftir að ferð var hafin og a.m.k. sex tímum eftir að allt var komið í óefni og fólkið orðið hrakið og hrætt.

Líklega verður af opinberum eftirlitsaðilum látið nægja að fyrirtækið gefi sömu skýringar og síðast, þ.e. að mistök hafi verið gerð sem muni verða til að læra af og að "það verði farið yfir alla verkferla".

Ef það að setja tugi ferðamanna í bráða lífshættu dugar ekki til að svipta svona fyrirtæki leyfi til ferðaþjónustustarfsemi, þá þurfa leyfisveitendur bráðnauðsynlega "að fara yfir alla verkferla"


mbl.is „Sumir jafna sig kannski aldrei“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upprifjun vegna Icesave

Þann 2. Janúar 2010 afhenti Indifence forseta Íslands áskorun á sjötta tug þúsunda Íslendinga um að hafna lögum um ábyrgð ríkissjóðs á skuldum Landsbanka Íslands vegna Icesave í Bretlandi og Hollandi.

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, skrifaði undir samning við Breta og Hollendinga þann 5. Júní 2009, en samningurinn var svo leynilegur að þingmenn áttu að samþykkja hann án þess að fá að sjá hann eða lesa og alls ekki átti að upplýsa þjóðina um innihaldið.

Málið allt var með miklum ólíkindum og í tiefni af afhendingu áskorananna til forsetans er gaman að rifja upp nokkur blogg af síðunni frá Júnímánuði 2009, en þann mánuð, sem og þá sem á eftir komu, var mikið fjallað um Icesave og því staðfastlega mótmælt að ríkissjóður tæki á sig nokkrar skuldbindingar vegna málsins og eins og allir vita staðfesti EFTAdómstóllinn það að lokum eftir mikið japl og jaml og fuður.

 

5.6.2009 | 13:39 Aldrei sagður allur sannleikurinn

Því hefur alltaf verið haldið fram, að Icesave deilan sé sérstakt viðfangsefni og komi samningum við AGS ekkert við og þrátt fyrir yfirlýsingar Gordons Brown, um að Bretar væru í viðræðum við AGS vegna málsins, hefur íslenski ríkisvinnuflokkurinn ætíð borið slíkt til baka og sagt þessi mál algerlega ótengd.

Nú hefur mbl.is eftir Steingrími Jong Sig., fjármálajarðfræðingi, að: "Hann vísar því á bug að verið sé að hraða málinu til að greiða fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Málið tengdist frekar öðrum lánum, til að mynda norrænu lánunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum."

Hér með er hann að viðurkenna það loksins, að allar "vinaþjóðir" okkar á norðulöndunum og AGS setja þetta allt saman í einn pakka. Íslendingar fá engin lán frá AGS, eða Evrópuþjóðum, nema ganga fyrst frá Icesave.

Því oftar sem ráðamenn neita því, að samningar vegna Icesave, sé skilyrði af hendi Evrópuþjóða og ekki verði einu sinni tekið við aðildarumsókn að ESB, án þessa frágangs, því ótrúverðugri verður sú neitun. Tími er til kominn að gera þetta mál "opið og gegnsætt" og að hætt verði að ljúga að þjóðinni.

 

5.6.2009 | 14:51 Icesave breytt í kúlulán

Jóhanna, ríkisverkstjóri, sagði í hádeginu, að loksins væri búið að leysa Icesave deiluna á farsælan hátt og Íslendingar myndu aldrei þurfa að borga nema í mesta lagi frá 0 kr. og í versta falli 65 milljarða.

Það er að vísu himinn og haf á milli 0 og 65 milljarða, en eins og venjulega er ekki verið að segja satt. Kúlulánið, sem á að taka fyrir Icesave, er upp á 650 milljarða króna og það byrjar ekki að greiðast niður fyrr en eftir sjö ár. Á hverju ári þangað til verða greiddir 37,5 milljarðar í vexti, eða samtals á þessum sjö árum alls 262,5 milljarða króna.

Ofan á þessa 262,5 milljarða króna leggst síðan það, sem ekki tekst að fá út úr búi Landsbankans í Englandi, því eins og segir í fréttinni: "Á þessum sjö árum mun verða reynt að selja eignir Landsbankans upp í skuldina." Það sem ekki selst á þessum sjö árum, lendir þá á ríkissjóði, samkvæmt þessu.

Hefur Jóhanna, ríkisverkstjóri, ekki skilning á fjármálum, eða er hún að blekkja vísvitandi?

 

16.6.2009 | 16:11 Hver trúir þessari vitleysu?

Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, segir að það muni verða vandasamt fyrir þingmenn að fjalla um samninginn um ríkisábyrgðina á Icesave, ef þeir fái engar upplýsingar um innihald hans.

Það mun ekki verða vandasamt fyrir þá, heldur ómögulegt. Hvernig á nokkur einasti maður að reyna að ræða mál á Alþingi, ef hann veit ekker um hvað málið snýst? Í morgun sagði Jóhanna, ríkisverkstjóri, að hún treysti á að Sjálfstæðisflokkurinn myndi bjarga ríkisvinnuflokknum frá falli, vegna þess að útlit væri fyrir það, að Vinstri grænir myndu ekki samþykkja samninginn, sem er þó gerður í nafni fjármálajarðfræðingsins. Um þá vitleysu var fjallað í morgun í þessu bloggi.

Getur það verið rétt, að samningamenn Íslands hafi skrifað undir slíkan risasamning um fjárhagsskuldbindingu Íslendinga inn í framtíðina, án þess að nokkur maður á Íslandi mætti vita hvað stendur í þessu plaggi. Að það skuli þurfa að skrifa bréf til Hollendinga og Breta til þess að fá náðasamlegt leyfi til að sýna, þó ekki væri nema nokkrum útvöldum þingmönnum, samninginn er svo ótrúlegt, að menn setur hljóða og trúa ekki sínum eigin augum og eyrum. Samningurinn var undirritaður um miðja nótt.

Hvað er það sem þolir ekki dagsljósið?

 

18.6.2009 | 09:07 Tvísaga embættismaður

Indriði H. Þorláksson, sérlegur aðstoðarmaður fjármálajarðfræðingsins, verður neyðarlega tvísaga í einni og sömu setningunni, þegar hann segir: "Aldrei hefur staðið til að Icesave-samningurinn yrði leyndarmál. Líklega er það spurning um daga hvenær samkomulag sem nú er unnið að næst við Breta og Hollendinga um að aflétta leynd yfir samningnum, meðal annars til að þingmenn geti kynnt sér hann."

Hvers vegna þarf að skrifa bréf til Hollendinga og Breta með beiðni um að fá að opinbera samninginn, ef aldrei stóð til að hann væri leyndarmál? Hvers vegna er það spurning um daga hvenær samkomulag næst við Hollendinga og Breta um að aflétta leynd yfir samningnum? Þarf leyfi til að aflétta leynd, sem aldrei stóð til að yrði nein leynd?

Það er alveg með ólíkindum hvað ráðherrar og embættismenn geta bullað mikið, án þess að fréttamenn sjái í gegnum ruglið og gangi eftir skýrari svörum. Það er kannski ekki undarlegt, þegar Icesave og ESB eru annars vegar.

Flestir fjölmiðlamenn eru í reynd áróðursmenn fyrir hvoru tveggja.

 

22.6.2009 | 16:23 Tilskipun um innistæðutryggingar verndar ríkissjóð

Í tilskipun ESB um innistæðutryggingar, sem má sjá hér kemur fram að Tryggingsjóðir innistæðueigenda skuli ekki vera á ábyrgð yfirvalda, enda skulu lánastofnanir sjálfar bera kostnaðinn af fjármögnun þeirra.

Þetta má glögglega sjá á eftirfarandi klausum úr tilskipuninni:

"Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu. Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun."

Með svokölluðum Icesave samningi er verið að neyða Íslendinga, með ógnunum, til að taka á sig a.m.k. 500 milljarða króna, sem allir geta séð að ríkissjóður Íslands getur aldrei greitt.

Það hlýtur að vera hægt að koma ESB þjóðunum til þess að fara eftir sínum eigin tilskipunum. Ef ESB þjóðirnar eru ekki sáttar við það, eiga þær að leita til dómstóla.

Málið er ekki flóknara en það.

 

23.6.2009 | 10:36 Dómstóllinn er víst til

Eiður Guðnason, fyrrverandi pólitíkus og sendiherra, gerir lítið úr fremstu lögspekingum landsins og telur að þeir viti ekki um hvað þeir séu að tala, þegar þeir benda á þá augljósu staðreynd, að lagalegan ágreining eigi að útkljá fyrir dómstólum. Hann telur að enginn dómstóll sé til, sem geti skorið úr milliríkjadeilum, eins og t.d. ágreiningi um ábyrgð ríkisins á Icesave innlánum Landsbankans.

Hingað til hefur ekkert skort á að evrópskir dómstólar hafi getað fjallað um og ákært Íslendinga, ef þeir hafa ekki verið nógu fljótir að innleiða allskyns tilskipanir frá ESB.

Í þessu bloggi er sýnt fram á að tilskipun ESB um Tryggingasjóð innistæðueigenda gerir ekki ráð fyrir ríkisábyrgðum, enda þyrftu Bretar og Hollendingar þá ekki að kúga Alþingi til að samþykkja ríkisábyrgð núna.

Íslendingar þurfa einungis að hafna ábyrgð á Icesave, umfram ábyrgð tryggingasjóðsins og ef Bretar og Hollendingar sætta sig ekki við það, þá finna þeir réttan dómstól til að reka sín mál fyrir.

Ef þeir lenda í einhverjum vandræðum með að finna dómstól, má benda þeim á, að lögþing ríkissjóðs er á Íslandi og þar er hægt að höfða innheimtumál gegn ríkissjóði eins og öðrum.


Glæpamenn í skjóli alþjóðlegrar verndar

Í nýrri skýrslu lögreglunnar um skipulagða glæpastarfsemi kemur margt forvitnilegt og ekki síður undarlegt í ljós, t.d. að um sé að ræða marga glæpahópa sem telji tugi manna og stundi allar þær tegundir glæpa sem fyrirfynnast.

Til dæmis kemur fram í skýrslunni að:  "Rann­sókn­ir lög­reglu leiða í ljós að ein­stak­ling­um sem tengj­ast þess­um þrem­ur hóp­um hef­ur verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi m.a. á grund­velli kyn­hneigðar. Nokkr­ir þess­ara karl­manna frá ís­lömsku ríki hafa verið kærðir fyr­ir kyn­ferðis­lega áreitni gagn­vart kon­um hér á landi."  Á að skilja þetta svo að karlmenn sem fengið hafa hæli hér á landi vegna samkynhneygðar áreiti konur eftir að alþjóðlega verndin er fengin?  Eru þeir kannski að beita blekkingum varðandi kynhneygðina?

Annað sem ekki síður er athyglisvert er:  "Leiðtogi eins hóps­ins hef­ur á síðustu miss­er­um sent tugi millj­óna króna úr landi. Sami maður hef­ur þegið fé­lags­lega aðstoð af marg­vís­legu tagi, þ. á m. fjár­hagsaðstoð á sama tíma. Fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ing­ar eru á þann veg að inn­an hópa þess­ara sé að finna rétt­nefnda „kerf­is­fræðinga“; ein­stak­linga sem búa yfir yf­ir­grips­mik­illi þekk­ingu á kerf­um op­in­berr­ar þjón­ustu og fé­lagsaðstoðar hér á landi."

Hvernig stendur á því að erlendir glæpamenn geti verið á opinberri framfærslu á Íslandi, stundað stórfell afbrot og sent tugi milljóna króna úr landi innpakkaðir í bómull hjá íslenskum félagsmálayfirvöldum?

Eins vaknar spurningar um hvers vegna mönnum sem áreita konur eru ekki sviptir alþjóðlegu verndinni og ekki síður hvort ekki sé a.m.k. hægt að svipta glæpaforingjann örorkubótunum í ljósi tugmilljónanna sem hann hefur handbærar og getur sent óhindrað hvert á hnöttinn sem honum sýnist.

Ekki síst er undarlegt ef þessir menn geti allir haldið áfram glæpastarfsemi sinni þrátt fyrir að lögregluyfirvöld virðist vita um allt um þeirra háttsemi.


mbl.is Leiðtogi sent tugi milljóna úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglaður samanburður við stórborgir

Borgaryfirvöld, sem hafa óþrjótandi hugmyndaflug í skattaálagningum, hafa nú kynnt nýjustu hugdettu sína um nýja skatta á Reykvíkinga.  Þessa flugu virðast þau hafa fengið í höfuðið í Noregi, en Óslóarborg hefur tekið upp innheimtu svokallaðra tafa- og mengunargjalda í miðborginni.

Á stórReykjavíkursvæðinu búa innan við tvöhundruðþúsund manns en á stórÓslóarsvæðinu er íbúafjöldinn um það bil ein milljón og fimmhundruðþúsund.  Líklega eru göturnar í Ósló álíka breiðar og göturnar í Reykjavík en umferðarþunginn tæplega átta sinnum meiri og því skiljanlegt að vandamál geti komið upp í umferðinni þar á álagstímum.

Í Reykjavík hefur allt verið gert sem yfirvöldum hefur komið í hug til að tefja og trufla umferð og þegar takmarki þeirra hefur verið náð um talsverðar umferðartafir á álagstímum boða þau nýja skatta á bíleigendur í þeirri von að geta þröngvað sem flestum upp í strætisvagna eða á reiðhjól.

Veðráttan í Reykjavík er ekki til þess fallin að stórauka reiðhjólamenningu og strætókerfið er svo bágborið og þjónustan léleg að ekki tekst að auka hlutfall þess af heildarumferðinni, þrátt fyrir tugmilljarða króna innspýtingu í kerfið á undanförnum árum.

Reykjavík er ekki stærri en svo að hún er eins og smábæjir í öðrum löndum og algerlega fáránlegt að líkja henni saman við stórborgir erlendis og virðist sú tilhneyging einna hels líkjast mikilmennskubrjálæði.

Til að toppa vitleysuna er boðað að þessi nýji skattur á bíleigendur skuli vera notaður til að niðurgreiða ferðakostnað þeirra sem neyddir verða til að nota strætisvagnana eftir að gatnakerfið verður endanlega eyðilagt.


mbl.is Minnihlutinn leggst gegn tafagjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkföll skipulögð vel og lengi

Sá sem hér slær á lyklaborð hefur haldið því fram frá því á haustdögum að til verkfalla yrði boðað með vorinu, hvað sem boðið yrði fram í kjaraviðræðunum enda væri búið að snúa áherslunni að stéttabaráttu og stjórnmálum.

Allan tímann sem kjaraviðræður hafa staðið yfir hefur formaður Eflingar sagt að félagið muni ekkert gefa eftir af kröfum sínum, hvorki gagnvart vinnuveitendum né ríkissjóði.  VR og verkalýðsfélög Akarness og Grindavíkur hafa látið teyma sig í gegnum viðræðurnar eins og hundar í bandi, þó allir viti að aldrei verður hægt að semja um 60-80% kauphækkun, jafnvel þó henni yrði dreift á þrjú ár.  Ekki getur ríkisstjórnin heldur látið Eflingu taka af sér og Alþingi löggjafarvaldið varðandi fjárlög ríkisins og landsstjórnina yfirleitt.

Formaður Eflingar var í viðræðum við fulltrúa atvinnurekenda í Kastljósi gærkvöldsins og lokaorð hennar þar sanna algerlega það sem haldið hefur verið fram, þ.e. að aldrei hafi staðið til að semja, heldur skyldi öllu stefnt í bál og brand í þjóðfélaginu með verkföllum.

Lokaorð formanns Eflingar í Kastljósinu voru eftirfarandi:  "Ef við vissum hversu miklu máli það skiptir fyrir stétt verka- og láglaunafólks að notfæra sér verkfallsvopnið, ekki aðeins til þess að ná fram sínum kröfum, heldur bara til þess að sýna sjálfum sér og samfélaginu öllu að við erum grunnurinn að því sem hér hefur verið byggt upp.  Við erum bara grunnurinn að því að þetta samféag geti lifað og starfað.  Þá værum við ekki á þessum absúrd stað í umræðunni."

Varla getur tilgangurinn með fyrirhuguðum verkföllum verið skýrari.


mbl.is Verkakonur í verkfall 8. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylduvandamál eiga varla erindi í fjölmiðla

U:ndanfarnar vikur hefur fjölskylduharmleikur innan fjölskyldu Jóns Baldvins Hannibalssonar verið áberandi í fjölmiðlum, fyrir utan ásakanir nokkurra kvenna á hendur honum um kynferðislegt áreyti.  

Ásakanirnar um áreytið eru flestar birtar nafnlausar og því vafasamara en ella að taka mark á þeim, þó varla sé hægt að reikna með að þær séu upplognar en auðvitað hefði rétta leiðin verið að kæra atvikin til réttra yfirvalda, því samkvæmt réttarríkinu skal maður teljast saklaus þar til sakir hafa verið sannaðar fyrir dómstólum.

Þó þjóðfélagsumræðan sé orðin öll önnur en hún var áður fyrr, þ.e. fyrir samfélagsmiðlana, er allt of langt gengið að ákærur um alls kyns uppákomur úr fortíðinni séu birtar áratugum eftir að meintir atburðir áttu sér stað og að því er virðist eingöngu til að hefna gamalla harma eða sverta meintan geranda af einhverjum öðrum sökum.

Fjölskyldudeilur vegna veikinda, eða meðhöndlunar þeirra, eiga í sjálfu sér ekkert erindi inn á samfélagsmiðlana og hvað þá fréttamiðlana og ættu a.m.k. þeir að varast að fjalla um svo viðkvæm mál og ættu að hafa í huga að ekki einungis deilendur í slíkum málum þurfa að þjást, heldur fljölskyldur allra sem þeim tengjast og eiga auðvitað enga aðkomu að málum.

Ekki verður hér minnst á athugasemdakerfi samfélagsmiðlanna og reyndar fréttamiðlanna einngig.  Þar birtast oft á tíðum þvílík ummæli að engu er líkara en viðkomandi ritari sé alls ekki með sjálfum sér.  Mál er linni á þeim vettvangi.


mbl.is Aldís kærir lögreglumann vegna vottorðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar ættu að biðjast afsökunar á frumhlaupi sínu og dónaskap

Píratar sýndu bæði dönsku og íslensku þjóðinni sem og þingum beggja, að ekki sé minnst á forseta danska þingsins ótrúlegan ruddaskap með því að mæta ekki á hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í tilefni eitt hundrað ára fullveldis Íslands.

Alveg eins og píratarnir eru fulltrúar þeirra sem kjósa þá til þings situr Pia Kjærs­ga­ard á danska þinginu kjörinn af kjósendum í lýðræðislegum kosnignum í Danmörku og danska þingið hefur sýnt henni þá virðingu að kjósa hana sem forseta sinn og fulltrúa til samskipta út á við þegar og þar sem við á.

Ekki eru allir sammála skoðunum Steingríms J. Sigfússonar og fyrirlíta hann jafnvel fyrir framgöngu sína í Icesavemálinu, en eftir sem áður verður fólk að sætta sig við að hann komi fram fyrir hönd Alþingis sem forseti þess á meðan flokkur hans á aðild að ríkisstjórn og tilnefnir hann í embættið.

Íslendingum, jafnvel þeim sem líkar afar illa við Steingrím J., myndi þykja það bæði dónaskapur og mikil móðgun við þing og þjóð ef danskur stjórnmálaflokkur myndi neita að mæta til hátíðarfundar í danska þinginu vegna þess að Steingrími J. væri boðið að halda þar hátíðarræðu vegna tengsla Danmerkur og Íslands í aldanna rás.

Píratar ættu að skammast sín fyrir ruddaskap sinn og biðja dönsku og íslensku þjóðina afsökunar á framkomu sinni.  Ekki skal þó reiknað með að að siðferði píratanna sé á nógu háu plani til að af því verði.


mbl.is Dónaskapur að virða ekki embættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur verður málamyndaborgarstjóri

Við kynningu á samstarfssáttmála "nýs" meirihluta í Reykjavík kom glögglega fram að Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri til málamynda, en fulltrúar Viðreisnar í borgarstjórninni munu hafa völdin í sínum höndum.

Þórdís Lóa verður formaður borgarráðs og sagðist myndu hafa stjórn fjármála borgarinnar á sinni könnu, en hingað til hafa þau heyrt undir borgarstjórann og Pavel verður forseti borgarstjórnar.  Þannig verða helstu valdaembættin bæði í höndum Viðreisnar og hlutverk Dags B. verður þá líklega ekki ólíkt því sem Jón Gnarr hafði á sínum tíma, þ.e. að vera borgarstjóri til málamynda.  Dagur B. mun þá hafa það hlutverk að koma fram á minniháttar mannamótum, en Þórdís Lóa og Pavel þar sem aðkoma borgaryfirvalda skiptir raunverulegu máli.

Samstarfssáttmáli meirihlutans er hins vegar óljóst og ómarkvisst plagg, þar sem í öllum helstu málum er rætt um að framkvæmdir þurfi að ræða við ríkið eða nágrannasveitarfélögin og því óvíst hvort og hvenær hlutirnir komist í framkvæmd, t.d. borgarlínan, bætt kjör kvennastétta o.fl., o.fl.

Ekkert er minnst á að bæta samgöngur í borginni, ekkert minnst á Sundabraut eða Miklubraut í stokk.  Borgarbúar, sem þurfa og vilja nota bílana sína sjá fram á að enn verður haldið áfram á þeirri braut að gera þeim lífið óbærilegra og enn er talað um að bæta strætókerfið og neyða fólk til að nota strætó í stað eigin bíla.

Ekkert er líklegra en að óánægja með ruglið í stjórnun borgarinnar muni aukast enn á kjörtímabilinu og tap Samfylkingarinnar og hrun Vinstri grænna í nýafstöðnum kosningum verði smámunir hjá útreiðinni sem þessir flokkar muni fá í næstu kosningum.

Jafnlíklegt er að örlög Viðreisnar verði þau að flokkurinn falli í sömu gröf og aðrir einnota flokkar sem upp hafa sprottið undanfarna áratugi en horfið jafnharðan og eru nú öllum gleymdir.


mbl.is Borgarlína „lykilmál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átakanleg saga af kerfi Dags og félaga í Reykjavík.

Félagslega kerfið í Reykjvíkurborg er í molum, eins og allir vita sem vita vilja, en átakanlegri lýsingu á samskiptum við fulltrúa kerfisins en fram kemur í viðtalinu við Aldísi Steindórsdóttur er varla hægt að ímynda sér.

Lýsing hennar á baráttunni við embættismenn Reykjavíkurborgar er svohljóðandi í Mogga dagsins:

„Ég hef ekki tölu á þeim fundum og viðtölum sem ég hef farið í út af húsnæðismálum pabba á þessum tveimur árum,“ segir Aldís. „Ég heyri yfirleitt sömu setningarnar, sömu stöðluðu svörin, en enginn býður upp á neinar lausnir.“

Hún segist hafa þurft að bíða lengi eftir að fá viðtal við umboðsmann borgarbúa, hún hafði samband í janúar og fékk boð um viðtal í byrjun apríl. Þar bað hún hann að hafa milligöngu um að hún fengi að ræða við yfirmenn á velferðarsviði borgarinnar. Því var hafnað, þar sem umboðsmaðurinn átti að vera milliliður á milli hennar og sviðsins. „Ég er semsagt að tala við einn embættismann sem síðan segir öðrum embættismanni allt það sem ég segi. Eru þetta góð vinnubrögð?“ spyr Aldís.

Um miðjan febrúar síðastliðinn óskaði hún eftir að fá að hitta Dag B. Eggertsson borgarstjóra til að ræða málefni föður síns, ekki var orðið við þeirri beiðni en henni boðið í staðinn að ræða við framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem fer með málefni Steindórs. Við tók nokkurra vikna bið eftir því samtali. „Því miður var ekki mikið annað rætt þar en að svona væri staðan bara, því miður.“

Ýmsir aðrir hafa kvartað yfir samskiptum sínum við embættismannakerfi Dags B. Eggertssonar og nægir að benda á að verktakar eru nánast búnir að gefast upp á að reyna að hafa samskipti við kerfið, sem þeir lýsa svo seinvirku og flóknu að jafnvel taki allt upp í þrjú ár að koma byggingaframkvæmdum af stað í borginni.

Lýsingin á þrautagöngunni um félagslega kerfið er hins vegar átakanlegt og svo lygilegt að erfitt er að ímynda sér hvernig í ósköpunum hægt er að koma svona fram við fólk í neyð.


mbl.is Geðfatlaður og býr í bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur

Engan hittir maður eða heyrir sem ánægður er með stjórn Reykjavíkurborgar og frekar er haft á orði að um óstjórn sé að ræða undir forystu Dags B. Eggertssonar og meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata.

Þó ótrúlegt sé, fá þessir flokkar þó ennþá meirihluta atkvæða í skoðanakönnunum vegna komandi borgarstjórnarkosninga og flestir nefna Dag sem ákjósanlegasta borgarstjóraefnið, þrátt fyrir að fáir virðast þora að kannast við þessa afstöðu sína opinberlega.

Ennþá eru tveir mánuðir til kosninga og ekki veður öðru trúað en að skoðanir stórs hluta kjósenda muni snúast frá stuðningi við núverandi meirhlutaflokka í Reykjavík, enda víðtæk óánægja með stjórnleysi þeirra sem hlýtur að koma fram á ögurstundu kosningadagsins.

Haldi meirihlutinn í Reykjavík í komandi kosningum eiga vel við gömlu góðu málshættirnir "að margt sé skrýtið í kýrhausnum" og að "þangað leiti klárinn sem hann er kvaldastur".

 


mbl.is Mestur stuðningur við Dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband