Á að birta skatta fyrirtækja á launaseðlum starfsmanna?

Samtök atvinnulífsins hafa tekið upp einkennilega upplýsingagjöf til starfsmanna sinna, þ.e. að birta tryggingagjaldið, sem lagt er ofan á launakostnaðinn, og hvetja öll fyrirtæki til að taka upp þessi vinnubrögð.

Þetta verður að teljast ótrúlegt uppátæki, þar sem launþeginn hefur ekkert með þennan skatt að gera og hefur enga aðkomu að álagningu hans frekar en annarra skatta sem lagðir eru á fólk og fyrirtæki.

Þessi upplýsingagjöf til launþeganna um einstaka skatta fyrirtækjanna er algerlega fáránleg og jafn vitlaus og ef fyrirtækin tækju upp á því að færa inn á launaseðla starfsmanna sinna hvað fyrirtækið greiðir í bifreiðagjöld, fasteignagjöld, tekjuskatta o.s.frv.  

Áður en fyrirtækin taka upp á þessari fáránlegu vitleysu ættu þau að birta launþegum sínum upplýsingar um hagnað af starfsemi fyrirtækisins og áætlun um hvernig hann skapast í hlutfalli við fjárfestingu rekstrarfjármuna og vinnu starfsmannanna.

Það væru fróðlegri útreikningar og skemmtilegri upplýsingar en hvernig hver og einn álagður skattur er reiknaður út.


mbl.is Fyrirtæki birti tryggingagjaldið á launaseðli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðalaun verði jafnsett öðrum tekjum

Frá og með síðustu áramótum voru fyrstu eitthundrað þúsund krónur atvinnutekna aldraðra undanskildar skerðingum á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga, en laun aldraðra frá lífeyrissjóðum sæta hins vegar skerðingu umfram tuttuguogfimm þúsund krónum.

Laun frá lífeyrissjóðunum eru í raun ekkert annað en frestuð greiðsla á atvinnutekjum á starfsævi fólks og ættu því skilyrðislaust að hljóta nákvæmlega sömu meðferðar gagnvart skerðingum tekna frá almannatryggingum. 

Annað er hrein mismunun fyrir utan óréttlætið sem þeir verða fyrir sem ekki geta eða vilja halda áfram á vinnumarkaði efir að eftirlaunaaldri er náð.

Fjöldi þeirra sem fá laun frá lífeyrissjóðum hefur þar lítil réttindi og fjöldi manns fær innan við eitthundraðþúsund krónur á mánuði frá sínum lífeyrissjóði og þarf því að sæta ógeðfelldum skerðingum á tekjunum frá almannatryggingum, en það er einmitt fólkið sem síst ætti að sæta nokkrum einustu skerðingum á sínum tekjum.

Þetta ósamræmi almannatrygginga í skerðingum launa eldri borgara verður að leiðrétta og færa skerðingarmörk lífeyrissjóðstekna upp í eitthundraðþúsund krónur ekki seinna en um næstu áramót.


mbl.is Starfshópur fjallar um kjör aldraðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrismálin verður að laga strax

Margir eldri borgarar hafa engar tekjur aðrar en þær sem naumt eru skammtaðar frá Tryggingastofnun ríkisins og enn fleiri hafa lágar lífeyrissjóðstekjur, sem verða svo til þess að smánarupphæðin frá Tryggingastofnun er skert. 

Þannig eru tekjurnar frá lífeyrissjóðunum í mörgum tilfellum nánast gerðar upptækar af ríkissjóði og í öllum tilfellum græðir fólk sáralítið á því að greiða til lífeyrissjóðanna alla sína starfsæfi.

Um síðustu áramót var skerðingarmark atvinnutekna hækkað í eitthundrað þúsund á mánuði, þ.e. eldri borgarar fá ekki skerðingu á tekjunum frá Tryggingastofnun vegna fyrstu hundrað þúsund krónua vinnutekna sinna og er það að sjálfsögðu heilmikil réttarbót fyrir þá sem ennþá eru á vinnumarkaði.

Ekki er nema tiltölulega lítill hópur fólks á launum frá Tryggingastofnun eða lífeyrissjóðum á vinnumarkaði og á því eru auðvitað ýmsar skýringar, svo sem heilsuleysi, áhugaleysi vinnuveitenda á því að hafa eldri borgara í vinnu og svo vilja margir njóta elliáranna í rólegheitum með sjálfum sér, maka sínum, ættingjum og vinum.

Næsta skref varðandi greiðslur frá Tryggingastofnun er að sjálfsögðu að hækka allar grunngreiðslur þannig að þeir sem ekki hafa aðrar tekjur geti lifað mannsæmandi lífi og þurfi ekki að neita sér um alla hluti og jafnvel svelta síðustu daga hvers mánaðar.

Samhliða því þarf auðvitað að setja eitthundrað þúsund króna tekjumark, án skerðinga, á allar lífeyristekjur því ekki stenst að gera upp á milli fólks eftir tegund þeirra tekna sem það hefur sér til framfærslu. 

Tekjur frá lífeyrissjóðm eiga að vera jafnsettar gagnvart Tryggingastofnun og atvinnutekjur, enda óvíst að annað standist jafnréttisákvæði stjórnarskrár.


mbl.is Eldri borgarar bíða réttlætis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furulegt hvernig bankar og lífeyrissjóðir hafa látið blekkjast

Allt í kringum stofnun og uppbyggingu United Silicon er með slíkum ólíkindum að hugmyndaríkustu glæpasagnahöfundar hefðu varla getað skálð upp þann söguþráð allan.

Frá upphafi virðist stofnandi og fyrrum forstjóri félagsins hafa dregið alla á asnaeyrunum varðandi málefni félagsins, svo sem ríkið, banka, lífeyrissjóði og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ.

Ofan á allt annað virðist forstjórinn, fyrrverandi, hafa stolið stjarnfræðilegum upphæðum sem hann hefur komið úr landi og virðist svo sjálfur vera kominn í felur, a.m.k. næst ekki til hans á uppgefnu heimilisfangi í Danmörku.

Málið allt virðist vera svo stórt í sniðum að furðulegt má heita að ekki skuli hafa verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á manninn og óskað aðstoðar Interpol við að hafa hendur í hári hans og framselja í hendur íslenskra yfirvalda.

Þó aðeins brot af þeim ásökunum sem settar hafa verið fram á hendur manninum væru sannar og hann fundinn sekur um þær, hlyti hann að teljast einn mesti glæpamaður þjóðarinnar og komast í sögubækurnar sem slíkur.  

Þetta mál verður að rannsaka frá upphafi til enda, frá öllum hliðum, enda eitt furðulegasta svika-, þjófnaðar- og blekkingamál sem upp hefur komið eftir blekkingarnar sem banksterar og útrásargengin beittu í aðdraganda bankahrunsins 2008.


mbl.is Magnús krafinn um hálfan milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlína og einkabíllinn eiga samleið

Nokkur umræða hefur skapast um svokallaða borgarlínu, sem er í grunninn sérstakar akreinar fyrir strætisvagna, og þrátt fyrir að samkomulag virðist vera orðið milli allra sveitarfélaga á Stór-Reykjavíkursvæðinu um framkvæmdina eru ekki allir sannfærðir um ágæti málsins.

Fólk virðist aðallega skiptast í tvær fylkingar vegna borgarlínunnar, þ.e. annar hópurinn krefst aukinna framkvæmda til að greiða fyrir umferð einkabíla og eyða óþolandi umferðahnútum á álagstímum og hinn hópurinn vill helst fækka einkabílum og nánast skylda fólk til að nota almenningssamgöngurnar.

Báðir hópar tefla fram sterkum rökum fyrir sínum málstað, en alger óþarfi er að stilla þessum valkostum upp hverjum á móti öðrum, því eðlilegasta lausnin er að efla hvort tveggja, þ.e. að greiða fyrir umferð einkabíla og efla almenningssamgöngur um leið, m.a. með borgarlínunni.

Einkabíllinn mun gegna stærsta hlutverkinu í samgöngum Íslendinga, sem annarra, um margra áratuga framtíð og að berjast gegn þeirri þróun er mikil skammsýni og ber ekki vott um mikinn skilning á þörfum og vilja stórs hluta íbúa um samgöngumöguleika sína.  Að sama skapi er lítil skynsemi í að berjast á móti þróun almenningssamganga, því að sjálfsögðu þarf að greiða fyrir hvoru tveggja. 

Strætisvagnakerfið í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum er ótrúlega óaðlaðandi ferðamáti og má þar bæði nefna leiðakerfið, ferðatíðnina, biðstöðvarnar og að bílstjórarnir skuli ekki geta tekið við staðgreiðslu fargjalda og haft skiptimynt í vögnunum til að gefa til baka ef farþegar hafa ekki smámynt í vösunum sem dugar fyrir farinu.

Í öllum nálægum löndum er slík þjónusta í boði í strætisvögnum og þrátt fyrir miklu meiri notkun vagnanna gefa bílstjórar sér tíma til að afgreiða þá farþega sem þurfa að staðgreiða fargjöld og sums staðar gegna vagnarnir a.m.k. að hluta til einnig sem þjónustufarartæki fyrir þá fatlaða sem geta nýtt sér þjónustu almenningsvagna.

Byrja þarf á því að gera almenningssamgöngur meira aðlaðandi fyrir viðskiptavinina með bættu leiðakerfi, boðlegum biðstöðvum og þjónustu og á sama tíma verður að stórlaga gatnakerfið í Reykjavík og greiða þar með úr umferð einkabíla.  Vitlausasta leiðin er að reyna að neyða fólk upp í strætisvagna sem alls ekki kæra sig um eða geta notað almenningssamgöngurnar.

Fólk á að geta valið um að nota einkabíl eða almenningssamgöngur.  Bíleigendur munu stundum nota strætisvagna ef leiðakerfið verður aðgengilegt og þægilegt og ekki þurfi að vera í hættu á að frjósa í hel við bið eftir vögnunum.

 


mbl.is Segir grein Frosta rökleysu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með Davíð Oddsson

Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, seðlabankastjóri og nú ritstjóri Morgunblaðsins, er sjötugur í dag og eru honum færðar innilegar haminguóskir með afmælið.

Ekki er síður ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með að hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa notið starfskrafta hans á öllum þessum sviðum, landi og þjóð til heilla.

Óþarft er að rekja sögu Davíðs Oddsonar í stuttri afmæliskveðju, en hans verður minnst svo lengi sem land byggist sem eins merkasta stjórnmálamanns Íslandssögunnar, þó ýmsir reyni að gera lítið úr verkum hans og níða hann niður á allan mögulegan hátt.

Slíkt niðurrif og persónuníð helgast aðallega af öfund andstæðinga hans vegna þess að þeir hafa aldrei átt annan eins foringja í sínum röðum og gera því það sem í þeirra valdi stendur til að fella Davíð af þeim stalli sem honum ber og þar sem hann gnæfir yfir samferðamenn sína á pólitíska sviðinu og mun hans nafn verða í heiðri haft löngu eftir að hælbítarnir verða öllum gleymdir.

Davíð Oddssyni eru hér með færðar hugheilar afmæliskveðjur og vonir um að þjóðin fái notið krafta hans um mörg ár enn.  Þjóðinni er jafnframt óskað til hamingju með þennan þjóðskörung.

Þess er jafnframt óskað að hann gefi sér tíma frá önnum dagsins til að skrifa ævisögu sína og greina þar frá glæsilegum ferli sínum og draga ekkert undan um samskipti sín við pólitíska samferðamenn, innlenda sem erlenda.


mbl.is Ekkert að hugsa um að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höldum í og eflum flugeldahefðina

Það er áratuga siður hér á landi að halda veglegar áramótabrennur og mikil þátttaka almennings í að skjóta upp flugeldum og verða þeir æ skrautlegri með hverju árinu sem líður.

Á árum áður tóku börn og unglingar sig saman eftir hverfum og söfnuðu efni í brennur og var mikil samkeppni um hverjir næðu að safna í mestu bálkestina og stundum hljóp krökkunum svo mikið kapp í kinn að vissara var að vakta vígin  til að forðast að óprúttnir keppinautar kveiktu í þeim fyrir áramótin.

Með sífellt meira reglugerðarfargani þjóðfélagsins endaði með að nú má enginn safna efni í brennu nema opinberir aðilar og almenningur má þar hvergi koma nálægt að öðru leyti en því að mæta á svæðið á gamlárskvöldi sem áhorfendur.  

Hinn almenni borgari hefur þó verið áhugasamur um að skjóta upp flugeldum og er það ólíklega nokkursstaðar á jarðarkringlunni sem óbreyttir borgarar standa fyrir tignarlegri skrautsýningu um áramótin og tíðkast hér á landi.  Björgunarsveitirnar hafa reitt sig á þennan áhuga og afla mestan hluta tekna sinna með flugeldasölunni, þó því miður hafi fleiri sótt inn á þann markað á síðustu árum.

Nú eru farnar að heyrast raddir um að banna flugeldana um áramótin vegna þess að frá þeim stafi hávaði og mengun.  Ekki eru þó til nokkrar tölur um að einn einasti maður hafi skaðast að þeim sökum um áramót, en vissulega hafa orðið misalvarleg slys við meðhöndlun skoteldanna, en það hefur þá oftast verið vegna fikts eða óvarlegrar meðferðar þeirra.

Vonandi mun almenningur standa fast gegn hvers konar tilraunum til að banna þessa glæsilegu áramótahefð og haldi áfram að láta björgunarsveitirnar sitja fyrir flugeldaviðskiptunum.


mbl.is Heilbrigt fólk gæti fundið fyrir áhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðhundarnir eru ennþá á ferðinni

Nú þegar rifjuð er upp aðförin að Steinunni Valdísi Óskarssyni á árinu 2010 fyrir engar aðrar sakir en að hafa hagað prófkjörsbaráttum sínum á sama hátt og aðrir stjórnmálamenn fyrr á tíð og aldrei verið sýnt fram á að hún, eða aðrir, hafi brotið nokkur lög sem þá voru í gildi né að um óeðlileg tengsl hafi verið að ræða við þá sem styrkina veittu.

Steinunn Valdís var hins vegar talin liggja vel við höggi og vera auðveldari bráð en margur annar, vegna þess að hún var kona og móðir og því myndi ofbeldið sem heimili hennar var beitt verða árangursríkara en ef skrílslætin væru í frammi höfð fyrir utan heilimi Dags B. Eggertssonar, eða annarra sem samskonar styrki þáðu í prófkjörsbaráttu sinni.

Á sínum tíma var aðförin að Steinunni Valdísi fordæmd á þessari bloggsíðu, t.d. hérna: 

https://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/1045434/  og hérna:  

https://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/1060363/

Óþjóðalýðurinn sem stóð að þessari aðför að Steinunni Valdísi ætti að skammast sín fyrir fólsku sína og óþverrahátt, en til þess eru líklega litlar líkur og frekar að sagan endurtaki sig, eða eins og sagt var í einum þessara bloggpistla:  "Það er lágmarkskrafa, að í réttarríki sé hver maður álitinn saklaus, þangað til annað sannast og algerlega óásættanlegt að sá sem saklaus er, skuli þurfa að leggja fram sérstakar sannanir þar um, eingöngu vegna ofsókna ákveðins hóps í þjóðfélaginu, sem heilagari þykist vera en aðrir.

Með afsögn Steinunnar Valdísar hafa blóðhundarnir náð að rífa í sig fyrsta fórnarlambið og þegar þeir komast á bragðið hætta þeir aldrei árásum sínum og fá aldrei nóg. Að því leyti til er afsögn Steinunnar Valdísar óheppileg, en skiljanleg vegna þeirra ofsókna sem hún hefur orðið fyrir af hendi óvandaðra manna, því þarf sterk bein til að þola slíkt á heimili sínu, kvöld eftir kvöld.

Jafnvel þó allir, sem eina krónu hafa þegið í styrki vegna stjórnmálabaráttu sinnar, segðu af sér strax á morgun, myndu blóðhundarnir ekki hætta að gelta og glefsa, því þá yrðu bara einhverjir aðrir fyrir barðinu á þeim, þar sem blóðþorstinn slökknar ekki þó ein bráð sé felld.

Það er ófögur birtingarmynd þess þjóðfélags sem hér virðist vera að mótast, þegar löghlýðnir borgarar geta ekki orðið um frjálst höfuð strokið fyrir sjálfskipuðum aftökusveitum."

Því miður virðist fátt hafa breyst í þessum efnum, eins og ósvífnar árásir á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hafa sýnt undanfarnar vikur og ef að líkum lætur verður þeim haldið eitthvað áfram, eða a.m.k. þangað blóðhundarnir finna sér aðra bráð til að gelta að og glefsa í.


mbl.is „Öskureið að rifja þetta upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúran verður ekki barin niður með lurk, en...............

Ótrúlegur fjöldi kvenna hefur stigið fram að undanförnu og skýrt frá kynferðislegu áreiti og í mörgum tilfellum ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir af hendi karlmanna og virðist nánast engin kona hafa sloppið algerlega við slíkt í störfum og leik.

Ótrúlegur fjöldi karlmanna, á öllum aldri og öllum störfum, virðist halda að í lagi sé að káfa á, strjúka óeðlilega og klípa konur hvenær sem færi gefst og miðað við frásagnirnar er eins og þeim þyki þetta vera eðlileg framkoma og samskipti milli kynjanna.

Flestar sögurnar sem birst hafa lýsa algerlega óþolandi hugsunarhætti og framkomu og þrátt fyrir að með slæðist frásagnir af misskildum gullhömrum um klæðaburð eða líkamsvöxt og ýmislegt sem flokka mætti sem kynjalausa stríðni, dregur það ekkert úr alvarleika þessa máls í heild og nauðsyn algerrar uppstokkunar í hugmyndaheimi margra karlmanna um almenna kurteisi og siðsemi í mannlegum samskiptum.

Það er hreinlega ótrúlegt að nokkrum karlmanni geti fundist þessi grófa framkoma eðlileg og því er óskiljanlegt að samt sem áður sé þetta eins algeng framkoma og frásagnir kvennanna sýna.  Að káfa á brjóstum og rössum á ekkert skylt við saklaust daður eða lýsingu á hrifningu og þó margir karlmenn séu óöryggir og feimnir við konur, afsakar það ekkert svona framkomu.  Ofbeldi og nauðgun er toppurinn á þessu kynbundna ofbeldi og ætti alltaf að kæra til lögreglu og algerlega verður að vera tryggt að þolendur fái aðstoð og vernd yfirmanna, eigi slíkt ofbeldi sér stað á vinnustað viðkomandi.

Í gamla daga var sagt að mannleg náttúra yrði ekki lamin niður með lurk, en það sama ætti alls ekki að eiga við um þá sem ekki geta hamið hana og beita aðra ofbeldi til að uppfylla fýsnir sýnar eða drottnunargirni.


mbl.is Sagt að þær verði bara að þola þetta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Vinstri grænum að takast að gera sig ómerka

Engum getur dulist að eftir þriggja daga stíf "óformleg" fundahöld Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks hefur legið á borðinu nánast frágenginn stjórnarsáttmáli, þó sjálfsagt hafi átt eftir að fínpússa einhver atriði í "formlegum" viðræðum.

Með þá niðurstöðu fór Katrín Jakobsdóttir inn á þingflokksfund VG til kynningar, en á meðan hún sat á hinum "óformlegu" fundum í umboði þingflokksins hafði varaformaður flokksins með stuðningi "villikattanna" í flokknum unnið hörðum höndum að því að grafa undan formanninum og eyðileggja sem mest fyrir Katrínu og hennar fylgismönnum innan flokksins.

Fjöggurra klukkustunda fundur þingflokksins í gær skilaði ekki niðurstöðu og hefur framhaldsfundur verið boðaður í dag klukkan eitt eftir hádegi.  Þá munu úrslit um framtíð Katrínar sem formanns VG ráðast eða hvort hún hrökklast úr þeim stóli og varaformaðurinn taki við stjórnartaumunum.

Fari svo mun varaformaðurinn ganga beint inn í ríkisstjórn sem formenn Samfylkingar og Viðreisnar eru búnir að stofna fyrir hann ásamt Pírötum og Flokki fólksins.  Framsóknarflokkurinn hlýtur að hafa meiri sjálfsvirðingu en svo að hann léti véla sig inn í slíkan bræðing.

Ríkisstjórn Loga og Katrínar, með eins manns meirihluta á Alþingi, mun að sjálfsögðu verða skammlíf og því stutt þar til kosið verði enn á ný.

Örlög Katrínar, bæði sem formanns VG og sem trúverðugs stjórnmálamanns, munu ráðast fljótlega eftir hádegið í dag, 13. nóvember 2017.  Þetta verður sögulegur dagur í íslenskri stjórnmálasögu, hvernig sem fer.

 

 


mbl.is Fundi slitið hjá VG – „Þetta stendur í þeim“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband