Covid-19 veiruna þarf að taka alvarlega hér á landi

Eftir því sem best er vitað átti Covid-19 veiran upptök sín á "matarmarkaði" í Wuhan í Kína seinnihluta desembermánaðar s.l., þannig að hún hefur einungis herjað á fólk í u.þ.b. tvo mánuði.  Á þessum stutta tíma hafa tugþúsundir manna smitast af veirunni og þúsundir látist af hennar völdum.

Í upphafi var sagt að veiran smitaðist alls ekki á milli manna, en fljótlega var þeirri yfirlýsingu breytt og þá sagt að smitleiðin gæti verið með snertingu og því var fólk hvatt til að þvo sér vel um hendur og spritta þær á eftir til að drepa veiruna og hindra smit þannig.

Í Kína hafa nokkrar milljónaborgir og nærsveitir þeirra verið settar í sóttkví og ferðir bannaðar á milli svæða og allt reynt til að hefta útbreiðslu óværunnar og virðast þær hörðu ráðstafanir hafa skilað þeim árangri að nýsmituðum virðist heldur fækka þar í landi, þó smitin séu fjölmörg ennþá frá degi til dags.

Nú er svo komið að veiran hefur borist til tuga landa utan Kína og jafnvel svo komið að nýjustu smitin er alls ekki hægt að rekja beint til Kína og ekki hefur tekist að upplýsa í öllum tilfellum hvernig fólk hefur smitast.  Líklegast af öllu er að viðkomandi hafi verið í nálægð við kínverskan ferðamann eða einhvern sem hefur jafnvel hitt slíkan ferðamann á förnum vegi.

Þessar nýjustu fréttir af útbreiðslu veirunnar virðast benda til þess að smit geti borist manna á milli án snertingar, þ.e. þá með andardrætti, hósta og hnerra.  Því hefur verið haldið fram að veiran gæti ekki lifað á dauðum hlutum, þ.e. fatnaði og umbúðum vara í sendingum milli landa.

Alltaf þegar fréttir eru sagðar af fjölda sýktra og þeirra sem látist hafa af hennar völdum er alltaf tekið fram að svo og svo margir hafi náð sér af veikindunum og virðist það látið fylgja með til að róa fólk og minnka kvíða vegna þessa óhugnaðar sem nú herjar á mannfólk.

Veiran virðist hafa verið höfð í hálfgerðum flimtingum hér á landi og lítið gert úr hættunni sem af henni stafar.  Nú hlýtur að vera kominn tími til að landlæknir, smitsjúkdómalæknir og aðrir opinberir aðilar fari að leggja spilin á borðið og útskýra almennilega fyrir þjóðinni hvernig á að bregðast við þegar fárið skellur yfir landið af fullum þunga.


mbl.is 50 þúsund Ítalir í sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hvaða spil eiga þessir aðilar, sem þú nefnir að leggja á borð, Axel?  Er ekki ljóst að sá, sem gegnir embætti sóttvarnarlæknis hjá Embætti Landlæknis, er óhæfur til að tryggja öryggi þjóðarinnar þegar heimsfaraldur brýzt út. Hann virðist álíta það hlutverk sitt, að róa almenning og koma í veg fyrir ímyndaða móðursýki með því að upplýsa ekki um alvarleika þessa faraldurs sftir beztu vitneskju hverju sinni. Við erum í einstakri aðstöðu hér. Með einni tilskipun er hægt að breyta landinu í sóttkví en einhvernveginn vill enginn axla þá ábyrgð. Vonum bara að heimflutningur þessara Íslendinga frá Vuhan dragi ekki dilk á eftir sér.  Það er líka skrítið að upplýsa ekki hvaða fjölskylda/einstaklingar, þetta var, svo nágrannar þeirra geti tekið upplýsta ákvörðun um viðbrögð.  

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.2.2020 kl. 23:50

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er lágmarkskrafa að heilbrigðisyfirvöld hætti að tala eins og þessi óværa sé tiltölulega hættulaus og að flestir læknist af henni eftir þrjár til fjórar vikur og gera lítið úr þeim dauðsföllum sem af veirunni hljótast.

Einnig er lágmark að almenningur verði upplýstur, með góðum fyrirvara, um hvernig yfirvöld ætli að bregðast við þegar veiran fer að gera usla hér á landi.  Hvar á að einangra þá sjúku og hvar eiga þeir sem telja sig smitaða að gefa sig fram, en það eina sem hingað til hefur verið sagt um þau mál, er að fólk eigi alls ekki að koma nálægt landspítalanum eða heilsugæslustöðvunum. 

Ekkert hefur verið upplýst um hvernig á að berjast við vírusinn eða hvar og hvernig viðbrögð verða við vánni.

Axel Jóhann Axelsson, 24.2.2020 kl. 10:37

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Á vef Landlæknis eru almennar ráðleggingar, sem eiga frekar við um venjulega flensu eða kvefpestir.  Ekkert er minnst á einangrun, eða aðrar þær hörðu ráðstafanir sem aðrar þjóðir hafa gripið til vegna þessarar stórhættulegu veiru.

Landlæknir hefur þessar ráðleggingar fram að færa:  https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item38998/Leideiningar-til-almennings--Dregid-ur-sykingarhaettu-

Axel Jóhann Axelsson, 24.2.2020 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband