Bloggfærslur mánaðarins, september 2010
9.9.2010 | 08:58
Stefna ætti sex ráðherrum fyrir Landsdóm
Þingmannanefnd Atla Gíslasonar mun líklega skila niðurstöðu sinni um hvort og þá hvaða ráðherra skuli kalla fyrir Landsdóm vegna ráðherraábyrgðar í aðdraganda efnahagshrunsins árið 2008, sem orsakaðist fyrst og fremst vegna ofvaxtar bankanna og óheiðarlegs reksturs þeirra.
Að því er fréttir herma er líkleg niðurstaða nefndarinnar sú, að fyrir Landsdóm skuli stefna ráðherrunum Geir Haarde, Árna Matthíasen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðssyni, en allt mun hafa farið upp í loft innan Samfylkingarinnar vegna Björgvins, þar sem Össur Skarphéðinsson berst hatrammlega gegn því, að honum verði stefnt fyrir dóminn og til að kaupa hann lausan er Árni boðinn í skiptum, þannig að einungis Geir og Ingibjörgu verði ákærð.
Þetta er vægast sagt einkennilegur póker, sem þarna er spilaður, sérstaklega þar sem aðalspilarinn, Össur Skarphéðinsson, ætti einnig að vera kallaður fyrir Landsdóm, enda leysti hann Ingibjörgu Sólrúnu af í veikindum hennar og sat fjölda funda um málefni bankanna fyrir hrunið.
Einnig ætti að stefna Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir Landsdóminn, því hún sat í sérstakri fjárhagsnefnd ríkisstjórnarinnar á þessum tíma, ásamt Geir, Árna og Ingibjörgu (Össuri) og ef einhverjum á að stefna fyrir dóm á annað borð, ætti það að vera þessi hópur ráðherra, sem fjallaði um öll efnahagsmál mánuðina fyrir hrunið.
Eðlilegast væri því að stefna sex ráðherrum fyrir Landsdóminn, en ekki fjórum, eða tveim, eins og yfirklórarinn Össur vill, til að frýja sjálfan sig og Jóhönnu allri ábyrgð.
![]() |
Líkur á landsdómi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.9.2010 | 20:53
Ætti aldrei að tjá sig opinberlega
Jón Gnarr hefur enn á ný sannað, að hann ætti alls ekki að tjá sig opinberlega um nokkurn hlut, því honum farnast það svo illa og klaufalega, að leitun er að öðrum eins aulahætti nokkurs manns sem gegnir ábyrgðarstöðu.
Ef hann hefur haldið að það þætti fyndið úti í Evrópu, að hann skuli segjast liggja yfir klámi á netinu, þá er hann jafnvel skyni skorpnari en áður var talið og var þó ekki úr háum söðli að detta. Reyndar þykir ekki heldur sniðugt hér á landi að kjörnir fulltrúar fólksins séu að gantast með klámfíkn og ef um einhvern annan en Jón Gnarr væri að ræða, færi allt á hvolf í þjóðfélaginu og viðkomandi yrði ekki vært í embætti eftir það.
Jóni Gnarr líðst þetta sjálfsagt, enda tekur enginn manninn alvarlega. Verst er að hann er búinn að koma slíku óorði á borgarstjóraembættið, að langan tíma mun taka að endurvekja trúverðugleika þess.
![]() |
Ætlar aldrei aftur til Brussel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
7.9.2010 | 18:50
Jón Gnarr í útrás
Jón Gnarr mun vera kominn í útrás með hugmyndir Besta flokksins um græna borg, en hann er nú staddur í Brussel til að kenna Evrópubúum fræðin, enda þekkir enginn þar um slóðir gróður eða græn svæði, eins og allir vita sem komið haf til landa í álfunni. Vonandi mun ekki fara fyrir útrás Jóns Gnarrs eins og endirinn varð á útrás fyrirrennara hans í þeim geira.
Besti flokkurinn hefur hins vega engan áhuga á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár, ramma- og aðgerðaáætlun, eða forgangsröðun verkefna og alls ekki sátt við borgarfulltrúa minnihlutans um þau efni, sem skipta hagsmuni borgarinnar og borgarbúa einhverju verulegu máli.
Líklega heldur meirihluti borgarstjórnar áætlunum sínum leyndum fyrir minnihlutanum og almenningi vegna þeirra hækkana á sköttum og þjónustugjöldum, sem líklega er ætlunin að skella á borgarbúa um áramótin og því verður komið seint og um síðir komið fram með tillögurnar, til þess að gefa sem minnstan tíma í umræður um þær.
Vonandi skrifar Jón Gnarr um flugþreytu og annað álíka uppbyggilegt í vefdagbók sína, en hingað til hefur dagbókin aðallega fjallað um þreytu, höfuðverk og úrillsku borgarstjórans.
![]() |
Gagnrýna fjarveru á fundi borgarstjórnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2010 | 12:12
Færeyingar þurfa ekkert að skammast sín
Magni Laksáfoss, þingmaður í Færeyjum, segir færeysku þjóðina skammast sín fyrir ummæli Jenis av Rana um Jóhönnu Sigurðardóttur og neitun hans að taka þátt í kvöldverðarboði henni til heiðurs. Afstaða Jenis stafar af viðhorfum hans til samkynhneygðra, sem söfnuður hans í Færeyjum finnur út úr túlkun sinni á biblíunni.
Færeyingar eiga alls ekkert að skammast sín fyrir manninn, heldur vera stoltir af því að í landi þeirra skuli vera málfrelsi og þegnarnir hafi full frelsi til að haga lífi sínu á þann hátt, sem þeir kjósa. Jafn fáráðleg, sem manni finnst þessi skoðun hans, þá er ástæðulaust að fordæma manninn sem boðar hana, en hinsvegar þarf að berjast gegn þessum skoðunum eins og öðrum öfgahugmyndum.
Hér á landi er námvæmlega sömu öfgaskoðanir að finna og Jenis av Rana stendur fyrir og hér hefur fólk neitað að hitta og sitja til borðs með erlendum ráðamönnum vegna skoðana og starfa þeirra í heimalöndum sínum. Íslenska þjóðin skammaðist sín ekkert fyrir þá aðila, heldur virtu skoðanir þeirra og rétt til að hafa þær, þó ekki væru allir sammála, hvorki skoðununum né mótmælunum.
Færeyingar eru frábær vinaþjóð Íslendinga og eiga að vera stoltir af sjálfum sér og eyjunum sínum. Einnig þeim sem hafa einstrengingslegar skoðanir á meðan þeir halda sig innan ramma laga og regla og slasa engan, eða eyðileggja eignir annarra.
![]() |
Segir Færeyinga skammast sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
7.9.2010 | 00:44
Beinar skuldir Gaums aðeins hluti sannleikans
Kristín Jóhannesdóttir hefur sent frá sér yfirlýsingu í nafni Bónusgengisins um að skuldir Gaums séu "aðeins" sex milljarðar króna og vill með því leiðrétta rangfærslur um skuldastöðu félagsins, eftir því sem hún segir. Gaumur er eins og kunnugt er eignarhaldsfélag Bónusgengisins, og á og er í ábyrgðum fyrir 50 milljarða skuldum 1988 ehf., sem aftur átti Haga, sem Arion banki hefur nú yfirtekið.
Ekki gefur hún upp hve skuldir Haga eru miklar, en þær munu þó nema a.m.k. 20 milljörðum króna, eftir því sem fregnir herma og því er borin von til þess að félag sem ekki skilaði nema 45 milljóna króna hagnaði á síðasta rekstrarári seljist fyrir upphæð, sem dugi til að greiða upp skuldir 1688 ehf. og hvað þá Gaums að auki. Þrátt fyrir ekki meiri hagnað en þetta er félaginu gert að greiða gengisforingjanum 114 milljón króna "starfslokagreiðslu" fyrir "vel" unnin störf á undanförnum árum.
Bónusprinsessan segir um fyrirhugaða sölu Arion banka á Högum í yfirlýsingunni: "Við söluna mun væntanlega koma í ljós, hvað kemur uppí skuldir 1998 ehf., ekki fyrr. Samkvæmt þessu gerir Bónusgengið ekki sjálft ráð fyrir því að söluverð Haga dugi til að greiða upp skuldir 1988 ehf. og alls ekki að eignarhaldsfélagið fái við hana nokkuð til sín af söluverðinu. Þar með er það orðið viðurkennd staðreynd að Gaumur getur ekki greitt neitt af skuldum sínum og því er Bónusgengið skyldugt samkvæmt lögum að lýsa félagið gjaldþrota.
Fyrirsögn yfirlýsingar Bónusgengisins varðandi skuldir Gaums hljóðaði á þennan veg: Er sannleikurinn sagna verstur?. Svarið við spuningunni er auðvitað nei, því sannleikurinn er sagna bestur.
Allra best er þó að segja allan sannleikann og ekki sakar að standa líka við orð sín og skuldbindingar og taka afleiðingum misgerða sinna.
![]() |
Beinar skuldir Gaums 6 milljarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2010 | 19:50
Er Arion banki samsekur um lögbrot?
Kyrrstöðusamningurinn sem Arion banki gerði við Bónusgengið vegna Gaums hlýtur að jaðra við þátttöku í lögbroti, þar sem skuldara sem kominn er í greiðsluþrot er skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta, samkvæmt lögum nr. 21/1991, með síðari breytingum.
Í þeim lögum segir m.a:
4. þáttur. Gjaldþrotaskipti.
XI. kafli. Upphaf gjaldþrotaskipta. 64. gr. Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.
Skuldara, sem er bókhaldsskyldur, er skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er orðið ástatt fyrir honum sem segir í 1. mgr.
Algerlega augljóst er að Bónusgengið hefur margbrotið þessa lagagrein með því að gefa ekki upp bú Gaums og 1988 ehf. til gjaldþrotaskipta og með síðustu aðgerðum sínum verður ekki annað séð en að Arion banki sé orðinn samsekur um að brjóta gegn gjaldþrotalögunum.
Bankastjóri Arion segir að allir standi jafnir í viðskiptum við bankann, en greinilegt er að ekki fá allir jafn mikinn bónus frá honum og Bónusgengið.
![]() |
Bankarnir skuldi skýringar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2010 | 08:12
Er Landeyjahöfn algerlega mislukkuð?
Þann 21. júlí s.l. byrjaði Herjólfur siglingar frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn og voru miklar vonir bundnar við þessa nýju höfn, enda ekki nema rúmlega hálftíma sigling þangað frá Heymaey. Ekki voru allir á eitt sáttir við valið á hafnarstæðinu og töldu að veður og vindar væru þar svo óhagstæðir að ekki yrði auðvelt að halda uppi ferjusiglingum á þennan stað.
Frá því að Herjólfur hóf siglingar sínar til Landeyjarhafnar, hefur nokkrum sinnum þurft að fella niður ferðir vegna veðurs og ölduhæðar og nú er svo komið að höfnin hefur fyllst svo af sandi og ösku, að skipið tók þar niðri og skipstjórinn treystir sér ekki til að sigla aftur, fyrr en búið verður að dýpka höfnina og innsiglinguna í hana.
Miðað við hve margar ferðir hefur þurft að fella niður í sumar, vakna upp vangveltur hvernig muni ganga að halda uppi þessum samgöngum yfir vetrarmánuðina, en veður eru oft válynd við suðurströndina yfir veturinn. Einnig hlýtur að mega reikna með miklu meira sandróti við höfnina í þeim brimsköflum sem þar skella á yfir vetrartímann.
Komandi vetur mun væntanlega skera úr um, hvort Landeyjahöfn sé algerlega mislukkuð fjárfesting.
![]() |
Herjólfur hægði á sér í drullunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.9.2010 | 20:34
Ótrúlega mikil ánægja með Jón Gnarr sem borgarstjóra
Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup eru rúm 40% þjóðarinnar ánægð með Jón Gnarr sem borgarstjóra og virðist ánægjan því meiri sem svarendur eru yngi og lengra frá Reykjavík. 42% er alveg sama um störf hans og 17% eru verulega óánægðir.
Ánægja 40% aðspurðra með borgarstjórna höfuðborgarinnar þætti ekki merkileg niðurstaða við venjulegar aðstæður og eftir svo stutta setu, verður hún að teljast með ólíkindum í þessu tilfelli, þar sem Jón Gnarr hefur ekkert sýnt af sér í stöðu borgarstjórna, annað en þátttöku í gleðigöngu og að auglýsa fyrir bílaumboð. Ekkert hefur fést af stórum ákvörðunum nýs meirihluta og ef þarf að svara fyrir eitthvað, gerir Dagur það, enda Jón Gnarr algerlega ófær um að tjá sig um það sem skiptir máli, enda ekkert inni í neinu, sem skiptir máli.
Til að viðhalda gleði þessara 40% prósenta þjóðarinnar, sem aðallega virðast vera kjósendur Besta flokksins og Samfylkingarinnar, þarf Jón Gnarr bara að halda sig við það sem hann er góður í, en það er að blogga á dagbókinni sinni um hvað hann sé þreyttur, með mikinn höfuðverk, skapillur og fúll út í Sjálfstæðismenn fyrir að dirfast að gagnrýna getu- og framkvæmdaleysi hans við stjórn borgarinnar.
Jón Gnarr sagðist í kosningabaráttunni ekki ætla að gera neitt í borgarstjóraembættinu, aðeins þiggja góð laun og einkabílstjóra. Við það hefur hann staðið með heiðri og sóma.
![]() |
40% ánægð með störf borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.9.2010 | 13:26
Snautlegar skýringar Arion banka
Vegna mikilla umræðna um kyrrstöðusamning Arion banka við Baugsgengið vegna skulda þess við bankann vegna eignarhaldsfélags síns, Gaums og dótturfélagsins 1988 ehf., sem aftur á Haga hf., sem nýlega verðlaunaði Gengisforingjann fyrir eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar, eftir aðeins tuttugu ára "viðskiptaferil" með 114 milljóna króna "starfslokagreiðslu", ásamt því að kaupa einbýlishús, sumarbústað og bíl fyrir 41 milljón krónur. Miðað við lífsstandardinn á Bónusbenginu fram að þessu, virðast þetta vera afar verðlitlar eignir á þann mælikvarða.
Arion banki reynir að verja kyrrstöðusamninginn með því, að verið sé að gæta hagsmuna bankans og tínir m.a. til eftirfarandi atriði því til sönnunar:
"bankinn leitar allra leiða til að tryggja hagsmuni sína sem kröfuhafa í þessu máli sem öðrum
kyrrstöðusamningar eru í ákveðnum tilvikum leið til verja slíka hagsmuni og eru í eðli sínu tímabundin frysting lána meðan unnið er að greiningu og úrlausn vandans
í öllum þessum tilvikum væntir bankinn þess að eitthvað það gerist áður en fresturinn er úti sem verði til þess að bankinn sjái hagsmunum sínum betur borgið sem kröfuhafi"
Ekki verður séð hvernig bankinn tryggir hagsmuni sína betur með frystingu lána, því ekki batna veðin neitt við það og ef og þegar skuldari getur gert upp lánið, eða byrjað að greiða inn á það að nýju, er bankanum í lófa lagið að endursemja um alla skilmála lánsins og fella niður dráttarvexti, gefa afslátt af vöxtum og þess vegna höfuðstól, ef hann telur skuldarann ekki geta greitt hann að fullu.
Hvað telur bankinn að gerist áður en kyrrstöðusamningar við Baugsgengið renna út, sem verði til þess að hagsmunum bankans verði betur borgið? Getur verið að hann vænti þess að Baugsgengið nái Högum undir sig aftur fljótlega og geti þar með mjólkað það fyrirtæki og þannig greitt inn á skuldasúpu eldri eignarhaldsfélaga sinna?
Ef ekki berast frekari skýringar frá bankanum, verður að flokka þessar sem hreint yfirklór.
![]() |
Segja kyrrstöðusamning ekki fela í sér sérkjör |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.9.2010 | 13:02
Ætli Davíð sé á bak við þetta?
Þegar Baugsmálið fyrsta var til rannsóknar og fyrir dómstólum var allur almenningur sannfærður um að Davíð Oddsson stæði á bak við "ofsóknirnar" á hendur Bónusgenginu, enda tókst genginu að kaupa sér almenningsálitið með gengdarlausum áróðri í fjölmiðlum sínum og skipulögðum árásum leigupenna gegn perónu hvers þess, sem reyndi að benda á lögbrot gengisins á fleiri sviðum en þeirra, sem akkúrat voru til rannsóknar í það sinnið.
Á síðust árum hefur verið að afhjúpast hvert hneykslið á fætur öðru, sem tengist "viðskiptum" Bónusgengisins og tengjast þau hverju einasta fyrirtæki, sem gengið hvefur tengst í gegnum tíðina og Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni, að Bónusgengið hefði ekki átt minnstan þátt í því efnahagshruni, sem banka- og útrásargengin ollu þjóðfélaginu, en sömu einstaklingarnir áttu og stjórnuðu bæði bönkunum og öllum helstu fyrirtækjum hér á landi.
Nýjar og gamlar upplýsingar sýna svart á hvítu hverning Bónusgengið og félagar svindluðu í rekstri FL-Group (síðar Stoðir hf.) og fölsuðu verð á ýmsum félögum í "sölu" sín á milli og sýndu með því miklu betri eiginfjárstöðu, sem aftur leiddi til þess að stærri og stærri lán var hægt að taka út á veð í þessum félögum, sem síðan fóru á hausinn hvert af öðru og reyndust nánast eignalaus, þegar gera átti upp þrotabúin.
Þó tókst gengjunum að koma nokkrum eignum undan þrotabúunum, með dyggri aðstoð bankanna og nægir þar að nefna Haga og Iceland Express. Arion banki virðist nú tilbúinn til að afskrifa tugmilljarða skuldir af Bónusgenginu og jafnvel koma Högum í þess hendur aftur, eftir krókaleiðum og Iceland Express virðist í mikilli útþenslu um þessar mundir, enda félaginu komið undan gjaldþroti Fons á gjafverði.
Vilhjálmur Bjarnason, formaður Félags fjárfesta, hyggst nú fara í skaðabótamál geng Bónusgenginu og Pálma í Iceland Express vegna þess skaða sem "staðfastur brotavilji" þeirra olli fjárfestum og hluthöfum þeirra hlutafélaga og banka, sem fjárfestar treystu fyrir sparnaði sínum, þ.m.t. lífeyrissparnaði.
Ætli Davíð standi ennþá á bak við allar þessar "ofsóknir" á hendur "blásaklausra" velunnara þjóðarinnar, sem ennþá sýnir þessum gengjum velþóknun sína og vináttu með viðskiptum sínum.
![]() |
Stálu frá og eyðilögðu FL |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)