Snautlegar skýringar Arion banka

Vegna mikilla umræðna um kyrrstöðusamning Arion banka við Baugsgengið vegna skulda þess við bankann vegna eignarhaldsfélags síns, Gaums og dótturfélagsins 1988 ehf., sem aftur á Haga hf., sem nýlega verðlaunaði Gengisforingjann fyrir eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar, eftir aðeins tuttugu ára "viðskiptaferil" með 114 milljóna króna "starfslokagreiðslu", ásamt því að kaupa einbýlishús, sumarbústað og bíl fyrir 41 milljón krónur.  Miðað við lífsstandardinn á Bónusbenginu fram að þessu, virðast þetta vera afar verðlitlar eignir á þann mælikvarða.

Arion banki reynir að verja kyrrstöðusamninginn með því, að verið sé að gæta hagsmuna bankans og tínir m.a. til eftirfarandi atriði því til sönnunar:

"bankinn leitar allra leiða til að tryggja hagsmuni sína sem kröfuhafa í þessu máli sem öðrum

kyrrstöðusamningar eru í ákveðnum tilvikum leið til verja slíka hagsmuni og eru í eðli sínu tímabundin frysting lána meðan unnið er að greiningu og úrlausn vandans

í öllum þessum tilvikum væntir bankinn þess að eitthvað það gerist áður en fresturinn er úti sem verði til þess að bankinn sjái hagsmunum sínum betur borgið sem kröfuhafi"

Ekki verður séð hvernig bankinn tryggir hagsmuni sína betur með frystingu lána, því ekki batna veðin neitt við það og ef og þegar skuldari getur gert upp lánið, eða byrjað að greiða inn á það að nýju, er bankanum í lófa lagið að endursemja um alla skilmála lánsins og fella niður dráttarvexti, gefa afslátt af vöxtum og þess vegna höfuðstól, ef hann telur skuldarann ekki geta greitt hann að fullu.

Hvað telur bankinn að gerist áður en kyrrstöðusamningar við Baugsgengið renna út, sem verði til þess að hagsmunum bankans verði betur borgið?  Getur verið að hann vænti þess að Baugsgengið nái Högum undir sig aftur fljótlega og geti þar með mjólkað það fyrirtæki og þannig greitt inn á skuldasúpu eldri eignarhaldsfélaga sinna?

Ef ekki berast frekari skýringar frá bankanum, verður að flokka þessar sem hreint yfirklór.


mbl.is Segja kyrrstöðusamning ekki fela í sér sérkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þunnt er þetta. Til samanburðar þá hefur BM-Vallá líklega ekki skuldað Arion nógu mikið til að öðlast "rétt" á þessu þegar Arion ákvað að keyra það fyrirtæki í þrot fyrr á árinu.

Björn (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 13:48

2 Smámynd: Trausti Þór Karlsson

Nú finn ég mig knúinn til að skilja eftir athugasemd til þess að leiðrétta þig Axel góður, bara svona svo við fáum staðreyndirnar á hreint í allri þessari umræðu sem er svo mikilvægt í nútímasamfélagi, allavega að mínu mati. Þær eignir sem Jóhannes keypti voru ekki einbýlishús heldur lítil raðhúsíbúð og þessi sumarbústaður er að mér skilst ekki upp á marga fiskana. Burt séð frá því hvernig persónulegur samningur bankans við Jóhannes hljóðaði þá kemur þessi kyrrstöðusamningur Arion banka Jóhannes persónulega lítið við þar sem hann og öll Baugsfjölskyldan er ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir Gaumi sem þýðir að ef Arion hefði látið Gaum fara í gjaldþrot þá hefði það bitnað lítið á Jóhannes og félögum.

Nú veit ég ekki alveg skoðun þína á öllu þessu máli Axel en er bankinn ekki í raun og veru einfaldlega að reyna að tryggja hagsmuni sína með þessum samningum við Gaum svo þeir tapi ekki stórkostlega á þessu fyrrum ævintýri útrásarvíkinganna?

Ég get þó alveg sagt þér það Axel að persónulega vona ég að Baugsgengið nái ekki aftur Högum undir sig og þar held ég að við getum verið sammála.

Trausti Þór Karlsson, 5.9.2010 kl. 16:10

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Trausti, þegar "starfslokasamningurinn" við Bónusgengisforingjann var kynntur, var sagt að hann hefði keypt íbúðarhús, sumarbústað og bíl, sem hann hefði haft til afnota frá Högum, sjálfsagt til margra ára.  Því sagði ég að ef 41 milljón væri raunvirði fyrir þessar eignir, þá væru þær ekki í takt við þann lífsstandard sem þetta gengi hefði tamið sér í gegnum tíðina.  Sé þetta "aðeins" íbúð í raðhúsi, þá hefur hún væntanlega aðeins verið til gistingar í skamman tíma, hverju sinni, því höllinn sem foringinn býr í fyrir norðan er í eigu annars hlutafélags, sem skráð er erlendis og veðsett fyrir fjögurhundruð milljónir króna.  Eins hljómar nokkuð ótrúlega, að sumarbústaðurinn sé "ekki upp á marga fiska", en a.m.k. hafa gengismeðlimirnir ekki verið þekktir fyrir að aka um á ódýrum bíldruslum.  Hafi þessi viðskipti öll verið á markaðsvirði og hin heiðarlegustu, þá hlýtur það líka að vera alger nýlunda í sögu þessa útrásargengis.

Að hinu leytinu verður ekki séð í fljótu bragði, hvernig Arion banki tryggir hagsmuni sína eitthvað betur gagnvart Gaumi með kyrrstöðusamningnum, því engar líkur eru á því að það félag efnist stórlega á næstunni og eins og þú segir, hefur gengið gætt þess vandlega í gegnum tíðina að blanda sér aldrei í skuldirnar með persónulegum ábyrgðum.  Gengið hefur aldrei tekið nokkra einustu áhættu í "viðskiptum" sínum, en eingöngu hirt út rífleg laun og arð, sem enginn veit hvar er niðurkominn.

Við erum a.m.k. sammála um að vonandi sé öllum afskiptum Baugsgengisins af íslensku viðskiptalífi að ljúka.

Axel Jóhann Axelsson, 5.9.2010 kl. 16:29

4 identicon

Síðasta spurning þín er áhugaverð. Ég veit ekki alveg hvað vakir fyrir bankanum en ég er þó viss um það að bankinn er að reyna að fá það út úr þessu sem hægt er

Mér skilst að kyrrstöðusamningur feli í sér það sama og frysting lána. Allir íslensku bankarnir hafa gert slíka samninga, ekki síst eftir hrun. Þetta er einnig þekkt um allan heim, hef ég heyrt, til þess að kröfuhafinn fái sem mest út úr dæminu.


Með kyrrstöðusamningi getur kröfuhafi (bankinn) t.d. fengið aðgang að mikilvægum upplýsingum, sem hann annars ætti erfitt með að fá. Þær upplýsingar gætu verið ígildi verðmæta. Þar að auki stundum getur tíminn skipt máli þegar koma á eignum í verð, frekar en að selja þær á brunaútsölu.

Ég held að það sem þú kallar starfslokasamning komi þessu máli ekki beint við. Það hefur áður komið fram að það samkomulag var gert til að koma Jóhannesi út úr Högum, setja honum skorður í viðskiptum og koma í veg fyrir að hann fari í samkeppni.
Það var gert til að koma Högum í eðlilegt söluferli.

Í sambandi við bústaðinn, þá hef ég heimildir fyrir því að umræddur bústaður sé gamall vinnuskúr í Hrunamannahreppi, sem aðeins er búið að lífga upp á. Þetta er nú bara eitthvað sem ég hef heyrt, en ef það er satt, er það þá ekki gott dæmi um það að Jóhannes í Bónus sé farinn að lifa í nýjum raunveruleika, í stað lúxusins sem áður var?

Ég sé ekki að bankinn komist upp með að ljúga til um þessar upphæðir, svo ef þessi 41 milljón er sögð vera andvirði eignanna, þá verðum við bara að trúa því. Það væri svo auðvelt að snúa bankann niður ef hann væri að ljúga.

Raðhúsíbúð: 20 milljónir
Gamall bústaður: 15 milljónir
Bíll: 6 milljónir

Gæti þessi samsetning gengið upp?

Heiðar Þór (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 18:10

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Raunveruleikinn eftir gjaldþrot er ekki ný og minni útgáfa af lúxus.

Raunveruleikinn er sá að þegar venjulegur Jóhannes verður gjaldþrota, þá á hann ekkert eftir. Hvorki raðhúsaíbúð, sumarbústað né bíl. Að auki verður hann hundeltur það sem hann á eftirlifað af kröfuhöfum.

Venjulegi Jóhannes fær ekki skilnaðargjafir frá lánardrottnum sínum uppá tugi milljóna.

Venjulega Jóhannesi er ekki gefinn kostur á að kaupa ákveðnar rekstrardeildir úr gjaldþrotabúinu sínu. Hvort sem hann hefur efni á því eða ekki.

Eflaust þekkja flestir íslendingar einhvern, ættingja eða vini sem hafa gengið í gegn um gjaldþrotaskipti. Einfaldast er því að spyrja viðkomandi hvort þeir hafa notið sömu fyrirgreiðslu og Jóhannes.

Kolbrún Hilmars, 5.9.2010 kl. 18:31

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég get staðfest að ég þekki fólk sem hefur rekið fyrirtæki, sem hafa orðið gjaldþrota.  Í þeim tilfellum höfðu bankarnir krafist persónulegra baktrygginga vegna skulda fyrirtækjanna og því urðu einstaklingarnir sjálfir gjaldþrota í framhaldinu.

Aldrei var boðið upp á kyrrstöðusamninga, starfslokasamninga og hvað þá að viðkomandi fengju að kaupa eitt eða neitt út úr fyrirtækjunu og ekki einu sinni íbúðina, eða einkabílinn sem bankinn hafði hirt upp í skuldir fyrirtækjanna.

Þetta voru að vísu bara venjulegir Jóhannesar.

Axel Jóhann Axelsson, 5.9.2010 kl. 18:49

7 identicon

Heiðar Þór (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 20:47

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Heiðar, er ekki munurinn sá, að mörg fyrirtækja Atorku Group eru ennþá í fullri starfsemi og þess vegna von til að verðmæti skili sér til baka við sölu þeirra, þó síðar verði.

Eru nokkur fyrirtæki Baugs eða Gaums í rekstri lengur?  Nema auðvitað Hagar, sem Arion (Kaupþing) lánaði 1988 efh. 50 milljarða króna til að kaupa út úr Baugi, áður en sú samsteypa fór á hausinn.  Að sjálfsögðu hefur 1988 ehf. aldrei greitt eina krónu af þeirri skuld, frekar en önnur fyrirtæki Bónusgengisins.

Axel Jóhann Axelsson, 5.9.2010 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband