Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Kynþáttafordómar á hættulegu stigi

Kynþáttafordómar hafa lengi verið við lýði meðal hluta þjóðarinnar, en með aukningu ferðalaga til útlanda og talsverðum flutningi fólks af hinum ýmsu kynþáttum til landsins undanfarana áratugi, hefði mátt ætla að skilningur manna í milli myndi aukast og fordómarnir hverfa.  Fordómarnir hafa þó ekki algerlega horfið og skjóta alltaf upp kollinum öðru hverju.

Nýjasta dæmið um slíka fordóma er af alvarlegri gerðinni, þar sem tveir, eða fleiri, menn hafa undanfarið herjað á átján ára gamlan íslenskan pilt, af erlendum uppruna, með líflátshótunum og árásum og skemmdarverkum á heimili hans.  Ofsóknir þessar virðast gerðar til að hræða piltinn og vinkonu hans frá því að hittast og vera saman.  Þessar ofsóknir hafa verið að stigmagnast að undanförnu og er nú svo komið, að pilturinn og faðir hans hafa flúið land vegna ótta um líf sitt og limi af hálfu þessara ofbeldismanna.

Hart verður að berjast gegn hvers konar kynþáttafordómum hér á landi, sem og öðrum fordómum, og taka alvarlega, þegar kvartað er undan slíku við lögregluyfirvöld, því allt getur farið í bál og brand, ef slíkar ofsóknir leiða til alvarlegra líkamsmeiðinga, að ekki sé talað um manndráp. 

Saga slíkra mála í nágrannalöndum okkar ætti að vera víti til varnaðar og öllum ráðum verður að beita, til að slíkt ástand þróist ekki hérlendis.


mbl.is Feðgar flýðu land vegna hótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarríkið í pólitískri gíslingu?

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi þingmaður og núverandi yfirfangavörður, reynir að benda á málefnaleg rök fyrir því, að það muni ekki samrýmast mannréttindaákvæðum að stefna ráðherrum fyrir Landsdóm, því lögin um hann séu löngu úrelt og uppfylli engin nútímaskilyrði um rannsóknir og ákærur.

Í fréttinni kemur m.a. eftirfarandi álit Margrétar á þeim þingmönnum, sem stefna vilja ráðherrum fyrir Landsdóm:  "Hún sagði að þingmenn sem það styðji viti ekki hvað þeir geri og verði af ákærunum sé brotið á rétti fyrrverandi ráðherranna fjögurra, Geirs H. Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvins G. Sigurðssonar. Búast megi við því að málið endi fyrir mannréttindadómstólum." 

Margrét hefur einnig bent á, að ráðherrarnir hafi ekki fengið stöðu grunaðra manna og engin opinber rannsókn hafi farið fram af þar til bærum rannsóknaraðilum, en ríkisvaldið á að vera þrískipt og því skýtur afar skökku við, að Alþingi skuli taka sér ákæruvaldið gagnvart framkvæmdavaldinu, en dómsvaldið skuli ekki koma þar nærri.

Að sjálfsögðu falla málefnalegar umræður ekki í kramið, þegar fjallað er um þessi mál, frekar en mörg önnur, enda virðist ríkisstjórnin og meirihluti þingmanna vera í pólitískri gíslingu þeirra öfgaskoðana, sem nú tröllríða þjóðfélaginu og blóðþorstanum sem engin leið virðist vera að slökkva.

Nú tíðkast að skjóta fyrst og spyrja svo, sérstaklega ef pólitískir andstæðingar eiga í hlut.


mbl.is Fráleitt að sækja ráðherrana til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er dómur þegar fallinn - á götunni?

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar skilar af sér, þríklofin, í Landsdómsmálinu, þ.e nefndin komst ekki að niðurstöðu um hvort og þá hverjum ráðherranna úr síðustu ríkisstjórn skuli stefnt fyrir dóminn.  Meirihluti nefndarinnar vill láta stefna fjórum ráðherrum, þeim Geir Haarde, Árna Matthiasen, Ingibjörgu Sólrúni Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðssyni, en Samfylkingarfulltrúarnir í nefndinni vilja sleppa Björgvini, líklega vegna þess að hann vitneskju um bankamál hafi verið haldið frá honum og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki ástæðu til að kveðja saman Landsdóm, þar sem litlar, sem engar líkur séu á því, að sakfelling næðist fram fyrir dómstólnum og því ekki réttlætanlegt að ákæra.

Sérstaka athygli vekur, að fyrst fulltrúar Samfylkingarinnar telja að Björgvin hafi ekki haft neina vitneskju, eða aðkomu, að þeim málum sem féllu undir hans ráðuneyti, skuli þeir ekki leggja til að þeir ráðherrar, sem leyndu hann upplýsingum og fóru í raun með ákvarðanatöku fyrir hönd Samfylkingarinnar í efnahagsmálum í fyrri ríkisstjórn, skuli ekki ákærðir og stefnt fyrir Landsdóminn í stað Björgvins.  Þetta eru að sjálfsögðu ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson, sem var staðgengill Ingibjargar Sólrúnar í veikindum hennar og Jóhanna Sigurðardóttir, sem sat í sérstöku fjögurra manna ráðherrateymi, sem fjallaði reglulega um stöðu bankanna og fjármál ríkisstjóðs.

Eigi yfirleitt að kalla saman Landsdóm í fyrsta sinn í sögunni, þá á að sjálfsögðu að stefna fyrir hann a.m.k. sex ráðherrum síðustu ríkisstjórnar og þar á meðal núverandi forsætisráðherra, sem samkvæmt eigin ráðleggingum til annarra, ætti bara að vera fegin, því þá gæfist henni kostur á að hreinsa nafn sitt fyrir dómi.

Samkvæmt viðbrögðum á blogginu og víðar, mun þó engu skipta hvað sakborningarnir munu legga fram, sér til málsbóta, fyrir réttinum, því fyrirfram er búið að dæma þá seka, alla málsvörn sem yfirklór og sjálfsréttlætingu, sem að engu skal hafa, eða meta, en kasta út umsvifalaust út í hafsauga.  Dómstóll götunnar er ekki vanur að meta málsástæður eða rök.  Allir dómar eru felldir af tilfinningu og oftast hatri á sakborningum og málsvörn aldrei tekin til greina.

Ábyrgð Alþingis í þessu máli, sem öðrum, er meiri en dómstóls götunnar og því verður þingið að skoða mál frá fleiri en einni hlið.  Vonandi verður það gert á faglegan hátt í þessu máli, en ekki eftir utanaðkomandi þrýstingi.


mbl.is „Röng niðurstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jón Ásgeir kominn á atvinnuleysisbætur?

Jón Ásgeir, Bónusbarón, segist vera orðinn algerlega launalaus á Íslandi, eftir að 365 miðlar hættu að greiða honum 3,7 milljónir króna á mánuði fyrir "ráðgjafastörf" og nú sé hann upp á framfærslu eiginkonu sinnar kominn, en hún skammti honum nú vasapeninga fyrir Diet Coce og fleira smálegu, sem hann þarfnast, þegar hann heimsækir ættland sitt ástkæra.

Þetta eru dapurleg umskipti frá velmektardögunum, þegar Bónusbaróninn gat veitt sér ýmislegt smálegt í heimsóknum sínum til landsins, en þá skammtaði Bónusveldið honum allt frá nokkur hundruðum milljóna króna til tveggja milljarða í eyðslufé árlega, eða eins og segir í fréttinni af greinargerðinni, sem hann sendi frá sér vegna kyrrsetninga á eignum hans í Bretlandi:

"Í greinargerðinni kemur einnig fram, að mánaðarleg útgjöld Jóns Ásgeirs á árunum 2001-2008 hafi verið á milli 272 þúsunda til 352 þúsunda punda á mánuði. Jón Ásgeir segir að miða eigi við gengið 125 krónur fyrir pundið og samkvæmt því voru útgjöldin 34-44 milljónir króna á mánuði. Ef miðað er við núgildandi gengi pundsins voru útgjöldin 49-64 milljónir á mánuði.

Eitt ár, 2007-2008, hafi útgjöld hans hins vegar verið nærri 11 milljónir punda, jafnvirði  2 milljarða króna á núverandi gengi. Það megi rekja til brúðkaups hans, greiðslna vegna snekkju og styrks vegna Formúlu 1 kappaksturs."

Vonandi hefur blessuðum drengnum tekist að spara svolítið í útgjöldunum, eftir að konan fór að skammta honum vasapeninga, því ekki tókst honum, að eigin sögn, að leggja fyrir til elliáranna af þessum aurum, sem hann hefur haft úr að spila á undanförnum árum.

Í greinargerðinni segir Jón Ásgeir af fyllstu hógværð: „Ég fellst að sjálfsögðu á að þessi útgjöld voru umtalsverð."  Já, það er dýrt að stunda kappakstur og kaupa snekkjur, að ekki sé talað um að gifta sig, það gerir enginn fyrir minna en milljarð nú til dags, eins og allt er orðið dýrt.  Þetta hljóta allir að sjá og skilja, enda hlýtur Bónusbaróninn að njóta samúðar þjóðarinnar vegna launamissisins.

Skyldi maðurinn ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum?  Þær gætu létt undir með eiginkonunni.


mbl.is Fær ekki lengur greitt frá 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vanræksla alltaf refsiverð?

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram það álit nefndarinnar, að þrír ráðherrar hafi sýnt af sér vanrækslu með aðgerðarleysi í aðdraganda bankahrunsins, t.d. Geir Haarde með því að bregðast ekki við og grípa til ráðstafana til að minnka bankakerfið, Árni Mathiesen með því að láta ekki greina stöðu bankakerfisins og Björgvin G. Sigurðsson með því að sýna ekki frumkvæði, eftir að vandamál með bankana fóru að koma í ljós á árinu 2008.

Í sjálfu sér má velta því fyrir sér, til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hefði átt að grípa til, til þess að minnka bankakerfið, því varla hefði verið hægt að setja lög um að þeir greiddu upp öll sín erlendu lán, sem námu þá þegar óheyrilegum og óviðráðanlegum upphæðum og varla hefði verið hægt að skikka þá til að gjaldfella öll sín útlán á einu bretti.  Aðgerðir ríkisstjórnar gegn einkabönkum hefðu líklega verið taldar brjóta EES samninginn, en bankarnir störfuðu samkvæmt lögum og reglum um fjórfrelsið og þar á meðal um frjálsa fjármagnsflutninga.

Það sem þó var ámælisvert, eftir á séð, var að koma ekki með einhverju móti í veg fyrir opnun Icesave reikninganna í Hollandi í maímánuði 2008 og að hvorki ríkisstjórnin eða fjármálaeftirlitið skuli hafa tekið á því, að Icesave í Bretlandi yrði komið í dótturfélag innan breskrar lögsögu. 

Hvort svona vanræksla er svo refsiverð, því getur enginn skorið úr nema dómstóll, en ef vanræksla í starfi er alltaf refsiverð, eru líklega margir sakborningar sem ganga lausir í þessu þjóðfélagi.


mbl.is Athafnaleysi þriggja ráðherra jafngilti vanrækslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður engum stefnt fyrir Landsdóm?

Þingnefnd Atla Gíslasonar, sem hefur það hlutverk að kanna og skila áliti um hvort og þá hverjum ráðherranna í síðustu ríkisstjórn verði stefnt fyrir Landsdóm, vegna hugsanlegrar vanrækslu í störfum í aðdraganda bankahrunsins 2008.

Nefndin hefur verið að störfum mánuðum saman og samkvæmt fréttum hefur hún haldið daglega fundi undanfarnar vikur og fjöldi lögspekinga komið fyrir nefndina til álitsgjafar.  Einnig hefur komið fram að skýrsla nefndarinnar sé a.m.k. 300 blaðsíður og sýnir þetta allt saman hve yfirgripsmikið starf nefndarinnar hefu verið.  Samt sem áður er það með ólíkindum, að nefndin skuli ekki vera komin að endanlegri niðurstöðu í málinu, hálfum sólarhring áður en hún á að skila áliti sínu til Alþingis.

Nefndin mun reyna fram á kvöld að komast að niðurstöðu í málinu, en þessi langi tími, sem farið hefur í verkið og sú staðreynd að niðurstaða skuli ekki vera fengin, bendir eindregið til þess að mikill vafi leiki á því að til sakfellingar myndi koma fyrir Landsdómi og nefndin muni því varla mæla með að dómurinn verði kallaður saman.

Hafa verður í heiðri þá sjálfsögðu reglu, að fólki sé ekki stefnt fyrir dómstóla nema meiri líkur en minni séu á að sekt verði sönnuð.


mbl.is Skýrslan prentuð í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg viðbrögð vegna hótana um Kóranabrennu

Ótrúleg móðursýki virðist hafa gripið heimsbyggðina vegna heimskulegra áforma prests í 50 manna örsöfnuði í þorpskrummaskuði í Bandaríkjunum, sem enginn hafði áður heyrt minnst á, um að efna til Kóranabrennu til að minnast árásanna á tvíburaturnana, sem áttu sér stað 11/09 2001.  Allir helstu ráðamenn veraldar hafa risið upp og skorað á prestlinginn að hætta við brennuna, en hann var hinn þverasti þar til varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hringdi í rugludallinn og grátbað hann um að hætta við gjörninginn.

Þetta verða að teljast ótrúleg viðbrögð, því ekki hika múslimar við að svívirða og brenna biblíur og er skemmst að minnast þess, að Talíbanar myrtu níu vesturlandabúa vegna þess að þeir voru með biblíur í fórum sínum og varla þarf að reikna með að biblíunum hafi verið sýndur miklill sómi eftir morðin og reyndar alls ekki ólíklegt að þær hafi verið brenndar.

Múslimar hafa oft brennt biblíur í mótmælum sínum gegn vesturlöndum og önnur trúarbrögð en múslimsk eru ekki eingöngu illa séð í t.d. arabalöndum, heldur víða bönnuð með öllu og líflát liggur við því, að skipta úr múslimatrú í kristna trú.  Ekki myndi veröldin ganga af göflunum, þó biblíur yrðu brenndar, hvort sem er í austurlöndum eða í stórborgum vesturlanda og alls ekki myndi komast í heimspressuna þó einhver öfgamaður í afskekktu þorpi léti sér detta slíkt í hug. 

Öfgafullir múslimar sýna kristnum eða biblíunni  enga virðingu og því ætti heimurinn að halda sönsum, þó einn öfgaprestur í bandarísku krummaskuði láti sér detta í hug að kveikja í múslimskum trúarritum.  Þau ættu varla að vera heilagri í augum kristinna manna en biblían.


mbl.is Hættur við Kóranabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afskipti ráðherra, sem sjálfum ætti að stefna fyrir Landsdóm

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson virðast komin í hár saman vegna mismunandi afstöðu til þess, hvaða ráðherrum fyrrverandi ríkisstjórnar beri að stefna fyrir Landsdóm, vegna hugsanlegrar vanrækslu í aðdraganda hrunsins árið 2008.  Jóhanna vill að fjórum ráðherrum verði stefnt fyrir dóminn, en Össur aðeins tveimur.

Í fyrsta lagi eru þetta algerlega óþolandi afskipti af störfum þingnefndar Atla Gíslasonar, sem á að skila niðurstöðu sinni til þingflokka á morgun, laugardag, og í öðru lagi ætti að stefna bæði Jóhönnu og Össuri fyrir Landsdóminn, verði einhverjum ráðherrum stefnt fyrir hann á annað borð.  Jóhanna sat í fjárhagsnefnd ráðherra í síðustu ríkisstjórn með Ingibjörgu Sólrúnu, Geir Haarde og Árna Mathíasen og Össur var staðgengill Ingibjargar í veikindum hennar og sat fjölda funda um bankamálin og hélt öllum upplýsingum leyndum fyrir Björgvini G. Sigurðssyni, bankamálaráðherra, í fullu samráði við Ingibjörgu Sólrúnu.

Eftir því sem fréttir herma, er líklegt að nefnd Atla leggi til að fjórum ráðherrum, þeim Geir, Árna, Ingibjörgu og Björgvini, verði stefnt fyrir Landsdóminn, og fari svo hlýtur Alþingi að bæta þeim Jóhönnu og Össuri á listann, eða sem líklegra er, að fella tillögu nefndarinnar, enda harla litlar líkur á að um sakfellingu yrði að ræða fyrir dómstólnum.

Alla vega verður að reikna með að sex ráðherrum verði stefnt, eða engum.  Ef einhverjir ráðherrar teljast persónulega sekir um að hafa á þátt í að valda hruninu, eru Össur og Jóhanna þar ekki undanskilin.


mbl.is Jóhanna beitti þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr: "Ég er bara ég"

Í enn einu viðtalinu kemur Jón Gnarr fram eins og lætur eins og hann geti hagað sér eins og hann vilji í borgarstjóraembættinu og ef honum líki ekki við spurningar fréttamanna í útlöndum, þá svari hann bara út í hött og ætlast til að allur heimurinn skilji hvað hann sé gríðarlega fyndinn, að eigin mati.

Í viðtalinu við mbl.is segist Jón Gnarr bara vera hann sjálfur og ætli að halda því áfram, enda hafi hann verið kosinn borgarstjóri í Reykjavík út á það.  Í því að vera Jón Gnarr sjálfur mun felast að vera öðruvísi en aðrir og hafa leyfi til að láta út úr sér hvaða vitleysu sem er og það meira að segja án þess að þurfa að spyrja borgarráð um það, eins og hann hreykir sér af að ætla ekki að gera.

Ein mesta vitleysan, sem vall upp úr manninnum í viðtalinu var, að hann hefði verið kosinn borgarstjóri í Reykjavík.  Það er hreint ekki rétt því Besti flokkurinn fékk 20.666 atkvæði af 63.019 atkvæðum sem greidd voru á kjörstað, eða 32,79% greiddra atkvæða.  Hann var því alls ekki kosinn í borgarstjórastólinn af Reykvíkingum, heldur voru það borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar sem úthlutuðu honum borgarstjórastólnum.  Stórlega má efast um að 11.344 Reykvíkingar hafi kosið Samfylkinguna með það sérstaklega í huga, að með því væru þeir að kjósa Jón Gnarr í embætti borgarstjóra.

Svona æxlast nú málin í pólitíkinni og Jón Gnarr ætti að skilja það að hann situr í borgarstjórastólnum í skjóli Samfylkingarinnar og á undir hennar þolinmæði, hvað hann situr þar lengi.  Þegar menn taka að sér að gegna ábyrgðarstörfum eiga þeir að sýna ábyrgð í starfinu, en ekki "halda bara áfram að vera þeir sjálfir" og láta eins og kjánar, ef það hæfir ekki starfinu.

Skoðanakannanir hafa sýnt að minnihluti fólks er ánægt með störf Jóns Gnarr í embætti og ef hann ætlar bara að vera hann sjálfur, mun sú ánægja ekki aukast á næstunni. 


mbl.is „Ég er og verð óviðeigandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar hafa ekki hækkað, segir Steingrímur

Steingrímur J. heldur því fram að skattar hafi ekki hækkað í hlutfalli við heildarverðmætasköpun í landinu og trúi því hver sem vill, en það gera a.m.k. ekki launþegar, sem finna verulega fyrir aukinni skattheimtu af launum þeirra og hækkun verðlags vegna hækkana ríkisins á ýmsum gjöldum, sem leggjast á vöruverð, að ógleymdri hækkun á virðisaukaskatti.

Enginn fyrirtækjastjórnandi í landinu mun heldur taka undir það, að skattar hafi ekki hækkað og nægir að nefna launaskattinn í því sambandi, en hann hefur hækkað um rúm 47% í tíð Steingríms J. í fjármálaráðuneytinu. 

Atvinnuleysi er mikið og fjöldi fólks flutt úr landi og því hefur skattgreiðendum fækkað sem því nemur og þeir sem ennþá halda atvinnu sinni hafa flestir orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu, þannig að sama krónutala í sköttum núna vegur miklu þyngra í heimilisbókhaldinu, heldur er hún gerði fyrir tveim árum.

Allir finna fyrir skattahækkanabrjálæðinu sem dunið hefur á þjóðinni undanfarin tvö ár og enginn nema Steingrímur J. getur réttlætt frekari árás á kaupmátt almennings með meira af slíku, en Steingrímur J. boðar þó ennþá hærri álögur og virðisaukaskattshækkanir um áramót.

Nú er mál að linni í þeim efnum.

 


mbl.is Hægt og bítandi að endurheimta stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband