Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Hæstiréttur: Hetja eða skúrkur?

Þegar Hæstiréttur felldi þann dóm 16. júní s.l. að gengistrygging lána með höfuðstól í íslenskum krónum væri ólögleg, fagnaði almenningur og þakkaði sínum sæla fyrir Hæstarétt og taldi að loksins sannaðist að rétturinn væri óháður og sanngjarn og tæki ekki við neinum fyrirmælum frá framkvæmdavaldinu varðandi dóma sína.

Í dag er væntanlegur annar dómur vegna "gengislánanna", nú vegna vaxta af þeim, og miðað við þá umræðu sem farið hefur fram undanfarið, mun Hæstiréttur annað hvort verða hetja á ný í augum almennings, ef hann dæmir að samningsvextir skuli gilda á lánunum,  eða hann verður í huga fólks alger skúrkur og drusla, sem aldrei geti tekið afstöðu með neinum, nema ríkinu og fjármagnseigendum, en þeir eru í hugarheimi margra orðnir að algerum óargadýrum, á meðan við skuldarar erum eina heiðvirða og mikilsmetna fólkið í þjóðfélaginu.

Spurningin sem brennur á allra vörum er, hvort í Hæstarétti sitji hetjur eða skúrkar.  Almenningur mun dæma um það eftir klukkan fjögur í dag og mun ekki þurfa langar vitnaleiðslur til að kveða upp sinn dóm, því niðurstaða hans hefur legið fyrir lengi.


mbl.is Dómur í gengislánamáli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingið sameinist um Landsdómskærur

Lögin um Landsdóm eru í fullu gildi, hvað sem fólki finnst um þau, og úr því að ákveðið hefur verið að stefna ráðherrum úr síðustu ríkisstjórn fyrir dóminn er afar mikilvægt að það verði ekki gert með pólitískum hrossakaupum og klíkuskap, t.d. með því að sleppa því að stefna ráðherrum, sem vitneskju höfðu um hvað var að gerast í aðdraganda bankahrunsins og áttu þátt í þeim aðgerðum/aðgerðaleysi, sem nú þykja falla undir saknæmt athæfi.

Viðbrögð við tillögum Atlanefndarinnar hafa valdið miklum titringi innan þingflokkanna, sérstaklega þingflokks Samfylkingarinnar, sem hefur brugðist við á þann einkennilega hátt að ætla sér að halda einhvers konar fyrirfram réttarhöld yfir fjórum fyrrverandi ráðherrum í þingflokksherbergi sínu, áður en málum verður vísað til Landsdómsins sjálfs.  Þetta er skrípaleikur, sem enginn getur tekið alvarlega og vandséð til hvers leikurinn er gerður, nema þingflokkurinn ætli sjálfur að kveða upp sektar eða sýknudóma.

Úr því sem komið er, getur þingheimur ekki verið þekktur fyrir annað en að sameinast um að stefna öllum þeim ráðherrum sem hljóta að vera samsekir, eða jafn saklausir, af vanrækslu í tíð fyrri ríkisstjórnar og ekki stefna bara sumum og sumum ekki, eftir einhverjum geðþótta einstakra þingflokka.

Það eina rétta í stöðunni fyrir þingheim er að stefna a.m.k. Geir Haarde, Árna Matt., Þorgerði Katrínu, Ingibjörgu Sólrúnu, Björgvini G., Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem þau áttu öll aðkomu að fundum og upplýsingum um hvað var að gerast í efnahags- og bankamálunum á árunum 2007-2008 og vissu öll af viðvörunum Seðlabankans um hvernig eigendur og stjórnendur bankanna væru búnir að koma bönkunum í þrot með glæpsamlegum rekstri þeirra.

Aldrei verður nokkur friður um þessi mál, nema öllum þessum ráðherrum verði gert jafnt undir höfði varðandi Landsdóminn.


mbl.is Yrðu yfirheyrðir og gætu kallað til vitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesaveleynimakk í fullum gangi

Viðskiptablaðið heldur því fram, að Bretar og Hollendingar séu búnir að semja nýtt gagntilboð fyrir Íslendinga að leggja fram og láta kúgararnir svo lítið, að lofa að samþykkja sitt eigið "tilboð" svo framarlega sem allir stjórnmálaflokkar á Íslandi samþykki þessa nýjustu fjárkúgunarkröfu.

Í nafni opinna og gagnsærra vinnubragða, þar sem allt er uppi á borðum, harðneitar fjármálaráðuneytið þessum fréttum, en viðurkennir þó að "samræður" séu í gagni á milli aðila, en gefur ekkert upp um hvað þær "samræður" snúast.

Í kosningunum 6. mars s.l. hafnaði þjóðin algerlega öllum fjárkúgunarkröfum Breta og Hollendinga vegna Icesave skulda Landsbankans, enda fáráðlegt að arður af rekstri bankans skuli ganga til eigenda hans á góðæristímum, en skattgreiðendur eigi að taka skellinn, þegar illa fer. 

Eðlilegast væri að benda kúgurunum á að snúa sér að skilanefnd gamla Landsbankans með erindi sitt og hætta að angra íslenska skattgreiðendur með áframhaldandi "samræðum" við útsendara sína í fjármálaráðuneytinu.  


mbl.is Nýtt Icesave-tilboð í undirbúningi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju lofar Steingrímur AGS núna?

Framkvæmdastjórn AGS mun taka fyrir þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og Íslands, þann 29. september n.k. og hefur verið heldur hljótt um undirbúninginn að þeirri endurskoðun, enda ríkisstjórnin lagin við að beina athygli almennings annað um þessar mundir.

Fréttin af málinu er ekki löng, en þar segir þó:  "Íslensk stjórnvöld hafa sent sjóðnum endurnýjaða viljayfirlýsingu í samræmi við reglur sjóðsins."  Fróðlegt verður að sjá hvað í þeirri endurnýjuðu viljayfirlýsingu felst, en afar líklegt er að þar lýsi Steingrímur J. því yfir að hann hyggist halda áfram skattahækkanabrjálæði sínu, hækkun þjónustugjalda hjá hinu opinbera, aukinni þátttöku sjúklinga í kostnaði við lyf og læknisaðstoð, hækkun áfengis og tóbaks, hækkun virðisaukaskatts í lægra þrepinu (matarskattinn), svo eitthvað sé nefnt af handahófi af áhugamálum Steingríms J.

Eitt er alveg víst, að kreppan sem Jóhanna og Steingrímur J. sögðu um daginn að væri liðin hjá mun bíta í hjá almenningi, sem aldrei fyrr, á næsta ári og ekki mun atvinnuleysið minnka heldur, því engin teikn eru á lofti um að stjórnin ætli að láta af andstöðu sinni við atvinnuuppbyggingu hverskonar í landinu.

Hvað sem ráðherrarnir segja, fer kreppan harðnandi á heimilunum, en af slíkum smámunum skiptir ríkisstjórnin sér ekki.


mbl.is Þriðja endurskoðun að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarfarið troðið í svaðið af sjálfu Alþingi

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur verið boðið til viðræðna við þingflokk Samfylkingarinnar og áður á fund framkvæmdastjórnar flokksins, til þess að gera grein fyrir sinni hlið mála vegna tillögu Atlanefndarinnar um að stefna henni fyrir Landsdóm til að svara til saka um gerðir sínar og/eða aðgerðarleysi í aðdraganda bankahrunsins.

Ekkert er óeðlilegt við það, að sakborningum í jafn alvarlegum kærumálum sé gefinn kostur á að koma sínum málstað á framfæri áður en ákærur eru fluttar fyrir dómstólum, en í þessu tilfelli er röð atburðanna kolröng, því auðvitað átti nefnd Atla Gíslasonar að kalla alla ráðherra síðustu ríkisstjórnar fyrir sig og meta síðan út frá þeim yfirheyrslum, ásamt öðrum málsgögnum, hvort og þá hverjum nefndin vildi leggja til að stefna fyrir dómstólinn.

Atlanefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um neitt í sambandi við þessar ákærur, hvorki hvort yfirleitt skyldi stefna einhverjum og þá ekki hverjum.  Stórundarlegt er, að Samfylkingarfulltrúarnir skyldu leggja til að Ingibjörgu Sólrúnu yrði stefnt, en ekki Björgvini G., Jóhönnu og Össuri, sem þó fjölluðu öll um efnahags- og bankamálin á þessum tíma.

Með sínum slælegu vinnubrögðum í þessum kærumálum og að hafa í raun gert þau að pólitískum réttarhöldum, en ekki faglegum, hefur Atlanefndin komið af stað miklum illdeilum innan Samfylkingarinnar og hrossakaupum innan Alþingis um hvernig með málið skuli fara, ef og þegar Atli treystir sér til að mæla fyrir tillögum nefndarinnar.

Það hefði þurft mikið hugmyndaflug fyrir tiltölulega stuttum tíma, til að láta sér til hugar koma, að réttarfarið í landinu myndi nokkurn tíma komast niður á svona lágt plan.  Ekki síst þar sem það er löggjafasamkundan sjálf, sem er að troða það niður í svaðið.


mbl.is Ingibjörg Sólrún ræðir stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærumálin strand í þinginu vegna hrossakaupa

Í dag átti að ljúka umræðum á Alþingi um tillögur Atlanefndarinnar um málshöfðun á hendur ráðherrum úr fyrri ríkisstjórn vegna aðgerða þeirra og aðgerðaleysis í aðdraganda bankahrunsins.  Fjöldi þeirra ráðherra, sem stefna á fyrir Landsdóm, fer eftir pólitískum skoðunum þeirra sem vilja ákæra en ekki gerðum þeirra ráðherra, sem í stjórninni sátu, eins og sést á því að Samfylkingin vill ekki stefna Björgvini G. Sigurðssyni og einnig er Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni algerlega haldið utan við málið, þrátt fyrir sína aðkomu að ákvörðunum á þessum tíma.

Allt starf Alþingis vegna þessara tillagna einkennist af fálmi og hrossakaupum, því þrátt fyrir að umræðum um þessar stefnur ætti að ljúka í dag, er ekki ennþá farið að mæla fyrir tillögunum og verður líklega ekki gert fyrr en á föstudagsmorgun.  Ástæðan mun fyrst og fremst vera miklar illdeilur innan Samfylkingarinnar og þras og hrossakaup milli þingmanna um það, til hvaða nefndar skuli vísa tillögunum milli umræðna.

Þar sem líklega er meirihluti í þinginu fyrir því að vísa málinu til Allsherjarnefndar, en ekki Atlanefndarinnar, milli umræðnanna er allt strand í þinginu, þar sem VG og Hreyfingin eru hrædd um að breytingartillögur, sem frá Allsherjarnefnd kynnu að koma, myndu vera á skjön við sínar skoðanir og þar með yrði allt málið komið í enn meira uppnám en það er nú í.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni á Íslandi í dag varðandi sakamálaákærur.  Þær eru farnar að byggjast á pólitík og nægir að benda á ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur og Lilju Mósesdóttur því til sönnunar.


mbl.is Óvíst hvort málið fer í nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin og sala bankanna

Nú eru víða uppi háværar kröfur um enn eina rannsókn á sölu bankanna á sínum tíma, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum árin fyrir hrun, þó Ríkisendurskoðun hafi í tvígang farið yfir bankasöluna og Rannsóknarnefnd Alþingis hafi farið ýtarlega yfir starfsemi FME og Seðlabankans í aðdraganda hrunsins og talið tiltölulega fá atriði athugunarverð við starfsemi þeirra.  Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar varðandi þessar stofnanir voru sendar til Ríkissaksóknara, sem eftir yfirferð gagnanna taldi ekki grundvöll til frekari rannsókna eða ákæra.

Einkavæðing bankanna hófst með sölu á Fjárfestingabanka atvinnulífsins og þá var miðað við að selja bankann með dreifðri eignaraðild, en Kaupþing og sparisjóðirnir í samstarfi við Orca hópinn braut þær fyrirætlanir á bak aftur með klækjabrögðum, þannig að áformin um dreifðu eigaraðidina fóru út um þúfur, þrátt fyrir vilja og ætlun ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.  Orca hópurinn samanstóð af Baugsgegninu og samverkamönnum þess, en það gengi átti eftir að koma verulega við bankasöguna fram að hruni og olli því reyndar, ásamt öðrum banka- og útrásargengjum.

Samfylkingin stóð ávallt þétt að baki Baugsgenginu, eins og Össur Skarphéðinsson hefur viðurkennt og barðist með því gegn ríkisstjórninni til þess að eyðileggja allar fyrirætlanir um dreifða eiganraðild bankanna og fór svo að lokum að Davíð Oddson og ríkisstjórn hans neyddist til að falla frá áformum sínum í þá veru.

Óli Björn Kárason hefur tekið saman fróðlega upprifjun á þessum málum á vef sínum t24.is og ættu allir að lesa þá fróðlegu grein.  Hana má sjá HÉRNA


mbl.is Seldu reynslulausum bröskurum bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumstæð Jóhanna

Jóhanna Sigurðardóttir tjáði sig um skýrslu Atlanefndarinnar á þingi og talaði af því tilefni eins og alger nýliði á þingi og í ráðherrastóli og lét eins og henni kæmi algerlega á óvart, þetar hún tók við embætti forsætisráðherra "hve vinnubrögð á mörgum sviðum voru frumstæð".

Jóhanna hefur lengsta þingreynslu allra þingmanna, en hún hefur setið á þingi frá 1978, eða í 32 ár og þar af var hún ráðherra í tæp tíu ár samtals, áður en hún tók við forsætisráðherraembættinu.  Enginn þingmaður ætti því að þekkja starfshætti þingsins, ráðuneytanna og stjórnkerfisins og Jóhanna sjálf og því hljóma yfirlýsingar hennar um hvað allt sé frumstætt í kerfinu vægast sagt hjákátlega.

Einnig lét Jóhann frá sér fara eftirfarandi gullkorn:  „Það er í raun merkilegt hve lítil umræða hefur farið fram um umgjörð og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og ríkisráðs hér á landi, og innan stjórnarráðsins almennt. Og hve lítið við höfum litið til þróunar í nágrannlöndum okkar í því efni."  Vegna sinnar löngu þingk- og ráðherrareynslu ber varla nokkur þeirra sem enn sitja á Alþingi meiri ábyrgð á þróun vinnubragða innan þings og ráðuneyta og Jóhanna sjálf, því auðvitað hafa allar verklagsreglur í kerfinu þróast með því fólki, sem setið hefur á þingi og í ráðherrastólum á undanförnum áratugum.  Jóhanna Sigurðardóttir er mikill gerandi í þeirri þróun allri.

Að hún skuli svo koma í ræðustól á Alþingi og láta eins og þetta sé allt nýtt fyrir sér og komi algerlega á óvart, er því ekkert annað en frumstæð aðferð við að frýja sjálfa sig og reyna að koma ábyrgð yfir á einhverja aðra.

Sú hugsun, að halda að almenningur sjái ekki í gegnum yfirklórið, er jafnvel ennþá frumstæðari.


mbl.is Frumstæð vinnubrögð komu á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. og Castro

Fidel Castro gaf nýlega út þá yfirlýsingu að "Kúbanska módelið" gengi ekki upp lengur og nú hefur bróðir hans Raoul boðað uppsagnir einnar milljónar ríkisstarfsmanna og skal þeim beint í störf í einkageiranum, eða þeir hvattir til að stofna ný smáfyrirtæki, en reglur um einkarekstur munu verða rýmkaðar í tilefni þessara aðgerða.

Frá árinu 1968, þegar nánast allur einkarekstur á Kúbu var ríkisvæddur, hafa 85-90% vinnandi fólks á eynni unnið hjá ríkinu, en ríkisstarfsmenn munu nú vera rúmlega fimm milljónir talsins.  Eftir rúmlega fjörutíu ára ríkisrekstur á öllum sviðum, telja Castrobræður nú fullreynt og hyggjast snúa af þeirri braut kommúnisma og ríkisrekstrar, sem þeir hafa manna lengst í heiminum reynt að iðka.

Á sama tíma og þessi merku tíðindi eru að gerast á Kúbu, stefnir Steingrímur J., skoðanabróðir þeirra Castrobræðra, að því að ríkisvæða nánast allan rekstur á Íslandi og eyða sem mestu af þeim einkafyrirtækjum, sem starfað hafa í landinu.  Þau fyrirtæki, sem ekki verða hreinlega yfirtekin af ríkinu, eða ríkisbönkunum, munu kerfisbundið verða sett á hausinn með öllum tiltækum ráðum og komið í veg fyrir alla nýja atvinnuuppbyggingu á vegum einkafyrirtækja.

Óhætt er að segja að ólíkt hafast þeir að um þessar mundir, gömlu samherjarnir Steingrímur J. og Castro.


mbl.is Breytingar á Kúbu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaka kosningu forsætisráðherra

Eftir því sem fram kom hjá Atla Gíslasyni er meginniðurstaða þingnefndar hans, "að það verði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu og auka fagmennsku og undirbúning löggjafns."  Hann undirstrikaði alvöru þessara orða sinna á eftirfarandi hátt:  "Það má segja að þetta sé sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það er kominn tími til að iðka þrískiptingu ríkisvaldsins eins og hugmyndafræðingar þeirrar þrískiptingar lögðu upp með á sínum tíma."

Auðvitað átti Alþingi aldrei að verða stimpilpúði fyrir framkvæmdavaldið, en mál hafa þróast á þann veg að nánast engin lagafrumvörp eru samþykkt á þinginu, nema þau sem ríkisstjórnin leggur fram, en hlutverk þingsins á auðvitað að vera að setja landinu lög, sem ríkisstjórnin á svo að sjá um að séu framkvæmd.

Besta leiðin til að aðskilja löggjafar- og framkvæmdavaldið er að kjósa alþingismenn á fjögurra ára fresti, eins og verið hefur, en kjósa svo forsætisráðherra sérstaklega, einnig til fjögurra ára, en þær kosningar færu fram tveim árum á undan alþingiskosningunum, þannig að kjörtímabil þingmanna og forsætisráðherra sköruðust og engin trygging væri þá fyrir því, að meirihluti alþingismanna og forsætisráðherrann væru alltaf úr sama flokki.

Forsætisráðherra, þannig kjörinn, myndi síðan velja með sér fimm til sex ráðherra, alls ekki úr röðum þingmanna, heldur fagmanna úr þjóðfélaginu, sem hann myndi best treysta fyrir hverjum málaflokki fyrir sig.  Ráðherrarnir myndu ekki sækja þingfundi og kæmu aðeins í þinghúsið ef þingnefndir kölluðu þá fyrir sig til upplýsingagjafar.  Ef ráðherrarnir vildu fá fram einhverjar lagabreytingar, yrðu þeir að senda beiðni um slíkt til þingsins, sem þá myndi afgreiða slíkar tillögur eins og hverjar aðrar, sem til þingsins berast um lagabreytingar.

Með slíku fyrirkomulagi yrði Alþingi algerlega óháð framkvæmdavaldinu og þrískipting valdsins yrði loksins virk að fullu.


mbl.is Auka verður sjálfstæði þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband