Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Jóhanna afneitar Atlanefndinni

Þau stórtíðindi gerðust á Alþingi í dag, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, afneitaði  vinnubrögðum Atlanefndinni algerlega og átaldi hana fyrir að skila af sér illa unnu verki og í raun handónýtu.

Jóhanna sagði m.a.:  "Ég hefði talið það rétt og eðlilegt, að þingnefndin leitaði skriflegs álits, til að mynda hjá Feneyjanefndinni,  sem starfar innan vébanda Evrópuráðsins og skipuð er sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar."  Taldi hún að vert hefði verið að leggja þá spurningu fyrir Feneyjanefndina hvort réttarstaða þeirra, sem nú er lagt til að verði ákærðir, standist nútímakröfur um mannréttindavernd sakborninga.

Síðan bætti Jóhanna við:  "Um það hef ég miklar efasemdir og ég undrast sérstaklega, að engin sjálfstæð rannsókn eða skýrslutaka hafi farið fram í þingmannanefndinni, meðal annars vegna þess að allir nefndarmenn hyggjast í raun víkja frá niðurstöðu þingmannanefndarinnar í sínum tillögum eða með því að láta hjá líða að flytja tillögu um ákæru."   Þarna má segja að Jóhanna hafi lýst algeru vantrausti á Atla Gíslason, sem nefndarformann og í raun veitt nefndinni banahöggið.

Til að snúa hnífnum í sárinu lýsti Jóhanna þeirri staðföstu skoðun sinni, að Ingibjörg Sólrún yrði sýknuð fyrir Landsdómi og jafngildir sú yfirlýsing því, að Jóhanna sé í raun að ásaka Atla um að reyna að gera tilraun til réttarmorðs, eða a.m.k. að stefna blásaklausri manneskju fyrir dómstóla algerlega að ósekju.

Allt málið er komið í algert rugl í þinginu og enginn í raun sannfærður um að hægt verði að dæma ráðherrana fyrir nokkuð, enda líklegra en hitt, að þeir yrðu allir sýknaðir fyrir Landsdómi.


mbl.is Gagnrýnir málsmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri vinnu þarf til að borga hærri skatta

Stefán Ólafsson, prófessor, hefur komist að þeirri niðurstöðu að hækkun jaðarskatta dragi ekki úr vinnuþátttöku fólks, heldur jafn vel auki hana, þvert á fullyrðingar Sjálfstæðismanna um að skattahækkanir dragi úr atvinnuvilja fólks, vegna þeirrar auknu skattpíningar sem þá leggst á aukalega.

Þetta telur prófessorinn kollvarpa öllum hugmyndum um að skattahækkanir séu vinnuletjandi, en ekki tekur hann með í reikninginn, að sé fólk búið að binda sig í ákveðnar afborganir af húsnæði, bíl og jafnvel fleiru, þá má það ekki við tekjumissinum, sem skattahækkanirnar hafa í för með sér og neyðst því til þess að bæta við sig vinnu, til að halda óskertum ráðstöfunartekjum. 

Stefán segir, að þegar hátekjuskattur hafi verið lækkaður, hafi það ekki aukið atvinnuþátttöku hátekjufólks, en það gæti verið vegna þess að fólkið var komið með eins mikinn vinnutíma og það réð við og gat af þeim ástæðum ekki bætt við sig meiri vinnu, en hefur hins vegar farið að njóta ávaxtanna sjálft af þeirri miklu vinnu, sem það lagði á sig, þegar greiðslan til ríkisins minnkaði.

Sú niðurstaða, sem nær væri að draga af rannsókn Stefáns væri sú, að skattahækkanir væru líklegar til að hneppa fólk í enn meiri vinnuþrældóm, en það í raun kærði sig um, eða réði almennilega við og þess vegna væri líklegra að skattalækkanir leiddu til minni atvinnuþáttöku hvers og eins, en annars væri.  Ekki má gleyma því, að á viðmiðunarárum Stefáns var mikil þensla í þjóðfélaginu og hver sem vildi, gat unnið eins mikið og mann vildi og gat.

Nú er ástandið á vinnumarkaði allt annað og enginn getur bætt við sig vinnu, þó hann gjarnan vildi og nauðsynlega þyrfti.  Allar skattahækkanir í slíku atvinnuástandi verða því einungis til þess að auka á vandræði fólks til að framfleyta sér og hvað þá að standa við skuldbindingar sínar.

Núverandi skattaálögur á einstaklinga og fyrirtæki eru hreint brjálæði og ekki á bætandi.


mbl.is Hækkun jaðarskatta dregur ekki úr vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Steingrímur J. að fara fyrir Landsdóm?

Nú er mikið rætt um þann hluta tillagna Atlanefndarinnar um ákærur á fyrrverandi ráðherra, að ákveðin mál hefðu ekki verið rædd á ríkisstjórnarfundum og því hefði öllum ráðherrunum ekki verið kunnugt um hvað var að gerast á verksviði allra ráherra.

Fram að þessu hefur sú túlkun verið við lýði á hlutverki ráðherra, að þeir væru hver um sig ábyrgir fyrir sínu ráðuneyti og þeim málaflokkum, sem undir þá heyra, en væru ekki ábyrgir fyrir verkefnum annarra ráðherra, enda væri ríkisstjórnin fjölskipað vald.

Forystumenn núverandi ríkisstjórnar virðast taka margar ákvarðanir sameiginlega og ekki verður alltaf séð, að þær hafi verið ræddar í ríkisstjórn eða bornar undir hana og því vaknar sú spurning hvort enn sé litið svo á að ríkisstjórnin sé fjölskipað vald og þau vinnubrögð sem ákæra á fyrrverandi ráðherra fyrir, séu ennþá viðtekin.

Nægir í þessu sambandi að benda á undirskrift Steingríms J. á fyrsta Icesavesamninginn, sem ekki er vitað til að hafi verið ræddur í ríkisstjórn fyrir undirskrift, hvað þá að innihald hans hafi verið kynnt fyrir Alþingi, sem svo var ætlast til að samþykkti hann fyrir sitt leyti, óséðan.

Er þessi embættisfærsla Steingríms J. tilefni stefnu fyrir Landsdóm?


mbl.is Staðan ekki rædd í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andi laganna

Hæstiréttur felldi nýlega þann dóm, að heimilt væri samkvæmt lögum að ganga að veði ábyrgðarmanns fyrir skuldum annars, sem gengið hafði í gegnum greiðsluaðlögun og skuldaniðurfellingu.

Þetta segir félagsmálaráðherra að sé ekki í "anda laganna", en ráðherrum hefur verið nokkuð tamt undanfarið að tala um "anda lagannna", þegar þeir fella sig ekki við texta laganna sjálfra, eins og nýlegt dæmi af Svandísi Svavarsdóttur sannar eftiminnilega.

Í fréttinni segir um þennan nýja dóm:  "Í dómi Hæstaréttar er vísað í ákvæði gjaldþrotalaga um að nauðasamningur haggi ekki rétti lánardrottins til að ganga að tryggingu sem þriðji maður veitir vegna skuldbindingarinnar. Ekki var hróflað við þessu ákvæði í lögum um greiðsluaðlögun"

Nú fer að verða tímabært að þingið fari að setja lög, sem segja það sem flutningsmennirnir meina og ráðherrar hætti að reyna að ráða í "anda laganna".  Einnig ber að athuga við lagasetningar að dómarasæti skipa löglært fólk, en ekki miðlar.


mbl.is Ekki í anda laganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

500 milljónir evra endurheimtast vegna veðsins í FIH

Seðlabankinn, undir stjórn Davíðs Oddssonar, hefur legið undir ámæli fyrir að hafa gegnt þeirri skyldu sinni að vera "banki bankanna", en í því felst auðvitað að veita viðskiptabönkunum lán og aðra fyrirgreiðslu frá degi til dags.  Án seðlabanka myndi því ekki vera hægt að reka viðskiptabanka.

Mikið hefur verið fárast yfir því, að seðlabankinn skyldi hafa lánað Kaupþingi fimmhundruð milljóna evra lán á síðustu dögunum fyrir hrun, í þeirri von að slíkt lán dygði til að bjarga bankanum.  Eftir á séð tókst það sem betur fer ekki, því þá hefði líklega ekki komist upp um þann sóðaskap og jafnvel glæpastarfsemi, sem þar viðgekkst innan dyra.

Í þessari umræðu hefur yfirleitt gleymst, að seðlabankinn tók full veð í FIH bankanum fyrir þessu láni og með sölu hans núna mun lánið allt innheimtast með vöxtum fyrir árið 2015. 

Það verður að teljast mikið happ fyrir þjóðarbúið að seðlabankinn skyldi ná svo góðu veði fyrir þessu þrautavaraláni á sínum tíma.  Það hlýtur að mega þakka aðalbankastóranum á þeim tíma, Davíð Oddssyni.


mbl.is Seldur á allt að 103 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr bregst ekki

Á einu sviði bregst Jón Gnarr aldrei og það er í kjánaskapnum, en hvar og hvenær sem hann kemur fram til að svara spurningum varðandi málefni borgarinnar, er hann eins og álfur út úr hól og getur engu svarað.  Ekki er nóg með að hann hafi ekkert kynnt sér starfsemi borgarinnar þá tæpu hundrað daga, sem hann hefur verið í embætti, heldur er engu líkara en að hann hafi aldrei heyrt eða lesið frétti fjölmiðla af því sem gerist innan borgarmarkanna.

Í vikunni var Jón Gnarr í viðtali á Útvarpi Sögu og var raunalegt að hlutsta á manninn standa á gati við nánast hverri spurningu varðandi borgarmálin og t.d. sagðist hann HALDA að byrjað væri að vinna í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næst ár, en vissi það ekki fyrir víst.  Þó það hafi ekki komið fram, veit hann líklega ekki að um þetta leyti árs er vinna við fjárhagsáætlunina yfirleitt langt komin, en nú er ekki einu sinni farið að ræða málin í nefndum og ráðum borgarinnar.

Hvenær sem einhver fíflagangur á sér stað og Jón Gnarr kemur að, þá stendur hann sig ágætlega, enda trúður af skárri gerðinni, en hins vegar verður hann að hafa fyrirfram skrifaða rullu til að leika, því honum er ekki lagið að semja grínið fyrirvara- og fyrirhafnarlaust.

Borgarstjóri getur vel leikið trúð, en ekki er öllum trúðum vel gefið að vera borgarstjórar.  Jón Gnarr er þannig trúður.


mbl.is Jón Gnarr: Héraðsdómur flytji sig annað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbrjótur í ráðuneyti

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, var dæmd sem lögbrjótur í Héraðsdómi í dag vegna neitunar hennar á að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps, en það gerði hún í anda þeirrar stefnu VG, að berjast gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu, en með lögbroti sínu hugðist Svandís stöðva frekari virkjanir í Þjórsá.

Svandís sýndi fyrr í dag, að hún hikar ekkert við að túlka lög eftir sínu eigin höfði, en þá sagði hún um þá niðurstöðu nefndar um kaup Magma á HS orku, að kaupin hefðu verið fullkomlega lögleg, að hún ætlaði að "skoða" hvort ekki væri hægt að brjóta þau lög, t.d. með því að framkvæma ekki lögin sjálf, heldur "anda laganna".

Með þessu hefur Svandís sýnt að brotavilji hennar er staðfastur og að hún hiki ekki við að brjóta lög við framkvæmd tafa- og skemmdarverkastefnu VG í atvinnumálum.

Ráðherra, sem fær á sig dóm fyrir lögbrot og virðist einskis iðrast, eða sýna bætingu á hegðun sinni, ætti ekki að vera í valdaembætti.


mbl.is Synjun ráðherra ógilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneyksli á Alþingi

Alger upplausn varð á Alþingi og þingfundi var skyndilega frestað eftir að Atli Gíslason flutti framsögu um tillögu nefndar sinnar um að stefna fjórum fyrrverandi ráðherrum fyrir Landsdóm og ekki síst þegar hann upplýsti að tillagan væri byggð á leynigögnum, sem þingmenn myndu ekki fá að sjá eða kynna sér.

Slíkri aðferð hefur einu sinni áður átt að beita á Alþingi, en það var þegar Steingrímur J. ætlaði að keyra Icesave"samninginn" ofan í kok á þingheimi óséðum, en varð að falla frá þeirri fyrirætlan, enda létu þingmenn ekki bjóða sér slík vinnubrögð þá og gera varla nú, þegar ætlast er til að þeir afgreiði tillögu um að ákæra ráðherra, nánast fyrir landráð.

Mbl.is orðar þessa upplausn á þinginu á snyrtilegan hátt, þegar sagt er:  "Eftir framsöguræðu Atla settist þingmannanefndin á fund og einnig var haldinn fundur forseta Alþingis með þingflokksformönnum í hádeginu. Eftir því sem mbl.is kemst næst varð niðurstaðan sú, að fresta þingumræðunni til mánudags og meta um helgina hvort veita eigi þingmönnum aðgang að gögnum þingmannanefndarinnar og þá að hvaða gögnum." 

Burt með allt pukur, þingið sameini tillögurnar og stefni a.m.k. sex ráðherrum fyrir Landsdóminn og hætti öllum pólitískum hrossakaupum um þetta alvarlega mál.  Þessi málsmeðferð er ekki bjóðandi í þjófélagi, sem á að kallast siðað.


mbl.is Umræðu frestað til mánudags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynilegar ákærur - nýtt þinghneyksli?

Stórundarlegt atburðir virðast vera að gerast á Alþingi, þar sem grundvöllur ákæra á hendur nokkrum ráðherrum í "hrunstjórninni" eru meðhöndlaður eins og ríkisleyndarmál og þingmenn eiga ekki að fá að vita á hvaða rökum ákærurnar eru byggðar.  Minnir þetta á pukur Steingríms J. með Icesavesamninginn, sem Alþingi átti að samþykkja óséðan og án þess að vita nokkuð um innihald hans.

Nokkrir þingmenn óskuðu eftir því á Alþingi í morgun að fá að sjá þau gögn, sem Atlanefndin byggði tillögur sínar um kærurnar á, en samkvæmt fréttinni voru viðbrögðin þessi:  "Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, sagði hins vegar að þingmannanefndin hefði m.a. sett sér verklagsreglur, þar sem segði að gögn sem varðar ráðherraábyrgð sé bundin trúnaði. Meðal annars hefði verið kallað eftir gögnum frá sérfræðingum og að minnsta kosti tveir þeirra hefðu ekki samþykkt að vinnugögn þeirra yrðu lögð fram opinberlega."

Vinnubrögð Atlanefndarinnar varðandi ákærurnar á ráðherrana er algerlega óviðunandi og bara það, að afgreiða málið með þrem álitum út úr nefndinni, er hneyksli út af fyrir sig.  Alþingi getur ekki verið þekkt fyrir svona vinnubrögð hvað eftir annað og verður nú að gera það sem gera þarf, til að bjarga andlitinu varðandi þessar kærur.

Að sjálfsögðu er það svo sjálfsagt og eðlilegt að birta öll gögn varðandi undirbúning málsins, að slíkt ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna og úr því sem komið er, verður að vísa málinu til nefndar, þar sem tillögurnar verði samræmdar og a.m.k. tveim ráðherrum bætt á listann þ.e. Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni, auk þeirra Geirs Haarde, Árna Matt., Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvini G.

Úr þessari dellu verður ekki bætt, nema með einróma samþykkt Alþingis um að stefna öllum þessum sex ráðherrum fyrir Landsdóm.


mbl.is Umræða um ákærur að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátbrosleg viðbrögð við Hæstaréttardómi

Þegar Hæstiréttur dæmdi gengisviðmiðun íslenskra krónulána ólögmæta mærði þjóðin Hæstarétt fyrir réttsýni sína og að hann skyldi dæma skuldurum "í hag", en hinum hræðilegu fjármagnseigendum "í óhag".  Hæstiréttur á auðvitað ekki að dæma eftir tilfinningum dómaranna eða skapi þeirra í það og það skiptið, heldur eingöngu eftir lögum landsins og engu öðru.

Núna þegar rétturinn dæmir fjármagnseigendunum "í hag" og skuldurum "í óhag" snýst almenningsálitið umsvifalaust gegn Hæstarétti og hann sakaður um að láta stjórnast af bönkunum, ríkisstjórninni eða jafnvel einhverri mafíu spillingarafla.  Þó ekki sé búið að birta allan rökstuðning dómsins opinberlega, er greinilegt af fyrstu viðbrögðum að hjarðhegðun þjóðfélagsins er komin á fullan skrið, frá því að elska Hæstarétt og dýrka, í áttina að hatri á honum og fyrirlitningu.

Þetta voru algerlega fyrirséð viðbrögð, enda hjarðhegðun oftast alveg fyrirséð og því lítið óvænt í þeim efnum.  Þessi viðsnúningur almennigsálitsins verður þó að teljast grátbroslegur, þar sem afstaða er eingöngu tekin út frá eigin hag og öðrum aðstæðum eða rökum alls ekki.

Fyrr í dag var fjallað um hvort Hæstiréttardómararnir yrðu dæmdir skúrkar eða hetjur af almenningsálitinu og spunnust um það nokkrar umræður.  Þær má sjá HÉRNA


mbl.is Óbreytt vaxtakjör stóðust ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband