500 milljónir evra endurheimtast vegna veðsins í FIH

Seðlabankinn, undir stjórn Davíðs Oddssonar, hefur legið undir ámæli fyrir að hafa gegnt þeirri skyldu sinni að vera "banki bankanna", en í því felst auðvitað að veita viðskiptabönkunum lán og aðra fyrirgreiðslu frá degi til dags.  Án seðlabanka myndi því ekki vera hægt að reka viðskiptabanka.

Mikið hefur verið fárast yfir því, að seðlabankinn skyldi hafa lánað Kaupþingi fimmhundruð milljóna evra lán á síðustu dögunum fyrir hrun, í þeirri von að slíkt lán dygði til að bjarga bankanum.  Eftir á séð tókst það sem betur fer ekki, því þá hefði líklega ekki komist upp um þann sóðaskap og jafnvel glæpastarfsemi, sem þar viðgekkst innan dyra.

Í þessari umræðu hefur yfirleitt gleymst, að seðlabankinn tók full veð í FIH bankanum fyrir þessu láni og með sölu hans núna mun lánið allt innheimtast með vöxtum fyrir árið 2015. 

Það verður að teljast mikið happ fyrir þjóðarbúið að seðlabankinn skyldi ná svo góðu veði fyrir þessu þrautavaraláni á sínum tíma.  Það hlýtur að mega þakka aðalbankastóranum á þeim tíma, Davíð Oddssyni.


mbl.is Seldur á allt að 103 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Nú nú er þá Davíð guð eftir allt samann?

Sigurður Haraldsson, 19.9.2010 kl. 19:50

2 Smámynd: Páll Blöndal

Axel, það eru ekki nema 40 milljarðar af 130 komnir í hús með þessari sölu.
Hinir 63 milljarðarnir eru sýnd veiði en ekki gefin.

Páll Blöndal, 19.9.2010 kl. 19:52

3 identicon

Hvað með ástarbréfin, þar sem bankarnir þrír lánuðu hvor öðrum, og fengu síðan lán frá Seðlabankanum með veð í lánunum til hinna bankanna? Þar töpuðust u.þ.b. 300 milljarðar króna, með verðlausum veðum. Þetta var svipað dýrt fyrir okkur íslendinga eins og læmur Icesave samningur, og þá geri ég ráð fyrir litlum fjármunaheimtum úr þrotabúi Landsbankans. Og hvað með það að gleyma að framlengja 500 millj. evru lánalínu? Þetta var náttúrulega algert klúður hjá seðlabanka, hvor sem það var Davíði að kenna eða ekki.

Bjarni (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 19:54

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Páll, kaupendurnir reikna auðvitað ekki með því að fjárfestingin þeirra fari í þrot á næstu árum, heldur hafa þeir auðvitað kannað málið gaumgæfilega og reikna með því að bankinn skili þeirm hagnaði á næstu árum og því er nánast öruggt að seðlabankinn fær allt sitt til baka og sjálfsagt með fullum vöxtum að auki.  Þó Már reyni að gera ekki of mikið úr þeirri fyrirhyggju að taka veð í bankanum, þá er óþarfi að falla fyrir slíku áróðursbragði, en allir muna Má úr Fylkingunni og Alþýðubandalaginu á sínum tíma og hefur aldrei talist til samherja Davíðs.

Hitt er svo annað mál, að seðlabankinn tapaði óheyrilegu fé á gjaldþroti bankanna, eins og allir aðrir, sem lánuðu þeim peninga fyrir hrun.  Bankakerfið skuldaði tólffalda árlega landsframleiðslu og hefðu aldrei getað endurgreitt þá upphæð og ef það hefur talist óvarlegt af seðlabankanum að gera skyldu sína, sem "banka bankanna", hvað má þá segja um erlendar lánastofnanir, sem jusu lánum inn í bankakerfið í þeim mæli, sem þeir gerðu og munu tapa a.m.k. sjöfaldri landsframleiðslu á braskinu?

Axel Jóhann Axelsson, 19.9.2010 kl. 20:08

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Vorið fyrir hrun vildi Seðlabankinn hætta með ástarbréfabullið.  Bankarnir fengu stjórnvöld í lið með sér og eftir að hafa þrýst á Seðlabankann, þá var ákveðið að fresta þeirri breytingu fram á haustið.   Þegar haustið kom og bankana vantaði til þrautavara, átti Glitnir ekki orðið neitt eftir nema einhverja, nánast verðlausa bílalánavafninga, sem Seðlabankinn hafnaði og Glitnir var tekinn yfir.  Kaupþing átti FIH bankann og fékk því lán. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 19.9.2010 kl. 20:12

6 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Hárrétt Axel, ég sé ekki betur en að þarna hafi fyrrverandi bankastjórar Seðlabankans tekið mjög traust veð fyrir láninu og það mun greinilega endurheimtast að fullu.

Kannski að einhverjum rugludallinum úr Samfylkingunni detti í hug að þakka Eiríki, Ingimundi og Davíð fyrir það, bara svona til tilbreytingar :-)))

Sigurður Sigurðsson, 19.9.2010 kl. 20:35

7 identicon

Kristinn, eins og þú veist, þá á seðlabankinn að vera sjálfstæð eining, en eins og við munum þá getur ríkisstjórnin t.d. ekki rekið seðlabankastjóra. Það þurfti jú nýja lagasetningu til þess að koma seðlabankastjórunum frá. Þess vegna er þetta hálf slöpp afsökun um að það hafi verið ríkið sem vildi halda áfram með ástarbréfin. Það kemur síðan engum á óvart að það var viðskiptabönkunum í hag að það yrði haldið áfram með þau. Hvað sem öllu líður, þá voru ástarbréfin risastórt klúður, og kannski stærsta klúður hrunsins, og það var seðlabankinn sem lánaði út peningana. Það leit út fyrir að Icesave yrði álíka stórt klúður, en svo virðist ekki ætla að verða að veruleika... nema við töpum málinu fyrir EFTA dómstólinum.

Bjarni (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 20:35

8 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Já eflaust er það rétt hjá þér Bjarni.  En frétt þess efnis að íslenski Seðlabankinn vildi ekki lána íslensku bönkunum hefði eflaust kostað áhlaup á bankana.  Reyndar tórði Kaupþing lengst, féll ekki endanlega fyrr en bresk stjórnvöld ákváðu að hjálpa ekki Kaupþing Edge, einum breskra banka.    Svo má auðvitað líka ekki gleyma því, að ef að bankarnir hefðu bara verið látnir fara yfir og verða gjaldþrota og neyðarlögin ekki sett, þá hefði líklegast eitthvað fengist upp í ástarbréfin.  Við setningu neyðarlagana þá færðust ástarbréfin aftar í kröfuröðina.

Kristinn Karl Brynjarsson, 19.9.2010 kl. 20:56

9 identicon

Það getur varla talist til merkilegra tíðinda að SÍ hafi farið fram á sæmilegt veð fyrir jafn stóru láni!? Það er ennfremur algjör óþarfi að ákalla Davíð Oddsson sem einhvern snilling og flinkan bankastjóra, enda fór SÍ tæknilega á hliðina auk þess sem SÍ sinnti alls ekki skyldum sínum sem banki bankanna með því að herða tökin og hafa hemil á vitleysunni.

Og í guðanna bænum þið í Davíðs kórnum, ekki byrja með halelújaritningar um að ég sé úr liði VG, S, eða F, hérna talar Sjálfstæðismaður sem viðurkennir og horfist í augu við það að sinn flokkur beri langsamlega mesta ábyrgð á því efnahagslega klúðri sem hér átti sér stað.

Vei, vitringarnir þrír hittu einu sinni í mark með því að vinna vinnuna sína og taka veð gegn veittu láni...

Páll (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 22:27

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ef veð hefðu verið til fyrir öllum lánum bankanna, þá hefðu þeir væntanlega aldrei farið á hausinn.  Lánin sem þeir fengu, bæði frá seðlabankanum og erlendum lánastofnunum voru fengin með útgáfu eigin skuldabréfa, sem eins og áður sagði voru orðin að tólffaldri landsframleiðslu, áður en yfir lauk.

Þó þú Páll, segist vera Sjálfstæðismaður, þá er það samt sem áður alger vitleysa sem þú heldur fram, um að sá flokkur beri mesta ábyrgð á bankahruninu og öllu því klúðri.  Rannsóknarnefnd Alþingis, sem rannsakaði málin meira og betur en nokkur annar hefur gert, sagði í sínum niðurstöðum, að eigendur og stjórnendur bankanna bæru höfuðábyrgð á bankahruninu, en ekki stjórnmálamennirnir.  Þeir hefðu sjálfsagt getað gert ýmsa hluti betur, en þeir gerðu, en það hefði aldrei aftrað hruninu, en kannski flýtt því um nokkra mánuði.

Annars mun þeirra hlutur sjálfsagt verða kannaður betur fyrir Landsdómi, ef þingið er þá fært um að afgreiða það mál.

Axel Jóhann Axelsson, 19.9.2010 kl. 23:01

11 identicon

Málefnaleg og vitræn umræða, sjaldgjæft í bloggheimum :-)

Lárus (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 23:11

12 identicon

Axel, taktu eftir að ég tala um að Sjálfstæðisflokkurinn beri mesta ábyrgð á efnahagslegu klúðri sem hefur átt sér stað á Íslandi, bankahrunið er að sjálfsögðu alfarið á ábyrgð þeirra sem bönkunum stjórnuðu.

En gleymum því ekki, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sáu algjörlega um að sníða regluverkið sem þessir misvitru bankamenn störfuðu eftir, ef regluverkið hefði verið þó ekki nema helmingur af því sem t.d. gerist og gengur í BNA hefði líklega fallið orðið margfalt minna (auk þess sem búið væri að koma járnum á þá sem mesta ábyrgð bera, bankamenn jafnt sem pólitíkusa). Staðreyndin er hinsvegar sú að við erum ekki með nema um 10% af því regluverki í gildi, sem hefur leitt af sér að ástandið á fjármálamörkuðum hér var eins og villta vestrið.

Það þarf síðan ekki að ræða frekar hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Einn til Framsóknarmanna, hinn til Sjálfstæðismanna.

Ábyrgðin liggur að sjálfsögðu að stórum hluta hjá þeim sem hönnuðu leikreglurnar.

Páll (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 08:38

13 identicon

Bara til að halda því til haga, þá er að sjálfsögðu ekkert nema gott mál að SÍ fái til baka þessar 500 milljónir evra, og ég tel meiri líkur en minni á að þetta endurheimtist að fullu á endanum.

Páll (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 08:45

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Páll, skýringin á því, hvers vegna okkar kerfi var ekki eins og í USA er einföld.  Við erum í EFTA og með samning við ESB um Evrópska efnahagssvæðið og samkvæmt honum höfum við tekið upp fjórfrelsið og regluverk ESB um fjármálalífið og þar með bankana.  Íslensk stjórnvöld höfðu því afar takmarkaðar heimildir til að setja sín eigin lög sem snertu samninginn um fjórfrelsið.

Hvað sem segja má um sölu bankanna á sínum tíma, þá reiknaði enginn með því að þeir myndu lenda í höndunum á fjárglæframönnum, sem fyrst og fremst myndu nota þá til að skara elda að eigin persónulegu köku og ausa erlendu lánsfé inn í fyrirtæki sín í gegnum þessa banka.  Það var þessi óábyrgi og líklega glæpsamlegi rekstur, sem olli hruninu og það var ekki gert í nafni stjórnmálaflokka, eða af stjórnmálamönnum.

Ábyrgðin á hruninu liggur fyrst og fremst hjá fjárglæframönnunum en ekki stjórnmálamönnunum.  Það er mín bjargfasta skoðun, studd af niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Annað hvort taka menn mark á rannsóknarnefndinni, eða ekki.  Það er ekki hægt að velja úr henni það sem manni þóknast og látast ekki vita af hinu.

Axel Jóhann Axelsson, 20.9.2010 kl. 08:56

15 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Bara til að halda sannleikanum til haga fyrir Pál hér að ofan, þá vil ég benda honum á eftirfarandi staðreynd við einkavæðinguna:

Ríkisstjórnin á Íslandi einkavæddi ríkisbankanna árið 2002 með því að selja þá kjölfestufjárfestum. Áður hafði verið talað um að viðhafa dreifða eignaraðild við sölu þeirra. Sú aðgerð, að gefa dreift eignarhald upp á bátinn við sölu bankanna, var talin ein helsta orsök á bankahruninu árið 2008 og efnhagskreppunni sem fylgdi í kjölfarið.

Davíð Oddsson var forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem einkavæddi bankanna árið 2002. Hann talaði snemma fyrir dreifðri eignaraðild ríkisbankanna, og lagði línurnar áður en FBA var einkavæddur. Föstudaginn 8. mars 1998 vitnaði leiðarahöfundur Morgunblaðsins í Davíð og hefur eftir honum um lög varðandi eignarhald:

„Sumar þjóðir hafa það reyndar svo, að þær binda það í lög hversu mikil eignarhlutdeild má vera í bönkunum. Ég hygg að það sé til að mynda þannig í Noregi. Það má vel vera, að slíkt gæti verið skynsamlegt að gera einnig hér á landi. A.m.k. er ekki æskilegt að menn hafi á tilfinningunni, að það séu einhver önnur sjónarmið, sem ráði stefnu banka, en almenn arðsemissjónarmið, eins og einhverjir þröngir hagsmunir ráðandi hóps“. [1]

8. ágúst sama ár sagði Davíð að þó nú væri í tísku að tala um kjölfestufjárfesta teldi hann að „í bankastofnun geti alveg dugað að stærstu eignaraðilar, sem komi til með að hafa leiðbeinandi forystu um reksturinn, eigi eignarhluti á bilinu 3% til 8% til dæmis“. Hann taldi hins vegar ekki æskilegt að einn aðili eða skyldir aðilar réðu 30%-40% eignarhlut í bankastofnun. [2] Þann 7. ágúst árið 1999 hélt hann hinu sama fram og sagði: „Íslenzka þjóðríkið er þannig vaxið, að það er ekki hollt fyrir það að vera í höndunum á mjög fáum aðilum.“ [3] Þegar ríkið síðan tók tilboði fjárfesta í 51% hluta í FBA, sagði Davíð Oddson við þeirri athugasemd, að hætta væri á að eignarhald dreifðist á færri hendur í eftirsölu hlutabréfa í FBA, að rétt væri að að átta sig á því að margir fjárfestanna sem að kaupunum á FBA koma hefðu víðtæka reynslu og væru þekktir fjárfestar.

„Þetta höfum við séð í Íslandsbanka og víða. Það er ekkert endilega fyrirséð að þessir aðilar muni láta frá sér sinn hlut og að hann safnast á fárra hendur. Ég tel engar líkur á því sérstaklega í þessu dæmi en svona almennt framhald þá held ég að menn eigi aðeins að huga að því og skoða það meðal annars í þinginu hvort rétt sé að setja reglur, sem ná megi sátt um, sem tryggi að eignarhald verði jafnan dreift. Ég er fylgjandi því“. [4]

Sama dag lét Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskiptaráðherra, þau orð falla að lagasetning um dreifða eignaraðildi væri óþorf, og bætti við: „Þetta eru fyrst og fremst fagfjárfestar og ég held að þeir muni passa upp á það sjálfir að enginn einn fjárfestir verði ráðandi í bankanum. Þegar reynslan af sambærilegri einkavæðingu ríkisstofnana er skoðuð í Danmörku og Svíþjóð kemur í ljós að dreifð eignaraðild hefur haldist á eftirmarkaði.“ [5]

Þegar svo kom að sölu Landsbankanum og Búnaðarbankanum árið 2002 höfðu engin lög verið sett. Fréttablaðið sagði frá því í grein, sem skrifuð var árið 2005 um sölu bankanna, að Davíð Oddsson hefði fallið frá kröfu sinni um dreifða eignaraðild eftir að hafa talað við Björgólf Guðmundsson í síma. [6] Valgerður Sverrisdóttir, sem þá var iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lét þau orð þá falla, eftir að Samson hafði keypt 45,8% í Landsbankanum, að dreifð eignaraðild yrði aldrei tryggð nema með lögum. Og bætti við að EES samningurinn „heimili hins vegar ekki slíka lagasetningu og því sé tómt mál að tala um tryggingu fyrir slíku. Viðskiptum verði vart stjórnað“. [7]

Sigurður Sigurðsson, 20.9.2010 kl. 09:40

16 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

það voru nefnilega Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn sem komu í veg fyrir það að áfrom Davíðs Oddssonar um dreifða eignaraðild næðu fram að ganga, enda hefur fyrrverandi forsætisráðherra beinlínis kallað eftir því að opinber rannsókn fari fram á einkavæðingu bankanna, þótt hún hafi reyndar farið fram á sínum tíma á vegum Ríkisendurskoðunar  !!!

Sigurður Sigurðsson, 20.9.2010 kl. 09:42

17 identicon

Nr. 1 Bankarnir voru ekki seldir kjölfestufjárfestum, þeir voru seldir til aðila tengdum Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.

Nr. 2 Rétt er það að Davíð Oddsson talaði fyrir dreifðri eignaraðild á árum áður, en mikið afskaplega er nú lítið bein í nefinu á kallinum ef eitt símtal við Björgólf (nota bene dæmdan sakamann í Hafskipsmálinu) dugar til þess að stjórnmálamaður í hans stöðu kasti frá sér sannfæringunni og gefi hana upp á bátinn í jafn stóru máli.

Nr. 3 Hafið þið lesið EES samninginn og getið því fullyrt að Íslandi hafi ekki verið heimilt að stjórna sölu bankanna með lögum um eignarhald á þeim? Eða er bara verið að vitna í Valgerði Sverrisdóttur af öllum mönnum, m.v. hennar ensku kunnáttu dreg ég stórlega í efa að hún hafi sjálf lesið EES samninginn og hafi því ekki hugmynd um hvað hún hafi verið að tala um. Líklega fékk hún pantað álit frá ráðuneytislögfræðingnum sínum þar sem búið var að velja nokkrar línur úr samningnum til að bakka upp svona fáránlega fullyrðingu frá henni.

Páll (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 11:52

18 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Páll, HÉRNA má sjá fróðlega upprifjun Óla Björns Kárasonar á þessum málum.  Þar kemur vel fram hvers vegna fallið var frá dreifðu eignaraðildinni að bönkunum og hverjir það voru, sem börðust gegn henni.

Axel Jóhann Axelsson, 20.9.2010 kl. 13:14

19 identicon

Já athyglisverð lesning, enda var ég ekki að andmæla því að Davíð hafi talað fyrir dreifðri eignaraðild, en hvað þá með þessa vitleysu í Valgerði, um að slík lagasetning væri andstæð EES samningnum?

Í upprifjun Óla Björns segir m.a.:

"Í sama viðtali sagði Davíð að það yrði að ráðast hvernig mál þróist meðal eigenda FBA eftir að tryggt væri að ríkissjóður fengi hæsta mögulega verð fyrir sinn eignarhlut. Hann útilokaði að reyna að hafa áhrif á eignarhaldið með lagasetningu en endurtók að skoða ætti almenna lagasetningu til að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum, eins og víða væri gert. En það var augljóst að forsætisráðherra hafði áhyggjur af stöðu Fjármálaeftirlitsins"

Nú bíðum við, var ekki Valgerður að segja að slík lagasetning væri óheimil? Af hverju er þá Davíð að tala um hana þarna? Og af hverju vék hann frá sannfæringu sinni, þessi harði foringi sem hann hefur sýnt og sannað að hann geti verið.

Ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn sé versta krabbameinsæxli sem hafi lagst á þjóðina. Þaðan hafa komið einhverjir þeir alverstu eiginhagsmunapotarar sem fæðst hafa á íslenskri grund. En burtséð frá því:

  • Af hverju lét Sjálfstæðisflokkurinn þá kúga sig svona til að falla frá þessum hugmyndum um dreift eignarhald?
  • Hvort hafði rétt fyrir sér með almenna lagasetningu, Davíð eða Valgerður (var þetta bannað eða ekki skv. EES, og ef það er bannað af hverju geta þá önnur lönd sett slík lög?).
  • Er þetta ekki einfaldlega skólabókardæmi um klassíska flokkaskiptingarstefnu og afleiðingar hennar á íslenskt samfélag?

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stikkfrír, hann ber mikla ábyrgð á efnahagshruninu og þarf að horfast í augu við það. þessi þvermóðska hindrar að hægt sé að lagfæra það sem fór úrskeiðis og hindrar þar af leiðandi framfarir og endurnýjun vinnubragða.

Og ekki gleyma því að SÍ hafði mýmörg tækifæri til að hafa áhrif á bankanna, vöxt þeirra og framgang. Það eina sem var gert (í megindráttum) er að stýrivextir voru hækkaðir og það leiddi af sér enn meiri spekúlasjónir með krónuna í gegnum vaxtaskiptasamninga þar sem menn vildu hagnast á gríðarlegum vaxtamun á krónunni, jenum og svissn.frönkum.

En þetta er komið út í aðeins stærri umræðu.

Páll (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 14:46

20 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

1) Þú áttar þig á því Páll, að heimildin um símtalið frá Björgólfi er Fréttablaðið.  Og þá spyr ég þig hvort þeim snepli hafi nú verið treystandi árin fyrir hrun ??

2) Valgerður var og er hluti Framsóknarmafíunnar sem var á móti dreifðri eignaraðild að bönkunum.

Sennilega hefur henni verið fjarstýrt af Finni Ingólfssyni og Ólafi Ólafssyni í Samskip.  Þú veist væntanlega hverjir það eru ??

Sigurður Sigurðsson, 20.9.2010 kl. 15:33

21 identicon

Ójá Sigurður, ég kannast fullvel við Finn Ingólfs. og Ólaf Ólafs. og fæ klígju upp í kok þegar þessi nöfn eru nefnd.

Mér er nokk sama um þessar getgátur Fréttablaðsins og tel þær ekki traustar heimildir, en það  standa samt eftir afar mikilvægar spurningar eins og t.d.:

a) Af hverju lét Sjálfstæðisflokkurinn kúga sig til að falla frá hugmyndum um dreift eignarhald?

b) Því er einnig enn ósvarað hvort hafði rétt fyrir sér, Davíð eða Valgerður. Var "bannað" skv. regluverki EES að hafa hemil á eignarhaldi banka gegnum almenna lagasetningu?

Ekki hafið þið Sigurður eða Axel svörin við þessu?

Páll (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 17:34

22 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Páll, eins og kemur fram í upprifjum Óla Björns brutu Kaupþing og Bónusgengið fyrirætlunina um dreift eignarhald í raun á bak aftur með kaupunum á Fjárfestingabana atvinnulífsins.  Síðan tók bæði Samfylkingin og Framsókn upp baráttu fyrir því að falla frá þessum áformum og hvað sem menn segja um Davíð, þá var hann maður sátta og hefur sjálfsagt gefið eftir fyrir meirihlutanum í þinginu.  Þannig virkar jú lýðræðið.

Ekki held ég að neitt hefði bannað það að lög hefðu verið sett um hámarkseignarhlut, en frá því var sem sagt fallið vegna andstöðu á þingi.

Bankahrunið er hvorki bankasölunni að kenna, eða því að "kjölfestufjárfestar" skuli hafa keypt þá, heldur því að með tímanum fóru þessir fjárfestar að reka þá eins og sína eigin sparibauka og drógu fé út úr þeim í sína þágu og fyrirtækja sinna.

Einkarekstur og glæparekstur er tvennt algerlega ólíkt og á ekkert sameiginlegt.

Axel Jóhann Axelsson, 20.9.2010 kl. 19:16

23 identicon

Ok, frábært, Sjálfstæðisflokkurinn átti engan þátt í því hvernig komið er. Gott að það er komið á hreint. Allir frábærir í Sjálfstæðisflokknum og gera aldrei neina vitleysu.

Og alls ekki nefna Landsbankann sem fór jú í hendur á harðkjarna Sjálfstæðismönnum með Kjartan Gunnarsson innanborðs, sem aðstoðar stjórnarformann, þar voru engin mistök gerð og örugglega engu stolið innanfrá gegnum dulið eignarhald og ríkulegar lánveitingar til tengdra aðila?

Skrýtið samt hvernig þú, Axel, segir fyrst:

"Páll, skýringin á því, hvers vegna okkar kerfi var ekki eins og í USA er einföld.  Við erum í EFTA og með samning við ESB um Evrópska efnahagssvæðið og samkvæmt honum höfum við tekið upp fjórfrelsið og regluverk ESB um fjármálalífið og þar með bankana.  Íslensk stjórnvöld höfðu því afar takmarkaðar heimildir til að setja sín eigin lög sem snertu samninginn um fjórfrelsið."

En síðan þegar ég spyr einfaldrar spurningar eins og hvort þetta hafi verið bannað eður ei, þá koma fá svör, en síðan segir þú:

"Ekki held ég að neitt hefði bannað það að lög hefðu verið sett um hámarkseignarhlut, en frá því var sem sagt fallið vegna andstöðu á þingi."

En svona er að reyna ræða málin við þá sem neita að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna nokkurn skapaðan hlut. Svona rétt eins og Sjálfstæðismenn ræða núna mál um ráðherraábyrgð á Alþingi. Þeir eru komnir í sinn klassíska sandkassaleik "ef það á að ákæra okkar menn þá á líka að ákæra Steingrím fyrir IceSave, na na na na na na"

Ótrúleg vinnubrögð alltaf hreint. Þetta er ein stærsta meinloka sem Ísland glímir við, það getur nánast enginn horft í eigin barm, borið ábyrgð né viðurkennt mistök. Þá skiptir engu máli í hvaða flokki, starfi eða stétt viðkomandi er. Þetta virðist okkur einfaldlega ekki vera í blóð borið.

Páll (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 21:18

24 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Páll, hér með er komið að endalokum viðræðna við þig um þessi mál, þar sem þú gerir ekki annað en snúa útúr og rangtúlka það sem sagt er.  Þú fullyrðir meira að segja, að ég hafi ekki talað um að Landsbankinn hafi verið rændur innanfrá eins og hinir bankarnir, sem er alger þvæla, þar sem ég hef alltaf rætt um bankana sem heild, enda allir reknir með sama glæpasniðinu.

Ef fólk þarf að ljúga upp skoðunum á viðmælendur sína, þá hlýtur það af hafa ákaflega lélegan grunn til að standa á, með sinn eigin málflutning.

Axel Jóhann Axelsson, 20.9.2010 kl. 21:54

25 identicon

Axel, orð þín dæma sig sjálf. Ég límdi og afritaði nákvæmlega það sem þú skrifaðir sjálfur. Á einum stað talar þú um að stjórnvöld hafi haft takmarkaðar heimildir til lagasetninga, en á öðrum talar þú um að þú teljir að ekkert hafi hamlað slíkri lagasetningu.

Ef þú kallar þetta útúrsnúning, þá skilurðu ekki mælt mál, hvorki þitt eigið né annara.

Varðandi Landsbankann, þá var ég einfaldlega að impra á og ítreka að sá banki fór í hendurnar á mönnum tengdum Sjálfstæðisflokknum, meira að segja var einn þungavigtamaður flokksins varaformaður stjórnarinnar þar. Það breytti engu um hvernig hann var rekinn.

Ég hef engu logið heldur eingöngu sett fram staðreyndir og hrakið mál sem þú hefur sett fram. Þetta eru svo sem klassísk endalok á rökræðum við þá sem neita öllum staðreyndum, þeir kalla mig lygara með útúrsnúninga eftir að hafa sjálfir orðið röklega gjaldþrota.

Páll (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 07:51

26 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Páll, það er greinilegt að þú skilur ekki það sem þú lest, því þú vitnar sjálfur í þetta:  "Íslensk stjórnvöld höfðu því afar takmarkaðar heimildir til að setja sín eigin lög sem snertu samninginn um fjórfrelsið."

Það er hreint ekki það sama að hafa takmarkaðar heimildir til að setja eigin lög, sem snerta fjórfrelsið, eða að setja lög um dreifða eignaraðild að bönkum, svo fremi að frelsi bankanna til athafna og starfsemi samkvæmt samningnum væri ekki takmarkað.

Þetta kalla ég útúrsnúning, en kannski er þetta bara skilningsleysi og þá er ekkert við því að gera.  Ég hef heldur aldrei varið glæpaverk, hvort sem þar hafa átt í hlut Sjálfstæðismenn, eða einhverjir aðrir og ekki undanskilið Landsbankann í umfjöllunum um bankahrunið og glæpaverk tengd því.  Í því efni reynir þú að ljúga upp á mig skoðunum og það gerir enginn heiðarlegur maður í skoðanaskiptum við aðra.

Þó þú reynir að snúa út úr og falsa mínar skoðanir, þá getur þú varla talið það þér til þeirra tekna, að þú hafir hrakið eitthvað sem ég sagði.  Það eina sem þú sannar með slíku, er þinn eigin óheiðarlegi málflutningur og að þú svífist einskis til að koma honum á framfæri.

Axel Jóhann Axelsson, 21.9.2010 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband