Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Loksins góð frétt

Loksins birtist jákvæð frétt úr atvinnulífinu, en nú mun vera búið að ganga frá samningum milli þeirra aðila, sem að því koma, svo Rio Tinto Alcan geti hafist handa við að uppfæra búnað og auka framleiðsluna í Straumsvík og mun fyrirtækið verja til þess fjörutíuogeinum milljarði króna.

Á framkvæmdatímanum mun þetta verk skapa nokkur hundruð störf og blása nokkru lífi í efnahagsmál þjóðarinnar á meðan unnið verður að þessu, en afkastaaukningin verður að fullu komin til framkvæmda á árinu 2014.  Vonandi hefur ríkisstjórnin engin ráð til að stöðva, eða tefja, þessa framkvæmd, en eins og allir vita, hefur hún barist eins og grenjandi ljón gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu frá því að hún komst til valda og ekki allta beitt til þess löglegum meðulum og nægir að benda á umhverfisráðherrann því til sönnunar.

Nú þarf að leggja alla áherslu á, að koma af stað framkvæmdum við álverið í Helguvík og stóriðju við Húsavík.  Ennfremur verður að greiða fyrir uppbyggingu skurðsjúkrahúsa í Mosfellsbæ og í Reykjanesbæ, sem fyrirhuguð eru til þjónustu við útlendinga, en ríkisstjórnin hefur, samkvæm sjálfri sér, einnig tafið og þvælst fyrir þeim áformum.

Það munar um hvert einasta starf, sem tekst að skapa og því ber að fagna þessum framkvæmdum í Straumsvík og vona að þær séu aðeins upphafið að miklu meiri atvinnusköpun.


mbl.is 41 milljarður í framkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr-áhrifin

Á hundraðasta degi sínum í embætti borgarstjóra gortar Jón Gnarr sig af því að hann sé búinn að hafa slík áhrif á veröldina, að hann sé orðinn nýtt hugtak í stjórnmálafræði, eða "The Gnarr-effect", sem væntanlega á að þýða yfir á íslensku sem "Gnarr-áhrifin".

Hvaða áhrif Jón Gnarr telur sig hafa haft á heimsstjórnmálin liggur ekki alveg fyrir, en væntanlega er það þá að hann sé búinn að sýna og sanna, að uppistandari sem ekkert hefur fram að færa í stjórnmálum og er algerlega ófær um að gegna stjórnunarstarfi, getur tekist að láta kjósa sig í æðstu embætti, ef aðstæður og andrúmsloft í þjóðfélaginu er hentugt fyrir slíkan fíflagang.

Að sýna fram á að hægt sé að ná svo ótrúlegum tökum á hluta kjósenda er auðvitað rannsóknarefni út af fyrir sig og að því leyti gæti þetta fordæmi úr borgarstjórnarkosningunum síðustu haft áhrif á stjórnmálafræðin, en öfugt við það sem Jón Gnarr virðist halda, þá er ekkert jákvætt við þessi áhrif, heldur eru þau dæmi um skammarlega áhrifagirni kjósenda og öllum hlutaðeigandi til vansa.

Borgarstjórinn virðist ekki hafa skilning á Gnarr-áhrifunum, frekar en borgarmálunum.


mbl.is „The Gnarr-effect"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi kjósi líka um Jóhönnu og Össur

Mogginn veltir því upp í morgun, að líklegt sé að þegar tillagan um Landsdóm komi til afgreiðslu á Alþingi, verði greidd atkvæði um hvern ráðherra sérstaklega, sem fyrirhugað er að stefna fyrir dóminn, þ.e. þau Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu, Árna Matt. og Björgvin G. Sigurðsson.

Dálítið virkar það þó einkennilega, að aðskilja ráðherrana þannig í atkvæðagreiðslunni, en þó má réttlæta það með því, að þingmönnum þyki líklegra að sumir þeirra þeirra, en ekki allir, verði sakfelldir fyrir Landsdómi.  Slíkt er þó vandséð, þar sem ásakanir Atlanefndarinnar á þá alla snúast að mestu um sömu ákæruatriði um vanrækslu og aðgerðarleysi.

Ekki verður öðru trúað, en að breytingartillaga komi fram í nefndinni, eða á Alþingi, um að bæta nöfnum Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar á lístann yfir þá ráðherra, sem atkvæði verða greidd um að stefna fyrir Landsdóminn, enda voru þau bæði miklir þátttakendur í öllum fundum og ákvörðunum (ákvarðanaleysi) síðustu ríkisstjórnar.

Verði einhverjum af þessum ráðherrum stefnt fyrir dóminn en öðrum ekki, yrði slík afgreiðsla Alþingis bæði óréttlát og ósanngjörn og myndi eingöngu ráðast af pólitískum ofsóknum á hendur einstaka mönnum, en ekki heiðarlegri tilraun til að gera upp við "hrunstjórnina".

Uppgjör við fortíðina verður að byggjast á heiðarlegum rannsóknum, en ekki pólitískum duttlungum þeirra þingmanna, sem svo vill til að sitja á Alþingi núna.


mbl.is Kosið um hvern og einn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pálmi og Jón Ásgeir pumpuðu loftinu í Icelandair

Það hlýtur að vera nokkuð óvenjulegt að forstjóri eins fyrirtækis skuli halda fyrirlestur á fundum Samtaka um verslun og þjónustu um rekstur helsta keppinautinn á markaðinum og kryfja þar bæði eignir, skuldir, rekstur og eigið fé.  Þetta átti sér þó stað nýlega, þegar Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express fjallaði á fundi samtakanna um Icelandair, þó eðlilegra hefði mátt telja að hann fjallaði um sitt eigið félag, tilurð þess og viðskiptafléttur með það fyrir nokkrum árum, misfallegar og -heiðarlegar.

Í fréttinni er þetta sagt m.a:  "Slík bókfærsla rifji að mati Matthíasar upp minningar frá árinu 2007 þegar það hafi tíðkast að „setja loft“ í efnahagsreikninga félaga. Viðskiptavild upp á 16 til 18 milljarða króna og réttur á flugvallarstæðum séu bókfærðar sem óefnislegar eignir í bókum Icelandair. Viðskiptavildin sé metin á himinháa fjárhæð og sé til að mynda mun meiri en hjá British Airways þar sem hún sé 40 milljónir punda eða á áttunda milljarð króna."

Matthías hefði mátt minnast á það, að á þessum tíma átti Pálmi í Iceland Express stóran hlut í Icelandair, ásamt "viðskiptafélaga" sínum Jóni Ásgeiri í Bónus og fleirum og þeir afrekuðu m.a. að kaupa og selja flugfélagið Sterling á milli sín og blása upp efnahagsreikninga félaganna á víxl, með hækkun á mati flugfélagsins úr 5 milljörðum króna í tuttugu milljarða á örfáum mánuðum, þrátt fyrir að Sterling væri rekið með gríðarlegu tapi allan tímann og færi svo á hausinn nokkru síðar.

Einnig afrekuðu þeir félagar að skipta upp félaginu FL Group (síðar Stoðir) og selja frá því eignir, t.d. Icelandair á rugluðu verðmati og létu fylgja því svo miklar skuldir, að vonlaust var að félagið gæti nokkurn tíma ráðið við þær.  Það var einmitt á þessum tíma sem "loftið" kom inn í efnahagsreikning félagsins vegna ævintýramennsku Pálma og félaga.

Pálmi kom síðan Iceland Express og Asterus undan þrotabúi Fons á spottprís og allt bendir til þess að fléttan með Icelandair hafi verið til þess gerð að koma því félagi á hausinn, svo Pálmi sæti einn að markaðinum með sitt félag, þ.e. Iceland Express. 

Svona gerðust nú kaupin á eyrinni á "velmekatarárum" Jóns Ásgeirs, en velmektarár Pálma í Iceland Express virðast alls ekki liðin.


mbl.is Icelandair fullt af lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr og skælubókin

Jón Gnarr hefur þann háttinn á, áður en hann fer í háttinn, að gráta í opinberu skælubókina sína, sem hann birtir á netinu, en þar skráir hann skælur sínar reglulega um vonsku heimsins, hvað hann sé misskilinn snillingur, höfuðverk, leiðindi fundanna sem hann neyðist til að sitja, skapvonsku sína, undrun á því að ætlast sé til að hann sinni embættinu eins og maður og annað það, sem fer í hans viðkvæmu taugar þann daginn.

Nýjasta færslan í skælubókina hljóðar svona:  "Fundi númer tvö í borgarstjórn lokið. Náði reyndar bara hálfum fyrsta fundi vegna embættiserinda til útlanda. Kominn heim sorgmæddur og hugsi. Hvað er að starfsháttum í stjórnmálum á Íslandi? Þrætur, klækir og rifrildi. Er þetta svona allsstaðar? Skilst að Alþingi sé í svipuðum gír. Er hægt að breyta þessu?"  

Þessar skælur eru bókfærðar eftir borgarstjórnarfund, þar sem stjórnarandstaðan óskaði eftir umræðu um hvernig vinnu við fjárhagsáætlun borgarinnar miðaði og beindi spurningum til borgarstjórans varðandi málið.  Eins og venjulega stóð Jón Gnarr algerlega á gati, þegar reynt er að ræða við hann um alvarleg og brýn mál borgarinnar, enda tók hann ekki þátt í umræðunum og svaraði engri spurningu, sem að honum var beint. 

Auðvitað hljóta allir að vera hættir að reikna með að borgarstjórinn sé inni í nokkru máli, sem viðkemur borginni og stofnunum hans, en meðan hann gegnir þessu hæst launaða embætti borgarkerfisins, verður hann þó að neyðast til að sitja undir þessari leiðinlegu tilætlunarsemi um að hann geti svarað einföldum spurningum um það sem er að gerast hjá meirihlutanum.

Nú eru hveitibrauðsdagar borgarstjórnarmeirihlutans og Jóns Gnarrs, sem borgarstjóra, liðnir og því má reikna með að færslurnar í skælubókina verði með æ dapurlegri svip á næstunni.


mbl.is Sorgmæddur eftir borgarstjórnarfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr og hveitibrauðsdagarnir

Í stjórnmálum er nýjum meirihlutum í ríkis- og sveitarstjórnum gefnir hundrað dagar til að setja sig inn í þau málefni sem brýnust eru og móta endanlega stefnu sína og markmið fyrir framtíðina.  Nú eru liðnir hundrað dagar frá því að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við meirihlutavaldi í Reykjavík og réðu Jón Gnarr sem borgarstjóra. 

Minnihlutinn í Reykjavík virðist ekki hafa verið að trufla borgarstjórann mikið við þá fánýtu iðju, sem þessi dýrasti starfskraftur Reykjavíkurborgar hefur verið að dunda sér frá ráðningunni í borgarstjórastarfið.  Í dag varð hins vegar breyting þar á þegar minnihlutinn fór að spyrjast fyrir um undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011, en undir venjulegum kringumstæðum væri sú vinna langt komin í nefndum og ráðum borgarinnar, en nú bregður svo við að engar línur hafa enn verið lagðar og engin stefna mörkuð, hvorki um tekjuöflun eða útgjaldaramma og engar línur verið lagðar fyrir nefndirnar og ráðin sem málaflokkunum stjórna.

Í allri sögu Reykjavíkurborgar hefur borgarstjórinn hverju sinni leitt umræður og vinnu við fjárhagsáætlanir, en nú brá svo við að Jón Gnarr hvorki tók þátt í umræðunum, né svaraði neinum spurningum sem til hans var beint.  Það er að vísu ekkert undrunarefni, því Jón Gnarr hefur margsýnt það frá því að hann settist í borgarstjórastólinn að hann hefur ekkert sett sig inn í málefni borgarinnar og fyrirtækja hennar og stofnana og virðist ekki heldur hafa nokkurn áhuga á að kynna sér þau.

Hvað skyldi þessi borgarstjórafarsi eiga að ganga lengi?  Varla verður klappað mikið fyrir aðalleikaranum öllu lengur. 

 


mbl.is Svarar ekki fyrir fjárhaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti flokkurinn er besti vinur vara

Krakkar hafa lengi notað það orðatiltæki í leikjum sínum, að best sé að vera vinur aðal, þ.e. aðal mannsins í leiknum og er það keppikefli allra með einhvern metnað að fá að vera besti vinur aðal.  Í borgarstjórn Reykjavíkur er hins vegar Besti flokkurinn langbesti vinur vara, en vegna vináttunnar við varamenn í borgarstjórn, hefur Besti og meirihlutinn gaukað nokkur hundruð þúsund króna búbót til vara á mánuði.

Meirihlutinn hefur sent frá sér réttlætingu á þessari aðgerð, sem ekki er í anda sparnaðar og ráðdeildarsemi, en þar segir m.a:  "Í desember 2009 samþykkti forsætisnefnd að fella niður þessi kjör fyrstu varaborgarfulltrúa, en jafnframt endurskoða launakerfi borgarfulltrúa og gera tillögur að breytingum er taki gildi í upphafi nýs kjörtímabils. Vinna við endurskoðun launakerfisins var aldrei sett af stað."

Það er semsagt notað sem rökstuðningur fyrir auknum útgjöldum, að endurskoðun launakerfis borgarfulltrúanna skuli ekki hafa farið af stað fyrir kosningar í stað þess að drífa í því að koma verkinu í gang og leita frekari möguleika á sparnaði, en þegar var kominn í framkvæmd.

Þetta er þvílík hundalógík, sem engum dytti í hug að beita nema brandaraköllunum í Besta og viðhlæjendum þeirra í Samfylkingunni.  Þar að auki kalla grínistarnir þetta ekki launahækkun, heldur sé bara verið að setja í gildi gamla launatöflu og því sé þetta í raun engin breyting, þó hún kosti fimmmilljónir króna á ári.

Fjölskylduhjálpin hefði vel getað notað þessa peninga til aðstoðar við sína skjólstæðinga, en besta vini vara finnst aurunum betur varið á þennan hátt.


mbl.is Segja kjör varaborgarfulltrúa þau sömu og áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðslega ámælisvert að vera ósammála Atlanefndinni

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sparaði ekki stóru orðin í ræðu sinni á Alþingi, þar sem hún skammaðist út í Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vera ekki sammála niðurstöðu Atlanefndarinnar um að meiri líkur en minni væru á að fyrrverandi ráðherrar myndu verða sekir fundnir um ýmis lögbrot fyrir Landsdómi.  Væntanlega hafa aðrir þingmenn, sem lýst hafa sömu efasemdum átt sinn hlut í þessari vænu illindasneið.

Við stofnun Atlanefndarinnar hefur varla fylgt henni í vöggugjöf loforð hvers einasta þingmanns úr öllum flokkum um að þeir myndu samþykkja steinþegjandi og hljóðalaust allt sem frá nefndinni kæmi, án tillits til eigin skoðana á málinu og sekt eða sakleysi fyrrverandi og núverandi ráðherra.  Þetta fyrirkomulag á því, hvort stefna skuli ráðherrum fyrir Landsdóm er algerlega ótækt, þar sem allir hefðu átt að geta sagt sér fyrirfram, að afstaða til niðurstöðu nefndarinnar væri líkleg til að falla í pólitískt þref, í þeim anda sem þingmönnum einum er lagið.

Úr því sem komið er getur þingið ekki komist skammlaust frá málinu öðruvísi en að skipa fimm manna óháða nefnd sérfræðinga til að fara yfir málið og lýsa yfir fyrirfram, að þingið muni samþykkja tillögur þeirrar nefndar um að stefna, eða stefna ekki, þeim fyrrverandi og núverandi ráðherrum, sem nefndin kæmist að niðurstöðu um.  Þingmenn myndu nánast skuldbinda sig fyrirfram um að una slíkri niðurstöðu og fara eftir henni í einu og öllu.

Slík niðurstaða myndi ekki einungis róa almenning, heldur líka þingheim sjálfan.


mbl.is „Ógeðsleg“ framganga Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivexti í 0,5-1% á morgun - annað óviðunandi

Allt frá bankahruni hafa stýrivextir Seðlabankans verið allt of háir og haldið uppi okurvöxtum í þjóðfélaginu á sama tíma og eftirspurn í hagkerfinu hefur hrunið, fjárfestingar eru engar og einkaneysla dregst stöðugt saman.  Alls staðar annarsstaðar hafa seðlabankar brugðist við efnahagskreppunni með því að lækka strýrivexti sína niður í 0-2%, með það að markmiði að ýta undir fjárfestingar, uppbyggingu atvinnulífsins og þar með minnkun atvinnuleysis.

Meira að segja Már, seðlabankastjóri, lét hafa það eftir sér í viðtali við erlenda fjölmiðla fyrir skömmu, að stýrivextir væru allt of háir á Íslandi, miðað við núverandi og væntanlegt verðbólgustig, en hins vegar virðist seðlabankastjórinn ekki hafa neinar áhyggjur af atvinnulífinu, fjárfestingum eða afkomu heimilanna og alls ekki truflar atvinnuleysið svefnfrið hans.

Miðað við eigin yfirlýsingar og í ljósi aðgerða allra annarra seðlabanka í heiminum, hlýtur Seðlabanki Íslands að tilkynna stýrivaxtalækkun niður í 0,5-1% á morgun.  Allt annað er óviðunandi í því þjóðfélagi stöðnunar og afturhalds, sem hér hefur verið við lýði í tvö ár.

Atvinnulífið og þjóðfélagið allt þarf á þeirri innspýtingu að halda, sem slík stýrivaxtalækkun myndi hafa í för með sér.


mbl.is Spá stýrivaxtalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jóhanna að undirbúa stjórnarslit?

Jóhanna Sigurardóttir lýsti yfir mikilli ánægju sinni með tillögur Atlanefndarinnar um þá sem stefna ætti fyrir Landsdóm, þegar skýrslan kom út og sagði að leikurinn væri til þess gerður að róa almenning og hinir ækærðu ættu að vera glaðir og ánægðir með að verða stefnt fyrir dómstólinn, því þá fengju þeir tækifæri til að hreinsa nöfn sín. 

Eins gáfuleg og þessi ummæli nú eru, þá féllu þau af vörum forsætisráðherra þjóðarinnar nánast í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðvunum og fóru því ekki fram hjá neinum.  Nokkrum dögum síðar kastar þessi sami ráðherra sprengju inn í sal Alþingis og það beint undir stóla eigin fulltrúa í Atlanefndinni og alveg sérstaklega að Atla Gíslasyni, formanni ákærunefndarinnar, og vænir þá um léleg vinnubrögð og tillögur um ákærur, án nægilegra rannsókna og nánast að tilefnislausu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni munu ekki þora að andmæla Jóhönnu mikið, en Atli og Vinstri grænir munu ekki una þessari bakstungu frá sjálfum forsætisráðherranum, enda farnir að hrópa á stjórnarslit, en verið gæti að það sé einmitt ástæða Jóhönnu fyrir þessu ótrúlega útspili í umræðunni um Landsdómsákærurnar.

Því hafði verið spáð, að Samfylkingin og VG myndu ekki ná samkomulagi um niðurskurð og sparnað í útgjöldum ríkissins og frekara skattahækkanabrjálæði Steingríms J. og því myndi verða ákaflega erfitt að koma saman fjárlögum og sú vinna myndi jafnvel endanlega sundra stjórnarsamstarfinu.

Nú er búið að varpa nýrri sprengju og aðeins beðið eftir að hún spryngi og þá mun kom í ljós hvort stjórnin á sér einhversstaðar skjól til að hlaupa í.


mbl.is Mikil reiði innan VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband