Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Ákærur eða þakklæti?

Margir virðast standa í þeirri trú, að ákærur Atlanefndarinnar á hendur sumum ráðherrum síðustu ríkisstjórnar snúist um ábyrgð á banka- og efnahagshruninu í október 2008, en svo er auðvitað alls ekki, heldur snúast kærurnar aðallega um að þessir ráðherrar hafi ekki boðað til sérstakra ríkisstjórnarfunda um bankamál, skort á samningu skýrslna um málin, að hafa ekki séð um að flytja Icesave í erlenda lögsögu, að hafa ekki látið bankana minnka efnahagsreikning sinn og fleira í þessum dúr.

Að mörgu leyti er vandséð hvernig ráðherrar hefðu átt að grípa inn í rekstur einkabanka, sem lutu lögmálum ESB um frelsi til fjármagnsflutninga og eigendum sínum og stjórnum, sem ábyrgar áttu að vera fyrir þessum einkafyrirtækjum.  Ákærurnar eru í flestum atriðum þær sömu á hendur öllum ráðherrunum og hljóðar t.d. ein þeirra svona:  "Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi."

Hvernig skyldu bankar minnka efnahagsreikning sinn?  Það verður varla gert svo neinu nemi öðruvísi en með því að greiða niður skuldir bankans og til þess hefði hann væntanlega ekki haft neitt fjármagn, nema að innheimta útistandandi kröfur sínar og það hefði hann ekki getað gert, nema gjaldfella meirihluta þeirra og með slíkum aðgerðum hefðu bankarnir fallið umsvifalaust.  Hvað hefði svo gerst, ef bankarnir hefðu verið orðnir að erlendum bönkum, eftir flutning höfuðstöðvanna úr landi og þeir hefðu hrunið hvort sem var, ekki síst vegna glæpsamlegs reksturs þeirra til margra ára? 

Það sem hefði auðvitað gerst við slíkar aðstæður hefði verið það, að allar innistæður Íslendinga hefðu tapast, nema það sem fengist hefði úr tryggingarsjóðum, 20.008 evrur á hvern reikning, og þar með hefði tap þjóðarbúsins orðið gífurlegt og ekki nokkur möguleiki til að endurvekja bankakerfi hér á landi og þar með efnahagslíf, nema á mörgum áratugum.

Hefðu ráðherrarnir haft völd til að beita sér fyrir framangreindu og gert það, yrðu þeir sjálfsagt ákærðir fyrir að hafa beitt sér fyrir aðgerðum, sem hefðu valdið óbætanlegum skaða fyrir íslenskt efnahagslíf.  Þá hefði mátt segja að þeir hefðu tekið glæpsamlegar ákvarðanir og ættu refsingu skilda.

Með því að gera það ekki var haldið opnum þeim möguleika, sem síðar var nýttur, en það var að stofna nýtt bankakerfi á grundvelli þeirra innistæðna sem hægt var að flytja úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.  Þær björgunaraðgerðir sem þó tókst að framkvæma í kjölfar hrunsins voru afrek og allir sem að þeim komu eiga þakklæti þjóðarinnar skilið fyrir, en ekki vanþakklæti og ákærur.

Í þessu efni, sem öðrum, eru laun heimsins vanþakklæti.

 


mbl.is Atkvæði um málshöfðun í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í ljósum logum

Innviðir Samfylkingarinnar standa í ljósum logum og brennuvargarnir sem kveiktu bálið eru Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir og á bálið vörpuðu þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formanni flokksins, vegna þess að hún er hætt á þingi, en vilja hinsvegar forða Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi bankamálaráðherra, frá brennunni af þeirri ástæðu að hann er góður vinur Össurar, sem einnig gerði hann að þingmanni og ráðherra fyrir Samfylkinguna.

Jóhanna og Össur virðast hafa ógnartök á þingmönnum flokksins, sem líklegt er að fylgi þessum foringjum sínum í algerri blindni í atkvæðagreiðlunni um ráðherraákærurnar, en grasrótin í flokknum er ævareið forustunni fyrir framgöngu hennar gegn Ingibjörgu Sólrúnu og er allt við það að sjóða uppúr í flokknum vegna þessa.

Veði niðurstaða þingsins sú, að Ingibjögu verði stefnt fyrir Landsdóm, en Björgvini ekki og það vegna atkvæða þingmanna Samfylkingarinnar, er líklegast að flokkurinn klofni og stuðningsmenn Ingibjargar rói á önnur mið.

Fari svo verður fróðlegt að sjá hvað Össur stendur uppi með fjölmennan flokk eftir næstu kosningar, en þá verður Jóhanna bandamaður hans í þessari blóðhefnd farin af þingi fyrir fullt og allt.


mbl.is Skiptar skoðanir um ákærur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heiðrunin" er Atla ekki til vegsauka

Einhver fámennur hópur, sem kallar sig alþingi götunnar sýndi Atla Gíslasyni aðdáun sína fyrir utan Alþingi Íslendinga, vegna þess hve Atli hafi staðið fast gegn hvers kyns mótbárum þingmanna og ráðherra við framgangi hans, sem formanns nefndarinnar um ráðherraákærur og telja talsmenn götunnar að mikill sómi sé að framgöngu Atla í þeirri herferð allri.

Af þessu tilefni vaknar sú spurnig, hverjir hafi kosið þessa þingmenn götunnar, hvenær kosningin hafi farið fram og hvernig þinginu sé skipað í meiri- og minnihluta og hvenær og hvernig samþykktin um heiðrun Atla hafi verið samþykkt og afgreidd á götuþinginu.

Getur verið að ekkert sé á bak við þetta alþingi götunnar nema örfáir sjálfkjörnir ofstækismenn, sem fréttamenn taki gagnrýnislaust við tilkynningum frá og fjalli um, eins og um alvörufélagsskap sé að ræða, sem komist að niðurstöðum sínum með atkvæðagreiðslu eftir lýðræðislegar umræður?

Eftir hvaða stefnuskrá starfar þetta götuþing og finnst alvöru Alþingismönnum virkilega heiður að því að fá viðurkenningar frá svona óskilgreindum hópi manna, sem fáir eða engir vita deili á? 

Fram að þessu hefur það ekki þótt nein heiðursnafnbót að vera talinn meðlimur í alþingi götunnar.  Móttaka Atla á þessari "viðurkenningu" er honum ekki til álitsauka, heldur þvert á móti.


mbl.is Heiðruðu Atla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að rannsaka rannsóknirnar?

Nú er tími hinna miklu rannsókna í þjóðfélaginu og hver þingmaðurinn eftir annan ber fram tillögur um að þetta og hitt sem gert var í fortíðinni verði rannsakað af sérstökum rannsóknarnefndum.  Að minnsta kosti tvær tillögur eru komnar fram á alþingi um að rannsakaðar verði sölur á Landsbankanum og Búnaðarbankanum á sínum tíma og hlýtur slík rannsókn að verða jafnframt rannsókn á Ríkisendurskoðun, sem mun vera búin að rannsaka þessar bankasölur tvisvar og skila skýrslum um þær rannsóknir sínar.

Rannsóknarnefnd þarf líka að setja í verk núverandi ríkisstjórnar, svo sem Icesave og andstöðuna við atvinnuuppbyggingu.  Svo þarf að setja rannsóknarnefndir í að rannsaka allt sem ekki hefur verið gert á undanförnum áratugum og hvers vegna það var ekki gert.  Rannsóknarnefndir þarf nauðsynlega til að rannsaka allar þingkosningar frá lýðveldisstofnun og komast að því hvort rétt hafi verið talið og hver sé skýringin á fylgi hvers flokks fyrir sig og af hverju aðrir buðu ekki fram en þeir sem buðu fram.

Þegar búið verður að rannsaka allt sem hægt verður að rannsaka, þarf að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka allar rannsóknarnefndirnar og niðurstöður þeirra og kanna alla þá þætti, sem nefndunum kynni að hafa yfirsést í rannsóknum sínum.

Í öllum þessum rannsóknum skal hafa vinnubrögð rannsóknarréttar miðalda til fyrirmyndar.  Einnig má líta til fleiri slíkra fyrirmynda síðari tíma, t.d. menningarbyltingarinnar í Kína, en rannsóknir voru þó ekki mjög djúpar á þeim tíma, enda allt slíkt tímafrekt og eingöngu til að tefja fyrir dómsniðurstöðum.


mbl.is Vill rannsókn á einkavæðingu banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíðaskálasnobb

Ágúst Guðmundsson, Bakkabróðir, hefur átt í erfiðleikum með að fjármagna skíðakofann sinn í frönsku Ölpunum, en bankinn var búinn að gjaldfella ellefuhundruðogfimmtán milljóna króna lán, sem hann hafði tekið til kaupa á kofanum.  Áður hafa birst fréttir af basli Jóns Ásgeirs í Bónus með fjármögnun á sínum skíðakofa á svipuðum slóðum, en að lokum hljóp eiginkona hans undir bagga með honum og snaraði út tæplega tveim milljörðum króna til að forða skíðaathvarfinu frá uppboði.

Keppni útrásargarkanna um hver gat sýnst stærstur og ríkastur er sprenghlægileg fyrir þá sem með fylgjast af hliðarlínunni, en sýndarmennskukeppnin snýst um að "eiga" flottustu einkaþotuna, skíðahallir, lúxusíbúðir, lúxusbíla, snekkjur og sumarhallir.  Allt væri þetta í stakasta lagi, ef þessi gengi ættu eitthvað í þessum lúxus öllum, en ekki er það svo gott, því allt er þetta skuldsett upp fyrir rjáfur og mest af fjármálavitleysum þessara auraapa hefur lent í fanginu á lánadrottnum þeirra viða um heim og almenningi á Íslandi.

Greinilegt er að snobbið og mikilmennskubrjálæðið hefur verið alveg gengdarlaust hjá þessum "köppum" og t.d. algerlega óskiljanlegt hvað þeir hafa haft að gera með eins til tveggja milljarða króna skíðahallir til að dvelja í nokkrar helgar á vetri og álíka sumarhallir til að eyða í nokkrum sumarhelgum.

Þessir íslensku auðrónar eru skólabókardæmi um hvernig menn verða af aurum apar.


mbl.is Ágúst nær sátt í skuldamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talaði Rannsóknarnefnd Alþingis ekki skýrt?

Atlanefndin virðist gera ráð fyrir því að niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis sé eitthvað óskýr í hugum fólks, en Atlanefndin sér ástæðu til þess að gera tillögu um að Alþingi skýri niðurstöðurnar nánar, t.d. með því að benda sérstaklega á eftirfarandi í ályktun sinni:  "Auk þess leggur þingmannanefndin til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu."

Svona ályktun frá Alþingi er hálfhláleg, því þingið þarf ekki og á ekki að túlka niðurstöður Rannsóknarnefndarinnar, þær standa algerlega fyrir sínu, einar og sér og þurfa engar ályktanir frá Alþingi, þær eru alveg skýrar og öllum skiljanlegar.

Í sama anda er víðáttuvitlaus hugmynd Ólínu Þorvarðardótturog Skúla Helgsonar, í þá veru að Alþingi samþykki vítur á alla ráðherra, þingmenn og aðra, sem við störf voru á árunum 2001-2008 vegna þeirrar ábyrgðar sem þeir báru á þróun þjóðfélagsins á þessum árum.  Þessir þingmenn hljóta þá að vilja setja það fordæmi, að við hver einustu ríkisstjórnarskipti álykti nýr meirihluti um störf og ábyrgð stjórnarinnar á undan og fordæmi hana fyrir að hafa haft einhverja aðra stefnu, en nýjasti meirihlutinn.

Alþingi er ekki dómstóll, heldur lagasetningarsamkoma.  Þingmenn þurfa sjálfir að fara að skilja hlutverk sitt og halda sig við það.  Annað hlýtur að teljast vítavert.


mbl.is Áfellisdómur yfir stjórnvöldum og stjórnmálamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg sýnir fram á fáránleikann

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur sent öllum þingmönnum greinargerð vegna fyrirhugaðrar stefnu á hendur henni fyrir Landsdóm og verst hún fimlega öllum ásökunum, sem á hana eru bornar og gagnrýnir fulltrúa Samfylkingarinnar í Atlanefndinni harðlega.

Í ákæru Atlanefndarinnar er Ingibjörg ásökuð um að hafa leynt því sem rætt var á fundi þann 7. febrúar 2008 með seðlabankastjórum fyrir Björgvini G., fyrrv. viðskiptaráðherra, en Ingibjörg upplýsir í bréfi sínu, að hún hafi ekki eingöngu upplýst Björgvin um fundinn, heldur allan þingflokkinn og síðar hafi hún, Björgvin, Geir H. og Árni Matt. fundað um það sem þar hefði komið fram, ekki einu sinni, heldur tvisvar, þannig að Björgvini var fullkunnugt um allt sem var verið að ræða um þessi mál, á þessum tíma.

Ekki er nóg með að Björgvin hafi vitað um efni fundarins, heldur vissu Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson allt um málið og raunar þingflokkurinn allur, eins og áður sagði.  Hafi eitthvað verið saknæmt við viðbrögð, eða viðbragðsleysi í kjölfar fundarins, þá eru Jóhanna og Össur algerlega samsek Ingibjörgu og jafnvel þingmennirnir allir, því hafi þurft að koma til einhverra lagabreytinga, hefur það verið á ábyrgð þingsins.

Allt sýnir þetta í hnotskurn á hve veikum grunni ákærurnar á ráðherrana eru byggðar og líkur á sýknu fyrir Landsdómi miklu meiri en að sekt yrði sönnuð og dómur felldur yfir ráðherrunum.

Þingmenn, sem hugsanlega ættu að teljast samsekir, ef einhver sekt er fyrir hendi, geta varla verið í aðstöðu til að ákæra aðra fyrir hluti, sem þeir hefðu sjálfir átt að bregðast við, ekki síður en ráðherrarnir.


mbl.is Hefði farið gróflega út fyrir valdsviðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanabrjálæðinu linnir ekki

Starfshópur Steingríms J., undir forsæti Indriða, skattaóða, hefur skilað tillögum sínum til frekara skattahækkunarbrjálæðis, sem greinilega ágerist með hverju árinu sem núverandi ólánsríkisstjórn situr.  Í þeim úrdrætti úr tillögum nefndarinnar, sem birtist á mbl.is rekur maður strax augun í nokkrar fullyrðingar, sem ekki standast og nægir að benda á t.d. þetta:

"Þá verði fjármagnstekjuskattur og skattur á hagnað lögaðila enn lægri en í flestum öðrum löndum. Skattur á arð á Norðurlöndunum sé frá 28% (Finnland, Noregur) upp í 43% (Danmörk) og meðaltalið í OECD‐ ríkjunum tæp 30% en yrði miðað við þessar hugmyndir 20%."  Viða þetta er það að athuga, að hér á landi er fjármagnstekjuskattur lagður á verðbætur, sem er engin raunveruleg ávöxtun fjármuna, til viðbótar við vaxtatekjur, en erlends er eingöngu lagður skattur á raunverulegar vaxtatekjur og sums staðar eru vaxtagjöld frádráttarbær, sem ekki er hérlendis.

Einnig má benda á þessa klausu:  "Auðlegðarskattur, 1,25% skattur á eignir einstaklinga yfir 90 milljónir og hjóna yfir 120 milljónir, var tekinn upp á síðasta ári. Starfshópurinn telur mögulegt að hækka núverandi skatthlutfall auðlegðarskattsins eitthvað eða lækka fríeignamarkið. Hækki auðlegðarskattur í 1,5% myndi það skila ríkinu um 800 milljónum króna í tekur.

Segir hópurinn, að bent hafi verið á að hækkun auðlegðarskatts kynni að leiða til þessa að efnafólk kæmi fé sínu fyrir erlendis eða flytti jafnvel úr landi. Þá þurfi að hafa í huga að vistun eigna í öðrum löndum sé engin trygging fyrir lægri skattgreiðslum, enda skattar á fjármagnstekjur víðast hvar hærri en á Íslandi."  Hér er nánast um hreinar blekkingar að ræða, þar sem auðlegðarskattur leggst á hreina eign, en ekki tekjur af eigninni.  Því getur fólk búið í dýru, en skuldlitlu húsi, án þess að hafa af því neinar tekjur, en greiðir auðlegðarskatt engu að síður.  Ef eignin er í formi eigna sem gefa af sér tekjur, eru þær skattlagðar eins og fjármagnstekjur og þá bæði greiddur auðlegðarskattur og fjármagnstekjuskattur af slíkum tekjuskapandi eignum.  Eignaskattar tíðkast ekki víða í nágrannalöndunum, ef þá nokkursstaðar.

Til viðbótar á svo að hækka fyrirtækjaskatta, áfengis- tóbaks- og kolefnisskatta, en allir skattar á fyrirtæki fara beint út í verðlagið, þannig að allar slíkar hækkanir eru óbeinar skattahækkanir á einstaklinga, en dulbúnar til þess að reyna að blekkja almenning til að sætta sig betur við þessar brjálæðislegu skattpíningarhugsun.

Ofan á allt saman fara allar þessar skattahækkanir beint út í neysluverðsvísitöluna, magna verðbólguna og hækka öll verðtryggð lán í landinu.  Finnst einhversstaðar einhver, sem styður þessa stefnu?

 


mbl.is Tillögur um hærri skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leysa uppboðin fólkið úr snörunni?

Undanfarna mánuði hefur fjöldi íbúða verið boðnar upp af sýslumönnum vegna skulda sem íbúðareigendurnir hafa ekki ráðið við að standa í skilum með, bæði vegna mikilla hækkana á lánunum vegna verðtryggingar eða gengisbreytinga. 

Á suðurnesjum einum saman er útlit fyrir að fimm hundruð fjölskyldur missi íbúir sínar af þessum sökum og til viðbótar öðrum erfiðleikum er mesta atvinnuleysi á landinu einmitt í þeim landshluta og sama hvað hefur verið reynt til að efla atvinnulífið á þeim slóðum, þá hefur það lítið þokast vegna einarðar afstöðu ríkisstjórnarinnar gegn allri atvinnuuppbyggingu á svæðinu.  Minnkun atvinnuleysisins væri hins vegar líklegasta ráðið til að draga úr þessum skelfilegu nauðungarsölum, sem jafnvel verða til að tvístra fjölskyldum og bæta a.m.k. ekki möguleika þeirra til eðlilegs lífs.

Þegar fjölskyldur eru komnar með húsnæðislánin sín í slík vanskil, að leiði til uppboðs, er líklegt að ýmsar aðrar skuldir hafi einning hlaðist upp og ekki hverfa þær við uppboðin.  Elti aðrir lánadrottnar fólkið eftir þessi uppboð með skuldir, sem engin leið er að borga, endar sá eltingaleikur væntanlega með persónulegu gjaldþroti viðkomandi einstaklinga, sem aftur verður til þess að sá hinn sami verður nánast efnahagslegur útlagi í eigin landi í a.m.k. tíu ár og jafnvel geta lánadrottnarnir haldið honum í heljargreipum til æviloka, hafi þeir smekk og geð til slíks.

Uppboðin leysa því fólk ekki úr skuldasnörunni, en herðir hana einungis ennþá fastar um háls þeirra , sem lenda í þessu skuldavíti.  Norræna velferðarstjórnin hefur að eigin sögn slegið skjaldborg um heimilin í landinu, en almenningur veltir fyrir sér hvaða heimili falli undir þá borg, því flestum finnst þeir hafa algerlega lokast utan hennar.


mbl.is Fjöldi heimila á uppboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarúthlutunaraðferðum verður að breyta

Matar- og fataúthlutanir til fátæks fólks eru ekki nýjar af nálinni á Íslandi, því Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur var upphaflega stofnuð 20. apríl 1928 og síðan var félagið endurskipulagt og gert að sjálfstæðri stofnun 1939, þannig að aðstoð félagsins við þá sem aðstoð þurfa teygir sig aftur fyrir lýðveldisstofnun.  Síðan hafa fleiri félagasamtök bætst við, t.d. Hjálpræðisherinn, Hjálparstofnun kirkjunnar, Samhjálp, Fjölskylduhjálp Íslands o.fl.

Það er því alrangt, sem fram kemur frá "fræðimanninum" Hörpu Njáls, eða eins og segir í fréttinni:  "Harpa Njáls félagsfræðingur segir að yfirvöld hafi búið vandamálið til á 10. áratugnum."  Ekki verður séð til hvers verið er að blanda pólitískum lygaáróðri inn í þetta vandamál, sem því miður hefur verið viðvarandi í þjóðfélaginu lengi og aukist mikið eftir efnahags- og bankahrunið.

Aðferðin við úthlutanir er hins vegar gölluð og niðurlægjandi fyrir þá sem þurfa að nýta sér hana, en nokkurra tíma biðraðir í kulda og trekki eru ekki sæmandi og nýja aðferð við þessa aðstoð og aðstöðuna til hennar þarf að stórbæta.  Reykjavíkurborg hlýtur að geta lagt til rúmgott húsnæði undir þessa starfsemi með rúmgóðum biðsal fyrir skjólstæðingana og góðri aðstöðu til úthlutunar þeirrar vöru, sem til afhendingar er hverju sinni.

Einnig er umhugsunarvert hvort ekki sé hægt að úthluta skjólstæðingunum ákveðnum tímum til að mæta á, þannig að hægt væri að dreifa álaginu meira og hlyti slíkt að vera bæði þeim sem að þessum málum vinna og þeim sem aðstoðar njóta til hagræðis.

Eina varanlega lausnin er hinsvegar að eyða vandamálinu og fátæktinni algerlega, en þar sem slíkt er líklega fjarlægur draumur, verður að vinna að úrbótum á núverandi aðferðum við þessa aðstoð.


mbl.is Matargjafirnar einsdæmi á Norðurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband