Ákærur eða þakklæti?

Margir virðast standa í þeirri trú, að ákærur Atlanefndarinnar á hendur sumum ráðherrum síðustu ríkisstjórnar snúist um ábyrgð á banka- og efnahagshruninu í október 2008, en svo er auðvitað alls ekki, heldur snúast kærurnar aðallega um að þessir ráðherrar hafi ekki boðað til sérstakra ríkisstjórnarfunda um bankamál, skort á samningu skýrslna um málin, að hafa ekki séð um að flytja Icesave í erlenda lögsögu, að hafa ekki látið bankana minnka efnahagsreikning sinn og fleira í þessum dúr.

Að mörgu leyti er vandséð hvernig ráðherrar hefðu átt að grípa inn í rekstur einkabanka, sem lutu lögmálum ESB um frelsi til fjármagnsflutninga og eigendum sínum og stjórnum, sem ábyrgar áttu að vera fyrir þessum einkafyrirtækjum.  Ákærurnar eru í flestum atriðum þær sömu á hendur öllum ráðherrunum og hljóðar t.d. ein þeirra svona:  "Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi."

Hvernig skyldu bankar minnka efnahagsreikning sinn?  Það verður varla gert svo neinu nemi öðruvísi en með því að greiða niður skuldir bankans og til þess hefði hann væntanlega ekki haft neitt fjármagn, nema að innheimta útistandandi kröfur sínar og það hefði hann ekki getað gert, nema gjaldfella meirihluta þeirra og með slíkum aðgerðum hefðu bankarnir fallið umsvifalaust.  Hvað hefði svo gerst, ef bankarnir hefðu verið orðnir að erlendum bönkum, eftir flutning höfuðstöðvanna úr landi og þeir hefðu hrunið hvort sem var, ekki síst vegna glæpsamlegs reksturs þeirra til margra ára? 

Það sem hefði auðvitað gerst við slíkar aðstæður hefði verið það, að allar innistæður Íslendinga hefðu tapast, nema það sem fengist hefði úr tryggingarsjóðum, 20.008 evrur á hvern reikning, og þar með hefði tap þjóðarbúsins orðið gífurlegt og ekki nokkur möguleiki til að endurvekja bankakerfi hér á landi og þar með efnahagslíf, nema á mörgum áratugum.

Hefðu ráðherrarnir haft völd til að beita sér fyrir framangreindu og gert það, yrðu þeir sjálfsagt ákærðir fyrir að hafa beitt sér fyrir aðgerðum, sem hefðu valdið óbætanlegum skaða fyrir íslenskt efnahagslíf.  Þá hefði mátt segja að þeir hefðu tekið glæpsamlegar ákvarðanir og ættu refsingu skilda.

Með því að gera það ekki var haldið opnum þeim möguleika, sem síðar var nýttur, en það var að stofna nýtt bankakerfi á grundvelli þeirra innistæðna sem hægt var að flytja úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.  Þær björgunaraðgerðir sem þó tókst að framkvæma í kjölfar hrunsins voru afrek og allir sem að þeim komu eiga þakklæti þjóðarinnar skilið fyrir, en ekki vanþakklæti og ákærur.

Í þessu efni, sem öðrum, eru laun heimsins vanþakklæti.

 


mbl.is Atkvæði um málshöfðun í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Góð færsla.

Það sem ég velti fyrir mér er hvort vitandi eða óafvitandi sé verið að leiða huga fólks frá því að eftirleikur þessa alls..er í litlu öðruvísi..Hvað með t.d Icesave og nýju bankana? Er þar allt eins og á að vera.

Kveðja.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 28.9.2010 kl. 09:33

2 identicon

Þú skautar framhjá því að þegar stjórnvöld höfðu upplýsingar um að bankakerfið stæði á brauðfótum, þá áttu þau að hamla frekari vexti þess. Það er nauðsynlegt að rifja það upp að megnið af Icesave skuldbindingunum varð til þegar vel var liðið á árið 2008. Þetta gátu stjórnvöld komið í veg fyrir og aðgerðaleysi þeirra var refsivert með tilliti til ákvæðisins um að valda ríkinu tjóni með aðgerðum eða aðgerðaleysi.

Eitt mikilvægasta skrefið sem hægt var að taka til þess að minnka tjónið var að leyfa ekki meiri vöxt, það þurfti ekki endilega að skipa bönkunum að minnka strax. Í öðru lagi hefði einfaldlega mátt setja neyðarlögin miklu fyrr, ef ekki hefði verið hægt að tjónka neitt við bankana (Sennilegt).

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 28.9.2010 kl. 09:52

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þorgeir, ég var nú einmitt að fjalla um þann ákærulið, sem fjallar um að stjórnvöld hefðu átt að beita sér fyrir því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína, eða flyttu höfuðstöðvarnar úr landi. 

Ég var ekkert að skauta framhjá Icesave, þar sem þessi ákæruliður fjallaði ekkert um það mál.  Fjármálaeftirlitið hafði eftirlit með bönkunum, en ekki ráðherrarnir og eftirlitið hefur gefið þá skýringu opinberlega, að það hefði ekki haft völd til að banna Icesavereikningana og því hefði það ekki verið gert.  Þeim ráðherra sem hafði yfir Fjármálaeftirlitinu að segja, var Björgvin G. og honum vill Samfylkingin alls ekki stefna fyrir Landsdóminn.  Svo er aftur spurning hvort ráðherrann hefði getað gefið eftirlitinu bein fyrirmæli um hvað það ætti að gera og gera ekki, þar sem Fjármálaeftirlitið var sjálfstæð stofnun með sína eigin stjórn og forstjóra og laut því ekki beinu boðvaldi ráðherrans.

Þú segir að "sennilegt" sé að setja hefði átt neyðarlögin fyrr, en gert var.  Það er alltaf einfalt að vera vitur eftirá, en í þessu tilfelli voru neyðarlög sett, þegar neyðin skall á.   "Sennilega" er erfitt að setja "neyðarlög" áður en neyðin verður raunveruleg.

Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2010 kl. 10:21

4 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Er Steingrímur búinn að svara ESA vegna Icesave?   Ætlar Steingrímur að segja já við ákærum á fyrrverandi ráðherra, vegna einhverra aðgerða sem voru ekki á hendi fyrrv. ráðherra vegna Icesave og senda svo ESA bréf þar sem hann mótmælir því að ríkið að hafi eitthvað með Icesave að gera?

  Ef að ég man rétt, þá voru jú Bretarnir alveg til í að taka þess Icesavereikninga í bresk útibú, en það hefði kostað ríkissjóð 200 milljónir punda.  Slík útlát hefði þurft að leggja fyrir Alþingi.  Hefði Steingrímur og fleiri kæruliðar sem að þá voru á þingi, hleypt því þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingi?  Auk þess voru eigendu og stjórnendur Landsbankans andvígir því að flytja reikningana í bresk útibú.

 Þegar Icesave var opnað í Hollandi, þá gerði stjórnarformaður FME sér ferð til Hollands og varð sérstakt andlit Icesavereikningana í Hollandi.  Var stjórnarformaðurinn aðalfyrirsæta Landsbankans í bæklingum þar ytra vegna Icesave.  Var það á verksviði, forsætis, fjármála eða utanríkisráðherra að banna stjórnarformanni FME að stunda modelstörf fyrir Landsbankann erlendis?  Já og vel á minnst hvar er formaður stjórnar FME núna, sem að gaf sér ekki tíma í meira en að halda aðeins einn stjórnarfund hjá FME?  Aðspurður sagði hann að erfitt hafi verið að kalla saman stjórnarfundi vegna sumarleyfa, en hann hafi þó spjallað við menn í síma og á óformlegum fundum, sem að vitanlega ekki er til stafkrókur um.  Man fólk yfir höfuð hvað sá fyrrv. stjórnarformaður heitir?  

 Nýheiðraður nefndarformaðurinn Atli Gíslason, telur það grundvöll fyrir ákærum, að ekki hafi íslensku bönkunum verið skipaður tilsjónarmaður.  Það þarf ekki langskólagenginn mann til að sjá það, að ef íslensku bönkunum hefði verið skipaður tilsjónarmaður, þá hefði það tekið innan við sólarhring að fella þá.  

 Reiðir þingmenn segja það skyldu þingmanna að ákæra ráðherrana fyrrverandi, því það er vilji þjóðarinnar, annars geti þingmenn ekki axlað ábyrgð á hruninu.  Það segir sig eiginlega sjálft að þeir þingmenn sem ekki voru á þingi fyrir hrun axla vart ábyrgð á því sem gerðist á þingi fyrir hrun.  Þingmenn sem sátu á Alþingi fyrir hrun og sitja enn á þingi, geta hins vegar skoðað það með sjálfum sér, afhverju í ósköpunum, þrátt fyrir fréttaumfjallanir í viku hverri, bar enginn þeirra upp formlega fyrirspurn, hvorki munnlega né skriflega um stöðu bankana í undanfara hrunsins?  

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.9.2010 kl. 10:38

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Hefðu "Neyðarlögin" verið sett vorið eða sumarið 2008.  Þá hefðu þau lög, eflaust heitið eitthvað annað en Neyðarlög, enda voru bankarnir ekki fallnir og allar mælingar, endurskoðenda og matsfyrtækja báru vott um glimrandi gott árshlutauppgjör bankana.  

 Ég veit ekki hvort að það væri eitthvað betra að reiðir alþingismenn og  reiðir bloggarar væru að ausa úr skálum reiði sinnar yfir því að núna væru þá hinir raunverulegu glæpamenn hrunsins, eflaust með unnin mál í höndunum fyrir dómstólum um hundruða ef ekki þúsunda milljarða skaðabætur frá ríkinni vegna  "Neyðarlaga" um enga neyð.  

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.9.2010 kl. 10:46

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er nefninlega málið, Kristinn Karl, að hefði ríkisstjórnin gefið út einhverjar yfirlýsingar, að ekki sé talað um óleyfilegar fyrirskipanir til einkabankanna, á fyrri hluta árs 2008 um bankana og starfsemi þeirra, þá hefði verið gert áhlaup á þá umsvifalaust og þeir hrunið samstundis. 

Vel getur verið að tjónið hefði orðið eitthvað minna, því fyrr sem þeir hefðu hrunið, en hefði það orðið fyrir orð eða gerðir ráðherra í ríkisstjórn Íslands, hvað hefði þá verið sagt um þá.  Ætli þeir sætu þá ekki undir ákærum núna fyrir að hafa stuðlað að hruni bankanna með gerðum sínum og orðum? 

Hvernig skyldu viðbrögð alþingis götunnar og dómstóls hennar hafa orðið við slíkum aðgerðum stjórnvalda?

Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2010 kl. 10:48

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Rétt í þessu var orðuhafi Alþingis götunnar Atli Gíslason að lepja upp bullið úr Merði Árnasyni á Alþingi gær, með því að efast um í andsvari til Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að hún og aðrir ráðherrar úr fyrrverandi stjórn væru hæfir til að greiða atkvæði um landsdóm.  

 Hver er hæfur til að greiða atkvæði?   Lilja Mósesdóttir sem að er fylgjandi pólitísku réttarhaldi og uppgjöri við markaðshyggjuna?  Þór Saari, sem að vill ólmur axla ábyrgð á hruninu, með því að ákæra ráðherrana og telur það skildu alþingismanna, að greiða atkvæði með landsdómi, því meirihluti þjóðarinnar vill það?  Ögmundur Jónasson, sem tók ákvörðun viku áður en umræður í þinginu hófust, því Atli Gíslason sannfærði hann á þingflokksfundi?  

 Hver sá þingmaður sem að kjörinn var á þing þann 25. apríl 2009, ber að taka ákvörðun varðandi þessar ákærur, sé hann ekki forfallaður frá þingstörfum, þegar atkvæðagreiðslan fer fram.   Hver einasti þingmaður á að taka afstöðu út frá sinni eigin samvisku, ekki vilja þjóðarinnar og ekki vegna meintar nauðsynjar að gera upp pólitískar stefnur í dómsölum.

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.9.2010 kl. 11:22

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Eru fulltrúar í Atlanefndinni ekki gjörsamlega vanhæfir til að greiða atkvæði um tillögur nefndarinnar?  Þeir sömdu ákærurnar og með sömu rökum og Atli notar gegn þingmönnum fyrra kjörtímabils, geta nefndarmenn hans og hann sjálfur ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.

Þessar ákærur eru pólitískur skrípaleikur og eiga að meðhöndlast sem slíkar, þ.e. það á að vísa þeim út í hafsauga.

Síðan væri hægt að setja á fót enn eina rannsóknarnefnd til að fara yfir niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis, bankasölur fortíðarinnar og nútíðarinnar, Icesave og vanbúnað núverandi ríkisstjórnar við dómum Hæstaréttar o.s.frv.

Í öllum hasarnum vegna falsákæranna gleymist alveg að ræða um tillögur nefndarinnar til endurbóta á stjórnkerfinu og vinnubrögðum þess.  Um þær tillögur voru allir nefndarmenn sammála og því þykir sjálfsagt engum spennandi að fjalla um þær.

Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2010 kl. 11:29

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Hafa menn áttað sig á, að 7 af ráðherrum Þingvallastjórnarinnar (samkvæmt talningu Marðar Árnasonar) sitja ennþá á Alþingi og taka nú afstöðu til kæru á hendur félögum sínum og í raun sjálfum sér ?

 

Ég hef haldið því fram að vísa eigi máli allra fyrrum ráðherranna til ákvörðunar Saksóknara Alþingis. Hann mun rannsaka málið og flytja árkærur fyrir Landsdómi. Ef allir ráðherrarnir væru kærðir, þá yrðu þessir 7 fyrrum ráðherrar sjálfkrafa vanhæfir og gætu ekki greitt atkvæði um kærur gegn sjálfum sér.

 

Siðferðisbrestur margra Alþingismanna er svo yfirþyrmandi, að venjulegt fólk skortir orð til að lýsa fyrirlitningu sinni. Allir vita að ríkisstjórnir bera sameiginlega ábyrgð, eins og aðrar stjórnir. Fullyrðingar ráðherranna fyrrverandi um einstaklingsbundna ábyrgð á sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar, breyta engu um það. Ef fjórmenningarnir verða fundnir sekir fyrir Landsdómi, bíða sömu örlög 7-menninganna. Þetta vita þeir og snúast þess vegna hart gegn kærunum.

 

http://www.zimbio.com/member/altice   

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.9.2010 kl. 11:48

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er fáránlegt fyrirkomulag, að þingmenn eigi að ákveða hvort stefna skuli ráðherrum fyrir Landsdóm.  Slíkt getur aldrei orðið annað en pólitískur skrípaleikur, eins og nú er að sannast á Alþingi.

Hvort ákæra eigi ráðherra og aðra verður að taka af þar til bærum yfirvöldum og þingmenn eiga þar hvergi nærri að koma.  T.d. væri hægt að hugsa sér þriggja manna nefnd óháðra fræðinga í stjórnskipunarlögum, sem hefðu það hlutverk að veita ráðherrum aðhald og bregðast við með stefnum fyrir dómstóla, ef henni þætti ástæður til þess koma upp í störfum ríkisstjórna, eða einstakra ráðherra.  Þá væri líka verið að fjalla um samtímamál, sem hægt væri að bregðast strax við, en ekki málefni fortíðar sem ekki er hægt að breyta og raunar hægt að deila um endalaust, hvort menn hafi brugðist rétt við þeim upplýsingum sem þá voru fyrir hendi. 

Núna, t.d. eftir Rannsóknarskýrsluna, hafa menn allt aðra sýn á atburði í aðdraganda hrunsins, en menn höfðu þá og nú er auðveldara að segja til um, hvernig hefði átt að bregðast við þessu og hinu, ef upplýsingarnar hefðu legið fyrir á þeim tíma.  Hvort það sé tugthússök, að bregðast ekki rétt við aðstæðum á hverjum tíma, að annarra mati, er svo allt önnur Ella.

Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2010 kl. 13:00

11 Smámynd: Þorgeir Ragnarsson

Ég átti að sjálfsögðu við að sennilegt væri að ekki hefði verið hægt að tjónka við bankana, og því hefði orðið að setja neyðarlögin fyrr.

Æðstu yfirvöld, ráðherrar létu aldrei fyllilega á það reyna hverju hægt væri að ná fram með því að þrýsta á bankana, því þeir þrýstu aldrei neitt að ráði á þá! Forsætisráðherra var æðsti yfirmaður efnahagsmála og stuðningsmenn hans þurfa varla að þræta fyrir það að hann hefði getað gert miklu meira en hann gerði. Það er aumt yfirklór og menn verða að geta risið yfir það að vernda gamla flokksfélaga.

Kristinn Karl segir:

Hefðu "Neyðarlögin" verið sett vorið eða sumarið 2008.  Þá hefðu þau lög, eflaust heitið eitthvað annað en Neyðarlög, enda voru bankarnir ekki fallnir og allar mælingar, endurskoðenda og matsfyrtækja báru vott um glimrandi gott árshlutauppgjör bankana.  

Þetta er lélegur fyrirsláttur, allir vita að ríkisstjórnin hafði upplýsingar um háskalega framgöngu bankanna á þessum tíma, sama hvað öllum ársuppgjörum leið.

Þorgeir Ragnarsson, 28.9.2010 kl. 13:24

12 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Stjórnarskráin kveður á um notkun Landsdóms til að koma lögum yfir ráðherrra, sem ekki væri hægt fyrir almennum dómstólum. Nákvæma útfærslu er að finna í Lögum um ráðherraábyrgð (lög 4/1963) og í Lögum um Landsdóm (lög 3/1963): lögum. Hér fjalla ég um þetta:

 

http://www.zimbio.com/Iceland/articles/oHI-9eNhCXv/Landsd+mur+er+forsenda+tta+j+inni

 

Ekki eru í boði aðrar aðferðir til að koma lagalegri ábyrgð á herðar ráðherra. Verjendur ráðherranna vilja bara tala um hina pólitísku ábyrgð, sem varla nokkur maður á þessu landi hefur axlað. Fyrir Landsdómi er ekki fjallað um pólitíska ábyrgð heldur um ákærur sem varða við lög. Þetta eru ákærur sem varða brot gagnvart öllum almenningi og sem ekki eru tæk sem einkamál fyrir almennum dómstólum.

 

Ef Alþingi bregst almenningi í þessu máli hefur friðurinn verið rofinn. Réttarríkinu hefur þá verið fórnað á altari sérgætskunnar. Ef þessir 7 fyrrverandi ráðherrar í Þingvallastjórninni koma í veg fyrir að máli fjórmenninganna verði vísað til úrskurðar Landsdóms, er verið að sýkna alla pólitísku elítu landsins og sú sýkna mun gilda um ófyrirséða framtíð. Hins vegar er kæra til Landsdóms ekki dómur – hvorki til sýknu né sektar -.

 

Saksóknari Alþingis fer með rannsókn málsins og getur hafnað öllum þeim upplýsingum sem Rannsóknarnefnd Alþingis aflaði og einnig öllum rökum Þingmannanefndarinnar. Hjá saksóknaranum fer fram fagleg rannsókn og síðan málflutningur fyrir Landsdómi í samræmi við niðurstöður saksóknarans. Landsdómur er æðsti dómstól landsins og hjal um að réttarhöld fyrir honum séu mannréttindabrot, ber vitni veikum og raunar siðlausum málstað.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.9.2010 kl. 13:33

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þorgeir, þetta snýst ekki um hvað ráðherrar vissu, eða vissu ekki á hverjum tíma.  Málið og ákærurnar snúast um það, hvort aðgerðir ráðherranna, eða aðgerðarleysi, hafi verið lögbrot og þar með saknæm. 

Grundvallarregla í réttarríki er að stefna engum fyrir dómstóla, nema meiri líkur en minni séu á því að viðkomandi sé sekur um glæp og verði dæmdur fyrir hann.  Ef efi ríkir um hvort viðkomandi hafi brotið lög, á allur vafi að vera sakborningi í hag og þá verða ákærur aldrei gefnar út.

Það er um þennan vafa, sem verið er að fjalla í þinginu, ef allir eru að fjalla um málið á heiðarlegan hátt og þingmenn eiga síðan að greiða atkvæði í samræmi við sína eigin sannfæringu, en ekki vegna hótana eða þrýstings frá öðrum.

Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2010 kl. 13:33

14 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég minni á að ráðherrarnir höfðu vitneskju um, að 2006 voru bankarnir á barmi hruns. Það var kraftaverk að þeir hrundu ekki þá og komið hefur í ljós að allt fjármálkerfið og stjórnmálmenn vissu þetta. Þótt horfur hefðu ekkert batnað hvað bankana snerti var samt ekkert gert. Jú raunar var sett á fót Samráðsnefnd í febrúar 2006, en hún notaði bara vitneskjuna til að forða eigin fjármunum.

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.9.2010 kl. 13:40

15 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Axel, vissulega snýst málið um hvað ráðherrarnir vissu, eða bar skylda til að vita vegna starfs síns. Öll umræðan og rannsóknir því tengdu snúast um hvað ráðherrarnir vissu eða áttu að vita. Ekki er hægt að dæma menn fyrir það sem þeim kom ekki við og gátu ekki vitað um.

 

Það er mjög saknæmt af ráðherra að kynna sér ekki til þrautar þau mál sem undir hann heyra. Sameiginlegir hagsmunir landsmanna eru sameiginleg mál allra ráðherra í ríkisstjórn. Þetta verður öllum ráðherrum um alla framtíð að vera gert ljóst.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.9.2010 kl. 13:49

16 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Kristinn, það er röng fullyrðing, að skipun tilsjónarmanna með bönkunum hefði fellt þá. Innan fjármálheimsins var staða bankanna ljós, þannig að þar hefðu tilsjónarmenn engu breytt. Ef forsætisráðherra hefði komið fram og lofað fullri ábyrgð á innistæðum, sem hann hefur ekki heimild til, þá hefði almenningur ekki dregið út sína fjármuni. Að auki þótt einhver banki hefði farið í greiðsluþrot þá hefðu allir innistæðueigendur fengið sitt, ef hlutaféð og aðrar eignir bankans hefðu ekki verið falsaðar.

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.9.2010 kl. 13:59

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Loftur, fyrir Landsdómi fer ekki fram rannsókn á neinu, nema því sem sú tillaga sem samþykkt kann að vera á Alþingi fjallar nákvæmlega um.  Dómurinn rannsakar ekkert annað en þar kemur skýrt fram og dæmir því síður um einhver allt önnur hugsanleg brot, en ákært er fyrir.

Í lögum um Landsdóminn segir:  "13. gr. Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra skal gerð með þingsályktun í sameinuðu þingi, og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni, enda sé sókn málsins bundin við þau. Jafnframt kýs Alþingi mann til að sækja málið af sinni hendi, og annan til vara, ef hinn kynni að forfallast. Enn fremur kýs sameinað Alþingi fimm manna þingnefnd með hlutfallskosningu til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar."

Samkvæmt þessari grein verður ekkert tekið til rannsóknar fyrir dómi annað en það sem fram kemur í tillögum Atlanefndarinnar.  Þær tillögur snúast eingöngu um hvort ráðherrarnir áttu, eða gátu, minnkað bankakerfið á árinu 2008, að þeir hafi ekki boðað ráðherrafundi um bankamálin, ekki látið semja skýrslu um hugsanlegar afleiðingar bankahruns (sem enginn trúði að yrði nokkurn tíma að veruleika) og nokkur fleiri atriði í þessum dúr.

Ekkert annað en það sem kemur fram í tillögum Atlanefndarinnar mun því verða tekið til skoðunar fyrir Landsdómi, verði tillögurnar samþykktar.

Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2010 kl. 14:40

18 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Axel, þú misskilur grein 13, því að þar er talað um kæruatriðin, en ekki rökstuðning með þeim eða málflutning. Í lögunum segir:

 

Lög um Landsdóm.
16. gr. Það er skylda saksóknara Alþingis að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum, hann undirbýr gagnasöfnun og rannsókn í málinu og gerir tillögur til Landsdóms um viðeigandi ráðstafanir til að leiða hið sanna í ljós. Hann hefur um starf sitt samráð við saksóknarnefnd Alþingis.

 

Saksóknari Alþingis fær því í hendurnar kæruatriði, eins og til dæmis að ráðherrarnir hafi ekki sinnt embættisskyldum sínum varðandi efnahagsmál. Þeir hafi gert sig seka um afbrot, til dæmis tjónabrot, hættubrot eða athafnaleysisbrot. Vísað er til ákveðinna lagagreina sem þeir eru kærðir fyrir að brjóta.

 

Það er síðan verkefni saksóknarans að vinna með málið á sínum vegum, rannsaka og safna gögnum. Jafnframt getur saksóknari fengið liðsinni Landsdóms “til að leiða hið sanna í ljós”. Með öðrum orðum, þá hefur Landsdómur rannsóknarheimild sem venjulegir dómstólar hafa ekki. Þetta er eitt þeirra einkenna, sem æðsti dómstóll landsins hefur.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.9.2010 kl. 15:14

19 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Saksóknari skal leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðunum, en hver kæruatriðin eru, er nákvæmlega tilgreint í 13. greininni, þ.e. ákæruatriðin skulu koma nákvæmlega fram í samþykkt tillögunnar frá Alþingi, þannig að hendur saksóknara hljóta að vera algerlega bundnar við þau ákæruatriði og önnur atriði koma þá ekki til athugunar við úrlausn málsins.

Landsdómurinn verður aldrei nein alsherjarréttarhöld yfir öllum aðgerðum og aðgerðarleysi ríkisstjórna eða ráðherra langt aftur í tímann, enda fyrnast málin á þrem árum, sem ekki er einu sinni heilt kjörtímabil.

Fyrir Landsdómi verður ekki fjallað um neitt annað en kærurnar sem Alþingi samþykkir að vísa til dómstólsins.

Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2010 kl. 15:33

20 identicon

Axel, þú segir:

"Samkvæmt þessari grein verður ekkert tekið til rannsóknar fyrir dómi annað en það sem fram kemur í tillögum Atlanefndarinnar.  Þær tillögur snúast eingöngu um hvort ráðherrarnir áttu, eða gátu, minnkað bankakerfið á árinu 2008..."

Eins og ég benti á áðan þá hefði mikilvægur liður í aðgerðunum verið að stöðva frekari vöxt, þ.m.t. Icesave. Til þess höfðu stjórnvöld ýmis úrræði sem þó voru ekki notuð. Ég sé ekki betur en að það sé ágætur möguleiki á að sakfella vegna þessa atriðis.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 28.9.2010 kl. 16:44

21 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

   

Vitnaleiðslur hljóta að fara fram sem liður í rannsókn málsins. Enginn veit hvað þær munu leiða í ljós. Þá munu væntanlega einnig verða lögð fram gögn sem núna eru leyni-gögn. Rannsókn efnahagshrunsins getur ekki takmakast við síðustu þrjú ár. Verjandi ekki síður en sækjandi mun ekki takmarka málflutning sinn á við síðustu þrjú ár og raunar ekki á neinn hátt.

 

Ákærur verða einungis bundnar við brot á ákveðnum lagagreinum. Saksóknari Alþingis mun miða rannsókn sína og ákæru við þær, en að öðru leyti mun hann hafa frjálsar hendur. Í raun eru því allar aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar allrar fyrir dómi. Geir sem forsætisráðherra kom að gerðum allra ráðherranna. Ef Geir verður dæmdur fyrir eitthvað, þá eru miklar líkur til að augljóst verði um leið sök einhvers annars ráðherra. Ætlar Alþingi þá að standa gegn frekari kærum ? Ég held ekki. Þetta mál gæti hæglega náð til Jóhönnu og Össurar.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 29.9.2010 kl. 00:20

22 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Loftur, samkvæmt mínum skilningi á lögunum mun Landsdómur aðeins fjalla um þau ákæruatriði, sem nákvæmlega eru skilgreind í ákæru Atlanefndarinnar og Alþingi hefur samþykkt og ekkert annað verður tekið til umfjöllunar fyrir réttinum.  Ákærurnar afmarkast við ákveðnar athafnir og athafnaleysi frá því í Febrúar og fram í Október 2008, en engin ákæra er um aðgerðir eða aðgerðaleysi á öðrum tímum fyrri ríkisstjórnar.  Þar af leiðir að einungis verða leidd fram vitni um þessi tilteknu ákæruatriði og atburðir fyrri ára munu ekki koma þar mikið við sögu.  Ef þetta er réttur skilningur munu þessi réttarhöld bæta sáralitlu við þá vitneskju, sem þegar liggur fyrir um atburði ársins 2008.

Til þess að fá einhverja skýrari heildarmynd  en fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þarf sjálfsagt að bíða bóka frá sagnfræðingum, sem vafalaust munu kynna sér og skrifa margar bækur um atburði liðinna ára.

Axel Jóhann Axelsson, 29.9.2010 kl. 09:04

23 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er rétt Axel, að fyrning refsiverðra athafna fyrir febrúar 2008 (þriggja ára fyrningartíminn) takmarkar ákæru-möguleika. Hins vegar er tímabil umfjöllunar ekki takmarkað á samsvarandi hátt. Ekkert hindrar verjanda og sækjanda, að fjalla um upptöku torgreindu peningastefnunnar, eða inngönguna á ESS-svæðið, ef það er talið skipta máli (sem það gerir).

Hvort réttarhöldin bæta einhverju við þær upplýsingar sem menn hafa nú þegar, ræðst því af: rannsóknarvinnu Saksóknara Alþingis, málatilbúnaði verjanda Geirs, framburði vitna og sjálfstæðum rannsóknum Landsdóms.

Segja má að réttarhöldin yfir Geir séu prófmál fyrir alla Þingvallastjórnina. Ef Geir verður dæmdur munu einhverjir aðrir ráðherrar sæta ákærum, því að enginn er laus mála þótt þeir hafi ekki verið kærðir að þessu sinni.

Hverjir bera annars ábyrgð á, að fyrningar-tími brota vegna kæru fyrir Landsdómi var styttur niður í þrjú ár ?

Finnst mönnum ekki ámælisvert, að 7 fyrrverandi ráðherrar í Þingvallastjórninni greiddu atkvæði um kærur á hendur fjórmenninganna ? Vantar ekki eitthvað upp á siðferðisþroska þessa fólks ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 29.9.2010 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband