Bloggfærslur mánaðarins, september 2010
3.9.2010 | 19:21
Arion banki enn á fullri ferð í braskinu
Arion banki hefur gert kyrrstöðusamning við Gaum, eignarhaldsfélag Bónusgengisins, sem átti Baug, sem lýstur var gjaldþrota skömmu eftir að genginu tókst að koma Högum undan þrotinu, með því að stofna nýtt félag, 1988 ehf, sem í samvinnu við Kaupþing "keypti" Haga með því að bankinn lagði félaginu til 50 milljarða króna í svindlið, sem auðvitað var og verður aldrei hægt að endurgreiða.
Kyrrstöðusamningurinn gegngu út á það, að ekki er hægt að ganga að "eignum" Gaums, sem reyndar engar eru, né krefjast gjaldþrotaskipta á félaginu. Í fréttinni kemur þetta fram m.a: "Gaumur var aðaleigandi Baugs en Baugur hefur verið tekinn til gjaldþotaskipta. Gjaldþrot Baugs er stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar á eftir viðskiptabönkunum þremur en kröfur í Baug eru yfir þrjú hundruð milljarðar króna.
1998 sem var dótturfélag Baugs skuldar Arion banka um 50 milljarða króna. Gaumur er ábyrgur fyrir stórum hluta þess. Skuldin varð til þegar Hagar voru keyptir út úr Baugi sumarið 2008."
Þegar þetta er lesið, skilst betur til hvers leikurinn er gerður. Kyrrstöðusamningurinn er gerður núna, til þess að forða því að Gaumur og 1988 ehf. verði lýst gjaldþrota, áður en Arion banka tekst að selja Haga, en eins og allir vita ætlar Baugsgengið sér að eignast félagið aftur, án þess að segjast eiga nokkra peninga til að borga eitt eða neitt. Líklega verður Arion banki liðlegur við Bónusgegnið þegar þar að kemur, eins og hann hefur verið hingað til, ekki síður en fyrirrennarinn, Kaupþing.
Þetta sannar að Arion banki býr að mikilli reynslu og þekkingu á braski, ekki síður en Bónusgengið sjálft.
![]() |
Arion banki gerir kyrrstöðusamning við Gaum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.9.2010 | 15:07
Sýnum Karli Wererssyni hlýhug, vináttu og stuðning
Karl Wernesson, út- og innrásarmógúll, sem meðal annars afrekaði að tapa öllum bótasjóði Sjóvár, sem þó voru bara smáaurar miðað við heildartap allra hlutafélaganna á hans vegum, gat haldið Lyfjum og heilsu eftir í sinni "eigu" eftir að allt annað hrundi og hefur nú tekið við stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækinsins, enda hefur hann betri tíma en áður til að sinna rekstrinum.
Öll út- og innrásargengi landsins, sem ennþá reka fyrirtæki hér á landi, njóta alveg sérstarar samúðar og skilnings neytenda, sem hafa sýnt þeim vináttu og hlýhug, svo jaðrar við hreina ást og aukið viðskipti sín við þau, svo nú blómstra gengisfélagarnir sem aldrei fyrr.
Nægir í þessu sambandi að benda á Samskip, sem nú er á fínu skriði eftir skuldaniðurfellingar, Iceland Express, sem aldrei hefur flogið hærra og lengra, vegna sérstakrar þakkarskuldar, sem flugfarþegar telja sig vera í við eigandann, fyrir að hafa náð að selja sjálfum sér flugfélagið út úr þrotabúi Fons á gjafverði.
Ekki má gleyma stærstu gjaldþrotafjölskyldu landsins, sjálfu Bónusgenginu, en Arion banki sá sérstaka ástæðu til að láta Haga gefa foringjanum 114 milljónir króna í afmælisgjöf, um leið og hann lét af störfum hjá þúsundmilljarða gjaldþrotasamsteypunni, eftir 20 ára "farsælt" starf. Þetta gengi hafa neytendur líka elskað og dáð í gegnum tíðina og sýnt það í verki með því að versla helst ekki við neinar verslanir, sem ekki hafa tilheyrt Bónusgenginu.
Vonandi mun Karl Wernesson njóta sambærilegs hlýhugar og aðrir gengisforingjar hjá öllum sjúklingum landsins og þeir munu væntanlega stórefla viðskipti sín við Lyf og heilsu frá því sem verið hefur, nú þegar Karl hefur betri tíma en áður til að sinna viðskiptunum.
![]() |
Karl forstjóri Lyfja og heilsu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.9.2010 | 11:22
Jóhanna Sigurðardóttir hæðist að almenningi
Almenningur í landinu hefur tekið á sig gífurlegar byrðar frá hruninu í október 2008 með ýmsu móti, t.d. atvinnuleysi af áður óþekktri stærðargráðu, skertum vinnutíma þeirra sem vinnu hafa, lækkandi launumm fyrir hverja unna stund, mikilli verðbólgu og minnkandi kaupmæti, mikilli hækkun afborgana af lánum, o.s.frv, en af nægu er að taka vegna versnandi kjara og erfiðleika lífsbaráttunnar.
Jóhann Sigurðardóttir og Steingrímur J. fóru mikinn í þinginu í gær við að lýsa afrekum sínum í efnahagsmálum og töldu sér og ríkisstjórninni til mikilla tekna, að ástandið skyldi ekki hafa versnað frá hruninu og sögðu reyndar að vegna stjórnunarsnilli sinnar væri ástandið ekki eins slæmt og þau hefðu sjálf verið búin að spá um, að það yrði. Ekki minntust þau á, allar þær skattahækkanir sem á landslýð hefur dunið ofan á allt annað og enn síður minntust þau á getuleysi sitt við sparnað í ríkiskerfinu og alls ekki nefndu þau almenna vanhæfni ríkisstjórnarinnar við lausn erfiðra mála.
Í dag birtast tölur frá Hagstofunni um landsframleiðsluna og kveður þar við gjörólókan tón vegna efnahagsþróunarinnar, eða eins og sést af upphafi fréttarinnar: "Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 3,1% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2010 til 2. ársfjórðungs 2010 og um 8,4% ef miðað er við 2. ársfjórðung árið 2009. Landsframleiðsla fyrstu sex mánuði ársins 2010 er talin hafa dregist saman um 7,3% að raungildi samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2009.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Þjóðarútgjöld drógust saman um 7,4% milli 1. og 2. ársfjórðungs þessa árs. Einkaneysla dróst saman um 3,2% og fjárfesting dróst saman um 4,7%. Samneysla jókst um 1%."
Á meðan einkaneysla dregst saman eykst samneyslan, þ.e. ríkisútgjöldin um 1%, þannig að ekki er nóg með að ríkisstjórninni takist ekki að draga úr ríkisútgjöldunum, þá tekst henni ekki einu sinni að halda í horfinu, heldur eykst eyðsla hins opinbera á meðan almenningur dregur neyslu sína saman.
Væri ríkisstjórnin ekki undir hælnum á AGS, sem í raun ræður ferðinni í efnahagsmálunum, og hefði frítt spil, væri ástandið hérna ekki ömurlegt, eins og það er, heldur algerlega skelfilegt og fólksflótti frá landinu orðinn að hreinu flóttamannavandamáli.
![]() |
3,1% samdráttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.9.2010 | 09:01
Flugfarþegar verðlauna Pálma í Iceland Express
Ein af svikafléttum Bónusgengisins á braskárunum var salan á flugfélaginu Sterling á milli hlutafélaga í eigu gengismeðlima, en flugfélagið hækkaði úr 5 milljörðum króna í 20 milljarða í tilfærslum innan gengisins á tæpum tveim árum, þrátt fyrir að Sterling væri rekið með milljarða tapi allan tímann.
Í þessum braskskiptum var Iceland Express metið á 6 milljarða króna, en rúmum mánuði eftir efnahagshrunið, sem þetta gengi átti stóran hlut í að valda, seldi Pálmi Haraldsson sjálfum sér flugfélagið út úr Fons á 300 milljónir króna, eða einn tuttugasta af því verðmati, sem hann setti sjálfur á félagið í braskfléttunni fyrrnefndu, sjá þessa frétt HÉRNA Skömmu síðar var Fons lýst gjaldþrota og verður að teljast með ólíkindum, að skiptastjórinn skuli ekki vera löngu búinn að rifta þessum gjafagerningi.
Ekki er nóg með að lítið sem ekkert sé fjallað um svikastarfsemi Pálma í Iceland Express í gegnum tíðina, heldur verðlauna íslenskir ferðamenn hann með því að kaupa flugfargjöld af þessari svikamillu, sem aldrei fyrr, enda vex félagið og dafnar og bætir sífellt við sig flugleiðum. Ekki er nóg með að flugfarþegar sýni þessu félagi velvild sína með farmiðakaupum, heldur láta þeir einnig bjóða sé endalausar seinkanir og niðurfellingar flugferða, enda Iceland Express eitthvert óstundvísasta flugfélag Evrópu og þó víðar væri leitað.
Reyndar er Iceland Express ekki flugfélag, heldur farmiðasali fyrir annað félag sem Pálma tókst að stinga undan þrotabúi Fons, en það er breska flugfélagið Asterus, þannig að ef illa fer með það félag, er spurning hver ábyrgð Iceland Express er gagnvart hugsanlegum strandaglópum í ferðum þessara svikafélaga.
Furðulegt er sinnuleysið gagnvart þessari svikamyllu.
![]() |
Viðskiptaflétta þar sem allt var ofmetið jafnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2010 | 19:23
Ríkisstjórnin niðurlægir Kristján Möller
Fyrr í dag var greint frá því, að síðasta verk Kristjáns Möller í Samgönguráðuneytinu hafi verið að skrifa undir heimild til Flugmálastjórnar til að skrá herþotur hér á landi, með það í huga að þær yrðu gerðar út frá Keflavíkurflugvelli í leiguverkefni sem snúa að heræfingum.
Á ÞESSU bloggi í dag var velt upp þeirri spurningu, hvort fyrsta verk Ögmundar Jónassonar í ráðuneytinu yrði að afturkalla þetta síðasta verk Kristjáns og ekki leið á löngu, þar til í ljós kom að þær vangaveltur voru á rökum reistar. Um leið og út spurðist um þessa leyfisveitingu, varð allt vitlaust innan VG, sem endaði með því að Jóhanna Sigurðardóttir neyddist til að gefa út yfirlýsingu með Steingrími J. um að ekkert samkomulag væri milli flokkanna um þetta mál og Ögmundur myndi "skoða málið" á næstunni.
Þar með má segja að búið sé að afturkalla leyfið og Kristján Möller verið niðurlægður af þessum fyrrum samráðherrum sínum og þar af var annar þeirra formaður þess flokks, sem Kristján hefur starfað fyrir frá því að hann var ungur "eðalkrati".
Í sjónvarpsfréttum kom fram í viðtali við Kristján, að hann hefði skrifað undir leyfið í fullu samráði við forsætis- og fjármálaráðherra og hefði ekki verið um neinn misskilning eða oftúlkun af hans hálfu á samkomulagi ráðherranna.
Ekki byrjar "nýja ríkisstjórnin" gæfulega.
![]() |
Segja ekkert samkomulag um herþotur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.9.2010 | 16:00
Er VG tilbúið að greiða Icesave fyrir ESBinnlimunina?
Eins og oftast áður koma fréttir af Icesavesvikum ríkisstjórnarinnar frá erlendum fréttastofum, því þrátt fyrir fögur fyrirheit um opnað og gagnsæja stjórnsýslu, þar sem öll mál væru uppi á borðum, þá bæði leynir stjórnin öllu sem máli skiptir fyrir þjóðinni eða fer með hreinan ósannindavaðal um þau mál, sem verið er að fjalla hverju sinni.
Nú koma þau tíðindi frá AP fréttastofunni, að krafa Breta og Hollendinga vegna Icesave sé óbreytt, þ.e. að íslenskir skattgreiðendur skuli settir í skattaþrældóm fyrir þessa kúgara, til áratuga, bæði vegna skuldar tryggingasjóðsins og vaxta á hana. Í viðhangandi frétt segir m.a: "Talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins, Niels Redeker, segir að gert sé ráð fyrir því að Íslandi muni endurgreiða lánið auk sanngjarna vaxta. Íslandi ber lagaleg skylda til þess," segir hann í samtali við AFP fréttastofuna í dag."
Þarna fer Niels Redeker með algerlega staðlausa stafi, því meira að segja framkvæmdstjórn ESB hefur viðurkennt, að engin ríkisábyrgð skuli vera á tryggingasjóðum innan ESB og þar með ætti ekki að þurfa frekari vitna við í því efni, en raunar eru flestir lögfræðingar, innlendir og erlendir, sammála framkvæmdastjórninni að þessu leyti.
Einnig kemur fram í frétt AFP er Icesave eitt aðal ágreiningsefnið, sem standi í veginum fyrir viðræðum um innlimun Íslands í stórríki ESB. Álfheiður Ingadóttir sagði í fréttum, eftir ráðherrahrókeringuna, að með henni væri allur ágreiningur innan VG lagður til hliðar og þar með yrði góður vinnufriður í ríkisstjórninni.
Á að skilja þessi orð hennar svo, að VG sé nú búið að samþykkja að greiða hundruð milljarða aðgöngumiða að ESB? Aðgangseyri sem íslenskum skattgreiðendum ber ekki að borga og kemur ekkert við?
![]() |
Íslendingar greiði vexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.9.2010 | 13:59
Síðasta verk Kristjáns - fyrsta verk Ögmundar?
Eitt síðasta verk Kristjáns L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, var að skrifa undir heimild til Flugmálastjórnar til að hefja skráningu flugvéla hér á landi fyrir hollenska fyrirtækið ECA Program Limited, en það hyggst flytja herþotur til Keflavíkurflugvallar og leigja þaðan út til heræfinga.
Mikið atvinnuleysi er á Suðurnesjum, enda skýrir ráðuneytið afstöðu sína til málsins á eftirfarandi hátt: "Á Suðurnesjum er eitt mesta atvinnuleysi á landinu og afar brýnt að ný verkefni sem skapað geta atvinnu á svæðinu verði að veruleika sem fyrst. Þessi starfsemi á að geta skapað allt að 150 störf til lengri tíma en um 200 störf á uppbyggingartímanum sem gæti hafist strax á þessu ári þó að ekki verði búið að ljúka við reglugerðarbreytingu áður."
Mbl.is vitnar til orða Steingríms J. um þetta mál, sem hann lét falla þann 20 júlí s.l: "Það hefur nú lítið gerst í því máli. Samgönguráðherra kom með minnisblað inn í ríkisstjórn sem var ekki tekið fyrir, það er á biðmálaskrá . Það hefur ekki nein afstaða verið tekin til þess hvort þetta er einhver starfsemi sem við ætlum að leggja nafn okkar við. Það er engin sérstök stemmning fyrir því í mínum herbúðum.
Kristjáni vannst ekki tími til að ljúka við reglugerðarbreytingu tengda þessari starfsemi, enda skrifað undir skráningarheimildina í miklum flýti, svo ólíklegt verður að teljast að fyrsta verk Ögmundar Jónassonar, samgönguráðherra, verði að ganga frá henni, þannig að þessi starfsemi geti hafist á Suðurnesjum.
VG er nákvæmlega sama um atvinnuleysistölur og nota hvert tækifæri til að tefja og spilla öllum tilraunum til atvinnuuppbyggingar og sérstaklega er þeim uppsigað við Suðurnesin og hefur hingað til tekist að koma í veg fyrir allar tilraunir til uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra þar.
Nú þegar komin er til valda hrein Alþýðubandalagsríkisstjórn, þarf enginn að láta sér detta í hug, að áherslur hennar muni liggja á atvinnusviðinu. Skattahækkanir munu verða hennar ær og kýr.
![]() |
Heimilt að skrá vélar ECA hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2010 | 10:30
Alþýðuflokkurinn endanlega þurkaður út
Ef þær fréttir reynast réttar að Guðbjartur Hannesson verði ráðherra í stað Kristjáns Möller, þá eru áhrif gamla Alþýðuflokksins endanlega afmáð í íslenskri stjórnmálasögu, því Kristján er síðasti Móhíkaninn úr röðum Alþýðuflokksins, sem setið hefur í áhrifastöðu í þjóðfélaginu.
Eftir þessar breytingar eru allir ráðherrar Samfylkingarinnar upprunnir úr Alþýðubandalaginu, nema Jóhanna Sigurðardóttir, sem á sínum tíma klauf sig út úr Alþýðuflokknum, stofnaði Þjóðvaka og gekk svo reyndar aftur í Alþýðuflokkinn, en var þar aldrei velkomin til baka af þeim sem vildu kalla sig "eðalkrata" og voru og eru undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar.
Við þessar ráðherrahrókeringar er með ólíkindum að Árni Páll Árnason skuli halda ráðherrasæti eftir öll þau hneykslismál sem honum tengjast og eins hefur hann margoft verið staðinn að hreinum ósannindum og valdníðslu. Kristján Möller hefur hins vegar gegnt sínu starfi tiltölulega hljóðlega og þurft að vinna með þær fjárveitinagar sem honum hafa verið skammtaðar, þó vissulega hafi hann hyglað sínu kjördæmi á kostnað annarra, t.d. Vestfjarða.
Verði þessar breytingar, sem fréttir herma, á ráðherraliðinu, munu "eðalkratar" verða æfareiðir og margir þeirra munu hætta stuðningi við Samfylkinguna.
![]() |
Guðbjartur verði ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.9.2010 | 08:38
Útlendingar ráða orkufyrirtækjunum
Svo er nú komið, að erlendir lánadrottnar ráða í raun yfir öllum helstu orkufyrirtækjum landsins, þó formlega séu þau ennþá skráð í eigu Íslendinga, t.d. Landsvirkjun skráð í eigu ríkisins og OR í eigu Reykvíkinga. Fyrirtækin hafa skuldsett sig með gríðarháum skammtímalánum til að fjármagna framkvæmdir, sem ekki skila skjótfengnum tekjum, heldur er verið að fjárfesta til að selja orku til næstu áratuga.
Því verður að telja það með ólíkindum einkennilega fjármálastjórnun þessara fyrirtækja, að ekki skuli vera búið að tryggja lán til langs tíma, áður en ráðist er í framkvæmdirnar í stað þess að fjármagna allt með skammtímaskuldum með það í huga að "endurfjármagna" þær síðar. Hér áður fyrr var þetta einfaldlega kallað "að framlengja víxilinn", en nú er búið að finna upp miklu fínni orð í fjármálaheiminum en áður voru notuð, svo nú heitir framlenging á víxli "endurfjármögnun".
Það sem er furðulegast við rekstur þessara fyrirtækja er, að því meiri menntun sem safnast upp í þjóðfélaginu og þar með, að ætla mætti, þekking og reynsla, því ver hefur gengið að reka fyrirtæki hér á landi, að ekki sé minnst á fjármálastofnanirnar og fyrirtæki tengd þeim og eigendum þeirra, en sá rekstur endaði með því að setja allt þjóðfélagið á hliðina og skildi eftir sig a.m.k. tíuþúsund milljarða króna skuldir við erlenda lánadrottna.
Nú er þjóðfélagið komið undir stjórn AGS vegna skulda þess og nánast öll fyrirtæki landsins eru undir hæl lánastofnana og einna verst er ástandið með orkufyrirtækin, sem hingað til hefur verið litið á sem hænurnar sem verptu gulleggjunum.
Með þeirri einkennilegu fjármálastjórn sem ríkt hefur í þessum fyrirtækjum undanfarin ár, t.d. með lántökum í erlendri mynt, þrátt fyrir að tekjur séu að meirihluta í íslenskum krónum, verður þess sjálfsagt ekki langt að bíða, að orkufyrirtækin verði öll komin í formlega eign erlendra aðila.
Vonandi mun þeim ganga betur að stýra fjármálunum, en Íslendingum hefur tekist.
![]() |
Auðlindir lánardrottna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.9.2010 | 18:15
Allt á suðupunkti vegna ráðherraskipta
Hvorki Samfylkingin eða VG gátu náð samkomulagi innan sinna raða um ráðherraskipti í ríkisstjórninni, sem þó er Jóhönnu og Steingrími alger nauðsyn til að lægja öldur og óánægju innan flokkanna með getuleysi ríkisstjórnarinnar til að taka á brýnum hagsmunamálum.
Órólega deildin innan VG með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar krefst ráðherrastóls fyrir hann að nýju og Ögmundur sjálfur mun ekki taka annað í mál, þó ekki verði séð að nokkur breyting hafi orðið á afstöðu ríkisstjórnarinnar til Icesave, frá því að Ögmundur rauk úr ríkisstjórn í fyrra í miklu fússi. Nú segir hann að hvorki Icesave né ESB standi í veginum, enda séu þau mál í "eðlilegum farvegi", en formlegar samningaviðræður um Icesave hófust einmitt á ný í dag.
Í Samfylkingunni vill Kristján Möller alls ekki láta af ráðherraembætti fyrr en hann verður búinn að vígja Héðinsfjarðargöngin og helst koma Vaðlaheiðargöngum af stað, þó engir peningar séu fyrir hendi til að hefja þær framkvæmdir.
Þá heimtar Ólína Þorvarðardóttir ráðherrastól og telur engan hæfari í flokknum en sig til að gegna slíkum embættum og þó hún sé í öðru sæti listans á Vesturlandi, á eftir þeim sem aðrir telja hæfastan innan flokksins til að taka að sér slíkt embætti, þ.e. Guðbjarti Hannessyni, þá kemur Ólínu slíkt ekki við í framapoti sínu.
Vegna þessara deilna innan þingflokksins, neyðist Jóhanna til að kalla saman flokksstjórnína í fyrramálið til að tryggja sínum tillögum um málið framgang, en Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður, sagði fyrr í dag, að ekki þyrfti á því að halda, þar sem Jóhanna hefði fengið umboð flokksstjórnarinnar í fyrra til að gera þær breytingar á ráðherraliðinu á kjörtímabilinu, sem hún teldi vera þörf á. Það var um svipað leyti og hún bað vegfaranda nokkurn um ákveðin skilaboð til frænda hans um hvert hún vildi að hann stykki, en það var nú aldeilis ekki á sólríkan stað.
Þetta sannar enn og aftur hve veik forysta stjórnarflokkanna er, enda hefur hún ekki einu sinni stuðning lengur innan þingflokka sinna.
![]() |
Ráðherraskipti á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)