Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Gjaldþrota fjármálastjóri hæfir fyrirtækinu vel

Stefán Hilmar Hilmarsson, fjármálastjóri 365miðla mun að öllum líkindum verða úrskurðaður gjaldþrota á næstunni, en hann var áður fjármálastjóri Baugs, sem varð gjaldþrota vegna hudruð milljarða skulda.  Áður hafði Bónusgenginu þó tekist að koma Högum undan þrotabúinu með aðstoð Arion banka, sem lánaði genginu um 50 milljarða í þessu skyni, sem auðvitað voru svo aldrei greiddir, frekar en aðrar skuldir Bónusgengisins.  Til að verðlauna Bónusforingjann fyrir vanskilin greiðir Arion banki honum á annað hundrað milljónir í "starfslokagreiðslu" fyrir að hafa verið svo vingjarnlegur að gegna formennskunni í tíu mánuði.

Öll skuldasaga Bónusgengisins er sama merki brennd, þ.e. að lánadrottnar og íslenskir skattgreiðendur munu borga fyrir hörmulegt viðskiptaklúður þess á síðustu tuttugu árum og ef ætlun Arion banka um að koma Högum aftur í hendur gengisins, eru allar líkur á að þeirri hörmungarsögu sé langt í frá lokið.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir að "formleg staða" Stefáns Hilmars innan fyrirtækisins verði skoðuð næstu daga, en það ætti að vera hreinn óþarfi, því vel hlýtur að vera við hæfi í þessu undanskotna fyrirtæki Bónusgengisins (úr þrotabúi Ísl. afþreyingagar), að fjármálastjórinn hafi verið úrskurðaður gjaldþrota.

Öll brasksaga Bónusgengisins er stráð risastórum gjaldþrotum og því eðlilegasti hlutur í heimi að allir helstu starfsmenn væru það líka.


mbl.is Staða Stefáns hjá 365 breytist líklega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra fyrir Landsdóm.

Þingmannanefndin undir forystu Atla Gíslasonar, sem hefur verið að fara yfir lög og reglur um ráðherraábyrgð og Landsdóm, stefnir að því að ljúka störfum og skila niðurstöðum sínum til Alþingis í næstu viku.

Ekkert hefur verið gefið upp um hver niðurstaða nefndarinnar verði, en Atli boðar að hún verði jafnvel gefin út sem bók, þannig að greinilega hefur mikið verið rætt og ritað um efnið innan nefndarinnar og fjöldi alls kyns lagaspekinga hefur verið kallaður fyrir nefndina til skrafs og ráðagerða.

Komist nefndin að þeirri niðurstöðu, að ekki sé grundvöllur til að stefna neinum ráðherrum fyrir Landsdóm, vegna gerða þeirra eða aðgerðarleysis í aðdraganda hrunsins, mun hún verða ásökuð um yfirhylmingu með ráðherrunum og eins verður hún sökuð um pólitíska spillingu og að vera varðhundar samtryggingar stjórnmálamannanna og um málið yrði rifist og þrasað í þjóðfélaginu árum saman.

Þó ólíklegt sé, að nokkur ráðherra yrði sakfelldur fyrir Landsdómi er í raun bráðnauðsynlegt að niðurstaða nefndarinnar yrði á þá leið að nokkrum ráðherrum yrði stefnt fyrir Landsdóm og með því móti kæmi fram alveg skýr niðurstaða um ráðherraábyrgðina almennt.

Fyrir Landsdóminn yrði þá væntanlega sendir ráðherrarnir Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og nokkrir aðrir, sem embættum gegndu síðustu mánuðina fyrir hrun.  Með Landsdómi yrði sett fordæmi fyrir framtíðina og auðveldaði mat á gerðum ráðherra núverandi ríkisstjórnar og þeirra, sem á eftir munu koma.


mbl.is Atli gekk á fund þingforseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll hlýtur að hætta

Nú virðast einhverjar hrókeringar vera væntanlegar í ríkisstjórninni framundan, fyrst og fremst til að koma Ögmundi Jónassyni inn í ríkisstjórnina áður en þigstörf hefjast að nýju, til þess að reyna að þagga niður í órólegu deildinni innan VG, sem reynst hefur Jóhönnu og Steingrími J. erfiður ljár í þúfu undanfarið.

Þær ótrúlegu fréttir hafa borist af þessum tilfæringum, að Ragna Árnadóttir, mannréttinda- og dómsmálaráðherra, verði látin hætta, en hún hefur sýnt og sannað með störfum sínum að hún er bæði hæfasti ráðherra ríkisstjórnarinnar og sá vinsælasti.  Væntanlega þolir Jóhanna ekki að Ragna skuli bera svona rækilega af í samanburði við hina ráðherrana, ekki síst hana sjálfa, að henni verði fórnað til að vanhæfni hinna ráðherranna verði minna áberandi.

Ekki síður ótrúlegt er, að svo virðist sem Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, muni halda sæti sínu, en hann hefur ítrekað sýnt valdnýðslu í starfi sínu og ásamt almennri vanhæfni hefur hann margoft verið staðinn að ósannindum vegna starfa sinna og afskipta af ýmsum málum sem honum hafa jafnvel ekkert komið við. 

Kristján Möller, samgönguráðherra, verður líklega látinn fjúka, þó hann sé tiltölulega lítið umdeildur og hafi unnið sín störf aðallega utan sviðsljóssins og hefur ekki svo vitað sé verið staðinn að hreinum lygum, eins og sumir hinna ráðherranna.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, mun góðu heilli víkja úr sínu embætti, samkvæmt fréttunum og eru það góð tíðindi, enda átti aldrei að hleypa henni í nokkurt einasta ábyrgðarhlutverk innan stjórnsýslunnar eftir framkomu hennar og stjórnun á skemmdarverkarhópum í "búsáhaldabyltingunni".  Jafnvel þó hún hefði ekki tekið að sér að stjórna árásum á Alþingishúsið, hefur hún marg sýnt í gegn um tíðina, að hún er öfgamanneskja, sem ekkert erindi á í áhrifastöður í þjóðfélaginu.

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, virðist vera of stór biti fyrir Jóhönnu og Samfylkinguna, þannig að allar ráðagerðir til að losna við hann úr ríkisstjórninni  virðast ætla að mistakast, þrátt fyrir heiftarlegar árásir Össurar Skarphéðinssonar á Jón undanfarna daga.

Ráðherrarnir sem fyrstir ættu að fjúka, Jóhanna, Steingrímur J. og Össur, munu því miður sitja eitthvað áfram.


mbl.is Þingflokkar funda í allan dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband