Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Gróf mannréttindabrot í nágrannaríki

Dómstótt í Vilníus, höfuðborg Litháen, kvað upp þann dóm á miðvikudaginn var, að gleðiganga samkynhneigðra, Baltic Pride, skyldi banna vegna þess að hún væri ógn við almannaöryggi.

Norðurlandaráð hefur tekið upp mikið samband við Eystrasaltsríkin, eftir hrun Sovétríkjanna og virðist stefnan vera, að taka þessi lönd að fullu inn í samstarf norðurlandanna í framtíðinni.

Helgi Hjörvar er nú forseti Norðurlandaráðs og hefur gagnrýnt þennan úrskurð dómstólsins, enda er hann algerlega óskiljanlegur og vandséð hvernig slík ganga getur ógnað almannaöryggi.

Norðulönd geta ekki haldið uppi samvinnu við nágrannaríki, sem ekki virða einföldustu mannréttindi og banna útisamkomur einstakra hópa þegnanna, sem haldnar eru í algerlega friðsömum tilgangi og til að undirstrika fjölbreytta flóru mannlífsins.

Íslensk stjórnvöld þurfa að mótmæla öllum slíkum ofsóknum gegn minnihlutahópum í næstu nágrannalöndum.


mbl.is Segir fráleitt að stöðva gleðigöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óstjórn lífeyrissjóðanna verður að rannsaka

Stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa afskrifað 86 milljarða króna í bókhaldi sínu vegna skuldabréfa sem þeir keyptu af fyrirtækjum og bönkum í "gróðærinu", og ef fer sem horfir eiga þeir eftir að afskrifa 60-70 milljarða í viðbót vegna þessara "viðskipta" sinna, eða eins og segir í fréttinni:           "Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), hefur fært slík bréf niður um tæplega 54%, Lífeyrissjóður Verslunarmanna (LV) um 50,4% og Gildi lífeyrissjóður hefur fært um 66% þeirra á afskriftarreikning."

Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur þegar lækkað lífeyrisgreiðslur sínar um 10%, Gildi um 17%, en Lífeyrisstjóður starfsmanna ríkisins getur hins vegar hækkað sínar lífeyrisgreiðslur, því á honum er ríkisábyrgð, þannig að skattgreiðendur taka á sig tap hans.  Þannig verða lífeyrisþegar að borga brúsann, bæði með lækkun lífeyris og hækkun skatta, sem ríkisstjórnin hefur verið iðinn við að hækka og hótar frekara skattahækkanabrjálæði um næstu áramót.

Stjórnir og helstu toppar lífeyrissjóðanna sitja sem fastast í stólum sínum og yppa bara öxlum yfir þessu tapi, sem skapast af viðskiptum við örfá krosseignatengd fyrirtæki, sem "fagfjárfestar" hefðu átt að hafa allar upplýsingar um og þá áhættu, sem þessu Matadorspili fyldi.

Rannsóknarnefnd Alþingis hafði ekki tíma til að rannsaka sparisjóðina og lífeyrissjóðina og því hlýtur starfsemi nefndarinnar að verða framlengt, svo komast megi til botns í því hvað réði ferðinni hjá þessum "ábyrgðarmiklu" stjórnendum þessara stofnana, því margt hlýtur að eiga eftir að koma upp á yfirborðið, sem nú er hulið.

Greiðendur þessa taps eiga skýlausan rétt til að fá allar upplýsingar um gerðir þessara trúnaðarmanna sinna innan lífeyrissjóðanna.


mbl.is 86 milljarðar afskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennileg vaxtastefna

Seðlabanki Íslands hefur verið afar tregur til að lækka sína vexti, þrátt fyrir þá djúpu kreppu sem hér ríkir og þá gríðarlegu þörf á að atvinnulífið komist aftur á skrið, atvinnuleysið minnki og eftirspurn í þjóðfélaginu aukist.

Alls staðar annarsstaðar eru vextir lækkaðir niður undir 0% til þess að fá hlutina til að snúast, t.d. varð Noregur ekki fyrir efnahagsáfalli í nokkurri líkingu við bankaránshrunið hérlendis, en þó voru vextir þar lækkaðir niður í nánast ekki neitt, til þess að alda atvinnulífinu á floti.  Á sama tíma og Seðlabanki Íslands lækkar stýrivexti í 8,5%, hækkar sá norski sína í 2% og er það þriðja hækkunin frá því í október, þegar Norðmenn töldu sig vera komna á botninn í niðursveiflunni.

Hér er efnahagslífið ekki komið á þann botn, sem reiknað er með að það lendi á, en enn eru vextir í hæstu hæðum, miðað við aðra og boðuð stefna er, að þeir verði lækkaðir í afar litlum áföngum á árinu og verði 6% um næstu áramót.

Þessi íslenska hagfræði er algerlega stórundarleg, enda tekur enginn lán á þessum vöxtum, sem einugis virðist vera haldið svo háum til að þóknast erlendum krónubréfaeigendum.

Seðlabanki og ríkisstjórn þyrftu að fara að taka hag Íslendinga fram yfir hag erlendra fjármagnsbraskara.


mbl.is Stýrivextir hækka í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langdreginn og lélegur brandari

Framboð Besta flokksins var ferskt og fyndið þegar það kom fram og lífgaði heilmikið upp á annars daufa umræðu um borgarmálin.  Jón Gnarr átti það til framan af, að vera fyndinn í svörum og kom allt örðu vísi fram í viðtölum, en hinir hefðbundnu stjórnmálamenn.

Eftir því sem frá líður verður þessi framkoma Jóns Gnarr og félaga æ þreyttari, tilsvör í viðtölum algerlega ófyndin og reyndar frámunalega kauðaleg.  Engum stekkur bros á vör lengur yfir þessum fíflagangi, enda aulafyndnin alltaf sú sama.  Jafnvel hefur borið á því upp á síðkastið, að Jón Gnarr hafi algerlega ofmetnast yfir útkomu "flokksins" í skoðanakönnunum og nú er hann farinn að gefa í skyn að framboðið sé alvara en ekki grín. 

Reyndar er þetta framboð Besta flokksins orðin tóm leiðindi.

Ekkert er leiðinlegra en lélegur og langdreginn brandari.


mbl.is Bara að grínast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrælsótti og undirgefni gagnvart útlendingum

Peningastefnunefnd seðlabankans hefur gefið út, að vaxtalækkunin í dag verði ekki nema hálft prósent, þannig að stýrivextir verði því 8,5%, sem er með því allra hæsta á byggðu bóli. 

Allir seðlabankar í vestrænum löndum hafa lækkað stýrivexti sína niður í nánast ekki neitt, eða frá 0% upp í c.a. 2,5%.  Í þeim löndum er áherslan lögð á að bankarnir beini fjármagni til atvinnulífsins, því til örvunar og þar með til minnkunar atvinnuleysis.

Hér á landi er stýrivöxtum beitt til þess að bankarnir beini öllum peningum, sem þeir komist yfir, frá atvinnulífinu og baráttunni gegn atvinnuleysinu og inn í seðlabankann, sem greiðir þeim offjár fyrir að fá að geyma fyrir þá peninga, sem annars væri hætta á að bankarnir nýttu til atvinnuuppbyggingar í landinu.

Eina skýringin sem virðist vera á þessu rugli er sú, að seðlabankinn sé að hygla krónubréfaeigendum, sem eru fastir hérlendis með peninga sína og þetta sé því gert til að þeir verði ánægðir með ávöxtun bréfanna, þangað til þeir komast með þá úr landi.  Á meðan er öllu öðru haldið í heljargreipum innanlands og mun hærri upphæðir fluttar úr landi í formi vaxta, en annars væri.

Undirgefnin og þrælsóttinn við útlendinga lætur ekki að sér hæða og sannast eftirminnilega bæði í þessu dekri við krónubréfaeigendur og fjárkúgarana vegna Icesave.


mbl.is Vextir lækka um 0,5 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti vinur Steingríms J. í útlöndum

Steingrímur J. barðist hetjulega á síðasta ári fyrir þeim draumi sínum og ríkisstjórnarinnar, að gera Ísland að skattanýlendu fyrir Breta og Hollendinga, með því að ætla að ganga að fjárkúgunarkröfu yfirgangsþjóðanna skilyrðislaus og án tafar.  Steingrímur og hans vinstri hönd, Indriði H. Þorláksson, létu ekkert tækifæri ónotað til að reyna að sannfæra þjóðina um þær hörmungar sem biðu hennar, yrði svo mikið sem eins dags töf á afgreiðslu málsins.

Svo mikið lá við, að þeir félagar og stjórnarmeirihlutinn allur ætlaði að keyra málið í gegnum þingið með flýtimeðferð, án þess að þingmenn fengju að vita hvað fjárkúgurnarkrafan innihélt og hvað þá að þeir ættu að fá að sjá hana útprentaða.  Sem betur fer, tókst stjórnarandstöðunni ásamt nokkrum þingmönnum stjórnarliðsins að koma því til leiðar að undirgefni ríkisstjórnarinnar við fjárkúgarana var opinberuð og að lokum var kröfunni hafnað af þjóðinni í frægri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú upplýsir Steingrímur J. að hans helsti vinur og bandamaður á þessum tíma hafi verið annar helsti fjárkúgarinn , sjálfur Wouter Bos, þáverandi fjármálaráðherra Hollands, sem Steingrímur segir að hafi verið sér sérstaklega innan handar og afar vinsamlegur í öllum samskiptum.

Vonandi á Steingrímur J. sem allra fæsta vini í útlöndum.  Þjóðin hefur alls ekki efni á fleiri svona vinum.

 


mbl.is Áhyggjur af umskiptum í Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega góð niðurstaða Borgarsjóðs

Ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram í dag og sýnir ótrúlega góðan rekstrarárangur, ekki síst miðað við hvernig efnahagsástandið hefur verið í landinu eftir bankaránshrunið.  Engir skattar voru hækkaðir hjá borginni á árinu og engin þjónustugjöld heldur.

Þessi rekstrarárangur sýnir góða og ábyrga efnahagsstjórn, sem ekki síst er að þakka þeim breyttu vinnubrögðum, sem tekin voru upp við stjórn borgarinnar eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við borgarstjóraembættinu og gjörbreytti öllum vinnubrögðum, bæði með meira og  betra samstarfi við starfsfólk borgarinnar og minnihlutann í borgarstjórn.  Allir muna eftir þeim illdeilum og erfiðleikum sem voru orðin viðvarandi í borgarstjórninni fyrir þann tíma, en nú orðið verður ekkert vart við slíkt og samvinna meiri- og minnihluta með ágætum.

Eins sýnir þessi árangur að rekstur borgarinnar er ekkert grín eða fíflagangur, eins og fólk virðist ætla að kjósa yfir sig í komandi borgarstjórnarkosningum og leggja þannig framtíð borgarinnar á óvissutímum undir í einhverskonar meiningu um, að með slíku verði stjórnmálamönnum kennd einhver lexía í siðvæðingu.

Eina lexían sem myndi lærast á slíku er hvað langdreginn brandari er hræðilega leiðinlegur.


mbl.is Borgarsjóður rekinn með 3,2 milljarða hagnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumættleiðingum neytt upp á dönsku ríkisstjórnina

Danska þingið hefur nú tekið Íslendinga til fyrirmyndar varðandi réttindi samkynhneigðra til frumættleiðingar og samþykkt lög þar að lútandi.  Full ástæða er til að óska Dönum til hamingju með þennan áfanga í innleiðingu fullra réttinda samkynhneigðra á við aðra þjóðfélagsþegna.

Það sem vekur hins vegar ekki síður athygli við fréttina er lokamálsgreinin, sem er svona:  "Bæði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, og Lars Barfoed, dómsmálaráðherra, höfðu áður lýst því yfir að það væri ekki stefna ríkisstjórnarinnar að leyfa samkynhneigðum að frumættleiða. En fyrir rúmu ári neyddi meirihluti þingsins ríkisstjórnina til þess að leggja fram lagafrumvarpið sem nú hefur verið samþykkt."

Þetta sýnir að í Danmörku er þingið miklu sjálfstæðara gagnvart framkvæmdavaldinu en Alþingi er hér á landi.  Á Alþingi er alger undantekning að þingmál stjórnarandstöðu séu samþykkt og hvað þá að þingmannafrumvörp fái hljómgrunn og allra síst frá stjórnarandstöðuþingmanni.

Íslenskir þingmenn ættu að taka Dani sér til fyrirmyndar í þessu efni og hætta að vera eingöngu til handauppréttinga fyrir stjórnarfrumvörp, en eins og þróunin hefur orðið hér á landi, eru helst engin lagafrumvörp samþykkt, nema þau séu lögð fram af ráðherrum og samin af starfsmönnum ráðuneytanna.

Nú er einmitt tíminn til að skerpa hressilega á aðgreiningu löggjafavaldsins, framkvæmdavaldisins og dómsvaldsins.

Alþingi á að setja lögin að eigin frumkvæði og ríkisstjórnin á að framfylgja þeim, ekki öfugt.


mbl.is Samkynhneigðum pörum í Danmörku leyft að frumættleiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin heldur uppi verðbólgunni

Verðbólga hefur farið nokkuð lækkandi enda hefur eftirspurn í hagkerfinu verið lítil, sem engin, og allir hafa haldið að sér höndum vegna peningaleysis og algers skorts á bankastarfsemi í landinu þó bankarnir hafi verið endurreistir, en rekstur þeirra minnir meira á litla sveitasparisjóði, en alvöru bankastofnanir.  Ekki hefur vaxtaokrið heldur blásið fólki í atvinnulífinu bjartsýni í brjóst, því engar fjárfestingar standa undir þeim vaxtakjörum sem hérlendis eru í boði af hálfu seðlabankans.

Greining Íslandsbanka spáir aðeins 0,75% stýrivaxtalækkun á morgun og að þeir verði aðeins komnir niður í 6% fyrir áramót, en í öllum vestrænum löndum eru þeir á bilinu 0-2% og þar er þeim haldið svo lágum til að reyna að örva atvinnulífið og berjast gegn atvinnuleysi.

Í greiningu bankans segir m.a:  "Í apríl hjaðnaði verðbólgan úr 8,5% í 8,3% og er frekari hjöðnun verðbólgunnar væntanleg á næstu mánuðum. Spáum við því að verðbólgan verði komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans í lok næsta árs og mun fyrr, þ.e. snemma á næsta ári, ef miðað er við verðbólgu án áhrifa af óbeinum sköttum."

Áður hafði því verið spáð, að verðbólgumarkmið seðlabankans myndi nást á seinni hluta þessa árs, en skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar hefur tafið það ferli um heilt ár og reyndar hafa ráðherrarnir hótað því, að skattar verði enn hækkaðir um næstu áramót og ekki mun það slá á verðbólguna, heldur þvert á móti.

Það eina sem hægt er að treysta um þessar mundir er að ef efnahagsástandið batnar á næstunni, þá verður það ekki ríkisstjórninni að þakka, heldur þrátt fyrir gerðir hennar og aðgerðarleysi.

 


mbl.is Spá 0,75% lækkun stýrivaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stofnfjárbréf og Nígeríubréf

Árum saman hefur fólk verið varað við svokölluðum Nígeríubréfum, en þau eiga það sameiginlegt að lofa viðtakandanum háum áhættulausum gróða, oftast sem næmi tugmilljónum króna, einungis gegn því að gefa upp bankanúmerið sitt og að sjálfsögðu að greiða kostnað vegna millifærslunnar.  Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir, er alltaf einn og einn sem lætur glepjast af gylliboðunum og tapar í kjölfarið á því, mismunandi miklu, eftir trúgirni sinni.

Núna kemur fjöldi manna fram í dagsljósið og segist hafa litið á hluta- og stofnfjárbréfakaup, sem fjármögnuð voru með lánum, allt upp í nokkur hundruð milljónir króna, sem áhættulaus viðskipti sem ekki væri hægt að tapa á, einungis væri hægt að græða ótrúlegar fúlgur á viðskiptunum og ef illa færi, þá sæti einungis lánveitandinn í súpunni, en lántakandinn væri þar með laus allra mála, með þegar fengnar arðgreiðslur sem bónus fyrir þessi snjöllu viðskipti.

Jakkafataklæddir menn úr Reykjavík eiga að hafa farið um landið og sannfært fólk um áhættuleysi þessara viðskipta og hver sem á vegi þeirra varð stökk á tilboðið, vegna þess að gróðavonin var svo mikil og áhættan engin.  Reglan um að það sem liti út fyrir að vera of gott til að geta verið satt, var algerlega sniðgengin og stokkið á viðskiptin með gróðavonina eina að leiðarljósi.

Hefðu þessir jakkaklæddu menn verið frá Nígeríu, skyldu þá margir hafa stokkið á vagninn? 


mbl.is Sögðu að lán til stofnfjárkaupa væru áhættulaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband