Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Vilja breyta Héraðsdómi í sirkus

Níu manns hafa verið ákærð fyrir húsbrot í Alþingi og að slasa þar starfsfólk með ofbeldi og skrílslátum og er réttað í málunum fyrir Héraðsdómi um þessar mundir.  Eins og við var að búast mætir fjöldi stuðningsmanna ofbeldismannanna í réttarsal og lét ekki að stjórn starfsmanna réttarins og þurfti því að kalla lögregluna til aðstoðar við að koma skikki á mannskapinn.  Eins og þessu liði þykir sæmandi kom til slagsmála við lögregluna og flugeldar sprengdir í dómshúsinu.

Þingmenn Hreyfingarinnar, sem oft koma á óvart með einkennilegum málflutningi, hafa nú lagt til að Héraðsdómi verði breytt í einhverskonar sirkus og bjóðast til að útvega sirkustjald eða sambærilegt mannvirki til að halda réttarhöldin í, svo nægt húsrými verði fyrir alla þá ólátabelgi, sem áhuga hafa á að láta til sín taka á meðan málin verða flutt.

Það er furðulegt að fylgjast með því, að þingmenn á löggjafarsamkundu þjóðarinnar skuli vilja breyta dómþingi í fjölleikahús.


mbl.is Vilja þinghald í stærra rými
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræðilegar æfingabúðir

Rannsókn Sérstaks saksóknara á meintum lögbrotum í tengslum við bankahrunið mun taka langan tíma, jafnvel mörg ár, þangað til öll kurl verða komin til grafar, enda málið gífurlega stórt og umfangsmikið og teygir sig í gegnum hundruð hlutafélaga til ótal landa, í gegnum fjölda banka og bankareikninga í öllum helstu banka- og skattaprarísum veraldarinnar.

Enginn þarf að láta sér detta í hug, að væntanlegir sakborningar í þessum málum hafi setið auðum höndum frá hruninu, heldur hafa þeir allir með tölu verið í ströngum "lögfræðilegum afingabúðum" og undirbúið vörn sína af mikilli elju.  Allar helstu lögfræðistofur hér á landi og erlendar að auki, hafa þjálfað þá vandlega í því, sem þeir eigi að svara í yfirheyrslum og hvernig eigi að bera sig að við vörnina að öðru leyti og alls ekki játa á sig nokkrar sakir.

Varðhaldsúrskurðirnir núna benda til þess að Hreiðar Már og Magnús hafi ekki verið samvinnuþýðir við yfirheyrslurnar og jafnvel neitað alfarið að tjá sig um sakargiftir og ætli að fyrirmælum lögmanna sinna að láta saksóknarann hafa alfarið fyrir því að sanna sakargiftirnar án játninga.

Áróðursmaskínur núverandi og væntanlegra sakborninga munu fara á fullt í fjölmiðlum á næstunni og ráðast að Sérstökum saksóknara persónulega og gera hann sjálfan og rannsóknirnar tortryggilegar og síðan þegar kemur að réttarhöldum munu herskarar lögfræðinga, endurskoðenda og annarra vinna að vörninni, þannig að allt sem sækendur munu leggja fram í réttinum mun verða tætt í sundur og sérstaklega mun verða hamrað á óvönduðum vinnubrögðum rannsakenda og þar sem dómarar eru ekki sérfræðingar í viðskiptum, mun verða harður slagur og langur fyrir dómstólum þegar þar að kemur.

Allt þetta sást í Baugsmálinu fyrsta og nú þegar eru leigupennar sakborninganna byrjaðir herferð sína t.d. á Pressunni.  Má þar sem dæmi nefna Sigurð G. Guðjónsson, lögfræðing, Ólaf Arnarsson, hagfræðing og Bubba Mortens, tónlistarmann.  Allir hafa þeir og fleiri reyndar skrifað lofgreinar um banka- og útrásargarkana í talsverðan tíma, en það er þó aðeins sýnishorn af því sem koma skal.

Balli er ekki einu sinni byrjað, en það verður fjörugt þegar hljómsveitin verður búin að hita upp.


mbl.is Kaupþingsmenn í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sverfur til stáls í Samfylkingunni

Á dögum kalda stríðsins var líka kalt á milli Sovétríkjanna og Kína, vegna mismunandi túlkunar á kenningum Max, Lenins og Stalins.  Bein samskipti milli ríkjanna voru lítil sem engin og þegar Sovétmenn skömmuðust úr í Kínverja beindu þeir spjótum sínum að Albaníu og hundskömmuðu ráðamenn þar, en Albanía var traustur bandamaður Kínverja á þeim tíma.  Síðan hefur verið haft að orðtæki, þegar menn beina spjótum sínum að ákveðnum aðila, en gagnrýnin beinis í raun að öðrum, að verið sé að skamma Albaníu í staðinn fyrir Kína.

Þetta rifjast upp núna, þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ræðst með heift á Láru V. Júlíusdóttur, formann bankaráðs Seðlabankans, vegna launahækkunar sem enginn vill viðurkenna að hafa lofað seðlabankastjóranum.  Þórunn er greinilega að beina spjótum sínum að Jóhönnu Sigurðardóttur, formanni Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, sem setti Þórunni út úr ríkisstjórna á sínum tíma og setti Svandísi Svavarsdóttur í stól umhverfisráðherra í hennar stað.

Þórunn setur árás sína á Láru upp sem falskan stuðning við Jóhönnu, þegar hún setur þá síðarnefndu gjörsamlega upp við vegg í málinu með þessum orðum:  „Hæstvirtur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, svaraði því úr þessum stól hér í gær, að hún hefði ekki gefið nein loforð um sérstakar launahækkanir eða ívilnanir til handa nýjum seðlabankastjóra við ráðningu hans. Hæstvirtur forsætisráðherra svaraði í þrígang. Svar hennar liggur fyrir.

Komi í ljós að Jóhanna hafi lofað launahækkuninni, þrátt fyrir að þora ekki að kannast við það, þá er framtíð hennar í pólitík úti og hún yrði að yfirgefa formanns- og forsætisráðherrastólana rúin öllu trausti, sem þó var lítið fyrir.

Þá væri missis ráðherrastólsins fullhefnt af hálfu Þórunnar Sveinbjarnardóttur.


mbl.is Formaður bankaráðs krafinn svara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Steingrímur J. að eyðileggja orðspor þjóðarinnar?

Banka- og útrásarrugludallar, sem rændu bankana innanfrá og komu þjóðfélaginu öllu á hvolf, spilltu orðspori Íslands erlendis, en þó virtist vera skilningur á því að þau áföll sem erlendir aðilar hefðu orðið fyrir væru ekki á ábyrgð stjórnvalda og því væri orðspor ríkisins, sem slíks, ekki í stórkostlegri hættu, enda lenti Ísland ekki í ruslfolkki matsfyrirtækja eins og Grikkland.

Nú berast hins vegar þær fréttir að Steingrími J. sé að takast að valda meiri skaða á orðspori íslenska ríkisins en bankaránshrunið olli, því erlendir bankar eru farnir að tilkynna til fjármálaráðherra landa sinna, að íslenska ríkið sé algerlega rúið trausti þeirra og langur tími muni líða, þar til því verði treyst aftur.

Í fréttum kemur fram, að kröfuhafar Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur hafi verið búnir að samþykkja áætlun um afskriftir skulda sinna og endurskipulagningu sparisjóðanna, þannig að þeir gætu haldið áfram starfsemi, en þá hafi Steingrímur J. skyndilega svikið fyrri samninga og sett sparisjóðina í þrot.  Þetta hafi verið gert skömmu eftir að Steingrímur undirritaði yfirlýsingu til AGS um að endurskipulagning sparisjóðanna væri vel á veg komin.

Bankaránshrunið var gífurlega alvarlegt áfall fyrir þjóðina.  Steingrímur J. virðist ætla að verða að álíka vandamáli, ef ekki verra.


mbl.is Ríkið rúið trausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Alterna símarisinn hérlendis?

Öll síma og fjarskiptafyrirtæki landsins eru komin að fótum fram vegna skulda og a.m.k. sum komin í hendur bankanna og í raun stjórna þeir örlögum þeirra allra.

Þetta á þó ekki við um nýjasta farsímafélagið, en það er Alterna, sem er að fullu og öllu í eigu bandarísks félags og hefur verið að hasla sér völl hér á landi að undanförnu.

Er nokkur líklegri en þetta félag til að kaupa upp gömlu símafélögin og ná því að verða ráðandi á íslenska markaðinum innan skamms tíma.  Líklega verður helsti kostur Alterna að teljast sá, að það er ekki í eigu neinna íslenskra "fjármálasnillinga", sem halda að slík snilld felist í því að koma sem mestu fé í eigin vasa á sem skemmstum tíma og með hvaða aðferðum sem er, löglegum og ólöglegum.

Alterna er líklegasti aðilinn til að kaupa Tal og hefja þar með sóknina inn á markaðinn af alvöru. 


mbl.is Tal auglýst til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og Gylfi afhjúpuð

Samkvæmt upplýsingum Ragnars Árnasonar, stjórnarmanns í Seðlabankanum, lagði Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðsins, tillöguna um hækkun launa bankastjórans um 400 þúsund krónur á mánuði, fram í samráði við forsætis- og viðskiptaráðherra og hefði hann þar með fengið þá upphæð í laun á mánuði, umfram viðmiðunarlaun ríkisstjórnarinnar, en samkvæmt þeirri viðmiðun má enginn starfsmaður ríkisins vera hærra launaður en Jóhanna Sigurðardóttir.

Ráðherrarnir eru svo miklar gungur, að hvorugur vill kannast við að hafa gefið loforð um þessa launahækkun, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þar um í þinginu.

Það út af fyrir sig sýnir og sannar, að það er ákaflega hæpin launaviðmiðun að hámarkið skuli vera miðað við þennan slakasta forsætisráðherra lýðveldissögunnar og líklega er það sárt fyrir metnaðarfulla starfsmenn ríkisins, að þurfa að sæta slíkri viðmiðun.

Þar sem búið er að festa þetta launaviðmið í sessi, er liklega ekki hægt að lækka laun forsætisráðherrans niður í það sem þau ættu í raun að vera.  Hins vegar væri það mikill sparnaður, sérstaklega ef það yrði til að lækka laun allra toppa hjá ríkinu um leið.


mbl.is Samráð við forsætisráðuneytið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti, annar og.......í varðhaldi?

Dagurinn í dag virðist ætla að vera annadagur hjá Sérstökum saksóknara, en fyrr í dag var óskað eftir gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Hreiðari Má, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og undir kvöld berast þær fréttir að Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, hafi verið tekinn til skýrslutöku, vegna meintrar þátttöku í ýmsum lögbrotum tengdum Kaupþingi.  Miðað við atburðarásina fyrr í dag, má reikna með að Magnús fái svefnpláss við Hverfisgötuna í nótt.

Blaðamaður Moggans náði tali af Ólafi Ólafssyni í Samskipum fyrr í kvöld og kannaðist hann ekkert við þau mál, sem nú væru til rannsóknar, hvernig sem hann hefur talið sig vita hvaða mál það eru, og það eina sem hann hefði verið spurður um fyrir ári síðan væri um hlutabréfakaup Sheiks Al-Thani, en þau hefðu auðvitað verið fullkomlega eðlileg og sheikinn hefði staðfest það sjálfur.  Þar með þarf væntanlega ekki að rannsaka þau mál meira, því bæði Ólafur og sheikinn hljóta að segja allt dagsatt um þau viðskipti, sem önnur.

Ekki hefur reyndar frést af einum einasta banka- eða útrásarrugludalli, sem hefur talið sig sekan um nokkurn einasta hlut sem orsakaði bankahrunið og alls ekki átt nema í smávægilegum og stálheiðarlegum viðskiptum við bankana og sjálfa sig og hafi þar að auki gert þjóðinni stórkostlegt gagn með viðskiptum sínum.

Nóg er að lesa kurteisleg og hógvær skrif Jóns Ásgeirs í Bónus og leigupenna hans í blöðunum og á Pressunni til að staðfesta sakleysi þessara manna og sannfærast um ofsóknir Davíðs Oddsonar á hendur þeim, en þrátt fyrir að vera bara Moggaritstjóri, þá stjórnar hann öllu þjóðfélaginu á bak við tjöldin, eins og almenningur veit mætavel.

Sumir halda því reyndar fram að þessir menn séu svo siðblindir og samviskulausir, að þeir sjái ekkert athugavert við eigin athafnir og viðskipti, en það er auðvitað líka rógur og níð, ættað frá Moggaritstjóranum.

Sé það rétt, munu rannsóknir málanna væntanlega ekki taka langan tíma í viðbót og allir sem sökum hafa verið bornir sýknaðir.


mbl.is Annar í skýrslutöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um Sheik Al-Thani?

Krafist hefur verið gæsluvarðhalds yfir Hreiðari Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og er hann grunaður um skjalabrot skv. 17. kafla almennra hegningarlaga, auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga,  brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti þ.m.t. markaðsmisnotkun og loks brot gegn hlutafélagalögum.

Það liggur í hlutarins eðli að við slík brot koma fleiri að málum en forstjórinn einn og því hljóta að fylgja fleiri handtökur í kjölfarið og er nærtækast að minnast þess, að í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var fjöldi einstaklinga nefndur á nafn, án þess að þeir væru beinlínis ásakaðir þar um lögbrot, en þess getið að mörg mál, sem nefndin komst á snoðir um, hefðu verið send áfram til Sérstaks saksóknara.

Sumir sem við sögu komu í meintum banka- og útrásarglæpum búa erlendis, eða eru erlendir ríkisborgarar og má t.d. nefna Thengisbræður og Sheik Al-Thani, en hann er/var einkavinur og viðskiptafélagi Ólafs Ólafssonar í Samskip.

Sennilega gengi illa að fá sheikinn framseldan til skýrslugjafar og varðhaldssetu.

 


mbl.is Engin aðkoma alþjóðadeildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreiðar Már í varðhald

Nú virðist vera kominn góður skriður á rannsóknir Sérstaks saksóknara og hefur hann nú óskað eftir að sá fyrsti sem grunaður er um stórfelld lögbrot verði úrskurðaður í gæsluvarðhald, en það mun vera Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.

Hreiðar er ákærður um skjalabrot skv. 17. kafla almennra hegningarlaga, auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga,  brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti þ.m.t. markaðsmisnotkun og loks brot gegn hlutafélagalögum.

Hreiðar Már var aðeins einn af mörgum banka- og útrásarugludöllum og því verður að ætla að á næstu dögum fyllist allir gæsluvarðhaldsklefar af hvítflibbamönnum og álag á dómstólana verði sem aldrei fyrr.

Nú rennur upp gósentíð hjá helstu lögfræðistofum landsins, því ekki þarf að efast um að allar helstu lögfræðistofurnar verði ráðnar til að annast vörnina fyrir þessa kappa, enda mun ekki skorta fé til greiðslu þess kostnaðar, sem verjendurnir munu innheimta.

Ýmsir hafa haldið því fram frá hruninu, að yfirvöld myndu ekkert aðhafast í málum gegn þessum görpum, en nú hafa slíkar samsæriskenningar verið afsannaðar, rétt eins og rannsóknarskýrslan sannaði að aldrei stóð til að fela það sem gerðist í aðdraganda hrunsins, eða hylma yfir með neinum.

Tími uppgjörsins er runninn upp.

 


mbl.is Hreiðar Már handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak Reykjavíkurborgar

Tillaga borgarfulltrúa VG um að fram fari óháð rannsókn á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hefur verið samþykkt í borgarráði og er fyrirhugaðri nefnd ætlað að skila niðurstöðum sínum fyrir árslok 2010.

Rannsóknarnefnd Alþingis fór ekkert yfir stjórnsýslu sveitarfélaganna og því er þessi samþykkt borgarráðs til fyrirmyndar og ættu önnur stór sveitarfélög að fylgja þessu fordæmi.  Svona athuganir eru nauðsynlegar í ljósi þess andrúmslofts, sem ríkir í þjóðfélaginu og tortryggni í garð alls sem stjórnmálamenn hafa komið nálægt á undanförnum árum.

Ekki þarf að reikna með að neitt óeðlilegt komi í ljós við slíka úttekt, en það er ekki síður nauðsynlegt að fá það þá svart á hvítu frá óháðum aðilum að svo sé og hreinsa með því andrúmsloftið og slá á tortryggnina gagnvart sveitarstjórnarmönnum.  Hafi eitthvað verið öðruvísi en það átti að vera, eða einhver borgarfulltrúi eða embættismaður brotið af sér, er auðvitað bráðnauðsynlegt að það komist upp á yfirborðið.

Þessi tillaga Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa VG, er afar góð og eftirbreytniverð.


mbl.is Samþykkt að fara yfir stjórnkerfi borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband