Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Þreyttur á kjaftæðinu í Steingrími

Með því að hnika til nokkrum orðum í ræðu Steingríms J. á fundi Samtaka atvinnulífsins, má lýsa afstöððu almennings til aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar.  Þá myndi upphaf ræðunnar hljóða einhvernveginn svona:

Almenningur er orðinn þreyttur á þessu kjaftæði í Steingrími J., að ríkisstjórnin sé eitthvað að gera vegna endurreisnar atvinnulífsins, minnkunar atvinnuleysis og vanda heimilanna og má t.d. gagnrýna framgöngu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra og VG fyrir ákvarðanir og áherslur í tengslum við skipulag Þjórsársvæðisins og aðrar stórframkvæmdir. 

Segja má að framganga Svandísar og VG hafi verið þeim til skammar. Steingrímur ætti að biðjast afsökunar, fyrir sína hönd, Svandísar og VG.  Ríkisstjórnin hefur algerlega unnið gegn stöðugleikasáttmálanum varðandi stóriðjuframkvæmdir og vegna vandræðagangs ríkisstjórnarinnar er nokkurt vandamál með fjármögnunina, hún er nánast föst.

Við þetta má bæta vandræðagangi og raunar algeru klúðri varðandi Icesave, vaxtamál, sparnað í ríkisrekstrinum, skattahækkanabrjálæði og almennu getuleysi við úrlausn vandamála þjóðfélagsins.

Það er ekki nóg að vera stórorður og láta skammir dynja á atvinnurekendum, til að hefna fyrir þær skammir sem Steingrímur og ríkisstjórnin fær frá verkalýðsfélögunum fyrir aðgerðarleysi og tafir á öllum málum, sem snúa að stöðugleikasáttmálanum, sem ASÍ er reyndar farið að kalla stöðnunarsáttmála.

Það eina, sem var alveg rétt í ræðunni er, að Steingrímur J. er þreyttur og það er farið að bitna alvarlega á almenningi í landinu.

Steingrímur J. og VG ættu að fara að fá sér góða hvíld.

 


mbl.is Þreyttur á þessu kjaftæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa Svíar ausið skattfé í Íslendinga?

Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki þorað að viðurkenna, fyrr en alveg nýlega, að það séu þær, ekki síður en Bretar og Hollendingar, sem barist hafa gegn endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS og þar með tafið allt ferlið um marga mánuði, með kröfu sinni um að Íslendingar gangist skilyrðislaust að fjárkúgunarkröfum ofbeldisseggjanna.

Norski utanaríkisráðherrann er örlítið að linast í sinni afstöðu, vegna þrýstings almenningsálitsins í Noregi, en engan bilbug er að finna á utanríkisráðherrum annarra norðurlanda, þeir eru ennþá jafn forhertir og svara út og suður, þegar spurt er um þeirra afstöðu til málsins.

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var utanríkisráðherra Svía hortugastur af öllum og sagði blákalt, að Svíar væru búnir að ausa milljónum sænskra króna af skattfé til Íslendinga, fyrir utan það lánsloforð, sem gefið var og ekki hefur verið staðið við.

Fréttamaðurinn hafði auðvitað ekki rænu á, að spyrja ráðherrann nánar út í þessa stórmerkilegu yfirlýsingu, því aldrei hafa íslensk yfirvöld svo mikið sem gefið í skyn, að Svíar hafi veitt Íslendingum ríflega ölmusu af sænsku skattfé.

Þetta er svo merkilegt mál, að fjölmiðlar hljóta að vakna og upplýsa þetta, því ef þetta er ekki rétt, þá verður utanríkisráðherra Svía að éta þetta ofan í sig og þar með ómerkingur heita.


mbl.is Ósammála um lán til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðilegging samkeppnismarkaðar

Á verktakamarkaði hefur alltaf ríkt mikil samkeppni og hart barist um hvert verkefni, sem boðið er út.  Svo hefur alltaf verið og meira að segja í góðærinu voru undirboð risanna á þessum markaði allsráðandi, því keppikeflið var að blása fyrirtækin út og þau tóku virkan þátt í gulldansinum, með því að ráðast sjálf í byggingar á alls kyns húsnæði, bæði íbúðum og atvinnuhúsnæði, rekin áfram af græðginni, sem gróðavonin af sölu eignanna magnaði.

Nú eru þessi stóru fyrirtæki flest komin að fótum fram vegna gífurlegra erlendra skulda, sem þau steyptu sér út í, á "lánæristímanum" og komin með neikvætt eigið fé upp á tugi milljarða króna, sem í öllum venjulegum skilningi þýðir einfaldlega gjaldþrot.

Nýlega bárust fréttir af því, að búið væri að "endurskipuleggja" Íslenska aðalverktaka og fólst sú "endurskipulagning" í því, að Arion banki situr uppi með tugmilljarða skuldir, en fyrri eigendur halda sínu í einhverskonar felubúningi.  Enn berast fréttir af slíkri "endurskipulagningu" byggingarverktaka, nú Eyktar hf., en sú samstæða var með neikvætt eigið fé upp á tæpa tuttugu milljarða króna og ætti því samkvæmt öllum eðlilegum viðskiptalögmálum að vera búið að lýsa sig gjaldþrota.  Það hefur samsteypan hins vegar ekki gert og tekur þátt í öllum útboðum sem bjóðast og býður oft svo lág verð, að önnur fyrirtæki á markaðinum geta alls ekki keppt við þau.

Ef til vill lýsir eftirfarandi málsgrein vel, þeim hugsunarhætti sem ríkir hjá mörgum þeim aðilum, sem bíða bara eftir tugmilljarða skuldaafskriftum hjá bönkunum, í þessu tilfelli Íslandsbanka: 

"Pétur Guðmundsson, eigandi Holtasels ehf., segir í Viðskiptablaðinu stöðu félagsins og dótturfélaga þess vera fína. Verið sé að vinna að þeim málum sem þurfi að vinna að með viðskiptabanka samsteypunnar. Hann hefur ekki áhyggjur af stöðunni."

Ef hægt er að meta þessa stöðu fína, þá er það væntanlega vegna þess, að bankinn mun afskrifa skuldirnar og eftir það mun Eyktin hafa betri stöðu en nokkru sinni fyrr, til að undirbjóða aðra verktaka á markaðinum, sem ekki hafa fengið slíka "endurskipulagningu" fjármála sinna, enda farið varlegar í sínum rekstri, heldur en Íslenskir aðalverktakar, Eyktin og fleiri.

Svona "hreingerningar" í skuldasukki einstakra fyrirtækja enda á þann veg, að þau fyrirtæki sem hafa verið rekin á varlegan hátt, fram að þessu, verða rekin í þrot vegna þess að þau munu ekki geta keppt við "hreinsuðu" fyrirtækin í framtíðinni.

Í nafni sanngjarnrar samkeppni ætti að leysa þessi skuldafyrirtæki upp og gefa betur reknu fyrirtækjunum kost á að kaupa rekstur þeirra, enda engin sanngirni í því fyrir þau, að þurfa að keppa á hörðum markaði við fyrirtæki, sem í raun eru í eigu bankanna.


mbl.is Eykt skuldar 44 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargar þá evran engu?

Í mörg ár hefur Samfylkingin reynt að telja fólki trú um, að ESB væri slíkt töfrabandalag, að umsókn um aðild, ein og sér, myndi auka svo traust og trúnað á íslensku þjóðarbúi, að hér færi að drjúpa smjör af hverju strái.

Þar fyrir utan hefur hún haldið því fram, að ekki nokkur einasti möguleiki gæti verið á efnahagserfiðleikum, hvað þá kreppu, ef Íslendingar kæmust í klúbb þeirra einstaklega heppnu ríkja, sem hafa evru sem gjaldmiðil.  Sá gjaldeyrir væri slíkum eiginleikum gæddur, að varla þyrfti að hugsa um efnahagsmál því evran ein og útaf fyrir sig myndi vernda landið fyrir öllum áföllum.

Svo fóru að berast fréttir af því, að mörg lönd innan ESB, sérstaklega þau sem hafa tekið upp evruna, ættu í gífurlegum efnahagserfiðleikum og þar ríkti slík kreppa, að jafnverl íslensk kreppa, eftir bankahrun og allt sem því fylgdi, væri eins og hjóm eitt í samanburði.  Samfylkingin hefur ekki getað gefið neinar viðhlýtandi skýringar á þessum ósköpum sem hrjá evrulöndin, aðra en þá sem Árni Páll Árnason gaf, en hann sagði að þessum löndum væri stjórnað af fíflum.

Ef evran ver þjóðirnar ekki gegn því, að þeim sé stjórnað af fíflum, er til lítils barist, því ef Íslendingar þurfa virkilega á einhverju að halda, þá væri það trygging fyrir betri stjórnmálamönnum.

Fyrst evran tryggir hvorki stöðugt efnahagslíf né skárri stjórnmálamenn, til hvers er þá barist?


mbl.is Munu skoða hugmynd um Gjaldeyrissjóð Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin þarf að fara að starfa á réttum forsendum

Líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði, vegna þess að upphaflega stóðu að henni tveir stjórnmálaflokkar, en eru nú orðnir þrír og sá nýjasti, þ.e. hluti þingflokks VG, styður stjórnina tæplega nema gegn vantrausti.

Ögmundur Jónasson, sem hrökklaðist úr ráðherraembætti vegn andstöðu sinnar við ríkisstjórnina í Icesavemálinu, segist nú vera tilbúinn að taka sæti í henni að nýju, sem fulltrúi "þriðja flokksins" ef það yrði á "réttum forsendum".  Vandræði þjóðarinnar eru þó meiri en svo, að öllu skipti hvort einn ráðherra sitji í ríkisstjórninni á "réttum forsendum", því bráðnauðsynlegt er að öll ríkisstjórnin fari að starfa á réttum forsendum.

Hún verður að viðurkenna vilja þjóðarinnar í Icesavemálinu og skilja að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar þýddi NEI við öllum fjárkúgunartilraunum ofbeldisþjóðanna og að krafan sé, að skattgreiðendur taki ekki á sig eina krónu, hvorki vegna höfuðstóls eða vaxta af skuldum einkaaðila.

Einnig verður stjórnin að fara að huga að öðrum og brýnni málum, sem eru efnahagsmálin í heild sinni með því að koma hreyfingu á atvinnustarfsemina, minnka atvinnuleysið (sem er mest aðkallandi), styrkja undirstöður heimilanna í landinu og blása kjarki í þjóðina á ný.

Ekki er oft hægt að vera sammála Ögmundi, en aumt mætti það ráðherraefni vera, sem ekki yrði skárri kostur í ráðherraembætti, en t.d. Álfhildur Ingadóttir eða Svandís Svavarsdóttir.

Einnig er rétt hjá honum, að þjóðaratkvæðagreiðslur á eingöngu að tengja við það málefni sem kosið er um hverju sinni, en ekki líf þeirrar ríkisstjórnar, sem situr í landinu, þegar þær fara fram.

Lágmarkskrafa er þó, að sitjandi ríkisstjórnir taki fullt mark á niðurstöðunum og starfi í samræmi við þann vilja þjóðarinnar, sem fram kemur í þeim, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.


mbl.is Til í sæti á réttum forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilja stjórnvöld hvorki kannanir né kosningar lengur?

Samfylkingin hefur frá stofnun verið algerlega eins máls flokkur, þ.e. að verða ESB undirlægja, en að öðru leyti snúist eftir skoðanakönnunum hverju sinni.  Því vekur það mikla furðu, að nú skuli flokkurinn hvorki þykjast skilja vilja þjóðarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, né nýja skoðanakönnun MMR.

Skoðanakönnunin endurspeglar algerlega niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, en 98% þeirra, sem afstöðu tóku, sögðu NEI og sá fjöldi jafngildir um 60% allra þeirra, sem á kjörskrá voru, en þátttaka í kosningum er þó aldrei 100%, heldur nær 85%.

Skoðanakönnun MMR sýnir að 60% landsmanna telja, að íslenskir skattgreiðendur eigi ekki að taka á sig byrðar vegna skuldbindinga einkabanka né tryggingasjóðs þeirra.  Stjórnvöldum ber skylda til að taka fullt mark á þessari afstöðu skattgreiðenda og þeim á ekki einu sinni að detta í hug að reyna að hneppa þjóðina í skattaánauð til áratuga, fyrir erlenda fjárkúgara, því skattgreiðendur hafa risið upp og eru tilbúnir til að berjast fyrir hagsmunum sínum og lagalegum rétti landsins.

Hvenær hætti Samfylkingin að laga stefnu sína að skoðanakönnunum?

Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort verður yfirsterkara, þrjóska Jóhönnu og afneitun staðreynda, eða vinsældakapphlaupið í takt við skoðanakannanirnar.


mbl.is Skýr skilaboð í Icesave-könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var lán í óláni að lánið var borgað með láni

Björgólfsfeðgar mótmæla því hástöfum, að þeir hafi ekki borgað lánið frá Búnaðarbankanum, sem þeir fengu í tengslum við kaupin á Landsbankanum, sem aftur lánaði S-hópnum til að kaupa Búnaðarbankann. 

Þeir segjast að sjálfsögðu hafa greitt þetta lán upp í topp á árinu 2005, en að vísu fengið annað lán svipaðrar upphæðar til að kaupa eitthvað allt annað, án þess að muna nákvæmlega hvað það var.  Þess vegna er upphalega lánið alls ekki í vanskilum, heldur er lánið sem var tekið til að koma gamla láninu í skil í vanskilum og þar sem svo vildi til, að heimsins óréttlæti setti allt batteríið á hausinn á haustdögum 2008, er hvorki hægt að borga þetta lán, né önnur, sem voru tekin til að borga einhver allt önnur og eldri lán.

Svona gengu öll viðskipti banka- og útrásarbraskara, þ.e. að lán voru tekin til "kaupa" á hverju sem var og sama hvað það kostaði og svo voru þau lán borguð með nýjum lánum, sem hækkuðu við hvern snúning, vegna þess að þá þurfti alltaf að lána líka fyrir áföllnum vöxtum og því hlóð boltinn alltaf utan á sig, við hvern einasta hring, sem hann skoppaði.

Það var mikið lán fyrir alla, þegar alltaf var hægt að fá nýtt lán og ólánið dundi fyrst yfir, þegar ekki fékkst neitt lán lengur og einhverjum datt í hug að ætlast til þess að lán yrðu borguð til baka.


mbl.is Samson greiddi lánið árið 2005
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott ráð til Samfylkingarinnar

Austurrískir þingmenn á Evrópuþinginu virðast hafa talsverðar áhyggjur af því að varla fyrirfinnist lengur sá Íslendingur, sem áhuga hafi á að landið verði innlimað sem áhrifalaus smáhreppur inn í stórríki ESB.

Ernst Strasser, formaður þingflokks ÖVP, sagði að Evrópusambandið væri ekki í því að deila út gjöfum og ekki þýddi fyrir Íslendinga að leita til ESB eftir "jólagjöfum".  Vegna þessara ummæla, væri fróðlegt að fá það upp á "hreina borðið" hvort Samfylkingin hafi verið að sækjast eftir einhverjum "gjöfum" frá ESB, t.d. í sambandi við Icesave.

Hannes Swoboda, varaformaður sósíaldemókrata á Evrópuþinginu lýsti hins vegar yfir áhyggjum vegna fremur neikvæðrar afstöðu Íslendinga til ESB. Ef stemmingin á Íslandi breyttist ekki væri um tvennt að ræða, annað hvort héldu Íslendingar þjóðaratkvæði um hvort yfirhöfuð ætti að semja við Evrópusambandið eða viðræðum yrði hætt.

Þessi snilldarhugmynd kom upp á Alþingi, áður en umsóknin var send til ESB, en stjórnarflokkarnir felldu tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla skæri úr um, hvort sótt yrði um eða ekki.

Nú þegar sama hugmynd kemur frá sósiademókratískum hugsjónabróður Samfylkingarinnar, ætti hún að taka hana til alvarlegrar athugunar.  Reyndar væri nóg að fara eftir seinni hluta tillögunnar, því óþarfi er í þessu tilfelli að fara út í þann "penignaaustur" sem þjóðaratkvæði er, eins og Steingrímur J. orðaði það, svo snyrtilega.

Þar sem Samfylkingin er sérstaklega veik fyrir erlendum herrum, hljóta heilræði þessa útlendings að falla í góðan jarðveg þar á bæ.


mbl.is Ísland vinni heimavinnuna sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur Steingrímur mark á þeim núna?

Nú hefur verið upplýst, að áður en skrifað var undir Svavarssamninginn, illræmda, þann 5. júní s.l., hafi öll stjórnarandstaðan og a.m.k. fimm þingmenn VG verið búin að tilkynna Steingrími J. að þau væru algerlega andvíg samningnum, eins og hann lá fyrir.  Þrátt fyrir að Steingrímur vissi, að samningurinn nyti ekki stuðnings meirihluta Alþingismanna, lét hann Svavar og Indriða samþykkja fjárkúgunarkröfurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, enda var stjórnin þá þegar búin að sverja Bretum og Hollendingum hollustueiða.

Þessir sömu þingmenn VG hafa enn á ný komið þeim boðum til Steingríms, að þeir myndu ekki styðja neina nýja samninga óséða, þeir vilji þó halda viðræðum áfram, en muni ekki vera tilbúnir til að samþykkja hvað sem er, allra síst óséð.

Steingrímur J. tók ekkert mark á stjórnarandstöðunni og sínum eigin flokksmönnum í fyrra, sem leiddi til þess,  að ennþá er málið óleyst og þjóðin hefur hefur kastað Svavarssamningnum út í hafsauga í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með sent skýr skilaboð til kúgaranna, að hún muni ekki láta beygja sig í duftið fyrir erlendum ofbeldisseggjum.

Steingrímur hefur gert litið úr þjóðinni og hennar skoðunum opinberlega.

Mun hann hunsa skoðanir flokksfélaga sína áfram, á sama hátt og þjóðarviljann?


mbl.is Heita ekki stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er mikilvægt fyrir ESB, en myndi ekki hafa nein áhrif

Stefán Fúli, stækkunarstjóri ESB hefur áhyggjur af því hve fáir Íslendingar hafa áhuga á að gera landið að áhrifalausum hreppi í stórríki ESB, því yfirráð yfir landinu væri fengur fyrir stórríkið. 

Það sem stórríkið sækist helst eftir að ráða eru fiskimiðin í kringum landið og aðgangurinn að norðurhöfum, sem verður afar mikilvægur innan tiltölulega fárra ára.

Það sem Stefáni Fúla, stækkunarstjóra, þótti þó best af öllu og sagði hreinskilnislega, væri að "aðild Íslands myndi ekki hafa mikil áhrif á stefnu sambandsins".

Með þessari yfirlýsingu sinni, rataðist honum algerlega satt orð á munn og þetta er einmitt ástæðan fyrir því að Íslendingar hafa engan áhuga á að verða ríkisborgarar í þessu stórríki skriffinnskunnar.


mbl.is Áhyggjur af áhugaleysi Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband