Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Fyrsta vikan fer í Davíð Oddson, svo kemur að hinum

Nú styttist í að hin langþráða skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis líti dagsins ljós, en líklega verður hún opinberuð á föstudaginn, eftir leynilegustu upplýsingasöfnun Íslandssögunnar, að ekki sé talað um öryggisgæsluna á meðan á prentun hennar hefur staðið.

Allt þjóðfélagið bíður í ofvæni eftir skýrslunni og um leið og hún kemur út, verður lúsleitað í henni að öllu sem sagt verður um Davíð Oddsson og hans hlutverk í aðdraganda hrunsins, hvort heldur sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri.  Hvað svo sem sagt verður um hans hlut, mun allt þjóðfélagið loga a.m.k. fyrstu vikuna vegna umfjöllunarinnar um hann í skýrslunni og verði sú umsögn ekki í allra svartasta lagi, mun nefndin verða ásökuð um að hlífa honum og hans hluta og munu þá margir telja sig vita miklu betur um allt, sem að honum snýr, en nefndin, sem varið hefur einu og hálfu ári í að rannsaka málið.

Jafnvel þó umsögnin um Davíð verði honum ekki sérlega hliðholl, mun allt snúast um hans þátt, og margir munu verða til þess að segja, að skýrslan væri samt að gera hans hlut of lítinn og sama hvað skýrslan segi, þá sé Davíð slíkt skrímsli, að umfjöllunin sé honum alltaf of hagstæð.

Þegar mesti móðurinn verður runnin af mönnum vegna Davíðs, munu umræður geta hafist af raunsæi um innihald skýrslunnar og raunverulegar orsakir hrunsins og hverjir beri þar mesta ábyrgð, sem auðvitað hljóta að vera banka- og útrásarrugludallarnir, sem hér settu allt á hvolf.

Umræðan um þessa langþráðu skýrslu mun yfirskyggja allt annað, næstu mánuði og ár, enda verður hún hluti Íslendingasagnanna í framtíðinni.


mbl.is Fræðimenn verða á skýrsluvakt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB á að bjarga Íslandi, en hver bjargar ESB?

Samfylkingin hefur lofsungið ESB undanfarin ár og boðað það fagnaðarerindi, að allir erfiðleikar Íslendinga hyrfu, eins og dögg fyrir sólu, eingöngu við það eitt, að sækja um aðild að bandalaginu og síðan yrði líið ein sæla eftir að landið hefði formlega verið innlimað sem hreppur í stórríkið.

Undanfarið hafa þó verið að birtast fréttir af því, að einstök lönd innan ESB glími við litlu minni kreppu en Íslendingar, sem þó urðu fyrir algeru kerfishruni, sem virðist, þegar að er gáð, aðeins sett Ísland á svipaðan stall og ESB ríkin eru vön að vera á, þegar til lengri tíma er litið.

Atvinnuleysi er í óþekktum hæðum hérlendis eftir hrunið, en slíkt atvinnuleysi nær þó einungis því að vera svipað og meðaltalsatvinnuleysi ESB landanna, sem virðast líta á það sem eðlilegan hlut, á meðan Íslendingar líta á atvinnuleysi, sem eitt mesta böl, sem yfir þá getur komið.

Þó mikið sé rætt um skuldir hins opinbera hérlendis, eru þær síst meiri en gerist og gengur í löndum ESB, eða eins og fram kemur í fréttum, eru opinberar skuldir Grikkja um 113% af landsframleiðslu, 115% af landsframleiðslu á Ítalíu, 73% í Þýskalandi og nærri 69% í Bretlandi. 

Skuldir íslenska ríkisins nema um 78% af landsframleiðslu, þannig að þær eru litlu meiri en í forysturíki ESB, Þýskalandi, en til Þýskalands er alltaf litið sem efnahagsrisans í ESB.

Ef Samfylkingin heldur að ESB geti bjargað einhverju fyrir Ísland, hver skyldi þá að hennar mati eiga að bjarga ESB?


mbl.is Lofa að aðstoða Grikki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú ætti að sparka boltanum út af vellinum og flauta leikinn af

Hollendingar og Bretar segja, að boltinn í Icesave málinu sé hjá Íslendingum, eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem Jóhanna og Steingrímur j. sögðu að væri algerlega marklaus og peningaaustur.  Fjárkúgurunum hefur a.m.k. brugðið við úrslitin og þá hörku gegn kúgunartilraununumi, sem þjóðin sýndi með niðurstöðunni í kosningunum.

Fyrst ofbeldisseggirnir hafa nú gefið boltann frá sér og til Íslendinga, er auðvitað það eina rétta í stöðunni, að sparka boltanum út af vellinum og flauta leikinn af, enda nennir enginn að hafa þetta mál hangandi yfir höfði sér lengur, frekar en Svavar Gestsson og Indriði H., sem aldrei nenntu að standa í neinu þrefi og samþykktu alla skilmála kúgaranna strax í fyrravor.

Líki Bretum og Hollendingum ekki, að leikurinn verði flautaður af, þá geta þeir alltaf skotið þeirri ákvörðun til dómarans, sem þeir hafa að vísu aldrei viljað láta koma nálægt leiknum, því þeir vildu semja leikreglurnar sjálfir, enda verið spilað eftir þeirra höfði hingað til.

Nú loksins er tími dómarans runninn upp.

 


mbl.is Boltinn er hjá Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi skilningur íslenskra ráðamanna

Upp á síðkastið hefur farið að örla á vaxandi skilningi íslenskra ráðamanna á hagsmunum íslenskra skattgreiðenda í baráttunni gegn fjárkúgunartilraunum Breta og Hollendinga.  Það hefur að vísu tekið níu mánuði að síast inn hjá þessum ráðamönnum, aðallega Jóhönnu og Steingrími J., að Svavarssamningurinn var enginn samningur, heldur fjárkúgunarkröfur, sem Svavar nennti ekki að berjast gegn og Jóhanna og Steingrímur ætluðu síðan að láta Alþingi samþykkja, óséðar.

Í allt fyrrasumar var strögglað á Alþingi við að koma saman fyrirvörum við þá ríkisábyrgð, sem kúgararnir kröfðust og hafðist það að lokum í ágústlok, s.l., þrátt fyrir harða andstöðu flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.  Þar sem fjárkúgararnir áttu svo trygga bandamenn innan ríkisstjórnar Íslands, voru enn settar fram nýjar kröfur, sem meirihlutinn keyrði með offorsi í gegnum Alþingi, en öllum að óvörum nýtti forsetinn stjórnarskrána til að vísa málinu til afgreiðslu þjóðarinnar, sem auðvitað snerist öndverð gegn allri undanlátssemi við fjárkúgunarkröfum ofbeldisseggjanna.

Nú segir Össur, að skilningur sé að aukast á norðurlöndunum á málstað Íslendinga og helst það í hendur við skilningsauka íslenskra ráðamanna, sem aldrei virðast hafa talað máli þjóðarinnar á erlendum vettvangi, sem varla er von, fyrst hún hafði engan skilning á honum, fyrr en nú.

Skilningur Dana, Svía og Finna dugar hins vegar ekki til, því þeir bjuggu svo snilldarlega um hnútana, þegar þing þeirra samþykkti lánveitingu til Íslands í tengslum við endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS, að binda í samþykktir þinganna, að ekkert lán yrði veitt, fyrr en Íslendingar hefðu gengið að fjárkúgunarkröfum félaga þeirra í ESB.

Það er hinsvegar skref í rétta átt, að íslenskum ráðamönnum skuli vera að aukast skilningur á hagsmunum sinnar eignin þjóðar. 


mbl.is Sterkari skilningur en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir þyrftu nú að lækka niður í 2%

Greining Íslandsbanka spáir, að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ekki lækka stýrivexti um nema 0,25-0,50% við vaxtaákvörðun sína, núna í vikunni.

Enn og aftur vekur það furðu, að í þeirri algeru stöðnun sem hér ríkir á öllum sviðum framkvæmda, skuli vöxtum ennþá vera haldið þeim hæstu í Evrópu, ef ekki í heiminum öllum og að Seðlabankinn skuli beita þveröfugum aðferðum við alla aðra Seðlabanka í vaxtamálum.  Nánast alls staðar annarsstaðar eru stýrivextir seðlabanka frá 0-2% og er það auðvitað gert til þess að örva efnahagslífið og halda hjólum atvinnulífsins gangandi.

Hér er borið við, að verðbólga sé ennþá há, en það skýrist nær eingöngu af skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar, sem dregur úr allri eftirspurn í þjóðfélaginu, sem aftur eykur vanda fyrirtækjanna og eykur atvinnuleysið.  Ef vel ætti að vera, ætti Seðlabankinn núna að snara stýrivöxtum sínum niður í 2% og innlánsvöxtum bankanna niður í 1%, sem yrði til þess að þeir færu að lána til arðbærra verkefna úti í þjóðfélaginu, en það gera þeir ekki á meðan Seðlabankinn greiðir þeim hærri vexti, en bankarnir geta fengið á almennum markaði.

Furðulegast af öllu er þó, að bera því við, að ekki sé hægt að lækka vexti hér innanlands vegna þess að ekki sé búið að leysa Icesave málið, því vandséð er hvernig sú fjárkúgunarkrafa getur haft áhrif á vexti í viðskiptum milli íslenskra aðila í íslenskum krónum, enda mun erlent fjármagn ekki flæða hér inn í landið, hvorki þó fjárkúguninni verði hrundið, eða undan henni látið.

Það eru ódýr rök, að halda vöxtum háum núna vegna verðbólgu, sem mun fara hratt niður, þegar áhrif skattahækkanabrjálæðisins verða að fullu komin fram, enda myndu lágir vextir við þessar aðstæður frekar leiða til enn hraðari lækkunar verðbólgunnar.

 


mbl.is Spá vaxtalækkun í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á meðan engir fundir eru haldnir er hagsmunum þjóðarinnar borgið

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave ólögin, sögðu Jóhanna og Steingrímur að áfram yrði haldið samningaviðræðum við fjárkúgarana, eins og ekkert myndi í skerast, strax eftir kosningahelgina, enda væri kosningin marklaus og sóun á fjármunum. 

Stórglæsileg kjörsókn og enn glæsilegri niðurstaða úr kosningunni, þar sem 98,1% þeirra sem afstöðu tóku, felldu lögin úr gildi og sendu með því kristaltær skilaboð til umheimsins. að íslenskir skattgreiðendur vildu ekki og ætluðu ekki, að setja sig í skattafjötra til áratuga í þágu erlendra ofbeldisseggja. 

Jafnvel Jóhanna og Steingrímur virðast loksins vera farin að skilja, að þau hafa engan stuðning á bak við sig, í þjónkuninni við kúgarana og það sem betra er, er að þeir eru sjálfir farnir að skilja, að íslenska þjóðin mun aldrei samþykkja, að taka á sig að greiða eina einustu krónu, hvorki af höfuðstól skuldar einkafyrirtækis, hvað þá að borga vexti af skuld, sem hún hefur ekki stofnað til.

Meðan engir fundir eru haldnir, semja stjörnvöld ekki af sér og því er það þjóðinni í hag, að fundahöld tefjist sem mest. 

Trúin á að ríkisstjórnin geti leitt þetta mál til lykta, eftir lagalegum leiðum, er engin.


mbl.is Gengur hægt að koma á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engan umboðsmann skuldara

Samkvæmt fréttum undanfarna daga stendur til að stofna alls kyns ný embætti á vegum ríkisins, á sama tíma og alls staðar annarsstaðar í kerfinu er verið að skera niður og ekki til peningar, hvorki til að reka sjúkrahúsin, lögregluna, landhelgisgæsluna eða hvað annað, sem ríkið annast.

Nýjasta hugmyndin er stofnun embættis Umboðsmanns skuldara, sem er algerlega óþarft embætti, sérstaklega á þessum niðurskurðartímum og auðvelt að útvíkka starfssvið Umboðsmanns neytenda, enda hefur hann annast slík mál, eftir því sem lög um hans embætti hafa gert ráð fyrir.  Einnig hefur Neytendastofa fjallað um slík mál, en embætti Umboðsmanns neytenda er sjálfstætt emætti til viðbótar við Neytendastofu, en hún annast flest mál, sem fjalla undir neytendamál, þannig að embætti Umboðsmanns neytenda er í raun embætti, sem ekki var hugsað alveg til enda, þegar það var stofnað og lögin um hann ófullkomin og verkaskipting milli hans og Neytendastofu óskýr.

Stjórnvöld hljóta að leita allra leiða, til að halda kosnaði ríkisins í algeru lágmarki nú um stundir og algert glapræði að stofna ný ríkisapparöt, þegar önnur eru til fyrir, þar sem hægt er að endurskipuleggja starfsemina og gera skilvirkari.

Það er alger óþarfi og raunar bara bruðl, að stofna fleiri opinber embætti, þegar frekar ætti að fækka þeim.


mbl.is Umboðsmaður skuldara stofnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

InDefence viðurkennir vaxtakröfu

Fulltrúar InDefence hittu nokkra Hollenska þingmenn, sem sæti eiga í Fjárlaganefnd Hollenska þingsins, og ræddu við þá um Icesave og upplýstu ýmis sjónarmið Íslendinga vegna málsins. 

Samkvæmt fréttinni virðast fulltrúar InDefence hafa tekið undir það, að íslenskum skattgreiðendum beri að borga vexti fyrir tryggingasjóð innistæðuegenda, sem er í reynd tryggingafélag sem bankarnir greiddu iðgjöld til og er sjálfseignarstofnun, sem er ekki á neinn hátt tengd ríkissjóði, eða skattgreiðendum með neinu móti.

Það eina, sem InDefence virðist hafa mótmælt vegna vaxtakröfunnar er, að vextirnir væru of háir, en ekki því, sem mestu máli skiptir, sem er að 98,2% kjósenda, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni, gáfu þau skýru skilaboð, að þeir ætla ekki að láta hneppa sig í áratuga skattaþrældóm í þágu Breta og Hollendinga.

Eins þarft framtak og þessi fundur InDefence með þingmönnunum var, til að útskýra sjónarmið þess kúgaða, veldur þessi uppgjöf varðandi vextina gífurlegum vonbrigðum.

Það verður að vera hægt að ætlast til þess, að þeir sem skýri afstöðu almennings á Íslandi, túlki skoðanir hans á réttan hátt.

 


mbl.is Spurðu hvassra spurninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anders Borg skammast út af máli, sem hann segir að sér komi ekki við

Össur Skarphéðinsson, utanríkisgrínari, skensaði Andres Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, vegna niðrandi ummæla, sem sá sænski viðhafði um þjóðaratkvæðagreiðsluna þann 6. mars s.l. og niðurstöðu hennar.  Í sjálfu sér var Borg einungis að bergmála það, sem bæði Jóhanna og Steingrímur voru búin að boða í langan tíma, þ.e. að atkvæðagreiðslan væri marklaus og hefði enga þýðingu.

Anders Borg tók gríni Össurar illa og svaraði fullum hálsi hjá fréttastofunni TT með því að vísa til þess, sem ríkisstjórnin hefði sjálf sagt honum, eða eins og haft er eftir honum:  „Við viljum veita Íslandi aðstoð svo framarlega sem Íslendingar standa við efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skuldbindingar, sem þeir hafa sjálfir undirgengist."

Varla getur sá sænski verið að vitna í annað en það sem Össur sjálfur, eða aðrir úr ríkisstjórninni hafa sagt honum, þ.e. að ríkisstjórn Íslands væri búin að samþykkja fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga og annað væri ekki eftir en borga, nema jú það smáatriði, að forsetinn væri eftir að skrifa undir lögin.  Ekki getur hann verið að meina neinar aðrar skuldbindingar, sem "þeir hafa sjálfir undirgengist".

Að endingu verður Borg að vísu örlítið tvísaga þegar hann segir:  Íslenska ríkisstjórnin lýsti því yfir, að það hefði verið gerður samningur við Holland og Breta. Nú halda samningaviðræður áfram og það er ekki mitt hlutverk að skipta mér af þeim," segir Borg."

Fyrr í viðtalinu staðhæfði hann, að íslenska ríkisstjórnin yrði að standa við það sem hún hefði sagt og samþykkt, en í lokin segir hann, að samningar haldi áfram og sér komi það ekkert við.

Fyrst hann hefur komist að því, að honum sé Icesave óviðkomandi, væri þá ekki hægt að ætlast til þess, að hann hætti að blanda því saman við önnur og óskyld mál?


mbl.is Borg vísar gagnrýni Össurar á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan styrkist þrátt fyrir ríkisstjórnina

Eftir því sem andstaða þjóðarinnar hefur vaxið gegn fjárkúgunartilraunum Breta og Hollendinga, hefur krónan styrkst, þvert ofan í svartnættisáróður ríkisstjórnarinnar, sem í níu mánuði hefur látlaust hamrað á því, að með því að samþykkja ekki kröfurnar möglunarlaust, muni allt leggjast í rúst í landinu og t.d. myndi lánshæfi landsins hrapa í ruslfokk og gengið myndi halda áfram að veikjast.

Hvort lánshæfi landsins fellur um flokk, eða ekki, mun ekki skipta sköpum, hvað lánamöguleika Íslendinga erlendis snertir á næstunni, því lánsfé mun ekki liggja á lausu, nema gegn háum vöxtum, þar sem lánsfjárþörf nánast allra ríkja í Evrópu er gífurleg, eins og sjá má af þessari frétt frá því í gær, en þar segir m.a:  "Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s spáir því að lánsfjárþörf ríkja Evrópu á þessu ári nemi um 1.446 milljörðum evra, rúmum 251 þúsund milljörðum króna. Lánsfjárþörfin er þá sex sinnum hærri en hún var árið 2007 og slær út fyrra met frá árinu 2009 með um 390 milljarða aukningu. Samkvæmt S&P er reiknað með að samtals muni um 46 af 50 ríkjum Evrópu þurfa á þessum fjárhæðum að halda til að fjármagna sig."

Af þessu sést að uppgjöf í Icesavedeilunni mun ekki hafa nokkur áhrif til að auðvelda, hvorki íslenska ríkinu, eða einkaaðilum, að nálgast lánsfé erlendis frá, um talsverða framtíð. 

Styrking krónunnar er því athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess, að ríkisstjórnin gerir allt til að tala hana niður, ásamt því að aðgerðaleysi stjórnarinnar á öllum sviðum atvinnumála vinnur í raun gegn sterkari krónu.

Fari ríkisstjórnin að taka af sér belgvettlingana, bretta upp ermar og taka til hendinni í baráttunni við atvinnuleysið, eflingu atvinnulífs og heimilanna, þá gæti bjartsýni aukist og hjólin farið að snúast á ný og krónan að styrkjast ennþá meira.

Allt þetta er hægt, þrátt fyrir baráttu Breta, Hollendinga, norðulandanna, AGS og EBS gegn efnahagsbata á Íslandi. 

Það eina sem vantar, er ríkisstjórn sem ekki er ráðvillt, hugmyndasnauð og getulaus.


mbl.is Evran ekki lægri í 9 mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband