Engan umboðsmann skuldara

Samkvæmt fréttum undanfarna daga stendur til að stofna alls kyns ný embætti á vegum ríkisins, á sama tíma og alls staðar annarsstaðar í kerfinu er verið að skera niður og ekki til peningar, hvorki til að reka sjúkrahúsin, lögregluna, landhelgisgæsluna eða hvað annað, sem ríkið annast.

Nýjasta hugmyndin er stofnun embættis Umboðsmanns skuldara, sem er algerlega óþarft embætti, sérstaklega á þessum niðurskurðartímum og auðvelt að útvíkka starfssvið Umboðsmanns neytenda, enda hefur hann annast slík mál, eftir því sem lög um hans embætti hafa gert ráð fyrir.  Einnig hefur Neytendastofa fjallað um slík mál, en embætti Umboðsmanns neytenda er sjálfstætt emætti til viðbótar við Neytendastofu, en hún annast flest mál, sem fjalla undir neytendamál, þannig að embætti Umboðsmanns neytenda er í raun embætti, sem ekki var hugsað alveg til enda, þegar það var stofnað og lögin um hann ófullkomin og verkaskipting milli hans og Neytendastofu óskýr.

Stjórnvöld hljóta að leita allra leiða, til að halda kosnaði ríkisins í algeru lágmarki nú um stundir og algert glapræði að stofna ný ríkisapparöt, þegar önnur eru til fyrir, þar sem hægt er að endurskipuleggja starfsemina og gera skilvirkari.

Það er alger óþarfi og raunar bara bruðl, að stofna fleiri opinber embætti, þegar frekar ætti að fækka þeim.


mbl.is Umboðsmaður skuldara stofnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bara einn skrípaleikurinn í viðbót hjá ríkisstjórninni til að reyna að slá ryki í augu almennings....láta eins og verið sé að hjálpa "skuldsettum" heimilum í landinu. Skuldir sem réttu nafni eru skuldir bankanna þar sem þeir tóku stöðu á móti krónunni til þess eins að fegra eigin tölur þar sem allt var á niðurleið hjá þeim. Skuldir sem síðan eru dembdar á almenning. Þetta kallast á góðri íslensku ÞJÓFNAÐUR en er blessaður bak og fyrir af stjórnvöldum...Grrrrrrrrrrrr

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 22:50

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Vonandi verður þess ekki langt að bíða, að banka- og útrásarglæponarnir fái þá dóma, sem þeir eiga skilda og veði settir bak við lás og slá í langan tíma, fyrir gerðir sínar.  Það mun að vísu ekki bæta það tjón, sem þeir ollu, en makleg málagjöld verða þeir að fá, samkvæmt lögunum, sem þeir þverbrutu á allan þann hátt, sem hugmyndaflug þeirra náði til.

Axel Jóhann Axelsson, 14.3.2010 kl. 00:41

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta endar að sjálfsögðu með því að við verðum öll komin beint eða óbeint í vinnu hjá ríkinu. Þess vegna var það eitt af fyrstu verkum nýrrar vinstristjórnar að hækka nánast alla skatta, svo við getum nú borgað sjálfum okkur laun eins og góðu alþýðufólki sæmir. Ég fer bráðum að gefast upp á þessari hringavitleysu, sýna kerfinu puttann og halda út í sveit að stunda sjálfsþurftabúskap. Þar til ég drepst eða Skattgrímur finnur leið til að taka það af mér líka, hvort sem gerist á undan.

Svo er það aumasta af öllu að Árni Pál Háll sem Áll virðist ætla að knésetja fjármögnunarfyrirtækin, en bara næstum því, og gera ríkið skaðabótaskylt fyrir vikið. Þannig mun tjóninu af skipulagðri glæpastarfsemi fjármálafyrirtækja verða velt yfir á almenning í annað sinn. En myntkörfulántakarnir væru þeir einu sem kæmu út í plús því þeir fengju á móti niðurfellingu umfram sinn hlut í kostnaðinum eftir að búið er að þynna hann út á alla skattgreiðendur. Þá væri nú skárra að setja bara skilanefndir á þessi fyrirtæki strax og viðurkenna glæpinn þannig að hægt sé að afskrifa allt draslið. Eða afhverju ætti annað fólk að greiða myntkörfulánið mitt, heldur að þær verði afskrifaðar sem tapaðar kröfur við slitameðferð þessara fyrirtækja, sem eru gjaldþrota nú þegar hvort sem er og restin bara formsatriði.

Það er eina lausnin og um leið ódýrasta lausnin. Hún kostar ekkert nema skipun frá FME, strokleður, pappírstætara, og kannski öflugan segul á hörðu diskana líka. Þetta er eina leiðin til þess að um heilt grói og við getum byrjað að gleyma þessu ömurlega tímabili í sögu íslenskrar siðferðisvitundar. Við erlenda lánadrottna er ekkert hægt að segja nema: afsakið en allan ágóða af glæpastarfsemi er skylt að gera upptækan, sem við munum nota til að greiða íslenskum almenningi réttmætar skaðabætur, ykkur er hinsvegar velkomið að koma og leggja fram kærur á hendur hinum seku.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.3.2010 kl. 02:04

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er alveg bráð nauðsynlegt að stofna embætti "umboðsmanns skuldara". Hann þarf að sjálfsögðu skrifstofu og tilheyrandi búnað í hana, símastúlku, ritara, aðstoðarmann og ritara fyrir hann. Þarna er búið að búa til fimm störf fyrir einhverja "góð krata". Svo má alveg bæta við fleiri aðstoðarmönnum, þá geta fleiri kratar fengið vinnu. Ekki má gleyma bíl og bílstjóra, þessi bráðnauðsynlegi starfsmaður  þarf að sjálsögðu að komast á milli staða.

Þá á maður bara eftir að ganga í samfylkinguna og bíða eftir góðu starfi!

Gunnar Heiðarsson, 14.3.2010 kl. 09:39

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gunnar, það er alveg rétt að þetta er afar atvinnuskapandi og kemur til viðbótar fjölgun fólks á listamannalaunum.  Það var eina átak ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, fram að þessu, en nú verður bætt úr, svo um munar, því þú gleymir ræstingafólkinu, svo þetta verður atvinnuátak sem nær til allrar flóru starfa á vinnumarkaði.

Axel Jóhann Axelsson, 14.3.2010 kl. 09:59

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég vil nú einmitt meina, að það geti verið skynsöm fjárfesting að henda smá pening í að standa vörð um heimilin. Þó það nú væri, búið henda peningum í að verja flest annað, með misjöfnum árangri þó. Heimilin eru undirstaðan og ef við missum þau missum við allt annað líka.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.3.2010 kl. 15:23

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Algerlega sammála þér Guðmundur, en það er alger sóun að fjölga opinberum stofnunum á þessum síðustu og verstu tímum.  Á það var bent í upphaflegu færslunni, að embætti Umboðsmanns neytenda væri þegar fyrir hendi og skortir vafalaust verkefni.  Lánamál einstaklinga heyra þar að auki vel undir það embætti.  Þar er þegar fyrir hendi skrifstofuaðstaða og starfsfólk og jafnvel þó þyrfti að fjölga þar um einn, væri það bara brot af þeim kostnaði, sem myndi fylgja algerlega nýrri stofnun.  Nóg er nú samt bruðlið hjá hinu opinbera.

Axel Jóhann Axelsson, 14.3.2010 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband