Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Nú er ekki tími kröfugerða og verkfalla

Flugvikjaverkfall er í þann mund að skella á, með öllu því tapi sem því fylgir, að ekki sé minnst á röskun á áætlunum allra þeirra þúsunda sem þurfa að komast landa á milli, hvort heldur sem er vegna einkaerinda eða vegna vinnu.

Sautjánþúsund manns er nú án atvinnu í landinu og fer sífellt fjölgandi og flestir þeirra, sem ennþá hafa vinnu, hafa orðið að sæta styttingu á vinnutíma og beinum launalækkunum.  Allt þetta fólk fylgist með nokkrum hálaunastéttum, sem eru í aðstöðu til að stórskaða þjóðfélagið, og fordæmir þessar óforskömmuðu kröfugerð um stórhækkun hárra launa, á þessum erfiðleikatímum.

Allir hafa þurft að takast á við mikla erfiðleika með skertar tekjur og því er algerlega taktlaust af þeim, sem há laun hafa, að stöðva mikilvægar atvinnugreinar núna, enda er enginn stuðningur við þessar aðgerðir, heldur þvert á móti.

Skilningur er hinsvegar á því, að ýmsar stéttir þyrftu á launaleiðréttingum að halda, t.d. lögreglumenn, en flugumfeðarstjórar og flugvirkjar eru ekki í þeim hópum sem samúðar njóta. 

Gera verður þá kröfu til þessara aðila, að þeir afturkalli öll verkföll og snúi aftur til starfa sinna og taki á sig sömu skerðingar og aðrir hafa þurft að þola.


mbl.is Verkfall hefst í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska Norðmanna

Fulltrúar Kristilega þjóðarflokksins í fjárlaganefnd norska stórþingsins hafa fengið samþykkta tillögu um að Norðmenn veiti Íslandi lán í tengslum við efnahagsáætlun Íslands og AGS, óháð því að niðurstaða verði fengin í Icesavemálið.

Þetta væri svo sem ágætt, ef þetta væri ekki hrein sýndarmennska, því fram kemur í fréttinni að:  "Fulltrúar allra flokka í nefndinni nema Kristilega þjóðarflokksins, setja það skilyrði fyrir lánveitingunni, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykki endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland og að landið standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum."

Ekki verður annað séð, en þetta sé nánast sama tillaga og áður var búið að samþykkja á norska þinginu og þar að auki ætla Norðmenn ekkert að lána, nema í samfloti með hinum norðurlöndunum, sem aftur setja það skilyrði, að gengið verði að kröfum fjárkúgaranna vegna Icesave.

Þar að auki mun AGS ekki taka fyrir endurskoðun efnahagssamningsins fyrr en lánin verða afgreidd frá norðurlöndunum, þannig að málið er í nákvæmlega sömu sjálfheldunni og áður.  Þannig benda norðurlöndin á AGS og AGS bendir á norðurlöndin og Bretar og Hollendingar bíða sallarólegir á hliðarlínunni á meðan þeir halda að með þessu móti verði hægt að pína Íslendinga til að samþykkja þrælasamninginn.

Við Norðmenn er hægt að segja:  Takk fyrir ekkert.


mbl.is Vilja lána óháð Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónusfjölskyldan gat skrapað saman fyrir skiptakostnaði

Baugur Group, sem var flaggskip Bónusfjölskyldunnar á meðan hægt var að fá hundruð milljarða króna lán út á ekki neitt, átti ótal eignarlaus undirfélög sem hægt var að nota til að dreifa skuldum á milli, svo ekki sæist á einum stað, hvílíkum skuldum þetta veldi var búið að raka að sér og erfiðara yrði fyrir utanaðkomandi að átta sig á heildarmyndinni.

Eftir að bankarnir hrundu hefur komið í ljós, að Bónusliðið skuldaði þeim hundruð milljarða króna, hverjum fyrir sig, í nafni ótal félaga og ennfremur voru miklar skuldir að auki við erlendar lánastofnanir.  Veð fyrir öllum þessum lánum voru helst hlutabréf í félögunum sjálfum og öðrum félögum keðjunnar, enda mun tapið af þessu rugli öllu saman enda í mörg hundruð milljörðum króna, án þess að það virðist koma Bónusfólkinu nokkurn skapaðan hlut við.

Öll félög sem voru innan Baugs Group eru nú gjaldþrota, nema Hagar hf., en því félagi tókst að skjóta undan gjaldþrotinu með aðstoð Kaupþings og nú ætlar Arion banki að gefa þessum "bestu rekstrarmönnum landsins" forkaupsrétt að 15% félagsins, enda eru þeir "traustsins verðir".

Sem betur fer fyrir Bónusfjölskylduna, þá verður ekki hægt að skattleggja niðurfellingu allra þessara hundraða milljarða króna, enda hvergi í ábyrgð fyrir einu eða neinu.


mbl.is Eignalaust félag en skuldar 47 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattur í stað skuldar

Ríkisstjórnin er nú að leggja fram sína endanlegu útfærslu af skjaldborg fyrir heimilin vegna skuldavandans og þegar betur er að gáð, er þetta einungis enn ein leið til að afla tekna í galtóman ríkissjóðinn.

Þær niðurfellingar, sem stórskuldarar hafa veriðr að kalla eftir, eiga að mynda stóran og gjöfulan tekjuskattsstofn fyrir ríkissjóð, en ekki verður með nokkru móti séð, að betra sé fyrir skuldarann að láta fella niður hluta af fjörutíu ára langri skuld, eingöngu til þess að greiða himinháan skatt strax.

Ef tekið væri dæmi af fjölskyldu, sem fengi tuttugu milljóna króna niðurfellingu af húsnæðisskuld, þá þyrfti hún væntanlega að greiða 4.6 milljónir í skatt, sem dreifðist á þrjú ár, en það þýðir greiðslu upp á 128.000 krónur á mánuði í þessi þrjú ár.

Hæpið er að sjá, hvernig fjölskylda sem ekki getur greitt af skuldum sínum, á að geta greitt háar skattakröfur í staðinn, en innheimta á skattskuldum hefur ekki fram að þessu verið mildari en innheimtuaðferðir lánastofnana.

Skjaldborg heimilanna er orðin að tekjuuppsprettu fyrir ríkissjóð. 

Stórskuldugir fylgismenn ríkisstjórnarinnar hljóta að taka þessu neyðarskýli fagnandi.


mbl.is Afskriftir verða skattlagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverska efnahagsaðstoð í stað AGS

Williams Underhill, pistlahöfundur hjá Newsweek, telur að Kínverjar hafi mikinn áhuga á ýmsum fjárfestingum á Íslandi og bendir hann á fyrirhugað risasendiráð þeirra í Reykjavík til vitnis um það.  Á það hefur verið bent á þessu bloggi, að Kínverjar hugsa og skipuleggja allt sem þeir gera áratugi fram í tímann, en hugsa ekki eingöngu um morgundaginn og einmitt var bent á kaup þeirra á þessu stóra húsi, sem þeir ætla að flytja sendiráð sitt í, en það verður langstærsta erlenda sendiráðið á landinu og getur hýst bæði stóra deild leyniþjónusunnar og njósnara hersins ásamt sendiherranum og venjulegu starfsliði hans.

Kínverjar veita fjölda vanþróaðra þjóða efnahagsaðstoð og gera það auðvitað með hagsmuni beggja aðila í huga, ekki síst sinna eigin, enda verður Kína mesta efnahags-, her- og stórveldi veraldar innan fárra áratuga.

Íslendingar ættu að draga umsóknina um ESB til baka, hafna frekara samstarfi við AGS og óska eftir efnahagsaðstoð frá Kínverjum til endurreisnar efnahagslífsins hér á landi, en sú upphæð sem til þarf, er eins og hverjir aðrir vasapeningar fyrir Kínverja.

Um leið yrði gerður viðskiptasamningur við Kína, ásamt samningum um að þeir kæmu að allri þeirri atvinnuuppbyggingu hérlendis, sem þeir hefðu áhuga á og mögulegt væri að hafa samstarf við þá um.  Jafnfram ætti að taka kínversku upp sem skyldufag í grunnskólum landsins og hætta t.d. kennslu í dönsku í staðinn.

Þegar góð efnahagssamvinna verður komin á, á milli landanna mætti hug að því að taka upp nýjan gjaldmiðil hérlendis, eins og margir kalla eftir, og væri þá nærtækast að taka upp kínverskt juan, enda verður það ráðandi gjaldmiðill í heimsviðskiptunum áður en þessi öld verður hálfnuð.

Með þessum aðgerðum væri hægt að sýna þeim sem nú reyna að kúga þjóðina til undirgefni, að vel væri hægt að komast af í veröldinni, án þeirra afskipta eða aðkomu.


mbl.is Kínverjar með augastað á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónusgrísinn í útrás

Jón Ásgeir í Bónus er hvergi af baki dottinn í stórveldisdraumum sínum og nú á að fara með Bónusgrísinn í útrás og að þessu sinni á að byrja smátt, eða eingöngu með þrjár búðir í þeirri verslanasveltu borg London.

Fyrir nokkrum árum, þó nógu mörgum til að enginn man það lengur, fór Bónusgrísinn í útrás til Bandaríkjanna og þá var byrjað með margar verslanir undir nafninu Bonus Store og er ekki að orðlengja það, að það ævintýri allt saman varð gjaldþrota, eins og átti síðan eftir að liggja fyrir öllum þeim fyrirtækjum sem Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus hafa komið nálægt síðan.

Á sínum tíma sögðu þeir feðgar að Bonus Store ævintýrið hefði verið dýr, en góður skóli, sem margt hefði verið hægt að læra af.  Gallinn er bara sá, að þeir feðgar virðast hafa fallið á öllum prófunum, a.m.k. hefur þeim ekki tekist að reka neitt fyrirtæki til langframa og aldrei greitt eina einustu krónu til baka af þeim hundruðum milljarða, sem þeir hafa tekið að láni til að fjármagna framhaldsnám sitt.

Það gengur bara betur næst, verða þau hvatningarorð sem Jóni Ásgeiri í íslenska og enska Bónus verða send í tilefni af þessari nýjustu námsferð hans og vonandi verður hún ekki jafn dýrkeypt fyrir lánadrottnana, eins og þær fyrri.


mbl.is Nýtt Bónusævintýri Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessar tillögur þarfnast nánari skýringa

Ríkisstjórnin er að kynna nýjar tillögur til aðstoðar við skuldug heimili og samkvæmt fyrstu frétt af þessum blaðamannafundi, þarfnast ýmislegt nánari skýringa, því sumar tillögurnar virka hálf einkennilega á mann við fyrstu sýn.

Í fyrsta lagi er sú arfavitlausa hugmynd að stofna nýtt embætti Umboðsmanns skuldara, þerar fyrir hendi er illa nýtt embætti Talsmanns neytenda, en undir það embætti ættu þessi lánamál að heyra, enda eru þau neytendamál.

Eftirtaldar tillögur virka einkennilegar, en þær eru:

hóflegar skuldbreytingar skattfrjálsar

stórfelldar niðurfellingar skattlagðar

dregið úr vægi verðtryggingar.

Eftir er að fá skýringar á því, hvað séu hóflegar og hvað stórfelldar niðurfellingar.  Ekki virkar það vel á mann, að fólk, sem ekki ræður við að borga skuldir sínar, sé í stakk búið til að bæta í staðinn á sig "stórfelldri" skattaskuld.

Varðandi að leggja til að dregið verði úr vægi verðtryggingarinnar, hefði verið viturlegra til lengri tíma, að ríkisstjórnin legði til við sjálfa sig, að leggja áherslu á að draga úr verðbólgunni, enda er hún vandamálið, en ekki verðtryggingin.

Ekki eru komnar viðbótarfréttir af hringsnúningstillögu Árna Páls vegna Hummera og Range Rovera, en væntanlega skýrist þetta allt betur síðar.

Miðað við fyrri "afrek" þessarar ríkisstjórnar er ekki vert fyrir fólk að gera sér miklar væntingar.


mbl.is Dregið úr vægi verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnakennd rök Peningastefnunefndar

Peningastefnunefnd Seðlabankans réttlætir þá ákvörðun, að halda vöxtum í landinu áfram háum, m.a. með því, að ekki sé nógu greiður aðgangur að ódýru erlendu lánsfé.  Á meðan erlendum lánum var ausið inn í landið, var röksemdin fyrir háum stýrivöxtum, að verið væri að reyna hemja eftirspurnina eftir lánsfénu, en auðvitað hafði það ekki áhrif, einmitt vegna þessa greiða flæðis erlends fjármagns inn í hagkerfið.

Nú segja spekingar Seðlabankans að vextir verði að vera háir, vegna þess að ekki fáist erlend lán, eða eins og segir í yfirlýsingu nefndarinnar:  "Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi mun töfin ekki hafa umtalsverð skammtímaáhrif á gengi krónunnar. Hins vegar væri áhættusamt að afnema gjaldeyrishöftin eða lækka vexti í stórum skrefum á meðan lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum fást ekki, eða aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum er ekki greiður."

Þetta hljómar eins og öfugmæli miðað við fyrri rökfærslur Seðlabankaspekinganna.  Svo heldur yfirlýsing nefndin áfram, með öfugmæavísurnar, þegar hún segir:  "Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. Svigrúm peningastefnunefndarinnar til vaxtalækkunar verður þó takmarkað meðan veruleg óvissa ríkir um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum."

Þetta eru vægast sagt þokukennd rök, því einmitt á meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði og enginn kemst úr landi með peninga, hefði maður haldið að kjöraðstæður væru til að lækka vexti niður úr öllu valdi, til að reyna að koma þeim peningum, sem liggja aðgerðarlausir í bönkunum til vinnu úti í atvinnulífinu og reyna þannig að koma hjólunum til að snúast á ný.

Einnig væri það gjaldeyrissparandi, þar sem krónubréfabraskararnir fengju lægri vexti af bréfum sínum, en á vaxtagjalddögum hafa þeir heimild til að skipta vaxtatekjunum í erlendan gjaldeyri og flytja hann úr landi.


Háleynileg skýrsluprentun

Prentun á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis fer einungis fram um helgar, til þess að almennt starfsfólk prentsmiðjunnar geti ekki með nokkru móti rekið augun í eitt einast orð, hvað þá lagt á minnið, sem í skýrslunni stendur.  Um helgarnar er lágmarksfjöldi starfsmanna viðstaddur og hver hreyfing vöktuð af Securitas og prentarkirnar læstar inni í gámi jafnóðum og þær renna út úr prentvélunum.

Þetta eru allt að því eins miklar öryggisráðstafanir og viðhafðar eru við seðlaprentun og illskiljanlegt, að draga útkomu skýrslunnar fram yfir páska, einungis vegna þessa vantrausts á prentsmiðjustarfsfólkinu.  Vel ætti að vera framkvæmanlega að prenta skýrsluna, undir ströngu eftirliti á venjulegum vinnudögum, enda lítil hætta á að hægt sé að lesa hana til nokkurs gagns, rétt á meðan að á prentuninni stendur.

Þar fyrir utan verður ekki séð, að það skipti máli þó eitthvað síaðist út um innihaldið einum til tveim dögum áður en hún birtist í heild, því þarna eru á ferðinni upplýsingar, sem allan almenning varðar og búið er að bíða eftir frá því í nóvember.

Það hlýtur að vera hægt að hætta þessu pukri og koma skýrslunni út á næstu dögum.


mbl.is Skýrslan tefst enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ríkisstjórnin að undirbúa Alþingiskosningar?

Undarlega skjót umskipti hafa orðið í málflutningi stjórnarliða varðandi afskriftir skulda til þess hluta almennings, sem tók há erlend lán í "lánærinu", sem nú eru orðin illviðráðanleg og urðu það strax við gengisfallið á hruntímabilinu á seinni hluta ársins 2008.

Þá strax lagði Framsóknarflokkurinn til 20% flata skuldalækkun til allra og Tryggvi Þór Herbertsson viðraði svipaðar tillögur og Lilja Mósesdóttir lagði til skuldaniðurfellingu með fastri krónutölu, til þess að þeir sem óvarlegast fóru í lántökum og tóku hæstu lánin og væru tekjuháir, fengju sömu krónutölu í niðurfellingu og þeir tekjulágu.

Þingmenn Samfylkingar og VG töldu þessar tillögur algerlega óframkvæmanlegar og að þær væru einungis lýðskrum, sem ekki stæðist neina skoðun.  Nú allt í einu, hringsnúast þessir sömu þingmenn, í einu hendingskasti, eins og góðglaður þingmaður orðaði það, og keppast um að krefjast niðurfellinga á skuldum einstaklinga og þá eingöngu þeirra sem keyptu bíla á erlendum lánum og því meiri niðurfellingu, sem meira var bruðlað í bílakaupunum og algerlega óháð tekjum viðkomandi skuldara.

Fremstur í flokki þeirra, sem hringdansinn stíga nú, er Árni Páll Árnason, sem alls ekki hefur mátt heyra minnst á svona hugmyndir fram að þessu, en er nú allt í einu orðinn harðasti talsmaður bílalánaafskriftanna.  Sumir halda að þessi harði tónn Árna Páls núna, sé fyrirboði framboðs hans til formennsku í Samfylkingunni, en aðrir halda því fram, að hann óttist einfaldlega niðurstöður skoðanakannana, sem hafa sýnt hrun í fylgi Samfylkingarinnar undanfarna mánuði.

Svo eru enn aðrir sem telja að stjórnin sé komin að fótum fram og segi af sér fljótlega.

það er ekki verri skýring, en hver önnur, á þessum almennu sinnaskiptum stjórnarliða.


mbl.is Bankarnir hafa svigrúm til afskrifta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband