Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Ekki vel rökstutt álit Talsmanns neytenda

Talsmaður neytenda segir hæpið að niðurfellig hluta af höfðustól skulda sé skattskyldur, þrátt fyrir að í 7. gr. tekjuskattslaga segi að skattleggja skuli „sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna sem eigi eru sérstaklega undanskildar í lögum þessum eða sérlögum.“  Skattayfirvöld hafa hingað til verið afar hörð á því að skattleggja allt, sem hægt er að skattleggja og dálítið er hæpið að halda því fram að niðurfelling skulda myndi ekki aukna eign hjá þeim, sem slíkrar fyrirgreiðslu nytu.

Talsmaðurinn rökstyður mál sitt, að því er virðist, aðallega með því að við niðurfellingu skulda sé ekki um að ræða "ívilnun eða „eignaauka - heldur staðfestingu á rétti neytenda"Þessi "réttur neytenda" hefur hvergi verið staðfestur, eða viðurkenndur í lögum og því vafasamt af talsmanninum, að vekja falskar vonir hjá umbjóðendum sínum, án frekari rökstuðnings.

Fjölmargir bíða og hafa beðið lengi eftir því að vera skornir niður úr skuldasnörunni, sem þeir smeygðu um háls sér á tímum "lánærisins", ekki síst þeir sem voru svo óforsjálir að taka há lán í erlendum gjaldmiðlum, sem hækkuðu mikið í lok "gróðærisins".

Þangað til Talsmaður neytenda bendir á traustari rök fyrir máli sínu, verður að hafa mikla fyrirvara á þessu útspili hans.


mbl.is Niðurfærsla skulda ekki skattskyld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt betra en kyrrstaðan

Framsóknarflokkurinn boðar nýjar hugmyndir að þjóðarsátt til að koma brýnustu verkefnum þjóðarbúsins úr þeirri kyrrstöðu og doða sem ríkisstjórnin hefur haldið þjóðfélaginu í, undanfarið ár.

Allar tillögur til að koma hreyfingu á staðnað efnahagslífið eru vel þegnar, en ólíklegt verður að telja að Vinstri grænir fallist á nokkrar hugmyndir sem leitt gætu til aukinnar atvinnusköpunar og minnkunar atvinnuleysis, miðað við þá geysihörðu andstöðu sem flokkurinn hefur rekið gegn hvers konar tilraunum og jafnvel hugmyndum að nýjum atvinnutækifærum.

Fróðlegt verður að sjá tillögur Framsóknarflokksins og vafalaust munu þar leynast ýmis nýtileg ráð, en eins og áður sagði, þá hefur allt slíkt verið barið niður með harðri hendi af VG og sennilega til of mikils ætlast, að sá flokkur fari að vinna að úrlausn brýnustu hagsmunamála.

Á þeim bæ eru hugsjónir sósíalismans metnar hærra en þjóðarhagur.


mbl.is Framsókn boðar þjóðarsátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ESB ekki annað en Stór-Þýskaland?

ESB hefur verið lýst sem bræðralagi þjóða, sem vinni saman að settum markmiðum í sátt og samlyndi og þar séu allir jafnir og mál leyst í samvinnu og sátt milli allra bræðralagsþjóðanna.  Fram til þessa hafa þó stóru ríkin, Þýskaland, Frakkland, Bretland, Spánn og Ítalía verið jafnari en önnur aðildarríki og þau smærri sætt sig við það, vegna molanna sem hrotið hafa af borðum hinna jafnari.

Nú er hinsvegar að koma berlega í ljós að Þýskaland er orðið jafnast af öllum ríkjum ESB og hin þora ekki annað en sitja og standa eins og Kanslari Þýskalands segir þeim.  Þetta kemst upp á yfirborðið núna, þegar Grikkir eru búnir að sigla öllu í strand heima fyrir og evrusambandið þar með komið í mikla hættu, en eins og allir vita er evran arftaki þýska marksins, sem önnur ESB ríki hafa náðasamlegast fengið aðgang að, með ströngum skilyrðum. 

Evrusamstarfið er að bresta, vegna efnahagserfiðleika Grikkja og þá er það Kanslari ESB, afsakið Þýskalands, sem tekur af skarið og leggur línurnar, án nokkurs samráðs við sýslur og hreppa, sem undir embættið heyra.  Þetta kemur vel í ljós í fréttinni, en þar segir:  "Samkvæmt breska blaðinu Financial Times setja stjórnvöld í Berlín það skilyrði fyrir efnahagsaðstoð Evrópusambandsins að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði kallaður til og settar verði harðari kröfur á evrusvæðinu um efnahagsstjórn aðildarríkja."

Þjóðverjar eru að verða ófeimnari við að sýna hver raunverulega stjórnar ESB, enda er klikkt út í féttinni með þessum orðum:  "Ljóst má vera að erfitt verður fyrir önnur ríki að andmæla skilyrðum þýskra stjórnvalda fyrir efnahagsaðstoðinni vegna þess að þau myndu bera hitann og þungann af allri efnahagsaðstoð ESB handa Grikkjum."

Þjóðverjar töpuðu seinni heimstyrjöldinni, en hafa nú unnið friðinn.


mbl.is Þrjú skilyrði Þjóðverja fyrir neyðaraðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er greiði gerður með því að taka tilboði upp á 57% af kostnaðaráætlun?

Við opnun tilboða í þau örfáu og tiltölulega smáu verkefni, sem boðin hafa verið út undanfarið, hafa lægstu tilboð verið ótrúlega lág, raunar svo lág, að lægstbjóðanda getur ekki verið greiði gerður með því að taka tilboði hans.

Tilboðsupphæðir hafa farið alveg niður í 45% af kostnaðaráætlun verks og nú var verið að opna tilboð í stækkun Mjólkárvirkjunar og þar reyndist lægsta tilboð vera 57% af áætlun verkkaupa, eða  70.383.000 en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 122.598.807.

Nánast algild regla er að taka lægsta tilboði í öllum útboðum, enda hefur það gerst æ ofan í æ, að verktakar ráða ekkert við að ljúka verkum á svona lágum verðum og endar sagan oftar en ekki með gjaldþroti verktakans og þar með auknum kostnaði verkkaupa, þegar hann þarf að ráða nýjan aðila til að ljúka verkinu.

Tiltölulega litlum verktökum er enginn greiði gerður með því að taka tilboði sem er á bilinu 45-90% af kostnaðaráætlun verkkaupa, því afar litlar líkur eru til þess, að hægt sé að ljúka verkinu án mikils taps, sem smáir verktakar geta alls ekki tekið á sig.

Reglum um útboð verður að breyta, þannig að ekki sé sjálfgefið að lægsta og venjulega óraunhæfasta tilboði sé alltaf tekið í útboðin verk.  Slíkt hefur stórskaðað verktakamarkaðinn og reyndar furðulegt að nokkrum detti í hug að drepa fyrirtæki sitt með svona rugltilboðum.

Útboðsreglum verður að breyta, til að koma í veg fyrir að svona óraunhæfum tilboðum sé tekið.


mbl.is Buðu 57% af áætlun í Mjólká
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofstjórn og bannárátta Alþingismanna

Alþingi hefur samþykkt lög, sem banna nektarsýningar og kemur það í beinu framhaldi af því að banna kaup á vændi, þó sala þess sé lögleg,  enda eru þessi bönn hugsuð til að útrýma vændi úr landinu, en það hefur viðgengist hér, sem annarsstaðar, lengur en allra elstu menn muna.  Enginn hefur þó getað sýnt fram á að vændi sé stundað á þessum fáu súlustöðum landsins og hvað þá mansal, sem vitsmunabrekkurnar á Alþingi segja að sé fastur fylgifiskur nakinna kvenna.

Fram að þessu hafa kvennahreyfingar barist hart fyrir því, að konur eigi að ráða líkama sínum sjálfar og þar með að ákveða t.d. hvort þær fari í fóstureyðingu, þegar það hentar, en þegar kemur að því að sýna líamann, þá virðast gilda allt önnur viðhorf og þá þykir sjálfsagt að taka sjálfsákvörðunarréttinn af konunum.

Auðvitað á að berjast hart gegn mansali og öllu sem því fylgir, en hvort konur stundi kynlíf ókeypis, eða gegn greiðslu, eiga þær að fá að ákveða sjálfar, að ekki sé nú minnst á að sveifla sér allsberar í kringum járnstöng, ef einhver hefur áhuga á að horfa á það.  Konurnar eiga að fá að ráða líkama sínum sjálfar á öllum sviðum, ekki bara til að ákveða hvort þær láti fjarlæja úr honum fóstur.

Ofstjórninni og bannáráttunni vex sífellt fiskur um hrygg og nú er komin fram hugmynd í ríkisstjórn um að banna unglingum innan átján ára aðgang að ljósastofum, eins og þESSI frétt sýnir, en þá hugmynd á engin önnur en Álfheiður Ingadóttir og á því þarf enginn að vera hissa.  Líklega verður þetta bann til þess, að ljósabekkir verði vinsælasta fermingargjöfin á næstu árum, nema þeir verði bannaðir í heimahúsum, því opinbert eftirlit þarf jú að hafa með líkömum fólks.

Hvað ætlar þetta bannáráttufólk að láta sér detta í hug næst.


mbl.is Alþingi bannar nektardans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hroki og yfirlæti eru aðalsmerki Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir hefur tamið sér stjórnunarstíl, sem er hennar aðalsmerki og nánast óbrigðult, en það eru hortugheitin, en hún virðist ekki geta svarað fyrir nokkurt mál, án þess að þessi einkenni hennar komi berlega í ljós.

Á blaðamannafundinum í dag, sagði hún að útgerðarmenn skyldu vita, að hún stjórnaði ekki landinu eftir þeirra hugmyndum  og þeir skyldu sko vita, að engin sátt væri um núverandi fistkveiðistjórnunarkerfi, svo betra væri fyrir þá að halda sér á mottunni.  Þetta sagði hún í tilefni af því, að Alþingi samþykkti svonefnt Skötuselsfrumvarp, sem þó var búið að lofa Samtökum atvinnulífsins að fjallað yrði um það í nefndinni sem nú vinnur að því að reyna að ná sáttum um breytingar á kerfinu.

SA voru búin að lýsa því yfir fyrirfram, að yrði Skötuselsfrumvarpið samþykkt án umfjöllunar nefndarinnar, litu samtökin svo á, að með því væri ríkisstjórnin í raun að segja upp Stöðugleikasáttmálanum, sem hún hefur reyndar aldrei staðið við af sinni hálfu.  Vegna aðalsmerkis síns, hrokans, kýldi Jóhanna frumvarpið í gegnum þingið og þykist svo vera afar undrandi á viðbrögðum SA við svikum ríkisstjórnarinnar í þessu máli, sem öðrum.

Eftir samþykkt frumvarpsins ætla Jóhanna og Steingrímur J. að funda með forystu SA og segjast ætla að fá skýringar á þessum viðbrögðum samtakanna, sem komi þeim algerlega á óvart og þau skilji ekkert í.

Hrokinn og yrfilætið eru söm við sig hjá þessum ráðherrum, enda það eina sem einkennir þá, fyrir utan þreytuna, sem hrjáir þá vegna getuleysisins við að koma fram nokkrum aðgerðum, sem máli skipta fyrir endurreisn efnahagslífsins.


mbl.is Ætla að hitta forustu SA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rætast hryllingsspárnar ekki?

Í heilt ár hafa Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. verið bæði þreytt og slæpt við að útskýra fyrir þjóðinni hvílíkur hryllingur biði hennar, ef nokkur einasti dráttur yrði á því að Íslendingar samþykktu að gerast skattaþrælar Breta og Hollendinga næstu áratugina. 

Helsta ástæðan fyrir þessum hryllingsspám var, að enginn myndi vilja veita ríkissjóði lán og ekkert yrði því hægt að gera, hvorki til aðstoðar heimilunum í landinu og hvað þá að atvinnulífið kæmist nokkurn tíma í gang aftur.  Þau skötuhjúin haf ekki dregið af sér við að útmála hvað þessi dráttur á erlendum lántökum sé búinn að kosta þjóðarbúið marga tugi milljarða króna, miklu meira en það myndi kosta að gangastu undir fjárkúgiunina.

Þessi áróður hljómaði daglega, allt fram að 6. mars s.l., en eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir, hefur ekki verið minnst á þetta aftur og nú er meira að segja farið að tala um að erlendar lántökur séu ekkert forgangsmál og geti vel beðið fram undir árslok 2011.

Nú heyrast engar heimsendaspár frá skötuhjúunum, þó ekkert sé fundað um Icesave, enda sé ekkert sem pressi á niðurstöðu í því máli, frekar en öðrum, sem ríkisstjórnin ætti að vera að leysa.

Hver mun nokkurn tíma trúa þessum hryllingsspámönnum framar?


mbl.is Hugsanlega hagstæðara að fresta lántökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afþökkum þessa falsaðstoð strax

Claus Hjort Frederiksen, fjármálaráðherra Danmerkur, er sami ósannindamaðurinn og aðrir norrænir ráðherrar, sem hafa tjáð sig um upplogna aðstoð norðurlandanna, vegna viðreisnar efnahags Íslands, eftir hrunið.

Á heimasíðu Norðurlandaráðs lætur þessi lygamörður hafa eftir sér:  "Norrænu grannríkin og sjálfstjórnarsvæðin styðja ríkisstjórn Íslands í starfi hennar við að rétta efnahag landsins við, m.a. með innleiðingu áætlunar AGS og því að standa við alþjóðlegar skuldbindingar landsins."

Norrænu ríkin hafa ekki gert neitt, annað en tefja endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS, með því að neita að afgreiða lánsloforð sín til landsins, fyrr en Íslendingar hafi látið fjárkúgun Breta og Hollendinga vegna skulda einkafyrirtækis, sem kemur íslendingum skattgreiðendum minna en ekkert við.

Íslenska þjóðin getur ekki látið bjóða sér svona fals og lygi lengur og ríkisstjórnin verður tafarlaust að hafna öllu frekara "samstarfi" við þessa ómerkinga á norðurlöndunum og krefjast endurskoðunar efnahagsáætlunarinnar á nýjum forsendum og fáist það ekki samþykkt af AGS, verði frekari aðstoð sjóðsins afþökkuð jafnframt.

Íslendingar hafa áður glímt við kreppur og komist út úr þeim hjálparlaust.

Það verður einnig hægt núna, án þess að þurfa að hlusta á háð og spott af hendi ráðherra norðurlandanna endalaust.

Nú er nóg komið af svo góðu.

 


mbl.is Styðja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslan eilífa

Þó skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis verði umræðu- og rifrildisefni þjóðarinnar og alls kyns sérfræðinga til eilífðar, er biðin eftir henni orðin eins og heil eilífð fyrir þá, sem spenntir bíða eftir að upplýsingar úr skýrslunni verði gerðar opinberar.

Nú hefur loksins verið gefinn upp ákveðinn útgáfudagu, en hann verður ekki fyrr en 12. apríl, þannig að þjóðin verður að láta sér nægja að smjatta á páskaeggjum þangað til.  Þessi sífelldi dráttur á útgáfu skýrslunnar er orðinn þreytandi, enda byggist upp spenna í þjóðfélaginu og væntingar um niðurstöður skýrslunnar verða sífellt meira umræðuefni manna á meðal og alls kyns kjaftasögur farnar að ganga um hver niðurstaðan sé.

Þó skýrslan eigi ekki að fella dóma yfir einstaklingum, á nefndin að vísa öllum málum, þar sem grunur leikur á um saknæmt athæfi til Sérstaks saksóknara og ennþá hefur ekkert verið gefið upp um hvort og í hve miklum mæli, nefndin hefur vísað málum þangað.

Óskiljanlegt er að ekki skuli vera hægt að birta skýrsluna á netinu, þó prentaða útgáfan verði ekki tilbúin fyrr en síðar, svo fræði- og fréttamenn ásamt þingmönnum gæfist kostur á að kynna sér hana og hafið umræður um hana og greiningar á niðurstöðum, því auðvitað eru allir orðnir dauðleiðir á þessum endalausu frestunum útkomu hennar.

Kannski skipta fáeinar vikur og mánuðir ekki svo miklu máli í eilífðinni, en fyrir þá sem bíða, er það nokkuð langur tími.


mbl.is Skýrslan kemur 12. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringrás lánveitinganna

Alltaf kemur betur og betur í ljós, hvernig bankarnir voru misnotaðir í þágu útrásarvíkinganna og hvernig svikamyllan var skiplögð með hringrás lána milli bankanna, sem svo dreifðu lánunum til sömu mannanna, svo heildarskuldir þeirra yrðu ekki sjáanlegar allar á einum stað.

Þetta var gert til þess að fela lánveitingar til einstakra aðila, sem voru langt umfram heimildir um lánveitingar til einstakra aðila, enda voru útrásarruglararnir stærstu eigendur bankanna, ásamt því að vera stærstu skuldar þeirra.  Allt leiddi þetta svo til hruns bankanna, sem aftur hefur leitt til þess að þessi lánastarfsemi þeirra er nú að koma æ betur fram í dagsljósið.

Þegar eigendur bankanna gátu ekki lengur lánað sjálfum sér ótakmarkaðaða fjármuni, hefur fyrirtækjanet þeirra verið að rakna í sundur og hvert þeirra um sig skilið eftir sig tuga og hundraða milljarða töp, sem með einu eða öðru móti bitna á lífskjörum almennings í landinu.

Á meðan á rannsóknum þessum stendur lifa skuldafurstarnir í vellystingum praktuglega og ekkert bendir til þess, að þessir glæframenn láti málin hafa áhrif á sig, eða lífsstíl sinn, heldur þvert á móti finnst þeim meira en sjálfsagt, að þeir fái fyrirtækin "sín" afhent aftur, eftir "skuldahreinsun", eins og afskriftir tapaðra skulda heitir þessa dagana.

Almenningur fylgist með af hliðarlínunni og er að verða ónæmur fyrir þessum daglegu glæpafréttum. 


mbl.is Fóru oft krókaleiðir í stórum lánveitingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband