Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Foræstisráðherra sem ræður ekki við sjálfa sig og hvað þá aðra

Það er alþekk að Jóhanna Sigurðardóttir kemst ótrúlega oft klaufalega að orði á opinberum vettvangi, enda forðast hún fjölmiðla eins og heitan eldinn, því samherjar hennar vita sem er, að því sjaldnar sem hún kermur fram opinberlega, því minni hætta á að hún verði sjálfri sér til skammar.

Hlutverk forsætisráðherra á einna helst að vera það, að halda ríkistjórn ólíkra flokka saman og vera sáttasemjari mismunandi sjónarmiða stjórnarflokkanna og ráðherranna og leiða fram sameiginlega niðurstöðu og a.m.k. láta líta svo út, að innan stjórnarinnar sé samheldni og samstaða um þau verkefni, sem á þjóðfélaginu brenna hverju sinni.

Þetta hefur Jöhönnu algerlega mistekist og mörg ummæli hennar frekar orðið til að kynda undir óánægju milli manna og flokka og nú síðast hefur hún tryllt Vinstri græna með þeim ummælum sínum að það sé eins og að smala köttum, að reyna að halda stjórnarsamstarfinu saman.  Þessi skoðun forsætisráherrans á samstarfsfélögum sínum hafa orðið til þess að Jón Bjarnason krefst þess, að þessi neyðarlega samlíking verði tekin til sérstakrar umræðu á þingflokksfundi VG á morgun.

Hvort þingmenn VG koma malandi, breimandi eða hvæsandi af þeim fundi verður fróðlegt að sjá og heyra, en ekki verður þetta að minnsta kosti til að róa æsinginn í kattahópnum.

Stjórnarandstaða er alveg óþörf, þegar ríkisstjórn er eins sundurlaus og ósamstíga og þessi, sem nú situr illi heilli að völdum í landinu.


mbl.is VG ræðir ummæli forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of mikið mál fyrir Árna Pál

Árni Páll, félagsmálaráðherra, hefur á undanförnum mánuðum annaðhvort boðað að ekkert sé hægt að gera varðandi skuldaniðurfellingar, eða hann hefur ruðst fram á völlinn með lausnir á öllum málum og þá boðað að málin verði "leyst" á allra næstu dögum, aðeins ætti eftir að "útfæra" lausnirnar nánar.

Aldrei hefur komið útfærsla á nokkrum boðuðum aðgerðum Árna Páls, en að hæfilegum tíma liðnum birtist hann á ný í fjölmiðlum með nýjar lausnir, sem aðeins eigi eftir að "útfæra" nánar.  Fyrir stuttu boðaði hann að erlend bílalán yrðu færð niður í 110% af matsverði bifreiðar og myndi hann leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi, þegar búið yrði að "útfæra" lausnina. 

Ekkert hefur gerst í þessum bílalánamálum fyrr en í dag, að Árni Páll birtist á ný í fjölmiðlum og boðar að erlend bílalán verði "færð nær raunverði bifreiða" og þeim breytt í  verðtryggð lán í íslenskum krónum með 15% okurvöxtum.  Verði fjármögnunarfyrirtækin með eitthvert múður vegna þessarar "útfærslu", þá muni hann bara flytja lagafrumvarp um málið innan skamms.

Svona hafa öll mál verið hjá þessum lán-, getu- og hugmyndalausa ráðherra og svo verður vafalaust áfram, næstu vikur og mánuði.

Frægt varð um árið þegar Jón Páll, kraftakarl, sagði þegar hann setti enn eitt metið í kraftakeppni:  "Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál."

Núna á betur við að segja:  "Þetta er alltof mikið mál fyrir Árna Pál".


mbl.is Rætt um að breyta erlendum bílalánum í innlend
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nýtt "plott" í gangi með AGS?

Fyrst eftir bankahrunið var spáð svo illa fyrir um gang mála á Íslandi, að hér myndi allt fara í rúst strax á árinu 2009 og ekki síðar en á árinu 2010, að engin leið yrði fyrir þjóðina að komast út úr hörmungunum, nema taka á sig viðbótarhörmungar vegna Icesave og í framhaldi af því gríðarlega mikil lán frá norðuröndunum og AGS til þess að nokkur von væri fyrir þjóðarbúið að greiða niður erlend lán þess. 

Allt var þetta svo ýkt og útblásið að nú þegar kemur í ljós að þessar hörmungar voru allar ofmetnar, þá túlkar ríkisstjórnin það svo, að hún hafi staðið sig svo vel í því, að koma í veg fyrir að spárnar rættust.  Það sem sannara er, að þær hafa ekki ræst, þrátt fyrir ríkisstjórnina, sem ekkert hefur gert annað en að tefja og stöðva alla þá atvinnuuppbyggingu sem í boði hefur verið og er ein skýring hennar á aðgerðarleysi sínu og skemmdarverkum, að atvinnuleysið sé ekki eins mikið og spáð var.

Nú er komið í ljós að erlenda lánsfjárþörfin er ekki nálægt því eins mikil og "spáð" var og því virðist þátttaka norðurlandanna í fjárkúgun Breta og Hollendinga vera að misheppnast og þá er ekki annað að sjá, en Steingrímur J., Gylfi og AGS séu að setja saman nýja áætlun, sem á að byggjast upp á því að önnur endurskoðun efnahagsáætlunarinnar fari fram í apríl og í tengslum við hana muni Norðmenn, einir þjóða, veita lán til Íslands, enda engin þörf á fleirum.

Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort á spýtunni hangir loforð Steingríms J. og félaga um að gera aðra tilraun til að undirgangast fjárkúgunina vegna Icesave í framhaldinu, í þeirri von að þjóðin verði farin að hugsa um annað, þegar þar að kemur, t.d. sveitarstjórnarkosningar.

Það eina sem er alveg víst er, að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.


mbl.is Þurfum ekki öll lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostlega árangursríkir fundir

Síðast liðið ár hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar átt marga "árangursríka" fundi úti um allar jarðir og rætt á þeim við alla helstu Íslandsvini veraldarinnar og alltaf komið fram í íslenskum fjölmiðlum eftir fundina og sagt að nú sé afar stutt í að þetta og hitt muni gerast vegna þessara "árangursríku" funda.

Á síðasta átti Össur, stórgrínari" fleiri en tuttugu fundi með utanríkisráðherrum Evrópu vegna Icesave og enduskoðunar efnahagsáætlunar Íslands og AGS og lýsti því yfir eftir hvern einasta fund að hann hefði verið mjög "árangusríkur" og stutt í að málin leystust.  Sama er að segja um fundi Steingríms J. með ráðherrum vítt og breitt og eins og hjá Össuri voru allir fundir "árangursríkir" og myndu skila sér í skjótum lausnum allra mála.

Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði bréf til kollega sinna í Bretlandi og Hollandi og bað um að fá með þeim "árangursríkan" fund, en hvorugur virti hana svars, en samt sem áður voru bréfaskriftirnar ekki síður "árangursríkar" en þó þeir hefðu svarað tilskrifunum.

Nú hefur Steingrímur J. átt "árangursríka" fundi við allar helstu toppfígúrur AGS og telur hann að niðurstaða fundanna verði sú, að AGS finni leið til að fara á svig við fyrri samþykktir sínar og gæti hugsanlega laumað afgreiðslu á endurskoðun efnahagsáætlunarinnar fram hjá sjálfum sér "innan nokkurra vikna", eins og Steingrímur sagði í sjónvarpsfréttunum.

Allt þetta veltir upp spurningu um, hvaða fundir teljist árangurslausir.


mbl.is Bjartsýnn eftir fund með Strauss-Kahn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harma óvandaða ríkisstjórn

Samfylkingin í Reykjanesbæ hefu sent frá sér harðorða ályktun vegna ráða- og dáðleysis ríkisstjórnarinnar og þó henni sé beint að báðum ríkisstjórnarflokkunum, leynir sér ekki, að Reyknesingarnir eru að senda VG er örlítið stærri sneið, en flokksfélugum sínum.

Í þetta sinn er tilefnið áætlun fyrirtækisins ECA Program um að hefja starfsemi hér á landi, sem felst í að hafa aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir herflugvélar, sem ætlaðar eru til heræfinga á vegum NATO.  Í ályktuninni segir ma:  " Standa vonir til þessað fyrirtækið muni skapa fjöldan allan af vellaunuðum hátæknistörfum á því landsvæði þar sem atvinnuleysið er hvað mest."  Jafnframt er það tekið fram, að um svipuð störf sé að ræða og unnin voru áratugum saman af Íslendingum fyrir Bandaríkjamenn á vellinum, á meðan þeir höfðu þar aðstöðu.

Í lok ályktunarinnar er fast skotið á ríkisstjórnina, en þar segir:  "að staðan í atvinnumálum á Suðurnesjum kalli á að stjórnvöld kanni allar þær hugmyndir sem fram komi um atvinnusköpun til fulls áður en afstaða er tekin til þeirra."

Auðvitað er til mikils mælst, þegar stuðningmenn ríkisstjórnarinnar krefjast þess að ráðherrar stjórnarinnar hugsi áður en þeir tali, því það er þvert á þeirra vinnubrögð fram að þessu.

Venjulega segjast ráðherrarnir ætla að gera þetta og hitt, en þegar þeir eru spurðir nánar út í aðgerðirnar, er svarið nánast óbrigðult:  "Það á eftir að útfæra þetta nánar" og svo gerist aldrei neitt.

Aldrei fyrr hefur setið ríkisstjórn í þessu landi, sem berst af öllum sínum kröftum gegn hagvexti og atvinnuuppbyggingu.


mbl.is Harmar óvandaða umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr verður borgarstjóri samkvæmt skoðanakönnun

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Fréttablaðsins fengi Sjálfstæðisflokkurinn tæp 40% atkvæða, ef kosið yrði til borgarstjórnar nú, en grínframboðin fengju samtals rúm 60%, sem skiptust þannig að Samfylkingin fengi rúm 26%, vinstri grænir fengju rétt rúm 14%, Besti flokkurinn hlyti tæp 13%, Framsóknarflokkurinn væri með tæplega 6% og önnur framboð minna.

Verði niðurstaða kosninganna eins og þessi skoðanakönnun sýnir yrði Besti flokkurinn í oddastöðu við myndun meirihluta í borgarstjórn og þar með fengi Jón Gnarr væntanlega sitt draumastarf um þægilega innivinnu, góð laun og ýmis fríðindi.

Sjálfstæðisflokkur yrði að fá stuðning Besta flokksins til þess að halda sér í meirihluta og þá myndi vinsælasti borgarstjóri í langan tíma, Hanna Birna Kristjánsdóttir, væntanlega verða að gefa starfið eftir til Jóns Gnarr, sem hefur lýst því yfir að hans grín snúist aðallega um stól borgarstjórans.

Hinn möguleikinn á meirihlutasamstarfi er, að allir grínflokkarnir þrír tækju upp samstarf eftir kosningar og enn yrði Jón Gnarr í aðstöðu til að krefjast þess að fá uppfyllta kröfu sína um innivinnunna þægilegu og hinir grínistarnir yrðu væntanlega að sætta sig við minni hlutverk í farsanum.

Svona niðurstaða skoðanakannana sýnir hvað Reykvíkingar geta nú verið gamansamir á erfiðum tímum, en öllu gríni fylgir alvara og ótrúlegt verður að teljast, að fólk mæti í stórum stíl í kjörklefann, eingöngu til að fíflast. 

Þegar á hólminn verður komið, verða Reykvíkingar ábyrgari en svo.

 


mbl.is Jón Gnarr vinsælli en framsókn og frjálslyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið eftir Godot

Niels Redeker, talsmaður hollenska fjármálaráðherrans. segir að Bretar og Hollendingar bíði eftir að Íslendingar komi skríðandi til þeirra og þá muni þeir vera tilbúnir til að lækka örlítið fjárkúgunarkröfur sínar, en þó muni þeir ekki ræða neitt nýtt, aðeins spjalla nánar um kröfuna, sem sett var fram af þeirra hálfu í október s.l.

Alveg virðist hafa farið framhjá þessum kónum, að Íslendingar felldu þann samning í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars s.l. með 98,1% atkvæða þeirra sem afstöðu tóku í kosningunni.  Þar með var þeim fjárkúgunartexta algerlega rutt út af borðinu af hálfu íslensku þjóðarinnar og ekki kemur einu sinni til álita, að nefna það plagg aftur, hvorki við Breta og Hollendinga eða nokkra aðra, svo sem norðurlöndin og AGS.

Bretar og Hollendingar þurfa ekkert að bíða eftir Íslendingum til viðræðna, enda ekkert til að ræða um.  Það sem þeir þurfa að bíða eftir er uppgjör þrotabús Landsbankans, en þaðan mun íslenski tryggingasjóðurinn fá þá peninga sem hann mun nota til að gera upp lágmarkstryggingu Icesave reikninganna.

Bið fjárkúgaranna verður eins og biðin eftir Godot, en eins og menn muna úr leikritinu, kom Godot aldrei.


mbl.is Bíða eftir Íslendingum í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni launamunur hérlendis en í "velferðarríkjum" ESB

Áætlað er að 10% þjóðarinnar, eða um 31 þúsund manns,  lifi af tekjum sem teljast undir "tekjumörkum", en þau voru 160 þúsund krónur á mánuði á árinu 2009 fyrir einstakling.  Telst þetta vera mjög lágt hlutfall í samanburði við önnur lönd, ekki síst ESB lönd, en þar er hlutfallið yfirleitt á bilinu 10-20%.

Þessu hlutfalli verður varla náð mikið neðar á meðan einhver launamunur er á milli manna í landinu, því útreikningurinn er þannig að þeir sem eru með minna en meðaltekjur, teljast alltaf vera undir "tekjumörkum" og því verður sá hluti landsmanna, sem lægst hafa launin, alltaf undir "tekjumörkum".

Útreikningarnir sýna þó, að launamunur er miklu minni hér á landi en í nágrannalöndunum og verður það að teljast nokkuð gott, því sum þeirra státa sig af því að vera mikil jafnréttis- og velferðarríki.

Þetta sýnir líka svart á hvítu, að engin sérstök ástæða er til að keppa að því að komast í ESB klúbbinn, þar sem atvinnuleysi og "tekjumörk" eru viðvarandi meiri en hvort tveggja er hér á landi í einni mestu kreppu sem yfir þjóðina hefur komið.

 


mbl.is Tíu prósent undir tekjumörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfug Keflavíkurganga

Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður Viðskiptaráðuneytisins, og Steingrímur J., aðstoðarmaður Indriða H. Þorlákssonar, skattmanns, munu eiga fund með Dominiq Strauss-Kahn, alræðisherra Íslands og framkvæmdastjóra AGS, á morgun og munu þar grátbiðja herra sinn og drottnara um að drífa nú af endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS og útskýra fyrir honum að þrátt fyrir að Íslendingar hafi algjörlega hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu, að gerast skattaþrælar Breta og Hollendinga næstu áratugi, hafi ekki orðið heimsendir, eins og þeir félagar hafi verið búnir að segja þjóðinni að yrði, ef hún gengist ekki undir fjárkúgunina.

Það sem er þó jafnvel merkilegra við ferðina er, að þeir félagar ætla að ganga á fund fulltrúa bandarískra stjórnvalda og fulltrúa þeirra í stjórn AGS til að reyna að endurheimta vináttu Bandaríkjamanna eftir að Össur og Ólafur Ragnar nánast slitu stjórnmálasambandi við Bandaríkin með því að lítilsvirða fráfarandi sendiherra þeirra svo stórlega fyrir ári síðan, að enginn hefur verið skipaður í staðinn.

Bandaríkjamenn munu örugglega hafa gaman af því, að ræða við Steingrím J. og Indriða H. um Keflavíkurgöngurnar, sem þeir marseruðu í, ár eftir ár, til þess að mótmæla bandaríska hernum á Miðnesheiði og sambandi Íslands við Bandaríkin.  Þeir félagar munu þá geta tekið lagið fyrir gestgjafa sína og sungið fyrir þá gömlu baráttusöngvana úr göngunum og öðrum mótmælaaðgerðum þeirra í þá daga.

Þessi betliganga núna er nokkurskonar öfug Keflavíkurganga.


mbl.is Staðfesta fund með Strauss-Kahn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnihlutastjórn kyrrstöðu og svika

Öll spjót standa nú á ríkisstjórninni vegna þeirrar kyrrstöðu sem hún stendur fyrir í atvinnulífinu og svika hennar á öllum helstu loforðum sem hún gaf og undirritaði við gerð stöðugleikasáttmálans í júní á síðasta ári og endurnýjaður var í október s.l.

Útgerðarmenn eru æfir vegna svikins loforðs um að skötuselsfrumvarpið færi fyrir sáttanefndina um fiskveiðistjórnunina og samtök launamanna gagnrýna stjórnina fyrir svik hennar í öllum málum, sem hún lofaði vegna atvinnuuppbyggingar.

Nýjasta gagnrýnin kemur frá ASÍ vegna svika um að lögfesta starfsendurmenntunarsjóð, sem var eitt af undirrituðum loforðum stjórnarinnar í stöðugleikasáttmálanum.  Það er algjört einsdæmi, að ríkisstjórn standi ekki við gerða samninga við aðila atvinnulífsins, að ekki sé talað um samninga sem tengjast beint við kjarasamninga, en framlenging þeirra var hluti stöðugleikasáttmálans.

Það sem kemur í ljós í þesu máli, er staðfesting á því, sem fram hefur komið æ ofan í æ, en það er að ríkisstjórnin nýtur ekki einu sinni stuðnings eigin flokka á Alþingi og að hún er í raun minnihlutastjórn.  Það hefur hún nú staðfest sjálf við fulltrúa ASÍ og er rétt að enda á tilvitnun fréttarinnar í forseta sambandsins og er engu hægt við hana að bæta:

"Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að á fundum sambandsins með stjórnvöldum í vikunni hafi ráðherrar fullyrt að ekki væri meirihluti fyrir slíkri breytingu meðal þingflokka stjórnarflokkanna.  Hann segir sambandið ekki sætta sig við að stjórnvöld standi ekki við gerða samninga."


mbl.is ASÍ segist svikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband