Mótsagnakennd rök Peningastefnunefndar

Peningastefnunefnd Seðlabankans réttlætir þá ákvörðun, að halda vöxtum í landinu áfram háum, m.a. með því, að ekki sé nógu greiður aðgangur að ódýru erlendu lánsfé.  Á meðan erlendum lánum var ausið inn í landið, var röksemdin fyrir háum stýrivöxtum, að verið væri að reyna hemja eftirspurnina eftir lánsfénu, en auðvitað hafði það ekki áhrif, einmitt vegna þessa greiða flæðis erlends fjármagns inn í hagkerfið.

Nú segja spekingar Seðlabankans að vextir verði að vera háir, vegna þess að ekki fáist erlend lán, eða eins og segir í yfirlýsingu nefndarinnar:  "Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi mun töfin ekki hafa umtalsverð skammtímaáhrif á gengi krónunnar. Hins vegar væri áhættusamt að afnema gjaldeyrishöftin eða lækka vexti í stórum skrefum á meðan lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum fást ekki, eða aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum er ekki greiður."

Þetta hljómar eins og öfugmæli miðað við fyrri rökfærslur Seðlabankaspekinganna.  Svo heldur yfirlýsing nefndin áfram, með öfugmæavísurnar, þegar hún segir:  "Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. Svigrúm peningastefnunefndarinnar til vaxtalækkunar verður þó takmarkað meðan veruleg óvissa ríkir um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum."

Þetta eru vægast sagt þokukennd rök, því einmitt á meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði og enginn kemst úr landi með peninga, hefði maður haldið að kjöraðstæður væru til að lækka vexti niður úr öllu valdi, til að reyna að koma þeim peningum, sem liggja aðgerðarlausir í bönkunum til vinnu úti í atvinnulífinu og reyna þannig að koma hjólunum til að snúast á ný.

Einnig væri það gjaldeyrissparandi, þar sem krónubréfabraskararnir fengju lægri vexti af bréfum sínum, en á vaxtagjalddögum hafa þeir heimild til að skipta vaxtatekjunum í erlendan gjaldeyri og flytja hann úr landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband