Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Loksins sýna norðurlöndin sitt rétta andlit

Reinfelt, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur nú lýst því yfir, eins og Noregur og Finnland áður, að lánsloforð þeirra til styrktar efnahagsáætlunar Íslands og AGS sé háð því, að Íslendingar samþykki nánast hvaða þrælasamning, sem Bretar og Hollendingar rétta þeim.  Danir hafa ekki sagt neitt, ennþá, en þar sem lánapakkinn átti að vera sameiginlegur, hlýtur afstaða Dana að vera sú sama.

Skýringin, sem gefin er, er alltaf sú, að Íslendingar verði að standa við "alþjóðlegar skuldbindingar" sínar, án þess að útskýra nokkurn tíma hvaða skuldbindingar það séu og ekki hafa fréttamennirnir hugmyndaflug til að spyrja nánar út í það.  Einu "alþjóðlegu skuldbindingar" Íslendinga í þessu efni er nákvæmlega sú sama og allra annarra landa innan EES, þ.e. að hafa stofnað tryggingasjóð innistæðueigenda og það var gert með lögum frá Alþingi árið 2000 og voru þau algerlega sniðin eftir tilskipun ESB um það efni.

Allir vita, sem vilja vita, að tilskipun ESB bannar ríkisábyrgð á slíka sjóði, en það er einmitt það sem kúgararnir eru að reyna að neyða upp á íslenska skattgreiðendur, að þeir taki á sig drápsklyfjar vegna vaxtanna einna saman af skuldum tryggingasjóðsins.

Vilji norðurlöndin ekki taka þátt í efnahagsáætlun Íslands og AGS með því að standa við þau lánsloforð sem þau gáfu, þá er ekkert við því að segja, því þeim ber engin skylda til þess, þó leiðinlegt sé fyrir þau að verða ómerkingar orða sinna.

Í ljós er komið, svo ekki verður um villst, að norðulandaþjóðirnar eru bandamenn Breta og Hollendinga í fjárkúgunartilraunum þeirra á hendur Íslendingum og er að öllu leyti gott að fá það upp á yfirborðið.

Íslendingar eigan hinsvegar að bregðast við með því að afþakka þetta "boð" nágrannaþjóðanna og snúa sér annað með lánsbeiðnir sínar, t.d. til Kínverja, sem ekki myndu finna fyrir þessum smáaurum.


mbl.is Sænsk lán háð Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er endalaust hægt að bæta ónýta flýk

Jóhönnu Sigurðardóttur virðist ganga erfiðlega að skilja, að með úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður ekki hægt að halda áfram viðræðum við Breta og Hollendinga, eingöngu á þeim nótum að lappa upp á gamla samninginn.  Honum var afdráttarlaust hafnað af þjóðinni og hún lætur ekki bjóða sér einhverjar smávægilegar vaxtabreytingar á þeirri skuld, sem skattgreiðendur afsögðu að kæmi sér nokkuð við í kosningunni.

Icesave flík ríkisstjórnarinnar er ónýt og engan veginn hægt að tjasla henni saman aftur með einni eða tveim bótum, þó þær verði klipptar úr samskonar efnisstranga.  Þó flíkin sé ríkisstjórninni kær, verður hún að viðurkenna þá staðreynd, að fatnaðurinn er ónýtur og nú verður að finna nýjan.  Sá verður að vera bæði vatns- og vindheldur og þeir sem eiga að bera hana á bakinu, sem eru skattgreiðendur, verða að vera sáttir við hann og vilja ganga í honum.

Íslenskir skattgreiðendur hentu af sér búningi galeiðuþræla hinna erlendra þrælahaldara í kosningunum og munu ekki sætta sig við neitt annað en klæðnað frjálsborinna manna framvegis og það verður ríkisstjórnin að hafa að leiðarljósi í framhaldinu, þó henni þyki það sárt, fyrir hönd drottnara sinna í Bretlandi og Hollandi.

Þó ekki hafi verið kosið um líf eða dauða ríkisstjórnarinnar í þessum kosningum, var kosið um lífsafkomu heimilanna í landinu og í samræmi við niðurstöðuna, verður ríkisstjórnin að vinna.

Geri hún það ekki, verður mjög stutt í kosningar, sem alfarið munu snúast um líf ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Kosningarnar ljúka ekki málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl Th. bergmálar nýjasta áróður Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir er nú byrjuð að reyna að koma því inn hjá þjóðinni, að töfin á því að ná samningum um Icesave hafi nú þegar kostað þjóðina meira en sem næmi hugsanlegum ávinningi af því að ná "betri" samningi um "einhverja lækkun á vaxtagreiðslum" vegna þeirrar einkaskuldar, sem hún vill ólm koma yfir á skattgreiðendur.

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, bergmálar þennan áróður án þess að skýra hann nokkuð nánar, frekar en Jóhanna sjálf gerir í sínum málflutningi.  Í talsvert löngum pistli Karls Th., sem snýst að mestu um skammir á Vinstri græna, laumar hann inn einni málsgrein, sem  hljóðar svona: 

"Frá og með deginum í dag er það (aftur) forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að ná viðunandi samningum um IceSave. Töfin hefur þegar kostað okkur tugi milljarða í minni hagvexti, meira atvinnuleysi, hærri vöxtum og engum fjárfestingum, og valdið ómældu tjóni á brothættu sálarlífi þjóðarinnar."

Ekki standast þessar fullyrðingar mikla skoðun, því hagvöxtur jókst nokkuð á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, þó nú sé kominn í hann afturkippur, vegna tafa ríkisstjórnarinnar á að afgreiða það, sem að henni snýr, svo hægt sé að hefja uppbyggingu á sviði orkufreks iðnaðar, atvinnuleysi er heldur minna en spáð hafði verið að það yrði um þessar mundir, en þó er spáð miklu atvinnuleysi fram á árið 2012, algerlega óháð Icesave, vaxtaákvarðanir eru teknar af Seðlabankanum og vandséð hvernig þær ákvarðanir tengjast Icesave og fjárfestingar eru litlar, enda hefur ríkisstjónin ekki staðið við eitt eða neitt, sem hún skrifaði undir í stöðugleikasáttmálanum, sem menn eru nú farnir að kalla stöðnunarsáttmála, einmitt vegna svika ríkisstjórnarinnar.

Á þessu sést að engin innistæða er fyrir þeim áróðri, að allt sé hér stopp vegna tafa á Icesave, heldur er sú stöðnun sem nú ríkir, algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar vegna aðgerðaleysis hennar.

Allt það rúma ár, sem stjórnin hefur setið, hefur glumið söngurinn um að allt myndi lagast, þegar þetta eða hitt væri frágengið.  Það er búið að reka Davíð, það er búið að sækja um aðild að ESB, það er búið að skrifa undir stöðugleikasáttmála og það er búið að endurreisa bankana, að minnsta kosti að nafninu til.

Allt átti að fara að ganga vel í landinu, við hvern einasta af framangreindum áföngum, en aldrei hefur neitt gerst, því alltaf er hægt að nefna eitthvað nýtt, sem tefur. 

Nú er það Icesave.  Hvað verður það næst?


mbl.is Karl Th.: Töfin hefur þegar kostað tugi milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NEI þýðir NEI og ekkert annað

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn gat varla orðið meira afgerandi, en rúm 98% þeirra, sem atstöðu tóku, svöruðu þeirri spurningu sem fyrir var lögð, með svarinu NEI.  Skýrari en það gat niðurstaðan varla orðið og ætti ekki að þurfa að hártoga á nokkurn hátt.

Það þýðir ekkert fyrir Jóhönnu og Steingrím J. að láta bara eins og ekkert hafi í skorist og niðurstaða atkvæðagreiðslunnar skipti engu máli og nú verði haldið áfram þar sem frá var horfið í samningum við fjárkúgarana um vaxtagreiðslur af skuld, sem skattgreiðendum kemur ekkert við.

Skilaboð meirihluta þjóðarinnar verða ekki misskilin og mikil má afneitun þessara fýluráðherra vera, ef þeir ætla að reyna að hunsa vilja skattgreiðenda, varðandi algera höfnun á því að semja um nokkurn skapaðan hlut við ofbeldisseggina.

Einu skilaboðin sem þau skötuhjú geta nú borið hinum erlendu húsbændum sínum eru að þeir skuli snúa sér að lögformlegum aðila með kröfur sínar, en það er Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta, sem er tryggingafélag Landsbankans og á að bæta innistæður upp að 20.887 evrum á hvern innistæðureikning Icesave.

Skattgreiðendur eiga ekki að borga vexti af skuldurm tryggingafélaga eða gjaldþrota einkabanka.

Þá skoðun sína létu kjósendur/skattgreiðendur eftirminnilega í ljós á laugardaginn.


mbl.is Engir fundir boðaðir enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin hefur hafnað öllum fjárkúgunartilraunum Breta og Hollendinga

Enginn frýjar Steingrími J. vits, en þrjóskari er hann en sá vondi sjálfur og því lemur hann ennþá hausnum við steininn og neitar að viðurkenna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, þó kjósendur hafi látið skoðun sína á fjárkúgunartilraunum Breta og Hollendinga í ljós, alveg sýrt og skorinort.

Kjósendur, sem jafnframt eru skattgreiðendur, höfnuðu algerlega öllum þvingunaraðgerðum kúgarnanna, sem hafa snúist um að gera Íslendinga að skattaþrælum erlendra ofbeldismanna og skílaboðin voru alveg skýr, að almenningur ætlar ekki að taka á sig byrðar, hvorki vegna höfuðstóls skuldar innlánstryggingasjóðsins og hvað þá tuga, eða hundruð milljarða í vexti, af skuldbindingu sem þeim kemur nákvæmlega ekkert við.

Allt átti að leggja í sölurnar til þess að komast hjá því, að leyfa þjóðinni að ganga til atkvæða um þann þrælasamning, sem búið var að gera í allra óþökk og því lögðu Jóhanna og Steingrímur J. allt í sölurnar, til þess að ná bara einhverjum samningi fyrir atkvæðagreiðsluna, svo átylla fengist til að þagga niður í þjóðinni.

Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir þær fyrirætlanir og nú verður að treysta því, að stjórnarandstaðan láti ekki blekkja sig til að taka þátt í að svíkja nýjan samning inn á þjóðina, sem innihéldi svo mikið sem eina krónu í vexti vegna þessarar einkaskuldar.

Meirihluti kjósenda/skattgreiðenda hefur látið skoðun sína afdráttarlaust í ljós.

Það myndi ekki sýna mikla stjórnkænsku að ætla að hunsa vilja þeirra.


mbl.is „Vorum nálægt samkomulagi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gengur manninum til?

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvað fær utanríkisráðherra Lettlands til að tjá sig um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, nánast eingöngu á þeim nótum, að hún eigi ekki að hafa áhrif á umsókn Íslands um að fá að verða hreppur í stórríki ESB. 

Það er alger óþarfi af manninum að vera að blanda þessari atkvæðagreiðslu við þau hörmulegu mistök, sem umsóknin er, en nú hafa allir Íslendingar fundið á eigin baki, hvernig innræti og framkoma forystumanna ESB er í garð smáþjóða, sem þau telja að liggi vel við höggi.

Þegar Samfylkingin verður búin að eyða bæði dýrmætum tíma og miklum peningum í að berja saman einhvern samning við þetta fantabandalag, þá mun honum verða vísað til þjóðarinnar, sem mun vafalítið fella hann, með jafnvel meira afgerandi hætti en Icesavelögin.

Sennileg eru þessi ummæli utanríkisráðherrans einmitt tákn um það, að fantarnir innan ESB sjá nú hvernig samstaða Íslendinga kemur í ljós við afgreiðslu örlagaríkra mála, ekki síst yfirgang og fjárkúgunartilraunir erlendra fúlmenna.


mbl.is Niðurstaðan hafi engin áhrif á ESB-umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jonas Gahr Störe og Strauss-Kahn ljúa í takt

Jonas Gahr Störe lýgur því blákalt í blaðaviðtali, að hvorki Noregur né önnur norðurlönd standi í vegi fyrir endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og AGS, með því að neita að efna lánaloforð og tengja þau við þrælasamning við Breta og Hollendinga um Icesave.

Fýluráðherra þessi heldur því fram, að það eina sem standi í veginum, sé óvissa um hvort Íslendingar standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES samningnum, en þekki maðurinn ekki samninginn á han ekki að vera að tjá sig um hann og allra síst opinberlega.  Það hefur aldrei annað staðið til, en að standa við íslensk lög og tilskipanir ESB um innistæðutryggingasjóði, en norðulöndin hafa dyggilega stutt við bakið á kúgurunum og meira að segja Strauss-Kahn hefur sjálfur sagt, að einmitt þess vegna vilji norðulöndin ekki standa við lánasamninga sína.

Nú síðast hefur Milliband, fjármálaráðherra kúgunarríkissins Bretlands sagt, að aldrei hafi verið ágreiningur um að Íslendingar ætluðu að standa við skuldbindingar innistæðutryggingasjóðsins, heldur hefði deilan snúist um hve mikið Bretar og Hollendingar gætu skattpínt Íslendinga vegna vaxta af skuld, sem skattgreiðendur eru ekki í ábyrgð fyrir.

Íslendingar eiga enga sérstaka kröfu á norðurlöndin varðandi þessi lán, þeir hinsvegar lofuðu að veita þau í tengslum við efnahagsuppbyggingu hagkerfisins hér á landi og ættu því að vera menn til að standa við orð sín.

Vilji þeir ekki veita þessi lán, eiga þeir að segja það og draga loforðin til baka.

Það væri stórmannlegra heldur en að vera síljúgandi, eins og Strauss-Kahn gerir fyrir hönd AGS.

VIÐBÓT:

Finnar eru meiri menn en lygni fýluráðherrann norski, því þeir viðurkenna samkvæmt þessari frétt, að lán Finna séu tengd við fjárkúgunartilraunir Breta og Hollendinga, en lán allra norðulandanna voru samþykkt sem einn "lánapakki". 

Með þessari viðurkenningu er endanlega flett ofan af lygum fýluráðherrans Jonasar Gahr Störe, sem ætti að biðjast afsökunar á framkomu sinni.


mbl.is Gahr Støre vísar gagnrýni Ólafs Ragnars á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Stauss-Kahn fyrirmunað að segja satt?

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS kemur enn einu sinni með rulluna um að sjóðurinn sé "skuldbundinn til þess að aðstoða Íslendinga" og að Icesavedeilan sé "einkamál" sem komi sjóðnum og fyrirgreiðslu hans ekkert við, en hinsvegar séu það norðulöndin, sem neiti að standa við sinn hluta varðandi lánsloforð, þangað til búið sé að afgreiða Icesavedeiluna.

AGS dró fyrstu endurgreiðslu efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins í átta mánuði og enn hefur önnur endurskoðunin ekki verið afgreidd, þrátt fyrir að það hafi átt að klárast í janúar s.l.  Nú er komið fram í mars og ekkert frést af því, að AGS ætli að standa við sinn hluta samningsins, frekar en í fyrra sinnið. 

Ef norðulöndin vilja ekki veita Íslendingum lán til að efnahagsáætlunin geti haft sinn gang, þá ber AGS skylda til að aðstoða við að finna aðra lánveitendur og mætti t.d. benda á Kínverja, sem alltaf hafa verið Íslendingum vinsamlegir og munu hvort sem er, verða drottnarar heimsins innan fárra áratuga.

Blekkingar Strauss-Kahn og raunar hrein ósannindi duga Íslendingum ekki lengur.  Annað hvort drífur AGS í að standa við þá aðstoð, sem hann skuldbatt sig til að veita, eða slítur samstarfinu.

Geri hann hvorugt í þessum mánuði, eiga Íslendingar að þakka sjóðnum pent fyrir komuna og óska honum góðrar heimferðar.


mbl.is Strauss-Kahn segir AGS skuldbundinn til að aðstoða Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hroki norska utanríkisráðherrans - minnir á Jóhönnu Sig.

Ef það er eitthvað sem Jonas Gahr Störe og Jóhanna Sigurðardóttir eiga sameiginlegt, fyrir utan flokkatengslin, þá er það hrokinn og fýlan.  Enginn hefur farið fram á lán frá Noregi, umfram lánin, sem tengjast efnahagsáætlun Íslands og AGS, en samt leyfir þessi hrokagikkur sér að lýsa því yfir að Noregur muni ekki lána Íslendingum krónu umfram það og hann ætli ekki að láta norska skattgreiðendur greiða fyrir bankahrunið á Íslandi.

Ofan á þetta bætir hann svo, að Íslendingar geti sjálfum sér um kennt, að hafa kosið yfir sig stjórnmálastefnu, sem valdið hafi hruninu.  Ekki kusu Íslendingar yfir Breta kratana, sem þar hafa komið efnahagsmálunum í óefni og þurft að glíma við bankakreppu, sem er engu minni en Íslendingar þurfa að glíma við.  Ekki kusu Íslendingar yfir sig stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, þar sem upptök bankakreppu heimsins eru talin eiga upptök sín og ekki hafa Íslendingar kosið yfir sig stjórnir í þeim ESB löndum, sem nú eru að hruni komin, efnahagslega.

Allar þessar yfirlýsingar ráðherrans í garð Íslendinga hafa heyrst frá "samflokksmönnum" hans hér á landi og líklega er hann eingöngu að bergmála málflutning Steingríms J., Jóhönnu og Össurar, sem telja Störe til bestu vina sinna.

Eins og þau, er Jonas Gahr Störe verðugur fulltrúi fýlustjórnmálanna.


mbl.is Ekki frekari lán til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðuneytið viðurkennir að Icesave I sé í raun fallið úr gildi

Ífréttatilkynningu Forsætisráðuneytisins er viðurkennt, að með úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar séu ekki bara lögin, sem kölluð hafa verið Icesave II, fallin úr gildi, heldur séu lögin um frá því í júní s.l., sem kölluð hafa verið Icesave I, í raun fallin úr gildi líka, enda séu þau dauður bókstafur, þar sem Bretar og Hollendingar höfnuðu fyrirvörunum við ríkisábyrgðina, sem Alþingi samþykkti.

Þessu hefur verið haldið fram á þessu bloggi lengi, en ýmsir stuðningsmenn fýlustjórnarinnar hafa mótmælt því hástöfum, og Jóhanna Sigurðardóttir hefur reyndar haldið því fram að eldri lögin myndu taka gildi, en nú hefur Forsætisráðuneytið afneitað þeirri túlkun (sjá punkt nr. 2 í tilkynningunni).

Þetta þýðir auðvitað, að borðið er algerlega hreint og eftir eftirminnilega niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni eiga íslensk yfirvöld og samninganefndin ekki að samþykkja neinar viðræður við fjárkúgarana, nema samkvæmt þeim lögum og tilskipunum ESB, sem um bankagjaldþrot gilda.

Íslenskir skattgreiðendur höfnuðu kúguninni ekki jafn eftirminnilega og raunin er, til þess eins, að Jóhanna og Steingrímur taki við nýjum þrælasamningi úr hendi hinna erlendu húsbænda sinna.

Krafan hljóðar nú upp á alvöru viðræður um löglega niðurstöðu. 

Íslenskir skattgreiðendur sætta sig ekki við neitt annað.


mbl.is Ríkisstjórnin hefur fulla trú á viðunandi niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband