Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Stefnir í ótrúlega glæsilega niðurstöðu

Fyrstu tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sýna að niðurstaðan stefnir í að verða ótrúlega glæsileg.  Tölur um kjörsókn eru ekki komanar, en allt bendir til þess að hún hafi verið eins góð og búast mátti við.

Fari svo, að yrir 90% þátttakenda í kosningunni hafi sagt NEI, er dagurinn sannkallaður merkisdagur og íslenskir skattgreiðendur sýnt fjárkúgurunum bresku og hollensku að þeir láta ekki kúga sig baráttulaust.

Merkur kafli í sögu þjóðarinnar hefur verið skrifaður og verður lengi minnst, sem eins glæsilegasta dags í lýðveldissögunni.


mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er verið að skrifa merkilegan kafla í Íslandssöguna

Fari kjörsókn yfir 50% og niðurstaðan verði afgerandi NEI verður það að teljast viðunandi, þó betra væri að þátttakan færi yfir 60%.  Ekki er hægt að reikna með jafn mikilli kjörsókn í atkvæðagreiðslu um eitt málefni, eins og þegar kosið er til Alþingis eða sveitarstjórna.  Jafnvel í forsetakosningum hefur þátttaka stundum verið rétt rúm 60%

Nú er um sögulegar kosningar að ræða og málefnið afar mikilvægt, þ.e. með því að fella Icesave lögin úr gildi, er í raun enginn gildur samningur fyrir hendi lengur, eins og fjallað var um á bloggi í morgun og má sjá hérna og því verða Bretar og Hollendingar að sætta sig við að málið verði aftur komið á algeran byrjunarreit og þá verður væntanlega farið að lögum og tilskipunum ESB varðandi framhald málsins og íslenskir skattgreiðendur leystir úr þeirri snöru, sem kúgararnir hafa hert að hálsi þeirra undanfarna mánuði.

Þetta verður eftirminnilegur dagur og þeir sem sitja heima og taka ekki þátt í þessum stóratburði verða í vandræðum seinna meir með að útskýra fyrir börnum sínum og barnabörnum, hvers vegna þeir tóku ekki þátt í að skapa þennan eftirmynnilega kafla Íslandssögunnar.

Því er ástæða til að skora á þá, sem enn eiga eftir að kjósa, að drífa sig á kjörstað og leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að setja X við NEI.

 


mbl.is Tæplega 43% kjörsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NEI í dag fellir Icesavesamninginn endanlega úr gildi

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. hafa reynt að hræða kjósendur frá því að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag með því að hamra á því, að hún sé marklaus bæði vegna þess að "betra" tilboð sé á borðinu og að þá taki upphaflegi Svavarssamningurinn gildi, því lögin frá því í júní s.l. verði virk á ný.

Þetta eru helber ósannindi og það vita þau skötuhjúin mætavel, því í Bretar og Hollendingar settu það ákvæði inn í upphaflega samninginn, að hann tæki ekki gildi fyrr en Alþingi væri búið að samþykkja ríkisábyrgð á hann og leggja þannig hundruð milljarða álögur á íslenska skattgreiðendur.  Alþingi sá við þessu, sem betur fer og samþykkti ríkisábyrgðina, með ströngum fyrirvörum, sem meðal annars fólu í sér, að ríkisábyrgðin yrði ekki virk, nema Bretar og Hollendingar féllust á fyrirvarana.

Með því að fella Icesavelög II úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag, með góðri kjörsókn og afgerandi niðurstöðu, verður enginn samningur í gildi og því síður ábyrgð islenskra skattgreiðenda á honum.  Þetta vita Jóhanna og Steingrímur, en reyna að blekkja þjóðina, vísvitandi, í þeim eina tilgangi að reyna að fá fólk til að sitja heima og gera þjóðaratkvæðagreiðsluna marklausa með því móti.

Það er ábyrgðarhluti af forystumönnum ríkisstjórnarinnar, að beita blekkingum og hreinum ósannindum til þess að eyðileggja fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem fram hefur farið á Íslandi frá lýðveldisstofnun.  Kjósendur verða að sjá í gegn um þessar falsanir á staðreyndum og fjölmenna á kjörstað, til þess að sýna umheiminum að íslenskir skattgreiðendur láti ekki leiða sig í þrældóm fyrir erlendar kúgara, baráttulaust.

Látum hvorki Jóhönnu eða Steingrím fæla okkur frá því að nýta helgasta rétt hvers manns í lýðræðisríki.

Fjölmennum á kjörstaði og svörum spurningunni með afgerandi og risastóru NEIi.


mbl.is Atkvæði greidd um Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur sagði ekki satt í Kastljósinu

Steingrímur J. reyndi í Kastljósi að gera lítið úr tilgangi þjóðaratkvæðagreiðslunnar á morgun og bætti við, að eftir hana sæti þjóðin uppi með lögin um Icesave I og þau tækju strax gildi og yrði þá að semja upp á nýtt út frá þeim lögum.

Þetta er algerlega ósatt, því í fyrirvörunum við ríkisábyrgðina, sem samþykkt var með þeim lögum var ákvæði þess efnis, að lögin tækju ekki gildi nema Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana.  Í samningnum sjálfum var á hinn bóginn tekið fram, að hann öðlaðist ekki gildi, nema samþykkt yrði ríkisábyrgð á hann. 

Þannig var hringtenging á milli samningsins og ríkisábyrgða og á hinn bóginn tenging ríkisábyrgðar við samþykki Breta og Hollendinga.  Kúgararnir höfnuðu fyrirvörunum við ríkisábyrgðina alfarið, þannig að hún mun aldrei taka gildi og þar sem ríkisábyrgðin mun ekki taka gildi, verðu sjálfur samningurinn heldur aldrei virkur.

Með því að segja blákalt framan í þjóðina kvöldið fyrir kosningar, að skattgreiðendur myndu sitja uppi með þrælasamninginn frá því í júní s.l. var Steingrímur að hræða kjósendur með hreinum ósannindum og er það vægast sagt ámælisvert af ráðherra og hreinlega siðlaust.

Framganga Jóhönnu Sigurðardóttur undanfarna daga vegna kosninganna er kapítuli út af fyrir sig og svo skammarlegur, að engin orð ná yfir slíka háttsemi.

Svarið við þessu öllu er góð kosningaþátttaka og niðurstaða sem hlóðar á einn veg:  NEI


mbl.is Tilbúnir til frekari viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur á við þjóðholla menn, sem verja hag og heiður þjóðarinnar

Steingrímur J. missti út úr sér á blaðamannafundi í morgun að ekki væri hægt að semja við fjárkúgara, þegar sumir fulltrúar íslenskra skattgreiðenda vildu ekki láta eftir ofbeldisseggjunum og borga mölglunarlaust ólöglega og siðlausa kröfu þeirra.

Þarna á Steingrímur vafalaust við þá snjöllu og viti bornu samningamenn, sem stjórnarandstaðan neyddi upp á ríkisstjórnina, eftir að útséð var með að þjóðin myndi kyngja þeim "glæsilega" afarkosti, sem félagar hans og vinir, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, skrifuðu undir á föstudagskvöldi í júní s.l., þegar þeir nenntu ekki að hafa málið lengur "hangandi yfir höfði sér", eins og Svavar orðaði það svo einlæglega í fjölmiðlum.

Hagsmunum íslenskra skattgreiðenda er ágætlega borgið á meðan hluti "samninganefndarinnar" berst gegn rangindum og kúgunum Breta og Hollendinga, sem ætla sér að hneppa Íslendinga í skattalega ánauð til áratuga, vegna vaxta af skuld, sem er ekki þjóðarskuld, heldur einkaskuld.

Engin lög á Íslandi eða í öðrum ríkjum Evrópu gera ráð fyrir því, að skuldum einkafyrirtækja, hvorki einkabanka né annarra einkafyrirtækja, sé breytt í þjóðarskuld og þannig velt yfir á skattgreiðendur landanna.

Þess vegna er svo mikilvægt, að góð þátttaka verði í þjóðaratkvæðagreiðslunni og niðurstaðan verði svo afgerandi, að enginn geti velkst í vafa um hug skattgreiðenda til slíkra fjárkúgara.

Þjóðarhagur er að veði.

NEI við Icesavelögunum.


mbl.is Hvað á Steingrímur við?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausráðinn starfsmaður í Viðskiptaráðuneytinu talar gegn þjóðarhag

Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður í Viðskiptaráðuneytinu, lætur gamminn geysa við norska fréttavefinn E24! og lætur sér ekki einu sinni detta í hug, að tala máli íslenskra skattgreiðenda gegn fjárkúgun Breta og Hollendinga, sem þessi lausráðni starfsmaður hefur reyndar viljað, ekki bara beygja sig undir, heldur reynt á allan máta að sannfæra þjóðina um, að væru fyllilega réttmætar, þó allir viti og viðurkenni, að kúgunin á sér enga lagastoð, hvorki í íslenskum lögum, eða tilskipunum ESB.

Með því að merkja við NEI á kjörseðlinum á morgun er ekki eingöngu verið að afneita ríkisábyrgð á gamla Landsbankanum, sem var einkabanki, heldur líka því, að íslenskir skattgreiðendur ætli að taka á sig byrðar í framtíðinni vegna Íslandsbanka og Arion banka, sem ríkið hefur einkavætt á ný, en enginn veit hinsvegar hver á, en eru líklega aðallega erlendir vogununarsjóðir.

Væntanlega hefur enginn látið sér detta í hug, að ríkisábyrgð á þessum bönkum hafi fylgt með í kaupunum, þegar þeim var afsalað til þessara erlendu vogunarsjóða, en með því að samþykkja minnstu aðkomu ríkisins að uppgjöri þrotabús Landsbankans, er verið að setja fordæmi, sem einnig mun ná til þessara nýju einkabanka og starfsemi þeirra í framtíðinni, sem enginn getur séð fyrir núna, hver og hvernig mun verða.

Þess vegna má alls ekki gera neina samninga við kúgarana vegna Landsbankans, hvorki um að leggja hluta höfuðstóls eða nokkurra einustu vaxta á íslenska skattgreiðendur.  Þeim ber ekki, samkvæmt lögum og tilskipunum ESB, að greiða eina einustu krónu, ekki eina evru og ekki eitt einasta pund, vegna glæfrareksturs óábyrgra bankamanna, hvorki íslenskra né erlendra.

Þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðslan einstakt tækifæri til að senda kúgurunum sjálfum og ekki síður almenningi í öðrum löndum, skýr skilaboð um það, að skattgreiðendur á Íslandi láti ekki traðka á sér, vegna einkaskulda, sem almenningi koma ekkert við.


mbl.is Samningarnir geta reynst dýrari en Icesave-skuldin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver hissa á Jóhönnu?

Ólafur Elíasson í InDefence lýsir yfir undrun sinni á þeim orðum Jóhönnu Sigurðardóttur að þjóðaratkvæðagreiðslan sé marklaus vegna þess að fjárkúgararnir séu búnir að leggja fram "betra tilboð" en "besta tilboðið" sem var lagt fram á eftir "næst besta" tilboðinu sem nefnt hafði verið á óformlegum fundi, þegar ekki þótti ástæða til að boða til fundar, vegna þess að ekki var þá um neitt að ræða.

Undanfarnar vikur hafa komið yfirlýsingar frá Jóhönnu og Steingrími J. þess efnis að líklega myndi nánst nýjir samningar um Icesave á næstu klukkustundum, enda væri runninn upp lokasólarhringur þessa örlagaríka máls og tilboð streymdu í allar áttir og aðeins væri eftir að vinna úr stöðunni, enda væri hún geysilega flókin og því full ástæða til að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna, eða a.m.k. fresta henni um viku, ef svo færi, að ekki yrði búið að vélrita allra síðasta tilboð, sem yrði örugglega betra en það síðasta þar á undan.

Ef eitthvað er marklaust þessa dagana eru það Jóhanna og Steingrímur J., sem þó hafa aldrei verið sérstaklega marktæk eins og sést af öllum þeirra stjórnarháttum síðast liðið ár og ekki síst í ótrúlega klaufskum og ruglingslegum verkum varðandi Icesavemálið og baráttu þeirra fyrir hagsmunum kúgara sinna og þjóðarinnar.

Ólafu Elíasson þarf ekki að vera hissa á ummælum Jöhönnu.  Þau eru algerlega í takt við alla aðra vitleysu, sem hrotið hefur af vörum ráðherranna, alveg frá upphafi afskipta þeirra af Icesavemálinu.

Hann þyrfti þá fyrst að verða hissa, ef eitthvert vitrænt orð dytti óvart upp úr þessu fólki.


mbl.is Furðar sig á ummælum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að kynna lagalega stöðu málsins

Nú þegar fjölmiðlamenn víða að úr heiminum eru samankomnir hérlendis til þess að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn, er mikilvægt að stjórnvöld og aðrir kynni vandlega lagalega hlið Icesavemálsins til þess að sá misskilningur leiðréttist að Íslendingar ætli ekki að standa við "alþjóðlegar skuldbindingar" sínar.

Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi Icesave felast í því einu, að hafa sett lög um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta, sem er sjálfseignarstofnun og bankarnir keyptu sér tryggingar hjá, eins og hverju öðru tryggingafélagi.  Tryggingin sem bankarnir keyptu hljóðaði upp á það, að sjóðurinn myndi tryggja hverjum innistæðueiganda að lágmarki 20.887 evra greiðslu, færu bankarnir á hausinn og samkvæmt tilskipunum ESB er í raun bannað að veita slíku tryggingafélagi ríkisábyrgð á skuldbindingum sínum.

Nú þegar tryggingasjóðurinn er í raun gjaldþrota og getur ekki staðið við útgreiðslu á lágmarkstryggingu vegna Icesave reikninganna, á sjóðurinn forgangskröfu í þrotabú landsbankans, en ekki á íslenska skattgreiðendur.  Smátt og smátt mun sjóðurinn fá sínar greiðslur frá þrotabúinu og geta þar með lokið við að greiða út þá fjárhæð, sem Landsbankinn var búinn að kaupa sér tryggingu fyrir.  Eftir því verða Bretar og Hollendingar að bíða, en geta ekki gert íslenska ríkisborgara að skattaþrælum sínum, vegna fáráðlegs rekstrar einkabanka.

Þetta þarf að útskýra vel fyrir hinum erlendu fjölmiðlamönnum, en óvíst er að fulltrúar ríkisstjórnarinnar séu þeir réttu til þess, miðað við ræfildóminn í kynningarmálunum fram að þessu.


mbl.is Mikill áhugi erlendra miðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggingin er ekki vandamálið

Mikið er býsnast yfir verðtryggingu fjármálaskuldbinginga um þessar mundir og henni fundið allt til foráttu og látið eins og hún sé eitt mesta vandamálið, sem við er að glíma um þessar mundir.

Verðtryggingin, sem slík, er þó ekki vandamálið, heldur það sem hún er að mæla, þ.e. verðbólgan.  Allri athyglinni er beint að hitamælinum, en ekki sjúkdóminum, sem veldur hitanum í sjúklingnum.  Afnám verðtryggingar er því sambærilegt við að brjóta mælinn, en láta sjúklinginn liggja áfram án meðhöndlunar.

Vandamálið er verðbólgan sjálf, sem grasserað hefur hér á landi í áratugi, vegna lélegrar hagstjórnar lengst af, hún hefur ekki verið sambærileg og í öðrum löndum, nema í örfá ár allt frá lýðveldisstofnun.  Meira að segja núna, í kreppu þar sem eftirspurn er nánast engin, er bullandi verðbólga vegna efnahagsóstjórnar.

Ef hagstjórnin væri í lagi og verðbólga lág, þá væri verðtryggingin ekkert vandamál. 

Baráttunni á því að beina að óvininum sjálfum, ekki þeim sem bendir á hann.


mbl.is Meinsemd hve verðtrygging er fyrirferðarmikil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf góða kjörsókn og afgerandi niðurstöðu

Þrátt fyrir að Jóhanna og Steingrímur J. hafi haldið því fram undanfarnar vikur, að þjóðaratkvæðagreiðaln verði nánast marklaus vegna þess að "betra tilboð" liggi á borðinu, þá er ekkert útlit fyrir að kúgararnir séu tilbúnir til að gefa nokkuð eftir af kröfum sínum á hendur íslenskum skattgreiðendum, sem þó eru engir aðilar að málinu, samkvæmt íslenskum lögum og tilskipunum ESB.

Viðræður við fjárkúgarana hafa engan árangur borið, en þeir hafa hinsvegar niðurlægt íslensku samninganefndina á allan mögulega hátt undanfarnar vikur, bæði með því að láta hana bíða úti í London í algerri óvissu um hvort og hvenær þrjótunum þóknaðist að tala við hana, kröfur hafa komið fram um að aðeins tveir nefndarmenn mættu á fundi og þegar nefndin hefur ætlað að fara heim, hefur verið látið berast, að ef til vill væri hægt að veita henni áheyrn daginn eftir, án þess að nokkuð hafi svo gerst.

Öllu þessu verður að mótmæla kröftuglega í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni frá lýðveldisstofnun og kröfum um aukna þátttöku almennings í mótun samfélagsins, verður að fylgja eftir með góðri þátttöku, loksins þegar tækifæri gefst fyrir fólk að láta til sín taka.

Nú verður helst að setja met í kosningaþátttöku og lögin þarf að fella úr gildi, með afgerandi hætti, til að sýna kúgurunum og heiminum öllum, að íslenskir skattgreiðendur láta ekki hneppa sig í erlendan skattaþrældóm, baráttulaust.

 


mbl.is Kosningarnar blasa við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband