Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
3.3.2010 | 22:17
"Hver sem niðurstaðan verður"
Steingrímur J. sagði við ABC fréttastofuna norsku, að samningaviðræðum um Icesave yrði haldið áfram "hver sem niðurstaðan verður" í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn. Með þessu orðalagi hlýtur Steingrímur að vera að gefa í skyn, að eitthvað sé tvísýnt um hver úrslitin muni verða.
Þetta er auðvitað alveg dæmalaust stagl í manninum, því varla hvarflar að nokkrum manni, að JÁ atkvæði verði mörg, því nú er nánast öruggt, að nánast verða NEIin 100%, því varla fer nokkur einasti maður á kjörstað til annars, en að sýna fjárkúgurunum hug sinn og þrátt fyrir eina og eina rödd skósveina Jóhönnu og Steingríms á blogginu fram að þessu, þá hljóta þær allar að vera þagnaðar núna.
Þjóðarhagur er að veði í þessu varmarstríði við þjóðir, sem vanar eru að beita aðra ofbeldi og yfirgangi og ætla nú að beita íslenska skattgreiðendur fjárkúgunum af verstu tegund.
Eina vopnið sem kúgurunum mun virkilega svíða undan, er einróma niðurstða í kosningunni: NEI
![]() |
Viðræður geta haldið áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2010 | 18:03
Er samstaða flokkanna að rofna?
Ekki virðist samgangur vera meiri en svo á milli formanna stjórnmálaflokkanna, að stjórnarandstaðan er ekki lengur látin vita hvað samninganefndin er að aðhafast úti í London, heldur fær hún nú eingöngu tilkynningu frá fulltrúa í nefndinni um að nefndin sé á leiðinni til fundar við fjárkúgarana.
Eftir því að dæma, er ekki lengur samráð um hvað sé lagt fyrir kúgarana, heldur virðast Jóhanna Steingrímur J. hafa tekið málin aftur í sínar hendur, eins og það er nú gæfulegt, miðað við fyrri "afrek" þeirra í þessu máli.
Nú virðist vera reynt að gera örvæntingarfulla lokatilraun til þess að klóra saman einhverri niðurstöðu, eða til að fá nýtt "besta tilboð" frá Bretum og Hollendingum, eingöngu til þess að hafa einhverja ástæðu til að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna, en íslensku ráðherrarnir gera allt, sem hægt er til að þóknast hinum erlendu herrum, sem alls ekki vilja að þessi atkvæðagreiðsla fari fram.
Ekki er hægt að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni, nema fella lögin um hana úr gildi og reyni Jóhanna og Steingrímur J. slíkar hundakúnstir, verður stjórnarandstaðan að standa í lappirnar og sjá til þess, að málið fái ekki afgreiðslu á Alþingi.
Eins og málþóf geta verið leiðinleg, verður að beita því nú, ef þörf krefur og sjá til þess, að atkvæðagreiðsla fari ekki fram í þinginu með sérstakri flýtimeðferð og afbrigðum.
Nú ríður á, að þjóðin standi saman og ljúki þjóðaratkvæðagreiðslunni með risastóru NEIi.
![]() |
Sitja á fundi í London |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2010 | 16:18
Besti listinn er ágætis grín
Jón Gnarr, sem áður hefur boðað að hann vildi verða borgarstjóri, vegna þess að hann vantaði þægilega innivinnu, hefur nú kynnt framboðslista sinn fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor og samanstendur hann af 25 listamönnum og öðrum grínistum.
Árið 1971 kom fram svipað framboð fyrir Alþingiskosningar og var ástandið í þjóðfélaginu ekki ósvipað því, sem það er nú, þó ekki alveg eins slæmt, en þá var kreppa vegna hruns síldarstofnsins og ungt fólk var í hálfgerðum uppreisnarhug, eftir 68byltinguna, svokölluðu.
O-flokkurinn stóð fyrir ýmsum skemmtilegum uppákomum og uppátækjum, t.d. tíðkaðist í þá daga, að flokkarnir stóðu fyrir bílahappadrættum, til fjáröflunar fyrir kosningar, en O-flokkurinn breytti út af því og stóð fyrir fjáröflunarhappdrætti, þar sem gamalt Mövereiðhjól var aðalvinningur.
Kannski Jón Gnarr og félagar lífgi upp á væntanlega kosningabaráttu með svipuðum uppátækjum og geri kosningarnar þannig skemmtilegri, en þær eru venjulega. Ekki veitir af húmor inn í pólitísku umræðuna á þessum síðustu og verstu tímum.
Líklega fer samt fyrir þessu nýja framboði eins og O-flokknum á sínum tíma, en hann fékk fá atkvæði í kosningunum, ef rétt er munað náði hann ekki einu sinni kjörfylgi, sem nam þeim fjölda stuðningsmanna, sem þurfti til að bjóða fram litsta í kosningum.
Eftir sem áður má hafa nokkurt gaman af uppátækinu.
![]() |
Stjörnum prýddur Besti listi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2010 | 15:02
InDefence talar máli þjóðarinnar - ríkisstjórnin ekki
Ríkisstjórnin rembist nú eins og rjúpan við staurinn við að ná nýjum "samningi" við Breta og Hollendinga til þess að geta, að kröfu fjárkúgaranna, fallið frá þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem lög frá Alþingi gera ráð fyrir að fari fram, eigi síðar en 6. mars n.k.
Einnig hamast ráðherrarnir og taglhnýtingar þeirra við að tala atkvæðagreiðsluna niður, m.a. með því að segja hana marklausa, vegna þess að á borðinu liggi "betri samningur". Atkvæðagreiðslan snýst hinsvegar ekki um "betri" eða "verri" samning, heldur snýst hún um að staðfesta eða hafna lögum um ríkisábyrgð á "versta samning lýðveldissögunnar", en þau lög voru samþykkt á Alþingi 30. desember s.l., en forseti vísaði til þjóðarinnar til staðfestingar, eða höfnunar.
Þegar til landsins flykkjast erlendir fjölmiðlamenn til þess að fylgjast með þessum sögulega atburði, sem atkvæðagreiðslan er, verður það að teljast með ólíkindum, að ríkisstjórnin skuli ekki nota tækifærið til þess að koma málstað Íslands á framfæri og útskýra fjárkúgun ofbeldisseggjanna bresku og hollensku í leiðinni.
Sem betur fer, eru þó félagarnir í InDefence óþreytandi við kynningu á réttindum íslenskra skattgreiðenda og þeim bolabrögðum, sem kúgararnir reyna að beita við að hneppa þjóðina í skattalegan þrældóm til næstu áratuga til greiðslu vaxta, sem eru þeim óviðkomandi.
Þökk sé InDefence fyrir þeirra framgöngu, en því meiri er skömm ríkisstjórnarinnar og skósveina hennar.
![]() |
Mikill áhugi erlendra fjölmiðla á þjóðaratkvæðagreiðslunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2010 | 11:54
Af hverju var málið höfðað hérlendis?
Hæstiréttur hefur vísað frá dómi, kröfu ríkislögreglustjóra um heimild til að leggja hald á 1,7 milljarða króna innistæðu grunaðrar gjaldeyrirsvindlara í Enskilda Banken í Svíþjóð.
Ekki skal dregið í efa, að lögreglustjórinn hafi talið þörf á því að leggja hald á bankainnistæðurnar, á meðan málið væri í rannsókn, en án þess að það komi fram í fréttinni, hlýtur þetta mál að vera rekið fyrir röngum dómstól.
Haldlagning bankainnistæðna í Svíþjóð, hlýtur að þurfa staðfestingu sænskra dómstóla, en ekki íslenskra, því ef íslenskir dómstólar gætu staðfest haldlagningu eigna íslendinga erlendis, án aðkomu dómstóla í hverju landi fyrir sig, þá væri nú auðvelt að eltast við eignir útrásarmanna í skattaparadísunum.
Því miður getur ekki verið, að málin séu svona einföld.
![]() |
Fá ekki að leggja hald á fé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.3.2010 | 10:40
Í síðasta lagi 6. mars, segir í lögunum
Lögin um þjóðaratkvæðagreiðsluna vegna ríkisábyrgðar á skuldbindingar Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta vegna skulda einkafyrirtækisins Landsbanka, segja að atkvæðagreiðslan skuli fara fram, svo fljótt sem mögulegt er og eigi síðar en 6. mars 2010.
Þrátt fyrir ýmsar skondnar yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. um málið, þar á meðal að það sé marklaust að fella lögin úr gildi, eins og skoðanakannanir sýna að muni gerast, verður að ætlast til þess, að ríkisstjórnin fari að lögum sem hún hefur sjálf beitt sér fyrir að samþykkt væru á Alþingi. Það er vægast sagt undarlegt að heyra ráðherra halda því fram, að slík lagasetning sé bara hálfgert grín, sem ekki beri að taka alvarlega. Sýni ráðherrar lögum ekki meiri virðingu en þetta, geta þeir varla ætlast til að þegnarnir lúti öðrum lögum, er þá snerta, skilyrðislaust.
Ef ríkisstjórninni dytti í hug, að bera upp frumvarp á Alþingi, sem hefði þann tilgang að fresta atkvæðagreiðslunni, þá verður að vera hægt að treysta stjórnarandstöðunni til þess að standa gegn öllum slíkum áformun af hörku og beita til þess málþófi fram á laugardag, ef með þarf. Það yrði seint fyrirgefið, ef atkvæðagreiðslunni yrði frestað, hvað þá ef fallið yrði frá henni og hún slegin af.
Kjósendur verða að fá að sýna hug sinn til fjárkúgaranna á laugardaginn, með því að krossa við NEI.
Þeir örfáu, sem ætla sér að merkja við Já, verða að fá að gera það líka, þó í raun sé ótrúlegt að nokkur muni greiða atkvæði á þann veg.
![]() |
Þjóðaratkvæði í skugga óvissu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2010 | 21:58
Nefndin lætur Breta spila með sig áfram
Íslenska "samninganefndin" um skuldbindingar Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, sem Bretar og Hollendingar vilja koma á skattgreiðendur hérlendis, hefur verið eins og Jó-Jó milli Íslands og Bretlands og þotið yfir hafið, hvenær sem Bretar hafa látið skína í, að kannski og einhverntíma myndu þeim þóknast að tala við hana.
Nefndin hefur beðið úti í London síðan fyrir síðustu helgi og vonast eftir því að fjárkúgaranir myndu hringja og láta vita hvar ætti að afhenda töskuna með lausnargjaldinu, en án árangurs og hugði því að heimferð í fyrramálið.
Þá láta Bretar henni berast þann orðróm, að verið gæti að þeir myndu láta svo litið að eyða í hana nokkrum orðum á morgun og þá er heimferðin slegin af, samstundis í samræmi við þá þrælslund, sem einkennt hefur öll samskipin við ofbeldismennina, sem ætla sér nú að plata Jöhönnu og Steingrím J. til að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni með því að gefa í skyn, að þeir væru ef til vill tilbúnir til að slá eitthvað af vaxtaokri sínu af ólöglegri fjárkúgunarkröfu.
Þó málið sé ekki hlægilegt í heild sinni, er þó fyndið að Jóhanna og Steingrímur J. snúast eins og skopparakringlur kringum kúgara þjóðarinnar og vilja allt gera til að þóknast þeim.
Þetta eru alvarleg einkenni um Stokkhólmsheilkennið.
![]() |
Bretar vilja ræða málin áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.3.2010 | 20:56
Siðgæðisverðir náttúrunnar
Dýraverndunarsamtökin Peta krefjast þess, að hvítabjörninn Knútur, sem einu sinni var lítill og sætur kútur, verði vanaður svo hann leiðist ekki út í sifjaspell með frænku sinni, en þau skötuhjú dvelja saman um þessar mundir í dýragarðinum í Berlín.
Þarna reyna samtökin að koma í veg fyrir hroðalegt sifjaspell, sem allir heiðvirðir menn hljóta að sjá að ekki er hægt að láta átölulaust, enda stórhætta á að siðferði hvítabjarna sé í stórhættu, fyrir utan að svona ólifnaður getur leitt til þess að Giovanna frænka eignist sína eigin litlu kúta, sem gestir í dýragarðinum gætu haft gaman af að fylgjast með.
Til þess að varna svona ólifnaði almennt í hinni villtu náttúru, þarf Peta að senda fjöldann allan af siðgæðisvörðum, allt frá ísbreiðum norðurhafa til afskekktustu staða Afríku, til að varna svona sifjaspellum ódannaðra villidýra, en slíkt hefur viðgengist í árþúsund, án þess að nokkur hafi bent blessuðum skepnunum á hversu ósiðlegt þetta er.
Þessir siðgæðisverðir náttúrunnar hafa greinilega svo yfirgripsmikla þekkingu á lífi villtra dýra, sem þeir eyða ævinni í að vernda, að aðdáun vekur.
Að ekki sé minnst á guðhræðsluna, hún er til mikillar fyrirmyndar fyrir blessaðar skepnurnar.
![]() |
Vilja kútta undan Knúti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2010 | 14:48
Hvenær ætla stjórnvöld að vakna?
Nú eru 17.597 manns á atvinnuleysisskrá og hefur fjölgað um 2.268 frá áramótum. Með sama áframhaldi verða yfir 20.000 manns orðnir atvinnulausir áður en maímánuður gengur í garð.
Ekkert bólar á aðgerðum ríkisstjóranarinna í atvinnumálum, en enginn er að ætlast til að hún skapi vinnu fyrir allt þetta fólk, en hún getur gripið til ýmissa aðgerða til þess að auka trú og getu einkafyrirtækja til alls kyns framleiðslustarfa og lágmarkskrafa væri, að hún hætti að flækjast fyrir og tefja þær fáu stórframkvæmdir, sem vilji er til að hefja, en einstakir ráðherrar barist gegn með öllum ráðum.
Í landinu ríkir alger stöðnun og raunar afturför og nánast það eina sem kyndir undir verðbólgunni eru stjórnvaldsaðgerðir, aðallega skattahækkanabrjálæði. Við álíka aðstæður annarsstaðar, t.d. í Lettlandi er verðhjöðnun, enda ekkert sem kyndir undir eftirspurn eftir vörum og þjónustu þar, frekar en hér.
Einu framkvæmdirnar sem ríkinu dettur í hug að ráðast í við þessar aðstæður, eru nýtt sjúkrahús og Vaðlaheiðargöng. Bygging sjúkrahússins gæti í fyrsta lagi hafist eftir þrjú ár og leysir því engan bráðavanda og Vaðlaheiðargöng verða afar dýr framkvæmd, sem mun skila tiltölulega fáum störfum, enda verða starfsmennirnir sennilega aðallega innfluttir, sérhæfðir starfsmenn í gangnagerð.
Ef ríkisstjórnin vaknar ekki fljótlega, munu hennar örlög verða að deyja vöggudauða.
![]() |
39 sagt upp í hópuppsögnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2010 | 12:26
Jóhanna og Steingrímur J. eru ótrúleg
Afstaða Jóhönnu og Steingríms J. til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um núgildandi Icesavelög, sem fram á að fara á laugardaginn, er gjörsamlega ótrúleg og raunar algerlega óskiljanleg.
Þau leggja alla áherslu á, að láta undan þeirri kröfu kúgaranna, að samþykkja nýjan "Icessavesamning" á næsta sólarhring, eingöngu til þess að geta hætt við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem Bretar, Hollendingar og ESB í heild sinni óttast meira en nokkuð annað.
Þessi ótti byggist á því að neitun íslenskra skattgreiðenda við því, að láta neyða sig í skattaþrældóm erlendra kúgunarþjóða vegna ólöglegrar nauðungar á yfirtöku skulda, sem þeim koma ekkert við, þeir hafa ekki gefið umboð til að væri stofnað til og ekki notið neinna hlunninda vegna, heldur þvert á móti þurft að taka á sig atvinnuleysi, skattahækkanir og skert lífskjör vegna óábyrgrar stjórnunar á einkafyrirtækjum.
Ef ríkisstjórninni dytti í hug að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni, eða fella lögin um hana úr gildi, verður að mótmæla slíku með öllum ráðum.
Íslendingar geta skrifað sig á spjöld sögunnar með góðu fordæmi í baráttunni gegn ólögmætum kröfum vegna skulda óreiðumanna og mega ekki láta það tækifæri ganga sér úr greipum.
![]() |
Áfram fundað í Lundúnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)