Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Icesave gegn þjóðinni

Nú reynir almenningur (nema kjósendur Samfylkingarinnar) að framleiða eins mikinn hávaða gegn þrælasamningnum um Icesave skuldir Landsbankans, sem því miður virðist samt ekki muni duga til að snúa Alþingi af villu síns vegar.

Icesave er skuld Landsbankans og kemur þjóðinni og ríkissjóði nákvæmlega ekkert við, enda bannar tilskipun ESB um innistæðutryggingasjóði, ríkisábyrgð á slíka tryggingasjóði, vegna þess að ef einstök lönd veita slíkar ríkisábyrgðir, skekkir það samkeppnisgrundvöll banka innan ESB.  Þess vegna má Alþingi alls ekki samþykkja slíka ríkisábyrgð.

Það er dapurlegt að hlusta á þingmenn og ráðherra tala frekar máli kúgaranna, heldur en að halda fram málstað sinnar eigin þjóðar og reyna að réttlæta þessar gerðir sínar með því, að þannig skapist á ný traust og trú útlendinga á íslensku efnahagslífi og íslensku krónunni.

Þeir ættu frekar að reyna að efla traust og trú sinna eigin þegna, á því, að þeir séu færir um að leysa úr þeim vanda, sem þjóðin stendur frammi fyrir innanlands.


mbl.is Hávaði gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðslugeta eða greiðsluvilji

Ekki skal gert lítið úr greiðsluvanda íbúðareigenda um þessar mundir, en varla getur það talist dæmigert fyrir erfiðleikana að tiltaka vanda hjóna, sem bæði hafa atvinnu, sem skulda 8,7 milljónir í húsnæðislán.  Vafalaust er íbúðin orðin of lítil fyrir fjölskylduna og ekki selst hún núna, frekar en aðrar íbúðir, hvorki í Reykjavík eða annarsstaðar á landinu.

Ef ekki er raunveruleg greiðslugeta til að greiða af 8,7 milljóna húsnæðisláni, hvernig ætti þá að vera hægt að stækka við sig og fara í stærri og dýrari íbúð?  Spurningin sem vaknar, er einmitt sú, hvort hér sé um skort á greiðslugetu að ræða, eða skort á greiðsluvilja.  Það er tvennt ólíkt.

Fjölmiðlar mega ekki missa sig alveg í umræðunni um greiðsluvanda heimilanna og fara svo langt, að fjalla um greiðsluvilja einstakra skuldara, þegar raunverulegi vandinn er greiðluerfiðleiki margra heimila, sem eru með margfalt meiri greiðslubyrði, en sem nemur 8,7 milljóna húsnæðisláni.

Þessi frétt hlýtur að valda mörgum heilabrotum hjá þeim sem raunverulega berjast í bökkum.


mbl.is Greiðsluviljinn að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð blessi Ísland

Þegar ríkisstjórnin komst til valda í febrúarbyrjun, lýsti hún því yfir, að styrking krónunnar væri forgangsmál ríkisstjórnarinnar og fyrsta skrefið í þá átt væri að reka Davíð Oddsson úr bankastjórastóli seðlabankans.  Síðan hefur gengið stöðugt farið lækkandi.

Þegar norski förusveinninn var ráðinn seðlabankastjóri til bráðabirgða, sagði hann að sitt forgangsverkefni væri að vinna að styrkingu krónunnar.  Eftir það fór gengið lækkandi.

Nýji seðlabankastjórinn, Már Guðmundsson, sem er höfundur núverandi peningamálakerfis í landinu, sagði, þegar hann tók til starfa í bankanum, að forgangsmálið væri að styrkja gengi krónunnar.  Síðan hefur það lækkað enn.

Á þessu línuriti má sjá hvernig gengi krónunnar hefur farið stöðugt lækkandi síðan Davíð var rekinn.  Brottrekstur hans átti að vera fyrsta skrefið í styrkingu gengisins.  Annað skrefið var umsóknin um aðild að ESB.  Eingöngu við að sækja um, átti tiltrú á krónuna og efnahagslífið að aukast.  Þriðja skrefið var stöðugleikasáttmálinn, en hann átti að vera enn eitt skrefið til að styrkja krónuna.  Fjórða skrefið á að vera samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave skuldum Landsbankans.

Ef allar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar verða jafn áhrifaríkar og þær sem hér hafa verið nefndar, er alveg óhætt að segja:  "Guð blessi Ísland."


mbl.is Bandaríkjadalur komin í 130 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður að meiri - svolítið

Sigmundur Ernir hefur nú beðist velvirðingar á því, að hafa mætt í þingsal, eftir að hafa drukkið rauðvín með matnum, fyrr um kvöldið.  Þetta er gott, svo langt sem það nær.  Hann á hins vegar eftir að skýra út, hvers vegna hann skrópaði á þingfundi þennan dag og var þess í stað að spila golf og þiggja mat og vín af MP banka.  Mitt í umræðu um þann skaða, sem bankar og útrásarmógúlar hafa skapað þjóðinni, er það dómgreindarskortur hjá þingmanni, að þiggja slík boð.

Dómgreindarskortur númer tvö, hjá þingmanninum, var að mæta í þingið eftir veisluna og dómgreindarskortur númer þrjú, var að reyna að þræta fyrir drykkjuna eftirá, þar sem ekki fer framhjá neinum, sem horft hefur á myndbandið af þingfundinum, að þar fór ekki allsgáður maður.

Hefði Sigmundur Ernir strax játað á sig þessi mistök og beðist afsökunar á þeim, hefði þetta aldrei orðið neitt mál og hann orðið maður að meiri.  Hann reynir nú að bæta úr og tekst það - svolítið.

Annað, sem er athyglisvert, er að aðrir þingmenn og forseti þingsins skuli ekki hafa bent honum á, að þetta væri ekki viðeigandi í þingsalnum og bent honum á að fara heim að sofa og geyma ræðuna sína til betri tíma, úr því að hann hafði skrópað á þingfundinum allan daginn, hvort sem var.

Svo eru þingmenn undrandi á því, að virðing Alþingis fari þverrandi.


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með hvaða vöxtum?

Íslandsbanki hyggst bjóða skuldurum húsnæðislána einhverja óskilgreinda lækkun á höfuðstól húsnæðislána, gegn því að lánunum verði breytt í óverðtryggð krónulán.  Ekki kemur fram í fréttinni á hvaða vaxtakjörum þessi nýju lán verða veitt, né hvort þetta eigi að vera jafngreiðslulán eða lán með jöfnum afborgunum höfuðstóls.

Húsnæðislán hafa fram að þessu verið jafngreiðslulán (annuitet) og því hefur vöxtum verið dreift á afborgunartímann og greiðslur því verið jafnháar í hverjum mánuði, allan lánstímann.  Höfuðstóll lánanna hefur því ekki byrjað að lækka að ráði, fyrr en á seinni helmingi lánstímans og eignamyndun því verið lítil fyrri helminginn af tímanum.  Verðbætur hafa síðan bæst við höfuðstólinn, sem flestir virðast halda að sé ástæðan fyrir því að lánin lækka lítið, en það er alls ekki raunin, heldur greiðslufyrirkomulagið.

Ef lánunum verður breytt í óverðtryggð lán, með breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum, munu mánaðargreiðslurnar verða miklu hærri en nú er, framan af lánstímanum, en eignamyndun verður hraðari.  Nokkuð víst er, að slík breyting mun ekki verða til að létta greiðslubyrðina, heldur gæti það orðið þvert á móti, þar sem vextir yrðu alltaf miðaðir við að vera hærri en verðbólgan.

Það er ekki allt gull sem glóir.   Ekki í þessu tilfelli heldur, því enginn þarf að halda að bankinn ætli að fara að gefa honum stórfé.


mbl.is Höfuðstóll lána verði lækkaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin fékk þyngsta höggið

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, segir að Exista hafi tapað mestu í efnahagshruninu, fyrir utan bankana sjálfa.  Þetta er mikil rangtúlkun hjá blessuðum stjórnarformanninum, því íslenskur almenningur varð fyrir mesta tapinu og þarf að glíma við það um mörg ókomin ár.

Eins og aðrir útrásarmógúlar kennir Lýður stjórnvöldum og stofnunum þeirra með Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið í broddi fylkingar um, hve efnahagskreppan skall á þjóðinni af miklum þunga.  Vera má að Fjármálaeftirlitið hefði átt að bregðast harðar við krosseignatengslunum milli banka- og útrásarmógúlanna, en sökin hlýtur samt fyrst og fremst að vera þeirra sjálfra, taumlausrar græðgi og óskiljanlegrar áhættutöku þeirra við skuldsett kaup í ýmsum vonlausum fjárfestingum, sem nú hrynja hver á fætur annarri, innanlands og erlendis.

Exista á nú í deilum við bankana vegna tugmilljarða stöðutöku gegn krónunni og vill í þeirri deilu miða við gengisskráningu evrópska seðlabankans, en ekki þess íslenska, sem þó sér um opinbera gengisskráningu krónunnar.  Mismunur vegna þessa eru margir milljarðar króna, sem Exista vill hagnast aukalega á þessu gjaldeyrisbraski og von um hrun krónunnar.

Það er greinilegt að samviskan heldur þessum mógúlum ekki frá góðum svefni.


mbl.is Fengum langmesta höggið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er uppi á henni typpið

Það var aldeilis uppi á henni typpið, landsliðskonunni sem heimtaði dómara með typpi í búningsklefanum eftir landsleikinn við Frakka í kvennaknattspyrnunni.  Hvað hún ætlaði að gera við typpisdómarann eftir að hún var orðin nakin í búningsklefanum fylgdi ekki fréttinni.

Ekki er langt síðan engum datt í hug að taka typpislausa einstaklinga, sem spiluðu knattspyrnu, alvarlega og litu svo á að enginn, sem væri án typpis, ætti að koma nálægt knattspyrnu og allra síst að keppa í þeirri íþrótt.  Knattspyrnukonur hafa lagt á sig mikla vinnu og erfiði til að öðlast viðurkenningu sem fullgildir þátttakendur í íþróttinni og eru þær núna að uppskera afrakstur erfiðisins með þátttöku í Evrópumótinu.

Ekki er heldur langt síðan kvenfólk fór að dæma leiki í knattspyrnu og hafa því auðvitað miklu minni reynslu en karlarnir í því starfi.  Dómarar gera alls kyns mistök í knattspyrnuleikjum, sérstaklega framan af ferli sínum, en með tímanum ná þeir betri tökum á leiknum, alveg eins og það tekur langan tíma að verða góður knattspyrnumaður.

Ef knattspyrnukonur eru þurfandi fyrir typpi í búningsklefanum, þarf það þá endilega að vera dómaratyppi?

 


mbl.is EM: Ég vil dómara með typpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn stendur í lappirnar

Það er aumt fyrir andstæðing Framsóknarflokksins, að þurfa að hrósa honum fyrir að vera eini flokkurinn á Alþingi, sem stendur ennþá í lappirnar varðandi ríkisábyrgðina á Icesave skuldum Landsbankans.  Þetta er skuld, sem einkabanki stofnaði til og hefur aldrei verið á ábyrgð almennings, enda er í raun lagt bann við slíkri ríkisábyrgð í tilskipun Evrópusambandsins um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta. 

Ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðnum telst vera markaðsmismunun milli landa og því óleyfileg samkvæmt tilskipun ESB og ekki gert ráð fyrir henni í íslenskum lögum.  Hefði það einhverntíma verið vilji ESB að ríkisábyrgðir skyldu vera á innistæðutryggingasjóðum landanna, þá er ekki nokkur hætta á öðru, en að sambandið hefði verið löngu búið að skikka Íslendinga, sem aðra, til að taka slíka ábyrgð inn í sína lagabálka.  Þá þyrfti heldur ekki að fjalla um það núna, eftirá.

Verði þessi þrælalög samþykkt, er verið að setja fordæmi um að einkabankar verði framvegis reknir á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, sem allir hljóta að sjá, að er algerlega á skjön við alla heilbrigða skynsemi.

Ríkisábyrgðina má ekki samþykkja undir neinum kringumstæðum. 

Menn verða að hugsa lengra en til morgundagsins.


mbl.is Icesave afgreitt úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska ríkisstjórnarinnar

Af sýndarmennsku einni saman, ætlar ríkisstjórnin nú að skipa starfshóp, sem á að undirbúa skaðabótamál gegn þeim sem ollu almenningi fjárhagstjóni í aðdraganda bankahrunsins, í þeim tilgangi að fá þá dæmda til greiðslu skaðabóta og krefjast kyrrsetningar eigna.

Rannsóknarnefnd Alþingis mun skila sínum niðurstöðum í nóvemberbyrjun og undanfarið hefur embætti Sérstaks saksóknara verið eflt, m.a. með ráðningu nýrra saksóknara, sem eiga að rannsaka hver sinn bankann og Fjármálaeftirlitið sinnir einnig rannsóknum á þessum málum.

Alveg er öruggt að fjöldi mála verður höfðaður á grundvelli rannsókna þessara aðila og því vaknar sú spurning, hvort höfða eigi mörg mál vegna sömu sakargiftanna.  Reikna verður með því að allir banka- og útrásarmógúlar sæti nú þegar rannsókn hjá framangreindum rannsóknaraðilum og ef munað er rétt, er ekki hægt að lögsækja menn oft, fyrir sömu sakirnar.  Því hlýtur þetta nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar að vera hreint lýðskrum, eingöngu sett fram til að lægja óþreyjuöldurnar í þjóðfélaginu, sem risið hafa vegna þess hve rannsóknirnar taka langan tíma.

Vissulega taka mál ótrúlega langan tíma í rannsókn og saksókn, en áður en lýkur hljóta allir mógúarnir að verða komnir bak við lás og slá, hvort sem þeir heita Sigurður, Hreiðar, Sigurjón, Bjöggar eða Jón Ásgeir, svo nokkur nöfn séu nefnd af handahófi.

Ríkisstjórnin á ekki að vera að stunda einhverja sýndarmennsku í þessum efnum.


mbl.is Höfða einkamál gegn hrunfólkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir axlar enga ábyrgð á útrásinni

Kröfur, sem borist hafa í þortabú Baugs Group, eru að upphæð 316,6 milljarðar króna og þar af eru almennar kröfur (án veða og trygginga) að upphæð kr. 170,2 milljarða króna.  Þetta eru svo stjarnfræðilegar upphæðir í þrotabúi eins fyrirtækis, að fá fordæmi munu vera öðru eins.  Þetta er þó ekki nema hluti þess, sem tapast á fyrirtækjum, sem tengjast þessum viðskiptaköngulóarvef, því áður hafa Stoðir, Landic, Fons og fleiri fyrirtæki orðið gjaldþrota og skilið eftir sig tugmilljarða skuldir, hvert um sig.

Einu fyrirtæki var þó skotið undan þessum gjaldþrotum, en það er Hagar hf., sem selt var einkafyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, á 30 milljarða króna, sem Kaupþing lánaði Jóni fyrir að öllu leyti í fyrrasumar og ekki á að byrja að greiða af því láni fyrr en á árinu 2011.  Það verður að teljast með ólíkindum, að þeir aðilar sem skilja eftir sig hunduð milljarða tap, sem aðrir verða að taka á sínar herðar, skulu hafa fengið aðstoð íslensks banka, rétt fyrir hrun, til þess að skjóta eignum undan gjaldþroti, með þessum hætti.

Skiptastjóri Baugs Group hlýtur að rifta þessum gjörningi og reyna síðan að fá betra verð fyrir Haga, enda nemur þessi undandráttur um 10% af skuldunum, sem skildar voru eftir í Baugi Group.

Jafnvel þó ekki fengist betra verð fyrir Haga, er óréttlætanlegt að Jón Ásgeiri verði gert kleyft að halda allri ínnlendu starfseminni óskertri í sínum yfirráðum, en aðrir verði látnir axla tapið af útrásinni.


mbl.is Kröfur upp á 316,6 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband