Guð blessi Ísland

Þegar ríkisstjórnin komst til valda í febrúarbyrjun, lýsti hún því yfir, að styrking krónunnar væri forgangsmál ríkisstjórnarinnar og fyrsta skrefið í þá átt væri að reka Davíð Oddsson úr bankastjórastóli seðlabankans.  Síðan hefur gengið stöðugt farið lækkandi.

Þegar norski förusveinninn var ráðinn seðlabankastjóri til bráðabirgða, sagði hann að sitt forgangsverkefni væri að vinna að styrkingu krónunnar.  Eftir það fór gengið lækkandi.

Nýji seðlabankastjórinn, Már Guðmundsson, sem er höfundur núverandi peningamálakerfis í landinu, sagði, þegar hann tók til starfa í bankanum, að forgangsmálið væri að styrkja gengi krónunnar.  Síðan hefur það lækkað enn.

Á þessu línuriti má sjá hvernig gengi krónunnar hefur farið stöðugt lækkandi síðan Davíð var rekinn.  Brottrekstur hans átti að vera fyrsta skrefið í styrkingu gengisins.  Annað skrefið var umsóknin um aðild að ESB.  Eingöngu við að sækja um, átti tiltrú á krónuna og efnahagslífið að aukast.  Þriðja skrefið var stöðugleikasáttmálinn, en hann átti að vera enn eitt skrefið til að styrkja krónuna.  Fjórða skrefið á að vera samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave skuldum Landsbankans.

Ef allar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar verða jafn áhrifaríkar og þær sem hér hafa verið nefndar, er alveg óhætt að segja:  "Guð blessi Ísland."


mbl.is Bandaríkjadalur komin í 130 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf að koma þessum vitleysingum frá völdum sem allra fyrst, eru Íslendingar svona latir eða halda þeir að allt "reddist" bara? Það lýtur út fyrir að ríkisstjórnin sé að reyna að knésetja landið svo fólk sjái ekkert annað fært í stöðunni en að ganga í ESB.

Geir (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 18:52

2 Smámynd: Guðjón Þór Þórarinsson

Sennilega vissi Haarde kallinn hvað hann var að segja með þessum orðum , Guð blessi ísland.

Guðjón Þór Þórarinsson, 26.8.2009 kl. 21:02

3 identicon

Sérstakt hvað fólk leyfir sér mikla kröfuhörku. Ríkisstjórnin tekur við rústum frá fyrri hægri stjórn sem sofnaði á verðinum vegna þess að hún var of upptekin af eigin hagsmunum ("Hvaða máli skiptir þótt beljurnar hamstri fyrir utan girðinguna ef ég græði meira á því?" ).

Ef framfarir standa á sér skulu þið muna hvert ber að beina vendinum. Fallið hefur aldrei verið harðara - og sérstakt að hella úr skálum reiði sinnar á þá sem eru að reyna að bæta úr þeim óskunda sem forverar núverandi ríkisstjórnar bera mestmengis ábyrgð á - með því að láta stærri buddur og falskan ljóma hinnar íslensku mikilmennsku og egóisma skyggja á þarfa varkárni og skynsemi í öryggismálum.

Íslendingar eru afar fljótir að gleyma eins og sannast með bloggfærslum líkt og þessari. Sýnið þeim þolinmæði sem gera sitt besta að vinna úr veseni annarra sem leiddi til þeirrar mestu kreppu sem Ísland hefur augum litið. Stærri vandamál þýða vanfundnari lausnir, sem þýðir að vandamál á stærð við það sem við nú búum við ætti að veita ríkisstjórninni nánast ómælda þolinmæði af hálfu þjóðarinnar. 

Ef þjóðin þarf að þjást á meðan lausn finnst mun hún kannsi ekki vera eins fljót að gleyma í næstu kostninum hver raunverulega bar ábyrgð á þeirri nauð sem á undan hafði gengið.

Helgi S. Karlsson (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 02:02

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Helgi, þetta eru dæmigerð svör rökþrota manna, sem endalaust bulla um að allt sé "hinum" að kenna, enda þótt allir viti, að það var ekki hugmyndafræðin sem brást, heldur glæpamennirnir sem nýttu sér hana til verka sinna.  Þó lögin banni mönnum að stela, gera margir það samt.

Þú reynir ekki heldur að mótmæla því, að ekkert hefur staðist af því, sem ríkisstjórnin hefur sagt um styrkingu krónunnar (sem nú er reyndar lægri en við hrunið), né aukið traust á efnahagslífi þjóðarinnar.

Axel Jóhann Axelsson, 27.8.2009 kl. 08:47

5 identicon

Rökþrota manna? Hvar eru rök þín fyrir því að þetta sé ekki "hinum að kenna" eins og þú orðar það? Hvar eru rök þín fyrir því að "allir viti að það var ekki hugmyndafræðin sem brást"? Þetta eru kannski nýjar upplýsingar fyrir þig, en það sem hér fór fram og leiddi til falls bankanna (þótt margt annað ólöglegt hafi komið upp í kjölfarið, þá hafði það ekkert með fallið að gera ) sem hinir svokölluðu glæpamenn þínir gerðu til þess að byggja upp þessa spilaborg sína var innan ramma laganna. Ef þig vantar rök fyrir því, endilega kynntu þér málið betur áður en þú kemur með fullyrðingar um óbrostna hugmyndafræði.

Þegar þú býrð til heila stétt af fólki þar sem aðal markmið innan þeirrar stéttar er að græða, þá mun hún gera allt til þess að framfylgja nákvæmlega því markmiði svo lengi sem það er innan ramma laganna (þótt einhverjir stígi fyrir utan hann, en það er ekki það fólk sem er til umræðu hér). Ef þú efast þessi orð skaltu íhuga af hverju kaptítalisminn virkar og kommúnisminn ekki. 

Græðgin ein og sér er keyrslukraftur bak við flest viðskipti í kapitalísku samfélagi. Allt fram yfir það sem við þurfum til að lifa þannig að við sveltum ekki og höfum það sem við nauðsynlega þurfum má kalla græðgi. Allt er þetta skilgreiningaratriði. Þannig að ef þú gefur heilli stétt viðmiðið um að afla og afla, þá mun hún gera það nákvæmlega innan þeirra ramma sem henni er sett - og þau viðmið eru lögin.

Því segi ég, myndiru bölva beljunum fyrir að fara út fyrir girðinguna til að bíta gras ef bóndinn passaði ekki að ekki væri gat sem þær kæmust í gegn um? Ríkisstjórninni ber að vera siðgæðisvörður þeirra einstaklinga sem hún elur af sér og lögunum ber að vera girðingin. Því til vitneskju skaltu horfa til heimsins. Þetta átti sér stað allstaðar þar sem þessi glufa í lögunum var til staðar. Hvað segir það þér? Mannskepnan er allstaðar eins og mun alltaf misnota þær glopur sem eru í boði. Ástæðan fyrir því að hvegi var fallið eins mikið og hér er vegna þess að þáverandi ríkisstjórn okkar svaf algjörlega á verðinum

Ástæðan fyrir lögum og reglum er vegna þess að ef við hefðum þær ekki myndum við brjóta þau öll. Það er í eðli okkar (hér er ekki ekki að tala um mig eða þig, heldur að líta til heildarmyndarinnar sem er mannskepnan). Þess vegna höfum við ríkisstjórn, lögreglu o.s.frv. Þessu fólki treystum við fyrir að "hugsa um hjörðina". Því skal ábyrgðin falla á bóndann ef beljan kemst út úr girðingunni.

--

Hvort sem þú sért sammála mér um að fyrri ríkisstjórn hafi borið ábyrgð á þessu eða ekki þá geturu ekki þrætt fyrir að núverandi ríkisstjórn er sú sem þarf að reyna að bæta úr ómögulegri stöðu. Hvað með þótt styrking krónunar hafi ekki farið sem skyldi? Helstu fræðimenn á okkar landi töldu, og telja enn að ástæðan fyrir því að krónan styrkist ekki er vegna þess að hún sem gjaldmiðill hefur ekkert traust á erlendum markaði, enda handónýtur gjaldmiðill með öllu. Vonast var eftir að krónan myndi styrkjast þegar við myndum sækja um í ESB þar sem þá var vonast eftir auknu trausti frá erlendum fjárfestum þar sem von væri fyrir því að við myndum á endanum taka upp evru og að fjárhagslegur stöðugleiki myndi koma til á Íslandi. Af hverju gerist það ekki? Er það ekki augljóst? Það er svo mikil mótstaða gagnvart ESB frá einangrunarsinnum og "spítumílófaogbrettumuppermar" heimspekingum að erlendir fjárfestar gera sér fullkomlega grein fyrir því að fjárhagslegur stöðugleiki á Íslandi er langt frá því í höfn. 

Ríkisstjórnin er að gera sitt besta til þess að bjarga ónýtum gjaldmiðli. En getið hvað, það mun ekki gerast vegna þess að skilgreiningin fyrir "ónýtur" er það að ekki er hægt að laga það sem um ræðir. 

Ef þú vilt gagnrýna þá sem eru að gera sitt besta til að bjarga okkur úr nánast ómögulegri stöðu, skaltu vera tilbúinn að koma með betri tillögur og bera fyrir þá sem stjórna þessu landi. Ef eitthvað vit er í orðum þínum munu án efa hlusta. Ef þú hefur enga betri tillögu ættiru að gera þér grein fyrir hversu erfið staðan er og hætta þessu kvarti og leyfa fólkinu að taka sinn tíma í átt að betri framtíð fyrir Ísland.

Róm var EKKI byggð á einum degi - og var eflaust ekki meira verk heldur en að redda Íslandi úr þessari kreppu.

Helgi S. Karlsson (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 15:23

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Helgi, kjarninn í því sem þú heldur fram, birtist í eftirfarandi:  "Ástæðan fyrir lögum og reglum er vegna þess að ef við hefðum þær ekki myndum við brjóta þau öll. Það er í eðli okkar (hér er ekki ekki að tala um mig eða þig, heldur að líta til heildarmyndarinnar sem er mannskepnan). Þess vegna höfum við ríkisstjórn, lögreglu o.s.frv. Þessu fólki treystum við fyrir að "hugsa um hjörðina". Því skal ábyrgðin falla á bóndann ef beljan kemst út úr girðingunni."

Ég er alls ekki sammála því, að líkja mannskepnunni við beljuna, sem sleppur út úr girðingunni, því ég ætla mannskepnunni að hafa meira vit á því sem hún er að gera, heldur en beljunni.

Það vantaði ekkert upp á að lög og reglur væru skýrar og í þessu tilfelli kom þetta að mestu frá ESB, vegna þáttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu og skyldu til að taka tilskipanir ESB inn í íslenska löggjöf. 

Vel má vera að græðgin stjórni okkur öllum að miklu leyti, en er ekki full langt gengið þegar þú segir að: " Allt fram yfir það sem við þurfum til að lifa þannig að við sveltum ekki og höfum það sem við nauðsynlega þurfum má kalla græðgi."   Ef enginn hefði metnað til þess að gera meira en rétt að hafa í sig og á, þá yrðu aldrei neinar framfarir, hvorki í tækni eða menntun t.d.

Þú segir að krónan sé ónýt og engir erlendir aðilar hafi ekki traust á henni, en ég vil meina að krónan sé aðeins mælitæki á efnahag þjóðarinnar, þ.e. hún mælir eingöngu þau verðmæti sem eru í þjóðarbúinu á hverjum tíma.  Það vantraust sem nú ríkir í okkar garð erlendis, er því vantraust á íslensku þjóðarbúi og horfum í atvinnulífinu til nánustu framtíðar.  Til þess að byggja upp traust að nýju, innanlands sem erlendis, þarf að keyra atvinnulífið í gang aftur, þannig að það verði á ný fært um að ráða fólk til starfa og skapa aukinn þjóðarauð.  Þá mun krónan styrkjast, en ekki með innantómu orðagjálfri stjórnmálamanna, sem annaðhvort stunda lýðskrum, eða hafa ekki þekkingu á því, sem þeir eru að fjalla um.

Í því ástandi, sem nú ríkir á Íslandi, er krónan að bjarga því sem bjargað verður, því það sem þarf að gerast, er að við þurfum að minnka innflutning og auka útflutning.  Við getum ekki til langframa flutt meira inn af vörum en við flytjum út, og þann raunveruleika er krónan að endurspegla núna.  Þrátt fyrir alla okkar erfiðleika er ekki ólíklegt að við verðum fljótari að ná okkur út úr þeim, en t.d. Lettar, Litháar, Írar o.fl., sem annaðhvort eru með Evruna, eða tengingu við hana.

Ef ríkisstjórnin skilur ekki þessa hagfræði, þá er hún ekki fær um að koma landinu á réttan kjöl á nýjan leik.

Axel Jóhann Axelsson, 27.8.2009 kl. 16:20

7 identicon

"Ég er alls ekki sammála því, að líkja mannskepnunni við beljuna, sem sleppur út úr girðingunni, því ég ætla mannskepnunni að hafa meira vit á því sem hún er að gera, heldur en beljunni"

Þegar ég tek svona til orða er ég ekki að meina einstaklinginn, heldur mannskepnuna í heild sinni. Það er fullt af einstaklinum þarna úti sem menntaðir eru í viðskiptum, sem og stunda þau - og munu ekki notfæra sér slíkar glopur í lagakerfinu. En ef þú ert með heilt samfélag af fólki og hundruðir, ef ekki þúsundir manna sem stunda slíkan iðnað munu alltaf vera svartir sauðir á meðal þeirra sem munu notfæra sér slíkar glopur. Þess vegna treystum við á lögin og eftirlit með þeim sömu lögum til þess að halda slíkum sauðum innan girðingarinnar. Ef við gætum treyst á skynsemi mannsins þyrftum við ekki slíkt eftirlit, né almennt séð lög eða reglur. En vegna þess að ávallt eru til einstaklingar sem ekki fylgja því sem siðferðin kennir okkur að sé rétt, verðum við að treysta á lögin til þess að halda þeim í skefjum - eða draga þá til saka ef þeir brjóta undan þeim lögum. Þess vegna eru það lögin og glopur innan þeirra sem brugðust okkur hér. Það þýðir ekki að einblína á þá sem notfæra sér slíkar glopur, því allstaðar í öllum samfélögum eru slíkir einstaklingar til staðar á meðal þeirra sem breyta rétt. Þess vegna verðum við á endanum ávallt að draga það til saka sem sett var á stokk til að vernda okkur frá þessum svörtu sauðum.

"Það vantaði ekkert upp á að lög og reglur væru skýrar og í þessu tilfelli kom þetta að mestu frá ESB, vegna þáttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu og skyldu til að taka tilskipanir ESB inn í íslenska löggjöf". 

Ég skal viðurkenna að ég man ekki hver þetta sagði, en dag einn las ég í Morgunblaðinu að við hefðum einmitt hunsað inngöngu í eitthvurt öryggisráð innan ESB er fylgist starfsemi banka vegna þess að þáverandi stjórn með Davíð í forsvari taldi slíkt eftirlit til "eftirlits-iðnaðar" þ.e.a.s. eftirlit einungis eftirlits vegna með enga raunverulega þörf á sér. Einnig kom þar fram að ef Ísland hefði verið partur af þessu öryggisráði hefðu bankarnir aldrei komist upp með það sem hér átti sér stað og rétt eins og í öðrum evrópulöndum sem eru partur af ESB hefði bankakerfi okkar þar af leiðandi ekki fallið með öllu. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst óþæginlegt að vitna í slíkar fullyrðingar án þess að hafa heimildir fyrir mér í þeim efnum, en vildi þó telja þetta til þar sem, ef satt er, bendir enn fremur til þess hvað við töldum okkur ósigrandi og lifðum í þeirri blekkingu að hér væri allt mögulegt án nokkura afleiðinga. Maður undrar sig enn að allir þeir fræðimenn er bankarnir höfðu á snærum sínum skyldu ekki koma auga á þá almennu skynsemi að 16-17% vextir væru fyrra sem myndi aldrei halda vatni. Ef slíkt væri mögulegt værum við svo sannarlega ekki fyrsta landið í heimi til þess að búa til slíka peningavél. En - græðgin blindar heilvita skynsemi.

"vel má vera að græðgin stjórni okkur öllum að miklu leyti, en er ekki full langt gengið þegar þú segir að: " Allt fram yfir það sem við þurfum til að lifa þannig að við sveltum ekki og höfum það sem við nauðsynlega þurfum má kalla græðgi." Ef enginn hefði metnað til þess að gera meira en rétt að hafa í sig og á, þá yrðu aldrei neinar framfarir, hvorki í tækni eða menntun t.d.

Þarna sagði ég líka að þetta væri spurning um skilgreiningu. Þeir sem telja í sinni trú það réttast að "lifa af landinu" myndu kalla það sem við köllum framfarir og metnað (þá bæði ég og þú og flestir aðrir sem eru þegnar í okkar samfélagi) græðgi. Það sem ég meinti með þessu er að græðgin er ein sterkasta hvöt mannsins, þess vegna getum við aldrei treyst á það að allir þegnar innan menningarsamfélags munu standast þær freistingar sem í boði eru, sérstaklega þær sem falla innan ramma laganna (lögin og hegning gegn brotum á þeim er það sem heldur manninum almennt á réttri slóð. Ef hegningin er engin þar sem engin lög eru í raun brotin mun freistingin vera mun meiri en ella). Eins og áður getum við ákveðið að bölva þessum einstaklingum líkt og Íslendingar gera þessar mundir. Þær skammir eiga þessir einstaklingar svo sem að mörgu leyti skilið, en að einblína á þessa svörtu sauði er til einskins þar sem við getum gengið að því vísu að þá er að finna í öllum samfélögum allstaðar. Við, sem þjóð, verðum að einblína á þær relgur og þau lög sem þegnum okkar eru sett og vinna fyrst og fremst í því að laga þær glufur sem þar er að finna. Þar skal fókusinn vera. Það besta sem við getum gert í garð svörtu sauðanna er að vorkenna þeim fyrir þeirra skertu siðferðisgreind. En lögin, þeir sem setja þau og halda þeim fram eru þeir sem raunverulega brugðust okkur í þessari kreppu.

"Þú segir að krónan sé ónýt og engir erlendir aðilar hafi ekki traust á henni, en ég vil meina að krónan sé aðeins mælitæki á efnahag þjóðarinnar, þ.e. hún mælir eingöngu þau verðmæti sem eru í þjóðarbúinu á hverjum tíma.  Það vantraust sem nú ríkir í okkar garð erlendis, er því vantraust á íslensku þjóðarbúi og horfum í atvinnulífinu til nánustu framtíðar.  Til þess að byggja upp traust að nýju, innanlands sem erlendis, þarf að keyra atvinnulífið í gang aftur, þannig að það verði á ný fært um að ráða fólk til starfa og skapa aukinn þjóðarauð.  Þá mun krónan styrkjast, en ekki með innantómu orðagjálfri stjórnmálamanna, sem annaðhvort stunda lýðskrum, eða hafa ekki þekkingu á því, sem þeir eru að fjalla um"

Það mun vera rétt hjá þér að krónan sé mælitæki á efnahag þjóðarinnar. Hinsvegar er eitt sem gleymist í þeirri pælingu. Við erum komin í vítahring. Til að keyra upp atvinnulífið aftur þarftu innflæði peninga, sérstaklega með hækkuðum kostnaði heimila og fyrirtækja. Þetta innflæði færst ekki vegna þess vantrausts sem ríkir á landinu í dag. Ef þú minnkar innflutning og eykur útflutning mun það einnig leiða af sér annað vandamál. Með minnkun innflutnings minnkar neysla landsmanna - og með minnkaðri neyslu landsmanna munu flest þau fyrirtæki sem treysta á slíka neyslu og eiga nú þegar um sárt að binda fara á hausinn með hraði, atvinnuleysi mun aukast með meiru og gjaldþrot munu verða fjölmörg og óborgaðar skuldir munu falla á ríkisstjórnina. Ég er sammála um að aukinn útflutningur mun styrkja okkur en minnkun innflutnings mun veikja okkur til muna. Því erum við nú á því vegasalti að halda innflutningi stöðugum en nauðsyn liggur fyrir að íta undir þörfina á auknum útflutning. Þetta myndi kannski takast með tímanum, en þar sem innflutningur þarf að haldast stöðugur mun þessi vegur vera hæg farinn og erfiður og miklar líkur eru á því að þjóðin myndi það illa þola. Fólksflutningur til útlanda myndi aukast til muna, sérstaklega hjá unga fólkinu, á meðan þessi erfiða leið væri farin og því myndi byrðin á landið aukast enn fremur. Góðar líkur eru á því að Eva Joly myndi hafa rétt fyrir sér og að áður en á leiðarenda yrði komið væri Ísland orðið að auðn þar sem fólk væri búið að gefast upp á þeim erfiða viðbúnaði hér á landi.

Ef ríkisstjórnin skilur ekki þessa hagfræði, þá er hún ekki fær um að koma landinu á réttan kjöl á nýjan leik.

Ég held að ríkisstjórnin skilji þessa hagfræði mjög vel. Ég held að hún sjái þann gífurlega vítahring sem við erum nú föst í betur heldur en þjóðin gerir sér grein fyrir - og einmitt þess vegna sækir hún í aðildarviðræður við ESB, til þess að losa einn hlekkinn úr vítahringnum með því að láta inngöngu í ESB vekja upp traust á landi og þjóð á ný - þar sem EBS fylgir Evran sem er stöðugur og víðtækur gjaldmiðill og mun þar af leiðandi draga umtalsvert úr ótta erlendra fjárfesta í því að fjárfesta í Íslandi og afurðum þess.

Helgi S. Karlsson (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband