Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Enga ábyrgð íslensks almennings

Nú er talað um að erlendir aðilar yfirtaki Kaupþing og Íslandsbanka, sem verði eftir sem áður íslenskir bankar, með íslenskar kennitölur.  Alls ekki er óhugsandi, að annarhvor bankinn, eða báðir, stofni seinna meir útibú í öðrum löndum og útvíkki þannig starfsemi sína, enda innanlandsmarkaður afar takmarkaður, fyrir stórhuga menn.

Með því að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, verður sett það fordæmi, að íslenskur almenningur verði um alla framtíð ábyrgur fyrir viðskiptum íslenskra einkabanka í útlöndum.  Verði ábyrgðin samþykkt nú, hvernig á að afneita sambærilegri ábyrgð í næsta bankahruni, sem vafalaust verður einhverntíma í framtíðinni.

Í upphafi skyldi endirinn skoða, segir máltækið.  Alþingi er þessa dagana að setja fordæmi til framtíðar og skyldu Alþingismenn hugsa sinn gang vel, áður en þeir greiða atkvæði með þessum þrælalögum.

Almenningur á Íslandi er ekki og á ekki að vera í ábyrgð fyrir einkabankastarfsemi í Evrópu, eða annarsstaðar í heiminum.


mbl.is Ríkisábyrgðin falli niður 2024
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverrandi virðing fyrir lögum

Virðingarleysi fyrir lögum og reglu fer stöðugt vaxandi í þjóðfélaginu, sem endurspeglast t.d. í vitleysisgangi Saving Iceland, hústökum, skemmdarverkum á fasteignum og bílum, íkveikjum og nú síðast með sprengjuhótun í Borgarholtsskóla.

Hafi þessi sprengihótun átt að vera eitthvert grín í tilefni skólabyrjunar, þá endurspeglar það ákaflega lélegan húmor, ef ekki skort á skynsemi, ef viðkomandi hefur ekki gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar svona hótanir hafa í för með sér.

Sé þetta ekki eingöngu hótun, heldur sé þarna um raunverulega sprengju að ræða, sem einhverjir pörupiltar hafa verið að fikta við að búa til, þá er skynsemisskorturinn kominn á miklu alvarlegra stig og í hvoru tilfellinu sem er, verður að taka hart á svona uppátækjum.

Almenningur verður að fara að hætta að réttlæta aðgerðir af þessum toga og fara í staðinn að mótmæla öllu svona athæfi.

Allt grefur þetta undan virðingu fyrir réttarríkinu.

 


mbl.is Borgarholtsskóli rýmdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugludallar í búrku

Í Danmörku fer nú fram umræða um að banna arabískum konum að ganga í búrku á almannafæri, vegna þess að bæði er hún tákn um kúgun kvenna og eins þykir ekki eðlilegt að fólk gangi um götur með andlitið hulið, þar sem það eykur möguleika glæpalýðs á því að fara ferða sinna án þess að þekkjast.

Tímabært er orðið, að grípa til þessa ráðs hérlendis, þ.e. að banna fólki að fara ferða sinna á almannafæri grímuklætt, enda notfæra rugludallar sér frjálsræðið í þessum efnum hérlendis, til þess að fremja alls kyns óhæfuverk grímuklæddir og þykjast vera að mótmæla hinu og þessu og á þetta t.d. við um Saving Iceland, hústökulið og fleiri hópa.

Það þarf að setja reglur um grímur og búrkur, því þetta getur einnig orðið að vandamáli hér á landi.

Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið.

 


mbl.is Sex mótmælendur handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrásinni haldið áfram

Nánast öll fyrirtæki, sem voru innan Baugs Group, eru nú í gjaldþrotameðferð, svo sem Stoðir, Landic Property, flest eða öll erlendu fyrirtækin, sem og auðvitað móðurfélagið sjálf, Baugur Group.  Afskriftir vegna þessara félaga munu nema hundruðum milljarða króna, sem munu lenda á erlendum og innlendum lánastofnunum og almenningi í landinu.

Einu félagi, ásamt tugum tengdra félaga í einum kóngulóarvef, hefur Jóni Ásgeiri þó tekist að koma undan skiptum, en það eru Hagar hf., sem flutt var út úr Baugi um mitt síðasta ár, þegar banka- og útrásarmógúlar voru farnir að sjá hrunið fyrir, en almenningur var ennþá í þeirri trú, að allt væri í himnalagi hjá þessum görkum.

Nú boðar Jón Ásgeir, að Hagar hf., verði skuldlaust fyrirtæki eftir tvö ár, hvernig sem á að fara að því, og þá verði fyrirtækið endurfjármagnað með aðstoð breskra fjárfesta.  Ekki kæmi mikið á óvart, þó þau bresku fjárfestingarfélög væru með lögheimili á Tortola, eða öðrum skattaparadísum og væru í raun eign Jóns Ásgeirs sjálfs og félaga hans.

Með slíkri skuldsetningu Haga hf., mun stoðum verða rennt undir nýja útrás Jóns Ásgeirs, eftir að hafa komið tapinu af hinni fyrri yfir á aðra. 

Það verður kallað að byrja á ný, með hreint borð.


mbl.is Fá breska fjárfesta inn í rekstur Haga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vefurinn að bresta?

Eitt dæmið um þann viðskiptakóngulóarvef, sem ofinn var í banka- og útrásarsvindlinu, virðist nú vera að trosna, þar sem komið er í ljós, að Hagar ehf. var tekið út úr móðufélaginu, Baugi, um mitt síðasta ár, með einu tveggja ára kúluláni, að upphæð 30 milljarðar, sem bankinn er nú orðinn hræddur um að fá ekki endurgreitt.

Þetta sýnir einnig, að banka- og útrársamógúlar voru búnir að sjá hrunið fyrir og bankarnir voru farnir að aðstoða mógúlana við að koma undan eignum, mörgum mánuðum áður en allt kerfið hrundi yfir hausinn á almenningi.

Annað, sem vekur athygli, er að aldrei virðist vera greidd ein einasta króna af eigin fé við þessi viðskipti, heldur lánuðu bankarnir ávallt 100% af kaupverðinu, eingöngu með veði í hlutabréfunum sjálfum.

Hvað orðið hefur af öllum arðinum, sem þessi fyrirtæki skiluðu undanfarin ár, er hulin ráðgáta.

Og þó.


mbl.is Hagar í gjörgæslu Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köngulóarvefur viðskipta

Kröfur í þrotabú Baugs nema a.m.k. 233 milljörðum króna og þar af eru óveðtryggðar skuldir a.m.k. um 50 milljarðar króna.  Veðkröfurnar eru að mestu hjá gjaldþrotabönkunum þrem, enda höfðu útrásarmógúlarnir óheftan aðgang að fjármunum þar.  Eins og kunnugt er, var búið að flytja allar helstu innlendar eignir félagsins yfir í einkafélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en erlendu eignirnar hafa allar verið yfirteknar af lánastofnunum og er tapið af þeim því ekki ljóst ennþá.

Athygli vekur að meira en þriðjungur hinna óöruggu veðkrafna var vegna skulda Baugs við tengda aðila eins og Landic Property, Fons og Stoðir.  Þessi félög eru öll komin í gjaldþrotameðferð og skulda gjaldþrotabönkunum gífurlegar fjárhæðir, sem samkvæmt þessu hafa verið endurlánaðar til Baugs, að einhverjum hluta.  Alltaf kemur því betur og betur í ljós hvernig þessi viðskiptavefur hefur verið spunninn, þó ekki sjáist nema brot af ísjakanum, t.d. vegna allra fyrirtækjanna sem skráð eru í skattaparadísum, hringinn í kringum hnöttinn.

Á meðan reynt er að greiða úr þessari flækju, styður almenningur við bakið á forkólfunum, með því að versla sem aldrei fyrr við þá, í þeim verslunum, sem þeim virðist ætla að takast að koma undan þrotabúinu.

Þetta eru alveg sama aðferð og venjulegar köngulær veiða bráðina í sinn vef.


mbl.is 233 milljarða skuld á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur að leiða athyglina frá aðalatriðinu

Sjálfsagt og eðlilegt er, að lögsækja alla, sem hugsanlega hafa brotið lög í sambandi við banka- og útrásarhrunið og eins sjálfsagt er, að sækja skaðabætur til þeirra allra, ef mögulegt er.  Þetta er svo sjálfsagt og eðlilegt að varla hefur hvarflað að nokkrum, að slík málaferli væru ekki í undirbúningi.  Voru ekki einmitt Rannsóknarnefnd Alþingis og embætti sérstaks saksóknara sett á fót í þessum tilgangi.

Nú fer fram lokaumræða um ríkisábyrgð á Icesave skuldir Landsbankans og virðist Steingrímur J. eingöngu vera að leiða athyglina frá þeim drápsklyfjum, sem hann er að berjast fyrir að koma á þjóðina, með þrælasamningunum við Breta og Hollendinga.

Steingrímur veit sem er, að samþykki Alþingi ríkisábyrgðina, munu Bretar og Hollendingar ekki taka nokkurt mark á þeim, enda er óleyfilegt að gera breytingar á samningnum, nema með samþykki beggja aðila.  Því má Alþingi alls ekki samþykkja ríkisábyrgðina, nema fá skriflegt samþykki Breta og Hollendinga fyrirfram.

Um þetta er nánar fjallað í þessu bloggi hérna


mbl.is Ríkið í mál vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirvarar þurfa skriflegt samþykki Breta og Hollendinga

Stjórnarflokkarnir halda þeirri blekkingu að almenningi, að fyrirvarar sem Alþingi hyggst samþykkja vegja ríkisábyrgðar á Icesave skuldum Landsbankans, "rúmist innan samningsins" og því þurfi ekkert að hafa áhyggjur af því hvað Bretar og Hollendingar hafi um málið að segja. 

Ef fyrirvararnir "rúmast innan samningsins" hafa þeir auðvitað ekkert gildi, en hafi þeir breytingar í för með sér, má Alþingi alls ekki samþykkja ríkisábyrgðina, án þess að fá fyrst skriflegt samþykki Breta og Hollendinga fyrir þeim breytingum.  Slík samþykkt Alþingis væri algert glapræði, því 13. grein samningsins fjallar um allar breytingar og er fyrsti málsliður greinarinnar alveg skýr, hvað þetta varðar, en hann hljóðar svona:

"ALLUR SAMNINGURINN, BREYTINGAR

13.1    Breytingar
13.1.1    Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila."

Ástæða er til að minna fjármálaráðherrann Steingrím J. Sigfússon, á það sem stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon, skrifaði í Morgunblaðsgrein í janúar s.l., en þar sagði hann m.a:  "Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki tryggingasjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið:  Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn."

Stjórnarandstæðingurinn, Steingrímur J., taldi í janúar að fyrrverandi ríkisstjórn hefði ekki dug í sér til að standa gegn þvingunarskilmálunum.

Ráðherrann, Steingrímur J., hefur nú tækifæri til að bæta úr því.

 

 


mbl.is Lýsti andstöðu í bréfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið á alls ekki að kaupa

Ríkissjóður Íslands er algerlega galtómur um þessar mundir og blóðugur niðurskurður stendur fyrir dyrum í rekstri ríkisins, þar á meðal í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfum.  Á sama tíma þarf ríkið að endurfjármagna bankana til þess að koma starfsemi þeirra í eðlilegt horf, til þess að þeir geti svo eftir það lagt sitt á vogarskálar endurreisnar atvinnulífsins.

Bankarnir eru að fá í fangið öll stærstu fyrirtæki landsins og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.  Erlend lánafyrirgreiðsla til landsins og íslenskra fyrirtækja er ekki inni í myndinni til langrar framtíðar, þannig að öll endurreisn og atvinnuuppbygging mun reynast miklu erfiðari en annars væri.

Á sama tíma og verið er að glíma við þessi vandamál, leyfa menn sér þann munað, að ræða ríkisvæðingu minnihluta eignar í HS orku, en fyrirtækið er nú þegar í meirihlutaeign einkaaðila.  Það er ekki bara tímaskekkja, að ræða þessa ríkisvæðingu nú, heldur hreint glapræði, því frekar ætti að fagna hverjum dollar, sem erlendir einkaaðilar eru tilbúnir að fjárfesta hérlendis. 

Ef erlendi aðilinn stenst áreiðanleikapróf á ekki að slá hendi á móti erlendri fjárfestingu hérlendis um þessar mundir.

Hvað skyldi annars Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segja um þessar ríkisvæðingarhugmyndir?


mbl.is Eignist hlut OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn verið að gera grín

Varla er hægt að taka því öðruvísi, en sem háði eða gríni, þegar viðskiptatímaritið Forbes setur Jóhönnu Sigurðardóttur í 74. sæti á lista yfir áhrifamestu konur heimsins.  Á listanum eru aðallega konur úr viðskiptalífinu og nokkrar, sem gegna embættum hjá stórþjóðunum.

Forbes hefur greinilega ekki mjög ábyrga heimildarmenn fyrir mati sínu á Jóhönnu, því enginn stjórnmálamaður Íslenskur, og er þá Steingrímur J. meðtalinn, hefur fallið jafn mikið í áliti í sínu heimalandi á jafn skömmum tíma.

Jóhanna hefur algerlega afhjúpað sig sem vanhæfan leiðtoga og er í raun orðin að athlægi fyrir skort sinn á efnahagslegum skilningi.

Svona gríni í erlendum blöðum verður að taka eins og hverju öðru hundsbiti.


mbl.is Jóhanna meðal áhrifamestu kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband