Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Kommóður

Skúffufyrirtæki voru vinsæl eign hjá þeim, sem vildu takmarka ábyrgð sína í banka- og útrásarruglinu.  Líklega hefur það verið vegna þess, að menn höfðu ekki alveg fulla trú á vitleysunni, sem þeir voru að taka þátt í og því ekki þorað að taka of mikla persónulega áhættu sjálfir.

Sennilega hefur vinsælasta picuplínan á þessum árum verið:  "Ég á skúffu, en þú?"

Stórkostlegasta svarið við þessu hefur auðvitað verið:  "Ég á heila kommóðu."


mbl.is Skulduðu yfir þúsund milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins mislukkaður brandari

Stjórnendur Straums hljóta að vera með allra gamansömustu mönnum, en húmorinn er hinsvegar nokkuð einkennilegur og rotinn, enda hefur sýnt sig að fáir skilja síðasta brandarann sem þeir voru að senda frá sér.

Fyrst fengu þeir bónusa eftir því hvað þeir gátu lánað mikið út úr bankanum og þá skiptu tryggingar og veð engu máli og nú segjast þeir vilja fá meiri bónusa fyrir að reyna að innheimta þessi ótryggu lán.

Mbl.is birti upphaflegu fréttina af þessu máli í gær og má sjá örlítil viðbrögð við henni hérna

Þetta hlýtur að vera allsherjar bankamannahúmor og risastór bónusbrandari.

Svolítið mislukkaður brandari að vísu.


mbl.is Hljómar eins og fjárkúgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannfjöldaþróun

Mikið er gert úr því að Íslendingum hafi fækkað um 109 síðast liðna tólf mánuði, en það skýrist að öllu leyti með brottflutningi erlends verkafólks, sem streymdi hingað þúsundum saman á undanförnum árum.

Hérna er að finna stórskemmtilega uppsett tré með íbúafjölda landsins frá 1841 til 2008, sem Hjálmar Gíslason hefur búið til og er tekið bessaleyfi á að vitna til.

Ef skoðuð eru síðustu ár, sést að Íslendingum hefur fjölgað um tugþúsundir á undanförnum árum, sem auðvitað stafar af miklum fólksflutningum til landsins.

Það er því engin ástæða til að hafa áhyggjur af íbúafjöldanum hérlendis, ennþá að minnsta kosti.


mbl.is Íbúum á Íslandi hefur fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað á ríkið ekki að kaupa

Erlent traust á efnahagslífi Íslands er nánast ekkert um þessar mundir og allt kapp þarf að leggja á það, á næstunni, að efla það og styrkja, ef nokkur möguleiki á að vera til þess að fá erlenda aðila til að lána fé til landsins á næstunni, hvað þá til að leggja fram fé til fjárfestinga.

Fjárfestingabanki Evrópu og Fjárfestingabanki norðurlandanna, sem Ísland er aðili að, hafa báðir lýst því yfir að þeir muni ekki lána nokkra einustu krónu til fjárfestinga á Íslandi á næstunni og allir stærstu bankar og fjárfestingasjóðir veraldar eru að undirbúa málaferli gegn ríkissjóði og gömlu bönkunum, í tilraun til að ná meiru til baka af eldri lánum sínum til landsins.

Því ber að fagna hverri einustu erlendu fjárfestingu sem býðst til uppbyggingar íslenskra fyrirtækja, í hvaða grein sem er.

Ríkið hefur enga peninga til að ganga inn í slíkar fjárfestingar og á að greiða fyrir þeim, en ekki að flækjast fyrir, eins og dæmið um heilsutengdu ferðaþjóustuna á suðurnesjum er dæmi um.

Á meðan ríkið sker niður allar opinberar framkvædir og stendur í blóðugum niðurskurði ríkisútgjalda, á það ekki að tefja og spilla fyrir einkaframkvæmdum. 


mbl.is Vill fund með fjármálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímynd ríkisstjórnarinnar stórsködduð

Fjármála- og viðskiptaráðherra tala um að vörumerkið Ísland sé stórskaddað og fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum hafi liðið fyrir þetta skaddaða orðspor.  Ekki er nóg með að erlendir aðilar hafi ekkert traust á íslensku viðskiptalífi og íslenskum viðskiptamönnum almennt, því Íslendingar sjálfir bera ekkert traust til þessara aðila, hvað þá bankanna og alls sem þeim tengist.

Fyrst af öllu þarf að vinna að því að endurvinna traustið innanlands, en það verður ekki gert fyrr en búið verður að gera upp banka- og útrásarsvindlið og þeir sem fyrir því stóðu, verða látnir gangast við ábyrgð sinni gegnum dómstólana.  Það mun hins vegar taka langan tíma, en vonandi skýrast mál nokkuð, þegar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis verður birt, þann 1. nóvember n.k.

Í millitíðinni þyrfti ríkisstjórnin að vinna sjálfri sér eitthvert traust, en því hefur hún algerlega glatað í sumar, með úlfúð og illindum innan og milli stjórnarflokkanna í ESB og Icesave málum.  Ekki jókst traustið við yfirlýsingar félagsmálaráðherra um að ekkert ætti að aðhafast í skuldamálum heimilannna og ekki batnar ástandið núna, þegar Lilja Mósesdóttir byrjar að stunda sína stjórnarandstöðu á ný, með yfirboðum í þeim efnum.

Engir stjórnmálamenn hafa fallið jafn hratt af stalli sínum og Steingrímur J. og Jóhanna, sem hingað til hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, en er nú orðin að athlægi hennar.


mbl.is Vörumerkið Ísland stórskaddað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engu gleymt og ekkert lært

Ef samþykkt verður að halda áfram rekstri Straums á meðan verið er að innheimta útistandandi kröfur hans, vilja starfsmenn fá árangurstengdar launagreiðslur fyrir að sinna þeirri innheimtu í vinnutíma sínum.  Líklega hafa þessir sömu starfsmenn fengið bónusa, þegar þeir gengu frá þessum sömu lánasamningum á sínum tíma, en í bönkunum fengu menn því hærri bónusa, sem þeir gátu komið á hærri lánasamningum.  Því er auðvitað tær snilld að fá bónus aftur fyrir að rukka inn lánasamningana.

Samkvæmt fréttinni hefur þó einhver starfsmaður kröfuhafa Straums efasemdir út af þessu, því fréttinni lýkur á þessum orðum:  "Nafnlaust tölvupóstur hefur verið sendur á fjölmiðla í dag þar sem fram kemur að stjórnendur Straums leggi til að þeir fái milljarða í bónusgreiðslur og enn meira ef vel gengur. Mbl.is hefur ekki fengið þessar tölur staðfestar. Bréfritari segist vinna fyrir kröfuhafa Straums."

Stjórnendurnir virðast vilja fá milljarða í bónusgreiðslur, þó ekkert gangi að innheimta kröfurnar, því samkvæmt tölvupóstinum vilja þeir fá enn meira, ef vel gegnur.

Greinilega hafa bankamógúlar engu gleymt og ekkert lært.


mbl.is Bónusgreiðslur til Straumsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvísandi yfirlýsingar

Forsætis- og fjármálaráðherra halda því ennþá fram, að fyrirvarar Alþingis "rúmist innan Icesave samningsins" og líta ekki á þá sem gagntilboð til Breta og Hollendinga.  Ekki reikna þeir heldur með að fyrirvararnir verði til þess að Bretar og Hollendingar sendi gagntilboð til baka.  Þó kemur fram í fréttinni að þeim er ekki alveg rótt, því þar segir:  "Fjármálaráðherra segir boða gott að Bretar og Hollendingar séu varfærnir í yfirlýsingum um fyrirvara við Icesave-samninginn. Það bendi til að þeir vilji skoða málið vel. Hann neitar því ekki að hann hafi talsverðar áhyggjur af niðurstöðunni."  Einnig er sagt:  "Steingrímur segir að það skapi mikla óvissu ef Bretar og Hollendingar samþykki ekki fyrirvaranna."

Stjórnarandstæðingar halda því fram, að fyrirvararnir jafngildi höfnun á samningnum og verður að teljast stórmerkilegt, að þeir sem sameinuðust um fyrirvarana skuli skilja þá gjörsamlega öndverðum skilningi.

Ráðherrarnir eru tvísaga í málinu og verða að fara að koma sér niður á eina túlkun, bæði til að útskýra málið fyrir Íslendingum og ekki síður umheiminum og þá kannski ekki síst nýlenduherrunum í Bretlandi, Hollandi og öðrum ESB löndum.

Þetta er ekki trúverðug framganga af hálfu ráðherranna og lítt til þess fallin að varpa ljósi á málið.


mbl.is Býst ekki við gagntilboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norrænn sósíalismi í hnotskurn

Ríkisstjórnin íslenska segir það sinn æðsta draum að koma "norrænu velferðarkerfi" í framkvæmd á Íslandi.  Öðru nafni, sem ekki má heyrast, heitir þetta einfaldlega norrænn sósíalismi. 

Í þessari frétt af nestinu, sem foreldrar vilja útbúa sjálfir fyrir börnin sín í leikskóla í Árósum, kemur fram að þeim sé það svosem heimilt, en þeir verði þá að merkja nestisumbúirnar með næringarinnihaldi og verða skráðir "opinberir þjónustuaðilar", sem fá greitt fyrir þjónustu sína, án þess þó að fá niðurfellt fæðisgjaldið til leikskólans, eða eins og segir:  "Þeir eiga samt sem áður að greiða 469 krónur fyrir mat í skólanum, eins og allir aðrir. Í staðinn eru þeir hins vegar álitnir vera þjónustuaðilar og fá þeir 350 krónur borgaðar fyrir það. Þegar tekið er tillit til þess borga þeir sem sé 164 krónur á mánuði fyrir að útbúa nesti fyrir barn sitt."

Margt er sjálfsagt gott í norræna sósíalistakerfinu, en víða er farið út yfir öll mörk í forsjárhyggjunni.

Þetta nestismál er örugglega ekki það vitlausasta, sem þar viðgengst.


mbl.is Vandræði foreldra vegna skólanestis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt verður yfir alla að ganga

Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hafa lent í greiðsluerfiðleikum vegna skulda, sem eru ekki nema brot af þeim upphæðum, sem nefndar eru í sömu andrá og banka- útrásar- og fjármálagarkar þeir, sem hafa verið að leika sér með fjöregg þjóðarinnar undanfarin ár.  Einstaklingar og fyrirtæki, með smáan rekstur, sem ekki geta greitt skuldir sínar, fara í gegnum gjaldþrot og sumir ná sér aldrei á strik aftur, en aðrir hefja nýjan rekstur, að nokkrum tíma liðnum.

Nú víkur svo við, að menn sem skulda tugi milljarða króna virðast geta fengið slíkar skuldir niðurfelldar, nánast eins og ekkert sé, og haldi svo rekstri fyrirtækjanna áfram, eins og ekkert hafi í skorist.  Þetta eru vinnubrögð, sem eru algerlega óþolandi og almenningi, sem nú á í mestu erfiðleikum með húsnæðis- og bílalán sín, ekki bjóðandi.

Þessir fjármálagarkar eiga að fá sömu meðferð og aðrir sem geta ekki greitt skuldir sínar.  Þeir eiga að ganga í gegnum gjaldþrot, eignirnar á að selja upp í skuldirnar, og þeir verða svo að byrja aftur á núlli, eins og hver annar, sem gjaldþrota verður.

Menn eiga ekki að geta setið eftir með stærstu bílaumboð og frystihús landsins, en bankarnir sitji með töpin og síðan haldi menn rekstrinum áfram eins og engin lán hafi verið tekin.


mbl.is Gamli Landsbankinn afskrifar skuldir Magnúsar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæmi fyrir önnur fátæk ríki

Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og stuðningsmaður ríkissjórnarinnar, túlkar fyrirvarana sem Fjárlaganefnd Alþingis gerði við þrælasamninginn við Breta og Hollendinga, um Icesave skuldir Landsbankans, sem gagntilboð til nýlenduherranna, en hún segir í fréttinni:  "Málinu sé ekki lokið. Hún segir að fátæk ríki muni horfa til Íslands náist fyrirvararnir í gegn."

Einnig segir Silja Bára í fréttinni:  "Silja Bára segir ljóst að nú taki við samningaviðræður við Breta og Hollendina hvort sem þær verði formlegar eða óformlegar. Það sé ekki hægt að senda tilboð án þess að ræða við kóng eða prest."  Forsætis- og fjármálaráðherra segja að engar viðræður þurfi að fara fram vegna þess að fyrirvararnir "rúmist innan samningsins".  Ef fyrirvararnir breyta engu um samningsniðurstöðuna, til hvers var þá rætt og skrafað um þá í nefndinni í tvo mánuði.  Það væri örugglega mettími, sem hefði farið í að samþykkja ekki neitt.

Það er reyndar alvarlegt mál, að þeir sem stóðu að því að samþykkja fyrirvarana, túlka þá algerlega á sitt hvorn veginn.  Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn túlka þá eins og Silja Bára, en stjórnarþingmenn láta eins og þetta séu eingöngu sýndarfyrirvarar.  Fróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum nýlenduherranna í Bretlandi og Hollandi.

Fræðimaðurinn túlkar þetta sem fordæmi fyrir önnur fátæk ríki, en ríkisstjórnin virðist ekki gera sér grein fyrir því, að Ísland er komið í flokk með fátækustu ríkjum, að mati lánastofnana erlendis og þær lýsa því yfir hver um aðra þvera, að þær vilji ekki koma nálægt fjárfestingum á Íslandi, til langrar framtíðar.

Íslendingar verða að fara að gera sér grein fyrir stöðu sinni í veröldinni.


mbl.is Gott fordæmi fyrir fátæk ríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband