Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Ekkert bólar á efnahagsstjórn

Ekki liggur fyrir hvenær stjórn AGS getur tekið til afgreiðslu annan hluta lánsins til Íslands vegna tafa á uppfyllingu ýmissa skilyrða sjóðsins.  Fjármálajarðfræðingurinn hefur gefist upp á efnahagsstjórninni, eins og t.d. sést af yfirlýsingu hans um að seðlabankinn sé hættur að reyna að styðja við krónuna.  Það hefur náttúrlega þær afleiðingar að erlend lán heimilanna hækka og hækka og fjármálajarðfræðingurinn segir að við því sé bara ekkert hægt að gera.  Með "breytingum" á yfirstjórn seðlabankans var því lýst yfir að styrking krónunnar yrði höfuðverkefni ríkisstjórnar og seðlabanka næstu mánuði.  Í því máli hefur verið lýst algerri uppgjöf.

Í lok fréttarinnar kemur fram að:

"Lánaafgreiðsla til Lettlands hefur frestast vegna ónægs niðurskurðar í ríkisfjármálum og þá frestaðist afgreiðsla láns til Úkraínu vegna mikils óstöðugleika þar í landi og skorts stjórnvalda á að sýna vilja til að framfylgja þeirri efnahagsáætlun sem IMF og stjórnvöld höfðu áður náð samkomulagi um."

Það skyldi þó aldrei vera, að bæði þessi atriði eigi við um Ísland.  Ríkisverkstjórinn og vinnuflokkurinn neitar að gefa upp, fyrr en eftir kosningar, hverning á að skera niður í ríkisfjármálunum, og miðað við ýmsar yfirlýsingar fjármálajarðfræðingsins, er líklegt að sjóðurinn líti svo á að hann sýni lítinn vilja til að framfylgja þeirri efnahagsáætlun sem AGS og stjórnvöld höfðu áður náð samkomulagi um.

Nú er mjög fáir dagar til kosninga og krafan er sú að stjórnmálaflokkarnir (allir) útskýri fyrir þjóðinni við hverju má búast á næstu árum í efnahagslífi landsins.


mbl.is Ekkert bólar á IMF láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskra og grenja

Skrílnum í Öskru, félagi byltingasinnaðra stúdenta, hefur leiðst eitthvað undanfarið og eins og óþekkra krakka er siður, reynir hann að vekja á sér athygli með alls kyns bægslagangi.  Ekkert finnst þeim þó eins gaman og að atast og slást við lögregluna. 

Nýjasti fíflagangurinn hjá þessum hópi er "hústaka" við Vatnsstíg, þar sem hann segist ætla að koma sér upp "félagsmiðstöð", til þess að hittast í og leika sér með dótið sitt.  Hópnum er alveg sama um  eignarrétt annarra og telur að hann geti lýst þann eignarrétt ógildan, en eignað sjálfum sér hvað sem honum dettur í hug.

Svo er toppurinn á leiknum, að ögra lögreglunni og reyna að fá hana til að slást:

"Hústökufólkið sagði í gær það, að lögregla kom ekki, sýna að hún væri hrædd við samstöðu fólksins."

Ef Kolbrún Halldórsdóttir er ekki búin að koma rassskellingarfrumvarpi sínu í gegnum þingið, ætti að taka svona óþekktarorma, sem öskra og grenja til að fá sínu framgengt, og rassskella þá.

 


mbl.is Lögregla rýmir Vatnsstíg 4
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítleg kosningabarátta

Svandís Svavarsdóttir, fyrsti maður á lista VG í Reykjavík suður, fellur í sama farið og aðrir vinstri menn, með því að ásaka pólitíska andstæðinga sína um glæpamennsku.  Það sem af er hefur farið lítið fyrir málefnum í kosningabaráttunni, en fjölmiðlar og vinstri menn hins vegar kappkostað að ata Sjálfstæðisflokkinn auri á gjörsamlega ómálefnalegan og ódrengilegan hátt.  Þetta eru gjörsamlega málefnalausir og rökþrota flokkar.

Það er hárrétt hjá Þorgerði Katrínu, að vinstri menn forðast að ræða pólitísk málefni, atvinnuleysi, getuleysi ríkisstjórnarinnar í gjaldeyris- og peningamálum og önnur brýn hagsmunamál þjóðarinnar. 

Kosningabarátta vinstri flokkanna til þessa er þeim til háborinnar skammar.  Svona leðjuslagur er engum bjóðandi.

Það er skammt til kosninga og mál til komið að ræða alvörumálin. 

Fyrst þarf auðvitað að koma vinstra liðinu upp úr drullupollunum.


mbl.is Aldrei heyrt alvarlegri ásakanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþóf og þöggun

Stjórnarliðar (Framsókn meðtalin) ásaka sjálfstæðismenn enn um málþóf um stjórnarskrárfrumvarpsræksnið og þumbast ennþá við að ljúka afgreiðslu brýnni mála, sem varða þjóðarhag.

Á sama tíma ríkir alger þöggun um hvernig á að bregðast við halla ríkissjóðs, sem stefnir í 180 milljarða á þessu ári, en samkomulag er við AGS um að fjárlög verði hallalaus á árinu 2013.  Það þýðir að skera þarf niður ríkisútgjöld um 60 milljarða króna á næsta ári, aðra 60 milljarða árið 2011 og enn aðra 60 milljarða árið 2012. 

Þrátt fyrir yfirlýsingar um "réttláta skatta" á hátekju- og stóreignafólk, mun slík skattheimta skila sáralitlu upp í þessar upphæðir.  Auðvitað verða skattar hækkaðir á allan almenning, en það er líka þaggað niður fyrir kosningar.  Almenn skattahækkun mun ekki heldur skila nema broti af fjárvöntuninni.

Nú eru ekki nema tíu dagar til kosninga og það hlýtur að vera krafa alls almennings að fá að vita hvað flokkarnir ætla sér í þessu efni.  Upplýsa verður á næstu dögum hvar á að skera niður, því það sjá allir að um grundvallarbreytingu verður að ræða í íslensku þjóðfélagi á næstu þrem árum.

Skýr svör um niðurskurðartillögur verða að fást.  Það þýðir ekki lengur að benda á einhvern tittlingaskít sem á að "athuga" eða "skoða".  Ekki þýðir heldur að segja að "standa eigi vörð" um velferðarkerfið, án þess að útskýra það nánar, þar sem þangað rennur stærsti hluti ríkisútgjaldanna.

Tíminn til kosninga er stuttur.  Nú þarf að koma með alvörumálin upp á borðið.


mbl.is Stefnir í sigur „málþófsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiking krónunnar

Fyrir viku, eða 07/04, var hér rætt um veikingu krónunnar frá því að norski förusveinninn og peningastefnunefndin tóku völdin í Seðlabankanum þann 27. febrúar s.l., í nafni ríkisverkstjórans og vinnuflokksins.  Þá færslu má lesa  hér 

Þegar þetta er ritað er gengisvísitalan komin í 224,01 stig og hefur því hækkað um 3,16% á einni viku, þ.e. úr 216,7 stigum.  Þetta þýðir það að myntkörfulán, sem var að upphæð kr. 30.000.000 þann 27/02, er nú komið í tæpar 36.000.000.  Lánið hefur sem sagt hækkað um eina milljón á viku síðan breytingin var gerð á yfirstjórn seðlabankans.  Yfirlýst markmið ríkisverkstjórans og stjórnar bankans hefur allan tímann verið það, að styrkja gengið, til að létta skuldabyrði heimila og fyrirtækja. 

Heimilin sem skulda erlend íbúða- eða bílalán hljóta að veita þessari stjórn, sem svona stendur við stefnumál sín, verðskuldaða ráðningu í komandi kosningum.

Nú hlýtur sú stund að fara að renna upp, að fjölmiðlarnir fari að fjalla um þau mál, sem brenna á þjóðinni fyrir kosningar.

 

 


mbl.is Mikil veiking krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tengsl þingmanna

Varast verður að gera of mikið úr því að þingmenn eigi hluti í fyrirtækjum, því ekki má offorsið í umræðunni í kjölfar banka- og útrásarævintýra verða til þess að eignarhlutur í atvinnurekstri verði talinn "glæpsamlegur" eða vafasamur, enda þarf víðtæk reynslu af atvinnulífinu, sem öðrum þáttum mannlífsins að eiga fulltrúa á Alþingi.

Í fréttinni kemur fram að: 

"Nær helmingur þingmanna á Alþingi er skráður í hlutafélagaskrá sem stjórnarformaður, prókúruhafi, framkvæmdastjóri, endurskoðandi, meðstjórnandi eða varamaður í stjórn. Fyrir utan eignarhald í fyrirtækjum eru þingmenn tengdir 55 fyrirtækjum skráðum í Hlutafélagaskrá. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Creditinfo."

Það hlýtur hins vegar að vera eðlileg krafa, að þingmenn séu ekki í stjórnum fyrirtækja, framkvæmdastjórar eða endurskoðendur þeirra, enda þingseta þannig starf, að ekki má með nokkru móti vera hægt að gera störf þingmanna tortryggileg með of nánum tengslum við einstök fyrirtæki.

Ekki kemur neitt fram í fréttinni um hvaða fyrirtæki er að ræða, en í flestum tilfellum eru þetta líklega smá fyrirtæki, jafnvel fjölskyldufyrirtæki, sem ekki mynda neina hættu á hagsmunatengslum.  Því þarf að fara varlega í umfjöllun um þessi mál og ekki setja sjálfkrafa einhvern spillingarstimpil á málið, ekki frekar en störf þingmanna fyrir verkalýðsfélög eða önnur félög.

Þingmenn eiga einfaldlega að gefa upp öll fjárhagsleg og félagsleg tengsl sín og hafa þau fyrir opnum tjöldum, til að koma í veg fyrir allt slúður um þessi mál.


mbl.is Þingmenn tengdir 55 fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlagar

"Auðjöfrar" landsins eru í sjálfskipaðri útlegð frá Reykjavík að sögn breska dagblaðsins Daly Telegraph.  Einnig hefur blaðið eftir Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, að margt sé líkt með bönkunum og Enron og vitnað í Evu Joly.  Að sumu leyti eru slíkar yfirlýsingar frá rannsóknaraðilum ekki heppilegar, því hætta er á að lögfræðingastóðið reyni að gera rannsakendurna ótrúverðuga, ef þeir eru með of stórar yfirlýsingar fyrirfram.

Ekki er að efa, að ýmislegt vafasamt á eftir að koma í ljós við þær rannsóknir, sem telja verður að séu í gangi, en um það fást litlar upplýsingar innanlands.  Þær koma aðallega úr erlendum fjölmiðlum.  Í fréttinni segir meða annars:

"Í umfjöllun Telegraph segir að á meðal margra spurninga sem rannsakendur þurfa að svara eru: Hvert fóru fjármunirnir? Hvernig tókst bönkum lands á stærð við úthverfi Lundúna að brenna upp hundruðum milljarða? Og hvað er verið að gera til að endurheimta eignir lánadrottna?"

Það er nokkuð hart, að íslenskir fjölmiðlar skuli vera á kafi í kosningabaráttu fyrir vinstri flokkana á meðan erlendir fjölmiðlar spyrja alvöru spurninga.

Nú er tímabært að þeir íslensku snúi sér að alvöru fréttum.


mbl.is Auðjöfrar landsins sjást ekki á götum Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunveruleg spilling

Nú þegar Páskahelgin er að verða liðin og fréttamiðlar hafa velt sér nokkra hringi upp úr fjármálum stjórnmálaflokkanna og niðurstaðan orðin sú, að ekkert ólöglegt sé þar að finna, þó stóru styrkirnir til Sjálfstæðisflokksins hafi komið frá óheppilegum aðilum.  Þessir óheppilegu aðilar voru að vísu óskabörn þjóðarinnar á árunum fyrir 2008, en nú vill að sjálfsögðu enginn kannast við ást sína á þeim.

Á þessum tíma var Jón Ásgeir Jóhannesson einn dáðasti og virtasti sonur þjóðarinnar og er reyndar átrúnaðargoð ýmissa ennþá.  Nú berast fréttir af gerðum hans, að vísu erlendis frá, mánuðina áður en Baugur Group fór í gjaldþrot.  Ýmsar eignir eins og "skíðakofi" í Frakklandi, íbúðir og aðrar fasteignir í London og Danmörku voru fluttar úr Baugi Group yfir í einkafélag Bónusfeðga síðast liðið haust.

Þetta segja fulltrúar Baugs að sé allt saman fullkomlega löglegt og eðlilegt vegna skulda Baugs Group við feðgana.  Nú er það svo, að Baugur Group skuldaði mörg hundruð milljarða króna til ýmissa lánadrottna sinna og engum sögum fer af því að eignir hafi verið fluttar til þeirra stuttu fyrir gjaldþrotið.  Félagið hefði reyndar ekki orðið gjaldþrota, ef það hefði átt nægar eignir á móti skuldunum.

Nú þegar Páskaboðskapur fjölmiðlanna um fjármál stjórnmálaflokkanna er genginn yfir, þó ekki sé vafi á því að þeir munu með einhverjum hætti halda áfram að djöflast á Sjálfstæðisflokknum, væri ekki úr vegi að þeir sneru sér að raunverulega fréttnæmu efni, sem er spillingin kringum bankana og útrásarvíkingana.

Sú spilling er fréttaefni erlendis. 

Ætlast verður til að hægt verði að fylgjast með þessum fréttum í íslenskum miðlum.

 


mbl.is Tilfærslur eigna úr búi Baugs rannsakaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegur málflutningur

Ömurlegur er málflutningur vinsta liðsins í landinu í garð Sjálfstæðisflokksins og stuðningsmanna hans.  Afar lítið er um málefnaleg rök gegn flokknum, heldur er tónninn nánast alltaf sá, að foringjar Sjálfstæðisflokksins séu siðspilltir glæpamenn og stuðningsmenn flokksins illa innrætt glæpahyski.

Þegar lesnar eru bloggfærslur, t.d. hér á mbl.is, að ekki sé talað um eyjuna, sést að málflutnignur af þessum toga er nánast einráður.  Ekki getur þetta bent til nokkurs annars en að málefnaþrot þjaki þetta fólk.  Í þessu sambandi er sennilega besta lýsingin á þessu fólki, málshátturinn góði:  "Margur heldur mig sig".

Hvað sem öðru líður, lýsir þetta betur innræti þeirra sem svona tala og skrifa, en þeim sem skeytunum er beint að.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjör slíkt hið sama

Nú þegar öll spjót standa á Sjálfstæðisflokknum vegna fullkomlega löglegra styrkja (suma óvenju háa að vísu) á árinu 2006, neita bæði Framsóknarflokkur og Smáflokkafylkingin að opinbera hverjir styrktu flokkana og um hve háar fjárhæðir þetta sama ár.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur brugðist við umræðunni og birt lista yfir stærstu framlög lögaðila á árinu 2006, enda allt uppi á borðinu þar á bæ og heiðarleikinn í fyrirrúmi.

Hvað eru hinir flokkarnir að fela?

Er ekki verðugt verkefni fyrir árvökula og strangheiðarlega rannsóknarblaðamenn að spyrja að því?

Ef þessir flokkar upplýsa ekki um málið, ættu menn (þ.m.t. fréttamenn) að hætta að abbast upp á eina flokkinn, sem kemur heiðarlega fram í þessu máli.


mbl.is Heildarframlög til Framsóknar 30,3 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband