Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Styrkir fyrirtækja

Fyrir árið 2007 byggðist aðalfjáröflun stjórnmálaflokkanna á styrkjum frá fyrirtækjum landsins, sem í raun héldu lífi í flokkunum með fjárframlögum sínum.  Allir flokkarnir reiddu sig á þessi framlög til starfsemi sinnar og engin lög takmörkuðu upphæðir einstakra styrkja.  Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn, enn sem komið er, sem opinberað hefur fyrirtækjastyrki ársins 2006.  Nú er beðið eftir að hinir flokkarnir geri slíkt hið sama.

Þegar flokkarnir sáu, að þetta gat ekki gengið svona til lengdar voru sett lög sem takmörkuðu upphæð styrks frá einstökum aðilum við 300.000 krónur, en settu sjálfa sig á stórhækkuð fjárframlög frá ríkinu í staðinn.  Um þetta voru allir flokkarnir hjartanlega sammála, enda auðvitað miklu tryggara að fá föst framlög frá skattgreiðendum, en þurfa að standa í betli út um borg og bí.´

Flokkarnir hafa sjálfsagt allir í aðdraganda lagabreytinganna notað árið 2006 til þess að stoppa í götin á flokkssjóðunum til að rétta af halla undangenginna kosningaára.  Í því ljósi er vægast sagt undarlegur þessi uppblástur um fjárhag Sjálfstæðisflokksins.  Hann mun vafalaust lægja þegar hinir flokkarnir birta framlög til sín á árinu 2006.

Eftir stendur, að það er dómgreindarleysi hjá heiðarlegum stjórnmálaflokkum, að taka við framlögum frá óprúttnum fjármálamönnum.  Eina afsökunin er að á þessum árum voru fjármála- og útrásarvíkinar í miklu uppáhaldi hjá almenningi og virtir og dáðir sem hinir einu sönnu bjargvættir þjóðarinnar, sem dansaði með þeim í miklum eyðsludansi. 

Þessi styrkjaumræða er stormur í vatnsglasi í aðdraganda kosninga.


mbl.is Landsbankinn veitti 2 styrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir í Evrópu

Ekki er að spyrja að vinum okkar í Evrópu.  Nú láta þeir ekki svo lítið að svara boði íslenskra stjórnvalda um fund hér á landi um makrílveiðar.  Þessi fundur er fyrirhugaður um miðjan mánuðinn og ESS, Norðmönnum og Færeyingum var boðið til hans til þess að finna farsæla lausn á framtíðarstjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi. 

Þessi ríki hafa mótmælt veiðum Íslendinga á makríl innan sinnar eigin fiskveiðilögsögu.  Þetta er yfirgengileg frekja af hálfu þessara ríkja og ekki bætir málstað þeirra að neita að ræða málin.  Dettur svo einhverjum í hug að ESB myndi gefa Íslendingum eitthvað eftir í sjávarútvegsmálum í aðildarviðræðum?  

Undarlegast af öllu er að Norðmenn skuli taka þátt í þessum yfirgangi, að ekki sé talað um Færeyinga, en þessar þjóðir höfum við talið til okkar bestu vinaþjóða.

Þeir sem einga vini eins og ESB, Norðmenn og Færeyinga, þarfnast engra óvina.


mbl.is Svara ekki boði um makrílfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall

það er mikið áfall fyrir okkur Sjálfstæðismenn að flokkurinn skuli hafa tekið við styrk frá fyrirtæki eins og FL Group og er þá upphæðin ekki það sem öllu máli skiptir.  Á árinu 2006 giltu engin lög um hámarksupphæðir styrkja sem flokkarnir máttu taka við, þannig að hér var ekki um neitt lögbrot að ræða. 

Hinsvegar verður það að flokkast undir mikið dómgreindarleysi, að flokka styrktaraðila ekki betur en þetta, því stjórnendur FL Group voru ekki þeir pappírar, að ástæða væri til að þiggja af þeim nokkra einustu krónu.  Styrkur frá þessum aðilum hlaut að koma í bakið á þiggjendum fyrr eða síðar og var kannski veittur einmitt í þeim tilgangi.  Það er að minnsta kosti engin tilviljun að þetta skuli vera opinberað núna, kortéri fyrir kosningar.

Nýr og glæsilegur formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hefur tekið á þessu máli af miklum skörungsskap, sem gefur tóninn um nýja og breytta tíma í Sjálfstæðisflokknum.

 


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokknum að kenna?

Í fréttatilkynningu frá Capacent kemur fram að gerð hafi verið stærsta alþjóðlega samanburðarkönnunin um áhrif fjármálakreppunnar á almenning, en hún tók til 25 landa.

Hér á landi hefur því verið logið að almenningi, með góðum árangri, að kreppan sé Sjálfstæðisflokknum að kenna, því hann hafi innleitt frelsi í viðskiptum á valdatíma sínum í ríkisstjórn.  Þetta frelsi var reyndar svipað og í öðrum löndum, enda í samræmi við lög í EES löndunum.  Hvergi í veröldinni, annarsstaðar en hér, er skuldinni skellt á ríkisstjórnir, hvað þá einstaka stjórnmálaflokka, hvernig komið er fyrir efnahagslífi heimsins.  Annarsstaðar en hér á landi gera menn sér grein fyrir því, hvað það var sem olli þessu ástandi, þ.e glæframennska fjármálafyrirtækja, sem þóttust fara að lögum, en skautuðu (ó)snyrtilega framhjá þeim.

Í fréttinni segir:

"Af könnuninni má ráða að Argentína, Ástralía, Frakkland, Ísland, Ítalía, Japan, Spánn, Bretland og Bandaríkin eigi í mestum erfiðleikum vegna efnahagskreppunnar."

Hefur einhver heyrt að í þessum löndum, öðru en Íslandi, sé öðrum en fjármálafurstum kennt um ófarirnar?

Mikil er sök Sjálfstæðisflokksins, ef honum hefur tekist að kollvarpa fjármálakerfi allra 25 ríkjanna.


mbl.is Íslendingar draga mest úr útgjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins, loksins

Að endingu tókst Sjálfstæðismönnum að koma vitinu fyrir ríkisverkstjórann og stjórnarvinnuflokkinn með að taka brýn mál til umræðu á þinginu og fresta stjórlagafrumvarpsruglinu fram yfir páska.  Sjálfstæðisflokkurinn er marg búinn að bjóða upp á þessa lausn undanfarna daga, en forsetanefna þingsins, í umboði ríkisverkstjórans, hefur ekki verið til viðtals um þessa einu vitrænu lausn á þingstörfunum.  Á meðan hafa nokkur brýn mál beðið afgreiðslu, þ.m.t. frumvarp um hækkun vaxtabóta, greiðsluaðlögun, álver í Helguvík, skattaundandrátt, að ótöldu hinu atvinnuskapandi verkefni um fjölgun á listamannalaunum.

Í Elhúsdagsumræðunum í gærkvöldi kom loksins í ljós, hversvegna ríkisverkstjórinn hefur viljað tefja þingstörfin eins og mögulegt er og því hefur umræðan um stjórnlagafrumvarpsruglið verið látin ganga svona lengi.  Jóhanna, ríkisverkstjóri, upplýsti að eftir væri að leggja fram sex frumvörp, sem snerta aðstoð við heimili og atvinnulíf.  Hefði stjórninni ekki tekist að tefja þingstörfin, eins og raunin hefur verið, hefðu þessi bjargráð dagað uppi.  Nú verður hægt að nota páskana til að klára að semja þessi frumvörp, sem hefðu átt að líta dagsins ljós fyrir a.m.k. mánuði síðan.  Vonandi verða þessi boðuðu frumvörp eitthvað meira en það lítilræði sem samþykkt hefur verið nú þegar til aðstoðar efnahagslífinu.  Það sem komið er, er meira til að sýnast en til að bjarga nokkru.

Það er ekki ofsögum sagt, að þetta er seinfær og aðgerðasmá ríkisstjórn.


mbl.is Byrjað að ræða önnur mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheyrilegir raunvextir

Vísitala neysluverðs var 327,9 stig í janúar s.l., en er nú 334,5 stig.  Þetta þýðir að með svipuðum breytingum til áramóta, verður verðbólga ársins innan við 5%.  Seðlabankinn lækkar stýrivexti aðeins niður í 15,5%, þannig að raunvextir eru a.m.k. 10,5%, sem er þvílíkt okur að annað eins þekkist hvergi í heiminum.

Eftir að "erkióvinurinn" var hrakinn úr seðlabankanum, virðist engin stefna vera ríkjandi innan bankans, hvorki í vaxta- eða gjaldeyrismálum.  Á þessum fimm vikum hefur gengið fallið um 16%, en þó hefur norski förusveinninn sagt í fjölmiðlum, að aðaláhersla bankans sé að styrkja gengið.  Í gær sagði fjármálaráðherra þjóðarinnar að hann hefði ekki hugmynd um hvað væri að gerast í gengismálum.  Ætli seðlabankinn viti það ekki heldur?

Getur skýringin verið sú, að Seðlabankinn er orðinn algerlega óvirkur á gjaldeyrismarkaði?  Frá því að sá norski og peningastefnunefndin komust til valda í seðlabankanum, hefur bankinn varla sett eina einustu evru inn á markaðinn og samt átti lánið frá AGS að vera notað til að styrkja krónuna.

Er þetta kannski pólitísk aðgerð til þess að rakka krónuna niður, í áróðri Smáflokkafylkingarinnar fyrir ESB aðild.  Er ASG búinn að setja ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar vegna vantrausts á að hún sé til nokkurs nýt?

Það eina sem er víst í þessu máli er það, að fjármálaráðherrann skilur ekki neitt í neinu.


mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 15,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samdráttur í Evrópu

Höfuðvígi Evrópusambandsins, Þýskaland, stendur frammi fyrir miklum efnahagserfiðleikum, en útflutningur dróst saman um 23,1% í febrúar á þessu ári, miðað við sama mánuð í fyrra.  Útflutningur til annarra ESB landa fellur mest, eða um 24,4% en til landa utan ESB um 20,6%.  Þegar sjálft forysturíki ESB stendur frammi fyrir slíkum vanda, er ekki nema von að kreppan bíti önnur ESB ríki enn fastar, enda eru þau bundin við gjaldmiðil Þýskalands, Evruna, og geta sig hvergi hrært í kreppunni.

Athyglisvert er, að í öllum löndum, nema Íslandi, gera menn sér fyrir orsökum kreppunnar, þ.e. að hún stafar fyrst og fremst af glannaskap í banka- og fjármálalífi heimsins.  Á Íslandi fóru banka- og útrásarvíkingar fremstir í flokki þessara glæframanna, enda telja Íslendingar sig alltaf klárasta og besta á öllum sviðum, þessu ekki síður en öðrum.  Hér á landi hefur lengst af verið algerlega horft framhjá hinum raunverulegum sökudólgum, en allri skuldinni skellt á Sjálfstæðisflokkinn.  Hvergi annarsstaðar, hvort sem vinstri eða hægri stjórnir eru við völd, er sökinni skellt á ríkisstjórnirnar.  Ekki dettur Obama einusinni í hug að reyna að skella skuldinni af kreppunni á ríkisstjórn Rebúblikana í Bandaríkjunum og á þó kreppan rætur sínar að rekja til lánastarfsemi þar í landi.

Að undirlagi Vinstri grænna, var efnt til eldhúsáhaldabyltingar til þess að villa mönnum sýn á raunverulega ástæðu kreppunnar, eingöngu í pólitískum tilgangi.  Og það heppnaðist fullkomlega.

Í seinni tíð hefur enginn stjórnmálaflokkur á vesturlöndum, annar en VG, komist til valda með ofbeldi. 


mbl.is Skarpur samdráttur í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýringalaus ráðherra

Það eru fleiri kjaftstopp í dag, en Steingrímur J, jarðfræðingur og fjármálaráðherra, en af allt annarri ástæðu en hann.  Það sem veldur þessu kjaftstoppi manna er að sennilega í fyrsta skipti í þingsetutíð sinni, hefur Steingrímur J. ekki svör á reiðum höndum.  Hann hefur getað blaðrað út í það óendanlega fram að þessu um hvaðeina sem til umræður hefur verið og talið sig hafa umboð fyrir sannleikann í öllum málum.

Nú hefur fjármálaráðherra þjóðarinnar engar skýringar á veikingu krónunnar og er þó eitt helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar að styrkja hana.  Þegar höfuðóvinurinn var flæmdur úr seðlabankanum 27. febrúar s.l. var gengisvísitalan 186,95 stig, en er nú 216,07.  Þetta þýðir gengislækkun um tæp 16% síðan norski förusveinninn og peningastefnunefndin tóku við seðlabankanum.  Þetta þýðir það líka að sá sem skuldaði myntkörfulán, sem var að upphæð kr. 30.000.000 þann 27. febrúar, skuldar nú tæpar 35 milljónir.

Þessari ríkisstjórn, sem þóttist ætla að bjarga heimilunum frá gjaldþroti, hefur tekist að koma miklum fjölda nær hengifluginu en áður.  Svo lætur stjórnin Alþingi masa dögum saman um stjórnarskrárfrumvarp og neitar að ræða "björgunaraðgerðirnar".  Á meðan blæðir heimilunum út.

Það óásættanlegt að ráðherra nokkurrar þjóðar geti ekki svarað grundvallarspurningum um fjármál síns eigin lands.


mbl.is Kann ekki skýringar á veikingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langar umræður

Mikið er býsnast yfir því að löngum tíma hafi verið varið í umræður um stjórnarskrárfrumvarpið.  Stjórnarskráin er það gagn sem öll lög landsins verða að byggja á og því er ekkert undarlegt að þingmenn vandi sig við breytinar á henni.  Umræður um þetta mál hafa staðið á Alþingi í innan við fjörutíu klukkustundir og er það alls ekki mikið, miðað við margar aðrar umræður í þinginu, eins og sjá má  hér

Munurinn á umræðunni núna og þá er sá, að þáverandi málþófsmenn eru nú komnir í ríkisstjórn.

Gullfiskaminni manna lætur ekki að sér hæða.

 


mbl.is Koma til móts við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvíst um björgun heimila

Á meðan menntamálaráðherra og ríkisstjórnin funda um björgunaraðgerðir til handa stúdentum, neitar sami vinnuflokkur að láta ræða og samþykkja frumvörp um aðgerðir í efnahagsmálunum, svo sem hækkun vaxtabóta, álver í Helguvík og greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

Eins og sést á dagskrá Alþingis í dag, er hún eins og hún er búin að vera síðustu vikuna, þar sem ríkisverkstjórinn telur brýnasta hagsmunamál heimilanna vera breyting á stjórnskipunarlögum:

 128. þingfundur 07.04.2009 hófst kl. 10:33
1. Fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.
2. Stjórnarskipunarlög (stjórnlagaþing, náttúruauðlindir í þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslur) 385. mál, lagafrumvarp JóhS. Frh. 2. umræðu.
3. Tekjuskattur (hærri vaxtabætur 2009) 410. mál, lagafrumvarp fjármálaráðherra. 2. umræða.
4. Endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja (stofnun hlutafélags, heildarlög) 411. mál, lagafrumvarp fjármálaráðherra. 2. umræða.
5. Fjármálafyrirtæki (slitameðferð og kostnaður af störfum skilanefnda) 409. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 2. umræða.
6. Breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn (niðurfelling sektar eða ákæru til að greiða fyrir rannsókn afbrots) 359. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 2. umræða.
7. Heimild til samninga um álver í Helguvík (heildarlög) 394. mál, lagafrumvarp iðnaðarráðherra. 2. umræða.
8. Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði 461. mál, lagafrumvarp allsherjarnefndar. 2. umræða.
9. Tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda (styrkari skattframkvæmd og hömlur gegn skattundanskoti) 366. mál, lagafrumvarp fjármálaráðherra. 3. umræða.
10.

Listamannalaun (heildarlög) 406. mál, lagafrumvarp menntamálaráðherra. 3. umræða.

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Sjálfstæðismanna um að dagsrá verði breytt og þjóðþrifamálin tekin framfyrir, neitar ríkisverkstjórinn öllum beiðnum um slíkt og lætur sína eigin þvermóðsku koma í veg fyrir eðlilega starfsemi í þinginu.

Háskólastúdentar eru af þeirri kynslóð sem aldrei hefur kynnst mótlæti í lífinu, en yfirleitt fengið hlutina rétta upp í hendurnar frá foreldrum sínum og síðan ríkinu, eftir að þeir hefja langskólanám. 

Ætti ekki að vera í forgangi að aðstoða þá sem hafa alla sína tíð þrælað fyrir börnin sín og lagt sitt til þjóðfélagsins með sköttum sínum, en eiga nú á hættu að missa heimili sín og hafa jafnvel misst vinnuna?

Forgangsröðun ríkisvinnuflokksins er ekki alltaf auðskilin.

 


mbl.is Allt óvíst með sumarnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband