5.10.2009 | 09:22
Baugsmálið fyrsta hræðir
Þorvaldur Gylfason, prófessor, spáir því að ekki muni allir stórlaxarnir, sem tengjast íslenska fjármálahruninu sleppa að þessu sinni, án þess að taka fram í hvaða annað skipti hann telur þá hafa sloppið. Líklega er hann að vísa til Baugsmálsins fyrsta, sem rekið var fyrir dómstólum árum saman, án þess að ákærur næðust fram, nema í nokkrum smáöngum málsins.
Sækjandinn sat löngum einn í dómssalnum á móti her dýrustu lögfræðinga og endurskoðenda landsins, sem tókst að snúa öllum hlutum sakborningum í hag og tefja og toga alla málsmeðferð, svo árum skipti. Sennilega hafði saksóknarinn ekki nógu mörgum og góðum rannsakendum til að hafa við lögfræðinga- og sérfræðingastóði Baugsmanna, a.m.k. var sýknað í mörgum atriðum, sem allir sem tengjast viðskiptum voru vissir um að myndu leiða til sakfellingar.
Ekki má heldur gleyma andrúmsloftinu sem ríkti í þjóðfélaginu, en almenningsálitið fór gjörsamlega af hjörunum í afstöðunni með Baugsliðinu og gegn dómsvaldinu, lögreglunni og ríkisstjórninni, sem sérstaklega var ásökuð um pólitískar ofsóknir gegn blásaklausum vinum alþýðunnar.
Vegna þessarar reynslu dómskerfisins af erfiðum hvítflibbabrotum, má gera ráð fyrir að rannsókn á málum tengdum fjármálahruninu verði erfið og muni taka mörg ár.
Sporin hræða.
![]() |
Stórlaxarnir munu ekki allir sleppa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2009 | 15:32
Skömm sé norðurlöndunum, að undanskildum Færeyingum
Fram að síðasta hausti var Íslendingum alltaf talin trú um, að norðurlöndin væru okkar kærustu vinaþjóðir, ekki síst Norðmenn, en eftir hrunið hefur annað komið í ljós. Strax eftir hrunið veittu Færeyingar íslendingum lán, að upphæð 6 milljarða króna, algerlega skilyrðislaust og nú lána Pólverjar 25 milljarða, óháð frágangi á Icesave skuldum Landsbankans, en þau skilyrði settu norðurlöndin, enda engin aðstoð borist þaðan.
Athyglisvert er að lesa þessa tilvitnun í fréttinni: "Það var sérstaklega gaman að eiga í þessum samskiptum við Pólverja, því þeir voru svo jákvæðir og hjálplegir og lögðu upp úr því að þeir væru með þessu að leggja sitt af mörkum. Þetta er að mörgu leyti ný staða fyrir Pólverja, sem sjálfir hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika á undanförnum áratugum og þegið mikla aðstoð. Núna má segja að þeir séu komnir hinum megin við borðið, segir Steingrímur."
Þetta er þveröfugt við það, hvernig norðurlöndin hafa komið fram við Íslendinga. Þau hafa hvorki verið jákvæð, né hjálpleg, hvað þá að þau reyni að leggja sitt af mörkum í baráttunni við þrælahöfðingjana í Bretlandi og Hollandi.
Hafi norðulöndin ævarandi skömm fyrir sína framkomu.
![]() |
Mikilvægt að þetta sé í höfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.10.2009 | 12:35
Sanngjörn leið til jöfnunar afborgana
Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur hrakist úr einu víginu í annað, vegna skulda heimilanna. Fram eftir öllu ári hélt hann því fram, að ekkert væri hægt að gera til að létta greiðslubyrði lána, en smátt og smátt hefur hann komist að þeirri niðurstöðu, sem var í raun lögleidd af fyrri ríkisstjórn á fyrra ári, að lausnin væri að færa afborganir í sama horf og þær voru í fyrravor og miða síðan við greiðslujöfnunarvísitölu, sem tekur mið af launa- og atvinnustigi í landinu á hverjum tíma.
Þetta er sanngjörn leið, því hún dreifir afborgununum í takt við launa- og atvinnuþróun, sem líklega mun leiða til þess, að allir geti greitt skuldir sínar á lánstímanum, a.m.k. húsnæðislánin, en ólíklegt er að allir jeppar, húsvagnar, húsbílar og vélsleðar greiðist að fullu á lánstímanum, að viðbættum þeim þrem árum, sem lánstíminn mun lengjast.
Þeir, sem "endurfjármögnuðu" íbúðalánasjóðslánin sín með nýjum og miklu hærri erlendum lánum, munu líklega þurfa að borga leikföngin með íbúðalánunum á lánstímanum og munu ekki fá hluta kaupverðs þeirra eftirgefin, eins og hinir, sem tóku sérstök erlend lán til kaupanna.
Að sjálfsögðu munu þeir skuldsettustu ekki sætta sig við þessa leið, þar sem "greiðsluvilji" þeirra er ekki lengur fyrir hendi og þeim finnst sjálfsagt að almennir skattgreiðendur taki á sig hluta af skuldunum.
Þessi leið er hinsvegar sanngjörn í ljósi þeirra gömlu og góðu gilda, að þeir sem taka lánin, endurgreiði þau sjálfir, en láti þau ekki falla á aðra.
![]() |
Gott til skamms tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2009 | 09:50
Skattaæðið í hnotskurn
Í meðfylgjandi frétt, er fjárlagafrumvarpið sett fram á nokkuð skýran og skiljanlegan hátt, þótt samandregið sé. Athyglisvert er það sem kemur vel fram á myndinni, sem fylgir fréttinni, hver lausatök á ríkisfjármálunum hafa verið mikil á þessu ári, en halli á ríkisreikningi er þar áætlaður að verði 35 milljarðar króna umfram fjárlög, en þegar upp verður staðið er miklu líklegra að hann verði 50-60 milljarðar króna.
Þessi lausung í fjármálum ríkisins kallar á miklu snarpari aðgerðir á árinu 2010, til að rétta af fjárhag ríkisins og þá er gripið til mestu skattpíningar, sem sögur farra af, í stað þess að skera hraustlega niður í ríkisútgjöldum. Í fréttinni segir: "Gert er ráð fyrir að gjöld ríkisins verði tæplega 556 milljarðar króna á næsta ári og tekjur 468 milljarðar. Fjárlagahallinn er því rúmlega 87 milljarðar. Tekjuskattar einstaklinga eru áætlaðir 143,5 milljarðar sem er aukning um 38,9% miðað við áætlaðar tekjur ríkisins í ár. Þá eru skattar á vöru og þjónustu áætlaðir rúmlega 76 milljarðar sem er 44,6% aukning. Gert er ráð fyrir að virðisaukaskattur verði 125,2 milljarðar sem er 2,3% samdráttur."
Áætlað er að einstaklingar sem greiða tekjuskatt séu um 160 þúsund, þannig að meðalhækkun á hvern skattgreiðanda, 16 ára og eldri, verður þá um 20 þúsund krónur á mánuði, sem auðvitað kemur misjafnt niður, sumir munu greiða minna og aðrir miklu meira. Það breytir því ekki, að þetta er í raun árás á afkomu heimilanna í landinu.
Þegar hækkun óbeinna skatta er bætt við, sjá allir í hvað stefnir með fjárhag heimilanna á næsta ári.
Ríkisstjórnin gerir sannarlega sitt til að auka á vanda þjóðfélagsins, með því að flækjast fyrir og reyna að koma í veg fyrir alla atvinnuuppbyggingu, sem myndi fjölga skattgreiðendum og minnka byrði hvers og eins.
Hófleg skattahækkun er nauðsynleg, en aðgerðir í atvinnumálum eru í raun eina ráðið, sem mun koma þjóðinni út úr kreppunni.
Það mun ekki takast að skattleggja hana til betri lífskjara.
![]() |
Fjárlagafrumvarpið í hnotskurn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.10.2009 | 15:35
Ótýndur glæpalýður
Hér á blogginu hafa margir lýst samstöðu með málningarsletturum, eða a.m.k. sýnt samúð með gerðum þeirra, sem er alveg ótrúlegt út af fyrir sig. Nú eru að koma upp á yfirborðið fréttir um að þessir glæpamenn hafa notað einhvers konar sýru, oftast til að hella yfir bíla, til að eyðileggja á þeim lakkið, en a.m.k. í einu tilfelli orðið til þess að slasa manneskju.
Það er ekki þessum fáráðlingum að þakka, að ekki hlaust stórslys af sýrunni, sem sett var í hurðarfalsinn á bíl Rannveigar Rist, því nánast heppni var að sýran fór ekki í auga hennar, sem hefði blindað hana. Nógu slæmt er fyrir konuna að fá brunasár á kinnina, sem mun skilja eftir sig ör til frambúðar.
Þessi óþjóðalýður, sem líkast til heyrir til vitleysingasamtakann Saving Iveland, eða Öskru verður að fara að koma fyrir rétt og fá verðskuldaða refsingu fyrir verk sín. Vonandi verður það fljótlega, svo þessum ófögnuði linni.
Tími er til kominn, að einhver sem hefur samvisku og veit hverjir þessir einstaklingar eru, segi til þeirra og eins er vonandi að öfgarugludallar bloggsins hætti að mæra þá.
![]() |
Fékk sýru í andlitið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.10.2009 | 08:58
Áróðursskattar vinstri grænna
Margt undarlegt hefur frést af vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra, en fréttin um að iðnaðarráðherra hafi ekki heyrt minnst á umhverfis-, orku- og auðlindaskatta, sem ættu að gefa af sér 16 milljarða króna tekjur í ríkissjóð árlega, er með þeim skrítnustu og ótrúlegustu, sem fram hefur komið lengi.
Að þetta hafi ekki einu sinni verið rætt í ríkisstjórn, áður en Steingrímur J., frjármálajarðfræðingur, slengdi þessu á borð þjóðarinnar, kemur fram í máli iðnaðarráðherra, t.d: "Þetta staðfestir Katrín í samtali við Morgunblaðið. Ljóst er að ákvæðið var sett inn á síðustu stundu, án kynningar. Litið er á málið sem klúður í stjórnkerfinu, ekki síst að nefna einnar krónu skatt á hverja kílóvattsstund í greinargerðinni, sem gæfi sextán milljarða."
Síða bætir ráðherrann við: "Katrín segir það hafa verið mjög óheppilegt dæmi, en það sé búið og gert. Raunhæfara væri að tala um tíu aura og sólarlagsákvæði á alla slíka skatta, t.d. eftir þrjú ár, en það verði útfært nánar." Ef þessi upphæð yrði lögð á, yrðu tekjurnar af skattinum 1,6 milljarður en ekki 16 milljarðar. Þetta sýnir best ruglið í Steingrími J. og endurspeglar enn eitt ósættið innan ríkisstjórnarinnar, en hún virðist ekki geta afgreitt nokkurt einasta mál, án illinda milli stjórnarflokkanna.
Skýringin á þessu upphlaupi Steingríms J. er auðvitað ótti hans um að ríkisstjórnin springi á næstu dögum og þá verður hægt að nota þetta sem áróður til að sýna fram á hvað Vinstri grænir hafi verið trúir sinni stefnu og meira að segja verið búnir að leggja fram tillögur um "græna skatta", en því miður hafi stjórnin sprungið, án þess að þetta hefði fengist samþykkt.
Þetta er semsagt áróðursbragð, sem ekki er sett fram í alvöru. Ef svo ólíklega skyldi fara, að stjórnin spryngi ekki, er alltaf hægt að kenna samstarfsflokknum um, að Vinstri grænir hafi þurft að bakka út úr málinu.
Svona eru nú stjórnmálin ómerkileg þessa dagana.
![]() |
Ráðherra ókunnugt um skatta á þungaiðnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2009 | 16:50
Gleðitíðindi með fyrirvara um Álfheiði
Loksins koma jákvæðar fréttir um væntanlegar framkvæmdir, sem gætu skapað allt að 400 störf í byggingariðnaði, en hann hefur orðið hvað verst úti í kreppunni. Þetta eru störf við byggingu einkasjúkrahússins og hótelsins, sem PrimaCare hyggst reisa í Mosfellsbæ.
Ríkisstjórnin hefur reynt að drepa niður allar tilraunir til að koma verklegum framkvæmdum í gang, t.d. einkarekinni heilbrigðisþjónustu í Reykjanesbæ, framkvæmdum við orkuöflun og byggingu álvers í Helguvík, orkuöflun og byggingu stóriðju á Bakka við Húsavík, minnkað fiskveiðikvóta o.fl.
Í stað þess að koma í gang mörgum smáum verkum á vegum ríkisins, t.d. fasteignaviðhaldi, eru allar framkvæmdir slegnar út af borðinu, en talað um að fara í stórframkvæmdir, sem ekki verða tilbúnar fyrr en eftir eitt til tvö ár. Stjórnin virðist helst af öllu dýpka kreppuna sem mest og lengja hana eins og nokkur kostur er, ekki síst með boðuðu fjárlagafrumvarpi, þar sem á að skattleggja allt í drep.
Fréttin um framkvæmdirnar við einkasjúkrahúsið í Mosfellsbæ er mikil gleðifrétt, en þó með fyrirvara um Álfheiði Ingadóttur, heilbrigðisráðherra og byltingarforingja.
![]() |
Um 300 til 400 ný störf hjá Ístaki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.10.2009 | 14:12
Nú kemur Álfheiður til skjalanna
Viljayfirlýsing um byggingu einkasjúkrahúss PrimaCare í Mosfellsbæ verður undirrituð síðar í dag og er gert ráð fyrir að hægt verði að taka á móti fyrstu sjúklingunum árið 2011 eða 2012. Einnig er fyrirhugað að byggja hótel, til að hýsa aðstandendur sjúklinganna, sem sækja munu í hnjá- og mjaðmaliðaaðgerðir.
Reiknað er með að þessi starfsemi muni skapa upp undir 1.000 framtíðarstörf, auk þess sem byggingaframkvæmdirnar muni skapa fjölda starfa á næstu tveim árum. Að þessum áætlunum standa traustir íslenskir og erlendir aðilar og mun þetta framtak verða mikil lyftistöng fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu, á sama tíma og verið er að draga saman í opinbera heilbrigðisgeiranum.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, gerði allt sem hann gat til þess að flækjast fyrir svipuðum áformum á Suðurnesjum, en vonandi verða framkvæmdaaðilar þar þrautseigari en svo, að þeir láti tréhestana í ríkisstjórn eyðileggja áformin.
Nú er rauðasti kommúnisti, sem hugsast getur, komin í heilbrigðisráðuneytið og hafi Ögmundur verið tregur í taumi, mun Álfheiður Ingadóttir verða algerlega þversum. Nú fyrst munu þeir sem huga á einkaframtak í heilbrigðisgeiranum fá verulega mótspyrnu úr ráðuneytinu.
Það er í takt við aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu og aðrar gerðir hennar til að dýpka og framlengja kreppuna.
![]() |
Einkasjúkrahús í Mosfellsbæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.10.2009 | 10:38
There will be piece in our time
Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, er farinn til Tyrklands og ætlar þar að hitta húsbændur sína, þrælapískarana frá Bretlandi og Hollandi og mun þar ganga að nauðungarskilmálum þeirra vegna ríkisábyrgðarinnar á Icesave skuldum Landsbankans, sem íslenska þjóðin á ekki að vera ábyrg fyrir, samkvæmt tilskipun ESB og íslenskum lögum.
Chamberlain kom af fundi Hitlers og veifaði friðarsamningum milli Bretlands og Þýskalands og lét þá þessi fleygu orð falla: "There will be piece in our time". Skömmu síðar skall síðari heimstyrjöldin á og enginn friður varð á okkar tímum og Evrópa ekki ennþá orðin söm, sextíuogfimm árum síðar.
Ríkisstjórn Íslands er búin að samþykkja breytingar á ríkisábyrgðinni í þágu Breta og Hollendinga, en í anda opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu, er því haldið algerlega leyndu fyrir almenningi, en var kynnt stjórnarandstöðunni í morgun, rétt áður en Steingrímur J. stökk upp í flugvélina til Tyrklands.
Hann mun svo koma heim eftir viku, sigri hrósandi, veifandi samningi við þrælahaldarana og segja: "Það mun ríkja friður á okkar tíma".
![]() |
Steingrímur til Tyrklands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2009 | 08:25
Guð blessi Jón Ásgeir
Jón Ásgeir Jóhannesson, raðskuldari, er afar ósáttur við Helga Felixsson, höfund myndarinnar Guð blessi Ísland, vegna þess að hann hafi tekið einhver myndskeið af Jóni Ásgeiri, áður en hann kom sér í "karakter", eins og leikararnir segja.
Það er náttúrlega ekki heiðarlegt af Helga, að taka viðtöl við fólk, sem er ekki að tala, eða er að tala um allt annað en það myndi tala um, ef það væri búið að undirbúa hlutverkið og læra textann sinn. Þess vegna er skiljanlegt að Jóni Ásgeiri mislíki svona vinnubrögð, því góður leikari tekur hlutverk sitt alvarlega og passar að kunna textann sinn utanbókar.
Verst af öllu fyrir Jón Ásgeir, er að hafa ekki fengið að ráða klippingu myndarinnar og allri framsetningu, því hann er vanur að fá að ráða og hans eigin fjölmiðlar vanir að gegna góðlátlegum ábendingum hans um það sem betur má fara í þeirra umföllun hverju sinni. Sérstaklega ef það snertir raðskuldarann sjálfan á einhvern hátt.
Nú eru erfiðið tímar fyrir raðskuldara, eins og aðra.
Því er við hæfi að óska öllum blessunar, ekki síst raðskuldaranum Jóni Ásgeiri, sem og öðrum raðskuldurum, honum tengdum sem ótengdum.
![]() |
Ósáttur við höfund Guð blessi Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)