Gott frumkvæði Framsóknarmanna

Ekki er annað hægt, en að hæla Framsóknarmönnum fyrir frumkvæði þeirra við að verja málstað Íslands á erlendri grundu, og að sama skapi er það stórundarlegt, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa sýnt nokkurt einasta framtak í varnarbaráttunni gegn Bretum og Hollendingum.  Þvert á móti hefur hún barist um á hæl og hnakka fyrir málstað þrælapískaranna og reynt að sannfæra þjóðina um, að hún væri í ábyrgð fyrir einhverjum skuldum Landsbankans erlendis.

Loksins núna fyrir nokkrum dögum er Jóhanna, meintur forsætisráðherra, að fikra sig til baka í málflutiningi sínum fyrir herraþjóðirnar og farin að tala um að það sé ósanngjarnt af sér og félögum, að pína Íslendinga til þess að borg þetta, en hún sé bara svo aum í bakinu, undan svipuhöggunum, að hún sé búin að gefast upp fyrir ofbeldinu. 

Þegar stjórnin springur, getur hún alltaf haldið því fram, að hún hafi alltaf verið sammála þjóðinni í málinu, en orðið að fórna sér og þurft að úthella blóði sínu í nafni þjóðarinnar.  Það er nokkuð hart að stjórnarandstaðan skuli hafa tekið forystuna í Icesave og fjármálum þjóðarinnar, eingöngu vegna þess, að hún getur ekki lengur horft upp á algert getuleysi ríkisstjórnarinnar í öllum málum.

Miklu eðlilegra væri, að stjórnarandstaðan skipti um sæti við núverandi stjórnarflokka.

Spurning er, hvort tími Jóhönnu kom nokkurn tíma.

Hann er þá að minnsta kosti löngu liðinn.


mbl.is Mikill velvilji í garð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öllum augljóst

Öllum er nú orðið ljóst að ríkisstjórnin hangir einungis saman á lyginni einni, eins og sagt er, en er í raun orðin óstarfhæf, þó hún þekki ekki ennþá sinn vitjunartíma.  Allt logar stafnanna á milli innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra og niðurstaða næst ekki í neinu mikilvægu máli og er þá sama hvort litið er til ESB umsóknar, Icesave, eða þess sem mestu skiptir, fjárlaganna fyrir 2010 með þeim niðurskurði, sem til þarf og ekki ríkir meiri sátt um skattahækkunarbrjálæðið sem runnið er á Vinstri græna.

Ráðherrar koma fram í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum og segjast "vonast til" að ríkisstjórnin hangi saman eitthvað áfram, en þegar ráðherrar eru farnir að tala svona, er ríkisstjórn þeirra orðin algerlega óstarfhæf og í raun steindauð.  Össir, grínari, svaraði fyrirspurn um næstu skref á Alþingi, varandi Icesave, og mátti lesa út úr svörum hans, að ekkert nýtt væri að gerast í málinu.  Einnig segir í fréttinni:  "Össur tók jafnframt fram að ekki væri öruggt að meirihluti yrði fyrir því frumvarpi á þingi. Hann tók undir með Birgi að staðan væri erfið og gæti verið háskaleg fyrir Íslendinga. Raunhæfur möguleiki væri jafnframt á að hér verði stjórnarkreppa."

Svona tala ráðherrar ekki, nema ríkisstjórn sem þeir sitja í, sé í dauðateygjunum.  Um það var bloggað hér í gær og má sjá það hérna

Hugsanlega verður jarðarförin auglýst í kvöld, eftir þingflokksfund VG.

Verði það ekki gert, gæti nályktin orðið óbærileg.

 

 


mbl.is „Upplausnin er okkur augljós“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blásið úr egginu og skurninn skilinn eftir

Meðferðin á Húsasmiðjunni er dæmigerð fyrir vinnubrögð útrásarmógúlanna við "kaup" þeirra á öllum helstu fyrirtækjum landsins og þeirra fyrirtækja, sem þeir "keyptu" erlendis.  Þetta kemur ekki vel fram í frétt mbl.is, en sést vel á fréttinni í Mogganum sjálfum, en þar segir m.a:  „Í raun er daglegur rekstur á góðri siglingu. Erlend lán sem eigendur tóku við kaup á fyrirtækinu hafa skapað erfiða stöðu. Þau lán eru á gjalddaga á næstu tveimur árum og hafa hækkað mikið vegna gengisfalls krónunnar,“ útskýrir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar."

Það var undantekningarlaus aðferð Baugsmanna og annarra viðskiptablóðsuga, að kaupa vel stæð og vel rekin fyrirtæki með mikið eigið fé, skuldsetja þau upp fyrir rjáfur og sjúga svo út úr þeim allt blóð, þ.e. greiða út nánast allt eigið fé félaganna sem arð til sjálfra sín og þeirra fyrirtækja sem tilheyrðu svikamyllu þeirra, með lokalendingu á Tortola, eða öðrum bankaleyndarparadísum.

Þetta viðskiptamódel leiddi til þess, að slóð þeirra var vörðuð fallegum eggjum, en þeir sem hjá stóðu, áttuðu sig ekki á því, að innihaldið hafði verið blásið úr eggjunum og ekkert var eftir nema skurninn.

Nú þegar eggin brotna eitt af öðru, kemur í ljós, að innihaldið var löngu horfið.


mbl.is Vestia eignast Húsasmiðjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur í stjórnarandstöðu

Ögmundur Jónasson, alþingismaður VG, er greinilega kominn í stjórnarandstöðu og virðst sú andstaða hans harðna með hverjum deginum, sem líður frá því að hann var hrakinn úr ríkisstjórninni af hinni hrokafullu, en ráðalausu, Jóhönnu Sigurðardóttur, meintum forsætisráðherra.

Greinilegt er að Ögmundur reiknar ekki með löngu lífi ríkisstjórnarinnar úr þessu, og endurspeglast það í því sem eftir honum er haft í fréttinni:  "Ögmundur segir að takist ríkisstjórninni að taka á málum sem varða AGS, vexti, hinn bratta niðurskurð í velferðarmálum og aðkomu erlendra sérfræðinga að ráðgjöf eigi hún „góða möguleika á að þjappa þjóðinni saman. Takist þetta ekki þarf hún náttúrlega að hugsa sinn gang.“"

Ekki verður annað séð, en fullkominn klofningur sé orðinn í VG og að nú hljóti að styttast í að flokkurinn klofni í tvennt og úr verði flokkur undir forystu Steingríms J. og annar undir forystu Ögmundar.

Fari svo, er líklegast að við taki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og flokks Ögmundar, jafnvel með þátttöku Hreyfingarinnar, sem þó er sennilega ekki stjórntæk.

Þetta gæti orðið áður en mjög langt um líður.

 

 


mbl.is Höfum ekkert við AGS að gera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifandi lík

Ríkisstjórnin er dauð, en aðstandendur hennar eru í afneitun og geta ekki ennþá horfst í augu við raunveruleikann.  Bæði Össur, grínari, og Katrín, menntamála, hafa verið í viðtölum í dag og lýst þeirri von sinni, að Steingrímur J, fjármálajarðfræðingur, geti blásið lífi í nasir hennar, þegar hann kermur heim á morgun, en undanfarna viku hefur hann legið á píslarbekk Breta, Hollendinga, ESB og AGS í Istanbul.

Allir hans fundir hafa verið "gagnlegir" en virðast ekki hafa skilað neinu, öðru en því, að áfram skuli málin rædd og reynt að finna lausn á þeim, enda staðan orðin "vadræðaleg fyrir alla aðila", eins og ráðherranefnurnar orða niðurstöðuleysið.  Um þetta var fjallað nánar í gær, og má lesa það hérna

Þegar ráðherrar í ríkisstjórn eru farnir að tala um að þeir vonist til að stjórn þeirra sé ekki dauð, þá er hún í raun steindauð.  Ekki skýrist hugsunin í kolli þeirra, eða stuðningsmanna þeirra, á meðan þeir berja hausnum við steininn.  Því væri þeim ráðlegast að viðurkenna andlátið og auglýsa jarðarförina sem allra fyrst.

Hvað sem þeir reyna að klóra í grafarbakkann, er stjórnin ekki orðin annað en lifandi lík, eða eins og kaninn myndi segja:  "Dead man walking".


mbl.is Hefur trú á að stjórnin lifi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biður þjóðina að afsaka sjálfa sig

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, notar nú hvern dag, eins og hann sé sinn síðasti í ráðherrastóli, til að dæla alls kyns yfirlýsingum yfir landslýð, um hitt og þetta, sem hún hefur skipt um skoðun á, eins og t.d. greiðsluskyldu þjóðarinnar á hluta af skuldum Landsbankans og í dag til að biðja þjóðina afsökunar á hruninu.

Það sem verra er, hún minnist ekkert á helstu sökudólga hrunsins, þ.e. útrásarmógúlana, heldur biðst hún afsökunar á gerðum allra annarra, jafnvel þjóðarinnar sjálfrar, þegar hún segir:  "„Bankarnir brugðust, stjórnkerfið brást, stjórnmálin brugðust, eftirlitskerfið brást, fjölmiðlarnir brugðust, hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást og það hafa efalítið verið teknar margar rangar ákvarðanir sem leiddu okkur í þessa erfiðu stöðu," sagði Jóhanna."

Það er t.d. hulin ráðgáta hvernig stjórnmálin brugðust, því ekki er vitað til þess að bankar eða útrásarfyrirtæki hafi verið rekin af stjórnmálamönnum, né á pólitískum forsendum.  Hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást ekki heldur, það voru glæpamennirnir sem ekki fóru eftir hugmyndakerfinu og brutu, eða sveigðu öll lög landsins til þess að stunda sína iðju og leika á eftirlitskerfið.

Auðvitað voru teknar margar rangar ákvarðanir á þessum tíma, af almenningi, en það voru fyrst og fremst hvítflibbaglæpamenn, sem komu þjóðinni í þá stöðu, sem hún er í núna og þeir hafa ekki og munu ekki biðja nokkurn mann afsökunar á framferði sínu.  Þeir munu ekki einu sinni sjá sitt eigið siðleysi í réttu ljósi á afplánunartíma, því þeir munu allir halda því fram, að þeir hafi verið misskildir snillingar, sem urðu fyrir óhappi, og allt hafi einmitt verið stjórnsýslunni og eftirlitskerfinu að kenna.

Þessi afsökunarbeiðni lýsir ekki mikilli einlægni og skýrist fyrst og fremst af því, að Jóhanna er orðin hrædd um afdrif ríkisstjórnarinnar og hún mun ekki sjálf verða í framboði til Alþingis oftar.

Hún vill láta minnast sín, sem manneskjunnar, sem bað alla afsökunar á öllu mögulegu.

 


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningi við hvað?

Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur og formaður VG, sem nú er að láta rassskella sig í Istanbul, komst á milli svipuhögga í símann, til þess að grátbiðja félaga sína í VG, að þegja um ósættið og klofninginn innan VG og ríkisstjórnarinnar og gera hlé á atinu þangað til hann kæmi heim, pakkaður í sáraumbúðir.

Eftir áminningu til félaganna um að þeir hafi lofað að styðja ríkisstjórnina áfram, segir hann:  "Í öðru lagi var alveg skýrt að það var ákveðið að halda áfram að láta á það reyna hvort hægt væri að lenda þessu Icesave-máli, að sjálfsögðu með það leiðarljósi að svo kæmi það til þingflokksins og skoðað yrði hverju tækist að ná fram. Það var samstaða um það hvað út af stæði og á hverju þyrftu að fást lagfæringar."

Þetta eru merkilegar yfirlýsingar, í fyrsta lagi að það skyldi skoðað í þingflokknum eftirá, hverju tækist að ná fram, þar sem Ögmundur var rekinn úr ríkisstjórninni, einmitt fyrir að vilja ekki gefa fyrirframsamþykki við kröfum þrælahaldaranna, en Jóhanna, meintur forsætisráðherra, krafðist fyrirfram samþykkis allra ráðherra og þingflokka við væntanlegri uppgjöf fyrir þrælapískurunum.

Í öðru lagi vaknar spurnin við síðustu setninguna, en þar segir að samstaða hafi verið um það, hvað út af stæði og hvaða lagfæringar þyrftu að fara fram á uppgjafaskilmálunum.  Fram að þessu hefur Steingrímur alltaf sagt að Íslendingum bæri að greiða þessa skuld gamla Landsbankans og samningarnir, sem um það hefðu verið gerðir, væru þeir hagstæðustu sem hugsast gæti fyrir Ísland.

Hverjir eru núna að fara fram á lagfæringar?  Eru það Bretar og Hollendingar?  Hvaða lagfæringar?  Í þágu hverra eiga þær lagfæringar að vera?  Skyldi það vera í þágur þrælahöfðingjanna?

Vonandi fást svör við þessu strax og Steingrímur kemur til landsins og áður en hann fer að reyna að forða klofningi VG.


mbl.is Hétu öll stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýr við blaðinu - of seint

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, hafa haldið því staðfastlega fram allan sinn ríkisstjórnartíma, að Íslendingum bæri að greiða Icesave skuld einkabankans Landsbanka, þeim bæri að "standa við skuldbindingar sínar" við Breta og Hollendinga.  Fyrir þessu hafa þau talað og barist með kjafti og klóm til þessa og sagt þrælasamninginn, sem Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, undirrituðu í skjóli nætur, vera sá besti sem hægt væri að ná, enda Íslendingum mjög hagstæður.

Nú kemur Jóhanna fram í breskum fjölmiðli og gagnrýnir Brown, forsætisráðherra Bretlands og trúbróður sinn, fyrir hryðjuverkalögin og segir þar og í stefnuræðu sinni, að ósanngjarnt sé, að Íslendingar séu látnir greiða fyrir gallað regluverk ESB.  Þetta er alger viðsnúningur af hennar hálfu, nú þegar ár er liðið frá hruninu og setningu hryðjuverkalaganna.

Þessi viðsnúningur í málinu, akkúrat núna, er engin tilviljun.  Jóhanna veit, að með því að falla frá fyrirvörum Alþingis við þrælasamninginn, mun ríkisstjórnin springa og eins er hún loksins farin að viðurkenna fyrir sjálfri sér, að þjóðin stendur nánast sem einn maður gegn Samfylkingunni í þessu máli.

Ráðherrarnir eru einnig að vakna upp við það, að með fyrirhuguðu skattabrjálæði sínu, er almenninggur búinn að fá yfir sig nóg af þessari ráðalausu dáðleysisríkisstjórn.

Jóhanna er farin að undirbúa jarðveginn fyrir nýjar kosningar, sem hún reiknar með að verði ekki síðar en í vor.


mbl.is Jóhanna gagnrýnir Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðræðurnar voru gagnlegar

Alkunna er,  að þegar fundir stjórnmálamanna, ekki síst í milliríkjasamskiptum, skila engum niðurstöðum, er jafnan sagt að fundirnir hafi verið ganlegir og viðræðum verði haldið áfram, því brýnt sé að leysa viðkomandi vandamál og vonandi muni nást niðurstaða innan skamms.  Þegar þetta orðalag er notað, er venjulega hægt að reiða sig á, að ekkert hafi þokast með málin og þau í jafnmiklum hnút og áður, ef ekki verri.

Af þessum sökum segir Steingrímur J. að fundirnir með fjármálaráðherrum Bretlands og Hollands um helgina hafi verið gagnlegir, sem segir í raun ekkert annað en það, að ekkert hafi þokast með Icesave málið og þrælahaldararnir hafi ekki lagt frá sér svipurnar, líklega frekar látið glitta í gaddasvipur, sem þeir hafi hótað að beita á íslensku þjóðina fljótlega, verði ekki bakkað frá fyrirvörum Alþingis vegna Icesave skulda Landsbankans.

Össur Skarphéðinsson, grínari, átti fundi í síðustu viku með utanríkisráðherrum nýlendulandanna og voru þeir fundir ákaflega gagnlegir, að sögn Össurar, en skiluðu auðvitað engum árangri, öðrum en þeim, að nauðsynlegt væri að fá botn í þessa deilu sem fyrst.

Steingrímur J. á fund með æðsta handrukkara AGS á morgun og ef sá fundur verður eingöngu gagnlegur, en skili engri niðurstöðu, er ríkisstjórnin komin í pattstöðu með málið og verður að fara frá völdum.

Ofan á fjármálakreppuna kemur væntanlega stjórnarkreppa, sem verður þá helsta niðurstaða búsáhaldabyltingarinnar.


mbl.is Steingrímur J.: Gagnlegur fundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur stillti ríkisstjórninni upp við vegg

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir að Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, hafi stillt sér upp við vegg, vegna andstöðu hans við fyrirhugaðar breytingar á fyrirvörum Alþingis vegna samningsins um Icesave skuldir einkabanka. 

Þetta er auðvitað rétt, en vopnið snerist í höndum Jóhönnu, því með því að bakka ekki frá skoðunum sínum og segja sig heldur úr ríkisstjórninni, stillti Ögmundur ríkisstjórninni upp við vegg og hefur nú líf hennar í höndum sér, ásamt fylgismönnum sínum innan Vinstri grænna.

Ögmundararmur VG er farinn að brýna kutana, eins og sést á harði afstöðu Guðfríðar Lilju, vegna afsagnar Ögmundar og yfirlýsingu þeirra og fleiri vinstri grænna um, að Alþingi eigi og muni hafa síðasta orðið um allar breytingar á fyrirvörunum.

Greiði þessir þingmenn VG atkvæði á móti boðuðum breytingum á fyrirvörum Alþingis, mun ríkisstjórnin verða að segja af sér og um leið myndu vinstri grænir væntanlega klofna í tvo flokka, flokk Ögmundar og flokk Steingríms J. og óvíst hvor flokkurinn yrði stærri.

Því miður hefur ósamkomulag stjórnarflokkanna í nánast öllum málum orðið til þess að árið sem er að líða hefur ekki gagnast neitt í baráttunni við kreppuna, heldur þvert á móti orðið til þess að hún verður lengri og dýpri, en hún hefði þurft að verða.

Til hagsbóta fyrir þjóðina, má fara að vonast eftir því, að ríkisstjórnin fari frá á næstu vikum.


mbl.is Ögmundur: Var stillt upp við vegg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband