5.3.2010 | 10:14
Lausráðinn starfsmaður í Viðskiptaráðuneytinu talar gegn þjóðarhag
Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður í Viðskiptaráðuneytinu, lætur gamminn geysa við norska fréttavefinn E24! og lætur sér ekki einu sinni detta í hug, að tala máli íslenskra skattgreiðenda gegn fjárkúgun Breta og Hollendinga, sem þessi lausráðni starfsmaður hefur reyndar viljað, ekki bara beygja sig undir, heldur reynt á allan máta að sannfæra þjóðina um, að væru fyllilega réttmætar, þó allir viti og viðurkenni, að kúgunin á sér enga lagastoð, hvorki í íslenskum lögum, eða tilskipunum ESB.
Með því að merkja við NEI á kjörseðlinum á morgun er ekki eingöngu verið að afneita ríkisábyrgð á gamla Landsbankanum, sem var einkabanki, heldur líka því, að íslenskir skattgreiðendur ætli að taka á sig byrðar í framtíðinni vegna Íslandsbanka og Arion banka, sem ríkið hefur einkavætt á ný, en enginn veit hinsvegar hver á, en eru líklega aðallega erlendir vogununarsjóðir.
Væntanlega hefur enginn látið sér detta í hug, að ríkisábyrgð á þessum bönkum hafi fylgt með í kaupunum, þegar þeim var afsalað til þessara erlendu vogunarsjóða, en með því að samþykkja minnstu aðkomu ríkisins að uppgjöri þrotabús Landsbankans, er verið að setja fordæmi, sem einnig mun ná til þessara nýju einkabanka og starfsemi þeirra í framtíðinni, sem enginn getur séð fyrir núna, hver og hvernig mun verða.
Þess vegna má alls ekki gera neina samninga við kúgarana vegna Landsbankans, hvorki um að leggja hluta höfuðstóls eða nokkurra einustu vaxta á íslenska skattgreiðendur. Þeim ber ekki, samkvæmt lögum og tilskipunum ESB, að greiða eina einustu krónu, ekki eina evru og ekki eitt einasta pund, vegna glæfrareksturs óábyrgra bankamanna, hvorki íslenskra né erlendra.
Þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðslan einstakt tækifæri til að senda kúgurunum sjálfum og ekki síður almenningi í öðrum löndum, skýr skilaboð um það, að skattgreiðendur á Íslandi láti ekki traðka á sér, vegna einkaskulda, sem almenningi koma ekkert við.
![]() |
Samningarnir geta reynst dýrari en Icesave-skuldin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.3.2010 | 22:20
Er einhver hissa á Jóhönnu?
Ólafur Elíasson í InDefence lýsir yfir undrun sinni á þeim orðum Jóhönnu Sigurðardóttur að þjóðaratkvæðagreiðslan sé marklaus vegna þess að fjárkúgararnir séu búnir að leggja fram "betra tilboð" en "besta tilboðið" sem var lagt fram á eftir "næst besta" tilboðinu sem nefnt hafði verið á óformlegum fundi, þegar ekki þótti ástæða til að boða til fundar, vegna þess að ekki var þá um neitt að ræða.
Undanfarnar vikur hafa komið yfirlýsingar frá Jóhönnu og Steingrími J. þess efnis að líklega myndi nánst nýjir samningar um Icesave á næstu klukkustundum, enda væri runninn upp lokasólarhringur þessa örlagaríka máls og tilboð streymdu í allar áttir og aðeins væri eftir að vinna úr stöðunni, enda væri hún geysilega flókin og því full ástæða til að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna, eða a.m.k. fresta henni um viku, ef svo færi, að ekki yrði búið að vélrita allra síðasta tilboð, sem yrði örugglega betra en það síðasta þar á undan.
Ef eitthvað er marklaust þessa dagana eru það Jóhanna og Steingrímur J., sem þó hafa aldrei verið sérstaklega marktæk eins og sést af öllum þeirra stjórnarháttum síðast liðið ár og ekki síst í ótrúlega klaufskum og ruglingslegum verkum varðandi Icesavemálið og baráttu þeirra fyrir hagsmunum kúgara sinna og þjóðarinnar.
Ólafu Elíasson þarf ekki að vera hissa á ummælum Jöhönnu. Þau eru algerlega í takt við alla aðra vitleysu, sem hrotið hefur af vörum ráðherranna, alveg frá upphafi afskipta þeirra af Icesavemálinu.
Hann þyrfti þá fyrst að verða hissa, ef eitthvert vitrænt orð dytti óvart upp úr þessu fólki.
![]() |
Furðar sig á ummælum ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.3.2010 | 13:33
Mikilvægt að kynna lagalega stöðu málsins
Nú þegar fjölmiðlamenn víða að úr heiminum eru samankomnir hérlendis til þess að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn, er mikilvægt að stjórnvöld og aðrir kynni vandlega lagalega hlið Icesavemálsins til þess að sá misskilningur leiðréttist að Íslendingar ætli ekki að standa við "alþjóðlegar skuldbindingar" sínar.
Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi Icesave felast í því einu, að hafa sett lög um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta, sem er sjálfseignarstofnun og bankarnir keyptu sér tryggingar hjá, eins og hverju öðru tryggingafélagi. Tryggingin sem bankarnir keyptu hljóðaði upp á það, að sjóðurinn myndi tryggja hverjum innistæðueiganda að lágmarki 20.887 evra greiðslu, færu bankarnir á hausinn og samkvæmt tilskipunum ESB er í raun bannað að veita slíku tryggingafélagi ríkisábyrgð á skuldbindingum sínum.
Nú þegar tryggingasjóðurinn er í raun gjaldþrota og getur ekki staðið við útgreiðslu á lágmarkstryggingu vegna Icesave reikninganna, á sjóðurinn forgangskröfu í þrotabú landsbankans, en ekki á íslenska skattgreiðendur. Smátt og smátt mun sjóðurinn fá sínar greiðslur frá þrotabúinu og geta þar með lokið við að greiða út þá fjárhæð, sem Landsbankinn var búinn að kaupa sér tryggingu fyrir. Eftir því verða Bretar og Hollendingar að bíða, en geta ekki gert íslenska ríkisborgara að skattaþrælum sínum, vegna fáráðlegs rekstrar einkabanka.
Þetta þarf að útskýra vel fyrir hinum erlendu fjölmiðlamönnum, en óvíst er að fulltrúar ríkisstjórnarinnar séu þeir réttu til þess, miðað við ræfildóminn í kynningarmálunum fram að þessu.
![]() |
Mikill áhugi erlendra miðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2010 | 11:56
Verðtryggingin er ekki vandamálið
Mikið er býsnast yfir verðtryggingu fjármálaskuldbinginga um þessar mundir og henni fundið allt til foráttu og látið eins og hún sé eitt mesta vandamálið, sem við er að glíma um þessar mundir.
Verðtryggingin, sem slík, er þó ekki vandamálið, heldur það sem hún er að mæla, þ.e. verðbólgan. Allri athyglinni er beint að hitamælinum, en ekki sjúkdóminum, sem veldur hitanum í sjúklingnum. Afnám verðtryggingar er því sambærilegt við að brjóta mælinn, en láta sjúklinginn liggja áfram án meðhöndlunar.
Vandamálið er verðbólgan sjálf, sem grasserað hefur hér á landi í áratugi, vegna lélegrar hagstjórnar lengst af, hún hefur ekki verið sambærileg og í öðrum löndum, nema í örfá ár allt frá lýðveldisstofnun. Meira að segja núna, í kreppu þar sem eftirspurn er nánast engin, er bullandi verðbólga vegna efnahagsóstjórnar.
Ef hagstjórnin væri í lagi og verðbólga lág, þá væri verðtryggingin ekkert vandamál.
Baráttunni á því að beina að óvininum sjálfum, ekki þeim sem bendir á hann.
![]() |
Meinsemd hve verðtrygging er fyrirferðarmikil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.3.2010 | 09:28
Nú þarf góða kjörsókn og afgerandi niðurstöðu
Þrátt fyrir að Jóhanna og Steingrímur J. hafi haldið því fram undanfarnar vikur, að þjóðaratkvæðagreiðaln verði nánast marklaus vegna þess að "betra tilboð" liggi á borðinu, þá er ekkert útlit fyrir að kúgararnir séu tilbúnir til að gefa nokkuð eftir af kröfum sínum á hendur íslenskum skattgreiðendum, sem þó eru engir aðilar að málinu, samkvæmt íslenskum lögum og tilskipunum ESB.
Viðræður við fjárkúgarana hafa engan árangur borið, en þeir hafa hinsvegar niðurlægt íslensku samninganefndina á allan mögulega hátt undanfarnar vikur, bæði með því að láta hana bíða úti í London í algerri óvissu um hvort og hvenær þrjótunum þóknaðist að tala við hana, kröfur hafa komið fram um að aðeins tveir nefndarmenn mættu á fundi og þegar nefndin hefur ætlað að fara heim, hefur verið látið berast, að ef til vill væri hægt að veita henni áheyrn daginn eftir, án þess að nokkuð hafi svo gerst.
Öllu þessu verður að mótmæla kröftuglega í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni frá lýðveldisstofnun og kröfum um aukna þátttöku almennings í mótun samfélagsins, verður að fylgja eftir með góðri þátttöku, loksins þegar tækifæri gefst fyrir fólk að láta til sín taka.
Nú verður helst að setja met í kosningaþátttöku og lögin þarf að fella úr gildi, með afgerandi hætti, til að sýna kúgurunum og heiminum öllum, að íslenskir skattgreiðendur láta ekki hneppa sig í erlendan skattaþrældóm, baráttulaust.
![]() |
Kosningarnar blasa við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.3.2010 | 22:17
"Hver sem niðurstaðan verður"
Steingrímur J. sagði við ABC fréttastofuna norsku, að samningaviðræðum um Icesave yrði haldið áfram "hver sem niðurstaðan verður" í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn. Með þessu orðalagi hlýtur Steingrímur að vera að gefa í skyn, að eitthvað sé tvísýnt um hver úrslitin muni verða.
Þetta er auðvitað alveg dæmalaust stagl í manninum, því varla hvarflar að nokkrum manni, að JÁ atkvæði verði mörg, því nú er nánast öruggt, að nánast verða NEIin 100%, því varla fer nokkur einasti maður á kjörstað til annars, en að sýna fjárkúgurunum hug sinn og þrátt fyrir eina og eina rödd skósveina Jóhönnu og Steingríms á blogginu fram að þessu, þá hljóta þær allar að vera þagnaðar núna.
Þjóðarhagur er að veði í þessu varmarstríði við þjóðir, sem vanar eru að beita aðra ofbeldi og yfirgangi og ætla nú að beita íslenska skattgreiðendur fjárkúgunum af verstu tegund.
Eina vopnið sem kúgurunum mun virkilega svíða undan, er einróma niðurstða í kosningunni: NEI
![]() |
Viðræður geta haldið áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2010 | 18:03
Er samstaða flokkanna að rofna?
Ekki virðist samgangur vera meiri en svo á milli formanna stjórnmálaflokkanna, að stjórnarandstaðan er ekki lengur látin vita hvað samninganefndin er að aðhafast úti í London, heldur fær hún nú eingöngu tilkynningu frá fulltrúa í nefndinni um að nefndin sé á leiðinni til fundar við fjárkúgarana.
Eftir því að dæma, er ekki lengur samráð um hvað sé lagt fyrir kúgarana, heldur virðast Jóhanna Steingrímur J. hafa tekið málin aftur í sínar hendur, eins og það er nú gæfulegt, miðað við fyrri "afrek" þeirra í þessu máli.
Nú virðist vera reynt að gera örvæntingarfulla lokatilraun til þess að klóra saman einhverri niðurstöðu, eða til að fá nýtt "besta tilboð" frá Bretum og Hollendingum, eingöngu til þess að hafa einhverja ástæðu til að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna, en íslensku ráðherrarnir gera allt, sem hægt er til að þóknast hinum erlendu herrum, sem alls ekki vilja að þessi atkvæðagreiðsla fari fram.
Ekki er hægt að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni, nema fella lögin um hana úr gildi og reyni Jóhanna og Steingrímur J. slíkar hundakúnstir, verður stjórnarandstaðan að standa í lappirnar og sjá til þess, að málið fái ekki afgreiðslu á Alþingi.
Eins og málþóf geta verið leiðinleg, verður að beita því nú, ef þörf krefur og sjá til þess, að atkvæðagreiðsla fari ekki fram í þinginu með sérstakri flýtimeðferð og afbrigðum.
Nú ríður á, að þjóðin standi saman og ljúki þjóðaratkvæðagreiðslunni með risastóru NEIi.
![]() |
Sitja á fundi í London |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2010 | 16:18
Besti listinn er ágætis grín
Jón Gnarr, sem áður hefur boðað að hann vildi verða borgarstjóri, vegna þess að hann vantaði þægilega innivinnu, hefur nú kynnt framboðslista sinn fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor og samanstendur hann af 25 listamönnum og öðrum grínistum.
Árið 1971 kom fram svipað framboð fyrir Alþingiskosningar og var ástandið í þjóðfélaginu ekki ósvipað því, sem það er nú, þó ekki alveg eins slæmt, en þá var kreppa vegna hruns síldarstofnsins og ungt fólk var í hálfgerðum uppreisnarhug, eftir 68byltinguna, svokölluðu.
O-flokkurinn stóð fyrir ýmsum skemmtilegum uppákomum og uppátækjum, t.d. tíðkaðist í þá daga, að flokkarnir stóðu fyrir bílahappadrættum, til fjáröflunar fyrir kosningar, en O-flokkurinn breytti út af því og stóð fyrir fjáröflunarhappdrætti, þar sem gamalt Mövereiðhjól var aðalvinningur.
Kannski Jón Gnarr og félagar lífgi upp á væntanlega kosningabaráttu með svipuðum uppátækjum og geri kosningarnar þannig skemmtilegri, en þær eru venjulega. Ekki veitir af húmor inn í pólitísku umræðuna á þessum síðustu og verstu tímum.
Líklega fer samt fyrir þessu nýja framboði eins og O-flokknum á sínum tíma, en hann fékk fá atkvæði í kosningunum, ef rétt er munað náði hann ekki einu sinni kjörfylgi, sem nam þeim fjölda stuðningsmanna, sem þurfti til að bjóða fram litsta í kosningum.
Eftir sem áður má hafa nokkurt gaman af uppátækinu.
![]() |
Stjörnum prýddur Besti listi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2010 | 15:02
InDefence talar máli þjóðarinnar - ríkisstjórnin ekki
Ríkisstjórnin rembist nú eins og rjúpan við staurinn við að ná nýjum "samningi" við Breta og Hollendinga til þess að geta, að kröfu fjárkúgaranna, fallið frá þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem lög frá Alþingi gera ráð fyrir að fari fram, eigi síðar en 6. mars n.k.
Einnig hamast ráðherrarnir og taglhnýtingar þeirra við að tala atkvæðagreiðsluna niður, m.a. með því að segja hana marklausa, vegna þess að á borðinu liggi "betri samningur". Atkvæðagreiðslan snýst hinsvegar ekki um "betri" eða "verri" samning, heldur snýst hún um að staðfesta eða hafna lögum um ríkisábyrgð á "versta samning lýðveldissögunnar", en þau lög voru samþykkt á Alþingi 30. desember s.l., en forseti vísaði til þjóðarinnar til staðfestingar, eða höfnunar.
Þegar til landsins flykkjast erlendir fjölmiðlamenn til þess að fylgjast með þessum sögulega atburði, sem atkvæðagreiðslan er, verður það að teljast með ólíkindum, að ríkisstjórnin skuli ekki nota tækifærið til þess að koma málstað Íslands á framfæri og útskýra fjárkúgun ofbeldisseggjanna bresku og hollensku í leiðinni.
Sem betur fer, eru þó félagarnir í InDefence óþreytandi við kynningu á réttindum íslenskra skattgreiðenda og þeim bolabrögðum, sem kúgararnir reyna að beita við að hneppa þjóðina í skattalegan þrældóm til næstu áratuga til greiðslu vaxta, sem eru þeim óviðkomandi.
Þökk sé InDefence fyrir þeirra framgöngu, en því meiri er skömm ríkisstjórnarinnar og skósveina hennar.
![]() |
Mikill áhugi erlendra fjölmiðla á þjóðaratkvæðagreiðslunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2010 | 11:54
Af hverju var málið höfðað hérlendis?
Hæstiréttur hefur vísað frá dómi, kröfu ríkislögreglustjóra um heimild til að leggja hald á 1,7 milljarða króna innistæðu grunaðrar gjaldeyrirsvindlara í Enskilda Banken í Svíþjóð.
Ekki skal dregið í efa, að lögreglustjórinn hafi talið þörf á því að leggja hald á bankainnistæðurnar, á meðan málið væri í rannsókn, en án þess að það komi fram í fréttinni, hlýtur þetta mál að vera rekið fyrir röngum dómstól.
Haldlagning bankainnistæðna í Svíþjóð, hlýtur að þurfa staðfestingu sænskra dómstóla, en ekki íslenskra, því ef íslenskir dómstólar gætu staðfest haldlagningu eigna íslendinga erlendis, án aðkomu dómstóla í hverju landi fyrir sig, þá væri nú auðvelt að eltast við eignir útrásarmanna í skattaparadísunum.
Því miður getur ekki verið, að málin séu svona einföld.
![]() |
Fá ekki að leggja hald á fé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)