Hvað gengur manninum til?

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvað fær utanríkisráðherra Lettlands til að tjá sig um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, nánast eingöngu á þeim nótum, að hún eigi ekki að hafa áhrif á umsókn Íslands um að fá að verða hreppur í stórríki ESB. 

Það er alger óþarfi af manninum að vera að blanda þessari atkvæðagreiðslu við þau hörmulegu mistök, sem umsóknin er, en nú hafa allir Íslendingar fundið á eigin baki, hvernig innræti og framkoma forystumanna ESB er í garð smáþjóða, sem þau telja að liggi vel við höggi.

Þegar Samfylkingin verður búin að eyða bæði dýrmætum tíma og miklum peningum í að berja saman einhvern samning við þetta fantabandalag, þá mun honum verða vísað til þjóðarinnar, sem mun vafalítið fella hann, með jafnvel meira afgerandi hætti en Icesavelögin.

Sennileg eru þessi ummæli utanríkisráðherrans einmitt tákn um það, að fantarnir innan ESB sjá nú hvernig samstaða Íslendinga kemur í ljós við afgreiðslu örlagaríkra mála, ekki síst yfirgang og fjárkúgunartilraunir erlendra fúlmenna.


mbl.is Niðurstaðan hafi engin áhrif á ESB-umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jonas Gahr Störe og Strauss-Kahn ljúa í takt

Jonas Gahr Störe lýgur því blákalt í blaðaviðtali, að hvorki Noregur né önnur norðurlönd standi í vegi fyrir endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og AGS, með því að neita að efna lánaloforð og tengja þau við þrælasamning við Breta og Hollendinga um Icesave.

Fýluráðherra þessi heldur því fram, að það eina sem standi í veginum, sé óvissa um hvort Íslendingar standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES samningnum, en þekki maðurinn ekki samninginn á han ekki að vera að tjá sig um hann og allra síst opinberlega.  Það hefur aldrei annað staðið til, en að standa við íslensk lög og tilskipanir ESB um innistæðutryggingasjóði, en norðulöndin hafa dyggilega stutt við bakið á kúgurunum og meira að segja Strauss-Kahn hefur sjálfur sagt, að einmitt þess vegna vilji norðulöndin ekki standa við lánasamninga sína.

Nú síðast hefur Milliband, fjármálaráðherra kúgunarríkissins Bretlands sagt, að aldrei hafi verið ágreiningur um að Íslendingar ætluðu að standa við skuldbindingar innistæðutryggingasjóðsins, heldur hefði deilan snúist um hve mikið Bretar og Hollendingar gætu skattpínt Íslendinga vegna vaxta af skuld, sem skattgreiðendur eru ekki í ábyrgð fyrir.

Íslendingar eiga enga sérstaka kröfu á norðurlöndin varðandi þessi lán, þeir hinsvegar lofuðu að veita þau í tengslum við efnahagsuppbyggingu hagkerfisins hér á landi og ættu því að vera menn til að standa við orð sín.

Vilji þeir ekki veita þessi lán, eiga þeir að segja það og draga loforðin til baka.

Það væri stórmannlegra heldur en að vera síljúgandi, eins og Strauss-Kahn gerir fyrir hönd AGS.

VIÐBÓT:

Finnar eru meiri menn en lygni fýluráðherrann norski, því þeir viðurkenna samkvæmt þessari frétt, að lán Finna séu tengd við fjárkúgunartilraunir Breta og Hollendinga, en lán allra norðulandanna voru samþykkt sem einn "lánapakki". 

Með þessari viðurkenningu er endanlega flett ofan af lygum fýluráðherrans Jonasar Gahr Störe, sem ætti að biðjast afsökunar á framkomu sinni.


mbl.is Gahr Støre vísar gagnrýni Ólafs Ragnars á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Stauss-Kahn fyrirmunað að segja satt?

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS kemur enn einu sinni með rulluna um að sjóðurinn sé "skuldbundinn til þess að aðstoða Íslendinga" og að Icesavedeilan sé "einkamál" sem komi sjóðnum og fyrirgreiðslu hans ekkert við, en hinsvegar séu það norðulöndin, sem neiti að standa við sinn hluta varðandi lánsloforð, þangað til búið sé að afgreiða Icesavedeiluna.

AGS dró fyrstu endurgreiðslu efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins í átta mánuði og enn hefur önnur endurskoðunin ekki verið afgreidd, þrátt fyrir að það hafi átt að klárast í janúar s.l.  Nú er komið fram í mars og ekkert frést af því, að AGS ætli að standa við sinn hluta samningsins, frekar en í fyrra sinnið. 

Ef norðulöndin vilja ekki veita Íslendingum lán til að efnahagsáætlunin geti haft sinn gang, þá ber AGS skylda til að aðstoða við að finna aðra lánveitendur og mætti t.d. benda á Kínverja, sem alltaf hafa verið Íslendingum vinsamlegir og munu hvort sem er, verða drottnarar heimsins innan fárra áratuga.

Blekkingar Strauss-Kahn og raunar hrein ósannindi duga Íslendingum ekki lengur.  Annað hvort drífur AGS í að standa við þá aðstoð, sem hann skuldbatt sig til að veita, eða slítur samstarfinu.

Geri hann hvorugt í þessum mánuði, eiga Íslendingar að þakka sjóðnum pent fyrir komuna og óska honum góðrar heimferðar.


mbl.is Strauss-Kahn segir AGS skuldbundinn til að aðstoða Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hroki norska utanríkisráðherrans - minnir á Jóhönnu Sig.

Ef það er eitthvað sem Jonas Gahr Störe og Jóhanna Sigurðardóttir eiga sameiginlegt, fyrir utan flokkatengslin, þá er það hrokinn og fýlan.  Enginn hefur farið fram á lán frá Noregi, umfram lánin, sem tengjast efnahagsáætlun Íslands og AGS, en samt leyfir þessi hrokagikkur sér að lýsa því yfir að Noregur muni ekki lána Íslendingum krónu umfram það og hann ætli ekki að láta norska skattgreiðendur greiða fyrir bankahrunið á Íslandi.

Ofan á þetta bætir hann svo, að Íslendingar geti sjálfum sér um kennt, að hafa kosið yfir sig stjórnmálastefnu, sem valdið hafi hruninu.  Ekki kusu Íslendingar yfir Breta kratana, sem þar hafa komið efnahagsmálunum í óefni og þurft að glíma við bankakreppu, sem er engu minni en Íslendingar þurfa að glíma við.  Ekki kusu Íslendingar yfir sig stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, þar sem upptök bankakreppu heimsins eru talin eiga upptök sín og ekki hafa Íslendingar kosið yfir sig stjórnir í þeim ESB löndum, sem nú eru að hruni komin, efnahagslega.

Allar þessar yfirlýsingar ráðherrans í garð Íslendinga hafa heyrst frá "samflokksmönnum" hans hér á landi og líklega er hann eingöngu að bergmála málflutning Steingríms J., Jóhönnu og Össurar, sem telja Störe til bestu vina sinna.

Eins og þau, er Jonas Gahr Störe verðugur fulltrúi fýlustjórnmálanna.


mbl.is Ekki frekari lán til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðuneytið viðurkennir að Icesave I sé í raun fallið úr gildi

Ífréttatilkynningu Forsætisráðuneytisins er viðurkennt, að með úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar séu ekki bara lögin, sem kölluð hafa verið Icesave II, fallin úr gildi, heldur séu lögin um frá því í júní s.l., sem kölluð hafa verið Icesave I, í raun fallin úr gildi líka, enda séu þau dauður bókstafur, þar sem Bretar og Hollendingar höfnuðu fyrirvörunum við ríkisábyrgðina, sem Alþingi samþykkti.

Þessu hefur verið haldið fram á þessu bloggi lengi, en ýmsir stuðningsmenn fýlustjórnarinnar hafa mótmælt því hástöfum, og Jóhanna Sigurðardóttir hefur reyndar haldið því fram að eldri lögin myndu taka gildi, en nú hefur Forsætisráðuneytið afneitað þeirri túlkun (sjá punkt nr. 2 í tilkynningunni).

Þetta þýðir auðvitað, að borðið er algerlega hreint og eftir eftirminnilega niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni eiga íslensk yfirvöld og samninganefndin ekki að samþykkja neinar viðræður við fjárkúgarana, nema samkvæmt þeim lögum og tilskipunum ESB, sem um bankagjaldþrot gilda.

Íslenskir skattgreiðendur höfnuðu kúguninni ekki jafn eftirminnilega og raunin er, til þess eins, að Jóhanna og Steingrímur taki við nýjum þrælasamningi úr hendi hinna erlendu húsbænda sinna.

Krafan hljóðar nú upp á alvöru viðræður um löglega niðurstöðu. 

Íslenskir skattgreiðendur sætta sig ekki við neitt annað.


mbl.is Ríkisstjórnin hefur fulla trú á viðunandi niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í ótrúlega glæsilega niðurstöðu

Fyrstu tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sýna að niðurstaðan stefnir í að verða ótrúlega glæsileg.  Tölur um kjörsókn eru ekki komanar, en allt bendir til þess að hún hafi verið eins góð og búast mátti við.

Fari svo, að yrir 90% þátttakenda í kosningunni hafi sagt NEI, er dagurinn sannkallaður merkisdagur og íslenskir skattgreiðendur sýnt fjárkúgurunum bresku og hollensku að þeir láta ekki kúga sig baráttulaust.

Merkur kafli í sögu þjóðarinnar hefur verið skrifaður og verður lengi minnst, sem eins glæsilegasta dags í lýðveldissögunni.


mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er verið að skrifa merkilegan kafla í Íslandssöguna

Fari kjörsókn yfir 50% og niðurstaðan verði afgerandi NEI verður það að teljast viðunandi, þó betra væri að þátttakan færi yfir 60%.  Ekki er hægt að reikna með jafn mikilli kjörsókn í atkvæðagreiðslu um eitt málefni, eins og þegar kosið er til Alþingis eða sveitarstjórna.  Jafnvel í forsetakosningum hefur þátttaka stundum verið rétt rúm 60%

Nú er um sögulegar kosningar að ræða og málefnið afar mikilvægt, þ.e. með því að fella Icesave lögin úr gildi, er í raun enginn gildur samningur fyrir hendi lengur, eins og fjallað var um á bloggi í morgun og má sjá hérna og því verða Bretar og Hollendingar að sætta sig við að málið verði aftur komið á algeran byrjunarreit og þá verður væntanlega farið að lögum og tilskipunum ESB varðandi framhald málsins og íslenskir skattgreiðendur leystir úr þeirri snöru, sem kúgararnir hafa hert að hálsi þeirra undanfarna mánuði.

Þetta verður eftirminnilegur dagur og þeir sem sitja heima og taka ekki þátt í þessum stóratburði verða í vandræðum seinna meir með að útskýra fyrir börnum sínum og barnabörnum, hvers vegna þeir tóku ekki þátt í að skapa þennan eftirmynnilega kafla Íslandssögunnar.

Því er ástæða til að skora á þá, sem enn eiga eftir að kjósa, að drífa sig á kjörstað og leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að setja X við NEI.

 


mbl.is Tæplega 43% kjörsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NEI í dag fellir Icesavesamninginn endanlega úr gildi

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. hafa reynt að hræða kjósendur frá því að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag með því að hamra á því, að hún sé marklaus bæði vegna þess að "betra" tilboð sé á borðinu og að þá taki upphaflegi Svavarssamningurinn gildi, því lögin frá því í júní s.l. verði virk á ný.

Þetta eru helber ósannindi og það vita þau skötuhjúin mætavel, því í Bretar og Hollendingar settu það ákvæði inn í upphaflega samninginn, að hann tæki ekki gildi fyrr en Alþingi væri búið að samþykkja ríkisábyrgð á hann og leggja þannig hundruð milljarða álögur á íslenska skattgreiðendur.  Alþingi sá við þessu, sem betur fer og samþykkti ríkisábyrgðina, með ströngum fyrirvörum, sem meðal annars fólu í sér, að ríkisábyrgðin yrði ekki virk, nema Bretar og Hollendingar féllust á fyrirvarana.

Með því að fella Icesavelög II úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag, með góðri kjörsókn og afgerandi niðurstöðu, verður enginn samningur í gildi og því síður ábyrgð islenskra skattgreiðenda á honum.  Þetta vita Jóhanna og Steingrímur, en reyna að blekkja þjóðina, vísvitandi, í þeim eina tilgangi að reyna að fá fólk til að sitja heima og gera þjóðaratkvæðagreiðsluna marklausa með því móti.

Það er ábyrgðarhluti af forystumönnum ríkisstjórnarinnar, að beita blekkingum og hreinum ósannindum til þess að eyðileggja fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem fram hefur farið á Íslandi frá lýðveldisstofnun.  Kjósendur verða að sjá í gegn um þessar falsanir á staðreyndum og fjölmenna á kjörstað, til þess að sýna umheiminum að íslenskir skattgreiðendur láti ekki leiða sig í þrældóm fyrir erlendar kúgara, baráttulaust.

Látum hvorki Jóhönnu eða Steingrím fæla okkur frá því að nýta helgasta rétt hvers manns í lýðræðisríki.

Fjölmennum á kjörstaði og svörum spurningunni með afgerandi og risastóru NEIi.


mbl.is Atkvæði greidd um Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur sagði ekki satt í Kastljósinu

Steingrímur J. reyndi í Kastljósi að gera lítið úr tilgangi þjóðaratkvæðagreiðslunnar á morgun og bætti við, að eftir hana sæti þjóðin uppi með lögin um Icesave I og þau tækju strax gildi og yrði þá að semja upp á nýtt út frá þeim lögum.

Þetta er algerlega ósatt, því í fyrirvörunum við ríkisábyrgðina, sem samþykkt var með þeim lögum var ákvæði þess efnis, að lögin tækju ekki gildi nema Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana.  Í samningnum sjálfum var á hinn bóginn tekið fram, að hann öðlaðist ekki gildi, nema samþykkt yrði ríkisábyrgð á hann. 

Þannig var hringtenging á milli samningsins og ríkisábyrgða og á hinn bóginn tenging ríkisábyrgðar við samþykki Breta og Hollendinga.  Kúgararnir höfnuðu fyrirvörunum við ríkisábyrgðina alfarið, þannig að hún mun aldrei taka gildi og þar sem ríkisábyrgðin mun ekki taka gildi, verðu sjálfur samningurinn heldur aldrei virkur.

Með því að segja blákalt framan í þjóðina kvöldið fyrir kosningar, að skattgreiðendur myndu sitja uppi með þrælasamninginn frá því í júní s.l. var Steingrímur að hræða kjósendur með hreinum ósannindum og er það vægast sagt ámælisvert af ráðherra og hreinlega siðlaust.

Framganga Jóhönnu Sigurðardóttur undanfarna daga vegna kosninganna er kapítuli út af fyrir sig og svo skammarlegur, að engin orð ná yfir slíka háttsemi.

Svarið við þessu öllu er góð kosningaþátttaka og niðurstaða sem hlóðar á einn veg:  NEI


mbl.is Tilbúnir til frekari viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur á við þjóðholla menn, sem verja hag og heiður þjóðarinnar

Steingrímur J. missti út úr sér á blaðamannafundi í morgun að ekki væri hægt að semja við fjárkúgara, þegar sumir fulltrúar íslenskra skattgreiðenda vildu ekki láta eftir ofbeldisseggjunum og borga mölglunarlaust ólöglega og siðlausa kröfu þeirra.

Þarna á Steingrímur vafalaust við þá snjöllu og viti bornu samningamenn, sem stjórnarandstaðan neyddi upp á ríkisstjórnina, eftir að útséð var með að þjóðin myndi kyngja þeim "glæsilega" afarkosti, sem félagar hans og vinir, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, skrifuðu undir á föstudagskvöldi í júní s.l., þegar þeir nenntu ekki að hafa málið lengur "hangandi yfir höfði sér", eins og Svavar orðaði það svo einlæglega í fjölmiðlum.

Hagsmunum íslenskra skattgreiðenda er ágætlega borgið á meðan hluti "samninganefndarinnar" berst gegn rangindum og kúgunum Breta og Hollendinga, sem ætla sér að hneppa Íslendinga í skattalega ánauð til áratuga, vegna vaxta af skuld, sem er ekki þjóðarskuld, heldur einkaskuld.

Engin lög á Íslandi eða í öðrum ríkjum Evrópu gera ráð fyrir því, að skuldum einkafyrirtækja, hvorki einkabanka né annarra einkafyrirtækja, sé breytt í þjóðarskuld og þannig velt yfir á skattgreiðendur landanna.

Þess vegna er svo mikilvægt, að góð þátttaka verði í þjóðaratkvæðagreiðslunni og niðurstaðan verði svo afgerandi, að enginn geti velkst í vafa um hug skattgreiðenda til slíkra fjárkúgara.

Þjóðarhagur er að veði.

NEI við Icesavelögunum.


mbl.is Hvað á Steingrímur við?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband