Er vanræksla alltaf refsiverð?

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram það álit nefndarinnar, að þrír ráðherrar hafi sýnt af sér vanrækslu með aðgerðarleysi í aðdraganda bankahrunsins, t.d. Geir Haarde með því að bregðast ekki við og grípa til ráðstafana til að minnka bankakerfið, Árni Mathiesen með því að láta ekki greina stöðu bankakerfisins og Björgvin G. Sigurðsson með því að sýna ekki frumkvæði, eftir að vandamál með bankana fóru að koma í ljós á árinu 2008.

Í sjálfu sér má velta því fyrir sér, til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hefði átt að grípa til, til þess að minnka bankakerfið, því varla hefði verið hægt að setja lög um að þeir greiddu upp öll sín erlendu lán, sem námu þá þegar óheyrilegum og óviðráðanlegum upphæðum og varla hefði verið hægt að skikka þá til að gjaldfella öll sín útlán á einu bretti.  Aðgerðir ríkisstjórnar gegn einkabönkum hefðu líklega verið taldar brjóta EES samninginn, en bankarnir störfuðu samkvæmt lögum og reglum um fjórfrelsið og þar á meðal um frjálsa fjármagnsflutninga.

Það sem þó var ámælisvert, eftir á séð, var að koma ekki með einhverju móti í veg fyrir opnun Icesave reikninganna í Hollandi í maímánuði 2008 og að hvorki ríkisstjórnin eða fjármálaeftirlitið skuli hafa tekið á því, að Icesave í Bretlandi yrði komið í dótturfélag innan breskrar lögsögu. 

Hvort svona vanræksla er svo refsiverð, því getur enginn skorið úr nema dómstóll, en ef vanræksla í starfi er alltaf refsiverð, eru líklega margir sakborningar sem ganga lausir í þessu þjóðfélagi.


mbl.is Athafnaleysi þriggja ráðherra jafngilti vanrækslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður engum stefnt fyrir Landsdóm?

Þingnefnd Atla Gíslasonar, sem hefur það hlutverk að kanna og skila áliti um hvort og þá hverjum ráðherranna í síðustu ríkisstjórn verði stefnt fyrir Landsdóm, vegna hugsanlegrar vanrækslu í störfum í aðdraganda bankahrunsins 2008.

Nefndin hefur verið að störfum mánuðum saman og samkvæmt fréttum hefur hún haldið daglega fundi undanfarnar vikur og fjöldi lögspekinga komið fyrir nefndina til álitsgjafar.  Einnig hefur komið fram að skýrsla nefndarinnar sé a.m.k. 300 blaðsíður og sýnir þetta allt saman hve yfirgripsmikið starf nefndarinnar hefu verið.  Samt sem áður er það með ólíkindum, að nefndin skuli ekki vera komin að endanlegri niðurstöðu í málinu, hálfum sólarhring áður en hún á að skila áliti sínu til Alþingis.

Nefndin mun reyna fram á kvöld að komast að niðurstöðu í málinu, en þessi langi tími, sem farið hefur í verkið og sú staðreynd að niðurstaða skuli ekki vera fengin, bendir eindregið til þess að mikill vafi leiki á því að til sakfellingar myndi koma fyrir Landsdómi og nefndin muni því varla mæla með að dómurinn verði kallaður saman.

Hafa verður í heiðri þá sjálfsögðu reglu, að fólki sé ekki stefnt fyrir dómstóla nema meiri líkur en minni séu á að sekt verði sönnuð.


mbl.is Skýrslan prentuð í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg viðbrögð vegna hótana um Kóranabrennu

Ótrúleg móðursýki virðist hafa gripið heimsbyggðina vegna heimskulegra áforma prests í 50 manna örsöfnuði í þorpskrummaskuði í Bandaríkjunum, sem enginn hafði áður heyrt minnst á, um að efna til Kóranabrennu til að minnast árásanna á tvíburaturnana, sem áttu sér stað 11/09 2001.  Allir helstu ráðamenn veraldar hafa risið upp og skorað á prestlinginn að hætta við brennuna, en hann var hinn þverasti þar til varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hringdi í rugludallinn og grátbað hann um að hætta við gjörninginn.

Þetta verða að teljast ótrúleg viðbrögð, því ekki hika múslimar við að svívirða og brenna biblíur og er skemmst að minnast þess, að Talíbanar myrtu níu vesturlandabúa vegna þess að þeir voru með biblíur í fórum sínum og varla þarf að reikna með að biblíunum hafi verið sýndur miklill sómi eftir morðin og reyndar alls ekki ólíklegt að þær hafi verið brenndar.

Múslimar hafa oft brennt biblíur í mótmælum sínum gegn vesturlöndum og önnur trúarbrögð en múslimsk eru ekki eingöngu illa séð í t.d. arabalöndum, heldur víða bönnuð með öllu og líflát liggur við því, að skipta úr múslimatrú í kristna trú.  Ekki myndi veröldin ganga af göflunum, þó biblíur yrðu brenndar, hvort sem er í austurlöndum eða í stórborgum vesturlanda og alls ekki myndi komast í heimspressuna þó einhver öfgamaður í afskekktu þorpi léti sér detta slíkt í hug. 

Öfgafullir múslimar sýna kristnum eða biblíunni  enga virðingu og því ætti heimurinn að halda sönsum, þó einn öfgaprestur í bandarísku krummaskuði láti sér detta í hug að kveikja í múslimskum trúarritum.  Þau ættu varla að vera heilagri í augum kristinna manna en biblían.


mbl.is Hættur við Kóranabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afskipti ráðherra, sem sjálfum ætti að stefna fyrir Landsdóm

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson virðast komin í hár saman vegna mismunandi afstöðu til þess, hvaða ráðherrum fyrrverandi ríkisstjórnar beri að stefna fyrir Landsdóm, vegna hugsanlegrar vanrækslu í aðdraganda hrunsins árið 2008.  Jóhanna vill að fjórum ráðherrum verði stefnt fyrir dóminn, en Össur aðeins tveimur.

Í fyrsta lagi eru þetta algerlega óþolandi afskipti af störfum þingnefndar Atla Gíslasonar, sem á að skila niðurstöðu sinni til þingflokka á morgun, laugardag, og í öðru lagi ætti að stefna bæði Jóhönnu og Össuri fyrir Landsdóminn, verði einhverjum ráðherrum stefnt fyrir hann á annað borð.  Jóhanna sat í fjárhagsnefnd ráðherra í síðustu ríkisstjórn með Ingibjörgu Sólrúnu, Geir Haarde og Árna Mathíasen og Össur var staðgengill Ingibjargar í veikindum hennar og sat fjölda funda um bankamálin og hélt öllum upplýsingum leyndum fyrir Björgvini G. Sigurðssyni, bankamálaráðherra, í fullu samráði við Ingibjörgu Sólrúnu.

Eftir því sem fréttir herma, er líklegt að nefnd Atla leggi til að fjórum ráðherrum, þeim Geir, Árna, Ingibjörgu og Björgvini, verði stefnt fyrir Landsdóminn, og fari svo hlýtur Alþingi að bæta þeim Jóhönnu og Össuri á listann, eða sem líklegra er, að fella tillögu nefndarinnar, enda harla litlar líkur á að um sakfellingu yrði að ræða fyrir dómstólnum.

Alla vega verður að reikna með að sex ráðherrum verði stefnt, eða engum.  Ef einhverjir ráðherrar teljast persónulega sekir um að hafa á þátt í að valda hruninu, eru Össur og Jóhanna þar ekki undanskilin.


mbl.is Jóhanna beitti þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr: "Ég er bara ég"

Í enn einu viðtalinu kemur Jón Gnarr fram eins og lætur eins og hann geti hagað sér eins og hann vilji í borgarstjóraembættinu og ef honum líki ekki við spurningar fréttamanna í útlöndum, þá svari hann bara út í hött og ætlast til að allur heimurinn skilji hvað hann sé gríðarlega fyndinn, að eigin mati.

Í viðtalinu við mbl.is segist Jón Gnarr bara vera hann sjálfur og ætli að halda því áfram, enda hafi hann verið kosinn borgarstjóri í Reykjavík út á það.  Í því að vera Jón Gnarr sjálfur mun felast að vera öðruvísi en aðrir og hafa leyfi til að láta út úr sér hvaða vitleysu sem er og það meira að segja án þess að þurfa að spyrja borgarráð um það, eins og hann hreykir sér af að ætla ekki að gera.

Ein mesta vitleysan, sem vall upp úr manninnum í viðtalinu var, að hann hefði verið kosinn borgarstjóri í Reykjavík.  Það er hreint ekki rétt því Besti flokkurinn fékk 20.666 atkvæði af 63.019 atkvæðum sem greidd voru á kjörstað, eða 32,79% greiddra atkvæða.  Hann var því alls ekki kosinn í borgarstjórastólinn af Reykvíkingum, heldur voru það borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar sem úthlutuðu honum borgarstjórastólnum.  Stórlega má efast um að 11.344 Reykvíkingar hafi kosið Samfylkinguna með það sérstaklega í huga, að með því væru þeir að kjósa Jón Gnarr í embætti borgarstjóra.

Svona æxlast nú málin í pólitíkinni og Jón Gnarr ætti að skilja það að hann situr í borgarstjórastólnum í skjóli Samfylkingarinnar og á undir hennar þolinmæði, hvað hann situr þar lengi.  Þegar menn taka að sér að gegna ábyrgðarstörfum eiga þeir að sýna ábyrgð í starfinu, en ekki "halda bara áfram að vera þeir sjálfir" og láta eins og kjánar, ef það hæfir ekki starfinu.

Skoðanakannanir hafa sýnt að minnihluti fólks er ánægt með störf Jóns Gnarr í embætti og ef hann ætlar bara að vera hann sjálfur, mun sú ánægja ekki aukast á næstunni. 


mbl.is „Ég er og verð óviðeigandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar hafa ekki hækkað, segir Steingrímur

Steingrímur J. heldur því fram að skattar hafi ekki hækkað í hlutfalli við heildarverðmætasköpun í landinu og trúi því hver sem vill, en það gera a.m.k. ekki launþegar, sem finna verulega fyrir aukinni skattheimtu af launum þeirra og hækkun verðlags vegna hækkana ríkisins á ýmsum gjöldum, sem leggjast á vöruverð, að ógleymdri hækkun á virðisaukaskatti.

Enginn fyrirtækjastjórnandi í landinu mun heldur taka undir það, að skattar hafi ekki hækkað og nægir að nefna launaskattinn í því sambandi, en hann hefur hækkað um rúm 47% í tíð Steingríms J. í fjármálaráðuneytinu. 

Atvinnuleysi er mikið og fjöldi fólks flutt úr landi og því hefur skattgreiðendum fækkað sem því nemur og þeir sem ennþá halda atvinnu sinni hafa flestir orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu, þannig að sama krónutala í sköttum núna vegur miklu þyngra í heimilisbókhaldinu, heldur er hún gerði fyrir tveim árum.

Allir finna fyrir skattahækkanabrjálæðinu sem dunið hefur á þjóðinni undanfarin tvö ár og enginn nema Steingrímur J. getur réttlætt frekari árás á kaupmátt almennings með meira af slíku, en Steingrímur J. boðar þó ennþá hærri álögur og virðisaukaskattshækkanir um áramót.

Nú er mál að linni í þeim efnum.

 


mbl.is Hægt og bítandi að endurheimta stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna ætti sex ráðherrum fyrir Landsdóm

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar mun líklega skila niðurstöðu sinni um hvort og þá hvaða ráðherra skuli kalla fyrir Landsdóm vegna ráðherraábyrgðar í aðdraganda efnahagshrunsins árið 2008, sem orsakaðist fyrst og fremst vegna ofvaxtar bankanna og óheiðarlegs reksturs þeirra.

Að því er fréttir herma er líkleg niðurstaða nefndarinnar sú, að fyrir Landsdóm skuli stefna ráðherrunum Geir Haarde, Árna Matthíasen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðssyni, en allt mun hafa farið upp í loft innan Samfylkingarinnar vegna Björgvins, þar sem Össur Skarphéðinsson berst hatrammlega gegn því, að honum verði stefnt fyrir dóminn og til að kaupa hann lausan er Árni boðinn í skiptum, þannig að einungis Geir og Ingibjörgu verði ákærð.

Þetta er vægast sagt einkennilegur póker, sem þarna er spilaður, sérstaklega þar sem aðalspilarinn, Össur Skarphéðinsson, ætti einnig að vera kallaður fyrir Landsdóm, enda leysti hann Ingibjörgu Sólrúnu af í veikindum hennar og sat fjölda funda um málefni bankanna fyrir hrunið.

Einnig ætti að stefna Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir Landsdóminn, því hún sat í sérstakri fjárhagsnefnd ríkisstjórnarinnar á þessum tíma, ásamt Geir, Árna og Ingibjörgu (Össuri) og ef einhverjum á að stefna fyrir dóm á annað borð, ætti það að vera þessi hópur ráðherra, sem fjallaði um öll efnahagsmál mánuðina fyrir hrunið.

Eðlilegast væri því að stefna sex ráðherrum fyrir Landsdóminn, en ekki fjórum, eða tveim, eins og yfirklórarinn Össur vill, til að frýja sjálfan sig og Jóhönnu allri ábyrgð.


mbl.is Líkur á landsdómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti aldrei að tjá sig opinberlega

Jón Gnarr hefur enn  á ný sannað, að hann ætti alls ekki að tjá sig opinberlega um nokkurn hlut, því honum farnast það svo illa og klaufalega, að leitun er að öðrum eins aulahætti nokkurs manns sem gegnir ábyrgðarstöðu.

Ef hann hefur haldið að það þætti fyndið úti í Evrópu, að hann skuli segjast liggja yfir klámi á netinu, þá er hann jafnvel skyni skorpnari en áður var talið og var þó ekki úr háum söðli að detta.  Reyndar þykir ekki heldur sniðugt hér á landi að kjörnir fulltrúar fólksins séu að gantast með klámfíkn og ef um einhvern annan en Jón Gnarr væri að ræða, færi allt á hvolf í þjóðfélaginu og viðkomandi yrði ekki vært í embætti eftir það.

Jóni Gnarr líðst þetta sjálfsagt, enda tekur enginn manninn alvarlega.  Verst er að hann er búinn að koma slíku óorði á borgarstjóraembættið, að langan tíma mun taka að endurvekja trúverðugleika þess.


mbl.is Ætlar aldrei aftur til Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr í útrás

Jón Gnarr mun vera kominn í útrás með hugmyndir Besta flokksins um græna borg, en hann er nú staddur í Brussel til að kenna Evrópubúum fræðin, enda þekkir enginn þar um slóðir gróður eða græn svæði, eins og allir vita sem komið haf til landa í álfunni.  Vonandi mun ekki fara fyrir útrás Jóns Gnarrs eins og endirinn varð á útrás fyrirrennara hans í þeim geira.

Besti flokkurinn hefur hins vega engan áhuga á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár, ramma- og aðgerðaáætlun, eða forgangsröðun verkefna og alls ekki sátt við borgarfulltrúa minnihlutans um þau efni, sem skipta hagsmuni borgarinnar og borgarbúa einhverju verulegu máli.

Líklega heldur meirihluti borgarstjórnar áætlunum sínum leyndum fyrir minnihlutanum og almenningi vegna þeirra hækkana á sköttum og þjónustugjöldum, sem líklega er ætlunin að skella á borgarbúa um áramótin og því verður komið seint og um síðir komið fram með tillögurnar, til þess að gefa sem minnstan tíma í umræður um þær.

Vonandi skrifar Jón Gnarr um flugþreytu og annað álíka uppbyggilegt í vefdagbók sína, en hingað til hefur dagbókin aðallega fjallað um þreytu, höfuðverk og úrillsku borgarstjórans. 


mbl.is Gagnrýna fjarveru á fundi borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar þurfa ekkert að skammast sín

Magni Laksáfoss, þingmaður í Færeyjum, segir færeysku þjóðina skammast sín fyrir ummæli Jenis av Rana um Jóhönnu Sigurðardóttur og neitun hans að taka þátt í kvöldverðarboði henni til heiðurs.  Afstaða Jenis stafar af viðhorfum hans til samkynhneygðra, sem söfnuður hans í Færeyjum finnur út úr túlkun sinni á biblíunni.

Færeyingar eiga alls ekkert að skammast sín fyrir manninn, heldur vera stoltir af því að í landi þeirra skuli vera málfrelsi og þegnarnir hafi full frelsi til að haga lífi sínu á þann hátt, sem þeir kjósa.  Jafn fáráðleg, sem manni finnst þessi skoðun hans, þá er ástæðulaust að fordæma manninn sem boðar hana, en hinsvegar þarf að berjast gegn þessum skoðunum eins og öðrum öfgahugmyndum.

Hér á landi er námvæmlega sömu öfgaskoðanir að finna og Jenis av Rana stendur fyrir og hér hefur fólk neitað að hitta og sitja til borðs með erlendum ráðamönnum vegna skoðana og starfa þeirra í heimalöndum sínum.  Íslenska þjóðin skammaðist sín ekkert fyrir þá aðila, heldur virtu skoðanir þeirra og rétt til að hafa þær, þó ekki væru allir sammála, hvorki skoðununum né mótmælunum.

Færeyingar eru frábær vinaþjóð Íslendinga og eiga að vera stoltir af sjálfum sér og eyjunum sínum.  Einnig þeim sem hafa einstrengingslegar skoðanir á meðan þeir halda sig innan ramma laga og regla og slasa engan, eða eyðileggja eignir annarra.


mbl.is Segir Færeyinga skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband