Réttarfarið troðið í svaðið af sjálfu Alþingi

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur verið boðið til viðræðna við þingflokk Samfylkingarinnar og áður á fund framkvæmdastjórnar flokksins, til þess að gera grein fyrir sinni hlið mála vegna tillögu Atlanefndarinnar um að stefna henni fyrir Landsdóm til að svara til saka um gerðir sínar og/eða aðgerðarleysi í aðdraganda bankahrunsins.

Ekkert er óeðlilegt við það, að sakborningum í jafn alvarlegum kærumálum sé gefinn kostur á að koma sínum málstað á framfæri áður en ákærur eru fluttar fyrir dómstólum, en í þessu tilfelli er röð atburðanna kolröng, því auðvitað átti nefnd Atla Gíslasonar að kalla alla ráðherra síðustu ríkisstjórnar fyrir sig og meta síðan út frá þeim yfirheyrslum, ásamt öðrum málsgögnum, hvort og þá hverjum nefndin vildi leggja til að stefna fyrir dómstólinn.

Atlanefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um neitt í sambandi við þessar ákærur, hvorki hvort yfirleitt skyldi stefna einhverjum og þá ekki hverjum.  Stórundarlegt er, að Samfylkingarfulltrúarnir skyldu leggja til að Ingibjörgu Sólrúnu yrði stefnt, en ekki Björgvini G., Jóhönnu og Össuri, sem þó fjölluðu öll um efnahags- og bankamálin á þessum tíma.

Með sínum slælegu vinnubrögðum í þessum kærumálum og að hafa í raun gert þau að pólitískum réttarhöldum, en ekki faglegum, hefur Atlanefndin komið af stað miklum illdeilum innan Samfylkingarinnar og hrossakaupum innan Alþingis um hvernig með málið skuli fara, ef og þegar Atli treystir sér til að mæla fyrir tillögum nefndarinnar.

Það hefði þurft mikið hugmyndaflug fyrir tiltölulega stuttum tíma, til að láta sér til hugar koma, að réttarfarið í landinu myndi nokkurn tíma komast niður á svona lágt plan.  Ekki síst þar sem það er löggjafasamkundan sjálf, sem er að troða það niður í svaðið.


mbl.is Ingibjörg Sólrún ræðir stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærumálin strand í þinginu vegna hrossakaupa

Í dag átti að ljúka umræðum á Alþingi um tillögur Atlanefndarinnar um málshöfðun á hendur ráðherrum úr fyrri ríkisstjórn vegna aðgerða þeirra og aðgerðaleysis í aðdraganda bankahrunsins.  Fjöldi þeirra ráðherra, sem stefna á fyrir Landsdóm, fer eftir pólitískum skoðunum þeirra sem vilja ákæra en ekki gerðum þeirra ráðherra, sem í stjórninni sátu, eins og sést á því að Samfylkingin vill ekki stefna Björgvini G. Sigurðssyni og einnig er Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni algerlega haldið utan við málið, þrátt fyrir sína aðkomu að ákvörðunum á þessum tíma.

Allt starf Alþingis vegna þessara tillagna einkennist af fálmi og hrossakaupum, því þrátt fyrir að umræðum um þessar stefnur ætti að ljúka í dag, er ekki ennþá farið að mæla fyrir tillögunum og verður líklega ekki gert fyrr en á föstudagsmorgun.  Ástæðan mun fyrst og fremst vera miklar illdeilur innan Samfylkingarinnar og þras og hrossakaup milli þingmanna um það, til hvaða nefndar skuli vísa tillögunum milli umræðna.

Þar sem líklega er meirihluti í þinginu fyrir því að vísa málinu til Allsherjarnefndar, en ekki Atlanefndarinnar, milli umræðnanna er allt strand í þinginu, þar sem VG og Hreyfingin eru hrædd um að breytingartillögur, sem frá Allsherjarnefnd kynnu að koma, myndu vera á skjön við sínar skoðanir og þar með yrði allt málið komið í enn meira uppnám en það er nú í.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni á Íslandi í dag varðandi sakamálaákærur.  Þær eru farnar að byggjast á pólitík og nægir að benda á ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur og Lilju Mósesdóttur því til sönnunar.


mbl.is Óvíst hvort málið fer í nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin og sala bankanna

Nú eru víða uppi háværar kröfur um enn eina rannsókn á sölu bankanna á sínum tíma, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum árin fyrir hrun, þó Ríkisendurskoðun hafi í tvígang farið yfir bankasöluna og Rannsóknarnefnd Alþingis hafi farið ýtarlega yfir starfsemi FME og Seðlabankans í aðdraganda hrunsins og talið tiltölulega fá atriði athugunarverð við starfsemi þeirra.  Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar varðandi þessar stofnanir voru sendar til Ríkissaksóknara, sem eftir yfirferð gagnanna taldi ekki grundvöll til frekari rannsókna eða ákæra.

Einkavæðing bankanna hófst með sölu á Fjárfestingabanka atvinnulífsins og þá var miðað við að selja bankann með dreifðri eignaraðild, en Kaupþing og sparisjóðirnir í samstarfi við Orca hópinn braut þær fyrirætlanir á bak aftur með klækjabrögðum, þannig að áformin um dreifðu eigaraðidina fóru út um þúfur, þrátt fyrir vilja og ætlun ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.  Orca hópurinn samanstóð af Baugsgegninu og samverkamönnum þess, en það gengi átti eftir að koma verulega við bankasöguna fram að hruni og olli því reyndar, ásamt öðrum banka- og útrásargengjum.

Samfylkingin stóð ávallt þétt að baki Baugsgenginu, eins og Össur Skarphéðinsson hefur viðurkennt og barðist með því gegn ríkisstjórninni til þess að eyðileggja allar fyrirætlanir um dreifða eiganraðild bankanna og fór svo að lokum að Davíð Oddson og ríkisstjórn hans neyddist til að falla frá áformum sínum í þá veru.

Óli Björn Kárason hefur tekið saman fróðlega upprifjun á þessum málum á vef sínum t24.is og ættu allir að lesa þá fróðlegu grein.  Hana má sjá HÉRNA


mbl.is Seldu reynslulausum bröskurum bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumstæð Jóhanna

Jóhanna Sigurðardóttir tjáði sig um skýrslu Atlanefndarinnar á þingi og talaði af því tilefni eins og alger nýliði á þingi og í ráðherrastóli og lét eins og henni kæmi algerlega á óvart, þetar hún tók við embætti forsætisráðherra "hve vinnubrögð á mörgum sviðum voru frumstæð".

Jóhanna hefur lengsta þingreynslu allra þingmanna, en hún hefur setið á þingi frá 1978, eða í 32 ár og þar af var hún ráðherra í tæp tíu ár samtals, áður en hún tók við forsætisráðherraembættinu.  Enginn þingmaður ætti því að þekkja starfshætti þingsins, ráðuneytanna og stjórnkerfisins og Jóhanna sjálf og því hljóma yfirlýsingar hennar um hvað allt sé frumstætt í kerfinu vægast sagt hjákátlega.

Einnig lét Jóhann frá sér fara eftirfarandi gullkorn:  „Það er í raun merkilegt hve lítil umræða hefur farið fram um umgjörð og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og ríkisráðs hér á landi, og innan stjórnarráðsins almennt. Og hve lítið við höfum litið til þróunar í nágrannlöndum okkar í því efni."  Vegna sinnar löngu þingk- og ráðherrareynslu ber varla nokkur þeirra sem enn sitja á Alþingi meiri ábyrgð á þróun vinnubragða innan þings og ráðuneyta og Jóhanna sjálf, því auðvitað hafa allar verklagsreglur í kerfinu þróast með því fólki, sem setið hefur á þingi og í ráðherrastólum á undanförnum áratugum.  Jóhanna Sigurðardóttir er mikill gerandi í þeirri þróun allri.

Að hún skuli svo koma í ræðustól á Alþingi og láta eins og þetta sé allt nýtt fyrir sér og komi algerlega á óvart, er því ekkert annað en frumstæð aðferð við að frýja sjálfa sig og reyna að koma ábyrgð yfir á einhverja aðra.

Sú hugsun, að halda að almenningur sjái ekki í gegnum yfirklórið, er jafnvel ennþá frumstæðari.


mbl.is Frumstæð vinnubrögð komu á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. og Castro

Fidel Castro gaf nýlega út þá yfirlýsingu að "Kúbanska módelið" gengi ekki upp lengur og nú hefur bróðir hans Raoul boðað uppsagnir einnar milljónar ríkisstarfsmanna og skal þeim beint í störf í einkageiranum, eða þeir hvattir til að stofna ný smáfyrirtæki, en reglur um einkarekstur munu verða rýmkaðar í tilefni þessara aðgerða.

Frá árinu 1968, þegar nánast allur einkarekstur á Kúbu var ríkisvæddur, hafa 85-90% vinnandi fólks á eynni unnið hjá ríkinu, en ríkisstarfsmenn munu nú vera rúmlega fimm milljónir talsins.  Eftir rúmlega fjörutíu ára ríkisrekstur á öllum sviðum, telja Castrobræður nú fullreynt og hyggjast snúa af þeirri braut kommúnisma og ríkisrekstrar, sem þeir hafa manna lengst í heiminum reynt að iðka.

Á sama tíma og þessi merku tíðindi eru að gerast á Kúbu, stefnir Steingrímur J., skoðanabróðir þeirra Castrobræðra, að því að ríkisvæða nánast allan rekstur á Íslandi og eyða sem mestu af þeim einkafyrirtækjum, sem starfað hafa í landinu.  Þau fyrirtæki, sem ekki verða hreinlega yfirtekin af ríkinu, eða ríkisbönkunum, munu kerfisbundið verða sett á hausinn með öllum tiltækum ráðum og komið í veg fyrir alla nýja atvinnuuppbyggingu á vegum einkafyrirtækja.

Óhætt er að segja að ólíkt hafast þeir að um þessar mundir, gömlu samherjarnir Steingrímur J. og Castro.


mbl.is Breytingar á Kúbu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaka kosningu forsætisráðherra

Eftir því sem fram kom hjá Atla Gíslasyni er meginniðurstaða þingnefndar hans, "að það verði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu og auka fagmennsku og undirbúning löggjafns."  Hann undirstrikaði alvöru þessara orða sinna á eftirfarandi hátt:  "Það má segja að þetta sé sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það er kominn tími til að iðka þrískiptingu ríkisvaldsins eins og hugmyndafræðingar þeirrar þrískiptingar lögðu upp með á sínum tíma."

Auðvitað átti Alþingi aldrei að verða stimpilpúði fyrir framkvæmdavaldið, en mál hafa þróast á þann veg að nánast engin lagafrumvörp eru samþykkt á þinginu, nema þau sem ríkisstjórnin leggur fram, en hlutverk þingsins á auðvitað að vera að setja landinu lög, sem ríkisstjórnin á svo að sjá um að séu framkvæmd.

Besta leiðin til að aðskilja löggjafar- og framkvæmdavaldið er að kjósa alþingismenn á fjögurra ára fresti, eins og verið hefur, en kjósa svo forsætisráðherra sérstaklega, einnig til fjögurra ára, en þær kosningar færu fram tveim árum á undan alþingiskosningunum, þannig að kjörtímabil þingmanna og forsætisráðherra sköruðust og engin trygging væri þá fyrir því, að meirihluti alþingismanna og forsætisráðherrann væru alltaf úr sama flokki.

Forsætisráðherra, þannig kjörinn, myndi síðan velja með sér fimm til sex ráðherra, alls ekki úr röðum þingmanna, heldur fagmanna úr þjóðfélaginu, sem hann myndi best treysta fyrir hverjum málaflokki fyrir sig.  Ráðherrarnir myndu ekki sækja þingfundi og kæmu aðeins í þinghúsið ef þingnefndir kölluðu þá fyrir sig til upplýsingagjafar.  Ef ráðherrarnir vildu fá fram einhverjar lagabreytingar, yrðu þeir að senda beiðni um slíkt til þingsins, sem þá myndi afgreiða slíkar tillögur eins og hverjar aðrar, sem til þingsins berast um lagabreytingar.

Með slíku fyrirkomulagi yrði Alþingi algerlega óháð framkvæmdavaldinu og þrískipting valdsins yrði loksins virk að fullu.


mbl.is Auka verður sjálfstæði þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynþáttafordómar á hættulegu stigi

Kynþáttafordómar hafa lengi verið við lýði meðal hluta þjóðarinnar, en með aukningu ferðalaga til útlanda og talsverðum flutningi fólks af hinum ýmsu kynþáttum til landsins undanfarana áratugi, hefði mátt ætla að skilningur manna í milli myndi aukast og fordómarnir hverfa.  Fordómarnir hafa þó ekki algerlega horfið og skjóta alltaf upp kollinum öðru hverju.

Nýjasta dæmið um slíka fordóma er af alvarlegri gerðinni, þar sem tveir, eða fleiri, menn hafa undanfarið herjað á átján ára gamlan íslenskan pilt, af erlendum uppruna, með líflátshótunum og árásum og skemmdarverkum á heimili hans.  Ofsóknir þessar virðast gerðar til að hræða piltinn og vinkonu hans frá því að hittast og vera saman.  Þessar ofsóknir hafa verið að stigmagnast að undanförnu og er nú svo komið, að pilturinn og faðir hans hafa flúið land vegna ótta um líf sitt og limi af hálfu þessara ofbeldismanna.

Hart verður að berjast gegn hvers konar kynþáttafordómum hér á landi, sem og öðrum fordómum, og taka alvarlega, þegar kvartað er undan slíku við lögregluyfirvöld, því allt getur farið í bál og brand, ef slíkar ofsóknir leiða til alvarlegra líkamsmeiðinga, að ekki sé talað um manndráp. 

Saga slíkra mála í nágrannalöndum okkar ætti að vera víti til varnaðar og öllum ráðum verður að beita, til að slíkt ástand þróist ekki hérlendis.


mbl.is Feðgar flýðu land vegna hótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarríkið í pólitískri gíslingu?

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi þingmaður og núverandi yfirfangavörður, reynir að benda á málefnaleg rök fyrir því, að það muni ekki samrýmast mannréttindaákvæðum að stefna ráðherrum fyrir Landsdóm, því lögin um hann séu löngu úrelt og uppfylli engin nútímaskilyrði um rannsóknir og ákærur.

Í fréttinni kemur m.a. eftirfarandi álit Margrétar á þeim þingmönnum, sem stefna vilja ráðherrum fyrir Landsdóm:  "Hún sagði að þingmenn sem það styðji viti ekki hvað þeir geri og verði af ákærunum sé brotið á rétti fyrrverandi ráðherranna fjögurra, Geirs H. Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvins G. Sigurðssonar. Búast megi við því að málið endi fyrir mannréttindadómstólum." 

Margrét hefur einnig bent á, að ráðherrarnir hafi ekki fengið stöðu grunaðra manna og engin opinber rannsókn hafi farið fram af þar til bærum rannsóknaraðilum, en ríkisvaldið á að vera þrískipt og því skýtur afar skökku við, að Alþingi skuli taka sér ákæruvaldið gagnvart framkvæmdavaldinu, en dómsvaldið skuli ekki koma þar nærri.

Að sjálfsögðu falla málefnalegar umræður ekki í kramið, þegar fjallað er um þessi mál, frekar en mörg önnur, enda virðist ríkisstjórnin og meirihluti þingmanna vera í pólitískri gíslingu þeirra öfgaskoðana, sem nú tröllríða þjóðfélaginu og blóðþorstanum sem engin leið virðist vera að slökkva.

Nú tíðkast að skjóta fyrst og spyrja svo, sérstaklega ef pólitískir andstæðingar eiga í hlut.


mbl.is Fráleitt að sækja ráðherrana til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er dómur þegar fallinn - á götunni?

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar skilar af sér, þríklofin, í Landsdómsmálinu, þ.e nefndin komst ekki að niðurstöðu um hvort og þá hverjum ráðherranna úr síðustu ríkisstjórn skuli stefnt fyrir dóminn.  Meirihluti nefndarinnar vill láta stefna fjórum ráðherrum, þeim Geir Haarde, Árna Matthiasen, Ingibjörgu Sólrúni Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðssyni, en Samfylkingarfulltrúarnir í nefndinni vilja sleppa Björgvini, líklega vegna þess að hann vitneskju um bankamál hafi verið haldið frá honum og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki ástæðu til að kveðja saman Landsdóm, þar sem litlar, sem engar líkur séu á því, að sakfelling næðist fram fyrir dómstólnum og því ekki réttlætanlegt að ákæra.

Sérstaka athygli vekur, að fyrst fulltrúar Samfylkingarinnar telja að Björgvin hafi ekki haft neina vitneskju, eða aðkomu, að þeim málum sem féllu undir hans ráðuneyti, skuli þeir ekki leggja til að þeir ráðherrar, sem leyndu hann upplýsingum og fóru í raun með ákvarðanatöku fyrir hönd Samfylkingarinnar í efnahagsmálum í fyrri ríkisstjórn, skuli ekki ákærðir og stefnt fyrir Landsdóminn í stað Björgvins.  Þetta eru að sjálfsögðu ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson, sem var staðgengill Ingibjargar Sólrúnar í veikindum hennar og Jóhanna Sigurðardóttir, sem sat í sérstöku fjögurra manna ráðherrateymi, sem fjallaði reglulega um stöðu bankanna og fjármál ríkisstjóðs.

Eigi yfirleitt að kalla saman Landsdóm í fyrsta sinn í sögunni, þá á að sjálfsögðu að stefna fyrir hann a.m.k. sex ráðherrum síðustu ríkisstjórnar og þar á meðal núverandi forsætisráðherra, sem samkvæmt eigin ráðleggingum til annarra, ætti bara að vera fegin, því þá gæfist henni kostur á að hreinsa nafn sitt fyrir dómi.

Samkvæmt viðbrögðum á blogginu og víðar, mun þó engu skipta hvað sakborningarnir munu legga fram, sér til málsbóta, fyrir réttinum, því fyrirfram er búið að dæma þá seka, alla málsvörn sem yfirklór og sjálfsréttlætingu, sem að engu skal hafa, eða meta, en kasta út umsvifalaust út í hafsauga.  Dómstóll götunnar er ekki vanur að meta málsástæður eða rök.  Allir dómar eru felldir af tilfinningu og oftast hatri á sakborningum og málsvörn aldrei tekin til greina.

Ábyrgð Alþingis í þessu máli, sem öðrum, er meiri en dómstóls götunnar og því verður þingið að skoða mál frá fleiri en einni hlið.  Vonandi verður það gert á faglegan hátt í þessu máli, en ekki eftir utanaðkomandi þrýstingi.


mbl.is „Röng niðurstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jón Ásgeir kominn á atvinnuleysisbætur?

Jón Ásgeir, Bónusbarón, segist vera orðinn algerlega launalaus á Íslandi, eftir að 365 miðlar hættu að greiða honum 3,7 milljónir króna á mánuði fyrir "ráðgjafastörf" og nú sé hann upp á framfærslu eiginkonu sinnar kominn, en hún skammti honum nú vasapeninga fyrir Diet Coce og fleira smálegu, sem hann þarfnast, þegar hann heimsækir ættland sitt ástkæra.

Þetta eru dapurleg umskipti frá velmektardögunum, þegar Bónusbaróninn gat veitt sér ýmislegt smálegt í heimsóknum sínum til landsins, en þá skammtaði Bónusveldið honum allt frá nokkur hundruðum milljóna króna til tveggja milljarða í eyðslufé árlega, eða eins og segir í fréttinni af greinargerðinni, sem hann sendi frá sér vegna kyrrsetninga á eignum hans í Bretlandi:

"Í greinargerðinni kemur einnig fram, að mánaðarleg útgjöld Jóns Ásgeirs á árunum 2001-2008 hafi verið á milli 272 þúsunda til 352 þúsunda punda á mánuði. Jón Ásgeir segir að miða eigi við gengið 125 krónur fyrir pundið og samkvæmt því voru útgjöldin 34-44 milljónir króna á mánuði. Ef miðað er við núgildandi gengi pundsins voru útgjöldin 49-64 milljónir á mánuði.

Eitt ár, 2007-2008, hafi útgjöld hans hins vegar verið nærri 11 milljónir punda, jafnvirði  2 milljarða króna á núverandi gengi. Það megi rekja til brúðkaups hans, greiðslna vegna snekkju og styrks vegna Formúlu 1 kappaksturs."

Vonandi hefur blessuðum drengnum tekist að spara svolítið í útgjöldunum, eftir að konan fór að skammta honum vasapeninga, því ekki tókst honum, að eigin sögn, að leggja fyrir til elliáranna af þessum aurum, sem hann hefur haft úr að spila á undanförnum árum.

Í greinargerðinni segir Jón Ásgeir af fyllstu hógværð: „Ég fellst að sjálfsögðu á að þessi útgjöld voru umtalsverð."  Já, það er dýrt að stunda kappakstur og kaupa snekkjur, að ekki sé talað um að gifta sig, það gerir enginn fyrir minna en milljarð nú til dags, eins og allt er orðið dýrt.  Þetta hljóta allir að sjá og skilja, enda hlýtur Bónusbaróninn að njóta samúðar þjóðarinnar vegna launamissisins.

Skyldi maðurinn ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum?  Þær gætu létt undir með eiginkonunni.


mbl.is Fær ekki lengur greitt frá 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband