19.9.2010 | 19:34
500 milljónir evra endurheimtast vegna veðsins í FIH
Seðlabankinn, undir stjórn Davíðs Oddssonar, hefur legið undir ámæli fyrir að hafa gegnt þeirri skyldu sinni að vera "banki bankanna", en í því felst auðvitað að veita viðskiptabönkunum lán og aðra fyrirgreiðslu frá degi til dags. Án seðlabanka myndi því ekki vera hægt að reka viðskiptabanka.
Mikið hefur verið fárast yfir því, að seðlabankinn skyldi hafa lánað Kaupþingi fimmhundruð milljóna evra lán á síðustu dögunum fyrir hrun, í þeirri von að slíkt lán dygði til að bjarga bankanum. Eftir á séð tókst það sem betur fer ekki, því þá hefði líklega ekki komist upp um þann sóðaskap og jafnvel glæpastarfsemi, sem þar viðgekkst innan dyra.
Í þessari umræðu hefur yfirleitt gleymst, að seðlabankinn tók full veð í FIH bankanum fyrir þessu láni og með sölu hans núna mun lánið allt innheimtast með vöxtum fyrir árið 2015.
Það verður að teljast mikið happ fyrir þjóðarbúið að seðlabankinn skyldi ná svo góðu veði fyrir þessu þrautavaraláni á sínum tíma. Það hlýtur að mega þakka aðalbankastóranum á þeim tíma, Davíð Oddssyni.
![]() |
Seldur á allt að 103 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
18.9.2010 | 19:03
Jón Gnarr bregst ekki
Á einu sviði bregst Jón Gnarr aldrei og það er í kjánaskapnum, en hvar og hvenær sem hann kemur fram til að svara spurningum varðandi málefni borgarinnar, er hann eins og álfur út úr hól og getur engu svarað. Ekki er nóg með að hann hafi ekkert kynnt sér starfsemi borgarinnar þá tæpu hundrað daga, sem hann hefur verið í embætti, heldur er engu líkara en að hann hafi aldrei heyrt eða lesið frétti fjölmiðla af því sem gerist innan borgarmarkanna.
Í vikunni var Jón Gnarr í viðtali á Útvarpi Sögu og var raunalegt að hlutsta á manninn standa á gati við nánast hverri spurningu varðandi borgarmálin og t.d. sagðist hann HALDA að byrjað væri að vinna í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næst ár, en vissi það ekki fyrir víst. Þó það hafi ekki komið fram, veit hann líklega ekki að um þetta leyti árs er vinna við fjárhagsáætlunina yfirleitt langt komin, en nú er ekki einu sinni farið að ræða málin í nefndum og ráðum borgarinnar.
Hvenær sem einhver fíflagangur á sér stað og Jón Gnarr kemur að, þá stendur hann sig ágætlega, enda trúður af skárri gerðinni, en hins vegar verður hann að hafa fyrirfram skrifaða rullu til að leika, því honum er ekki lagið að semja grínið fyrirvara- og fyrirhafnarlaust.
Borgarstjóri getur vel leikið trúð, en ekki er öllum trúðum vel gefið að vera borgarstjórar. Jón Gnarr er þannig trúður.
![]() |
Jón Gnarr: Héraðsdómur flytji sig annað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.9.2010 | 18:44
Lögbrjótur í ráðuneyti
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, var dæmd sem lögbrjótur í Héraðsdómi í dag vegna neitunar hennar á að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps, en það gerði hún í anda þeirrar stefnu VG, að berjast gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu, en með lögbroti sínu hugðist Svandís stöðva frekari virkjanir í Þjórsá.
Svandís sýndi fyrr í dag, að hún hikar ekkert við að túlka lög eftir sínu eigin höfði, en þá sagði hún um þá niðurstöðu nefndar um kaup Magma á HS orku, að kaupin hefðu verið fullkomlega lögleg, að hún ætlaði að "skoða" hvort ekki væri hægt að brjóta þau lög, t.d. með því að framkvæma ekki lögin sjálf, heldur "anda laganna".
Með þessu hefur Svandís sýnt að brotavilji hennar er staðfastur og að hún hiki ekki við að brjóta lög við framkvæmd tafa- og skemmdarverkastefnu VG í atvinnumálum.
Ráðherra, sem fær á sig dóm fyrir lögbrot og virðist einskis iðrast, eða sýna bætingu á hegðun sinni, ætti ekki að vera í valdaembætti.
![]() |
Synjun ráðherra ógilt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.9.2010 | 14:06
Hneyksli á Alþingi
Alger upplausn varð á Alþingi og þingfundi var skyndilega frestað eftir að Atli Gíslason flutti framsögu um tillögu nefndar sinnar um að stefna fjórum fyrrverandi ráðherrum fyrir Landsdóm og ekki síst þegar hann upplýsti að tillagan væri byggð á leynigögnum, sem þingmenn myndu ekki fá að sjá eða kynna sér.
Slíkri aðferð hefur einu sinni áður átt að beita á Alþingi, en það var þegar Steingrímur J. ætlaði að keyra Icesave"samninginn" ofan í kok á þingheimi óséðum, en varð að falla frá þeirri fyrirætlan, enda létu þingmenn ekki bjóða sér slík vinnubrögð þá og gera varla nú, þegar ætlast er til að þeir afgreiði tillögu um að ákæra ráðherra, nánast fyrir landráð.
Mbl.is orðar þessa upplausn á þinginu á snyrtilegan hátt, þegar sagt er: "Eftir framsöguræðu Atla settist þingmannanefndin á fund og einnig var haldinn fundur forseta Alþingis með þingflokksformönnum í hádeginu. Eftir því sem mbl.is kemst næst varð niðurstaðan sú, að fresta þingumræðunni til mánudags og meta um helgina hvort veita eigi þingmönnum aðgang að gögnum þingmannanefndarinnar og þá að hvaða gögnum."
Burt með allt pukur, þingið sameini tillögurnar og stefni a.m.k. sex ráðherrum fyrir Landsdóminn og hætti öllum pólitískum hrossakaupum um þetta alvarlega mál. Þessi málsmeðferð er ekki bjóðandi í þjófélagi, sem á að kallast siðað.
![]() |
Umræðu frestað til mánudags |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.9.2010 | 11:07
Leynilegar ákærur - nýtt þinghneyksli?
Stórundarlegt atburðir virðast vera að gerast á Alþingi, þar sem grundvöllur ákæra á hendur nokkrum ráðherrum í "hrunstjórninni" eru meðhöndlaður eins og ríkisleyndarmál og þingmenn eiga ekki að fá að vita á hvaða rökum ákærurnar eru byggðar. Minnir þetta á pukur Steingríms J. með Icesavesamninginn, sem Alþingi átti að samþykkja óséðan og án þess að vita nokkuð um innihald hans.
Nokkrir þingmenn óskuðu eftir því á Alþingi í morgun að fá að sjá þau gögn, sem Atlanefndin byggði tillögur sínar um kærurnar á, en samkvæmt fréttinni voru viðbrögðin þessi: "Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, sagði hins vegar að þingmannanefndin hefði m.a. sett sér verklagsreglur, þar sem segði að gögn sem varðar ráðherraábyrgð sé bundin trúnaði. Meðal annars hefði verið kallað eftir gögnum frá sérfræðingum og að minnsta kosti tveir þeirra hefðu ekki samþykkt að vinnugögn þeirra yrðu lögð fram opinberlega."
Vinnubrögð Atlanefndarinnar varðandi ákærurnar á ráðherrana er algerlega óviðunandi og bara það, að afgreiða málið með þrem álitum út úr nefndinni, er hneyksli út af fyrir sig. Alþingi getur ekki verið þekkt fyrir svona vinnubrögð hvað eftir annað og verður nú að gera það sem gera þarf, til að bjarga andlitinu varðandi þessar kærur.
Að sjálfsögðu er það svo sjálfsagt og eðlilegt að birta öll gögn varðandi undirbúning málsins, að slíkt ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna og úr því sem komið er, verður að vísa málinu til nefndar, þar sem tillögurnar verði samræmdar og a.m.k. tveim ráðherrum bætt á listann þ.e. Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni, auk þeirra Geirs Haarde, Árna Matt., Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvini G.
Úr þessari dellu verður ekki bætt, nema með einróma samþykkt Alþingis um að stefna öllum þessum sex ráðherrum fyrir Landsdóm.
![]() |
Umræða um ákærur að hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2010 | 16:49
Grátbrosleg viðbrögð við Hæstaréttardómi
Þegar Hæstiréttur dæmdi gengisviðmiðun íslenskra krónulána ólögmæta mærði þjóðin Hæstarétt fyrir réttsýni sína og að hann skyldi dæma skuldurum "í hag", en hinum hræðilegu fjármagnseigendum "í óhag". Hæstiréttur á auðvitað ekki að dæma eftir tilfinningum dómaranna eða skapi þeirra í það og það skiptið, heldur eingöngu eftir lögum landsins og engu öðru.
Núna þegar rétturinn dæmir fjármagnseigendunum "í hag" og skuldurum "í óhag" snýst almenningsálitið umsvifalaust gegn Hæstarétti og hann sakaður um að láta stjórnast af bönkunum, ríkisstjórninni eða jafnvel einhverri mafíu spillingarafla. Þó ekki sé búið að birta allan rökstuðning dómsins opinberlega, er greinilegt af fyrstu viðbrögðum að hjarðhegðun þjóðfélagsins er komin á fullan skrið, frá því að elska Hæstarétt og dýrka, í áttina að hatri á honum og fyrirlitningu.
Þetta voru algerlega fyrirséð viðbrögð, enda hjarðhegðun oftast alveg fyrirséð og því lítið óvænt í þeim efnum. Þessi viðsnúningur almennigsálitsins verður þó að teljast grátbroslegur, þar sem afstaða er eingöngu tekin út frá eigin hag og öðrum aðstæðum eða rökum alls ekki.
Fyrr í dag var fjallað um hvort Hæstiréttardómararnir yrðu dæmdir skúrkar eða hetjur af almenningsálitinu og spunnust um það nokkrar umræður. Þær má sjá HÉRNA
![]() |
Óbreytt vaxtakjör stóðust ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
16.9.2010 | 13:23
Hæstiréttur: Hetja eða skúrkur?
Þegar Hæstiréttur felldi þann dóm 16. júní s.l. að gengistrygging lána með höfuðstól í íslenskum krónum væri ólögleg, fagnaði almenningur og þakkaði sínum sæla fyrir Hæstarétt og taldi að loksins sannaðist að rétturinn væri óháður og sanngjarn og tæki ekki við neinum fyrirmælum frá framkvæmdavaldinu varðandi dóma sína.
Í dag er væntanlegur annar dómur vegna "gengislánanna", nú vegna vaxta af þeim, og miðað við þá umræðu sem farið hefur fram undanfarið, mun Hæstiréttur annað hvort verða hetja á ný í augum almennings, ef hann dæmir að samningsvextir skuli gilda á lánunum, eða hann verður í huga fólks alger skúrkur og drusla, sem aldrei geti tekið afstöðu með neinum, nema ríkinu og fjármagnseigendum, en þeir eru í hugarheimi margra orðnir að algerum óargadýrum, á meðan við skuldarar erum eina heiðvirða og mikilsmetna fólkið í þjóðfélaginu.
Spurningin sem brennur á allra vörum er, hvort í Hæstarétti sitji hetjur eða skúrkar. Almenningur mun dæma um það eftir klukkan fjögur í dag og mun ekki þurfa langar vitnaleiðslur til að kveða upp sinn dóm, því niðurstaða hans hefur legið fyrir lengi.
![]() |
Dómur í gengislánamáli í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
16.9.2010 | 10:47
Þingið sameinist um Landsdómskærur
Lögin um Landsdóm eru í fullu gildi, hvað sem fólki finnst um þau, og úr því að ákveðið hefur verið að stefna ráðherrum úr síðustu ríkisstjórn fyrir dóminn er afar mikilvægt að það verði ekki gert með pólitískum hrossakaupum og klíkuskap, t.d. með því að sleppa því að stefna ráðherrum, sem vitneskju höfðu um hvað var að gerast í aðdraganda bankahrunsins og áttu þátt í þeim aðgerðum/aðgerðaleysi, sem nú þykja falla undir saknæmt athæfi.
Viðbrögð við tillögum Atlanefndarinnar hafa valdið miklum titringi innan þingflokkanna, sérstaklega þingflokks Samfylkingarinnar, sem hefur brugðist við á þann einkennilega hátt að ætla sér að halda einhvers konar fyrirfram réttarhöld yfir fjórum fyrrverandi ráðherrum í þingflokksherbergi sínu, áður en málum verður vísað til Landsdómsins sjálfs. Þetta er skrípaleikur, sem enginn getur tekið alvarlega og vandséð til hvers leikurinn er gerður, nema þingflokkurinn ætli sjálfur að kveða upp sektar eða sýknudóma.
Úr því sem komið er, getur þingheimur ekki verið þekktur fyrir annað en að sameinast um að stefna öllum þeim ráðherrum sem hljóta að vera samsekir, eða jafn saklausir, af vanrækslu í tíð fyrri ríkisstjórnar og ekki stefna bara sumum og sumum ekki, eftir einhverjum geðþótta einstakra þingflokka.
Það eina rétta í stöðunni fyrir þingheim er að stefna a.m.k. Geir Haarde, Árna Matt., Þorgerði Katrínu, Ingibjörgu Sólrúnu, Björgvini G., Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem þau áttu öll aðkomu að fundum og upplýsingum um hvað var að gerast í efnahags- og bankamálunum á árunum 2007-2008 og vissu öll af viðvörunum Seðlabankans um hvernig eigendur og stjórnendur bankanna væru búnir að koma bönkunum í þrot með glæpsamlegum rekstri þeirra.
Aldrei verður nokkur friður um þessi mál, nema öllum þessum ráðherrum verði gert jafnt undir höfði varðandi Landsdóminn.
![]() |
Yrðu yfirheyrðir og gætu kallað til vitni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.9.2010 | 09:03
Icesaveleynimakk í fullum gangi
Viðskiptablaðið heldur því fram, að Bretar og Hollendingar séu búnir að semja nýtt gagntilboð fyrir Íslendinga að leggja fram og láta kúgararnir svo lítið, að lofa að samþykkja sitt eigið "tilboð" svo framarlega sem allir stjórnmálaflokkar á Íslandi samþykki þessa nýjustu fjárkúgunarkröfu.
Í nafni opinna og gagnsærra vinnubragða, þar sem allt er uppi á borðum, harðneitar fjármálaráðuneytið þessum fréttum, en viðurkennir þó að "samræður" séu í gagni á milli aðila, en gefur ekkert upp um hvað þær "samræður" snúast.
Í kosningunum 6. mars s.l. hafnaði þjóðin algerlega öllum fjárkúgunarkröfum Breta og Hollendinga vegna Icesave skulda Landsbankans, enda fáráðlegt að arður af rekstri bankans skuli ganga til eigenda hans á góðæristímum, en skattgreiðendur eigi að taka skellinn, þegar illa fer.
Eðlilegast væri að benda kúgurunum á að snúa sér að skilanefnd gamla Landsbankans með erindi sitt og hætta að angra íslenska skattgreiðendur með áframhaldandi "samræðum" við útsendara sína í fjármálaráðuneytinu.
![]() |
Nýtt Icesave-tilboð í undirbúningi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2010 | 16:12
Hverju lofar Steingrímur AGS núna?
Framkvæmdastjórn AGS mun taka fyrir þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og Íslands, þann 29. september n.k. og hefur verið heldur hljótt um undirbúninginn að þeirri endurskoðun, enda ríkisstjórnin lagin við að beina athygli almennings annað um þessar mundir.
Fréttin af málinu er ekki löng, en þar segir þó: "Íslensk stjórnvöld hafa sent sjóðnum endurnýjaða viljayfirlýsingu í samræmi við reglur sjóðsins." Fróðlegt verður að sjá hvað í þeirri endurnýjuðu viljayfirlýsingu felst, en afar líklegt er að þar lýsi Steingrímur J. því yfir að hann hyggist halda áfram skattahækkanabrjálæði sínu, hækkun þjónustugjalda hjá hinu opinbera, aukinni þátttöku sjúklinga í kostnaði við lyf og læknisaðstoð, hækkun áfengis og tóbaks, hækkun virðisaukaskatts í lægra þrepinu (matarskattinn), svo eitthvað sé nefnt af handahófi af áhugamálum Steingríms J.
Eitt er alveg víst, að kreppan sem Jóhanna og Steingrímur J. sögðu um daginn að væri liðin hjá mun bíta í hjá almenningi, sem aldrei fyrr, á næsta ári og ekki mun atvinnuleysið minnka heldur, því engin teikn eru á lofti um að stjórnin ætli að láta af andstöðu sinni við atvinnuuppbyggingu hverskonar í landinu.
Hvað sem ráðherrarnir segja, fer kreppan harðnandi á heimilunum, en af slíkum smámunum skiptir ríkisstjórnin sér ekki.
![]() |
Þriðja endurskoðun að hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)