22.9.2010 | 10:58
Jón Gnarr og skælubókin
Jón Gnarr hefur þann háttinn á, áður en hann fer í háttinn, að gráta í opinberu skælubókina sína, sem hann birtir á netinu, en þar skráir hann skælur sínar reglulega um vonsku heimsins, hvað hann sé misskilinn snillingur, höfuðverk, leiðindi fundanna sem hann neyðist til að sitja, skapvonsku sína, undrun á því að ætlast sé til að hann sinni embættinu eins og maður og annað það, sem fer í hans viðkvæmu taugar þann daginn.
Nýjasta færslan í skælubókina hljóðar svona: "Fundi númer tvö í borgarstjórn lokið. Náði reyndar bara hálfum fyrsta fundi vegna embættiserinda til útlanda. Kominn heim sorgmæddur og hugsi. Hvað er að starfsháttum í stjórnmálum á Íslandi? Þrætur, klækir og rifrildi. Er þetta svona allsstaðar? Skilst að Alþingi sé í svipuðum gír. Er hægt að breyta þessu?"
Þessar skælur eru bókfærðar eftir borgarstjórnarfund, þar sem stjórnarandstaðan óskaði eftir umræðu um hvernig vinnu við fjárhagsáætlun borgarinnar miðaði og beindi spurningum til borgarstjórans varðandi málið. Eins og venjulega stóð Jón Gnarr algerlega á gati, þegar reynt er að ræða við hann um alvarleg og brýn mál borgarinnar, enda tók hann ekki þátt í umræðunum og svaraði engri spurningu, sem að honum var beint.
Auðvitað hljóta allir að vera hættir að reikna með að borgarstjórinn sé inni í nokkru máli, sem viðkemur borginni og stofnunum hans, en meðan hann gegnir þessu hæst launaða embætti borgarkerfisins, verður hann þó að neyðast til að sitja undir þessari leiðinlegu tilætlunarsemi um að hann geti svarað einföldum spurningum um það sem er að gerast hjá meirihlutanum.
Nú eru hveitibrauðsdagar borgarstjórnarmeirihlutans og Jóns Gnarrs, sem borgarstjóra, liðnir og því má reikna með að færslurnar í skælubókina verði með æ dapurlegri svip á næstunni.
![]() |
Sorgmæddur eftir borgarstjórnarfund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
21.9.2010 | 22:49
Jón Gnarr og hveitibrauðsdagarnir
Í stjórnmálum er nýjum meirihlutum í ríkis- og sveitarstjórnum gefnir hundrað dagar til að setja sig inn í þau málefni sem brýnust eru og móta endanlega stefnu sína og markmið fyrir framtíðina. Nú eru liðnir hundrað dagar frá því að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við meirihlutavaldi í Reykjavík og réðu Jón Gnarr sem borgarstjóra.
Minnihlutinn í Reykjavík virðist ekki hafa verið að trufla borgarstjórann mikið við þá fánýtu iðju, sem þessi dýrasti starfskraftur Reykjavíkurborgar hefur verið að dunda sér frá ráðningunni í borgarstjórastarfið. Í dag varð hins vegar breyting þar á þegar minnihlutinn fór að spyrjast fyrir um undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011, en undir venjulegum kringumstæðum væri sú vinna langt komin í nefndum og ráðum borgarinnar, en nú bregður svo við að engar línur hafa enn verið lagðar og engin stefna mörkuð, hvorki um tekjuöflun eða útgjaldaramma og engar línur verið lagðar fyrir nefndirnar og ráðin sem málaflokkunum stjórna.
Í allri sögu Reykjavíkurborgar hefur borgarstjórinn hverju sinni leitt umræður og vinnu við fjárhagsáætlanir, en nú brá svo við að Jón Gnarr hvorki tók þátt í umræðunum, né svaraði neinum spurningum sem til hans var beint. Það er að vísu ekkert undrunarefni, því Jón Gnarr hefur margsýnt það frá því að hann settist í borgarstjórastólinn að hann hefur ekkert sett sig inn í málefni borgarinnar og fyrirtækja hennar og stofnana og virðist ekki heldur hafa nokkurn áhuga á að kynna sér þau.
Hvað skyldi þessi borgarstjórafarsi eiga að ganga lengi? Varla verður klappað mikið fyrir aðalleikaranum öllu lengur.
![]() |
Svarar ekki fyrir fjárhaginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.9.2010 | 19:15
Besti flokkurinn er besti vinur vara
Krakkar hafa lengi notað það orðatiltæki í leikjum sínum, að best sé að vera vinur aðal, þ.e. aðal mannsins í leiknum og er það keppikefli allra með einhvern metnað að fá að vera besti vinur aðal. Í borgarstjórn Reykjavíkur er hins vegar Besti flokkurinn langbesti vinur vara, en vegna vináttunnar við varamenn í borgarstjórn, hefur Besti og meirihlutinn gaukað nokkur hundruð þúsund króna búbót til vara á mánuði.
Meirihlutinn hefur sent frá sér réttlætingu á þessari aðgerð, sem ekki er í anda sparnaðar og ráðdeildarsemi, en þar segir m.a: "Í desember 2009 samþykkti forsætisnefnd að fella niður þessi kjör fyrstu varaborgarfulltrúa, en jafnframt endurskoða launakerfi borgarfulltrúa og gera tillögur að breytingum er taki gildi í upphafi nýs kjörtímabils. Vinna við endurskoðun launakerfisins var aldrei sett af stað."
Það er semsagt notað sem rökstuðningur fyrir auknum útgjöldum, að endurskoðun launakerfis borgarfulltrúanna skuli ekki hafa farið af stað fyrir kosningar í stað þess að drífa í því að koma verkinu í gang og leita frekari möguleika á sparnaði, en þegar var kominn í framkvæmd.
Þetta er þvílík hundalógík, sem engum dytti í hug að beita nema brandaraköllunum í Besta og viðhlæjendum þeirra í Samfylkingunni. Þar að auki kalla grínistarnir þetta ekki launahækkun, heldur sé bara verið að setja í gildi gamla launatöflu og því sé þetta í raun engin breyting, þó hún kosti fimmmilljónir króna á ári.
Fjölskylduhjálpin hefði vel getað notað þessa peninga til aðstoðar við sína skjólstæðinga, en besta vini vara finnst aurunum betur varið á þennan hátt.
![]() |
Segja kjör varaborgarfulltrúa þau sömu og áður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.9.2010 | 15:18
Ógeðslega ámælisvert að vera ósammála Atlanefndinni
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sparaði ekki stóru orðin í ræðu sinni á Alþingi, þar sem hún skammaðist út í Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vera ekki sammála niðurstöðu Atlanefndarinnar um að meiri líkur en minni væru á að fyrrverandi ráðherrar myndu verða sekir fundnir um ýmis lögbrot fyrir Landsdómi. Væntanlega hafa aðrir þingmenn, sem lýst hafa sömu efasemdum átt sinn hlut í þessari vænu illindasneið.
Við stofnun Atlanefndarinnar hefur varla fylgt henni í vöggugjöf loforð hvers einasta þingmanns úr öllum flokkum um að þeir myndu samþykkja steinþegjandi og hljóðalaust allt sem frá nefndinni kæmi, án tillits til eigin skoðana á málinu og sekt eða sakleysi fyrrverandi og núverandi ráðherra. Þetta fyrirkomulag á því, hvort stefna skuli ráðherrum fyrir Landsdóm er algerlega ótækt, þar sem allir hefðu átt að geta sagt sér fyrirfram, að afstaða til niðurstöðu nefndarinnar væri líkleg til að falla í pólitískt þref, í þeim anda sem þingmönnum einum er lagið.
Úr því sem komið er getur þingið ekki komist skammlaust frá málinu öðruvísi en að skipa fimm manna óháða nefnd sérfræðinga til að fara yfir málið og lýsa yfir fyrirfram, að þingið muni samþykkja tillögur þeirrar nefndar um að stefna, eða stefna ekki, þeim fyrrverandi og núverandi ráðherrum, sem nefndin kæmist að niðurstöðu um. Þingmenn myndu nánast skuldbinda sig fyrirfram um að una slíkri niðurstöðu og fara eftir henni í einu og öllu.
Slík niðurstaða myndi ekki einungis róa almenning, heldur líka þingheim sjálfan.
![]() |
Ógeðsleg framganga Jóhönnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.9.2010 | 10:52
Stýrivexti í 0,5-1% á morgun - annað óviðunandi
Allt frá bankahruni hafa stýrivextir Seðlabankans verið allt of háir og haldið uppi okurvöxtum í þjóðfélaginu á sama tíma og eftirspurn í hagkerfinu hefur hrunið, fjárfestingar eru engar og einkaneysla dregst stöðugt saman. Alls staðar annarsstaðar hafa seðlabankar brugðist við efnahagskreppunni með því að lækka strýrivexti sína niður í 0-2%, með það að markmiði að ýta undir fjárfestingar, uppbyggingu atvinnulífsins og þar með minnkun atvinnuleysis.
Meira að segja Már, seðlabankastjóri, lét hafa það eftir sér í viðtali við erlenda fjölmiðla fyrir skömmu, að stýrivextir væru allt of háir á Íslandi, miðað við núverandi og væntanlegt verðbólgustig, en hins vegar virðist seðlabankastjórinn ekki hafa neinar áhyggjur af atvinnulífinu, fjárfestingum eða afkomu heimilanna og alls ekki truflar atvinnuleysið svefnfrið hans.
Miðað við eigin yfirlýsingar og í ljósi aðgerða allra annarra seðlabanka í heiminum, hlýtur Seðlabanki Íslands að tilkynna stýrivaxtalækkun niður í 0,5-1% á morgun. Allt annað er óviðunandi í því þjóðfélagi stöðnunar og afturhalds, sem hér hefur verið við lýði í tvö ár.
Atvinnulífið og þjóðfélagið allt þarf á þeirri innspýtingu að halda, sem slík stýrivaxtalækkun myndi hafa í för með sér.
![]() |
Spá stýrivaxtalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2010 | 07:43
Er Jóhanna að undirbúa stjórnarslit?
Jóhanna Sigurardóttir lýsti yfir mikilli ánægju sinni með tillögur Atlanefndarinnar um þá sem stefna ætti fyrir Landsdóm, þegar skýrslan kom út og sagði að leikurinn væri til þess gerður að róa almenning og hinir ækærðu ættu að vera glaðir og ánægðir með að verða stefnt fyrir dómstólinn, því þá fengju þeir tækifæri til að hreinsa nöfn sín.
Eins gáfuleg og þessi ummæli nú eru, þá féllu þau af vörum forsætisráðherra þjóðarinnar nánast í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðvunum og fóru því ekki fram hjá neinum. Nokkrum dögum síðar kastar þessi sami ráðherra sprengju inn í sal Alþingis og það beint undir stóla eigin fulltrúa í Atlanefndinni og alveg sérstaklega að Atla Gíslasyni, formanni ákærunefndarinnar, og vænir þá um léleg vinnubrögð og tillögur um ákærur, án nægilegra rannsókna og nánast að tilefnislausu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni munu ekki þora að andmæla Jóhönnu mikið, en Atli og Vinstri grænir munu ekki una þessari bakstungu frá sjálfum forsætisráðherranum, enda farnir að hrópa á stjórnarslit, en verið gæti að það sé einmitt ástæða Jóhönnu fyrir þessu ótrúlega útspili í umræðunni um Landsdómsákærurnar.
Því hafði verið spáð, að Samfylkingin og VG myndu ekki ná samkomulagi um niðurskurð og sparnað í útgjöldum ríkissins og frekara skattahækkanabrjálæði Steingríms J. og því myndi verða ákaflega erfitt að koma saman fjárlögum og sú vinna myndi jafnvel endanlega sundra stjórnarsamstarfinu.
Nú er búið að varpa nýrri sprengju og aðeins beðið eftir að hún spryngi og þá mun kom í ljós hvort stjórnin á sér einhversstaðar skjól til að hlaupa í.
![]() |
Mikil reiði innan VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2010 | 19:06
Jóhanna afneitar Atlanefndinni
Þau stórtíðindi gerðust á Alþingi í dag, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, afneitaði vinnubrögðum Atlanefndinni algerlega og átaldi hana fyrir að skila af sér illa unnu verki og í raun handónýtu.
Jóhanna sagði m.a.: "Ég hefði talið það rétt og eðlilegt, að þingnefndin leitaði skriflegs álits, til að mynda hjá Feneyjanefndinni, sem starfar innan vébanda Evrópuráðsins og skipuð er sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar." Taldi hún að vert hefði verið að leggja þá spurningu fyrir Feneyjanefndina hvort réttarstaða þeirra, sem nú er lagt til að verði ákærðir, standist nútímakröfur um mannréttindavernd sakborninga.
Síðan bætti Jóhanna við: "Um það hef ég miklar efasemdir og ég undrast sérstaklega, að engin sjálfstæð rannsókn eða skýrslutaka hafi farið fram í þingmannanefndinni, meðal annars vegna þess að allir nefndarmenn hyggjast í raun víkja frá niðurstöðu þingmannanefndarinnar í sínum tillögum eða með því að láta hjá líða að flytja tillögu um ákæru." Þarna má segja að Jóhanna hafi lýst algeru vantrausti á Atla Gíslason, sem nefndarformann og í raun veitt nefndinni banahöggið.
Til að snúa hnífnum í sárinu lýsti Jóhanna þeirri staðföstu skoðun sinni, að Ingibjörg Sólrún yrði sýknuð fyrir Landsdómi og jafngildir sú yfirlýsing því, að Jóhanna sé í raun að ásaka Atla um að reyna að gera tilraun til réttarmorðs, eða a.m.k. að stefna blásaklausri manneskju fyrir dómstóla algerlega að ósekju.
Allt málið er komið í algert rugl í þinginu og enginn í raun sannfærður um að hægt verði að dæma ráðherrana fyrir nokkuð, enda líklegra en hitt, að þeir yrðu allir sýknaðir fyrir Landsdómi.
![]() |
Gagnrýnir málsmeðferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.9.2010 | 17:04
Meiri vinnu þarf til að borga hærri skatta
Stefán Ólafsson, prófessor, hefur komist að þeirri niðurstöðu að hækkun jaðarskatta dragi ekki úr vinnuþátttöku fólks, heldur jafn vel auki hana, þvert á fullyrðingar Sjálfstæðismanna um að skattahækkanir dragi úr atvinnuvilja fólks, vegna þeirrar auknu skattpíningar sem þá leggst á aukalega.
Þetta telur prófessorinn kollvarpa öllum hugmyndum um að skattahækkanir séu vinnuletjandi, en ekki tekur hann með í reikninginn, að sé fólk búið að binda sig í ákveðnar afborganir af húsnæði, bíl og jafnvel fleiru, þá má það ekki við tekjumissinum, sem skattahækkanirnar hafa í för með sér og neyðst því til þess að bæta við sig vinnu, til að halda óskertum ráðstöfunartekjum.
Stefán segir, að þegar hátekjuskattur hafi verið lækkaður, hafi það ekki aukið atvinnuþátttöku hátekjufólks, en það gæti verið vegna þess að fólkið var komið með eins mikinn vinnutíma og það réð við og gat af þeim ástæðum ekki bætt við sig meiri vinnu, en hefur hins vegar farið að njóta ávaxtanna sjálft af þeirri miklu vinnu, sem það lagði á sig, þegar greiðslan til ríkisins minnkaði.
Sú niðurstaða, sem nær væri að draga af rannsókn Stefáns væri sú, að skattahækkanir væru líklegar til að hneppa fólk í enn meiri vinnuþrældóm, en það í raun kærði sig um, eða réði almennilega við og þess vegna væri líklegra að skattalækkanir leiddu til minni atvinnuþáttöku hvers og eins, en annars væri. Ekki má gleyma því, að á viðmiðunarárum Stefáns var mikil þensla í þjóðfélaginu og hver sem vildi, gat unnið eins mikið og mann vildi og gat.
Nú er ástandið á vinnumarkaði allt annað og enginn getur bætt við sig vinnu, þó hann gjarnan vildi og nauðsynlega þyrfti. Allar skattahækkanir í slíku atvinnuástandi verða því einungis til þess að auka á vandræði fólks til að framfleyta sér og hvað þá að standa við skuldbindingar sínar.
Núverandi skattaálögur á einstaklinga og fyrirtæki eru hreint brjálæði og ekki á bætandi.
![]() |
Hækkun jaðarskatta dregur ekki úr vinnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2010 | 11:57
Á Steingrímur J. að fara fyrir Landsdóm?
Nú er mikið rætt um þann hluta tillagna Atlanefndarinnar um ákærur á fyrrverandi ráðherra, að ákveðin mál hefðu ekki verið rædd á ríkisstjórnarfundum og því hefði öllum ráðherrunum ekki verið kunnugt um hvað var að gerast á verksviði allra ráherra.
Fram að þessu hefur sú túlkun verið við lýði á hlutverki ráðherra, að þeir væru hver um sig ábyrgir fyrir sínu ráðuneyti og þeim málaflokkum, sem undir þá heyra, en væru ekki ábyrgir fyrir verkefnum annarra ráðherra, enda væri ríkisstjórnin fjölskipað vald.
Forystumenn núverandi ríkisstjórnar virðast taka margar ákvarðanir sameiginlega og ekki verður alltaf séð, að þær hafi verið ræddar í ríkisstjórn eða bornar undir hana og því vaknar sú spurning hvort enn sé litið svo á að ríkisstjórnin sé fjölskipað vald og þau vinnubrögð sem ákæra á fyrrverandi ráðherra fyrir, séu ennþá viðtekin.
Nægir í þessu sambandi að benda á undirskrift Steingríms J. á fyrsta Icesavesamninginn, sem ekki er vitað til að hafi verið ræddur í ríkisstjórn fyrir undirskrift, hvað þá að innihald hans hafi verið kynnt fyrir Alþingi, sem svo var ætlast til að samþykkti hann fyrir sitt leyti, óséðan.
Er þessi embættisfærsla Steingríms J. tilefni stefnu fyrir Landsdóm?
![]() |
Staðan ekki rædd í ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.9.2010 | 08:04
Andi laganna
Hæstiréttur felldi nýlega þann dóm, að heimilt væri samkvæmt lögum að ganga að veði ábyrgðarmanns fyrir skuldum annars, sem gengið hafði í gegnum greiðsluaðlögun og skuldaniðurfellingu.
Þetta segir félagsmálaráðherra að sé ekki í "anda laganna", en ráðherrum hefur verið nokkuð tamt undanfarið að tala um "anda lagannna", þegar þeir fella sig ekki við texta laganna sjálfra, eins og nýlegt dæmi af Svandísi Svavarsdóttur sannar eftiminnilega.
Í fréttinni segir um þennan nýja dóm: "Í dómi Hæstaréttar er vísað í ákvæði gjaldþrotalaga um að nauðasamningur haggi ekki rétti lánardrottins til að ganga að tryggingu sem þriðji maður veitir vegna skuldbindingarinnar. Ekki var hróflað við þessu ákvæði í lögum um greiðsluaðlögun"
Nú fer að verða tímabært að þingið fari að setja lög, sem segja það sem flutningsmennirnir meina og ráðherrar hætti að reyna að ráða í "anda laganna". Einnig ber að athuga við lagasetningar að dómarasæti skipa löglært fólk, en ekki miðlar.
![]() |
Ekki í anda laganna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)