Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
8.6.2010 | 13:23
Launamisrétti kynjanna innan Kaupþings yfirgengilegt
Héraðsdómur Reykjavíkur tók launakröfur nokkurra yfirmanna Kaupþings á hendur þrotabúinu fyrir í morgun og er nokkuð hart fyrir þetta fólk, að þurfa að leita til dómstóla til að fá sanngjarnar launakröfur sínar samþykktar, því verður er verkamaðurinn launa sinna, eins og þar stendur.
Steingrímur P. Kárasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings, gerir kröfu um vangoldin laun að upphæð 81 milljónar króna, Ingólfur Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, gerir kröfu um 25 milljónir og Guðný Arna Sveinsdótti, fyrrv. framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs bankans, gerir aðeins kröfu um vangreidd laun að upphæð rúmlega 12 milljóna.
Ekki verður annað séð af þessum kröfum, en að hrópandi launamisrétti milli kynjanna hafi viðgengist innan Kaupþings, þar sem Guðný Arna, sem var framkvæmdastjóri, rétt eins og Steingrímur P., er ekki hálfdrættingur á við Ingólf í launakröfu sinni og ekki nema 12% af kröfu kollega síns, Steingríms.
Að vísu báru þeir félagar Steingrímur og Ingólfur svo gríðarlega mikla ábyrgð, að Sérstakur saksóknari sá ástæðu til að setja þá í tugthúsið í nokkra daga, en Guðný Arna hefur bara sofið heima hjá sér, eftir því sem best er vitað.
Eftir sem áður verða laun hennar að teljast hafa verið smánarleg í samanburði við félaga hennar, því einkennilegt er ef ábyrgð hennar sem yfirmanns fjármála- og rekstrar er svona lítils virði í samanburði við áhættustýringuna, sem Steingrímur sá um og sinnti raunar af einstakri varkárni, eins og fram hefur komið.
Þetta er ekki fallegt til afspurnar um það jafnrétti kynjanna, sem ríkt hefur innan Kaupþings.
Launakröfur Kaupþingsstjóra fyrir dóm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2010 | 10:45
Veruleikafirrtir stjórnendur Kaupþings
Fréttir af rannsókn Sérstaks saksóknara og Serious Fraud Office á viðskiptum Kaupþings, í samstarfi við Deutce Bank, með skuldatryggingarálag á bankann á árinu 2008 sýna veruleikafirringu stjórnenda bankans og hvað þeir voru orðnir lausir við allt skyn á verðmæti peninga, því milljarður var eins og hver önnur skiptimynt í þeirra huga.
Úrdráttur úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis varpar góður ljósi á þetta: Eigendur tveggja félaga fengu 130 milljónir evra að láni frá Kaupþingi í Lúxemborg. 125 milljónir evra voru eiginfjárframlag til félaganna en 5 milljónir evra gengu til greiðslu þóknunar til Deutsche Bank. Þar sem samningurinn var 250 milljóna evra virði þá fengu félögin 125 milljónir evra að láni frá Deutsche Bank og var lánið með ákvæði um gjaldfellingu ef skuldatryggingarálag færi upp fyrir ákveðin mörk.
Þóknunin til Deutce Bank fyrir þetta "plott" nemur um 850 milljónum króna á núverandi gegni evrunnar og áður hefur komið fram að Al-Thani hafi fengið 50 milljónir dollara, eða tæplega 8,5 milljarða króna, fyrir að "lána" nafn sitt í svikamylluna um "kaup" hans á 5% hlut í Kaupþingi í september 2008.
Launagreiðslur og bónusar til stjórnendanna voru óheyrilegar, en þær námu jafnvel milljörðum króna árlega, enda sögðust þeir bera svo mikla ábyrgð, að í raun væru þetta ekki háar greiðslur. Ábyrgaðrtilfinningin er þó ekki meiri en svo, að Sigurður Einarsson neitar að koma til landsins til þess að svara fyrir gerðir sínar og ábyrgð.
Það er víst ekki ofsögum sagt, að margur verður af aurum api.
Vísa hvor á annan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2010 | 21:23
Pólitískt innistæðuleysi
Allir þekkja hugtakið þegar talað er um áhlaup á banka, en slíkt standast bankar ákaflega illa, enda er ekki um áhlaup að ræða, nema innistæðueigendur flykkist á staðinn og hreinsi út innistæður sínar og bankinn stendur berstrípaður eftir og óstarfhæfur.
Í fyrsta sinn, svo vitað sé, líkir Jóhanna Sigurðardóttir sér við banka í slíkri aðstöðu, þegar hún segir að nú sé verið að gera "pólitískt áhlaup" á sig vegna klúðursins með laun seðlabankastjórans og sem hún ber alfarið ábyrgð á, en þykist ekkert vita um. Í sjónvarpinu í kvöld lét hún eins og hún talaði aldrei við starfsfólk forsætisráðuneytisins, né aðra embættismenn og hefði því ekki hugmynd um hvað það væri að aðhafast, enda kæmi henni það ekkert við.
Munurinn á banka, sem áhlaup er gert á og Jóhönnu Sigurðardóttur er sá, að í bankanum er fyrir hendi innistæða, sem reynt er að taka út, en hjá Jóhönnu er engin pólitísk innistæða, enda konan orðin óstarfhæf og ætti að vera búið að lýsa hana pólitískt gjaldþrota fyrir löngu.
Hins vegar kom í ljós í kvöld að hún er ennþá haldin Davíðsheilkenninu og það á alvarlegu stigi.
Pólitískt áhlaup á mig" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2010 | 15:51
Þingnefnd Atla Gíslasonar ómarktæk?
Þingnefndin, undir formennsku Atla Gíslasonar, þingmanns VG, sem á að ákveða hvort nokkrum ráðherrum verði stefnt fyrir landsdóm, hefur fengið falleinkunn vegna þess að hún virðist meta menn og málefni á pólitískum grunni, en ekki málefnalegum.
Um miðjan maí sendi nefndin ríkissaksóknara "ábendingu" um að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði talið þá Davíð Oddson, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson, seðlabankastjóra og Jónas Fr. Jónsson forstjóra Fjármálaeftirlitsins hafa gerst seka um mistök eða vanrækslu í starfi vegna tveggja eða þriggja atriða í aðdraganda bankahrunsins.
Rannsóknarnefndinni bar að beina öllum atriðum, sem hún teldi varða við lög, til skattyfirvalda, ríkissaksóknara eða sérstaks saksóknara og það gerði hún vegna tuga atriða, sem hún komst á snoðir um í rannsókn sinni. Þar sem hún taldi enga ástæðu til að senda "ábendingu" um fjórmenningana, þá er ljóst að hún hefur alls ekki talið mistök þeirra varða við lög, eða vera saknæm.
Það bendir til þess að nefnd Atla Gíslasonar hafi afgreitt þetta mál vegna þeirra ofsókna sem þessir menn hafa orðið að þola frá stjórnarliðinu allt frá því stjórnin var mynduð, enda fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að reka seðlabankastjórana úr starfi og alla tíð síðan hefur vinstra liðið í landinu kynnt undir þeim áróðri að bankahrunið og kreppan sem því fylgdi væri nánast einum manni að kenna, þ.e. Davíð Oddsyni. Þessum óhróðri er haldið á lofti ennþá, þó öllum ætti að vera orðið ljóst hvers vegna bankarnir hrundu, en rannsóknarnefndin sjál hefur sagt að þeir hafi verið rændir innanfrá af eigendum og stjórnendum þeirra.
Í nefnd Atla Gíslasonar eru aðallega nýliðar á þingi, sem ekki hafa þorað að setja sig upp á móti "ábendingunni" til ríkissaksóknara, vegna hræðslu við að verða ásakaðir um "yfirhylmingu" með fjórmenningunum. Það er vitanlega ekki stórmannleg afstaða, en sú sem nærtækust er, þangað til þeir gera þá betri grein fyrir afstöðu sinni.
Þar með skrifast þetta pólitíska ofsóknarklúður nefndarinnar alfarið á formann nefndarinnar, Atla Gíslason.
Verður nefndinni eitthvað betur treystandi til að meta mistök eða vanræksluávirðingar ráðherranna?
Ekki tilefni til rannsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.6.2010 | 13:29
Fjárlög evruríkja afgreidd í Brussel?
Fram á síðustu misseri var áróðurinn fyrir aðild Íslands, sem hrepps, að ESB aðallega byggður á því, að krónan væri handónýtur gjaldmiðill og því bráðnauðsynlegt að taka upp evru í hennar stað, ekki síst af því að evrunni fylgdi svo mikið hagræði og aðhald að hagstjórninni.
Á síðustu mánuðum hefur æ betur komið í ljós, að evran skapar hvorki hagræði né aðhald í hagstjórn þeirra ríkja sem nota hana sem gjaldmiðil og er nærtækast að benda á Grikkland, Ítalíu, Spán, Portúgal og Írland í því sambandi, en þessi lönd eru mislangt komin fram að hengifluginu og sum þeirra við það að falla fram af.
Nú síðast birtast fréttir af því, að gríðarlegur niðurskurður verði á fjárlögum móðurríkis ESB, Þýskalands, en sparnaður í rekstri þýska ríkisins fram til ársins 2014 verður sá mesti frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar. Forystumenn ESB eru nú loksins að uppgötva að evran, sem slík, bjargar engu komi ekki til miðstýrð fjárlög allra ríkjanna og það verði yfirvaldið í Brussel sem muni taka að sér að stjórna efnahagsmálunum í öllum ríkjunum.
Jean-Claude Juncker, talsmaður fjármálaráðherra evruríkjanna, lét hafa þetta eftir sér í Wall Street Journal í gær: "Við höfum ekki lært nóg um sameiginlega stjórn á sameiginlegum gjaldmiðli. Of mörg hinna 16 ríkja [á evrusvæðinu] hegða sér eins og sjálfstæð hagkerfi, en sjálfstæð hagkerfi eru ekki lengur til staðar. Við tilheyrum nú hagkerfi sem er krýnt hinum sameiginlega gjaldmiðli."
Ekki geta ESB sinnar lengur þrætt fyrir að miðstýringaráráttan í Brussel stefni hraðbyri að því kerfi, sem gekk sér rækilega til húðar í Sovétríkjunum, sællar minningar.
Sjálfstæð evruhagkerfi ekki til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2010 | 09:40
Þaulskipulögð svikaflétta
Samkvæmt úrdrætti úr símtali milli tveggja starfsmanna Kaupþings, þeirra Halldórs Bjarkars Lúðvígssonar á fyrirtækjasviði og Lilju Steinþórsdóttur í innri endurskoðun, kemur fram að starfsmenn bankans stunduðu skipulögð svik, algerlega vísvitandi, vegna "viðskipta" með hlutabréf í bankanum, sem bankinn lánaði sjálfur fyrir, gegn engum öðrum veðum en í bréfunum sjálfum.
Eftirfarandi brot úr símtalinu sýnir þetta glögglega:
LS: Ok, af hverju var Choice stofnað, eða hvers konar félag var það?
HBL: Þetta var enn eitt BVI félagið sko.
LS: Já er þetta bara til að flækja slóðina eða af hverju er þetta gert svona?
HBL: Já þetta er raunverulega til þess að fela það að Óli átti helminginn í þessu sko.
LS: Já ok.
Innri endurskoðun bankans átti að fylgjast með því, að öll útlán og önnur starfsemi bankans uppfyllti ströngustu lög og kröfur um bankastarfsemi, en af þessu samtali sést, að innri endurskoðendur bankans vissu um svikaflétturnar og tóku virkan þátt í að "flækja slóðina".
Vandséð er hvernig Fjármálaeftirlitið hefði haft einhverja raunhæfa möguleika á að koma í veg fyrir þetta meinta "innra bankarán".
DV: Slóð Ólafs í Al-Tahini fléttunni falin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2010 | 22:55
Deutsche Bank grunaður um þátttöku í meintu bankaráni allra alda
Net svikanna sem álitið er að hafi verið riðið af eigendum og stjórnendum Kaupþings tekur sífellt á sig nýja mynd og virðist vera stærra og viðameira en nokkurn gat órað fyrir, þó vitað væri að þræðir lægju vítt og breitt um veröldina í gegnum alls kyns gerfifyrirtæki og í skjóli bankaleyndar í ýmsum löndum.
The Guardian segir frá því að Serious Fraud Office, sem rannsakar alvarlega efnahagsglæpi, sé nú að rannsaka viðskipti Kaupþings og sjálfs Deutsche Bank vegna viðskipta milli bankanna vegna skuldatrygginga, sem lækkuðu álag á skuldabréf útgefin af Kaupþingi. Viðskiptin voru gerð í gegnum alls kyns tilbúin fyrirtæki, sem Kaupþing skráði á nokkra viðskiptavini sína og námu þessi viðskipti mörghundruð milljónum króna.
Áður hafa birst fréttir af þessum viðskiptum og kom þá fram, að Deutche Bank skipulagði þessi viðskipti, fjármagnaði þau og hirti af þeim gífurlegan hagnað. Ef það reynist rétt, að þessi virti þýski banki hafi skipulagt og tekið þátt í svona svikamyllu, hlýtur að mega búast við að ýmsir minna virtir bankar hafi blandast inn í önnur gerfiviðskipti íslensku bankanna, þannig að ef til vill er ekki nema toppurinn á ísjakanum sem ennþá hefur sést.
SFO væri ekki að rannsaka viðskipti eins stærsta og virtasta banka Þýskalands, nema mikið sé talið að liggi við.
Söguþráðurinn í reyfaranum um meint bankarán allra alda verður sífellt flóknari.
Skoða Kaupþing og Deutsche Bank | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.6.2010 | 10:37
Útför evrunnar auglýst innan tíðar
Helsta trúboð Samfylkingarinnar fyrir inngöngu Íslands í ESB byggist á því að landið verði að taka upp stöðugan gjaldmiðil og lausnin á öllum efnahagsvanda Íslendinga sé evran. Í því trúboði hefur krónan verið úthrópuð og niðurnídd, enda hafa engin trúverðug rök verið færð fram til að réttlæta "bjölluatið í Brussel".
Þegar séð varð, fyrir nokkrum árum, að málstaður ESBsinna átti sér lítinn hljómgrunn meðal Íslendinga, var áróðursherferðinni beint í eina átt og allur kraftur lagður í að tala niður krónuna og kenna henni um allt sem aflaga hefur farið í efnahagslífinu hér á landi síðustu áratugi. Þessi ábyrgðarlausa herferð gegn krónunni aflaði ESBtrúboðinu nokkuð margra safnaðarfélaga um tíma, en jafnvel þessi áróðursherferð var þegar farin að missa marks fyrir allnokkru, enda kom í ljós að krónan bjargaði því sem bjargað varð, eftir bankahrunið og væri þjóðin nú í miklum mun verri stöðu, hefði evran verið gjaldmiðill hér á landi á þeim tíma.
Á síðustu vikum og mánuðum hefur endanlega verið að koma í ljós á hvílíkum brauðfótum evran er og nú eru allar líkur taldar á því að hún muni líða undir lok á allra næstu árum, ef ekki mánuðum. Erfiðleikar Grikkja, Ítala, Spánverja, Portúgala, Íra og fleiri evruríkja er orðinn slíkur, að eina bjargráð þeirra gæti verið að varpa evrunni fyrir róða og taka aftur upp sína gömlu gjaldmiðla. Evran er orðin mikill dragbítur á efnahag þeirra og að öllum líkindum mun það reynast Þýskalandi ofviða að koma fótum undir fjárhag þeirra aftur og þar að auki er til þess lítill vilji þar í landi.
Sá spádómur, sem settur var fram á þessu bloggi í fyrra, að krónan yrði langlífari en evran, virðist ætla að rætast mun fyrr en þar var gert ráð fyrir.
Evran dauð innan fimm ára? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.6.2010 | 09:52
Til hamingju með daginn, sjómenn
Sjómenn á Íslandsmiðum hafa löngum verið kallaðir hetjur hafsins og er sú nafngift algerlega við hæfi, enda sjómannsstarfið erfitt og oft stundað við erfiðustu aðstæður, sem hugsast geta.
Sjómannsstarfinu hafa fylgt ótal mannfórnir og slys í aldanna rás, en sjómennskan og úrvinnsla afla þeirra hefur verið lífsbjörg þjóðarinnar frá fornu fari og er ennþá mikilvægasta atvinnugrein landsmanna. Miklil framþróun hefur orðið í útbúnaði fiskiskipa og hin fullkomnu fiskiskip nútímans eiga lítið sameiginlegt með þeim fleyjum sem gerð voru út, áður og fyrrum, enda hafa slysum og mannsköðum, góðu heilli, farið sífækkandi á síðari árum, en eftir sem áður er sjómennskan krefjandi starf, sem ekki hentar nema harðjöxlum.
Í dag er Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur og er sjómönnum landsins og fjölskyldum þeirra sendar hamingjuóskir í tilefni dagsins, með ósk um gæfu og farsæld til framtíðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2010 | 21:25
Frábærir valkostir í varaformannssætið
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í lok mánaðarins, þar sem kjörinn verður varaformaður fyrir flokkinn, en ekkert bendir til að nokkur bjóði sig fram gegn formanni flokksins, enda auðvitað engin ástæða til.
Ólöf Nordal, sá öflugi þingmaður, hefur þegar tilkynnt að hún gefi kost á sér í embætti varaformanns og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi borgarstjóri, er alvarlega að íhuga framboð einnig. Ólöf hefur verið afar duglegur, kraftmikill og málefnalegur þingmaður og Hanna Birna hefur staðið sig með einstakri prýði, sem borgarstjóri í Reykjavík og sýnt og sannað að hún er öflugur foringi.
Sá flokkur, sem hefur úr slíkum frambjóðendum að velja til forystustarfa á bjarta framtíð fyrir sér sem öflugt stjórnmálaafl í fremstu víglínu í baráttunni fyrir íslenskum hagsmunamálum og velferð þjóðarinnar á komandi tímum.
Aðrir stjórnmálaflokkar líta öfundaraugum til Sjálfstæðisflokksins vegna þess mannvals sem hann hefur á að skipa, innan þings og utan.
Íhugar varaformannsframboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)