Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

ASÍ sýnir fram á ræfildóm ríkisstjórnarinnar

Undanfarna mánuði hefur enginn gagnrýnt dáðleysi ríkisstjórnarinnar eins harkalega og ASÍ, en samtökin hafa ályktað margsinnis um ræfildóm stjórnarinnar í atvinnumálum og hvernig hún vinnur leynt og ljóst gegn hvers konar möguleikum til að draga úr atvinnuleysi og koma hjólunum til að mjakast í efnahagslífinu.

ASÍ spáir því, að atvinnuleysi verði ekki búið að ná hámarki fyrr en í byrjun næsta árs og fari þá yfir 10% og verði ennþá 7% á árinu 2013 og er þá væntanlega reiknað með áframhaldandi aumingjaskap við að koma þeim atvinnufyrirtækjum af stað, sem þó væri mögulegt að gera, ef stjórn væri í landinu, sem ekki berðist með kjafti og klóm gegn allri fjárfestingu í atvinnutækifærum.

Hagdeild ASÍ bendir á þessi augljósu sannindi í spá sinni um efnahagsmálin næstu ár:

"Til að koma í veg fyrir að atvinnuleysið verði þrálátur vandi til lengri tíma með þeim vondu afleiðingum sem það hefur fyrir einstaklinga og samfélgið allt er mikilvægt er að hraða endurreisn atvinnulífsins og fjölga nýjum störfum. Verði ekki með markvissum hætti unnið að þessu er hætta á að hærra varanlegt atvinnuleysi en áður hefur þekkst hér á landi festi sig í sessi."

Atvinnuleysi er mesta böl sem vinnufúst fólk getur orðið fyrir.

Það skilja allir nema ríkisstjórnin.


mbl.is Spá 4,8% samdrætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruddi á Alþingi

Á sínum stutta þingmannsferli hefur Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, skapað sér orðstýr sem sú ruddalegasta og ósvífnasta persóna, sem lengi hefur á þing komið og er þá langt til jafnað, jafnvel Álfheiður Ingadóttir kemst ekki með tærnar, þar sem Björn Valur hefur hælana í þeim efnum.  Þó oft hafi setið "sóðakjaftar" á Alþingi í gegnum tíðina, sérstaklega frá vinstri flokkunum, þá slær Björn Valur þá alla út.

Nýjasta upphlaup hans var að gefa í skyn í þingræðu, að Sigurður Kári Kristjánsson hefði þegið mútur frá erlendri lögmannsstofu þegar Icesave var til umræðu í þinginu í fyrrahaust og í þetta sinn komst hann ekki hjá því að biðja Sigurð Kára afsökunar, eftir mikil mótmæli þingmanna annarra flokka við þessum ásökunum og reyndi að klóra yfir skítinn með því að þykjast hafa verið að leggja fram fyrirspurn.

Hitt er svo annað mál varðandi Sigurð Kára, en það er að hann hefur ekki gefið upp nöfn þeirra aðila, sem veittu styrki til prófkjörsbaráttu hans fyrir kosningarnar 2007, en það verður hann að gera því ekkert réttlætir leynd um þau mál.  Styrkir til frambjóðenda og flokka voru altíða og algerlega samkvæmt lögum og reglum, þangað til þeim var breytt á árinu 2008, en sjálfsögð krafa er, að allt sem að þessum styrkjum lýtur, sé opið og uppi á borðum.

Öll leynd um styrkveitendur býður upp á vantraust og efasemdir um heiðarleika og er ekki á nokkurn hátt réttlætanleg.  Því verður að gera þá skýlausu kröfu til Sigurðar Kára og annarra þingmanna, sem ekki hafa gert fulla grein fyrir öllum styrkjum, sem þeir hafa fengið og frá hverjum þeir voru, að þeir geri svo, til þess að eyða allri tortryggni og endalausum getgátum um hver styrkti hvern og hvernig.

Þingmenn, sem ekki verða við svo sjálfsagðri kröfu eiga engan annan kost, en að segja sig frá þingstörfum og ef þeir kjósa svo, geta þeir leitað eftir endurnýjuðu umboði fyrir næstu kosningar.

Það er algerlega þeirra eigin val, hvað þeir gera í þessum efnum. 

Aðeins ein leið er ásættanleg, þ.e. að upplýsa um styrkina, eða víkja.


mbl.is Þurfti að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt af Árna Páli að leggjast svona á kvenfólkið

Sjúkraliðafélag Íslands hefur sent frá sér harðorða ályktun vegna ummæla Árna Páls Árnasonar um launafrystingu opinberra starfsmanna til ársins 2014 og telur hann vera að ráðast sérstaklega á kvennastéttir hjá ríkinu og halda því nánast fram, að hann sé sérstakur kvenníðingur.

Samkvæmt fréttum hefur opinberum starfsmönnum fjölgað um allt að 16.000 frá árinu 2008, þannig að ekki hefur verið orð að marka það sem sagt hefur verið um aðhald í mannaráðningum hjá hinu opinbera, en á sama tíma hefur heilsdagsstörfum fækkað um allt að 29.000 á almennum vinnumarkaði.

Jafnframt krefjast sjúkraliðar þess að nú þegar verði samið við stéttina um launahækkanir, enda hafi kjarasamningar verið lausir í fjórtán mánuði og tími sé kominn til að hækka launin verulega.  Ekki virðast sjúkraliðarnir hafa frétt neitt af þróun launa á almennum markaði, en þar hafa þeir sem í vinnu eru á annað borð, orðið að taka á sig yfirvinnubann og beinar launalækkanir fyrir dagvinnuna og væru flestir ánægðir með að halda þeim launum, sem þeir höfðu fyrir hrunið.

Opinberir starfsmenn hafna því alfarið, að dregið sé úr launagreiðslum hjá opinberum aðilum, hvort heldur það verði gert með launafrystingu eða fækkun starfsmanna, en finnst hins vegar sjálfsagt að skattar verði hækkaðir á öðrum launamönnum til að standa undir kauphækkunum hinna opinberu.

Það var viðbúið, að öllum umræðum um opinbera starfsmenn yrði snúið upp í það, að um sérstaka kvenfyrirlitningu væri að ræða og þannig reynt að afla samúðar í garð opinberra starfsmanna, enda byrjað að úthrópa Árna Pál sem sérstakan kvenníðing.

Árni Páll er vanur að kasta fram hugmyndum og tillögum, sem hann stendur svo aldrei við.

Líklega gugnar hann eins og venjulega, enda alvarlegt að liggja undir ásökunum um að níðast á kvenfólki.


mbl.is Saka Árna Pál um aðför gegn kvennastéttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slagorðið "Vanhæf ríkisstjórn" varð að áhrínsorðum

Stöðugleikasáttmálinn, sem skrifað var undir í júní í fyrrra, hefur ekki skilað neinum störfum ennþá, þrátt fyrir að ýmsum hindrunum, t.d. varðandi orku- og stóriðju, skyldi samkvæmt honum rutt úr vegi fyrir 1. september 2009.

Nú er að verða ár liðið frá gerð sáttmálans og atvinnuleysið minnkar ekkert, heldur þvert á móti, því tæplega 3000 manns á besta vinnualdri hefur flutt erlendis frá áramótum, en hefði annars bæst við þau 17.000 sem eru á atvinnuleysisskrá.  Á árinu flutti einnig fjöldi Íslendinga til útlanda til vinnu, þannig að líklega eru þeir farnir að nálgast 6000, sem flutt hafa af landi brott í atvinnuleit eftir hrun.

Flestir hafa þurft að minnka við sig vinnu, því áætlað er að tæp 30 þúsund heilsársstörf hafi tapast síðan í hruninu og ofan á minnkandi vinnu, hafa hinir vinnandi einnig þurft að taka á sig miklar launalækkanir til viðbótar við þær skerðingar sem hin skattaóða ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefur lagt á.

Á sama tím hefur fjölgað í röðum opinberra starfsmanna og nú þegar á að fara að draga saman og spara í opinbera geiranum, mega fulltrúar opinberra starfsmanna ekki heyra minnst á fækkun starfa í sínum röðum, en finnst sjálfsagt að hækka skatta á annað vinnandi fólk, til þess að hinir opinberu geti fengið launahækkanir á næstu mánuðum.

Vanhæf ríkisstjórn kallaði fólkið á Austurvelli og sannarlega varð það kall að áhrínsorðum, því þjóðin  fékk eina slíka yfir sig, með ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms.


mbl.is „Úlfurinn sestur að snæðingi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin ræður ekki við vandmálin og verður að fara frá

Löngu er vitað að ríkisstjórnin ræður engan veginn við efnahagsmálin, sem fara stöðugt versnandi, enda hafa gerðir og aðgerðaleysi stjórnarinnar eingöngu verið til að dýpka kreppuna og lengja.  Öll tölfræði sýnir þetta og nýjustu útreikningar Hagstofunnar um veltu verslana sýna ótvírætt að kaupmáttur almennings minnkar stöðugt.

Stöðugur samdráttur hefur verið undanfarið ár í sölu verslana og í fréttinni kemur m.a. þetta fram:

"Velta dagvöruverslana fyrstu fimm mánuði þessa árs var 1,9% minni en á sama tímabil í fyrra að raunvirði. Það er mun minni samdráttur en í öðrum tegundum verslana.Til dæmis var velta áfengisverslunar fyrstu fimm mánuði þessa árs 12,4% minni en á sama tímabili síðasta árs. Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna sambærilegt fimm mánaða tímabil með minni raunveltu áfengis."

Skýringingin á því að dagvöruverslun minnkar minna en önnur verslun, er auðvitað sú, að fólk getur ekki neitað sér um mat og aðrar brýnar nauðsynjar, en kaupmáttarrýrnunin kemur fram í því, að nú er ekkert keypt, sem mögulegt er að vera án.  Einnig er stór hluti skýrinagarinnar sú, að virðisaukaskattur var ekki hækkaður á matvælum, en öllu öðru og til viðbótar voru ýmis vörugjöld hækkuð og skattar og gjöld ríkisins á áfengi og tóbaki hækkuð upp úr öllu valdi.

Því var strax spáð, að þessar skatta- og gjaldahækkanir myndu draga úr verslun og tekjur ríkisins myndu lítið aukast við þessar brjálæðislegu skattahækkanir og er sá spádómur nú að rætast.  Vinstri menn hafa aldrei skilið samhengið milli skatta og neyslu og gera sér enga grein fyrir því, að skattahækkanabrjálæðið dregur allan mátt, bæði úr fyrirtækjum og einstaklingum.

Fréttin endar á þessu:  "Enn hækkar neysluverð umfram laun. Þannig mældist kaupmáttur launa 4,0% minni í apríl síðastliðnum en á sama tíma í fyrra. Innlend greiðslukortanotkun minnkaði á tímabilinu janúar til apríl um 3,8% að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Forvitnilegt verður að sjá hverju spáð verður um einkaneyslu í nýrri þjóðhagspá sem væntanleg er innan skamms."

Enn forvitnilegra verður að sjá hve langt verður þangað til stjórnin sér sóma sinn í afsögn.

Stjórnarskipti eru eina von almennings í landinu um að hjól efnahagslífsins fari að snúast á ný.


mbl.is Velta í smásöluverslun dróst saman í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Spurningunni í fyrirsögninni er stolið frá Halldóri Laxness, en svona svaraði Jón Hreggviðsson spurningunni um það, hvort hann hefði drepið böðulinn, sem hýddi hann í sögunni um Íslandsklukkuna.  Á svipaðan hátt svarar Ólafur Ólafsson, þegar hann er spurður hvort hann hafi tekið þátt í svindlinu í kringum "kaup" Al-Thanis á hlutabréfum í Kaupþingi, sáluga.

Í yfirlýsingu frá Ólafi í nokkrum liður segir svo í fyrstu málsgrein: 

"Aðkoma mín að kaupum Sheik Al-Thani í Kaupþingi hefur áður komið fram. Mitt hlutverk var að hjálpa til við að koma viðskiptunum á og að vera milliliður í lánveitingum til Sheik Al-Thani. Ég átti ekki hlut að hlutabréfakaupunum sjálfum og aldrei stóð til að ég hefði fjárhagslegan ávinning af viðskiptunum."

Snúast ávirðingarnar á hendur Ólafi ekki einmitt um það, að hafa hjálpað til við að koma svikamyllunni í gang og reyna að fela slóð lánsins, sem Kaupþing lánaði til kaupa í sjálfu sér?

Þegar Ólafur er búinn að neita allri vitneskju um tölvupósta, sem fóru á milli fjármálasviðs og innri endurskoðunar bankans, þar sem kom fram, að verið væri að fela slóð Ólafs vegna viðskiptanna, segir hann að lokum:

"Ég þess fullviss að ég braut engin lög með aðkomu minni að þessu máli og á ekki von á öðru en að vönduð rannsókn leiði hið rétta í ljós í þeim efnum."

Án þess að hafa nokkra vissu fyrir löghlýðni Ólafs og annarra sem tóku þátt í að "ræna bankana innanfrá", eins og Rannsóknarnefnd Alþingis kallaði verknaðinn, þá skal heilshugar tekið undir með Ólafi, að vönduð rannsókn muni leiða hið rétta í ljós.

Ennfremur skal þeirri ósk bætt við, að þeir fái allir makleg málagjöld að þeirri rannsókn lokinni.



 


mbl.is „Braut engin lög“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjar ætla sér stóra hluti hérlendis

Kínverjarnir eru komnir til landsins með gullkortið á lofti og ætla sér stóra hluti í atvinnulífinu á næstu árum.  Þegar Kínverjarnir fara af stað á annað borð, þá stendur enginn þeim snúning í viðskiptum, enda skiptir engu máli fyrir þá, hvort þeir hagnast eða tapa til að byrja með, enda hugsa þeir í a.m.k. fimmtíu ára tímabilum, en ekki til nokkurra vikna, mánaða eða ára.

Til marks um áhuga Kínverja á að koma sér vel fyrir hérlendis eru nýleg kaup þeirra á húsi undir sendiráð sitt, en þegar þeir taka það í gagnið verður húsakostur sendiráðs þeirra sá allra stærsti, sem nokkurt sendiráð hefur yfir að ráða hér á landi og þó víðar væri leitað.  Þar munu þeir fá rúmgott húsnæði til að hýsa sendiráðsstarfsfólk, viðskiptasendinefndir og síðast en ekki síst, geysigóða aðstöðu fyrir leyniþjónustu sína og hernaðarlega njósnara.

Íslenskt efnahagskerfi er ekki stærra en hreppssjóður í litlum kínverskum hreppi og því munu Kínverjar ekki verða í vandræðum með að gera sig gildandi í hagkerfinu hérna, en vegna þess hvernig þeir hugsa, mun það gerast í rólegheitum, þannig að varla verður eftir því tekið, til að byrja með.

Kína er rísandi heimsveldi og því ekki ráð, nema í tíma sé tekið:  Kínverskukennslu inn í grunnskólana strax, sem skyldunám.


mbl.is Hafa áhuga á að bjóða í framkvæmdir við Búðahálsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjum að kenna kínversku í grunnskólunum

Seðlabankar Íslands og Kína hafa gert með sér gjaldeyrisskiptasamning upp á nokkra tugi milljarða króna, en slíkur samningur gengur út á að þjóðir skuldbinda sig til að selja hvor annarri gjaldeyri gegn greiðslu í lögeyri þess ríkis, sem kaupir.  Ef til kemur að á þennan samning verði dregið, þá liggur í augum uppi, að það munu verða Íslendingar sem kaupa dollara eða evrur af Kínverjum, gegn greiðslu í krónum, en engar líkur eru á að kínverjar fari að kaupa gjaldeyri af Íslendingum gegn greiðslu í juan.

Í vetur var einmitt hvatt til þess, að bjölluatinu í Brussel yrði hætt, samningar gerðir við Kínverja um efnahagssamvinnu og þeir fengnir til að fjárfesta hér á landi, enda er Kína rísandi heimsveldi og mun að öllum líkindum verða ráðandi afl í heiminum fyrir, eða skömmu eftir miðja þessa öld.  Færsluna frá í mars s.l. má sjá hérna ef einhver hefði áhuga á henni.

Þar sem Kínverjar munu innan tíða verða ráðandi í heiminum, ekki í skjóli hervalds, heldur munu þeir ná yfiráðum með fjármagnið að vopni, er ekki ráð nema í tíma sé tekið og kínverska gerð að skyldufagi í grunnskólum landsins og unga fólkið undirbúið fyrir komu Kínversku herraþjóðarinnar til vesturlanda.

Bandaríkin og fleiri ríki skulda Kínverjum nú þegar slíkar fjárfúlgur, að gjaldfelling þeirra myndi rústa efnahag vesturlanda gjörsamlega og þeir hafa stöðu bæði dollarans og evrunnar í hendi sér og gætu ráðið falli hvaða myntar í heiminum, sem þeim sýndist.

Kínverjar eru langt komnir með að leggja heiminn undir sig efnahagslega og því fyrr sem Íslendingar viðurkenna það, því betra og um að gera að efla viðskiptin við þá strax.


mbl.is Gjaldeyrissamningur við Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð Oddsson alltaf samur við Jón Ásgeir í Bónus

Enn ofsækir Davíð Oddsson sakleysingjann Jón Ásgeir í Bónus, en nýjasta útspilið af hans hálfu er að láta Héraðsdóm dæma 365 miðla til að borga þrotabúi Íslenskrar afþreyingar 160 milljónir króna, með dráttarvöxtum, eingöngu vegna þess að Jón Ásgeir gaf sjálfum sér afslátt, sem þessari upphæð nam, þegar hann keypti fjölmiðlana af sjálfum sér og skildi þrotabúið eftir með fimm milljarða skuldir, en engar eignir á móti.

Ekki er nóg með að Davíð láti Héraðsdóm kveða upp svona ósanngjarnan dóm, en allir vita að Davíð stjórnar öllu í þessu landi, nema Jóhönnu Sigurðardóttur, heldur birtir hann líka frétt af þessum gjörningi fyrir alþjóð á mbl.is, en allir vita líka, að það jafngildir einelti að segja fréttir, eins og Jóhanna Sigurðardóttir hefur útskýrt vandlega fyrir þjóðinni.

Hins vegar flokkast það ekki undir þjónkun við Jón Ásgeir, þegar fréttastofa Stöðvar 2 skýrir vandlega fyrir áheyrendum, að fyrrum fyrirtæki Jóns Ásgeirs, Iceland, mali nú gull fyrir Landsbankann og muni fara langt með að greiða Icesave.  Ekki dettur fréttastofunni í hug, að ef um hagnað af verslunarkeðjunni er að ræða núna, þá mun hann ganga til að greiða eitthvað af þeim hundruðum milljarða skuldum, sem Jón Ásgeir skildi sjálfur eftir í ýmsum þrotabúum, þegar loftbóluviðskipaveldi hans sprakk í loft upp.

Já, Jón Ásgeir í Bónus getur borið höfuðið hátt, en Davíð Oddsson ætti að skammast sín.

Það segir Bubbi Mortens að minnsta kosti og hann veit sko alveg hvað hann syngur.


mbl.is Gert að greiða 160 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleiksskylda eða sannleiksást

Birgir Ármannsson, þingmaður, hefur lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um sannleiksskyldu ráðherra, ekki eingöngu vegna missagna Jóhönnu um laun seðlabankastjóra, heldur almennt, t.d. yfirlýsingar ráðherra um stöðu bankanna fyrir hrun, en fram undir það síðasta kepptust ráðherrar við að lýsa því yfir, að bankarnir væru við góða heilsu og ekkert væri að óttast um örlög þeirra.

Birgir segir m.a:  "Gefi ráðherra þinginu upplýsingar sem hann veit að eru rangar eða villandi kann það að varða við lög um ráðherraábyrgð.  Hins vegar hefur lítið sem ekkert reynt á þetta í framkvæmd, þannig að hér á landi hefur kannski fyrst og fremst verið um pólitíska ábyrgð að ræða. En einmitt af þeim sökum tel ég ástæðu til að vekja athygli á því að það kunni að vera tilefni til að skýra þessar reglur og herða þær.“

Í sambandi við þetta vaknar sú spurning, hvort ráðherra myndi ekki alltaf halda því fram, að hann hefði ekki vitað að hann væri að gefa rangar eða villandi upplýsingar.  Í sambandi við bankahrunið geta ráðherrarnir sagt að þeir hafi trúað þeim upplýsingum, sem komu frá bönkunum sjálfum, um að allt væri í himnalagi, þótt Davíð Oddsson hafi sagt annað.  Samfylkingarráðherrar a.m.k. vildu aldrei trúa einu orði sem hann sagði og geta því notað það sem afsökun fyrir því, að hafa ekki gripið til neinna sérstakra aðgerða í aðdraganda bankahrunsins.

Það gæti reynst þrautin þyngri, að sanna að ráðherrar gefi villandi og rangar upplýsingar.  Hvernig á að sanna að Jóhanna hafi vitað allt um launaplottið í seðlabankanum, þó hún harðneiti því og segist aldrei tala við nokkurn mann í ráðuneytinu og enn síður vinkonu sína Láru V. Júlíusdóttur.

Þegar allt kemur til alls, er það sannleiksástin, sem skiptir mestu máli.


mbl.is Spyr um sannleiksskyldu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband