Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Vinstri grænir kapítalískari en postular frjálshyggjunnar

Ný lög um fjármálafyrirtæki var samþykkt á Alþingi í morgun og eins og vænta mátti voru allar tillögur minnihlutans um úrbætur á gölluðu frumvarpi felldar.  Sjálfstæðismenn vildu skýrar reglur um aðskilnað innlána- og fjárfestingarstarfsemi banka og annarra fjármálastofnana.

Í fréttinni kemur fram að:  "Magnús Orri Schram, Samfylkingu, kallaði frumvarpið gott og mikilvægt skref inn í framtíðina og Lilja Mósesdóttir, Vinstri Grænum, sagði að ekki væri gengið lengra vegna viðvarana OECD um að fara varlega í að aðskilja fjárfestingastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi."

Þessi afstaða stjórnarinnar og sérstaklega Vinstri grænna er furðuleg í ljósi þess, að í föðurlandi frjálshyggjunnar, Bandaríkjunum, þaðan sem allt frelsi fjármálastofnana til að stunda hvers kyns brask er upprunnið, er nú verið að fjalla um nýja lagasetningu, sem kveður á um algeran aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarstarfsemi og talið er líklegt að slík lög verði samþykkt fljótlega.

Bandaríkjamenn kalla þessa breytingu Volckerregluna, eftir þeim sem lagði hugmyndina fram og um þetta má lesa frekar í fréttinni hérna  en hún endar á þessum orðum:

"Nú er unnið að leggja lokahönd á frumvarp sem sameinar fulltrúadeildarfrumvarpið og öldungadeildarfrumvarpið. Eins og fram kemur í frétt Evrópuvaktarinnar þá reyna bankar og aðrir úr fjármálageiranum sem hafa hagsmuna að gæta nú á að beita áhrifum sínum innan Bandaríkjaþings til að undanþágur frá Volcker-reglunni verði í lokaútgáfu frumvarpsins. Hinsvegar bendir fréttaflutningur Reuter til að stuðningur við regluna sé að aukast innan þingsins og þá sérstaklega meðal fulltrúa demókrata. Fréttastofan hefur eftir þungavigtarmönnum úr þingmannaliði Demókrataflokksins að reglan skipti sköpum fyrir umbætur á fjármálamarkaði og í raun þyrfti að herða ákvæði hennar í lokaútgáfu frumvarpsins."

Oft er talað um að menn séu kaþólskari en páfinn, en það vekur vægast sagt furðu, að Vinstri grænir skuli vera orðnir kapítalískari en postular frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum.


mbl.is Fjármálafyrirtækjalög samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki (G)narr?

Besti flokkurinn ákvað strax daginn eftir kjördag, þvert á fyrri yfirlýsingar, að falast eftir því að Samfylkingin kæmi til meirihlutaviðræðna, sem síðan leiddu til þess að sá meirihluti var formlega kynntur uppi á þaki á blokk, sem bróðir Jóns Gnarr býr í og Dagur B. hafði unnið við að mála, þegar hann var ungur.

Þar var eingöngu tilkynnt að þeir fóstbræður væru búnir að ákveða að vinna saman í meirihluta og Jón Gnarr yrði borgarstjóri, en engin málefnasamningur var þar kynntur, enda var ekki búið að semja um neitt slíkt, enda aukaatriði í þeirra huga, aðalatriðið var að staðfesta að Gnarrinn yrði borgarstjóri.

Nú, eftir allan þennan tíma, er tilkynnt að málefnasamningur, saminn af Jóni og Degi, verði kynntur eftir helgi og um leið sagt frá því að Hönnu Birnu hefði verið boðin staða forseta borgarstjórnar.  Svona vinnubrögðum hefði mátt búast við af nýgræðingunum í Besta flokknum, en Dagur B. hefði átt að hafa þá reynslu, að vita að svona vinnubrögð eru ekki við hæfi og reyndar hrein móðgun við Hönnu Birnu.

Hanna Birna boðaði fyrir kosningar, að hún sæi borgarstjórn fyrir sér þannig, að enginn formlegur meirihluti væri myndaður, heldur ynnu allir borgarfulltrúar sameiginlega að hagsmunum borgarinnar.  Þessi vinnubrögð Jóns og Dags eru ekkert í þeim anda, heldur semja þeir fyrst um sín eigin embætti og málefnasamning sín á milli og ætlast svo til að aðrir flokkar gangi til samstarfs við þá, án þess að hafa nokkur áhrif á málefnaskrána.

Vonandi lætur Hanna Birna ekki (G)narra sig út í þessa vitleysu.

Ef einhver raunverulegur áhugi er fyrir hendi af hálfu Jóns og Dags að fá Sjálfstæðisflokkinn til samstarfs, er lágmark að þeir bjóði Hönnu Birnu borgarstjórnastólinn og Jón Gnarr verði forseti borgarstjórnar.

Það væri til vitnis um heiðarleg vinnubrögð og raunverulegan vilja til samstarfs.


mbl.is Bjóða Hönnu Birnu að taka sæti forseta nýrrar borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prestur sem misskildi illilega hlutverk sitt

Rúandíski presturinn Francois Bazaramba hefur verið dæmdur í ævilangt fangelsi í Finnlandi fyrir þátttöku sína í fjöldamorðum í heimalandi sínu árið 1994, þegar Hútúar drápu a.m.k. 800.000 Tútsaí hundrað daga blóðbaði.

Fram kemur í dómnum að Bazaramba hafi ætlað sér að eyða öllum tútsum í Rúanda.  Eitthvað hefur þessi prestur misskilið hlutverk sitt í embætti, því náð og miskunn gagnvart óvinum sínum hefur ekki legið þungt á honum þessa blóði drifnu daga.

Eitt af verkefnum presta er vissulega að jarða látna, en þá venjulega einn og einn í einu og biðja þá fyrir sálu viðkomandi og óska honum vistar í sjálfu himnaríki.

Varla hefur presturinn verið að hugsa um að koma þessum samborgurum sínum til eilífrar sæluvistar á himnum með þátttöku sinni í drápi þeirra Rúandabúa, sem voru svo óheppnir að fæðast ekki innan sama ættflokks og guðsmaðurinn sjálfur.

Þetta framferði prestsins er svo ógeðslegt, að hroll setur að öllu venjulegu fólki, enda er svona brjálæði algerlega ótrúlegt, en því miður ekki einsdæmi. 


mbl.is Prestur sekur um fjöldamorð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boðar áframhaldandi skattahækkanabrjálæði

Steingrímur J. er samur við sig og boðar áframhaldandi skattahækkanabrjálæði á næsta ári.  Þegar skattar voru hækkaðir í fyrra og í byrjun þessa árs, stóðu menn í þeirri meiningu að þar með væri nóg komið af slíkri geggjun, enda lofaði ríkisstjórnin því við undirritun stöðugleikasáttmálans í júní í fyrra, að skattar yrðu ekki hækkaðir meira, en áhersla lögð á niðurskurð og sparnað í ríkisfjármálum.

Ekkert, sem lofað var af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir ári síðan, hefur verið efnt og því var svo sem ekki við því að búast, að loforð um að skattar myndu ekki hækka meira yrði efnt.  Nú segir Steingrímur J. að skattar muni hækka, en almennar skattahækkanir verði ekki miklar.  Það er hluti af áróðrinum, að reyna að gera minna úr áhrifunum, en efni standa til.

Allir skattar, í hvaða formi sem er, hvort heldur þeir eru lagðir á fyrirtæki, einstaklinga eða beint á vöruverð, lenda hvergi annarsstaðar að lokum, en á neytendum í formi hærra vöruverðs, því fyrirtæki taka sína peninga hvergi annarsstaðar en úr söluverði sínu til neytenda.

Skattahækkanaæði ríkisstjórnarinnar er komið úr öllum böndum og þess verður að krefjast að engum frekari skattahækkunum verði dembt yfir þjóðina, í hvaða formi sem er og hvaða nafni sem þeim kann að verða gefið.

Nú er komið að sparnaði og niðurskurði hjá hinu opinbera.


mbl.is Niðurskurður mun bitna á öllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótboltahagfræði

Samkvæmt nýuppfundinni fótboltahagfræði verða Þjóðverjar að vinna HM til að bjarga efnahagslífi heimsins.  Þetta kemur til af því, að Þjóðverjar eru svo sparsamir, að þeir eyða ekki um efni fram og þess vegna er viðskiptajöfnuður landsins jákvæður, þ.e. þeir flytja meira út, en flutt er inn.

Besta leiðin til að fá þjóðir til að eyða meiri peningum í innfluttar vörur, er að viðkomandi þjóð vinni heimsmeistaramótið í fótbolta, því þá verða landsmenn svo kátir, að þeir byrja að kaupa innfluttar vörur í stórum stíl og fórna til þess sparifénu sínu.  Hvers vegna fólk kaupir ekki innlendar vörur eftir stórsigur á HM, kemur ekki fram í fréttinni, en fótboltahagfræðin hlýtur að hafa skýrinar á því, eins og öðru, sem viðkemur fótboltahagsveiflunni.

Það allra versta, sem komið gæti fyrir, samkvæmt fótboltahagfræðinni, er að Bandaríkjamenn ynnu heimsmeistaramótið, vegna þess að þeir eyða nú þegar um efni fram og búnir að tæma alla sparibauka fyir löngu og hafa því alls ekki efni á að eyða meiru í innfluttar vörur, en þeir gera nú þegar.

Svo er guði fyrir að þakka, að engin hætta er á, að Íslendingar vinni nokkurn tíma heimsmeistaramót í knattspyrnu.

Við höfum engin ráð á því þjóðarbruðli, sem slíku fylgir.  Nóg er nú samt.


mbl.is Best fyrir hagkerfi heims ef Þýskaland ynni HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðan er svo góð að skattar hækka "bara" um 11 milljarða

Í hvert sinn, sem skattahækkanir eru í farvatninu hjá ríkisstjórninni, eru fréttir látnar leka um að líklega þurfi að hækka skattana alveg gífurlega mikið og skera allt niður við trog í ríkisrekstrinum.  Þegar nær dregur að aðgerðum verði hrundið í framkvæmd, er alltaf sagt að ástandið sé skárra en áður hafi litið út og því verði skattahækkanirnrar og niðurskurðurinn miklu minni, en áður hafði verið áætlað.

Við seinni fréttirnar léttir fólki svo mikið, að það lætur allt yfir sig ganga, enda um miklu vægari skerðingar að ræða, en búast hefði mátt við, enda ástandið ekki eins slæmt og áður leit út fyrir og því megi í raun líta á skattahækkanabrjálæðið eins og skattalækkun, ef miðað væri við fyrri áróður.

Nú stendur enn fyrir dyrum að bæta í skattahækkanabrjálæðið, en guggna á áður fyrirhuguðum niðurskurði og sparnaði í ríkisfjármálunum og þá kemur auðvitað frétt af því, að allt sé nú í betra horfi en áður var talið og því verði aðgerðirnar miklu mildari, en áður var reiknað með.

Eins og venjulega er þetta staðfest af ríkisstjórninni á þennan hátt:  "Þetta er mun betri staða en gert var ráð fyrir í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar var reiknað með að stoppa þyrfti í 50 milljarða gat, en betri staða ríkissjóðs gerir það að verkum að það gat verður 43 milljarðar króna."

Þar með geta allir andað rólegir og þakkað ríkisstjórninni hástöfum fyrir hvað allt sé nú í miklu betra horfi, en jafnvel hún sjálf hafði áætlað. 

Svo borga menn bara skattahækkanirnar með glöðu geði.

 


mbl.is Niðurskurðurinn 32 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verður stjórnin að taka sig á í atvinnumálunum

Langtímaatvinnuleysi er orðið mikið böl, sem herjar sífellt á fleiri og fleiri fjölskyldur, en fólk missir atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið á atvinnuleysisskrá í 1.200 daga og nú hefur margur náð þeim dagafjölda og mun sá fjöldi vaxa mikið á næstu mánuðum.

Þegar atvinnuleysisbótunum sleppir, er fólki vísað á sveitina, eins og það var kallað í gamla daga, þ.e. sveitarfélögin eiga þá að taka við að greiða framfærslustyrki, sem eru lægri en atvinnuleysisbæturnar og fást ekki, ef einhverjar aðrar tekjur eru fyrir hendi á heimilinu.  Þannig kemur fram í Mogganum í morgun að kona í Reykjanesbæ, sem misst hefur atvinnuleysisbæturnar, á ekki rétt á framfærslustyrk sveitarfélagsins, vegna þess að eiginmaður hennar er ennþá á atvinnuleysisbótum.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við Moggann:  "Margt fólk hefur enn ekki fundið sér vinnu og segir Gissur greiðslu bóta þannig færast yfir á sveitarfélög að miklu leyti á næstu misserum ef ekki tekur að birta til í efnahagsmálum þjóðarinnar."

Það mun ekkert birta til í efnahagsmálum þjóðarinnar á meðan að ríkisstjórnin berst með kjafti og klóm gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og sérstaklega verkefnum, sem eru mannaflsfrek og erlendir aðilar eru tilbúnir til að ráðast í.

Það er stjórninni til ævarandi skammar, að vísa vinnufúsu fólki á guð og gaddinn, í stað þess að grípa öll tækifæri til að skapa atvinnu fyrir fólkið.


mbl.is Brátt hverfa bæturnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV sinni BARA skyldu sinni

Hlutverk RÚV er fyrst og fremst að sinna menningar- og fræðsluhlutverki, ásamt því að vera öryggistæki til að koma boðum til þjóðarinnar á hættutímum.  Rás 1 stendur ágætlega undir hlutverki sínu, en sjónvarpið alls ekki og spurning hvort Rás 2 geri það.

Dagskrá Rásar 2 er að mestu tónlist og sjónvarpsdagskráin er undirlögð af lélegum bíómyndum og glæpaþáttum, sem lítið bæta íslenska menningu eða bæta miklu við hana.  Sjónvarpið ætti að einbeita sér að fréttum, fréttatengdum þáttum, íslenskum og erlendum og hreinum menningar- og fræðsluþáttum, einnig íslenskum og erlendum, ásamt kennsluefni ýmiss konar.

Dagskrár Rásar 1 og 2 væri einfalt að sameina með bestu bitunum af hvorri rás og gera úr þeim ágæta fræðslu- menningar- og viðtaladagskrá.

Með því að láta einkastöðvarnar um erlendu glæpaþættina og bíómyndirnar og kaupa inn meira af fræðslu og menningarefni, myndi RÚV standa undir hlutverki sínu og öðru ekki, enda er það ekki hlutverk RÚV að keppa við einkastöðvar, t.d. um fótbolta og annað skemmtiefni.  Auðvitað gæti og ætti RÚV að hafa eitthvert skemmtanagildi meðfram fræðslu- og menningarefninu, en það ætti ekki að bera uppi dagskrána.

Með svona breytingum gæti RÚV sparað hundruð milljóna á ári hverju og lækkað útvarpsskattinn um leið.


mbl.is Eðlisbreyting á starfsemi RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofaði ríkisstjórnin aðeins atvinnuleysi á almennum vinnumarkaði?

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Árni Stefán Jónsson, formannur Starfsmannafélags Reykjavíkur (SFR), eru komnir í hár saman vegna ágreinings um hvort ríkisstjórnin hafi lofað opinberum starfsmönnum því, við gerð stöðugleikasáttmálans, að starfsfólk á almennum vinnumarkaði yrði látið finna fyrir aulagangi stjórnarinnar í atvinnumálum, en opinberum starfsmönnum yrði algerlega hlíft við afleiðingum kreppunnar.

Árni Stefán segir m.a. í leiðara SFR-blaðsins:  "SFR telur sig hafa loforð ríkisstjórnarinnar um að uppsögn starfsmanna verði síðasta úrræðið og það verði ekki gert nema í algjörri neyð.“  Þessu mótmæir Gylfi algjörlega og segir ríkisstjórnina einmitt hafa lofað, að ríkisstarfsmenn yrðu látnir finna fyrir kreppunni, eins og aðrir, frá og með árinu 2011.

Opinberir starfsmenn eru ekki vanir því, að sveiflur í efnahagslífinu hefðu hin minnstu áhrif á starfsöryggi þeirra né kaup og kjör og því varla nema von, að þeir bregðist ókvæða við öllum hugmyndum um að þurfa að taka á sig skerðingar og jafnvel uppsagnir, núna þegar einhver versta kreppa á lýðveldistímanum skekur þjóðlífið.

Fréttirnar af því, að opinberum starfsmönnum hafi fjölgað um 16.000 frá 2008, eru með öllu óskiljanlegar og óútskýrt til hvaða starfa allt þetta fólk hefur verið ráðið, eftir að verkefnum í þjóðfélaginu snarfækkaði og hlýtur það að eiga við opinber störf jafnt og störf á almennum markaði.

Það gæti nú varla talist harkalegur niðurskurður, þó fjöldi opinberra starfsmanna yrði færður í sama horf og var árið 2008.


mbl.is ASÍ og SFR greinir á um loforð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin kínverska Jó Han Na

Í tilefni af heimsókn He Guoqiang, sem á sæti í æðsta ráði kínverska kommúnistaflokksins, var birt viðtal við íslenska forsætisráðherrann, sem upp á kínversku hlýtur að kallast Jó Han Na, enda segist hún í viðtalinu leita fyrirmynda hjá starfsfélögum sínum í Kína við efnahagsbyltingu sína á Íslandi.

Þessi fullyrðing er auðvitað gróf móðgun við Kínverja, því þar hefur verið gífurlegur hagvöxtur undanfarin ár og mikill uppgangur í atvinnulífinu, en hér á landi hefur allt verið á niðurleið undir handleiðslu Jó Han Na, enda gerir hún og ríkisstjórn hennar allt sem í mannlegu valdi stendur til að tefja alla atvinnuuppbyggingu í landinu, auka atvinnuleysið og lengja kreppuna eins og mögulegt er.

Kínverjar eru að feta sig inn á braut kapítalismans og taka til þess þann tíma sem þarf, enda hugsa þeir í áratugum og öldum, en ekki í dögum og vikum eins og Jó Han Na og Stein Grím Ur félagi hennar, en líklega á hún við að sá Kínverji sem þau skötuhjúin sækja fyrirmynd til sé félagi Mao Tse Tung, en efnahagsframfarir voru engar í hans tíð og hagur alþýðunnar ekki öfundsverður frekar en alþýðu lýðveldisins Íslands.

Þar sem forsætisráðherra Íslands er ekki mikil tungumálamanneskja, er ekki ótrúlegt að blaðamenn ríkisfjölmiðilsins Xinhua hafi eitthvað misskilið hvað sagt var.


mbl.is Jóhanna: Lítum til Kína eftir fyrirmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband